Framsýn kom að ýmsum málum á síðasta starfsári:
- Félagið sendi frá sér 13 ályktanir og yfirlýsingar milli aðalfunda sem eru meðfylgjandi skýrslunni.
- Félagið stóð fyrir sumarkaffi á Raufarhöfn 31. maí 2019 á veitingastaðnum Kaupfélaginu. Boðið tókst að venju mjög vel en um 100 gestir þáðu boð félagsins og fengu sér kaffi og tertu.
- Félagið kom að því að styrkja Mærudaga á Húsavík sumarið 2018 sem og nokkrar aðrar samkomur sem haldnar hafa verið á starfsárinu auk þess að styðja við bakið á íþróttafélögum á félagssvæðinu.
- Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna stóðu fyrir opnu húsi á aðventunni í desember líkt og undanfarin ár. Boðið var upp á kaffi, tertur og tónlistaratriði. Fjölmargir lögðu leið sína til stéttarfélaganna og þáðu veitingar.
- Félagið niðurgreiddi leikhúsmiða til félagsmanna á sýningar á vegum Leikfélags Húsavíkur og Leikdeildar Eflingar. Leikritin voru til sýningar eftir áramótin 2019.
- Framsýn stóð fyrir trúnaðarmannanámskeiði í apríl 2019. Félagsmálaskóli alþýðu sá um skipulagningu námskeiðsins sem stóð yfir í tvo daga. Undanfarin ár hefur félagið staðið fyrir trúnaðarmannanámskeiði á hverju ári enda mikilvægt að efla trúnaðarmenn í störfum sínum á vinnustöðum.
- Félagið minnist Hafliða Jósteinssonar sem lést 2. ágúst 2018 með því að færa Hvammi, heimili aldraðra Soundbar/hljóðstöng og DVD spilara að gjöf. Hafliði var alla tíð mjög virkur í starfi Framsýnar, áður Verslunarmannafélags Húsavíkur. Hafliði var sannur og góður félagi.
- Ráðist var í þakviðgerðir á húsnæði stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 í lok sumars 2018. Norðurvík tók að sér verkið. Kostnaðaráætlun hljóðaði uppá krónur 5.819.300- fyrir heildarvinnu. Um var að ræða löngu tímabæra aðgerð.
- Félags- og jafnréttismálaráðherra, Ásmundur Daði Einarsson ásamt aðstoðarmanni óskaði eftir fundi með formanni Framsýnar í júní 2018. Ráðherra óskaði eftir góðu samstarfi við Framsýn um velferðarmál.
- Hin árlega Sólstöðuhátíð var haldin á Kópaskeri í júní 2018. Framsýn var beðið um að kynna félagið á hátíðinni. Formaður og varaformaður Framsýnar höfðu umsjón með kynningarbás Framsýnar og kynntu verkefni og starfsemi Framsýnar.
- Á hátíðarhöldunum 1. maí var Kristjáns Ásgeirssonar minnst en hann gegndi stjórnunarstörfum fyrir Verkalýðsfélag Húsavíkur í 27 ár eða til ársins 1992, þar af um tíma sem formaður. Hann andaðist 12. apríl 2019 en hann fæddist 26. júlí 1932. Kristján sem var mikill verkalýðssinni setti sterkan svip á uppbyggingu félagsins og lagði grunn að því góða starfi sem síðar varð viðhaldið. Hann var gerður að heiðursfélaga í Verkalýðsfélagi Húsavíkur á 95 ára afmæli félagsins. Athöfnin fór fram þann 1. maí 2006 á hátíðarhöldum dagsins.