Íslenska fyrirtækið Carbon Iceland ehf. áformar að reisa lofthreinsiver á Íslandi sem gerir kleift að hreinsa og binda 1 milljón tonna af CO2 (koltvísýringi) úr andrúmslofti. Boðað hefur verið til blaðamannafundar síðar í dag, þar sem þessi áform verða kynnt nánar. Byrjað var á undirbúningi þessa verkefnis fyrir tveimur árum og hefur Carbon Iceland náð samkomulagi við kanadíska hátæknifyrirtækið Carbon Engineering um að nota svokallaða „Direct Air Capture“- tækni sem fyrirtækið hefur þróað.
140 milljarðar
Viðræður hafa staðið yfir við sveitarfélagið Norðurþing sem miða að því að starfsemi Carbon Iceland verði staðsett á vistvænum iðngarði á Bakka, við Húsavík. Áætlað er að framkvæmd þessi kosti um 140 milljarða króna og eru þá allar þrjár vinnslueiningarnar taldar með: lofthreinsiver, framleiðsla á grænu CO2 og framleiðsla á hreinu, grænu eldsneyti.
Árlegar tekjur, þegar starfsemin verður komin í fullan gang, geta numið allt að 50-70 milljörðum króna, að stærstum hluta gjaldeyristekjur.
300 – 500 stöðugildi
Fyrirhugað er að byrja að reisa lofthreinsiverið árið 2023 og að það verði komið í gagnið um 2025. Um 300-500 stöðugildi, bein og óbein, verða að staðaldri við starfsemina, segir í tilkynningu.
(Frétt N4, mynd Framsýn)