Vegagerðin samþykkti ógilt tilboð og afturför í flugþjónustu

Flugfélagið Ernir gerir athugasemdir við fréttilkynningar Vegagerðarinnar og Norlandair frá í gær.

Flugfélagið Ernir ehf. telur að Norlandair hafi með yfirlýsingu í gær (12/11‘ 20) staðfest að tilboð þess síðarnefnda í flugleiðina Bíldudal/Gjögur hafi verið ógilt og að fullyrðingar Vegagerðarinnar um hið gagnstæða standist ekki. Þar með er ljóst að mótmæli Vestfirðinga vegna „stökks niðrávið í þjónustu“ eiga við rök að styðjast. Flugfélagið Ernir ehf. hefur kært niðurstöðu útboðsins til Kærunefndar útboðsmála  sem birti m.a. þetta í  greinagerð með ákvörðunarorðum sínum, en þar segir orðrétt:“Eins og mál þetta liggur fyrir nú verður því að miða við að varnaraðili hafi brotið gegn lögum um opinber innkaup við val á tilboði Nordlandair ehf. ” 

Beechcraft King Air vél sú sem Norlandair hyggst aðallega nýta í flugið er skráð hjá Samgöngustofu sem 7 sæta en ekki 9 sæta, eins og fullyrt er í tilboði.  Ljóst er að þessi flugvél uppfyllir ekki skilyrði útboðsins um 600 kg. flutningsgetu fyrir frakt auk farþega og farangurs. Þessi skilyrði voru meðal annars sett vegna slæms ástands vega á Vestfjörðum og í Árneshreppi sem oft kallar á mikla flutninga.

Flugvélar Norlandair eru ekki sambærilegar við þær rúmgóðu vélar sem Flugfélagið Ernir hefur notað til þjónustunnar undanfarin ár þótt slíkt sé fullyrt af Vegagerðinni og Norlandair. Þær eru eins og Samtök atvinnurkenda á sunnanverðu Vestfjörðum hafa bent á „gamlar og litlar“ og geta vart sinnt þörfum íbúa og fyrirtækja á svæðinu. Þrjár 45-50 ára Twin Otter vélar Norlandair eru hægfara og án jafnþrýstibúnaðar til þess að fljúga yfir veður.  Kjarni málsins er sá að á tíma útboðsins var Norlandair að bjóða afturför um áratugi í flugþjónustu á Vestfjörðum eins og Vestfirðingar óttast réttilega. Fyrir íbúa á Vestfjörðum er lítið hald í því að fyrirtækið geri nú tilraun til þess að gera ógilt tilboð gilt með því að láta í veðri vaka að „til standi að nota stærri vél þegar og ef þörf krefur“.

Næstkomandi mánudag, 16. nóvember 2020, lýkur þjónustu Flugfélagsins Ernis ehf. á flugleiðinni á milli Reykjavíkur og Gjögurs og milli Reykjavíkur og Bíldudals samkvæmt ákvörðun Vegagerðarinnar. Það ríkir sorg og eftirsjá í félaginu við þessi þáttaskil, sem eru tilkomin vegna ógildrar stjórnsýslu, en um leið er Vestfirðingum þakkað fyrir samstarfið og óskað alls hins besta með vonum um að úr rætist.

Reykjavík 13. nóvember 2020

  1. h. Flugfélagsins Ernis ehf.

Hörður Guðmundsson Forstjóri

Sími: 892 8050

Deila á