Flaggstangir og raflínur gefa sig

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hafa raflínur víða gefið sig vegna óveðursins hér norðan- og austanlands. Staurar hafa brotnað eins og tannstönglar. En það eru ekki bara rafmagnsstaurar sem hafa gefið sig heldur gaf flaggstöng stéttarfélaganna sig fyrir helgina en hún stendur við höfuðstöðvar stéttarfélaganna á Húsavík. Það verður því bið á því að hægt verði að flagga við aðalstöðvar stéttarfélaganna á Húsavík.

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar 27. desember

Aðalfundur Sjómannadeildar Framsýnar stéttarfélags verður haldinn föstudaginn  27. desember 2019 í fundarsal félagsins. Fundurinn hefst kl. 17:00.

Dagskrá:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf
  2. Kjaramál
  3. Önnur mál

Boðið verður upp á hefðbundnar veitingar og  óvæntan glaðning. Mikilvægt er að sjómenn láti sjá sig á fundinum.

Stjórn Sjómannadeildar

Aðventuræða í Þóroddstaðakirkju

Það er margt sem rekur á fjörur manns á lífsins leið, sumt fyrirsjáanlegt en annað ekki og það flokkast sannarlega undir það ófyrirséða að mér skuli hlotnast sá heiður að ávarpa ykkur hér í dag.

Jólin eru hátíð ljóss­ins, kær­leik­ans og von­ar­inn­ar og frá örófi alda hefur fólk fagnað þessum tíma. Eftir myrka vetr­ar­mán­uði og kulda fer sólin aftur að hækka á lofti og dag­inn að tekur að lengja. Við þurfum á ljósinu að halda hverju sem við trúum og sennilega taka flestir Íslendingar þátt í jólahaldinu með einum eða öðrum hætti. Jólin koma og þau eru í mínum huga hafin yfir öll trúarbrögð.

Á þessum árstíma leitar hugur minn gjarnan til bernskunnar. Því finnst mér fara vel á því að ég reyni að draga upp svipmynd af bernskujólum fjölskyldu austur á Bakkagerði fyrir um það bil hálfri öld. Við vorum þrjú systkinin sem þá voru fædd og einungis þrjú ár skildu að það elsta og yngsta. Það var því oft „kátt í kotinu“ og mér er sagt að við höfum verið ansi lífleg, svo ekki sé meira sagt. Við áttum nokkrar kindur, eina kú og hundinn Gutta, sem var okkur mjög kær og nánast eins og einn úr fjölskyldunni. „Hann pabbi er samt ekki pabbi hans“ útskýrði eldri bróðir fyrir litlu systur, sem vissi ekkert um lífið, „það er einhver allt annar hundur“.

Á þessum tíma voru menn ekki búnir að finna upp orðið „neyslusamfélag“. Ég efast líka um að nokkur maður í minni sveit hafi þekkt til stórmarkaða eða verslunarmiðstöðva og hugtakið netverslun hefði sennilega verið sett í samband við girðingarefni bænda. Allt sem fólk  þarfnaðist fékkst í Kaupfélaginu og  væri það ekki til þar, var það ekki talið nauðsynlegt. Reyndar voru örlitlar  undantekningar þar á, því fyrir kom að framsýnar húsmæður pöntuðu úr Hagkaupslistanum, þá oftast sloppa til að nota við eldhússtörfin eða nærföt handa börnunum. Þjóðin var almennt ekki þurftarfrek á þessum tíma, því flest allt var endurnýtt. Föt okkar systkinanna voru oft af öðrum börnum og gengu síðan áfram til einhverra annara barna eftir að við uxum upp úr þeim. Þetta heitir víst í dag endurnýting og það þykir mörgum fínt að versla í svokölluðum „second hand“ búðum.

Á áliðnu sumri var frystihúsinu breytt í sláturhús, bátar voru settir og bændur smöluðu fé sínu til réttar. Fuglasöngurinn hljóðnaði, hrímfölið settist að í fjallatoppunum og færðist neðar með degi hverjum. Fullorðna fólkið, aðallega þó karlarnir unnu við sláturhúsið, en samhliða þeirri vinnu voru byggðar litlar fjárréttir af minna fólki heima við bæi. Þeim var skipt skipulega niður í almenning og dilka með snærisspottum, sem festir voru niður með hælum. Þannig yfirfærðum við börnin streð bændasamfélagsins yfir á leik bernskunnar, endurspegluðum veröld fullorðna fólksins og æfðumst smám saman í því að verða samfélagslega virkir einstaklingar. Við rákum til Víkna, rúðum, smöluðum, settum á, keyptum og seldum gimbrar og hrúta. Upplifðum jafnvel óttann við heyleysið. Þegar leið á haustið og sláturtíð lauk, lognaðist búskapurinn okkar einnig út af og doði færðist yfir samfélagið. Það var  eins og allt hægði á sér, líka tíminn. Og það var ekki einu sinni komið sjónvarp í svarthvítu.

Flestar mæður og ömmur voru heimavinnandi á þessum tíma, krakkar léku sér þegar ekki var skóli. Það var ekki mikið til af tilbúnum leikföngum, við vorum mest úti og leiksvæði var á milli fjalls og fjöru. Við urðum þess sjaldan vör að fylgst væri með okkur, en mæður okkar hafa eflaust gripið inn í ef við gengum of langt í vitleysunni. Enda segir einhvers staðar að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn.

Biðin eftir jólunum var litlum börnum löng. Í byrjun desember var dreginn fram  gamli jólasveininn, sprellikarl með gluggum sem opnaðir voru samviskusamlega síðustu 24 dagana fyrir jól. Síðan var þeim lokað aftur, en fyrir næstu jól var sveinki aftur dreginn fram og þannig gekk það ár frá ári. Meðan sveinki entist. Það fylgdi því alltaf gleði að opna gluggana þó það væru sömu myndirnar sem birtust ár eftir ár, jólabjöllur, dádýr, jólasveinar og grenitré. Það var líka sérstakur heiður sem féll í skaut þess sem fékk að opna á aðfangadag, stærsta gluggann og flottustu myndina, af litlu fjölskyldunni í fjárhúsunum og barninu í jötunni. Einum jólum fylgdi þó sérstök gleði, þegar einn morguninn í byrjun aðventu, alveg óumtalað, var komið ofurlítið barn í vöggu inni í stofu. Okkar jólabarn.

Þegar leið á jólamánuðinn fór heldur að lifna í kotinu og skyndilega voru ótal verk sem þurfti að vinna. Hreingera skyldi hvern einasta blett í húsinu, ekki upp úr einu vatni heldur tveimur, fyrst með sápuvatni, svo með hreinu vatni. Það þurfti að mála, sauma föt á börnin og auðvitað þurfti mamma að baka ótal sortir af smákökum, sem geymdar voru í baukum í búrinu og lokin límd tryggilega aftur. Síðustu dagana fyrir jólin lagði hún nótt við dag til að ná því að gera allt sem þurfti og þá var stundum handagangur í öskjunni.

Farnar voru aðdráttarferðir í Kaupfélagið, hillurnar í búrinu fylltust af góðgæti og það var hangikjötsilmur í lofti. Það var meira segja keypt malt, appelsín og kók, ein flaska á mann… og eplakassi. Pabbi þurfti  að sinna fjárhúsunum, setja hrútinn í ærnar og dytta þar að ýmsu smálegu. Í minningunni voru það bestu stundirnar, þegar við feðginin sátum saman á garðabandinu eftir að hafa gefið fénu jólagjöfina. Nutum þess að hlusta á jórtrið í ánum og skrjáfið í ilmandi töðunni.

Hápunktur jólaundirbúningsins náðist á Þorláksmessu. Jólakveðjur til allra landsmanna voru lesnar á Rás 1, einu útvarpsstöðinni sem í boði var. Síðasta aðdráttarferðin var farin í Kaupfélagið, hlaupið með síðastu kortin og pakkana til vina og vandamanna og þegar búið var að kveikja á úti jólaseríunum tveimur sem til voru í þorpinu var jólastemmingin komin í hús. Öfugt við það sem er í dag þegar fólk nýtur upplifunarinnar af því að slökkva ljósin til að geta notið myrkursins, glöddumst við yfir ljósunum sem lýstu upp biksvart myrkrið.

Húsið okkar stóð ögn ofan við þorpið og önnur serían blasti við að heiman, úti á Bökkum þar sem þrír skólabræður okkar áttu heima, fæddir eins og við á sitthvoru árinu og áttu einnig rétt eins og við lítið systkini. Ég öfundaði þá bræður af ríkidæminu þegar marglit ljósin lýstu upp kolsvart skammdegismyrkrið, gul, rauð, græn og blá, naut þess að sitja við gluggann uppi á loftinu og virða þau fyrir mér áður en síðasta athöfn Þorláksmessukvölds var framkvæmd, sjálft jólabaðið.

Jólabaðið fór þannig fram að hitað var vatn í stórum þvottapotti, gamli járnbalinn fékk sitt pláss á eldhúsgólfinu og vorum við týnd ofan í, eitt af öðru, ég fyrst, svo strákarnir. Líklega hef ég notið smæðar minnar þá, því ég man eftir að hafa látið foreldra mína halda á mér upp í rúm eftir baðið, til að þurfa ekki snerta gólfið og óhreinka litlu hreinu tásurnar. Það var gott að skríða undir hrein sængurfötin, í splunkunýjum náttfötum, minning sem kallar einhver notalegheit fram í hugann.

Á aðfangadagsmorgun var ævinlega búið að læsa inn í stofu, foreldrar okkar höfðu vakað fram eftir við að skreyta og ganga frá jólagjöfunum. Þegar jólin hringdu inn var borðaður hátíðarmatur, hangikjöt, rjúpur, eða lambalæri, með meðlæti. Það sem toppaði máltíðina var auðvitað gosið, munaðarvara sem var ekki á borðum á öðrum tímum ársins. Það voru ekki jólagjafir á þessum tíma í líkingu við þær sem gefnar eru í dag, hvorki tölvuleikir, snjallúr, né annað slíkt, en mögulega bók eða spil. En ég tel næsta víst að gleðin og þakklætið yfir gjöfunum hafi ekki verið síðra en það sem gerist í dag, þegar helsta vandamálið við að velja jólagjafirnar er að velja eitthvað sem menn eiga ekki þegar.

Þetta voru jólaminningar bernsku minnar. Þær hljóma kannski einfaldar og klisjukenndar fyrir ykkur sem yngri eruð og þið hugsið eflaust um hvað við hljótum að hafa verið fátæk. Það vorum við sannarlega, en samt vorum við rík. Áttum bæði föður og móður, en það voru ekki allir jafnaldrar okkar svo heppnir.

Tveimur árum eftir að litla jólabarnið bættist hópinn og fyllti húsið okkar gæfu og gleði gerðist það, einnig í byrjun aðventu að faðir skólabræðra okkar á Bökkunum hvarf í hafið. Eftir stóð ekkja með fjóra unga syni. Aðventan var myrk það árið og sorgin lamaði heilt samfélag. Jólin voru óþægileg og kannski komu þau ekki. Jafnvel jólaserían á Bökkunum glataði sjarma sínum. Öfund var fjærst allra hugsana lítillar stelpu sem á Þorláksmessukvöldi virti fyrir sér marglit ljós seríunnar, en þau náðu ekki að vinna þunga myrkursins úr hjartanu.  Þegar sorgin knýr dyra í litlu samfélagi eru samkennd og kærleikur aldrei langt undan, við erum öll hvert öðru tengd og allir finna til.

Tíminn sniglaðist áfram og samfélagið allt hjálpaðist að við að rífa sig upp úr doðanum, til að lífið gæti gengið fyrir sig eins eðlilega og hægt var við þessar aðstæður. Allir tóku þar þátt. Líka við börnin. Þá tíðkaðist ekki að tala um hlutina, en einhvern vegin hélt lífið áfram og smám saman hækkaði sólin aftur á lofti.

Ég hef trúað ykkur hér fyrir því sem ég kalla aðventuheilkennið mitt. Það eru meðal annars minningar bernskujólanna sem hjálpa mér að skynja lífið, sjá í gegnum skrum og markaðshyggju og vinsa úr það sem skiptir máli. Hvað sem líður trúarbrögðum njótum við flest hátíðarinnar sem jólin eru, þau hafa einhvern ytri ramma og inn i hann stillum við því sem okkur finnst skipta mestu máli. Við þurfum öll á ljósinu að halda á dimmasta tímanum hvernig sem við skilgreinum lífið og tilgang þess, en fyrir mér felst gleði jólanna í samveru við þá sem mér þykir vænst um og því að vita að þeim líður öllum vel. Ég óska ykkur öllum kærleiksríkra jóla og farsældar á komandi ári.

Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar stéttarfélags

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þingiðn styrkir Velferðarsjóð Þingeyinga

Þingiðn hefur samþykkt að veita Velferðarsjóði Þingeyinga kr. 50.000,- í styrk en sjóðurinn hefur undanfarið biðlað til einstaklinga, félagasamtaka, fyrirtækja og stofnana um fjárstuðning þar sem þörfin fyrir styrki til einstaklinga og fjölskyldna sem eiga fjárhagslega erfitt um jólin er umtalsverð um þessar mundir.

 

Iðnaðarmenn skilja ekkert í sameiningu atvinnuþróunarfélaga

Stjórn Þingiðnar fundaði síðasta fimmtudag. Mörg mál voru á dagskrá fundarins. Meðal annars urðu umræður um sameiningu atvinnuþróunarfélaganna í Þingeyjarsýslum og Eyjafirði við Eyþing sem er samstarfsvettvangur sveitarfélaga á Norðurlandi. Stjórnarmönnum leist afar illa á sameiningu þessara þriggja félaga/stofnanna og töldu hana ekki vera til hagsbóta fyrir atvinnu- og byggðamál í Þingeyjarsýslum. Veruleg hætta væri á því að sameiningin leiddi til þess að ákveðið frumkvæði fyrir þróun og atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum legðist af. Fyrir liggur að meirihluti stjórnar verður í höndum sveitarfélaga á Eyjafjarðarsvæðinu og ekki er ólíklegt að megin starfsemi félagsins verði á Akureyri. Til viðbótar má geta þess að Akureyringar kröfðust þess að fá stjórnarformennskuna í nýja félaginu. Á næstu vikum verður ráðinn framkvæmdastjóri fyrir sameinað félag sem gengur undir starfsheitinu Norðurbrú.

Þess má geta að stjórn Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga hefur verið skipuð fulltrúum frá sveitarfélögum, atvinnurekendum og stéttarfélögum í Þingeyjarsýslum. Það er góður samstarfsvettvangur fyrir atvinnu- og byggðamál í héraðinu. Ekki er reiknað með aðkomu aðila vinnumarkaðarins í stjórn nýja félagsins auk þess sem þrír sveitastjórnarmenn í Þingeyjarsýslum verða í stjórn af sjö manna stjórn, það er í minnihluta stjórnar Norðurbrúar.

Félagsmenn Framsýnar fá jólaglaðning – hækkun á hámarki einstaklingsstyrkja

Stjórnir sjóðanna Landsmenntar, Sjómenntar, Ríkismenntar og Sveitamenntar, sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn, hafa samþykkt að hækka hámark einstaklingsstyrkja vegna náms/námskeiða og kynnisferða úr kr. 100.000 upp í kr. 130.000 á ári. Nýja reglan tekur gildi um næstu áramót. Uppsafnaður þriggja ára réttur hækkar úr kr. 300.000 í kr. 390.000. Hækkunin tekur gildi 1. janúar 2020 og gildir gagnvart því námi sem hefst á nýju ári. Fjölmargir félagsmenn Framsýnar nýta sér á hverju ári styrki til náms eða námskeiða sem þeir sækja.

Á meðfylgjandi mynd má sjá stjórn Fræðslusjóðsins Landsmenntar ásamt starfsmönnum. Stjórnin fundaði á fimmtudaginn og tók m.a. ákvörðun um að hækka styrki til félagsmanna þeirra stéttarfélaga sem aðild eiga að sjóðnum. Stjórnarformaður sjóðsins er formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni.

 

Þingiðn styrkir Björgunarsveitina Garðar

Eins og kunnugt er hefur mikið verið um útköll hjá björgunarsveitum á Norðurlandi vegna veðurofsans sem gengið hefur yfir landið síðustu daga og ekki er séð fyrir endann á. Ein af þeim björgunarsveitum sem þurft hefur að takast á við krefjandi verkefni er Björgunarsveitin Garðar. Að því tilefni samþykkti stjórn Þingiðnar á fundi í gærkvöldi að styrkja björgunarsveitina um kr. 250.000. Á meðfylgjandi mynd má sjá formann Þingiðnar, Jónas Kristjánsson, afhenda fulltrúum björgunarsveitarinnar þeim Ástþóri og Birgi gjöfina til sveitarinnar og konfekt til þeirra björgunarsveitarmanna sem standa vaktina í stjórnstöðinni. Afhending gjafarinnar fór fram í hádeginu.

 

Gleði í aðventukaffi stéttarfélaganna

Stéttarfélögin voru með opið hús um síðustu helgi, það er laugardaginn 15. desember. Fjölmargir lögðu leið sína í kaffið. Boðið var upp á tertur með kaffinu og tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Húsavíkur. Yfir 150 manns mættu í þessa árlegu gleði sem tókst í alla staði mjög vel. Stéttarfélögin þakka gestum og tónlistarmönnum fyrir komuna og skemmtunina. Sjá myndir sem teknar voru í jólakaffi stéttarfélaganna.

Frá Lionsklúbbi Húsavíkur – Zaproszenie Kolonoskopia

Á undanförnum árum hefur Lionsklúbbur Húsavíkur komið að forvarnarstarfi í heilbrigðismálum. Í haust stóð klúbburinn fyrir átaki í skimun á sykursýki með mælingum á blóðsykri einstaklinga í Þingeyjarsýslum. Félagar í Lions klúbbnum stóðu að þessum mælingum og fengu aðstoð frá heilbrigðisstarfsfólki. Niðurstaða þessarar skimunar á undangengnum árum, var sú að margir fengu viðvörun um háan blóðsykur og fleiri en einn greindist með sykursýki, þannig að segja má að þetta skimunarátak hafi borið árangur. Mæling á Húsavík var 16. nóv. Síðastliðinn.
Lionsklúbbur Húsavíkur og Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík hafa í allmörg ár staðið fyrir hvatningarátaki varðandi skimun fyrir ristilkrabbameini sem er lúmskur vágestur og gerir sjaldan boð á undan sér, en á Íslandi greinast 100 – 150 einstaklingar á hverju ári með slíkt krabbamein. Miklu skiptir varðandi framtíðarhorfur að greina þetta krabbamein á frumstigi. Niðurstaða starfshóps á vegum Landlæknis skilaði skýrslu árið 2002 og mælti þá með að skimun yrði hafin fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi á Íslandi. Krabbameinsfélag Íslands hefur tekið að sér skimun á landsvísu sem miðast við 60 – 70 ára aldur og felst í leit að blóði í hægðum en sú skimun hefur enn ekki hafist.
HSN og Lionsklúbbur Húsavíkur hefur ákveðið að halda áfram sínu hvatningarátaki á næstu árum, enda er þar um annan aldurshóp að ræða og er hægt að líta svo á að landsskimun Krabbameinsfélags Íslands taki við eftir 60 ára aldurinn. Þetta hvatningarátak byrjaði árið 2012 og var það ár öllum konum og körlum 55 ára boðin ókeypis ristilspeglun og þannig byrjað á þeim Þingeyingum sem fæddust á árinu 1957. Árið 2013 mætti síðan árgangur 1958, og svo koll af kolli og á árinu 2020 verður árgangi 1965 boðin skimun. Afar góð þátttaka hefur verið í þessari skimun. Rétt er að taka fram að á HSN Húsavík eru mjög fullkomin speglunartæki, sem voru keypt fyrir gjafafé ýmissa félagasamtaka, einstaklinga og fyrirtækja og eru því aðstæður góðar til slíkrar skimunar á Húsavík. HSN mun sjá um skipulagningu og framkvæmd speglunar en Lionsklúbbur Húsavíkur verður fjárhagslegur bakhjarl og hefur klúbburinn leitað eftir fjárframlögum frá fjölmörgum aðilum og hafa undirtektir verið afar jákvæðar.
Ef svo færi að einhver sem fæddur er 1965 fái ekki boðsbréf er hann beðinn að hafa samband við HSN á Húsavík í síma 464-0500. Kær kveðja Heilbrigðisstofnun Norðurlands Húsavík og Lionsklúbbur Húsavíkur

Drogi odbiorco.

Milo jest nam powiadomic iz duza grupa wziela udzial w badaniu Kolonoskopi które zostalo zaproponawane po przez klub Lions w Húsavíku oraz Osrodek Zdrowia dla osób urodzonych w roku 1964 mieszkajacych w ich okregu.
Jednakze, kilka osób z tego rocznika jeszcze sie nie zapisalo sie na badanie i przypomiamy iz jest nadal mozliwosc do zapisania sie w Osrodku Zdrowia do 20.maja pod numerem telefonu 464-0500
Naszym zyczeniem jest aby jak najwicej osób wykozystalo ta szczególna i darmowa oferte, która nei byla oferowana innym Islandczykom do tej pory.
Te osoby które juz zapisaly sie na badanie, przepraszamy za wszelkie niedogodnosci tego listu.

Z pozdrowieniami,
Klub Lions w Húsavíku oraz
Osrodek Zdrowia Þingeyinga
Lionsklúbbur Húsavíkur og
HSN á Húsavík

 

Viltu starfa fyrir Framsýn – Kjörnefnd við störf

Um þessar mundir er Kjörnefnd Framsýnar að störfum. Tilgangur Kjörnefndar er að stilla upp í trúnaðarstöður á vegum félagsins til næstu tveggja ára, frá og með næsta aðalfundi félagsins sem haldinn verður í síðasta lagi fyrir lok maímánaðar 2020. Hafir þú áhuga á því að gefa kost á þér í trúnaðarstörf fyrir félagið ert þú vinsamlegast beðin(n) um að samband sem fyrst við formann Kjörnefndar, Ósk Helgadóttir. Netfang hennar er okkah@hotmail.com, sem jafnframt veitir frekari upplýsingar.

Skipting eftirlaunaréttinda milli hjóna

Starfsmenn stéttarfélaganna fá reglulega fyrirspurnir frá félagsmönnum varðandi það hvort hjón geti gert samkomulag um skiptingu á eftirlaunagreiðslum eða eftirlaunaréttindum.

Í  lögum um lífeyrissjóði er ákvæði sem heimilar hjónum og sambúðarfólki að gera samkomulag um skiptingu á eftirlaunagreiðslum eða eftirlaunaréttindum. Ákvæðið er hugsað sem jafnréttis- eða sanngirnismál, til að jafna réttindi þeirra sem verið hafa í á vinnumarkaði og þeirra sem hafa verið heimavinnandi. Skiptingin getur numið allt að 50% af eftirlaunaréttindum og hún skal vera gagnkvæm sem þýðir að ekki er hægt að skipta aðeins réttindum  annars aðilans.

Heimilt er að skipta réttindum til eftirlauna með þrennum hætti:

 Lífeyrisgreiðslum skipt

Greiðslur sjóðfélaga renna þá allt að hálfu til maka eða fyrrverandi maka. Þetta er tímabundin ráðstöfun á meðan báðir aðilar eru á lífi.

Áunnum lífeyrisréttindum er skipt

Gera þarf samninginn fyrir 65 ára aldur og áður en lífeyristaka hefst. Ef sjúkdómar eða heilsufar draga úr lífslíkum er hægt að gera slíkan samning.

Framtíðarréttindum er skipt

Sjálfstæð réttindi myndast fyrir maka til að jafna lífeyrisréttindi til framtíðar.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir í hverju skiptingin er fólgin áður en hún er ákveðin.  Eingöngu er verið að skipta rétti til eftirlauna. Réttur til örorku og makalífeyris helst óbreyttur. Í þeim tilfellum þar sem um er að ræða ævilangan makalífeyri má segja að búið sé að jafna réttindi að nokkru leyti.

Tekjutenging Tryggingastofnunar gagnvart greiðslum frá lífeyrissjóðum getur einnig flækt málið.

Skiptingin getur valdið því að heildargreiðslur til sjóðfélaga og maka frá Tryggingastofnun lækka en óljóst er hvernig reglur Tryggingastofnunar kunna að breytast í framtíðinni. Frekari upplýsingar má finna á vefnum lifeyrismal.is og samantekt Stapa um makasamninga sem birt var í frétt hjá sjóðnum.

Orðsending frá Velferðarsjóði

Velferðasjóður Þingeyinga biður ykkur um fjástuðning. Velferðasjóðurinn er sjóður okkar, til að styðja þá sem minna mega sín hér í Þingeyjarsýslum.

Sjóðurinn byggir eingöngu á frjálsum framlögum og því biðjum við fyrirtæki, stofnanir og einstaklinga, að láta fé af hendi rakna til þessara líknarmála.

Allt fé sem inn kemur rennur til að aðstoða nauðstadda hér á okkar svæði.

Bankareikningur okkar er 1110-05-402610

Kennitala er 600410-0670

Öll framlög eru vel þegin.

Um leið og við þökkum fyrir stuðning liðinna ára óskum við ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

fyrir hönd Velferðasjóðsins

sr.Örnólfur á Skútustöðum

Jólagleði í boði stéttarfélaganna

Stéttarfélögin verða með opið hús í fundarsal stéttarfélaganna laugardaginn 14. desember frá kl. 14:00 til 17:00. Boðið verður upp á kaffiveitingar, tertur, tónlist og þá fá börnin smá glaðning frá félögunum. Að venju eru allir velkomnir. Sjáumst hress og í jólaskapi.

Stéttarfélögin

Góðir skóla- og námskeiðsstyrkir til félagsmanna og fyrirtækja

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum styrkja fullgilda félagsmenn sem sækja námskeið eða stunda nám með vinnu. Styrkirnir koma frá fræðslusjóðum sem félögin eiga aðild að. Einnig er hægt að sækja til viðbótar um sérstaka námsstyrki frá félögunum sjálfum. Vinsamlegast leitið upplýsinga á skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík. Fyrirtæki og stofnanir á félagssvæðinu eiga einnig rétt á styrkjum til námskeiðahalds fyrir starfsmenn sé vilji til þess meðal þeirra að standa fyrir eigin fræðslu innan fyrirtækja og/eða stofnanna.

Framsýn kallar eftir upplýsingum frá sveitarfélögum um greiðslur til tímakaupsfólks

Nýverið vann Verkalýðsfélag Akraness mál gegn Sambandi íslenskra sveitarfélaga í Félagsdómi varðandi rétt tímavinnukaups til eingreiðslu sem samið var um í haust milli samningsaðila auk þess varðar þetta líka orlofs- og desemberuppbótina í gegnum tíðina. Meðfylgjandi þessari frétt er umfjöllun tekin af heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness sem varðar málið.

Framsýn hefur með bréfi í morgun kallað eftir upplýsingum frá sveitarfélögunum í Þingeyjarsýslum, hvort þau hafi mismunað tímakaupsfólki með þeim hætti sem greinir í máli þessu. Það er að tímavinnufólk hafi ekki setið við sama borð og fastráðið fóllk varðandi einstakar greiðslur, orlofs- og desemberuppbætur.

(Tekið af heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness)

“Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá vann Verkalýðsfélag Akraness mál gegn Sambandi íslenskra sveitafélaga er laut að rétti tímakaupsfólks til eingreiðslu að fjárhæð 42.500 kr. sem greidd var þann 1. febrúar á þessu ári.

En á óskiljanlegan hátt túlkaði Samband íslenskra sveitafélaga þessa eingreiðslu með þeim hætti að skilja ætti tímakaupsfólk eitt eftir án réttar til greiðslunnar.

Það er skemmst frá því að segja eins áður hefur komið fram að Félagsdómur tók undir allar dómkröfur Verkalýðsfélags Akraness og vann félagið því fullnaðar sigur í málinu sem kom formanni ekki á óvart enda blasti við að málatilbúnaður Sambands íslenskra sveitafélaga stóðst ekki eina einustu skoðun.

En það er morgunljóst að þessi dómur hefur mikið fordæmisgildi enda voru rök lögmanns Sambands íslenskra sveitafélaga þau að hvorki Reykjavíkurborg né ríkið hafi greitt umrædda eingreiðslu til starfsmanna sem tóku laun eftir tímakaupi.

Það er ekki bara það að Sveitafélögin, Ríkið og Reykjavíkurborg þurfi að greiða tímakaupsfólki umrædda eingreiðslu sem kemur út úr þessum dómi, heldur einnig það að búið er að hlunnfara tímakaupsfólk illilega þegar kemur að því að reikna út rétt til orlofs-og desemberuppbótar.

En sveitafélögin hafa einungis reiknað dagvinnutíma út þegar verið er að reikna út starfshlutfall sem myndar rétt til hversu háar orlofs-og desemberuppbætur tímakaupsfólk á rétt á, en ekki allt vinnuframlag þeirra eins og vinnu sem unnin er utan dagvinnutíma. En í dómi Félagsdóms er skýrt kveðið á um að starfshlutfall eigi að reiknast í samræmi við vinnuframlag.

Þetta hefur gert það að verkum að Verkalýðsfélag Akraness hefur nú þegar gert þá kröfu á Akraneskaupstað að sveitafélagið leiðrétti útreikning á orlofs-og desemberuppbótum tímakaupsfólks 4 ár aftur í tímann.

En það er alveg ljóst að þó nokkuð margir starfsmenn sveitafélaganna vítt og breitt um landið eiga rétt á leiðréttingu og það er verulega umhugsunarvert  hvernig Samband íslenskra sveitafélaga túlkar ranglega réttindi þeirra sem lökustu kjörin hafa hjá sveitafélögunum.

En eins og áður sagði hefur þessi dómur umtalsvert fordæmisgildi fyrir tímakaupsfólk og hvetur formaður Verkalýðsfélags Akraness starfsmenn vítt og breitt um landið sem og þá sem starfa hjá ríki og Reykjavíkurborg að kanna réttarstöðu sína í ljósi þessa dóms.”

Lesa má dóminn í held inn á heimasíðu stéttarfélagsins

 

 

 

Fært á Skrifstofu stéttarfélaganna

Í morgun hefur verið unnið að því að ryðja snjó frá Skrifstofu stéttarfélaganna með handafli og stórvirkum vinnuvélum þannig að nú ættu allir þeir sem erindi eiga á skrifstofuna að hafa gott aðgengi að skrifstofunni og þar með starfsmönnum.

Hlutastörf lækka tekjur kvenna út ævina

Mun hærra hlutfall kvenna en karla á Íslandi vinnur hlutastörf, sem hefur mikil áhrif á tekjur þeirra allt fram á efri ár. Rannsóknir sýna að um þriðjungur kvenna vinnur hlutastörf en á bilinu sex til fjórtán prósent karla, en hlutfallið sveiflast meira milli tímabila hjá körlum.

Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á ástæðu þess að konur og karlar vinna hlutastörf og þær hafa leitt ýmislegt í ljós. Í norrænni samanburðarrannsókn frá árinu 2014 kemur fram að algengasta ástæðan fyrir því að konur vinna hlutastörf er sú ábyrgð sem þær taka á fjölskyldunni. Um þriðjungur hlutastarfandi kvenna gefur þá ástæðu.

Þegar svör karla eru skoðuð kemur í ljós að enginn þeirra valdi sér hlutastarf vegna fjölskylduaðstæðna. Almennt virðast karlar fremur vinna hlutastörf vegna menntunar, eigin heilsu eða annarra ástæðna. Aðrar rannsóknir sem ná til fólks í hlutastörfum í öðrum Evrópulöndum sýna sömu niðurstöður, um þriðjungur kvenna vinnur hlutastarf vegna fjölskylduábyrgðar en einungis um sex prósent karla.

Þessi munur á atvinnuþátttöku kynjanna getur haft margvíslegar fjárhagslegar afleiðingar fyrir konur út ævina. Lægri atvinnuþátttaka skilar sér ekki bara í lægri tekjum á vinnumarkaði, heldur einnig í lægri lífeyrisgreiðslum kvenna.

Stytting vinnuviku getur breytt miklu

BSRB hefur lengi talað fyrir því að jafna þurfi stöðu kynjanna á vinnumarkaði og inni á heimilum. Stytting vinnuvikunnar er einnig gríðarstórt jafnréttismál, en rannsóknir sýna að styttri vinnuvika geti stuðlað að því að konur leiti síður í hlutastörf og karlar taki aukna ábyrgð á umönnun barna og heimilisstörfunum.

Það er von BSRB að með styttingu vinnuvikunnar takist að breyta hefðbundnum hugmyndum um hlutverk kynjanna með því að stuðla að jafnari skiptingu ábyrgðar á launuðum sem ólaunuðum störfum. En ekki síst að stytting vinnuvikunnar leiði til þess að störf sem gjarnan eru kölluð kvennastörf verði metin af verðleikum í launasetningu og með betri vinnutíma. (Þessi frétt er tekin af heimasíðu BSRB)

Lestu meira um baráttu BSRB fyrir styttingu vinnuvikunnar hér.

Um þriðjungur kvenna á Íslandi vinnur hlutastörf sem lækkar tekjur þeirra og í kjölfarið greiðslur úr lífeyrissjóðum.

 

 

Rólegt – fáir á ferðinni

Á hverjum degi leita yfir hundrað manns á Skrifstofu stéttarfélaganna eftir upplýsingum í formi heimsókna á skrifstofuna og/eða með því að senda netpósta á starfsmenn. Það átti þó ekki við í gær enda brjálað veður á Húsavík. Sama staðan er í dag, veðrið er hundleiðinlegt og því fáir á ferðinni. Starfsmenn stéttarfélaganna börðust til vinnu í morgun og eru að venju klárir að þjónusta félagsmenn í dag þrátt fyrir að þó nokkuð sé um að fyrirtæki og stofnanir séu lokaðar í dag.

Það er ekki mikið líf á Skrifstofu stéttarfélaganna upp á morguninn.

Góður fundur um leikskólamál

Framsýn stóð fyrir fundi með foreldrum ungbarna á Húsavík í síðustu viku ásamt stjórnendum Norðurþings. Umræðuefnið var aðgengi ungbarna að Leikskólanum Grænuvöllum og hækkanir leikskólagjalda. Einnig urðu umræður um álögur vegna fasteignagjalda á Húsavík. Fundurinn var fjölsóttur og voru fundarmenn sammála um að hann hefði verið upplýsandi og góður. Foreldrar höfðu ákveðið frumkvæði að fundinum en þau leituðu til Framsýnar með ósk um aðkomu félagsins að málinu sem að sjálfsögðu var orðið við.