Samstarfssamningur endurnýjaður við VÞ

Skrifstofa stéttarfélaganna á Húsavík og Verkalýðsfélag Þórshafnar hafa endurnýjað samstarfssamning um þjónustu við félagsmenn Verkalýðsfélags Þórshafnar. Aðilar hafa um margra ára skeið átt mjög gott samstarf um sameiginleg mál er varða starfsemi og rekstur stéttarfélaga og endurspeglast í endurnýjuðum samningi. Í samningnum er m.a. kveðið á um að samningsaðilar séu sammála um að vinna sameiginlega að málefnum félagsmanna, atvinnulífs og byggðarlagsins í heild sinni með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi.

Samningurinn miðast við að félagsmenn, fyrirtæki og stofnanir á félagssvæði Verkalýðsfélags Þórshafnar leiti til skrifstofu félagsins á Þórshöfn varðandi sín mál er tengjast starfsemi stéttarfélaga. Það er, áður en leitað er til Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík eftir frekari þjónustu. Í þeim tilvikum sem félagsmenn eða starfsmenn VÞ leita til Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík skulu starfsmenn stéttarfélaganna leitast við að veita viðkomandi aðilum viðunandi þjónustu. Það sama á við um fyrirtæki og stofnanir á félagssvæði VÞ sem leita til Skrifstofu stéttarfélaganna enda tengist fyrirspurnirnar starfsemi VÞ.

Með samningnum fá félagsmenn Verkalýðsfélag Þórshafnar aðgengi að lögmanni Framsýnar sem og kjörum félagsmanna Framsýnar á flugmiðum með Flugfélaginu Erni á flugleiðinni Reykjavík-Húsavík. Sama á við um önnur kjör s.s. vegna hótelgistinga/skoðunargjalda bifreiða sem Framsýn kann að semja um fyrir sína félagsmenn á hverjum tíma enda verði hægt að heimfæra slík kjör á félagsmenn VÞ. Þá skulu félagsmenn Verkalýðsfélags Þórshafnar hafa aðgengi að orlofshúsum/íbúðum til jafns við félagsmenn aðildarfélaga Skrifstofu stéttarfélaganna á orlofstímabilinu frá 1. júní til 31. ágúst ár hvert. Utan hefðbundins orlofstíma (1. júní til 31. ágúst) skulu félagsmenn VÞ hafa aðgengi að orlofsíbúðum stéttarfélaganna Framsýnar/Þingiðnar í Reykjavík/Kópavogi, næst á eftir félagsmönnum Framsýnar/Þingiðnar. Sömuleiðis skulu aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna hafa aðgang að orlofshúsum VÞ í Kjarnaskógi, næst á eftir félagsmönnum þeirra.

Þá er um það samið að Verkalýðsfélag Þórshafnar hafi aðgengi að vinnustaðaeftirliti aðildarfélaga Skrifstofu stéttarfélaganna. Samstarfssamningurinn hefur tekið gildi og greiðir Verkalýðsfélag Þórshafnar ákveðna þóknun fyrir veitta þjónustu til Skrifstofu stéttarfélaganna.

Deila á