Minningargrein: Kristján Ásgeirsson, F. 26. júlí 1932 – D. 12. apríl 2019

Hér má lesa minningargrein eftir formann Framsýnar, Aðalstein Árna Baldursson um Kristján Ásgeirsson – F. 26. júlí 1932 – D. 12. apríl 2019. Kristján hafði lengi afskipti af störfum Verkalýðsfélags Húsavíkur sem nú ber nafnið, Framsýn stéttarfélag. Kristján verður jarðsunginn frá Húsavíkurkirkju í dag:

Góður félagi og vinur er fallinn frá. Verkalýðsforingi, félagsmálamaður, bæjarfulltrúi, útgerðarmaður, en fyrst og fremst góður og gegnheill maður sem vildi öllum vel. Kristján Ásgeirsson, eða Kiddi Ásgeirs eins og hann var ávallt kallaður kom lengi að störfum fyrir Verkalýðsfélag Húsavíkur, sem stjórnarmaður, formaður og varaformaður. Reyndar má segja að Kiddi hafi drukkið í sig áhugann fyrir verkalýðsbaráttu með móðurmjólkinni. Þegar saga verkalýðsbaráttu á Húsavík er sögð koma ættir Kidda fyrir, allt frá stofnun fyrstu verkalýðsfélaga á Húsavík þar til hann ákvað að stíga til hliðar árið 1992, eftir 27 ára farsælt starf í þágu Verkalýðsfélags Húsavíkur. Föðuramma Kidda, Þuríður Björnsdóttir, var fyrsti formaður Verkakvennafélagsins Vonar og Ásgeir Kristjánsson faðir hans var lengi formaður Verkamannafélags Húsavíkur.

Kiddi kynntist ungur atvinnuleysi og þeirri staðreynd að þorpið við Skjálfanda tæmdist reglulega á haustin þegar ungir menn leituðu suður á vertíðir, þar sem almennt var ekki gert út frá Húsavík yfir vetrarmánuðina. Honum var því mjög umhugað um að efla atvinnulífið á Húsavík, vissi að örugg atvinna væri forsenda alls. Hann beitti sér fyrir því innan bæjarstjórnarinnar og Verkalýðsfélags Húsavíkur að ráðist yrði í kaup á togara til að draga úr atvinnuleysinu í bænum og efla þar með Húsavík sem útgerðarbæ. Það var ekki síst vegna þrautseigju Kidda og annarra sem lögðust á árarnar með honum innan bæjarstjórnar og öflugustu fyrirtækjanna á svæðinu, að grunnur var lagður að togaraútgerð frá Húsavík með kaupum á Júlíusi Havsteen ÞH 1 sem kom til heimahafnar haustið 1976.

Kiddi mótaði einnig starf Verkalýðsfélags Húsavíkur, enda kom hann lengi að stjórn félagsins með góðu og samhentu fólki. Hann kom að því að opna fyrstu skrifstofuna fyrir verkalýðsfélagið í Félagsheimili Húsavíkur árið 1971. Áður hafði fólk lagt leið sína heim til hans til að leita aðstoðar er viðkom verkalýðs- og velferðarmálum, en Kiddi tók öllum vel og opnaði heimili sitt fyrir þeim sem á þurftu að halda.

Á þessum tíma var Kiddi kominn í mjög sérstaka stöðu, þar sem hann var formaður í verkalýðsfélagi, bæjarfulltrúi og framkvæmdastjóri Höfða hf. sem stofnað var um rekstur Júlíusar Havsteen. Þessi tengsl vöktu eðlilega upp margar spurningar á þeim tíma og voru ekki óumdeilanlegar. Hann var sagður sitja hringinn í kringum borðið. Ekki var vilji meðal félagsmanna til þess að Kiddi hætti afskiptum af Verkalýðsfélagi Húsavíkur, enda alltaf verið góður og gegn málsvari þeirra sem minna máttu sín og skilað góðu starfi fyrir félagið. Þess í stað ákvað hann að stíga til hliðar sem formaður, en taka að sér varaformennsku í félaginu. Kiddi sagði þetta ekkert mál, menn mættu bara aldrei gleyma uppruna sínum og fyrir hvað þeir stæðu. Orðin sem hann mælti eitt sinn í útvarpsviðtali lýsa manngerð Kristjáns Ásgeirssonar kannski best: „ Ég hef sem betur fer alltaf verið í þeirri stöðu að geta talað frá hjartanu og hef aldrei haft verulegar áhyggjur af eigin heilsu. En aftur á móti hef ég verið voðalega viðkvæmur andspænis veikindum annarra“.

Því hefur verið haldið fram að kjör félagsmanna Verkalýðsfélags Húsavíkur hafi almennt verið betri en hjá sambærilegum stéttarfélögum á þessum tíma. Það hafi ekki síst verið Kristjáni Ásgeirssyni að þakka, enda hafði hann góða yfirsýn yfir málin og lagði ríka áherslu á atvinnuöryggi, góð laun og félagslega hugsun í rekstri fyrirtækja.

Kiddi var virtur fyrir störf sín að verkalýðsmálum. Hann þótti mikill málafylgjumaður og var einlægur baráttumaður fyrir ýmsum mikilvægum réttindamálum sem þykja sjálfsögð í dag, s.s. atvinnuleysistryggingum, stofnun lífeyrissjóða og að félagsmenn stéttarfélaga hefðu aðgengi að öflugum sjúkrasjóðum í alvarlegum veikindum. Fyrir þessu barðist Kiddi ekki eingöngu innan Verkalýðsfélags Húsavíkur, heldur gegndi hann lengi trúnaðarstörfum fyrir verkalýðshreyfinguna á landsvísu, sem áhrifamaður innan Verkamannasambandsins og Alþýðusambands Íslands. Auk þess sat hann í stjórn Lífeyrissjóðsins Bjargar um árabil.

Það fór því vel á því að baráttumaðurinn Kristján Ásgeirsson væri hylltur fyrir vel unnin störf í þágu verkafólks og samfélagsins alls, en á 95 ára afmæli Verkalýðsfélags Húsavíkur var hann gerður að heiðursfélaga þess. Athöfnin fór fram þann 1. maí 2006 á baráttudegi verkafólks, en stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum stóðu fyrir hátíðardagskrá í Félagsheimili Húsavíkur.

Fyrir mig sem ungan og róttækan mann voru mikil forréttindi að fá að kynnast Kidda og hans lífsskoðunum. Enda fór það svo að ég fylgdi honum í gegnum þau ár sem hann gaf kost á sér til áhrifa í bæjarstjórn Húsavíkur, sat með honum í stjórn verkalýðsfélagsins um tíma auk þess að fara með honum á fyrsta þingið sem ég tók þátt í á vegum Verkamannasambands Íslands, sem haldið var í Vestmannaeyjum árið 1988. Verkalýðsfélag Húsavíkur átti rétt á tveimur fulltrúum. Til stóð að Helgi Bjarnason formaður verkalýðsfélagsins færi með Kidda en hann forfallaðist á síðustu stundu og var ég kallaður inn sem varamaður. Það var mikil lífsreynsla fyrir ungan fiskvinnslumann frá Húsavík að fara á þingið með Kidda og upplifa hvernig þing sem þessi færu fram.

Það var einnig mikill heiður þegar Kiddi og Helgi Bjarnason komu að máli við okkur Kára Arnór Kárason árið 1992 og lögðu að okkur að taka við Verkalýðsfélagi Húsavíkur, enda væri stuðningur við það innan félagsins. Það væri kominn tími á breytingar. Við tókum slaginn, Kári tók við af Helga sem formaður og ég tók við keflinu frá Kidda sem varaformaður. Vissulega stór stund sem gefið hefur mér mikið frá upphafi til dagsins í dag. Hafðu kærar þakkir fyrir það Kristján Ásgeirsson, það er ekki sjálfgefið að fá tækifæri til að sameina áhugamál og vinnu.

Fyrir mína hönd og Framsýnar stéttarfélags votta ég fjölskyldu Kristjáns Ásgeirssonar dýpstu samúð. Við minnumst látins félaga með miklu þakklæti fyrir hans óeigingjörnu störf í þágu verkafólks í Þingeyjarsýslum. Megi minning um góðan mann lifa um ókomna tíð.

Aðalsteinn Árni Baldursson

 

Félagsmenn Framsýnar samþykktu kjarasamninginn

Niðurstöður atkvæðagreiðslu um nýjan kjarasamning aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins á hinum almenna vinnumarkaði liggja nú fyrir og var samningurinn samþykktur með yfirgnæfandi meirihluta. Starfsgreinasambandið hélt utan um sameiginlega rafræna atkvæðagreiðslu meðal 18 félaga um nýjan samning, en AFL Starfsgreinafélag sá sjálft um sína atkvæðagreiðslu. Atkvæðagreiðslan stóð yfir á tímabilinu 12. til 23. apríl. Í heildina var kjörsókn 12,78%, já sögðu 80,06% en nei sögðu 17,33%. 2,61% tóku ekki afstöðu. Á kjörskrá voru 36.835 manns.

Niðurstöðurnar voru afgerandi í öllum félögunum nema einu, en í 17 af 19 félögum var samningurinn samþykktur með yfir 70% atkvæða.

Hjá Framsýn var kjörsóknin fyrir ofan meðaltalið eða 15,97%. Á kjörskrá voru 839 félagsmenn, já sögðu 102 eða 76,12. Nei sögðu 29 eða 21,64%. Þrír tóku ekki afstöðu eða 2,24%.Samningurinn á hinum almenna vinnumarkaði, sem undirritaðir voru 3. apríl síðastliðinn, telst því samþykktur hjá meðal félagsmanna Framsýnar stéttarfélags og tekur því gildi frá og með 1. apríl 2019.

Þá er einnig búið að telja í atkvæðagreiðslu um kjarasamning Landssambands íslenskra verslunarmanna/Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins. Félagsmenn Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan félagsins samþykktu samninginn en kjörsóknin var mjög léleg. Á kjörskrá voru 189, 20 greiddu atkvæði, þar af sögðu 19 já eða 95% og 1 sagði nei við samningnum eða 5%. Auð atkvæði 0. Kjörsóknin var 10,58%.

Kosning um nýjan kjarasamning Framsýnar/SGS við SA

Rafræn atkvæðagreiðsla hjá Framsýn um nýjan kjarasamning félagsins og SGS við SA fyrir störf á almennum vinnumarkaði, sem undirritaður var 3. apríl 2019, hefst kl. 13:00 í dag, 12. apríl og lýkur þriðjudaginn 23. apríl kl. 16:00.
Atkvæðisrétt eiga allir félagsmenn í Framsýn sem vinna eftir viðkomandi samningi og greiddu félagsgjöld í janúar/febrúar 2019.  Kynningarefni um samninginn má nálgast hér.

Geti einhver ekki kosið sem telur sig hafa til þess rétt getur sá hinn sami snúið sér til Skrifstofu stéttarfélagsins og fengið sig færðan á kjörskrá og greitt atkvæði, enda leggi viðkomandi fram launaseðil sem sanni afdregin félagsgjöld í janúar/febrúar 2019. Tekið er við kjörskrárkærum samkvæmt framansögðu til kl. 16.00 þriðjudaginn 23. apríl en þá lýkur atkvæðagreiðslu um samninginn. Félagsmenn eru eindregið hvattir til að nýta réttindi sín og greiða atkvæði.

Til að greiða atkvæði smellir viðkomandi á hnappinn „Smellið hér til að kjósa‟ sem staðsettur er á bleika borðanum hér efst á síðunni. Til að skrá sig inn á þann vef þarf rafræn skilríki eða íslykli. Eftir innskráningu birtist atkvæðaseðilinn og getur viðkomandi þá greitt atkvæði.

Formaður á ferðinni um páskana – hann segir mikilvægt að menn kjósi um kjarasamninginn

Á morgun kl. 16:00 lýkur kosningu um kjarasamning Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins. Afar mikilvægt er að félagsmenn gefi sér tíma til að kjósa um samninginn. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, fór í vinnustaðaheimsóknir um páskana til að kynna samninginn fyrir félagsmönnum. Í gær, laugardag, átti hann fund með starfsmönnum í ferðaþjónustu Í Mývatnssveit. Vel var mætt á þann fund og lögðu fundarmenn fram fjölmargar spurningar sem formaður svaraði eftir bestu getu.

Vilt þú vera fulltrúi Framsýnar á ársfundi Lsj. Stapa

Ársfundur Stapa lífeyrisjóðs verður haldinn miðvikudaginn 8. maí nk. í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri og hefst fundurinn kl. 14:00. Gögn vegna fundarins verða aðgengileg á heimasíðu sjóðsins www.stapi.is a.m.k. tveimur vikum fyrir ársfund. Ársfundurinn er opinn öllum sjóðsfélögum með málfrelsi og tillögurétt. Atkvæðisrétt hafa þeir einir sem tilnefndir eru af aðildarfélögum sem aðild eiga að sjóðnum s.s. Framsýn stéttarfélagi. Framsýn leitar hér með til félagsmanna sem jafnframt eru sjóðsfélagar í Lsj. Stapa um að gefa kost á sér á ársfundinn fh. Framsýnar stéttarfélags. Áhugasömum er bent á að hafa samband við formann félagsins, Aðalstein Árna Baldursson, eða með því að senda upplýsingar á netfangið kuti@framsyn.is.

 

Það er mjög áríðandi að félagsmenn kjósi um kjarasamninginn – Ekki bíða með það

Stjórn Framsýnar skorar á félagsmenn sem starfa eftir almenna kjarasamningnum að greiða atkvæði um kjarasamninginn. Hægt verður að kjósa til kl. 16:00 þann 23. apríl 2019. Atkvæðagreiðslan er rafræn og hægt er að kjósa á heimasíðu Framsýnar. Einnig er hægt að kjósa með gamla laginu á skrifstofunni. Skoðanir félagsmanna á samningnum skipta mjög miklu máli. Koma svo!

Breytingar á kjörum starfsmanna sveitarfélaga

Í dag var gengið frá samkomulagi um breytingu á kjarasamningi milli (ASÍ)Starfsgreinasambands Íslands fh. aðildarfélaga og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Um er að ræða útfærslu launaþróunartryggingar fyrir tímabilið 2017 til 2018 sem byggir á Rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins frá 27. október 2015.

Launaþróunartryggingin gildir frá 1. janúar 2019 með nýrri launatöflu, ASÍ-V, sem hækkar um 1,7% frá gildandi launatöflu.

Sveitarfélögin munu greiða þetta sem eingreiðslu um leið og hægt verður að koma því við, það er við næstu eða þar næstu mánaðamót.

Félagsmenn Framsýnar geta nálgast frekari upplýsingar á skrifstofu félagsins.

Góðir félagsfundir um nýgerða kjarasamninga

Framsýn stóð fyrir tveimur félagsfundum í gær á Húsavík, annars vegar fyrir erlenda félagsmenn kl. 17:00 og hins vegar fyrir almennum félagsfundi kl. 20:00. Báðir fundirnir voru góðir og sköpuðust töluverðar umræður um kjarasamning Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins og útspil ríkistjórnarinnar. Í máli formanns kom fram að samningurinn væri með merkilegri samningum sem hann hefði komið að og að mikilvægt væri að menn gæfu sér tíma til að kjósa um samninginn en kosningin væri rafræn. Með því að fara inn á heimasíðu Framsýnar geta menn kosið sem voru við störf í janúar og febrúar. Þá er einnig hægt að kjósa á skrifstofu félagsins með gamla laginu vilji menn það.

Þeir gerast ekki betri

Þessi þrír höfðingjar, Jón Borgar, Árni Kjartans og Snorri komu við á Skrifstofu stéttarfélaganna fyrir lokun í gær. Eins og margir aðrir sem leita til stéttarfélaganna áttu þeir erindi á skrifstofuna. Að sjálfsögðu voru þeir hressir enda ekki þekktir fyrir annað og helgin framundan. Við skálum fyrir því.

Gagnlegar upplýsingar vegna yfirstandandi atkvæðagreiðslu um kjarasamningana

Hér koma hagnýtar upplýsingar um kjarasamningana og fundi sem eru framundan:

Ágæti félagsmaður,

Framsýn hefur gengið frá nýjum kjarasamningum við Samtök atvinnulífsins. Kjarasamningarnir voru undirritaðir 3. apríl 2019.

Kjarasamningarnir eru:

  • Kjarasamningur Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins fyrir starfsfólk á almenna vinnumarkaðinum.
  • Kjarasamningur Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu.
  • Kjarasamningur LÍV/Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins vegna verslunar- og skrifstofufólks.

Atkvæðagreiðsla um kjarasamning verslunar- og skrifstofufólks fer fram 11.- 15. apríl. Atkvæða-greiðslan er rafræn og fer fram á www.landssamband.is. Þá verður einnig hægt að kjósa á heimasíðu Framsýnar, www.framsyn.is. Nota skal rafræn skilríki eða íslykil við kosninguna.

Atkvæðagreiðsla um kjarasamninga Framsýnar vegna félagsmanna á almenna vinnumarkaðinum og við ferðaþjónustu fer fram frá kl. 13:00 þann 12. apríl til kl. 16:00 þann 23. apríl. Atkvæðagreiðslan verður rafræn og hægt verður að kjósa með því að fara inn á heimasíðu Framsýnar, www.framsyn.is. Nota skal rafræn skilríki eða íslykil við kosninguna.

Kjarasamningarnir fela í sér nýja nálgun til bættra lífskjara. Áhersla á kjarabætur til þeirra sem hafa lægstu launin er rauði þráðurinn í samningnum en um það er almenn sátt í samfélaginu. Samið var um krónutöluhækkanir eins og lagt var upp með í upphafi samningaviðræðna en auk þess eru launahækkanir að hluta tengdar þróun hagvaxtar og er gert ráð  fyrir árlegri endurskoðun taxtalauna í ljósi launaþróunar á almennum vinnumarkaði. Eitt meginmarkmið samningsins er að stuðla að vaxtalækkun sem eykur ráðstöfunartekjur heimilanna. Gildistími kjarasamninganna er frá 1. apríl 2019 til 1. nóvember 2022. Með því að fara inn á heimasíðu Framsýnar, www.framsyn.is er hægt að fræðast betur um innihald kjarasamninganna.

Á næstu dögum munu félagsmenn fá nánari upplýsingar í pósti um atkvæðagreiðsluna um kjarasamninganna sem verður rafræn eins og fram hefur komið.

Atkvæðisrétt eiga allir félagsmenn sem vinna eftir ofangreindum kjarasamningum og greiddu félagsgjald til félagsins í janúar/febrúar 2019.

Endilega hafið samband við skrifstofu Framsýnar sé eitthvað óljóst varðandi innihald eða afgreiðslu samningsins.

Ákvörðunin er ykkar, félagsmanna. Ég hvet alla til að kynna sér samninginn, nýta atkvæðisrétt sinn og taka þátt í atkvæðagreiðslunni. Hvert atkvæði skiptir máli!

Húsavík 9. apríl 2019

Fh. Framsýnar stéttarfélags

Aðalsteinn Árni Baldursson

The new collective agreement 2019: An introduction

Framsýn labour union invites foreign Framsýn members to a introduction meeting about the new collective agreement between Framsýn and SA Confederation of Icelandic Enterprise, signed on 3rd of April 2019. The introduction will take place in Framsýn conference room, Garðarsbraut 26 Húsavík, on Monday 15th April at 17:00. Afterwards it will be possible to vote on the contract with an electronic election. Further information can be found on Framsýn website, www.framsyn.is. It is important that members attend the introduction, familiarize themselves with the new agreement and vote. It is right to point out that the main points of the contract will be delivered to members through mail.

The elecronic election will start at 13:00 on the 12th of April and will be finished on the 23rd of April at 16:00. On framsyn.is is going to be a link members can click on to go to the voting site.

Further information will be available on Framsýn office.

Framsýn labour union

Fundarboð
Verslunar- og skrifstofufólk

Deild verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar boðar til kynningarfundar um nýgerðan kjarasamning Samtaka atvinnulífsins og Framsýnar sem undirritaður var 3. apríl. Fundurinn verður haldinn í fundarsal stéttarfélaganna föstudaginn 12. apríl kl. 20:00. Félagar fjölmennið.

Þá er rétt að geta þess að atkvæðagreiðslan um samninginn verður rafræn og munu félagsmenn fá frekari upplýsingar í netpósti.

Framsýn stéttarfélag

 

Félagsfundur
Um kjarasamning Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins

Framsýn stendur fyrir kynningarfundi um nýgerðan kjarasamning Samtaka atvinnulífsins og Framsýnar sem undirritaður var 3. apríl. Fundurinn verður haldinn í fundarsal stéttarfélaganna mánudaginn 15. apríl kl. 20:00. Samningurinn nær ekki til félagsmanna Framsýnar sem starfa hjá ríkinu eða sveitarfélögum. Félagar fjölmennið.

Þá er rétt að geta þess að atkvæðagreiðslan um samninginn verður rafræn og munu félagsmenn fá frekari upplýsingar um samninginn til sín í pósti.

Framsýn stéttarfélag

 

Viltu fá vinnustaða heimsókn?

Fulltrúar frá Framsýn eru tilbúnir að koma í vinnustaða heimsóknir til að kynna kjarasamninganna. Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu félagsins sé vilji til þess að fá frekari kynningu á samningunum.

Framsýn stéttarfélag

 

Ekki sameiginlegar kosningar

Rétt er að geta þess að ekki verður talið sameiginlega meðal þeirra stéttarfélaga sem aðild eiga að þeim kjarasamningum sem voru undirritaðir 3. apríl. Verði samningarnir samþykktir meðal félagsmanna Framsýnar skoðast hann samþykktur og tekur þegar gildi. Verði hann felldur gildir hann ekki fyrir félagsmenn Framsýnar og þarf þá að hefja samningaviðræður upp á nýtt við Samtök atvinnulífsins vegna félagsmanna Framsýnar meðan hann tekur gildi hjá öðrum stéttarfélögum sem samþykkja samninginn.

=====================================================

Helstu atriði nýs kjarasamnings

  • Kjarasamningarnir gilda frá 1. apríl 2019 – 1. nóvember 2022
  • Krónutöluhækkanir – 17 þúsund kr. hækkun á öll mánaðarlaun 1. apríl 2019
  • Lægstu laun hækka mest – 30% hækkun á lægstu taxta
  • Aukið vinnustaðalýðræði með möguleika á styttingu vinnutímans
  • Eingreiðsla upp á 26 þúsund kr. sem kemur til útborgunar í byrjun maí 2019
  • Skilyrði sköpuð fyrir verulegri vaxtalækkun á samningstímanum
  • Skattbyrði hinna tekjulægstu lækkar um 10 þúsund kr. á mánuði á samningstímanum

 

Almenn hækkun á mánaðarlaun fyrir fullt starf (gildir fyrir þá sem ekki eru á kauptöxtum)

  1. apríl 2019 17.000 kr. á mánuði
  2. apríl 2020 18.000 kr.
  3. janúar 2021 15.750 kr.
  4. janúar 2022 17.250 kr.

Kauptaxtar hækka sérstaklega hjá þeim sem taka laun eftir kauptöxtum

  1. apríl 2019 17.000 kr. á mánuði
  2. apríl 2020 24.000 kr.
  3. janúar 2021 24.000 kr.
  4. janúar 2022 25.000 kr.

Á árunum 2020-2023 komi til framkvæmda launaauki að gefinni ákveðinnar þróunar á vergri landsframleiðslu á hvern íbúa.

Tenging við hagvöxt (hagvaxtarauki) tryggir launafólki hlutdeild í verðmætasköpuninni. Þetta ákvæði nýtist best þeim tekjulægri þar sem þessi hækkun fer af fullum þunga á taxtakaup og ¾ á önnur laun. Hagvaxtarauki getur hækkað taxtalaun um 3-13 þúsund á ári eftir því hvað verg landsframleiðsla á mann hækkar mikið á tímabilinu.

2,5% hækkun á aðra liði kjarasamninganna eins og bónusa 2020-2022.

Lágmarkstekjur fyrir fullt starf

  1. apríl 2019 kr. 317.000 á mánuði
  2. apríl 2020 kr. 335.000 á mánuði
  3. janúar 2021 kr. 351.000 á mánuði
  4. janúar 2022 kr. 368.000 á mánuði

 Desemberuppbót (var 89.000 kr. 2018)

2019 kr. 92.000

2020 kr. 94.000

2021 kr. 96.000

2022 kr. 98.000

Orlofsuppbót fyrir hvert orlofsár (var 48.000 kr. 2018)

Maí 2019 kr. 50.000

Maí 2020 kr. 51.000

Maí 2021 kr. 52.000

Maí 2022 kr. 53.000

Eingreiðslan kemur sem sérstakt álag á orlofsuppbót árið 2019 uppá kr. 26.000 sem greiðist eigi síðar en 2. maí 2019.

Forsendur kjarasamninganna eru eftirfarandi:

Kaupmáttur launa hafi aukist á samningstímabilinu skv. launavísitölu Hagstofu Íslands.

Vaxtir lækki verulega fram að endurskoðun samnings í september 2020 og haldist lágir út samningstímann.

Stjórnvöld standi við gefin fyrirheit skv. yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninganna.

Forsendur kjarasamninga verða metnar í september 2020 og september 2021. Forsendunefnd verður skipuð þremur fulltrúum frá hvorum samningsaðila.

========================================================

 

Verslunarmenn kátir

Framsýn stóð fyrir félagsfundi í gærkvöldi um nýgerðan kjarasamning Framsýnar/LÍV og Samtaka atvinnulífsins. Formaður félagsins, Aðalsteinn Árni, fór yfir samninginn og yfirlýsingar ríkistjórnarinnar. Almennt voru fundarmenn jákvæðir fyrir samningnum og innleggi ríkistjórnarinnar til lausnar kjaradeilunni sem staðið hefur yfir undanfarnar vikur. Atkvæðagreiðsla um samninginn er hafin á heimasíðu Framsýnar en hún er rafræn. Formaður sagði afar mikilvægt að félagsmenn kjósi um samninginn.

Miklar og góðar umræður urðu um kjarasamning Framsýnar/LÍV og Samtaka atvinnulífsins á félagsfundi Framsýnar í gærkvöldi. Fundarmenn lögðu fjölmargar spurningar fram fyrir formann félagsins sem svaraði eftir bestu getu.

 

„Algjört rugl þegar menn halda því fram að það sé hvergi meiri jöfnuður en á Íslandi“

Nýr kjarasamningur SGS og SA hefur verið undirritaður. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson stóð vaktina við samningaborðið og tók Víkurblaðið viðtal við hann að því tilefni.

Aðalsteinn segir að samningarnir séu ágætir í samhengi við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sem lagðar voru fram við undirritun samninganna. „Samningarnir koma best út fyrir láglaunafólk þar sem samið er um krónutöluhækkanir, fyrir barnafólk og fyrir þá sem eru með skuldbindingar t.d. vegna kaupa á íbúðarhúsnæði. Þá koma skattalækkanir sér vel fyrir þennan hóp og reyndar aðra sem eru í svipaðri stöðu, eins og til að mynda aldraðir og öryrkjar. Líkt og með áramótaskaupið verða örugglega skiptar skoðanir með samningana meðal félagsmanna sem er afar eðlilegt“.

Hann segist aðspurður hafa viljað ná fram betri kjörum fyrir sína skjólstæðinga, styttri vinnuviku og auknum veikindarétti vegna veikinda barna. „Ég er talsmaður jöfnuðar og mun halda áfram að berjast fyrir honum meðan ég gegni þessu starfi. Það er algjört rugl þegar menn halda því fram að það sé hvergi meiri jöfnuður en á Íslandi.“

Þegar Aðalsteinn er spurður út í þær sérstöku aðstæður sem uppi hafa veri í íslenska hagkerfinu segir hann að á hverjum tíma þegar samið er taki menn mið af aðstæðum. „Ekki bara efnahagsástandinu heldur einnig stöðu heimilanna í landinu. Sá þáttur virðist því miður stundum gleymast í umræðunni. Vissulega hefur staðan í efnahagslífinu ekki verið góð síðustu mánuðina, en í þessum samningum er að finna nýmæli sem er svokölluð hagvaxtartrygging. Það þýðir að ef hagvöxtur eykst í þjóðfélaginu miðað við núverandi ástand á samningstímanum mun það skila sér í auka launahækkunum til launafólks sem starfar eftir þeim kjarasamningum sem voru undirritaðir í síðustu viku. Slík tenging hefur ekki komið áður til, tenging sem ég bind miklar vonir við og veit að á eftir að skila sér aukalega í vasa launafólks á næstu árum en ekki bara í vasa hluthafa og eigenda fyrirtækja,“ segir hann.

Aðalsteinn hefur tekið margsinnis áður tekið þátt í samningaviðræðum í Karphúsinu en segir að andrúmsloftið hafi verið betra nú en oft áður þrátt fyrir hallarbyltingar í stéttarfélögunum þar sem nýtt fólk hefur komið til starfa. „Það var verulega gott að vinna með þessu nýja fólki. Framsýn átti mjög gott samstarf við forystumenn Eflingar, VR, Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Grindavíkur. Þessi félög mótuðu kjarasamninginn sem var undirritaður 3. apríl. Hann mun færa verkafólki mun meiri launahækkanir en áður hafa þekkst í sambærilegum kjarasamningum á Íslandi,“ segir hann og fullyrðir að samstaða þessara félaga hafi verið lykilatriði. „Það var lengi vel ákveðinn ótti hjá forystumönnum SA út í þetta nýja afl, Vor í verkó með Sólveigu Önnu og Ragnari Þór í forystu. Ég skynja núna að Samtök atvinnulífsins meta samstöðuna sem myndaðist hjá þessum stéttarfélögum og virða baráttu okkar fyrir bættum kjörum til handa okkar fólki sem við vorum valin til að vinna fyrir.“

Meðganga þessara kjarasamninga hefur verið löng eða frá því í október á síðasta ári og því er ekki úr vegi að spyrja hvort formaðurinn hugsi aldrei um að nú sé komið nóg?. „Það eru ekki margar helgar frá þeim tíma sem ég hef átt frí. Þegar samningaviðræður eru í gangi gilda engin vökulög, vinnudagarnir eru langir og strangir. Síðustu vikurnar fyrir undirskriftina var lítið sofið. Haldi ég heilsu og njóti trausts félagsmanna Framsýnar sé ég fyrir mér að næstu kjarasamningar árið 2022 verði mínir síðustu kjarasamningar. Þá sé komið nóg og aðrir taki við keflinu, enda lít ég svo á að það sé eftirsóknarvert að taka við einu öflugasta stéttarfélagi landsins, enda séu menn tilbúnir að gefa allt í starfið og láta gott af sér leiða.“

Að sjálfsögðu rífast menn, steyta hnefana og skella hurðum. Þá eiga sumir það til að vera ansi orðljótir, en sem betur fer eru menn ekki með upptökutæki í Karphúsinu líkt og gerðist á ákveðnum bar í miðborg Reykjavíkur í vetur, þegar nokkrir þingmenn tóku tal saman og skáluðu. Samherjar innan verkalýðshreyfingarinnar eiga það líka til að rífast enda menn ekki alltaf sammála um bestu leiðirnar til lausnar. En þetta jafnast allt að lokum og flestir faðmast eftir undirskriftina, þó ekki allir.

 

 

 

Grautur og terta í boði

Það ver vel tekið á móti formanni Framsýnar í morgun þegar hann kom við í fiskverkun ÚA á Laugum. Tilefni heimsóknarinnar var að fara yfir nýgerðan kjarasamning og spara spurningum starfsmanna. Boðið var upp hafragraut og meðlæti auk tertu af heimsins bestu gerð. Guðný I. Grímsdóttir trúnaðarmaður og trúnaðarráðsmaður í Framsýnar ræður ríkjum í eldhúsinu og því var ekki við öðru að búast en veglegum veitingum. Móttökurnar voru til mikillar fyrirmyndar.

 

Við minnum á orlofshúsið á Illugastöðum

Við viljum minna á orlofskostinn sem er hús Framsýnar á Illugastöðum. Hægt er að leigja húsið allt árið, en á sumrin er það leigt út í viku í senn. Frá 1. september til 30. apríl sér Jón Þórir Óskarsson á Illugastöðum um að leigja bústaðinn en frá 1. maí til 30. september er útleigan í höndum Skrifstofu stéttarfélaganna.

Vert er að minna á að allan maí verður ekki vikuleiga á húsinu nema fólk kjósi það og því hægt að fá húsið leigt í einn sólarhring eða lengur.

Kynningar út um allt um nýgerða kjarasamninga

Framsýn leggur mikið upp úr því að kynna nýgerða kjarasamninga fyrir félagsmönnum. Á síðustu dögum hefur verið farið í nokkrar vinnustaðaheimsóknir og þá voru trúnaðarmenn félagsins á vinnustöðum boðin kynning fyrr í vikunni. Þegar þetta er skrifað er fyrirhugaður starfsmannafundur með starfsmönnum ÚA á Laugum sem starfa við þurrkun og þá er félagsfundur framundan í kvöld með félagsmönnum Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar. Á mánudaginn verða svo tveir félagsfundir, annars vegar fyrir erlenda starfsmenn á svæðinu og hins vegar fyrir starfsmenn sem starfa eftir almenna samningnum og ferðaþjónustusamningnum. Sá fundur verður kl. 20:00 um kvöldið, fundurinn með erlendu starfsmönnunum verður kl. 17:00. Eins og fram hefur komið eru fulltrúar Framsýnar tilbúnir að mæta á starfsmannafundi á félagssvæðinu verði eftir því óskað.

Farið yfir samningana með starfsmönnum GPG-Fiskverkun á Raufarhöfn.

Starfsmenn Fjallalambs spurðu mikið út í samninginn en þeir óskuðu sérstaklega eftir kynningu um samninginn sem er til mikillar fyrirmyndar.

Trúnaðarmenn Framsýnar komu saman í vikunni og fengu upplýsingar um samninganna enda mikilvægt að þeir séu vel inn í málum.