Erlendir félagsmenn verða í forgrunni ljósmyndaverkefnis sem Framsýn stéttarfélag vinnur að með Agli Bjarnasyni ljósmyndara á Húsavík. Egill er með BA í stjórnmálafræði og MA í blaðamennsku. Verkefnið sem er afar áhugavert kemur til með að standa yfir í nokkra mánuði.
Verkefninu er ætlað að kynna bakgrunn og störf þeirra sem hafa sest að í Þingeyjarsýslum á síðustu árum eða áratugum.
Þingeyjarsýslurnar eru orðnar með fjölmenningarlegri stöðum á landinu og erlendir íbúar um þriðjungur félagsmanna í Framsýn.
Með heimildaljósmyndun og viðtölum, er markmiðið að ná utan um þessar forvitnilegu breytingar og undirstrika styrk atvinnusvæðis þar sem æ fleiri kjósa að búa. Reiknað er með að verkefninu ljúki í sumar og þá verði opnuð ljósmyndasýning og smá umfjöllun um þá sem myndirnar eru af.