Öflugt trúnaðarmannakerfi hjá Framsýn

Framsýn leggur mikið upp úr því að vera með öfluga trúnaðarmenn á vinnustöðum og í dag eru starfandi á fjórða tug trúnaðarmanna á vinnustöðum á félagssvæðinu. Á stjórnarfundi Framsýnar í gær var gengið frá tveimur nýjum trúnaðarmönnum, annars vegar fyrir starfsmenn Olís á Húsavík og hins vegar fyrir áhöfnina á Pálínu Þórunni GK 49. Á vinnustöðum þar sem starfandi eru fleiri en fimm starfsmenn ber að kjósa trúnaðarmann. Rétt er að hvetja þá vinnustaði sem ekki hafa þegar kjörið sér trúnaðarmann að gera það og tilkynna það síðan til Skrifstofu stéttarfélaganna. Til að efla trúnaðarmenn í starfi stendur þeim til boða að fara á trúnaðarmannanámskeið. Næsta námskeið, sem er tveggja daga námskeið, verður haldið 19 til 20. apríl. Námskeiðið er trúnaðarmönnum að kostnaðarlausu auk þess sem þeir halda launum meðan þeir sitja námskeiðið. Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna.

(Meðfylgjandi mynd er tekin af heimasíðu Nesfisks) 

Deila á