Framsýn í viðræður við Tjörneshrepp

Tjörneshreppur hefur óskað eftir viðræðum við Framsýn stéttarfélag um gerð kjarasamnings fyrir hönd starfsmanna hreppsins. Áður hafði Tjörneshreppur afturkallað samningsumboðið frá samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga.

 Þar sem Starfsgreinasamband Íslands hefur haft samningsumboð Framsýnar vegna sveitarfélaga á félagssvæði félagsins og í ljósi þess að Tjörneshreppur hefur afturkallað samningsumboðið frá samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur Framsýn ákveðið að afturkalla samningsumboðið frá Starfsgreinasambandinu er varðar Tjörneshrepp. Gengið var frá því í dag

 Fullur vilji er til þess innan hreppsnefndar Tjörneshrepps og stjórnar Framsýnar að hefja þegar í stað viðræður um gerð kjarasamnings fyrir starfsmenn hreppsins með það að markmiði að klára gerð kjarasamnings á næstu vikum.

 Þess má geta til viðbótar að ákvörðun Tjörneshrepps þarf ekki að koma á óvart þar sem framkoma Launanefndar sveitarfélaga í garð sveitarfélagsins og reyndar í garð samninganefndar Starfsgreinasambands Íslands hefur verið með miklum ólíkindum.

 

 

Deila á