Framkvæmdir hafnar við Hólsvirkjun

Framkvæmdir við Hólsvirkjun í Fnjóskadal eru nú í fullum gangi, en vinna við verkið hófst um miðjan maí. Það er fyrirtækið Arctic Hydro sem hyggst reisa þar 5,5 megavatta virkjun og hleypur kostnaður við framkvæmdina á tveimur milljörðum króna. Virkjunin á Hólsdal er stærsta innviðafjárfesting sem gerð hefur verið í norðanverðum Fnjóskadal til þessa. Tæknileg ráðgjöf við verkið er í höndum verkfræðistofunnar Eflu.
Lónin við virkjunina verða tvö, það stærra í Hólsá, þar sem gerð verður 150 metra breið og átta metra há stífla, en önnur minni stífla verður í Gönguskarðsá. Í mynni Hólsdals sameinast þessar ár og nefnist áin þá Árbugsá og rennur í Fnjóská skammt frá bænum Þverá í Dalsmynni. Vatnið úr lónunum verður lagt í glertrefjarörum ( þrýstipípu ) um 6 km, að nýju stöðvarhúsi sem staðsett verður niður undir bökkum Fnjóskár og deilt inn á dreifikerfi Rarik. Því verður lagður jarðstrengur milli stöðvarhússins og Rangárvalla á Akureyri, tæplega 40 kílómetra leið og er sú vinna nú komin langt á veg.
Undirbúningur verkefnisins hefur tekið langan tíma, eða frá árinu 2011. Að sögn Skírnis Sigurbjörnssonar, framkvæmdastjóra Arctic Hydro tók töluverðan tíma að meta umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, breyta skipulagi svæðisins og afla tilskilinna leyfa. Það tókst að lokum og segir hann verkið hafa gengið vonum framar. Skírnir segir pípulögnina langt á undan áætlun, það sé unnið á vöktum allan sólarhringinn og ef fram héldi sem horfði, verði pípurnar komnar í jörð fyrir veturinn. Vonast er til að vélar við virkjuna verði gangsettar á næsta ári.
Hann segist sérstaklega ánægður með hversu margir sem koma að verkinu tengjast svæðinu, en um 50 manns koma að framkvæmdunum á Hólsdal á einn eða annan hátt.
Skírnir segir að lokum að nauðsynlegt sé að bæta úr raforkuskorti á Norðurlandi og virkjun af þessari stærð hafi mikið að segja. Íbúar í Fnjóskadal njóti góðs af þessari framkvæmd töluvert áður en virkjunin verði gangsett því Rarik muni í leiðinni leggja 11 kílóvolta streng og þrífasavæða Fnjóskadal. Eftir því hafa íbúar í sveitinni lengi beðið eftir og mun það koma sér vel fyrir alla frekari atvinnuuppbyggingu í dalnum.

Deila á