Veiðiheimilin heimsótt

Á liðnu ári var talsverð umræða um vinnuaðstöðu og launakjör starfsmanna veiðiheimila í landinu. Eins og alkunna er þá eru veiðiheimili starfrækt víða um land í nágrenni við stangveiðiár landsins. Starfsmenn skrifstofu stéttarfélaganna brugðust við kallinu. Á meðfylgjandi mynd má sjá Aðalstein J. Halldórsson, starfsmann Skrifstofu stéttarfélaganna vera að leggja í hann í heimsóknir á veiðiheimili svæðisins í fylgd með eftirlitsfulltrúa Vinnueftirlitsins. Eins og sjá má er ekki slegið slöku við í sóttvörnum.

 

Framsýn selur hlut sinn í Rifósi hf.

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar hefur samþykkt að taka kauptilboði Fiskeldis Austfjarða hf. í eignarhlut Framsýnar í Fiskeldisfyrirtækinu Rifósi hf. í Kelduhverfi. Um er að ræða kaup á 84.000 nafnverðshlutum í Rifósi. Þar sem það stangast á við markmið og lög Framsýnar að eiga hlutabréf í fyrirtækjum var samþykkt að selja þennan litla eignahlut í fyrirtækinu til Fiskeldis Austfjarða. Það er von Framsýnar að Fiskeldi Austfjarða hf. eigi eftir að efla fiskeldi á félagssvæði Framsýnar stéttarfélags en töluverð uppbygging er fyrirhuguð á vegum fyrirtækisins í Kelduhverfi og Öxarfirði við Kópasker.

 

Um 5% atvinnuleysi í Þingeyjarsýslum

Í lok júlí voru 186 skráðir atvinnulausir á félagssvæði Framsýnar sem þýðir um 5% atvinnuleysi á svæðinu meðan það var um 8,8% á landsvísu. Atvinnuleysið skiptist þannig milli sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum:

Norðurþing                        140

Skútustaðahreppur              20

Tjörneshreppur                    1

Þingeyjarsveit                    25

Mun fleiri karlar en konur eru á atvinnuleysisskrá. Karlar voru 116 og konur 70. Því miður eru horfur á að atvinnuástandið fari versnandi þegar líður á haustið. Þar kemur til að töluvert er um uppsagnir í ferðaþjónustunni og þá fer áhrifanna vegna uppsagnanna hjá PCC á Bakka að gæta í ríkari mæli. Margt bendir því til þess að veturinn verði mörgum erfiður.

Fréttir af stjórnar- og trúnaðarráðsfundi

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar kom saman til fundar í gær. Tilefni fundarins var að ganga frá nokkrum atriðum varðandi komandi aðalfund í næstu viku. Þá urðu umræður um atvinnumál á félagssvæðinu og komandi vetur. Almennt höfðu fundarmenn áhyggjur af stöðunni enda töluvert atvinnuleysi á svæðinu um þessar mundir sem á eftir að aukast þegar líður á haustið. Í dag er atvinnuleysið um 5%. Umræður urðu um starfsmannamál en Aðalsteinn J. Halldórsson sem verið hefur í 50% starfi við vinnustaðaeftirlit auk þess að sinna almennum skrifstofustörfum hefur sagt upp störfum hjá stéttarfélögunum þar sem hann hefur ráðið sig til Búnaðarsambands Þingeyinga. Starfsmannamálin verða til skoðunar á næstu vikum og til greina kemur að auglýsa eftir starfmanni í staðinn fyrir Alla. Á fundinum í gær kom fram að framundan er töluverð vinna varðandi endurnýjun á stofnanasamningum við ríkisstofnanir og vinnutímastyttingar hjá starfsmönnum sveitarfélaga. Þá verður farið í viðræður við PCC í lok þessa mánaðar varðandi  kjör og vinnutíma starfsmanna. Vilji er til þess að laga starfsumhverfi starfsmanna enn frekar. Fjallað var um samstarf Verkalýðsfélags Þórshafnar og Framsýnar sem menn vilja taka upp, ekki síst á tímum Covid- 19. Ríkissáttasemjari hefur boðað komu sína til félagsins í næstu viku, að sjálfsögðu verður honum tekið fagnandi. Málefni Sjóminjasafnsins á Húsavík voru til umræðu, óánægja er með stöðuna, það er hvernig safnið hefur drappast niður á undanförnum árum. Ákveðið var að senda Menningarmiðstöð Þingeyinga bréf og gera athugasemdir varðandi stöðu mála. Fiskeldi Austfjarða hefur gert Framsýn kauptilboð í hlut Framsýnar í Rifós. Samþykkt var að selja fyrirtækinu hlut félagsins. Formanni falið að ganga frá sölunni. Að lokum urðu miklar umræður um umræðuna sem fór að stað varðandi lokun PCC á Bakka og ummæli sem viðhöf hafa verið um lokunina þar sem m.a. er verið að hæðast af atvinnumissi fólks. Þá hefur ASÍ ekki séð ástæðu til að fjalla sérstaklega um málið sem er ansi athyglisvert í ljósi þess hvað það er alvarlegt og snertir margar fjölskyldur hér norðan heiða.

Búfesti byggir á Húsavík – íbúðirnar auglýstar í byrjun september

Um þessar mundir eru 12 íbúðir í byggingu á Húsavík á vegum Búfesti sem er húsnæðissamvinnufélag. Formaður Framsýnar skoðaði byggingasvæðið á dögunum. Hann fékk leiðsögn um svæðið en hópur iðnaðarmanna kemur að því að reisa húsin. Höfðavélar sáu um jarðvinnu og Fakta Bygg Ísland sér um að reisa húsin. Um er að ræða tvö 6 íbúða raðhús úr einingum sem koma frá Fakta Bygg í Noregi en Fakta Bygg á Íslandi er dótturfélag fyrirtækisins. Fakta Bygg á Íslandi er í eigu Húsvíkingana  Kristjáns Eymundssonar og Árna Grétars Árnasonar sem lengi hafa starfað og búið í Noregi. Aðaleigandi Fakta Bygg í Noregi er Kristján Eymundsson. Þeir voru ánægðir með að geta komið að því að byggja íbúðir á Húsavík, það er í sínum heimabæ.

Tilgangur húsnæðissamvinnufélaga  eins og Búfesti er  að  eiga  og  reka  hagkvæmar íbúðir af mismunandi stærðum og gerðum. Markmiðið er að bjóða upp á húsnæðiskosti fyrir alla. Búfesti hsf. á og rekur íbúðir á kostnaðarverði en þær eru um 260 talsins, þar af eru 15 á Húsavík og fljótlega verða þær 27 þegar nýju íbúðirnar bættast við. Markmið Búfesti er að bjóða upp á góðar og hagkvæmar íbúðir fyrir almenning. Með greiðslu 10% stofnverðs sem búseturéttar eignast félagsmenn aðgang að íbúðum félagsins. Einfalt og fljótlegt er að gerast félagsmaður í gegn um heimasíðu félagsins www.bufesti.is þar er einnig hægt að sjá hvaða íbúðir eru á lausu á hverjum tíma. Menn geta einnig haft samband við forsvarsmenn Búfesti með því að heyra í þeim í síma 460-5800 eða með því að senda þeim fyrirspurnir á bufesti@bufesti.is vilji menn fræðast nánar um félagið.

Nýju íbúðirnar sem er verið að reisa við Grundargarð og Ásgarðsveg á Húsavík verða auglýstar til sölu í byrjun september en þá munu fylgja nánari upplýsingar um íbúðirnar. Um er að ræða íbúðir sem eru rúmlega 100m2. Ekki skemmir fyrir að þær eru á einum fallegasta staðnum á Húsavík og þar sem stutt er í alla þjónustu. Samkvæmt upplýsingum frá Búfesti hefur töluvert verið spurt út í íbúðirnar sem er ánægjulegt enda hentar þetta form mörgum, sérstaklega þeim sem hafa ekki burði til þess að fjárfesta á frjálsum markaði.

Vel gengur að reisa 12 íbúðir á vegum Búfesti í Reitnum á Húsavík við Grundargarð og Ásgarðsveg. Íbúðirnar verða væntanlega klárar um næstu áramót.

Félagarnir Árni Grétar og Kristján Eymundar fara fyrir uppbyggingunni. Þeir vilja sjá frekari uppbyggingu í Reitnum en á sínum tíma áttu þeir góðar stundir í Húsavíkurfjalli, sem sjá má á í baksýn, enda báðir góðir skíðamenn á sínum tíma.

Reyndar segist Víðir Péturs stjórna öllu, svona í gríni eða alvöru. Hann er í það minnsta langflottastur.

Þessi ungi maður, Gunnar Valsson, sem býr og starfar í Noregi er ættaður frá Húsavík. Móðir hans er Hermína Gunnarsdóttir sem lengi bjó á Ketilsbrautinni.

Það verður ekki annað sagt að það sé afar jákvætt að Búfesti hafi tekið ákvörðun um að byggja 12 íbúðir á Húsavík í sumar. Um er að ræða glæsilegar íbúðir.

 

 

Heildaratvinnuleysi á Íslandi var 8,8% í júlí

Almennt atvinnuleysi var 7,9% í júlí. Er það nokkur aukning frá fyrri mánuðum, en það var 7,5% í júní og 7,4% í maí. Atvinnuleysi tengt minnkuðu starfshlutfalli hefur á hinn bóginn lækkað hratt og var komið niður í 0,9% í júlí, samanborið við 2,1% í júní og 10,3% í apríl þegar það var hvað mest. Vinnumálastofnun hefur tekið saman þessar upplýsingar.

Sjá nánar:

Síðasti fundur stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar kemur saman til fundar þriðjudaginn 18. ágúst kl. 17:00 í fundarsal félagsins. Auk þess tekur stjórn Framsýnar-ung þátt í fundinum.

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Aðalfundur félagsins
  4. Atvinnumál á svæðinu
  5. Starfsmannamál
  6. Kjaramál: Bakki-stofnanasamningar
  7. Heimsókn ríkissáttasemjara til félagsins
  8. Afstaða ASÍ til PCC á Bakka
  9. Erindi frá Rifós hf.
  10. Málefni Sjóminjasafnsins á Húsavík
  11. Búfesti; uppbygging á Húsavík
  12. Önnur mál

Fundurinn er síðasti fundur núverandi stjórnar og trúnaðarráðs þar sem aðalfundur félagsins verður haldinn þriðjudaginn 25. ágúst.

 

Lagfæringar og viðræður um hæfniramma

Eins og fram kom í fjölmiðlum var slökkt á opnum kísilversins á Bakka um síðustu mánaðamót og um 80 starfsmönnum sagt upp störfum. Allt að 150 starfsmenn hafa starfað hjá fyrirtækinu þegar mest hefur verið. Um þessar mundir er unnið að lagfæringum á verksmiðjunni en ekki hefur gefist tími til að fara í þessar framkvæmdir fyrr en nú þegar framleiðslan hefur verið stöðvuð tímabundið ekki síst vegna Covid- 19 og markaðsmála.

Þá hafa stjórnendur fyrirtækisins og fulltrúar Framsýnar ákveðið að hefja viðræður síðar í þessum mánuði sem miða ekki síst að því að bæta starfsumhverfi starfsmanna enn frekar. Til skoðunar er að taka upp vinnutímastyttingu sem tryggi starfsmönnum sömu laun fyrir færri unna tíma á mánuði. Jafnframt verði bónuskerfið þróað áfram og tækiramminn sem myndar hæfniþrep. Fyrir liggur að hæfniþrepin verða tvö sem starfsmönnum stendur til boða standist þeir þær kröfur sem gerðar eru varðandi hæfniþrepin. Hæfnisþrep I gefur 2,5% launahækkun og hæfniþrep II er ætlað að gefa 5% launahækkun á grunnflokk viðkomandi starfsmanns. Við það er miðað að starfsmenn geti náð hæfniþrepunum innan 5 ára frá því að þeir hófu störf hjá fyrirtækinu.  Mikill vilji er bæði hjá forsvarsmönnum Framsýnar og PCC að gera verksmiðjuna á Bakka að góðum vinnustað og  liður í því er að huga vel að öryggi, velferð og starfskjörum starfsmanna.

Eins og fram hefur komið á heimasíðu stéttarfélaganna er PCC mikilvægasta fyrirtækið á stór Húsavíkursvæðinu þegar horft er til þess hvað fyrirtækið er að skila í sköttum til samfélagsins. Þá greiddi fyrirtækið og starfsmenn þeirra um 24 milljónir til Framsýnar á síðasta ári í félagsgjöld og kjarasamningsbundinn gjöld, það er í sjúkra- orlofs og starfsmenntasjóð félagsins. Ekkert fyrirtæki á svæðinu kemst nálægt PCC hvað þessar greiðslur eða skatta varðar til samfélagsins.

 

Dittað að Húsavíkurkirkju

Stjórnmálaleiðtoginn og málarameistarinn, Guðmundur H. Halldórsson, veit ekki að því mála kirkjuturninn á Húsavíkurkirkju í tæplega 26 metra hæð, einu, ef ekki fallegasta guðshúsi landsins. Myndin var tekin fyrir helgina þegar Guðmundur var við störf í ágætu veðri enda ekki annað hægt við svona aðstæður.

Til fróðleiks má geta þess að núverandi Húsavíkurkirkja var vígð 2. júní 1907. Rögnvaldur Ólafsson arkitekt teiknaði kirkjuna sem er krosskirkja, byggð úr norskum við. Rögnvaldur var fyrsti Íslendingurinn sem nam byggingarlist og raunar fyrsti nútíma húsameistarinn sem Íslendingar eignuðust.

Turn kirkjunnar er 26 m hár.  Hún er frábrugðin öðrum kirkjum að því leyti, að enginn venjulegur predikunarstóll er í henni.  Freymóður Jóhannesson, listmálari, málaði og skreytti kirkjuna að innan árið 1924. Sveinn Þórarinsson, listmálari frá Kílakoti, Kelduhverfi, málaði altaristöfluna 1930-31.  Pípuorgelið var vígt 8. nóvember 1964.

Nánar má lesa um sögu kirkjunnar á heimasíðu hennar.

http://husavikurkirkja.is/sokn/kirkjulysing/

Vinna sem þessi er ekki fyrir lofthrædda.

Vinsamlegur fundur með starfsmanni LÍV

Sá ágæti starfsmaður Landssambands íslenzkra verzlunarmanna/LÍV, Elva Hrönn Hjartardóttir kom í heimsókn til formanns Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar Elvu Héðinsdóttur auk þess að heilsa upp á starfsmenn Framsýnar. Farið var yfir málefni LÍV, samskipti sambandsins við aðildarfélög og málefni verkalýðshreyfingarinnar. Framsýn er aðili að Landssambandi íslenzkra verzlunarmanna. Fundurinn var vinsamlegur en Elva Hrönn er á ferðinni um landið til að heimsækja aðildarfélög sambandsins.

Það fór vel á með Elvu Hrönn og starfsmönnum stéttarfélaganna.

 

Villandi fréttaflutningur  um flutning opinberra starfa

Nýlega sló Ríkissjónvarpið – sjónvarp allra landsmanna, upp frétt um flutning á opinberum störfum frá höfuðborgarsvæðinu út á landsbyggðina. Fréttaflutningurinn var stofnuninni ekki til mikils sóma og virtist helst hafa það að markmiði að gera Framsóknarflokkinn og ráðherra hans í gegnum tíðina tortryggilega og spillta í augum almennings. Þeir hefðu helst stuðlað að því að flytja stofnanir ríkisins hreppaflutningum út á land.

Æsifréttamennskan var þvílík að farið var vitlaust með heitið á þeim ríkisstofnunum sem fréttin náði til. Þá voru ráðherrarnir sagðir koma frá allt öðrum kjördæmum en þeir raunverulega komu frá þegar þessar ákvarðanir voru teknar. Eftir framkomnar athugasemdir við óvandaðan fréttaflutning frá ýmsum aðilum fór svo að fréttastofan varð að senda frá sér leiðréttingu við fréttina, sem er hér að neðan og er hálf vandræðaleg fyrir fréttastofuna, sem vill láta taka sig alvarlega.

„Fréttin hefur verið leiðrétt. Ranglega var farið með í upphaflegri útgáfu að Valgerður Sverrisdóttir og Jón Kristjánsson hefðu flutt stofnanir í eigið kjördæmi. Einnig var ranghermt að Guðni Ágústsson hefði flutt Matvælastofnun til Selfoss. Rétt er að Landbúnaðarstofnun var breytt í Matvælastofnun.“

 Það er, að þrátt fyrir að fréttamaðurinn sem skrifaði fréttina lýsti því yfir í viðtali að hún skyldi ekkert í því að þessi „litla“ frétt fengi svona sterk viðbrögð almennings.

Það var reyndar rétt með farið hjá fréttamanni RÚV að fyrir tilstuðlan ráðherra, þ.m.t. ráðherra Framsóknarflokksins, hafa í gegnum tíðina verið flutt opinber störf út á landsbyggðina. Það er heldur ekkert annað en eðlilegt að stofnanir ríkisins séu vistaðar um landið á jafnræðisgrundvelli. Það er í anda annarra ríkisstjórna á Norðurlöndunum, sem gera í því að jafna stofnunum milli landshluta í viðkomandi löndum, enda talið óeðlilegt í alla staði að opinberar stofnanir séu nánast allar á afmörkuðu svæði s.s. í höfuðborgum viðkomandi landa. Það er löngu tímabært að stjórnmálaflokkar á Íslandi láti verkin tala í stað þess að blaðra endalaust um mikilvægi byggðastefnu, að þeir framfylgi sínum eigin stefnumálum varðandi eflingu byggðar og mannlífs í landinu. Ég bendi á að finna má í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar áherslu á skilgreiningu opinberra  starfa og að þau séu auglýst án staðsetningar sé þess kostur. Þess utan styður byggðaáætlun við þetta markmið.

Fjarskipti leika lykilhlutverk í samfélagi nútímans og þar með eflingu byggðar í landinu. Sú samskiptatækni sem við þekkjum orðið í dag, háhraðafjarskiptatengingar um allt land, svo ekki séu nefndar stórbættar samgöngur, ætti að auðvelda stjórnvöldum að dreifa opinberum störfum sem víðast um landið. Ástandið sem hefur skapast undanfarna mánuði vegna Covid – 19 hefur hrundið okkur mörg ár fram í tímann tæknilega séð og  sýnir svart á hvítu að fjarvinna er nú þegar raunverulegur möguleiki og störf án staðsetningar þurfa ekki endilega að vinnast í póstnúmerinu 101 Reykjavík.

Raunveruleg byggðastefna byggir á því að auka fjölbreytileika starfa og efla þannig byggðarlögin. Sem dæmi nefni ég að Fæðingarorlofssjóður var færður frá Reykjavík til Hvammstanga og Greiðslustofa atvinnuleysistrygginga á vegum Vinnumálastofnunar var færð til Skagastrandar. Hjá þessum stofnunum ríkisins starfar frábært starfsfólk, enda mikill mannauður á þessum vinalegu stöðum sem og fjölmörgum öðrum byggðarlögum í öllum landsfjórðungum á Íslandi. Við eigum að nýta okkur mannauðinn, þekkinguna og tæknina og vinna markvisst að því að flytja opinber störf út á land, skila þeim heim.

Stjórnmálaflokka skortir oft kjark, þrátt fyrir gefin loforð um að jafna búsetu í landinu. Kjark til að efla opinbera þjónustu í öllum kjördæmum landsins. Þó eru vissulega undantekningar frá því. Að sjálfsögðu stenst það ekki skoðun að árið 2020, geti hið opinbera ekki rekið stofnanir og þjónustu úti á landi til jafns við höfuðborgarsvæðið.

Varðandi fréttaflutning Ríkissjónvarpsins er ágætt að rifja upp flutning á opinberum störfum úr mínum kæra heimabæ, Húsavík:

  • Starfsemi Ríkisskattstjóra var lögð af á Húsavík og skrifstofu embættisins lokað.
  • Hafrannsóknarstofnun lokaði starfsstöð sinni á Húsavík og sigldi í burtu.
  • Vinnumálastofnun lagði starfsemina niður á Húsavík og skellti í lás.
  • Dregið hefur verið verulega úr starfsemi Sýslumannsembættisins á Húsavík og starfsmönnum snarfækkað frá því sem var þegar embættið stóð undir nafni.
  • Fæðingardeildinni á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga nú HSN var lokað. Þrátt fyrir að ungviðið vilji örugglega anda að sér Þingeysku lofti við fæðingu, er það ekki í boði lengur.
  • Skurðstofunni á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga var lokað og aðgerðir fluttar í burtu. Til stóð að draga enn frekar úr starfsemi Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga, en með samstöðu heimamanna tókst að stöðva frekari blæðingu á þjónustu þessarar mikilvægu stofnunar í heimahéraði.

Koma upp í hugann opinber störf sem orðið hafa til á Húsavík á vegum ríkisins á sama tíma? Það eina sem ég man eftir eru veikburða tilburðir í þá átt þegar Nýsköpunarmiðstöð Íslands setti upp starfsstöð sem var svo lokað eftir fáein ár. Starfsemi sem að mati heimamanna hefði átt betur heima hjá atvinnuþróunarfélagi svæðisins, en á það var ekki hlustað af stjórnvöldum.

Þó ég nefni hér aðeins Húsavík endurspeglar upptalningin hér á undan hvernig þróunin í þessum efnum hefur verið víða á landsbyggðinni á undanförnum áratugum. En það telst víst ekki fréttaefni hjá fréttastofu Ríkissjónvarpsins að ferðast um landið og gera úttekt á öllum þeim opinberu störfum sem hafa verið ryksuguð upp hringinn í kringum landið og flutt á höfuðborgarsvæðið. Hvað þá að skoða opinber gögn sem staðfesta þennan flutning starfa til Reykjavíkur. Í þessu sambandi má benda á að Byggðastofnun hefur um árabil unnið greiningar á staðsetningu stöðugilda eftir landshlutum sem aðgengileg er á heimasíðu stofnunarinnar, https://www.byggdastofnun.is/is/utgefid-efni/grof-og-skrar. Þar kemur skýrt fram að höfuðborgarsvæðið er yfirvigtað hvað varðar fjölda ríkisstarfa  og er öll árin eini landshlutinn þar sem hlutfall ríkisstarfa er hærra en hlutfall viðkomandi landshluta af íbúafjölda landsins.

Að sjálfsögðu er fréttaflutningur af þessum toga ekki boðlegur. Þökk sé þeim ráðherrum ríkisstjórnar Íslands á hverju tíma, sem hafa haft kjark til að spyrna við fótum og sjá tækifæri í því að skila opinberum störfum aftur út um landið, störfum sem sogast hafa suður til Reykjavíkur. Vissulega er eðlilegt að menn hafi skoðanir á því hvert störfin eru flutt á hverjum tíma. Markmiðið á heldur ekki að vera að hygla ákveðnum landshlutum eða sveitarfélögum umfram önnur, það ber stjórnmálamönnum að hafa í huga vilji þeir láta taka sig alvarlega, sem ég að sjálfsögðu vona. Ákvarðanir um flutning opinberra starfa á milli landshluta mega ekki litast af pólítík, nema þá byggðapólitík  og á skynsamlegum rökum reistar.

Aðalsteinn Árni Baldursson,
formaður Framsýnar stéttarfélags

 

 

 

 

 

 

 

 

Málefni PCC til umræðu í fjölmiðlum

Í vikunni fjallaði Ríkissjónvarpið um þá alvarlegu stöðu sem komin er upp í atvinnumálum á Húsavík eftir að PCC tók ákvörðun um að stöðva framleiðsluna og segja upp um 80 starfsmönnum um síðustu mánaðamót. Áður hafði ekki verið ráðið í stað þeirra sem hættu. Áhrifin hafa því áhrif á um 100 starfsmenn fyrir utan alla þá sem koma til með að missa vinnuna hjá undirverktökum og öðrum þjónustufyrirtækjum sem hafa unnið fyrir PCC á Bakka. Hér má skoða fréttina en rætt var við formann Framsýnar um stöðuna og einn af þeim starfsmönnum sem er að missa vinnuna um þessar mundir:

https://www.ruv.is/frett/2020/07/29/engan-langar-ad-fara-eins-og-er

 

Mývetningar taka undir ályktun Framsýnar

Mývetningar krefjast þess að Samkaup endurskoði þá ákvörðun sína að breyta Kjörbúðinni í Krambúð. Heimamenn segja fyrirtækið ekki sýna samfélagslega ábyrgð og hafa fært viðskipti sín annað.

Undirskriftarlisti gengur nú um Mývatnssveit þar sem þess er krafist að stjórnendur Samkaupa endurskoði ákvörðun sína um að breyta Kjörbúðinni í Reykjahlíð í Krambúð. Breytingin átti sér stað í lok maí og verðið í versluninni, sem er eina matvörubúðin í Mývatnssveit, átti að hækka um 7,7% að meðaltali.

Ragnheiður Jóna Leví Grétarsdóttir, íbúi í Mývatnssveit segir alla vilja skrifa undir bréfið, nú þegar séu rúmlega 150 búin að skrifa undir. Þá séu það ekki bara Mývetningar sem eru óánægðir með breytt fyrirkomulag heldur skrifi sumarbústaðaeigendur líka undir.

Hækkunin mun meiri

Í bréfinu kemur fram að fjölmargar vörur hafi hækkað mun meira en um 7,7%. Nýmjólkurferna kosti núna 199 kr. sem sé 17,7% hækkun, KEA vanilluskyr hafi hækkað um 16% og Myllu heimilisbrauð um tæplega 15%. Þá hafi vöruúrval minnkað og borið á vöruskorti.

Í bága við stefnu fyrirtækisins

„Í Skútustaðahreppi búa um 500 manns en í venjulegu árferði fara um 700.000 ferðamenn í gegnum Mývatnssveit og flestir koma við í versluninni,“ segir í bréfinu. Hagnaður Samkaupa hafi verið 238 milljónir árið 2019 og 452 milljónir árið þar áður. Vegna mikils fjölda ferðamanna um sveitarfélagið og einokunarstöðu sé ljóst að verslunin í Reykjahlíð hafi verið afar arðbær síðustu ár þó það sé óhjákvæmilegt að ástandið hafi líka áhrif á starfsemi fyrirtækisins. Atvinnuleysi í hreppnum sé með því mesta á landsvísu um þessar mundir og þessi breyting brjóti í raun í bága við stefnu fyrirtækisins sem segir að fyrirtækð leggi áherslu á samfélagslega ábyrgð í allri starfsemi.

Íbúar taka með þessu undir ályktun frá stéttarfélaginu Framsýn sem segir vinnubrögðin forkastanleg á þessum tíma, þegar efnahagsástandið í sveitarfélaginu sé sérstaklega slæmt.

Færa viðskipti sín annað

Ragnheiður Jóna segir íbúa hafa verslað mikið í búðinni í áranna rás og stutt vel við reksturinn, enda vilji þeir hafa verslun í heimabyggð. Nú kaupi þeir aðeins nauðsynjavörur í Krambúðinni og fari frekar til Húsavíkur eða Akureyrar til að versla. Þeir séu reiðir og einhverjir skipti ekki lengur við Samkaup og hafi fært viðskipti sín annað.

„Fólk veit að það fer á hlutastarf í haust og þá eru enn þá fleiri atvinnulausir svo við erum að vonast til þess að Samkaup geti stutt okkur aðeins meira í þessu og verið með kjörbúð hérna.“ Íbúar hyggist þá gera sitt besta í að versla þar en það sé ekki möguleiki að eyða helmingi meira en ella í mat.

(Frétt þessi byggir á frétt rúv)

 

Aðalfundur STH fimmtudaginn 27. ágúst

Aðalfundur Starfsmannafélags Húsvíkur verður haldinn fimmtudaginn 27. ágúst kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna. Skorað er á félagsmenn að fjölmenna á fundinn.


Samkvæmt 13. gr. félagslaga er aðalfundur æðsta vald félagsins og skal hann haldinn ár hvert. Sérstök verkefni aðalfundar eru þessi:

Dagskrá:
1 )   Stjórn félagsins gefur skýrslu um starfsemi félagsins síðastliðið ár.
2 )   Lagðir fram til úrskurðar endurskoðaðir reikningar félagsins fyrir síðastliðið ár.
3 )   Tekin ákvörðun um árgjöld félagsmanna.
4 )    Lagabreytingar, enda hafi tillögur til breytinga borist stjórn félagsins tveimur vikum fyrir aðalfund.
5 )   Kosning stjórnar samkvæmt 6. grein.
6 )   Kosning endurskoðenda samkvæmt 6. grein.
7 )   Kosning fulltrúa í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Húsavíkurkaupstaðar.
8 )   Kosning fulltrúa á þing B.S.R.B.
9 )   Kosning fulltrúa í orlofs-, ferðamála- og starfskjaranefnd.
10
) Önnur mál, sem fram koma á fundinum.

Stjórn STH

Leiðtogafundur á Húsavík

Góðir gestir halda áfram að koma við á Skrifstofu stéttarfélaganna. Sigurður Hólm Freysson varaformaður Afls starfsgreinafélags á Austurlandi kom við í vikunni á ferð fjölskyldunnar um landið. Greinilegt er að Húsavík er inn þetta sumarið hjá Íslendingum sem hafa verið afar duglegir við að heimsækja bæinn við Skjálfanda. Auðvitað ber að fagna því. Það var vel við hæfi að taka myndina af þeim Aðalsteini og Sigurði við málverk af Arnóri Kristjánssyni sem var um tíma formaður Verkamannafélags Húsavíkur en Arnór var mikill leiðtogi og þess má geta að knattspyrnumaðurinn Arnór Guðjohnsen er komin útaf þessum mikla heiðursmanni.

Staðan tekin

Helga Ingólfsdóttir stjórnarmaður í VR átti leið um Húsavík fyrir helgina en hún er á ferðalagi um landið. Helga var um tíma einnig í miðstjórn Alþýðusambands Íslands. Hún notaði tækifærið og heilsaði upp á formann Framsýnar. Að sjálfsögðu var staðan tekin í verkalýðshreyfingunni og komandi þing ASÍ. Eins og fram hefur komið á heimasíðunni, hefur verið ánægjulega gestkvæmt á Skrifstofu stéttarfélaganna í sumar og fjölmargir góðir gestir komið í heimsókn.

Búðaráin í ham

Vegna vatnavaxta síðustu daga hefur Búðaráin sem liðast í gegnum Húsavík eftir farvegi sínum  breyst í stórfljót. Um síðustu helgi lokaði lögreglan göngubrúnni yfir ána vegna vatnavaxta en áin var farin að flæða yfir bakka sína og náði vatnshæðin upp að brúargólfi. Þegar þetta er skrifað er Búðaráin hins vegar orðin svipuð og hún var áður. Hér koma nokkrar myndir sem teknar voru um helgina þegar Búðaráin var í ham enda mikil úrkoma á þeim tíma.

Hér má sjá Búðarána á venjulegum degi.

Arnar heilsaði upp á starfsfólk stéttarfélaganna

Arnar Sigurmundsson sem lengi hefur verið mjög áberandi í störfum fyrir Samtök atvinnulífsins (SA) leit við hjá formanni Framsýnar í gær. Arnar hefur verið á ferðinni um landið í sumarfríi eins og fjölmargir aðrir Íslendingar og dvaldi meðal annars á Húsavík í fríinu. Aðalsteinn Árni og Arnar hafa lengi tekist á við samningaborðið, Aðalsteinn á vegum verkalýðshreyfingarinnar og Arnar fyrir Samtök atvinnulífsins. Arnar hefur komið að samningagerð  fyrir hönd SA sem formaður  Samtaka fiskvinnslustöðva um árabil og þá hefur hann einnig verið áberandi varðandi starfsemi lífeyrissjóða m.a. verið formaður Landssambands lífeyrissjóða. Í dag sitja þeir Aðalsteinn og Arnar saman í stjórn Fræðslusjóðsins Landsmenntar sem er fræðslusjóður Samtaka atvinnulífsins og stéttarfélaganna innan Starfsgreinasambands Íslands á landsbyggðinni.

Stéttarfélögin gefa veglega gjöf

Stéttarfélögin Framsýn, Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur hafa gefið Sjúkraþjálfun Húsavíkur kr. 750.000 til tækjakaupa. Aðstaðan hjá sjúkraþjálfuninni í Hvammi var nýlega tekin í gegn og nýjum tækjum komið fyrir. Um er að ræða afar mikilvæga þjónustu á Húsavík sem þjónar Þingeyingum og  öðrum þeim sem þurfa á þessari þjónustu að halda. Eftir breytingarnar er aðstaðan öll orðin hin glæsilegasta. Með framlagi stéttarfélaganna vilja þau leggja sitt að mörkum til að efla Sjúkraþjálfun Húsavíkur sem hefur á að skipa frábæru starfsfólki.