Fundað með Íslandsþara ehf. í morgun

Fulltrúar frá Framsýn og Íslandsþara ehf. funduðu í morgun en fyrirtækið hyggur á uppbyggingu og rekstur á stórþaravinnslu á Húsavík sem nýtir græna jarðvarmaorku og sjálfbærar vinnsluaðferðir við framleiðsluna. Stefnt er að því að byggja vinnsluna upp í áföngum og að fullri framleiðslugetu verði náð eftir 5-6 ár. Fyrirtækið hefur þegar sótt um tvær lóðir undir starfsemina við Hrísmóa sunnan við Húsavík. Um er að ræða samtals 8000m2 lóðir. Verði verkefnið að veruleika munu verða til allt að 90 fjölbreytt störf í landvinnslu og útgerð á Húsavík.

Forsvarsmenn Íslandsþara leggja mikið upp úr góðu samstarfi við stéttarfélögin og því óskuðu þeir eftir fundi með fulltrúum Framsýnar til að fara yfir forsendur verkefnisins, fjölda og tegundir starfa sem þar verða til ásamt öðrum tengdum þáttum. Fundurinn var vinsamlegastur og fram kom sterkur vilji til að vinna þetta verkefni áfram í sátt og samlyndi beggja aðila.

Hér má sjá skipulagt svæði fyrir iðnað í Hrísmóum. Lóðirnar tvær sem um ræðir eru sunnan við Orkustöðina, sjá meðfylgjandi myndir með fréttinni.

 

 

Deila á