Funduðu í gær um viðbrögð við Covid 19

Samtök atvinnurekanda í Þingeyjarsýslum stóðu fyrir fundi í gær með sveitarstjóra Norðurþings og formanni Framsýnar stéttarfélags um stöðuna á vinnumarkaðinum. Fundurinn var vinsamlegur og árangursríkur og fór fram á skrifstofu stéttarfélaganna. Fullur vilji er meðal aðila að vinna saman og miðla málum er varðar stöðu fyrirtækja í Norðurþingi og þar með starfsmanna. Næsti stöðufundur er hugsaður næsta föstudag.

Aðgerðir vegna samdráttar á vinnumarkaði

Mikil óvissa ríkir nú á íslenskum vinnumarkaði eftir að lýst hefur verið yfir heimsfaraldri vegna kórónuveirunnar. Nú þegar hefur orðið mikill samdráttur í ferðaþjónustu og tengdum atvinnugreinum og stöðugt berast upplýsingar um aðgerðir erlendis frá sem leiða til frekari samdráttar. Hér er um fordæmalausar og tímabundnar aðstæður á vinnumarkaði að ræða sem mikilvægt er að bregðast hratt við af festu og framsýni.

Markmið ASÍ er að verja launafólk og fyrirtæki vegna tímabundinna áfalla þannig að einstaklingar verði fyrir sem minnstum skaða, bæði fjárhagslegum og félagslegum, og að fyrirtæki komist í gegnum tímabundinn samdrátt og komi sterk til baka þegar úr rætist. Mikilvægur þáttur þess er að fyrirtæki grípi ekki til uppsagna eða aðgerða sem ganga á rétt starfsmanna. Það gildir jafnt um íslenskt og erlent launafólk.

Nú er unnið að löggjöf sem gerir ráð fyrir að fyrirtæki geti samið tímabundið við starfsfólk sitt um skert starfshlutfall en að starfsmenn fái á móti greiddar atvinnuleysisbætur. Útfærsla á slíkri löggjöf liggur ekki fyrir en þess er vænst að ný lög um þetta efni verði samþykkt síðar í þessari viku.

Stéttarfélögin, þar á meðal Framsýn, STH og Þingiðn, munu upplýsa félagsmenn sína um efni laganna um leið og það liggur fyrir og leiðbeina félagsmönnum sínum um framhaldið. Við hvetjum launafólk til að fylgjast vel með framvindu mála og bíða með að ganga til samninga við atvinnurekendur sína um mögulegar aðgerðir þar til þetta liggur fyrir.

 

STH aflýsir kynningarfundum

Starfsmannafélag Húsavíkur hefur ákveðið að aflýsa tveimur kynningarfundum um nýgerða kjarasamninga sem félagið á aðild að og tengjast félagsmönnum sem vinna hjá ríkinu og sveitarfélögum í Þingeyjarsýslum. Til stóð að halda fundina á miðvikudaginn í húsnæði stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26. Þetta er gert til að verjast Covid 19 veirunni.

Félagsmönnum er bent á að fara inn á heimasíðu BSRB til að kynna sér helstu atriði samninganna. Þá verður einnig reynt að upplýsa félagsmenn í gegnum heimasíðu stéttarfélaganna www.framsyn.is.

Atkvæðagreiðslan verður rafræn og munu félagsmenn fá frekari upplýsingar til sín á næstu dögum en atkvæðagreiðslan hefst síðar í þessari viku. Sé eitthvað óljóst er félagsmönnum STH velkomið að hafa samband við formann félagsins, Helgu Þuríði, og/eða Skrifstofu stéttarfélaganna.

 

Framsýn hefur áhyggjur af atvinnulífinu – kallar eftir samstöðu meðal hagsmunaaðila

Eins og kunnugt er herjar Covid 19 veiran á heimsbyggðina, þar á meðal á Ísland. Heilbrigðisyfirvöld á Íslandi og víða um heim vinna markvist að því að bregðast við þessum alvarlega vanda með öllum tiltækum ráðum.

Það er ekki bara ástæða til að hafa áhyggjur af heilsufari fólks heldur er atvinnulífið líka undir og þar með lífsviðurværi fólks og rekstur sveitarfélaga.  Undanfarna daga hefur töluvert álag verið á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík þar sem atvinnurekendur í Þingeyjarsýslum hafa verið að leita ráða er varðar stöðuna og starfsmannahald. Fyrirtæki hafa skuldbindingar gagnvart sínum starfsmönnum og sjá fram á erfiða tíma og tekjusamdrátt. Vissulega standa fyrirtækin misvel en sum þeirra reikna með að þurfa að bregðast við með uppsögnum eða með því að semja við starfsmenn að taka á sig kjaraskerðingar og jafnvel skert starfshlutfall. Vitað er að ríkistjórnin er með ákveðnar hugmyndir sem ganga út á að koma til móts við fyrirtæki í þessum mikla vanda sem verða væntanlega kynntar á allra næstu dögum.

Með bréfi til sveitarfélaga á félagssvæði Framsýnar, sem fór frá félaginu í gær, hvetur félagið sveitarfélög í Þingeyjarsýslum til að bregðast við þessum alvarlega vanda með því að setja á fót aðgerðarhóp sem hafi það að markmiði að vinna að hagsmunum atvinnulífsins á svæðinu. Slíkur aðgerðarhópur verði skipaður fulltrúum sveitarfélaga, stéttarfélaga, atvinnurekanda(SANA) og jafnvel fjármálastofnana á svæðinu, Íslandsbanka, Landsbankans og  Sparisjóðs Suður Þingeyinga sem hafa mikilla hagsmuna að gæta að vel fari.

Framsýn lýsir sig reiðubúið að koma að þessari vinnu með sveitarfélögunum enda hafi þau forgöngu um að slíkir starfshópar verði myndaðir í hverju sveitarfélagi eða sameiginlegur starfshópur á vegum sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum. Að mati Framsýnar er mikilvægt að slíkur starfshópur/hópar verði myndaðir þegar í stað utan um atvinnulífið í héraðinu og þar með starfsfólkið sem treystir á að halda vinnunni. Takist ekki að verja atvinnulífið mun atvinnuleysið á svæðinu aukast á næstu vikum og mánuðum.

 

Ljósmyndar fjölmenningu – áhugavert verkefni í gangi

Erlendir félagsmenn verða í forgrunni ljósmyndaverkefnis sem Framsýn stéttarfélag vinnur að með Agli Bjarnasyni ljósmyndara á Húsavík. Egill er með BA í stjórnmálafræði og MA í blaðamennsku. Verkefnið sem er afar áhugavert kemur til með að standa yfir í nokkra mánuði.

Verkefninu er ætlað að kynna bakgrunn og störf þeirra sem hafa sest að í Þingeyjarsýslum á síðustu árum eða áratugum.

Þingeyjarsýslurnar eru orðnar með fjölmenningarlegri stöðum á landinu og erlendir íbúar um þriðjungur félagsmanna í Framsýn.

Með heimildaljósmyndun og viðtölum, er markmiðið að ná utan um þessar forvitnilegu breytingar og undirstrika styrk atvinnusvæðis þar sem æ fleiri kjósa að búa.  Reiknað er með að verkefninu ljúki í sumar og þá verði opnuð ljósmyndasýning og smá umfjöllun um þá sem myndirnar eru af.

 

 

 

Orðsending til veiðifélaga í Þingeyjarsýslum

Töluvert hefur borið á því að starfsmenn sem starfað hafa hjá veiðiheimilum á félagssvæði Framsýnar hafi verið í sambandi við félagið vegna óánægju með starfskjör, önnur réttindi og aðbúnað. Framsýn brást við þessum aðstæðum síðasta sumar með því að skrifa forsvarsmönnum veiðiheimila í Þingeyjarsýslum bréf varðandi þessa þætti og ítrekaði mikilvægi þess að veiðifélögin hefðu þessi í mál í lagi samkvæmt ákvæðum kjarasamninga. Sum veiðifélögin brugðust vel við og ætla að bæta úr meðan önnur sögðust vera með sín mál í lagi.

Því miður sáu ekki öll veiðifélögin ástæðu til að svara erindi stéttarfélagsins.  Rétt er að geta þess að málefni starfsmanna í veiðiheimilum hafa verið til umræðu á vetfangi Starfsgreinasambands Íslands. Framkvæmdastjóri sambandsins hefur meðal annars fundað með forsvarsmönnum Landssambands veiðifélaga. Til stendur að gera átak í sumar þar sem flest ef ekki öll veiðiheimili landsins verða heimsótt og kallað eftir upplýsingum um starfsemina. Ekki er ólíklegt að opinberir aðilar verði með í för og taki þátt í eftirlitinu. Framsýn skorar hér með á veiðifélögin í Þingeyjarsýslum að hafa þessi mál í lagi eins og lög og reglur á vinnumarkaði kveða á um, nú þegar ráðningar standa yfir vegna veiðitímabilsins sumarið 2020.

Þjónusta stéttarfélaganna vegna COVID-19 / Leiðir til að hafa samband

Þar sem stjórnvöld hafa lýst yfir neyðarstigi vegna COVID- 19 veirunnar vilja stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum beina þeim tilmælum til félagsmanna sinna að sækja sér þjónustu félaganna sem mest í gegnum netið www.framsyn.is eða í síma 4646600 eins og unnt er. Flesta þjónustuþætti stéttarfélaganna má nálgast rafrænt en þeir sem eiga brýnt erindi eru ávallt velkomnir á Skrifstofu stéttarfélaganna. Opnunartími 08:00 – 16:00.

Senda má fyrirspurnir á eftirfarandi netföng:

Aðalsteinn Árni:               kuti@framsyn.is

Jónína:                                 nina@framsyn.is

Linda:                                   linda@framsyn.is

Aðalsteinn J:                      framsyn@framsyn.is

Haukur:                               bokhald@framsyn.is

Ágúst:                                  virk@framsyn.is

Framsýn stéttarfélag
Starfsmannafélag Húsavíkur
Þingiðn, félag iðnaðarmanna

 

Skjól í skeggi

Það kemur sér vel um þessar mundir að hafa smá skegg til að verjast kuldatíðinni í vetur. Öðlingarnir Hörður Sigurðsson og Erlendur Hallgrímsson eiga það sameiginlegt að skarta fallegu skeggi og starfa hjá Húsasmiðjunni á Húsavík. Daglega kappkosta þeir að veita viðskiptavinnum góða þjónustu.

 

Kynningarfundur um kjarasamning við ríkið – félagsmenn Framsýnar

Framsýn boðar til kynningarfundar um nýgerðan kjarasamning félagsins við ríkið fimmtudaginn 19. mars. Fundurinn verður í fundasal stéttarfélaganna og hefst kl. 17:00. Atkvæðagreiðsla um samninginn verður rafræn og munu félagsmenn Framsýnar fá kjörgögn heim til sín á næstu dögum. Kjarasamningurinn nær til félagsmanna Framsýnar sem starfa hjá ríkisstofnunum s.s. hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, Vegagerðinni, framhaldsskólum og Skógrækt ríkisins.

Framsýn stéttarfélag

 

Starfsmenn Tjörneshrepps kátir

Atkvæðagreiðslu um kjarasamning Framsýnar og Tjörneshrepps vegna starfsmanna hreppsins er lokið. Henni lauk formlega 2. mars. Kosningaþátttaka var 66.7%. Atkvæðagreiðslan fór þannig, já sögðu 66,7%. Nei sögðu 0% og auðir og ógildir seðlar voru 0%. Samningurinn skoðast því samþykktur.  Kjarasamningurinn byggir á samningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsgreinasambands Íslands sem Framsýn á aðild að. Kjarasamningurinn við Tjörneshrepp er nokkuð hagstæðari þar sem kveðið er á um að starfsmenn fái 4 launaflokka til viðbótar gildandi starfsmati.

 

STH boðar til kynningarfunda um nýgerða kjarasamninga

STH boðar til kynningarfundar um kjarasamning við ríkið
Starfsmannafélag Húsavíkur boðar til kynningarfundar um nýgerðan kjarasamning félagsins við ríkið miðvikudaginn 18. mars. Fundurinn verður í fundarsal stéttarfélaganna og hefst kl. 17:00.

STH boðar til kynningarfundar um kjarasamning við sveitarfélögin
Starfsmannafélag Húsavíkur boðar til kynningarfundar um nýgerðan kjarasamning félagsins við Samband íslenskra sveitarfélaga miðvikudaginn 18. mars. Fundurinn verður í fundarsal stéttarfélaganna og hefst kl. 20:00.

Starfsmannafélag Húsavíkur

 

STH -Bæjarstarfsmenn undirrita kjarasamning

Samninganefnd BSRB gagnvart Sambandi íslenskra sveitarfélaga, fyrir hönd 14 aðildarfélaga BSRB, skrifaði rétt eftir miðnætti í gær undir nýjan kjarasamning við samninganefnd Sambandsins með fyrirvara um samþykki félagsmanna. Samningurinn nær til 7000 félagsmanna sem starfa hjá sveitarfélögunum og gildir frá 1. apríl 2019 til 31. mars 2023. Boðuðum verkföllum sem áttu að hefjast á miðnætti hefur fyrir vikið verið aflýst.

Meðal helstu atriða kjarasamningsins eru sem nær til félagsmanna Starfsmannafélags Húsavíkur:

  • Stytting vinnuvikunnar sem hefur um árabil verið eitt af helstu baráttumálum BSRB
  • Laun hækka í samræmi við lífskjarasamninginn svokallaða
  • Stofnun Félagsmannasjóðs sem felur í sér 80 þúsund króna árlega greiðslu til félagsmanna
  • 30 daga orlof fyrir alla

Hinn nýi kjarasamningur verður kynntur félagsmönnum á næstu dögum.

Þríhliða sátt um viðbrögð við COVID-19

Ríkisstjórn Íslands, Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafa náð þríhliða samkomulagi um aðgerðir til þess að hægja á útbreiðslu COVID-19 veirunnar hér á landi með því að tryggja að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að fara í sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.

Mikill fjöldi launafólks hefur að tilmælum yfirvalda farið í sóttkví sem felur það í sér að það getur ekki sótt vinnu auk þess sem öll samskipti eru takmörkuð. Slíkt felur í sér mikla röskun á högum og daglegu lífi. Miklir samfélagslegir hagsmunir eru fólgnir í því að sóttkví sé haldin og hægt á útbreiðslu veirunnar. Af þeim ástæðum verður að tryggja að það launafólk sem sætir sóttkví  þurfi ekki að óttast um afkomu sína meðan á henni stendur.

Aðilar hafa því orðið ásáttir um eftirfarandi:

  1. Samtök atvinnulífsins munu beina þeim tilmælum til atvinnurekenda að laun verði greidd til einstaklinga sem sæta sóttkví að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda.
  2. Alþýðusamband Íslands mun beina þeim tilmælum til aðildarsamtaka sinna að sjóðfélagar í sjúkrasjóðum þeirra sem sýkjast njóti óskertra greiðslna úr sjóðunum að tæmdum veikindarétti.
  3. Stjórnvöld munu beita sér fyrir að breytingar verði gerðar á lögum um sjúkratryggingar í þá veru að atvinnurekendi, sem greiðir launamanni sem sætt hefur eða mun sæta sóttkví laun, geti krafið sjúkratryggingar um endurgreiðslu kostnaðar að ákveðnu hámarki séu tilteknar aðstæður fyrir hendi eins og til dæmis að launamaður geti ekki sinnt vinnu heiman frá sér. Unnið verði að útfærslu á þeirri aðkomu stjórnvalda og gildistíma og stefnt verði að því að þeirri vinnu verði lokið 13. mars.

Meðan á sóttkví stendur reynir ekki á veikindarétt almenns launafólks, frekar en opinberra starfsmanna, en sjúkrasjóðirnir þurfa að vera reiðubúnir til að taka við þeim sem veikjast og tæma veikindarétt sinn af þeim ástæðum.

Hvað þessa yfirlýsingu varðar mun Framsýn stéttarfélag tryggja að félagsmenn sem hugsanlega sýkjast njóti óskertra greiðslna úr sjúkrasjóði félagsins að tæmdum veikindarétti hjá viðkomandi atvinnurekanda.

 

Samningur undirritaður við ríkið í dag

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands, fyrir hönd 18 aðildarfélaga sinna, skrifaði í dag undir nýjan kjarasamning við samninganefnd ríkisins með fyrirvara um samþykki félagsmanna í atkvæðagreiðslu. Samningurinn gildir frá 1. apríl 2019 til 31. mars 2023 og nær til félagsmanna Framsýnar sem starfa hjá ríkinu. Það er meðal annars hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Skógrækt ríkisins, Vegagerðinni, framhaldsskólunum á Húsavík og Laugum og hjá Vatnajökulsþjóðgarði.

Helstu atriði samningsins eru sem hér segir:

  • Laun hækka í samræmi við lífskjarasamninginn og hækka frá 1. apríl 2019.
  • Lágmarksorlof hjá öllum starfsmönnum verður 30 dagar.
  • Markviss skref til styttingar vinnuvikunnar. Frá 1. janúar 2021 styttist vinnuvikan um samtals 65 mínútur fyrir fólk í fullu starfi.
  • Vinnuvika vaktavikufólks verður 36 stundir m.v. fullt starf og nýtt launamyndunarkerfi tekið upp. Breytingar á fyrirkomulagi vaktavinnu sem býður upp á manneskjulegra umhverfi með styttri vinnuviku, þar sem miðað er að bættri heilsu, auknu öryggi og betri samþættingu einkalífs og vinnu.
  • Tekin er upp ný launatafla sem byggir á álagsþrepum en ekki aldurþrepum, í tengslum við það eru stofnannasamningar endurskoðaðir og er ráðstafað allt að 142 milljónum króna vegna þessa.
  • Framlag í orlofssjóð hækkar.
  • Fellt út ákvæði um að heimilt sé að láta fólk gista í tjöldum.
  • Full orlofsuppbót hækkar úr 50.000 kr. árið 2019 í 53.000 kr. árið 2022.
  • Full persónuuppbót (desemberuppbót) hækkar úr 92.000 kr. árið 2019 í 000 kr. árið 2022.
  • Tekið er upp nýtt ákvæði að félagsmenn sem starfað hafa samfellt í 3 ár geta fengið launað leyfi í samtals í þrjá mánuði til að stunda viðurkennt starfsnám.

 

  • Samningurinn verður kynntur félagsmönnum Framsýnar á næstu dögum og vikum en gert er ráð fyrir að atkvæðagreiðslu um hann ljúki 26. mars. Atkvæðagreiðslan verður rafræn og munu félagsmenn Framsýnar sem starfa eftir kjarasamningnum fá frekari gögn varðandi samninginn og atkvæðagreiðsluna á næstu dögum.

Á meðfylgjandi mynd sem fylgir þessari frétt má sjá formann Framsýnar, Aðalstein Árna og félaga hans og formann Verkalýðsfélags Akraness, Vilhjálm Birgisson, frá undirritun samningsins í Karphúsinu í dag.

Heimsókn í Norðlenska

Starfsmaður stéttarfélaganna heimsótti Norðlenska á Húsavík á dögunum. Þrátt fyrir að nú sé ekki sláturtíð var heldur betur nóg líf í húsinu en um 50 starfsmenn eru við störf hjá Norðlenska á Húsavík í vetur. Nú í sumar eru fyrirhugaðar framkvæmdir hjá fyrirtækinu en til stendur að setja þak ofan á gistieiningarnar sem standa norðan við aðalbygginguna. Gistieiningarnar hafa gjörbreytt aðstöðu fyrirtækisins til hins betra en erfitt var orðið að finna gistipláss fyrir tímabundna starfsmenn fyrirtækisins á haustin. Einingarnar hafa líka verið notaðar í vetur en 11 starfsmenn fyrirtækisins notast við hana þessa vikurnar.

Undirbúningur næstu sláturtíðar er að byrja jafnvel þó enn sé um háflt ár í að hún hefjist. Reiknað er með því að sláturfjöldinn verði í kringum 100.000 gripir í ár.

Sjálfkjörið í stjórn og trúnaðarráð

Um síðustu mánaðamót rann út frestur til að skila inn lista eða tillögum um fólk í trúnaðarstörf á vegum Framsýnar stéttarfélags fyrir komandi kjörtímabil sem eru tvö ár, það er frá aðalfundi félagsins 2020 til aðalfundar 2022. Ekki bárust aðrar tillögur eða listar en frá trúnaðarráði félagsins um félagsmenn í stjórnir, ráð eða nefndir á vegum félagsins. Því er sjálfkjörið í trúnaðarstörf í Framsýn fyrir næsta kjörtímabil. Um 80 manns gegna trúnaðarstöðum fyrir félagið á hverjum tíma, það er fyrir utan trúnaðarmenn á vinnustöðum sem eru um þessar mundir um tuttugu.

Fjölmargir koma að stjórnunarstörfum fyrir Framsýn á hverjum tíma.

Opnað fyrir umsóknir orlofshúsa

Opnað hefur verið fyrir umsóknir orlofshúsa fyrir sumarið 2020. Sama fyrirkomulag er á umsóknunum eins og verið hefur undanfarin ár, en þeim skal skilað á Skrifstofu stéttarfélaganna eða í tölvupósti á linda@framsyn.is.

Hægt er að nálgast umsóknareyðublaðið á excel og pdf formi hér á síðunni. Auk þess mun umsóknareyðublað fylgja fréttabréfi stéttarfélaganna sem kemur út á næstunni.

COVID-19 og fjarvistir frá vinnu

Að gefnu tilefni vill Alþýðusamband Íslands taka fram, að launafólk sem sett er í sóttkví eða sem gert er að læknisráði að halda sig heima við og umgangast ekki vinnufélaga eða annað fólk í umhverfi sínu vegna þess það sé annað af tvennu sýkt af COVID-19 eða sé hugsanlegir smitberar hans, er að mati ASÍ óvinnufært vegna sjúkdóms eða vegna hættu á því að verða óvinnufært vegna hans. Þau forföll eru greiðsluskyld skv. ákvæðum kjarasamninga og laga. Framsýn, Þingiðn og Verkalýðsfélag Þórshafnar eiga aðild að Alþýðusambandi Íslands og því nær þessi tilkynning m.a. til félagsmanna þessara félaga.

Samningafundur framundan

Eftir fund með starfsmönnum hvalaskoðunarfyrirtækja á Húsavík síðasta fimmtudag hefur Framsýn gengið frá kröfugerð fyrir hönd starfsmanna. Jafnframt hefur verið gengið frá því við Samtök atvinnulífsins, sem hefur verið í forsvari fyrir fyrirtækin í viðræðunum við Framsýn, að fyrsti samningafundurinn verði á allra næstu dögum. Þegar þetta er skrifað var ekki búið að fastnegla daginn. Þar sem vertíðin hjá hvalaskoðunarfyrirtækjunum fer að hefjast er mikilvægt að samningaviðræður klárist sem fyrst.