Unemployed – Bezrobotny – Atvinnuleitendur

Fyrir helgina setti Alþýðusamband Íslands í loftið sérstaka upplýsingasíðu fyrir þá sem misst hafa vinnuna, glíma við erfiðleika og vilja bæta stöðu sína á vinnumarkaði. Sérstök áhersla er lögð á að ná til útlendinga á íslenskum vinnumarkaði þar sem skortur hefur verið á greinargóðum upplýsingum fyrir þann hóp. Hér er hlekkur á vefsíðuna: https://www.asi.is/atvinnulaus/

 

 

Meira vinnur vit en strit – vefráðstefna Vinnueftirlitsins um heilbrigt stoðkerfi 19. nóvember

Vefráðstefna Vinnueftirlitsins „Meira vinnur vit en strit“ verður haldin 19. nóvember næstkomandi. Ráðstefnan er liður í tveggja ára samstarfsverkefni Vinnueftirlitsins, félagsmálaráðuneytisins, samtaka aðila vinnumarkaðarins og VIRK sem ber yfirskriftina „Vinnuvernd er allra hagur. Hæfilegt álag – heilbrigt stoðkerfi 2020-2022, “ en verkefnið er keyrt samhliða samnefndu vinnuverndarátaki Vinnuverndarstofnunar Evrópu (EU-OSHA).

Áherslan kemur til af því að stoðkerfisvandi er algengasta orsök fjarvista frá vinnu í Evrópu og ein algengasta orsök örorku.

Markmið ráðstefnunnar er að varpa ljósi á þann víðtæka stoðkerfisvanda sem vinnandi fólk glímir við og benda á lausnir.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, ávarpar ráðstefnuna.

Lykilfyrirlesari er Andreas Holtermann, hjá Dönsku rannsóknarstofnuninni í vinnuvernd en erindi hans ber yfirskriftina „From non-harmful work to healthy work – what would it take?

Ráðstefnustjóri er Gunnhildur Gísladóttir, sérfræðingur hjá Vinnueftirlitinu. Nánari dagskrá má finna á vef Vinnueftirlitsins.

Ráðstefnan stendur frá klukkan 13.00 – 15.55 og verður streymt beint af vef Vinnueftirlitsins. Streymið má jafnframt nálgast í gegnum viðburð á facebook-síðu Vinnueftirlitsins eða í gegnum meðfylgjandi slóð: http://tiny.cc/vinnueftirlit

Ráðstefnan er opin öllum en hægt er að fylgjast með fréttum og skrá sig til þátttöku á facebook til að fá áminningu áður en hún hefst.

 

Vegagerðin samþykkti ógilt tilboð og afturför í flugþjónustu

Flugfélagið Ernir gerir athugasemdir við fréttilkynningar Vegagerðarinnar og Norlandair frá í gær.

Flugfélagið Ernir ehf. telur að Norlandair hafi með yfirlýsingu í gær (12/11‘ 20) staðfest að tilboð þess síðarnefnda í flugleiðina Bíldudal/Gjögur hafi verið ógilt og að fullyrðingar Vegagerðarinnar um hið gagnstæða standist ekki. Þar með er ljóst að mótmæli Vestfirðinga vegna „stökks niðrávið í þjónustu“ eiga við rök að styðjast. Flugfélagið Ernir ehf. hefur kært niðurstöðu útboðsins til Kærunefndar útboðsmála  sem birti m.a. þetta í  greinagerð með ákvörðunarorðum sínum, en þar segir orðrétt:“Eins og mál þetta liggur fyrir nú verður því að miða við að varnaraðili hafi brotið gegn lögum um opinber innkaup við val á tilboði Nordlandair ehf. ” 

Beechcraft King Air vél sú sem Norlandair hyggst aðallega nýta í flugið er skráð hjá Samgöngustofu sem 7 sæta en ekki 9 sæta, eins og fullyrt er í tilboði.  Ljóst er að þessi flugvél uppfyllir ekki skilyrði útboðsins um 600 kg. flutningsgetu fyrir frakt auk farþega og farangurs. Þessi skilyrði voru meðal annars sett vegna slæms ástands vega á Vestfjörðum og í Árneshreppi sem oft kallar á mikla flutninga.

Flugvélar Norlandair eru ekki sambærilegar við þær rúmgóðu vélar sem Flugfélagið Ernir hefur notað til þjónustunnar undanfarin ár þótt slíkt sé fullyrt af Vegagerðinni og Norlandair. Þær eru eins og Samtök atvinnurkenda á sunnanverðu Vestfjörðum hafa bent á „gamlar og litlar“ og geta vart sinnt þörfum íbúa og fyrirtækja á svæðinu. Þrjár 45-50 ára Twin Otter vélar Norlandair eru hægfara og án jafnþrýstibúnaðar til þess að fljúga yfir veður.  Kjarni málsins er sá að á tíma útboðsins var Norlandair að bjóða afturför um áratugi í flugþjónustu á Vestfjörðum eins og Vestfirðingar óttast réttilega. Fyrir íbúa á Vestfjörðum er lítið hald í því að fyrirtækið geri nú tilraun til þess að gera ógilt tilboð gilt með því að láta í veðri vaka að „til standi að nota stærri vél þegar og ef þörf krefur“.

Næstkomandi mánudag, 16. nóvember 2020, lýkur þjónustu Flugfélagsins Ernis ehf. á flugleiðinni á milli Reykjavíkur og Gjögurs og milli Reykjavíkur og Bíldudals samkvæmt ákvörðun Vegagerðarinnar. Það ríkir sorg og eftirsjá í félaginu við þessi þáttaskil, sem eru tilkomin vegna ógildrar stjórnsýslu, en um leið er Vestfirðingum þakkað fyrir samstarfið og óskað alls hins besta með vonum um að úr rætist.

Reykjavík 13. nóvember 2020

  1. h. Flugfélagsins Ernis ehf.

Hörður Guðmundsson Forstjóri

Sími: 892 8050

Kjarasamningar á ensku og pólsku

Starfsgreinasambandið hefur unnið að því undanfarið að þýða helstu kjarasamninga sambandsins yfir á ensku og pólsku sem er mikið gleðiefni. Sjá meðfylgjandi slóðir varðandi aðalkjarasamning SGS og SA sem Framsýn á aðild að. Fljótlega verður einnig búið að þýða ferðaþjónustusamninginn yfir á ensku og pólsku en þessir tveir kjarasamningar eru mest notaðir af félagsmönnum Framsýnar.

Aðalkjarasamningur SGS og SA á ensku

 Aðalkjarasamningur SGS og SA á pólsku

SASV: REIÐARSLAG OG STÖKK NIÐUR Á VIÐ Í FLUGÞJÓNUSTU

Samtök atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum (SASV) hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna samnings Vegagerðarinnar við Norlandair um áætlunarflug til Bíldudals og Gjögurs, sem ýtti Flugfélaginu Erni út úr þjónustunni eins og greint hefur verið frá á vef Bæjarins besta.

Samtökin lýsa yfir þungum áhyggjum  og segja að breytingin sé reiðarslag fyrir svæðið. Það verði stökk niður á við í þjónustu og getur stjórn SAVS ekki samþykkt svona vinnubrögð  og mótmælir þeim harðlega.

Ályktunin í heild:

„Samtök atvinnurekenda á sunnanverðum Vestfjörðum (SASV) lýsa yfir þungum áhyggjum vegna skyndilegra frétta af innanlandsflugi til og frá Bíldudal. Fréttirnar bárust að morgni 10. nóvember um að nýtt félag á að hefja flug á Bíldudal 16. nóvember nk.
Flugfélagið Ernir hefur þjónað Vestfirðingum í 50 ár við afar krefjandi aðstæður og nýlegar fréttir um að nú eigi félagið skyndilega að hverfa af vettvangi eftir umdeilt útboð er reiðarslag fyrir svæðið. Ernir hafa veitt afbragðs þjónustu og eru með flugvélar sem henta þessari þjónustu afar vel. Í staðinn á að bjóða helmingi minni flugvél sem búin er jafnþrýstibúnaði og 50 ára gamall Twin Otter án jafnþrýstibúnaðs. Í samanburði er þetta stökk niður á við í þjónustustigi og með ólíkindum að í útboði þar sem munar svo litlu sem raun ber vitni skuli þjónustustig og gæði flugflotans ekki hafa meira að segja. Í útboðum í vegagerð er lægsta tilboði ekki alltaf tekið eins og raun ber vitni í nýlegu útboði Vegagerðarinnar.
SASV bendir á að fraktflug s.s með varahluti fram og til baka, sýni frá fyrirtækjunum, framleiðsluafurðir og ýmislegt annað sem mikilvægt er að komist á milli staða með litlum fyrirvara er risavaxið atriði fyrir atvinnulífið á sunnanverðum Vestfjörðum. Með þeim flugflota sem boðið verður upp á er ekki mögulegt að sinna þessari mikilvægu þjónustu sem atvinnulífið getur ekki verið án.
Ekki sér fyrir endann á óboðlegri þjónustu á sunnanverðum Vestfjörðum. Vegir á svæðinu og inn á það eru meira og minna ónýtir. Vetrarþjónusta hefur verið í lamasessi miðað við þá umferð og þá sérstaklega verðmæta þungaumferð sem er um svæðið. Nýlega tókst að koma í veg fyrir að nýjum snjóblásara væri skipt út fyrir gamlan snjóblásara til að þjónusta svæðið. Ferjan yfir Breiðafjörð er eldgömul og getur stoppað hvenær sem er með tilheyrandi áhættu. Nú eiga sunnanverðir Vestfirðir að sætta sig við minni og eldgamlar flugvélar í stað þeirra sem nú þjónusta svæðið.
Á sama tíma og mikill uppgangur hefur verið í atvinnulífinu á svæðinu undanfarin ár og útflutningstekjur margfaldast og eru orðnar þær hæstu per íbúa á landinu, getur stjórn SASV ekki samþykkt svona vinnubrögð og mótmælir þessari ráðstöfun harðlega.“

(Þessi frétt er tekin af þeim ágæta vef bb.is, mynd Framsýn)

Stofnanasamningar og vinnutímastyttingar til umræðu

Verulegur tími fer í það um þessar mundir hjá starfsmönnum stéttarfélaganna að funda með forsvarsmönnum og starfsmönnum stofnana á vegum ríkis og sveitarfélaga hvað varðar vinnutímabreytingar og endurnýjun á stofnanasamningum. Þannig er að vinnutímabreytingar koma til framkvæmda um næstu áramót hjá starfsmönnum sveitarfélaga og hjá stofnunum ríkisins. Þó ekki hjá vaktavinnufólki, þar taka breytingarnar gildi 1. maí 2001.Vegna breytinga á launatöflu ríkisins þarf að taka upp alla stofnanasamninga sem gilda fyrir félagsmenn Framsýnar. Sem dæmi má nefna að fulltrúar Framsýnar funduðu í gær með skólastjórnendum Framhaldsskólans á Laugum  um þetta málefni og munu viðræður aðila halda áfram eftir helgina. Þá töku fulltrúar Framsýnar þátt í fundi Starfsgreinasambands Íslands með Vegagerðinni um sama málefni í gær auk þess að eiga fund með sveitarstjóra Norðurþings um hugmyndir sveitarfélagsins sem eru til skoðunar og tengjast vinnutímabreytingum. Þessi vinna heldur áfram eftir helgina með fundi með starfsmönnum Öxarfjarðarskóla.

Framsýn styður kröfur ÖBÍ

Framsýn stéttarfélag tekur heilshugar undir með þeim aðilum sem ályktað hafa um kröfur Öryrkjabandalags Íslands um að endurhæfingar- og örorkulífeyrir verði hækkaður svo að hann fylgi kjarasamningsbundnum taxtahækkunum. Ekki er hægt að samþykkja að stórum hópi fólks sem býr við skerta starfgetu sé haldið í fátækt. Slíkt er ekki sæmandi á landi sem kennir sig við velferð og jöfnuð. Einnig er mikilvægt að samstundis verði dregið úr skerðingum í örorkulífeyriskerfinu svo að fólk með skerta starfsgetu eigi möguleika á því að vera á vinnumarkaði og bæta kjör sín með launaðri vinnu.

Allt fólk á rétt á að lifa frjálst undan efnislegum skorti. Fólk með örorku, fjölskyldur þeirra og börn hafa þurft að bíða allt of lengi eftir réttlæti. Að mati Framsýnar ber stjórnvöldum að axla ábyrgð og mæta kröfum ÖBÍ af sanngirni.

 

Dale á milli starfa – LIVE ONLINE

Félagsmönnum Framsýnar stendur til boða að fara frítt á námskeið á vegum Dale Carnegie „Dale á milli starfa – LIVE ONLINE.“

Um er að ræða sérsniðið Dale Carnegie námskeið fyrir þá sem eru á milli starfa eða í leit að nýjum atvinnutækifærum. Settu eldmóð í atvinnuleitina, virkjaðu styrkleikana þína og stækkaðu tengslanetið.

Tveir alþjóðlega vottaðir Dale Carnegie þjálfarar leiða þetta 6 skipta námskeið sem er einu sinni í viku í tvo og hálfan tíma í senn.  Webex þjálfunarumhverfið býður upp á þátttöku í rauntíma þar sem verkefnavinna, coaching og umræður fara fram á líflegan máta.  Sérstakur tæknilegur aðstoðarmaður sér um að lágmarka tæknitruflanir og að enginn lendi í vandræðum með tengingar.

Nánari upplýsingar og skráning er hér:   https://www.dale.is/bokanir

Þátttakendur skrá sig á síðu Dale Carnegie og setja í skilaboð hvaða fræðslusjóði þeir tilheyra.  Reikningur er sendur beint á skrifstofu fræðslusjóðanna.

Félagsmenn aðildarfélaga Landsmenntar, Sjómenntar, Ríkismenntar og Sveitamenntar fá námskeiðið að fullu niðurgreitt.

Leiðbeiningar varðandi smitgát á fiskiskipum

Samtök sjómanna og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafa í samráði við embætti landlæknis gefið út endurbættar leiðbeiningar um smitgát og viðbrögð vakni grunur er um smit um borð í fiskiskipum. Leiðbeiningarnar eru sambærilegar þeim sem gefnar voru út eftir að Covid kom upp fyrr á þessu ári. Leiðbeiningarnar hafa nú verið uppfærðar og yfirfarnar að landlæknisembættinu. Þeim hefur nú verið komið á framfæri við útgerðir innan SFS.

Uppfærðar leiðbeiningar

 

GRÍPTU TÆKIFÆRIÐ! Frítt starfsmiðað nám í boði fyrir félagsmenn Framsýnar

GRÍPTU TÆKIFÆRIÐ! Frítt starfsmiðað nám í boði fyrir félagsmenn Framsýnar stéttarfélags.

Námsleiðirnar sem eru að hefjast núna í nóvember eru:

  • Bókhald grunnur
  • Skrifstofu- & tölvufærni
  • Digital Marketing
  • App & Vefhönnun
  • Frá hugmynd að eigin rekstri
  • Vefsíðugerð í WordPress

Sjá nánar hér http://www.ntv.is/is/um-ntv/yfirlit-flokka/view/stettarfelags-namskeid

Kynntu þér tækifærið strax hjá Framsýn eða á heimasíðu NTV skólans www.ntv.is

Skráning og upplýsingar um hvaða stéttarfélög bjóða félagsmönnum sínum þessar námsleiðir þeim að kostnaðarlausu er að finna hér: http://www.ntv.is/is/namskeid/nam-i-bodi-stettarfelags

Starfsmenntasjóðirnir Landsmennt, Ríkismennt, Sveitamennt og Sjómennt hafa gert tilraunasamning við NTV skólann um starfsmiðað fjarnám fyrir félagsmenn sína á landsbyggðinni, þar á meðal félagsmenn Framsýnar.

 

Samtölin um styttingu vinnuvikunnar komin á fullt

Eftir áralanga baráttu BSRB fyrir styttingu vinnuvikunnar er loksins komið að því vinnutími félagsmanna fari að styttast. Samtal um hvernig eigi að stytta eru farin í gang á fjölmörgum vinnustöðum og á nokkrum vinnustöðum er vinnunni lokið og búið að ákveða útfærsluna.

Styttingin á að taka gildi í síðasta lagi 1. janúar 2021 hjá þeim sem vinna dagvinnu og þar á starfsfólk að taka virkan þátt í því að ákveða útfærsluna. Á vaktavinnustöðum styttist vinnuvikan frá 1. maí 2021 og verður útfærslan miðlæg enda getur hún kallað á ýmsar breytingar, til dæmis á vaktakerfi og mönnun.

Á vinnustöðum þar sem unnið er í dagvinnu er mikilvægt að standa vel að samtali starfsfólks og stjórnenda þar sem farið er yfir starfsemina og hún í raun endurskipulögð. Markmiðið er að ná gagnkvæmum ávinningi fyrir starfsfólk og vinnustaðinn þannig að þjónusta og afköst verði óbreytt á sama tíma og heilsa og líðan starfsfólks batnar.

Starfsemin á vinnustöðum ríkis og sveitarfélaga er mjög fjölbreytt og því munu ólíkar leiðir henta mismunandi vinnustöðum. Á einhverjum stöðum er hægt að loka fyrr einn dag í viku án þess að þjónustan skerðist. Á öðrum getur starfsfólk skipst á að fara fyrr eða mæta seinna og á enn öðrum er staðan þannig að útfærslan getur verið mismunandi eftir starfsfólki.

Heimilt verður að stytta vinnuvikuna hjá dagvinnufólki í allt að 36 stundir. Styttingin verður að lágmarki fjórar stundir hjá vaktavinnufólki og allt að átta stundir, niður í 32 tíma vinnuviku, hjá þeim sem ganga þyngstu vaktirnar.

Til að auðvelda starfsfólki jafnt sem stjórnendum að undirbúa styttinguna á sínum vinnustað hefur verið útbúið mikið af kynningarefni sem gott er að skoða. BSRB hefur opnað vefinn styttri.is þar sem hægt er að finna greinargóðar upplýsingar. Þá er hægt að finna kynningarmyndbönd, upptökur af kynningarfundum og fleira hér á vef BSRB. Þá má benda á vefinn betrivinnutimi.is þar sem hægt er að sækja ýmsan fróðleik.

Stytting vinnuvikunnar verður stærsta breytingin á vinnutíma launafólks í nærri hálfa öld, frá því 40 tíma vinnuvikan var tekin upp hér á landi. Tökum öll þátt í því að gera drauminn um styttri vinnuviku og fjölskylduvænna samfélag að veruleika. (Tekið af heimasíðu BSRB en þess má geta að félagsmenn Starfsmannafélags Húsavíkur eru innan sambandsins)

Samtöl um styttingu vinnuvikunnar fara fram þessa dagana á fjölmörgum vinnustöðum. (Mynd Skrifstofa stéttarfélaganna)

 

 

Mikil umferð um heimasíðu stéttarfélaganna

Samkvæmt vefmælinum er mikil umferð um heimasíðu stéttarfélaganna á hverjum degi, framsyn.is. Sem er um margt mjög merkilegt enda um heimasíðu stéttarfélaga að ræða. Greinilegt er að menn fara bæði inn á síðuna til að afla sér upplýsinga um réttindi og kjör auk þess að fylgjast með starfi stéttarfélaganna í gegnum fréttir á síðunni. Sé tekið mið af síðustu viku, frá 26. október til 1. nóvember fóru um 900 gestir inn á síðuna daglega. Á sama tímabili voru notendur 1.648, það eru þeir sem heimsóttu síðuna á tímabilinu sem mælingin nær yfir. Áhugavert er að sjá að fólk sem býr ekki lengur á svæðinu og flust hefur erlendis er duglegt að fylgjast áfram með starfi félaganna samkvæmt úttektinni. Til stendur að bæta síðuna enn frekar og gera hana aðgengilegri fyrir félagsmenn. Vonandi klárast sú vinna á næstu mánuðum. Áfram verður lagt upp úr því að vera með fréttatengda heimasíðu enda núverandi form vinsælt meðal félagsmanna og annarra sem skoða síðuna reglulega og síðasta samantekt ber með sér.

Eins og fram kemur í fréttinni er áhugavert að sjá að fjölmargir heimsækja síðuna reglulega og koma heimsóknirnar víða að. Hér má samantekt fyrir síðustu viku.

Ný útgáfa af vefnum Næsta Skref

Fyrir nokkru opnaði ný útgáfa af vefnum Næsta skref, en Næsta skef er upplýsingavefur um nám, störf, raunfærnimat og ráðgjöf á Íslandi. Þar er að finna lýsingar á um 300 störfum og 150 námsleiðum, áhugakönnun, skimunarlista vegna raunfærnimats og upplýsingar um ráðgjöf og starfsemi símenntunarmiðstöðva.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Sérfræðisetur í ævilangri náms- og starfsráðgjöf unnu að þróun Næsta skrefs árin 2012-2014 í samstarfi við fjölmarga hagsmunaaðila en í dag er vefurinn starfræktur og rekinn af FA.

Miklar endurbætur hafa verið unnar á samspili fjölda náms- og starfslýsinga, kerfi fyrir námsleiðir símenntunarmiðstöðva, skimunarlistum í raunfærnimati og viðmóti áhugakönnunar. Allt þetta ætti að skila mun betri notendaupplifun.

 

 Endurgreiðslur vegna námsstyrkja til félagsmanna

Félagsmenn, Framsýnar, Þingiðnar og Starfsmannafélags Húsavíkur sem ætla  sér að sækja um styrki vegna náms eða námskeiða hjá stéttarfélögunum vegna útlagðs kostnaðar er bent á að gera það fyrir lok mánaðar hverju sinni. Námsstyrkir verða síðan greiddir út fimmta dags hvers mánaðar þar á eftir.

Förum varlega – hertar reglur varðandi aðgengi að þjónustu stéttarfélaganna

Vegna tilmæla  heilbrigðisyfirvalda um að menn gæti vel að sóttvörnum hafa stéttarfélögin ákveðið eftirfarandi:

  • Þrátt fyrir að Skrifstofa stéttarfélaganna verði opin áfram fyrir heimsóknum eru viðskiptavinir skrifstofunnar beðnir um að nýta sér tæknina í stað þess að koma á skrifstofuna, það er með netpóstum eða með því að hafa samband símleiðis.
  • Lokað verður fyrir útleigu á orlofsíbúðum stéttarfélaganna til og með 17. nóvember nema í neyðartilvikum s.s. vegna veikinda.
  • Fundarsalur stéttarfélaganna verður lokaður til og með 17. nóvember og því ekki leigður út á tímabilinu.

Reglur þessar verða endurskoðaðar þegar frekari upplýsingar liggja fyrir hjá heilbrigðisyfirvöldum.

Beðist er velvirðingar á þessum aðgerðum stéttarfélaganna en þær eru tilkomnar til vegna Covid. Markmiðið er að vernda starfsmenn og félagsmenn fyrir hugsanlegu smiti.

Framsýn stéttarfélag

Starfsmannafélag Húsavíkur

Þingiðn, félag iðnaðarmanna

 

Tímamót í sögu ASÍ – 44 þingið rafrænt og forsetum fjölgað

Þing Alþýðusambands Íslands sem fram fór í síðustu viku var að þessu sinni haldið rafrænt í ljósi aðstæðna í samfélaginu. Á þinginu voru  kjarnaatriðin, samkvæmt lögum ASÍ afgreidd, en nefndarstörfum og  málefnavinnu frestað fram á vorið 2021. Eins og fram kemur í 24. grein laga Alþýðusambandsins ber að senda aðildarfélögunum þau gögn sem leggja á fyrir þingið með ákveðnum fyrirvara. Skal það gert eigi síðar en þremur mánuðum áður svo félögin geti tekið gögnin til efnislegrar meðferðar og undirbúið þingfulltrúa sem í umboði stéttarfélaganna sitja þingið. Ályktanir og álit sem miðstjórn hyggst leggja fyrir þingið þurfa sömuleiðis að berast aðildarfélögunum  þremur mánuðum fyrir þingið. Þá skulu jafnan fara fram tvær umræður um lagabreytingar. Því miður var þessum reglum ekki fylgt eftir í öllum tilfellum og því gætir óánægju með ákveðin atriði varðandi þinghaldið.

Skipulag þingsins hefði þurft að vera miklu betra. Aðildarfélögin fengu ekki tækifæri til að kynna sér málefni þingsins s.s. tillögu um að fjölga varaforsetum um einn. Tillögu sem menn fréttu fyrst af örfáum dögum fyrir þingið í fjölmiðlum að til stæði að leggja fyrir þingið með því að breyta þingsköpum. Tillagan fékk enga efnislega umræðu hjá aðildarfélögum ASÍ og slapp naumlega í gegnum þingið enda megn óánægja með svona vinnubrögð. Alþýðusamband Íslands er ekki og á ekki að vera eignarhaldsfélag nokkurra formanna innan sambandsins, formanna sem maður hélt að stunduðu ekki svona vinnubrögð.

Athygli vakti að þingfulltrúar gátu tjáð sig rafrænt á þinginu, en þurftu að hafa 15 meðmælendur ætluðu þeir sér að leggja fram tillögu eða breytingatillögu við tillögur miðstjórnar og kjörnefndar um félaga í trúnaðarstöður fyrir sambandið. Þetta var einfaldlega óframkvæmanlegt fyrir flest félögin, enda hvert og eitt þeirra með fáa þingfulltrúa. Enda fór það svo að engar tillögur komu fram frá þingfulltrúum með rafrænum hætti á þinginu sem væntanlega er sögulegt í starfi Alþýðusambands Íslands, það er að ekki hafi komið fram tillögur frá almennum þingfulltrúum á þinginu.

Fram að þessu hefur mikið verið lagt upp úr því að forysta sambandsins endurspeglaði á hverjum tíma mismunandi viðhorf hreyfingarinnar auk þess sem tekið væri tillit til sjónarmiða landsbyggðar og höfuðborgar við uppstillingu í forsetateymið. Nú bar svo við að „nýja forystan“ taldi ekki ástæðu til að virða þau gildi lengur. Það er miður fyrir íslenska verkalýðshreyfingu að allir forsetarnir fjórir skuli koma af höfuðborgarsvæðinu til að gulltryggja ákveðnum aðilum völd innan sambandsins. Sjónarmið landsbyggðar og unga fólksins innan hreyfingarinnar voru virt að vettugi, það er þrátt fyrir að þess hafi verið getið að mark­miðið með fjölg­un varaforseta væri að stærstu sam­bönd og fylk­ing­ar ættu full­trúa í æðstu for­ystusveit sam­bands­ins. Þetta sjónarmið náði ekki út fyrir 101 Reykjavík sem er mikið áhyggjuefni.

Hér með er skorað á ráðandi menn innan Alþýðusambands Íslands að bæta úr þessu ójafnvægi milli sjónarmiða landsbyggðar og höfuðborgar. Sama á við um þær nýju áherslurnar  í starfi ASÍ að auglýsa ekki laus störf til umsóknar á skrifstofu sambandsins. Þess í stað er handvalið í störfin af ákveðnum aðilum, það er vini og vandamenn. Spurt er, er þetta eðlilegt í hreyfingu sem kennir sig við jafnræði, kynjajafnrétti og lýðræði að svona vinnubrögð séu viðhöfð?

Jónas Kristjánsson formaður Þingiðnar er hér þungt hugsi yfir þingstöfunum enda full ástæða til þess. Það var margt þar sem mátti fara betur.

Elva Héðinsdóttir formaður Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar sat þingið ásamt ungu barni sínu sem án efa er verðandi leiðtogi. Hún er jafnframt í stjórn Framsýnar-ung.

Fulltrúar Framsýnar og Þingiðnar ákváðu að hittast í fundarsal stéttarfélaganna og taka saman þátt í þinginu sem var rafrænt. Á myndina vantar formann Framsýnar sem tók myndina.

Fundað með Íslandsþara ehf. í morgun

Fulltrúar frá Framsýn og Íslandsþara ehf. funduðu í morgun en fyrirtækið hyggur á uppbyggingu og rekstur á stórþaravinnslu á Húsavík sem nýtir græna jarðvarmaorku og sjálfbærar vinnsluaðferðir við framleiðsluna. Stefnt er að því að byggja vinnsluna upp í áföngum og að fullri framleiðslugetu verði náð eftir 5-6 ár. Fyrirtækið hefur þegar sótt um tvær lóðir undir starfsemina við Hrísmóa sunnan við Húsavík. Um er að ræða samtals 8000m2 lóðir. Verði verkefnið að veruleika munu verða til allt að 90 fjölbreytt störf í landvinnslu og útgerð á Húsavík.

Forsvarsmenn Íslandsþara leggja mikið upp úr góðu samstarfi við stéttarfélögin og því óskuðu þeir eftir fundi með fulltrúum Framsýnar til að fara yfir forsendur verkefnisins, fjölda og tegundir starfa sem þar verða til ásamt öðrum tengdum þáttum. Fundurinn var vinsamlegastur og fram kom sterkur vilji til að vinna þetta verkefni áfram í sátt og samlyndi beggja aðila.

Hér má sjá skipulagt svæði fyrir iðnað í Hrísmóum. Lóðirnar tvær sem um ræðir eru sunnan við Orkustöðina, sjá meðfylgjandi myndir með fréttinni.

 

 

Áformað að reisa Lofthreinisiver við Húsavík. 300-500 stöðugildi skapast

Íslenska fyrirtækið Carbon Iceland ehf. áformar að reisa lofthreinsiver á Íslandi sem gerir kleift að hreinsa og binda 1 milljón tonna af CO2 (koltvísýringi) úr andrúmslofti. Boðað hefur verið til blaðamannafundar síðar í dag, þar sem þessi áform verða kynnt nánar. Byrjað var á undirbúningi þessa verkefnis fyrir tveimur árum og hefur Carbon Iceland náð samkomulagi við kanadíska hátæknifyrirtækið Carbon Engineering um að nota svokallaða „Direct Air Capture“- tækni sem fyrirtækið hefur þróað.

140 milljarðar
Viðræður hafa staðið yfir við sveitarfélagið Norðurþing sem miða að því að starfsemi Carbon Iceland verði staðsett á vistvænum iðngarði á Bakka, við Húsavík. Áætlað er að framkvæmd þessi kosti um 140 milljarða króna og eru þá allar þrjár vinnslueiningarnar taldar með: lofthreinsiver, framleiðsla á grænu CO2 og framleiðsla á hreinu, grænu eldsneyti.

Árlegar tekjur, þegar starfsemin verður komin í fullan gang, geta numið allt að 50-70 milljörðum króna, að stærstum hluta gjaldeyristekjur.

300 – 500 stöðugildi
Fyrirhugað er að byrja að reisa lofthreinsiverið árið 2023 og að það verði komið í gagnið um 2025. Um 300-500 stöðugildi, bein og óbein, verða að staðaldri við starfsemina, segir í tilkynningu.

(Frétt N4, mynd Framsýn)

 

 

Þingi SSÍ frestað vegna Covid

Í ljósi óvissu vegna Covid-19 faraldursins  samþykkti Sambandsstjórn Sjómannasambands Íslands í morgun að fresta fyrirhuguðu þingi, sem halda átti dagana 26. og 27. nóvember, um óákveðinn tíma.

Framkvæmdastjórn sambandsins fær heimild til að boða til þings með að lágmarki eins mánaðar fyrirvara um leið og hún telur óhætt að halda þingið. Samkvæmt framansögðu er 32. þingi Sjómannasambands Íslands sem halda átti dagana 26. og 27. nóvember næstkomandi hér með frestað um óákveðinn tíma segir í tilkynningu frá sambandinu sem var að berast Framsýn. Til stóð að tveir fulltrúar frá Sjómannadeild Framsýnar færu á þingið sem nú hefur verið frestað um óákveðinn tíma.

Aðalsteinn J. hættir störfum hjá stéttarfélögunum

Aðalsteinn J. Halldórsson sem verið hefur eftirlitsfulltrúi stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum ásamt því að vinna önnur störf á vegum félaganna hefur látið af störfum hjá félögunum. Síðasti starfsdagur Aðalsteins var í gær. Aðalsteinn sem er í hlutastarfi sem oddviti Tjörneshrepps hefur þegar ráðið sig til starfa hjá Búnaðarsambandi Suður Þingeyinga við sæðingar og önnur tilfallandi störf.  Stéttarfélögin og starfsmenn stéttarfélaganna vilja nota tækifærið og þakka Alla fyrir ánægjulegt samstarf á liðnum árum um leið og honum er óskað velfarnaðar í nýju starfi hjá Búnaðarsambandinu.