Staðan tekin á Garðvík

Starfsmenn stéttarfélaganna leggja mikið upp úr góðu sambandi við fyrirtæki á svæðinu. Einn liður í því er að fara í heimsókn í fyrirtækin. Í dag fór starfsmaður stéttarfélaganna í heimsókn til Garðvíkur. Guðmundur Vilhjálmsson, eigandi fyrirtækisins fór vel í gegnum hvernig rekstur fyrirtækisins gengur fyrir sig og hvað sé á döfunni. Meðal annars var ný aðstaða fyritækisins á Haukamýri 1 skoðuð en það húsnæði var áður í eigu Steinsteypis. Til stendur að flytja verkstæðisvinnu fyrirtækisins í þetta nýkeypta húsnæði en formleg opnun þess verður 15. nóvember næstkomandi. Sagði Guðmundur að þetta mundi gjörbreyta allri aðstöðu fyrirtækisins, sérstaklega þegar kemur að verslunarhluta þess.

Verkefnastaða Garðvíkur er með ágætum um þessar mundir en 11 starfsmenn voru við störf hjá fyrirtækinu í dag. Garðvík hefur verið með talsvert af verkefnum utan Húsavíkur undanfarið, til dæmis í Fjarðabyggð og á Þórshöfn. Fyrir liggur verkefni í Mývatnssveit en Garðvík hefur einmitt unnið þónokkur verkefni þar á liðnum árum.

Myndina tók Aðalsteinn J. Halldórsson, starfsmaður stéttarfélaganna en þar má sjá Guðmund á nýja verkstæðinu á Haukamýri 1.

 

Deila á