Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar kom saman til fundar í gær ásamt stjórn Framsýnar- ung. Dagskrá fundarins var löng en tæplega 30 mál voru tekin til umræðu og afgreiðslu á fundinum. Eftir umræður um stöðu lágtekjufólks samþykkti fundurinn samhljóða að senda frá sér svohljóðandi ályktun um stöðuna sem að mati fundarmanna væri langt frá því að vera boðleg.
Ályktun um vanda lágtekjufólks
-Framsýn kallar eftir aðgerðum-
„Framsýn stéttarfélag krefst þess að stjórnvöld grípi þegar í stað til tímabundinna aðgerða til að bæta kjör atvinnuleitenda, jafnframt því að auka stuðning við lágtekjufólk til lengri tíma.
Verkalýðshreyfingin hefur kallað eftir auknum stuðningi við atvinnuleitendur og að komið verði til móts við lágtekjufólk í landinu með sértækum aðgerðum, bæði karla og konur. Í dag eru lægstu laun samkvæmt kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands kr. 331.735,- á mánuði, sem er langt undir öllum framfærsluviðmiðum.
Að mati Framsýnar á það að vera eitt af forgangsmálum stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins að bæta stöðu þessa hóps s.s. með hækkun lægstu launa og hækkunum á barnabótum, vaxtabótum og húsnæðisbótum. Þá verði tímabil atvinnuleysisbóta tímabundið lengt og grunnatvinnuleysisbætur hækkaðar.
Framsýn kallar jafnframt eftir auknum framlögum til byggingar leiguhúsnæðis í almenna íbúðakerfinu og að Bjarg íbúðafélag horfi til þess að byggja eða fjárfesta í íbúðum sem víðast um landið í stað þess að horfa nær eingöngu á suðvesturhornið.
Þörfin fyrir ódýrt og öruggt íbúðarhúsnæði er til staðar víða um land. Við því þarf að bregðast með aðkomu stjórnvalda, fjármálastofnanna og verkalýðshreyfingarinnar í gegnum Bjarg íbúðarfélag, sem ætlað er að tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum á vinnumarkaði sem eru fullgildir félagsmenn aðildarfélaga ASÍ eða BSRB, aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu, án hagnaðarmarkmiða.“