SGS og Eflingu barst núna eftir hádegið bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem tilkynnt var að sveitarfélögin hefðu einhliða ákveðið að vísa yfirstandandi kjaradeilu til Ríkissáttasemjara. Ástæðan sem tilgreind er og vísað til er ályktun sem samþykkt var í tilefni af kvennafrídeginum á þingi SGS í síðustu viku. Þar var meðal annars var fjallað um stöðu ófaglærða verkakvenna og stöðunni kjaradeilunni.
Sveitarfélögin virðast telja ástæðu til að slíta viðræðum við SGS og Eflingu þegar þau segja hlutina eins og þeir eru alveg óhrædd við að berjast fyrir eðlilegum réttindum og betri kjörum fyrir sitt fólk. Kjarkurinn er nú ekki meiri en svo hjá samninganefnd sveitarfélaganna að þau treystu sér ekki til þess að koma þessu á framfæri á fundi né að hafa samband með beinum hætti við okkur sem sína viðsemjendur.
Er það raunar í samræmi við þeirra framgöngu og málatilbúnað síðan samningar runnu út í apríl, hvort sem það snýr að jöfnun lífeyrisréttinda, innágreiðslum, fyrirkomulag viðræðna eða öðrum atriðum.
það er skrýtinn veruleiki sem birtist í þessu bréfi sveitarfélaganna að telja það ekki ,,að koma illa fram við kvennastéttir og að þeim sé sýnd takmarkalaus lítisvirðing í yfirstandandi viðræðum“ að neita að ræða kröfur þessa hóps, vísa hluta þeirra til dómstóla og sýna sjónarmiðum okkar í engu skilning.
Starfsgreinasambandið mun ekki láta hræða sig frá því að álykta á sínum þingum um það sem brennur á okkar fólki eða standa fast á okkar réttmætu og eðlilegu kröfum.
Það er aftur á móti ljóst að þessi málatilbúnaður sveitarfélaganna stuðlar með engu móti að lausn þessarar alvarlegu deilu og hvaða afleiðingar það getur haft er alfarið á ábyrgð Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Reykjavík 28. október 2019
ps. Framsýn stéttarfélag er aðili að þessari deilu í gegnum Starfsgreinasamband Íslands.