Framkvæmdir hafnar við Hólsvirkjun

Framkvæmdir við Hólsvirkjun í Fnjóskadal eru nú í fullum gangi, en vinna við verkið hófst um miðjan maí. Það er fyrirtækið Arctic Hydro sem hyggst reisa þar 5,5 megavatta virkjun og hleypur kostnaður við framkvæmdina á tveimur milljörðum króna. Virkjunin á Hólsdal er stærsta innviðafjárfesting sem gerð hefur verið í norðanverðum Fnjóskadal til þessa. Tæknileg ráðgjöf við verkið er í höndum verkfræðistofunnar Eflu.
Lónin við virkjunina verða tvö, það stærra í Hólsá, þar sem gerð verður 150 metra breið og átta metra há stífla, en önnur minni stífla verður í Gönguskarðsá. Í mynni Hólsdals sameinast þessar ár og nefnist áin þá Árbugsá og rennur í Fnjóská skammt frá bænum Þverá í Dalsmynni. Vatnið úr lónunum verður lagt í glertrefjarörum ( þrýstipípu ) um 6 km, að nýju stöðvarhúsi sem staðsett verður niður undir bökkum Fnjóskár og deilt inn á dreifikerfi Rarik. Því verður lagður jarðstrengur milli stöðvarhússins og Rangárvalla á Akureyri, tæplega 40 kílómetra leið og er sú vinna nú komin langt á veg.
Undirbúningur verkefnisins hefur tekið langan tíma, eða frá árinu 2011. Að sögn Skírnis Sigurbjörnssonar, framkvæmdastjóra Arctic Hydro tók töluverðan tíma að meta umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, breyta skipulagi svæðisins og afla tilskilinna leyfa. Það tókst að lokum og segir hann verkið hafa gengið vonum framar. Skírnir segir pípulögnina langt á undan áætlun, það sé unnið á vöktum allan sólarhringinn og ef fram héldi sem horfði, verði pípurnar komnar í jörð fyrir veturinn. Vonast er til að vélar við virkjuna verði gangsettar á næsta ári.
Hann segist sérstaklega ánægður með hversu margir sem koma að verkinu tengjast svæðinu, en um 50 manns koma að framkvæmdunum á Hólsdal á einn eða annan hátt.
Skírnir segir að lokum að nauðsynlegt sé að bæta úr raforkuskorti á Norðurlandi og virkjun af þessari stærð hafi mikið að segja. Íbúar í Fnjóskadal njóti góðs af þessari framkvæmd töluvert áður en virkjunin verði gangsett því Rarik muni í leiðinni leggja 11 kílóvolta streng og þrífasavæða Fnjóskadal. Eftir því hafa íbúar í sveitinni lengi beðið eftir og mun það koma sér vel fyrir alla frekari atvinnuuppbyggingu í dalnum.

Óska eftir fundi með Vinnumálastofnun

Framsýn hefur í samráði við Norðurþing óskað eftir fundi með Vinnumálastofnun. Tilefni fundarins er að taka upp til umræðu stöðu fólks sem er í atvinnuleit eða er á vinnumarkaði með skerta starfsgetu. Samkvæmt lögum á Vinnumálastofnun að sinna þjónustu við þessa hópa auk þess að sinna ákveðnu vinnustaðaeftirliti. Að mati Framsýnar eru þessi mál ekki í nægjanlega góðu horfi eftir að þjónusta við þessa hópa var skorin niður og þjónustan flutt til Akureyrar. Áður var Vinnumálastofnun með þjónustu við atvinnuleitendur í Þingeyjarsýslum.

 

Aðhald í rekstri skilar sér til félagsmanna – örfréttir frá aðalfundi

Rekstrarafgangur var á öllum sjóðum félagsins. Félagsgjöld og iðgjöld hækkuðu um 3,8% milli rekstrarára.  Rekstrarútgjöld lækkuðu á  milli ára. Rekstrartekjur félagsins námu kr. 273.526.627,- sem er aukning um 3% milli ára. Rekstrargjöld námu 182.211.808,- sem er lækkun um 1,8% milli ára. Þessi lækkun er ekki síst tilkomin vegna lækkunar bóta og styrkja úr sjúkrasjóði og vinnudeilusjóði. Fjármagnstekjur námu kr. 57.627.264,-.  Félagsgjöld og iðgjöld námu kr. 233.346.473,- á móti kr. 224.809.587,- á árinu 2017. Í árslok 2018 var tekjuafgangur félagsins kr. 141.714.849,- en var kr. 128.532.122,- árið 2017.  Heildareignir félagsins námu kr. 2.017.426.041,- í árslok 2017 samanborið við kr. 1.895.352.623,- í árslok 2017. Innheimta félagsgjalda var með svipuðu sniði og árið á undan. Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma.

 

Efla vinnudeilusjóð – örfrétt frá aðalfundi

Á aðalfundi Framsýnar var samþykkt tillaga um að heimila stjórn og trúnaðarráði að efla vinnudeilusjóð félagsins með tilfærslu á fjármagni milli Félagssjóðs og Vinnudeilusjóðs. Eins og staðan er í dag er búist við hörðum átökum í haust þar sem kjarasamningar hafa ekki náðst fyrir félagsmenn Framsýnar sem starfa hjá ríkinu og sveitarfélögum. Hugsanlega eru því átök framundan ekki síst eftir ákvörðun samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga að mismuna starfsmönnum til launa eftir aðild þeirra að stéttarfélögum og heimasíðan hefur fjallað um síðustu daga.

Starfsmenn í toppformi- örfrétt frá aðalfundi

Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar afhendi starfsmönnum félagsins blómvönd á aðalfundinum með þakklæti fyrir störf þeirra í þágu félagsmanna um leið og hún lýsti yfir mikilli ánægju með könnun Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri þar sem fram kæmi að viðhorf félagsmanna til Framsýnar væri með miklum ágætum ekki síst til starfsmanna sem þyrftu daglega að sinna krefjandi störfum. Í könnuninni kæmi fram að 99% félagsmanna væru ánægðir með viðhorf starfsmanna félagsins sem væri afar ánægjuleg niðurstaða. Starfsmenn þökkuðu að sjálfsögðu fyrir sig og fallegar kveðjur frá aðalfundargestum.

Sýnileiki Framsýnar greinilega góður

Framsýn stéttarfélag tók þátt í spurningavagni Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri þar sem lagðar voru fyrir nokkrar spurningar um félagið í formi netkönnunar og fór könnunin fram dagana 7. – 25. mars 2019 í Eyjafirði og í Þingeyjarsýslum. Alls svöruðu 1552 manns könnuninni, þar af 451 þátttakendur í Þingeyjarsýslum og var svarhlutfall 69.5%, af þeim voru 216 í Framsýn.

Eins og sjá má á meðfylgjandi kökuriti er stormandi ánægja með sýnileika félagsins en ekki einn einasti þátttakandi könnunarinnar lýsti yfir snefil af óánægju með hann.

Norðurþing á toppinn

Sveitarfélagið Norðurþing greiddi mest allra atvinnurekenda  í iðgjöld til Framsýnar eða samtals um kr. 13,9 milljónir árið 2018. Rétt á eftir kemur PCC BakkiSilicon hf. Árið áður greiddi Beck&Pollitzer Polska mest eða um 20 milljónir. Innifalið í upphæðinni eru félagsgjöld starfsmanna og lögbundin iðgjöld atvinnurekenda í sjóði Framsýnar. Eins og sjá má er PCC BakkiSilicon hf. strax orðinn gríðarlega mikilvægur vinnustaður á svæðinu og greiðir háa skatta til samfélagsins og gjöld til þeirra stéttarfélaga sem starfsmenn fyrirtækisins tilheyra. 

Stærstu greiðendur iðgjalda til Framsýnar 2018 eftir röð:

Sveitarfélagið Norðurþing

PCC BakkiSilicon hf.

Beck&Pollitzer Polska

GPG. Seafood ehf.

Norðlenska matarborðið ehf.

Íslandshótel hf.

Brim hf.

Ríkisjóður Íslands

Hvammur

Þingeyjarsveit

Jarðboranir hf.

 

Atvinnuástandið í jafnvægi- Örfrétt frá aðalfundi

Atvinnuástandið í Þingeyjarsýslum hefur almennt verið með miklum ágætum og því hefur lítið verið um atvinnuleysi. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun fengu 143 félagsmenn Framsýnar greiddar atvinnuleysisbætur á árinu 2018 samtals kr. 134.144.517,-. Með mótframlagi kr. 10.731.561,- námu heildargreiðslur alls kr. 144.876.078,-. Sambærilegar tölur fyrir árið 2017 eru eftirfarandi. Alls fengu 137 félagsmenn Framsýnar greiddar atvinnuleysisbætur á árinu 2017 samtals kr. 82.952.573,-. Með mótframlagi kr. 6.636.206,- námu heildargreiðslur alls kr. 89.588.779,-.

Afstaða Norðurþings og Þingeyjarsveitar valda vonbrigðum – Tjörneshreppur stendur upp úr

Framsýn hefur borist svar við erindi félagsins frá Norðurþingi, Þingeyjarsveit og Tjörneshrepp varðandi áskorun um að sveitarfélögin mismuni ekki starfsmönnum varðandi launahækkanir eftir stéttarfélögum. Það eru mikil vonbyrgði að Þingeyjarsveit og Norðurþing telja sig ekki geta brugðist við erindi Framsýnar með jöfnuði er snertir hækkanir til starfsmanna sveitarfélaganna. Með sinni afstöðu skrifa þau upp á að það sé eðlilegt að þeir sem eru á lægstu laununum hjá sveitarfélögunum sitji einir eftir og fái ekki eingreiðslu í ágúst upp á kr. 105.000 meðan ósamið er. Tjörneshreppur stendur hins vegar upp úr og í svari til Framsýnar kemur fram að þeir ætli að hækka þá starfsmenn hreppsins sem starfa eftir kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga með sambærilegum hætti og ákveðið hefur verið að gera gagnvart félagsmönnum annarra stéttarfélaga/sambanda en Starfsgreinasambands Íslands. Skútustaðahreppur hefur hins vegar ekki talið ástæðu til að svara erindi Framsýnar fremur en stjórn Hvamms, en sem komið er. Hér má lesa þau svör sem hafa borist.

 Norðurþing svarar:

Eftirfarandi var bókað á 295. Fundi byggðarráðs Norðurþings í morgun;

„Fyrir byggðarráði liggur bréf frá Framsýn stéttarfélagi hvar vakin er athygli á þeirri stöðu sem nú ríkir í samningamálum félagsmanna sem starfa hjá sveitarfélögum í Þingeyjarsýslum. Kjaraviðræður hafa staðið yfir við Samband íslenskra sveitarfélaga frá því í febrúar 2019, án niðurstöðu. Í bréfinu kemur fram að mikið ber á milli og vísaði Starfsgreinasamband Íslands, sem fer með samningsumboð Framsýnar, deilunni til ríkissáttasemjara þann 28. maí sl. Næsti fundur í deilunni hefur verið boðaður 21. ágúst n.k. hjá ríkissáttasemjara. Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur að undanförnu samið við önnur sambönd og stéttarfélög um frestun viðræðna og friðarskyldu til 15. september. Samið hefur verið við þessa aðila um eingreiðlsu/innágreiðslu upp á kr. 105.000 miðað við fullt starf. Samninganefnd sveitarfélaga hefur neitað að slíkt tilboð standi til boða fyrir aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins þar sem búið væri að vísa deilunni til Ríkissáttasemjara. Þrátt fyrir þessa afstöðu samninganefndarinnar vill Framsýn fara þess á leit við sveitarfélögin á félagssvæðinu og Hvamm heimili aldraðra að þau greiði starfsmönnum sem starfa eftir kjarasamnings Starfsgreinasambands Íslands viðlíka innágreiðslu of að ofan greinir, þann 1. ágúst n.k. m.v. fullt starf.

Byggðarráð þakkar Framsýn stéttarfélagi erindið og lýsir yfir áhyggjum sínum yfir stöðu kjaraviðræðna Samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga við þau stéttarfélög sem vísuðu deilunni til Ríkissáttasemjara í vor. Það er ljóst að staðan er mjög viðkvæm á þessum tímapunkti og vert að árétta að sveitarfélagið Norðurþing veitti samninganefndinni fullnaðarumboð til samninga fyrir sína hönd þann 11. desember 2018, líkt og önnur sveitarfélög gerðu sömuleiðis. Það þýðir að eftir að umboðið var veitt er sveitarfélaginu ekki heimilt að hafa afskipti af kjarasamningagerð. Sveitarfélagið skuldbatt sig til að hlíta markmiðum og stefnu sambandsins í kjaramálum og þeim kjarasamningum sem sambandið gerir fyrir þess hönd í öllum atriðum, með staðfestingu stjórnar sambandsins. Byggðarráð Norðurþings hafnar því óskum Framsýnar um að stíga inn í kjaraviðræðurnar með þeim hætti sem vænst er. Það er einlæg von byggðarráðs að samningsaðilar nái saman og leysi þá deilu sem uppi er sem fyrst.“

Þingeyjarsveit svarar:

Framsýn: Staða í kjaraviðræðum SGS og Sambands íslenskra sveitarfélaga – 1907001
Lagt fram bréf frá Framsýn, dags. 2.07.2019 þar sem vakin er athygli á þeirri stöðu sem nú ríkir í samningamálum félagsmanna sem starfa hjá sveitarfélögum í Þingeyjarsýslum.
Viðræður hafa staðið yfir við Samband íslenskra sveitarfélaga frá því í febrúar 2019, án árangurs.
Samninganefnd Sambands Íslenskra sveitarfélaga hefur að undanförnu samið við önnur sambönd og stéttarfélög um frestun viðræðna og friðarskyldu til 15. september. Samið hefur verið við þessa aðila um eingreiðslu/innágreiðslu upp á kr. 105.000 miðað við fullt starf. Ríkissáttasemjari hafði milligöngu fyrir Starfsgreinasambandið, hvort slíkt tilboð stæði ekki fyrir félagsmönnum aðildarfélaga sambandsins einnig til boða. Formaður samninganefndar sveitarfélaga neitaði því þar sem Starfsgreinasambandið væri búið að vísa deilunni til Ríkissáttasemjara.
Framsýn fer þess á leit við sveitarfélögin á félagssvæðinu og Hvammi, heimili aldraðra að þau greiði starfsmönnum sem starfa eftir kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands slíka innágreiðslu 1. ágúst n.k. það er að upphæð kr. 105.000 m.v. fullt starf þann 1. júlí 2019 og hlutfallslega fyrir lægra starfshlutfall.
Sveitarstjórn lýsir áhyggjum sínum yfir stöðunni og harmar að viðræður hafi enn ekki borið árangur. Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga er með samningaumboðið fyrir hönd sveitarfélagsins, sbr. bókun sveitarstjórnar þann 24. janúar 2019 og því getur sveitarstjórn ekki orðið við erindinu.

Þetta tilkynnist hér með.

Tjörneshreppur svarar:

Hér með staðfestist að Tjörneshreppur mun greiða til meðlima SGS  sambærilega eingreiðslu/innágreiðslu í ágúst og starfsmenn annarra stéttarfélaga/sambanda sem eru með lausa samninga eiga að fá í ágúst.

Aðalsteinn J. Halldórsson
Oddviti
Tjörneshreppur

 

 

 

Framsýn kom færandi hendi í kvöld

Rétt í þessu afhendi Framsýn unglingum í 3 flokki Völsungs og fararstjórum treyjur að gjöf frá félaginu. Unglingarnir sem eru á aldrinum 14 til 17 ára voru að leggja í spennandi keppnisferð til Svíþjóðar, nánar tiltekið til Gautaborgar á Gothia Cup. Fótboltamótið er með stærri alþjóðlegum mótum sem haldin eru fyrir þennan aldurshóp og fara tæplega fjörutíu unglingar og fararstjórar frá Völsungi í ferðina.  Síðustu tvö ár hafa unglingarnir með góðri aðstoð foreldra safnað fyrir ferðinni sem auk þess komu að því að skipuleggja ferðina. Ferðin til Gautaborgar tekur um viku tíma og var farið frá Borgarhólsskóla á Húsavík í kvöld og flogið verður frá Keflavík í morgunsárið.

Formaður Framsýnar afhendi keppnisförum sem voru að leggja í ferð til Svíþjóðar í kvöld treyjur frá félaginu auk þess að óska þeim góðrar ferðar. Unga fólkið þakkaði vel fyrir sig um leið og þau héldu brosandi á Gothia Cup. Framsýn óskar hópnum góðrar ferðar.

 

Þingiðn gefur Pönnuvöll

Í gær afhendi formaður Þingiðnar, Jónas Kristjánsson, Barna og unglingaráði Völsungs nýjan Pönnuvöll sem verður staðsettur á keppnis- og æfingasvæði Völsungs. Jónas Halldór Friðriksson framkvæmdastjóri Völsungs tók við gjöfinni fh. félagsins og þakkaði Þingiðn kærlega fyrir gjöfina sem kæmi að góðum notum í öflugu starfi félagsins, ekki síst fyrir unga iðkendur. Þá hefur félaginu borist kveðja frá Barna- og unglingaráði Völsungs. Þar kemur fram: Barna- og unglingaráð vill þakka fyrir veglega gjöf sem iðkendur eru þegar farnir að njóta góðs af. Teljum „Pönnuvelli“ vera virkilega góðan stað fyrir börn til að geta bætt sína knatttækni.

Stórir og smáir kunna að meta nýja Pönnuvöllinn.

Ekki er ólíklegt að formaður Þingiðnar sé að segja ungum Völsungum til en hann spilaði á sínum tíma með Geisla í Aðaldal við góðan orðstír.

 

Framsýn festir kaup á íbúð fyrir félagsmenn á Akureyri

Samkvæmt ákvörðun síðasta aðalfundar Framsýnar hefur félagið fest kaup á íbúð á Akureyri fyrir félagsmenn sem þurfa á henni að halda vegna læknisferða, einkaerinda eða orlofs. Samningur um kaupin var undirritaður í morgun. Raðhúsið er byggt árið 1973 og verður afhent Framsýn 15. september n.k. Um er að ræða 106m2 fjögra herbergja íbúð í raðhúsi að Furulundi 11E.

Íbúðin er glæsileg í alla staði og hefur verið vel við haldið í gegnum tíðina. Íbúðinni fylgir garðhús. Reiknað er með að útleiga til félagsmanna hefjist 1. nóvember en það verður auglýst síðar.

Samningur um kaup Framsýnar á íbúðinni var undirritaður í morgun. Aðalsteinn Árni frá Framsýn og Hermann Haraldsson eigandi íbúðarinnar skrifuðu undir samninginn.

Um er að ræða enda íbúð í raðhúsi. Aðrar íbúðir í raðhúsinu eru í eigu annarra verkalýðsfélaga á höfðuborgarsvæðinu.  Hér að neðan eru svo myndir teknar af eigninni.

Formaður Framsýnar í viðtali í hádegisfréttum bylgjunnar

Formaður Framsýnar er í viðtali í Bylgjufréttum í dag í kjölfar ályktunar sem stjórn Framsýnar sendi frá sér í gær vegna stöðuna í kjaraviðræðum Starfsgreinasambandsins sem Framsýn á aðild að og samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Formaður Framsýnar boðar verkföll með haustinu verði ekki samið í sumar. Lesa má um viðtalið á Visir.is

Ályktunina má lesa hér.

Framsýn gefur 2 milljónir til tækjakaupa

Framsýn stéttarfélag hefur ákveðið að færa Styrktarfélagi Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga, Húsavík, tvær milljónir til tækjakaupa til minningar um Kristján Ásgeirsson fyrrverandi formann Verkalýðsfélags Húsavíkur, nú Framsýnar stéttarfélags. Ákörðun þess efnis var tekin á stjórnarfundi í gærkvöldi. Undanfarna mánuði hefur staðið yfir söfnun fyrir nýjum hjartaeftirlitstækjum á sjúkradeild stofnunarinnar á Húsavík. Ætlunin er að kaupa eftirlitstæki sem samanstendur af nettengdum tækjum; vöktunartæki á vaktherbergi, tveimur veggföstum skjám til að hafa eftirlit með rúmliggjandi sjúklingum og tæki til að fylgjast með sjúklingi sem ekki er rúmliggjandi. Með tækjunum er hægt að mæla blóðþrýsting, öndum, súrefnismettun, púls og sjá hjartasláttarrit. Gömlu tækin eru löngu komin á tíma og ekki lengur hægt að fá varahluti í þau ef þau bila. Nýju tækin kosta um 8 milljónir. Framsýn vill nota tækifærið og skora á velunnara stofnunarinnar að leggja til fjármagn til kaupa á þessu mikilvæga tæki fyrir HSN á Húsavík.

Kalla eftir verkfallsaðgerðum í haust

Stjórn Framsýnar samþykkti í gær að senda frá sér meðfylgjandi ályktun varðandi stöðuna í kjaraviðræðum Starfsgreinasambandsins sem Framsýn á aðild að og samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Mikil reiði er meðal starfsmanna sveitarfélaga sem tilheyra þessum samningi vegna ákvörðunar samningarnefndar sveitarfélaganna að undanskilja starfsmenn sem eru innan Starfsgreinasambandsins frá því að fá sambærilega eingreiðslu/innágreiðslu í ágúst og starfsmenn annarra stéttarfélaga/sambanda sem eru með lausa samninga eiga að fá í ágúst. Reyndar er þessi ákvörðun sveitarfélaganna með miklum ólíkindum og þeim til mikillar skammar gangi hún eftir. Umræður eru nú innan aðildarfélaga SGS að boða til verkfalls í haust hjá starfsmönnum sveitarfélaga standi samninganefndin við boðaða mismunun á hækkunum til starfsmanna sveitarfélaga í ágúst. Það er von Framsýnar að sveitarfélög í Þingeyjarsýslum virði starfsmenn sína jafnt og greiði öllum sínum starfsmönnum þessa hækkun í ágúst sem eru með lausa samninga, ekki bara þeim sem staðið hafa á kantinum meðan aðildarfélög Starfsgreinasambandsins hafa unnið að því að ganga frá kjarasamningi við SNS. Því miður hefur sú vinna ekki skilað árangri.

 Ályktun
Um kjaraviðræður SNS og SGS 

„Undanfarna mánuði hefur Starfsgreinasamband Íslands (SGS) sem Framsýn á aðild að, átt í kjarasamningsviðræðum við samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) vegna félagsmanna sem starfa hjá sveitarfélögum.  

Því miður hafa viðræðurnar ekki skilað tilætluðum árangri. Í ljósi stöðunnar var ekkert annað í boði fyrir aðildarfélög SGS en að vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara, enda gert ráð fyrir því í lögum takist viðsemjendum ekki að ná fram kjarasamningi, að deilunni sé vísað til ríkissáttasemjara til úrlausnar. 

Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur nú þegar samið við einstök sambönd og stéttarfélög um að þeirra félagsmenn sem starfa hjá sveitarfélögunum fái greiddar          kr. 105.000 eingreiðslu miðað við fullt starf þann 1. ágúst 2019 sem greiðslu inn á væntanlegan kjarasamning. Það er til þeirra félaga og sambanda sem beðið hafa á kantinum meðan aðildarfélög SGS hafa barist um á hæl og hnakka við að reyna að landa nýjum kjarasamningi en án árangurs. 

Þegar aðildarfélög SGS kröfðust þess að félagsmenn þeirra sem starfa hjá sveitarfélögunum fengju sömuleiðis umrædda eingreiðslu var því alfarið hafnað af hálfu samninganefndar sveitarfélaga með þeim rökum að Starfsgreinasambandið hefði vísað kjaradeilunni til ríkissáttasemjara. 

Það er með öllu ólíðandi og samninganefnd SNS til vansa að skilja sína lægst launuðu starfsmenn eina eftir úti í kuldanum, það er þá sem starfa eftir kjarasamningi sveitarfélaga og Starfsgreinasambands Íslands. Framsýn trúir því ekki fyrr en á reynir, að sveitarstjórnarmenn í Þingeyjarsýslum hyggist koma fram við sitt frábæra starfsfólk með þessum hætti. 

Framsýn stéttarfélag skorar á samninganefnd SNS að endurskoða sína afstöðu. Það verður einfaldlega ekki liðið að sveitarfélögin í landinu sýni starfsmönnum sem búa við það ömurlega hlutskipti að vera á lægstu kauptöxtunum slíka lítilsvirðingu. 

Framsýn stéttarfélag skorar á aðildarfélög Starfsgreinasambands Íslands að slíta viðræðum við SNS og hefja undirbúning að sameiginlegum verkfallsaðgerðum í haust með það að markmiði að lama meðal annars allt skólastarf í leik- og grunnskólum landsins.  

Það er einfaldlega ekki hægt að aðildarfélög SGS standi aðgerðarlaus á kantinum á sama tíma og samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga ætlar kinnroðalaust að mismuna starfsmönnum sveitarfélaga. Skammist ykkar!“

 

Stjórn Framsýnar fundar á fimmtudaginn

Stjórn Framsýnar kemur saman til fundar miðvikudaginn 10. júlí kl. 17:00 í fundarsal félagsins. Að venju er stjórn Framsýnar-ung boðið að taka þátt í fundinum. Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

1. Fundargerð síðasta fundar
2. Inntaka nýrra félaga
3. Aðalfundur félagsins
4. Kaup á Furulundi 11 E, Akureyri
5. Heimild formanns til styrkja
6. Kjaramál- ríki og sveitarfélög
7. Starfsemi Vinnumálastofnunar á félagssvæðinu
8. Bréf frá SA v/ óska starfsmanna Íslandspósts um inngöngu í Framsýn
9. Samningur við Hvalaskoðunarfyrirtækin
10. Málefni Orlofsbyggðarinnar á Illugastöðum
11. Styrkir vegna Mæru- og Hrútadaga
12. Málefni trúnaðarráðs
13. Fundur með fulltrúum Íslandsbanka
14. Önnur mál

Ungt fólk áberandi á fjölmennum aðalfundi Framsýnar

Aðalfundur Framsýnar fór fram í gærkvöldi, húsfyllir var á fundinum sem fór vel fram. Fjölmörg mál voru á dagskrá fundarins sem fjallað verður sérstaklega um á heimasíðunni á næstu dögum og í Fréttabréfi sem kemur út um miðjan mánuðinn. Ánægjulegt var að sjá hvað ungt fólk var áberandi á fundinum og voru þau virk í umræðum um einstaka liði.