Aðalfundur Starfsmannafélags Húsavíkur – Óli nýr formaður.

Aðalfundur Starfsmannafélags Húsavíkur var haldinn 27. ágúst s.l.. Fundartími, þátttaka og framkvæmd fundarins litast nokkuð af þeim aðstæðum sem eru og hafa verið á þessu ári með Covid – veiruna í stóru hlutverki.

Óli Hákon Hertervik var kosinn formaður félagsins og tekur hann við góðu búi af Helgu Þuríði Árnadóttur, sem hefur verið formaður og stýrt félaginu s.l. 5 ár. Rétt er að þakka Helgu Þuríði fyrir hennar góða og óeigingjarna framlag þessi ár. Aðrir nýjir stjórnarmenn eru Fanney Hreinsdóttir og Sylvía Ægisdóttir. Helga Eyrún Sveinsdóttir og Guðrún Brynjarsdóttir báðust undar frekari stjórnarsetu og eru þeim þökkuð góð störf fyrir félagið.

Á fundinum var samþykkt að fela stjórn að yfirfara lög og reglugerðir félagsins og koma með tillögu til næsta aðalundar.

Afkoma félagsins á árinu 2019 var jákvæð upp á 6,5 millj.. Stjórn hefur haldið afar þétt um rekstur félagsins á s.l. árum, endurskipulagt og hagrætt þar sem þörf var, með þessum góða árangri.

Fréttir af aðalfundi – PCC á toppnum

PCC BakkiSilicon hf. greiddi mest allra atvinnurekenda  í iðgjöld til Framsýnar árið 2019 eða samtals um kr. 23,7 milljónir. Árið áður greiddi Norðurþing mest eða um 13,9 milljónir. Innifalið í upphæðinni eru félagsgjöld starfsmanna og lögbundin iðgjöld atvinnurekenda í sjóði Framsýnar.

Stærstu greiðendur iðgjalda til Framsýnar 2019 eftir röð:

PCC BakkiSilicon hf.

Sveitarfélagið Norðurþing

GPG. Seafood ehf.

Norðlenska matarborðið ehf.

Ríkisjóður Íslands

Íslandshótel hf.

Hvammur, heimili aldraðra

Þingeyjarsveit

Jarðboranir hf.

Eimskip

 

Fréttir af aðalfundi – Mannauðurinn hjarta hvers fyrirtækis

Varaformaður Framsýnar, Ósk Helgadóttir, kvaddi sér hljóðs undir liðnum, önnur mál á aðalfundi Framsýnar. Sagði hún ástæðu til að þakka starfsfólki Skrifstofu stéttarfélaganna sérstaklega fyrir vel unnin störf í þágu félagsmanna. Það ætti ekki síst við síðustu mánuði, síðan heimsfaraldur Covid skall á með fullum þunga. Það hefði sýnt sig og sannað á þessum álagstímum, það sem oft hefði verið sagt, að mannauðurinn væri hjarta hvers fyrirtækis. Fundarmenn svöruðu orðum Óskar með lófaklappi. Linda Margrét þakkaði fyrir hlý orð í garð starfsmanna félagsins og sagði þau mikils virði fyrir starfsmenn.

 

Fréttir af aðalfundi – Greiðandi félagsmenn á fjórða þúsund

Alls greiddu 3.320 félagsmenn til Framsýnar- stéttarfélags á árinu 2019 en greiðandi félagar voru 3.446 árið 2018. Greiðandi félagsmönnum Framsýnar fækkaði aðeins milli ára sem á sínar skýringar þar sem stórframkvæmdum á svæðinu er lokið. Af þeim sem greiddu til Framsýnar á síðasta ári voru 2.080 karlar og 1.240 konur sem skiptast þannig, konur eru 37% og karlar 63%.  Skýringin á kynjahlutfallinu liggur fyrir, breytingarnar eru tilkomnar vegna verklegra framkvæmda á svæðinu á síðustu árum og því hefur karlastörfum fjölgað umtalsvert umfram hefðbundin kvennastörf. Flest bendir til þess að kynjahlutfallið muni jafnast frekar á næstu árum.

Samkvæmt samþykkt stofnfundar félagsins frá 1. maí 2008 er ekki lengur miðað við sérstakt lágmarksgjald svo menn teljist fullgildir félagsmenn heldur teljast þeir félagsmenn sem greiða til félagsins á hverjum tíma og ganga formlega í félagið.

Um síðustu áramót voru gjaldfrjálsir félagsmenn samtals 332, það eru aldraðir og öryrkjar sem ekki eru á vinnumarkaði. Á hverjum tíma falla um 8 til 10% félagsmanna undir þessa skilgreiningu.

 

Hlutabótaleiðin framlengd – Framsýn kallar eftir virkri vinnumiðlun

Hlutabótaleiðin verður framlengd um tvo mánuði, tekjutengdar atvinnuleysisbætur fást greiddar í sex mánuði og laun í sóttkví verða greidd til áramóta. Þetta var niðurstaða ríkisstjórnarfundar sem fór fram í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í dag, skv. heimildum visir.is.

Hlutabótaleiðin átti að renna út nú um mánaðamótin og hefur verið sterkt ákall frá verkaklýðshreyfingunni um áframhald hennar. Með því að framlengja hana verður fyrirtækjum gert kleift að halda ráðningarsambandi við starfsfólk sitt og viðhalda þar með nauðsynlegri þekkingu til að geta blásið til sóknar á ný þegar betur betur árár. Var það niðurstaða fundarins að framlengja leiðina um tvo mánuði eða til 1. nóvember.

Þá ræddi ríkisstjórnin einnig á fundi sínum tekjutengdar atvinnuleysisbætur en heildarsamtök launafólks hafa kallað eftir því að tekjutengdar atvinnuleyisbætur verði hækkaðar og tekjutengda tímabilið framlengt. Var ákveðið að framlengja tekjutengdar bætur úr þremur mánuðum í sex.

Þá ákvað ríkisstjórnin að framlengja úrræði sem varðar tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að sýna merki þess að vera sýktir. Var ákveðið að úrræðið myndi gilda út árið.

Til viðbótar má geta þess að Framsýn hefur kallað eftir því að starfsemi Vinnumálastofnunnar verði tekin til frekari skoðunar, það er að stofnunninni verði gert betur kleift að sinna því starfi sem henni er ætlað samkvæmt lögum. Það er til dæmis ólíðandi að á sama tíma og atvinnuleysi er mikið á Íslandi skuli ganga illa að ráða fólk til starfa í almenn verkamannastörf. Framsýn kallar eftir virkri vinnumiðlun.

 

Aðalfundi Framsýnar lokið

Ýmislegt hefur gert það að verkum að ekki hefur tekist að halda aðalfund Framsýnar stéttarfélags fyrr en í gær, þriðjudag. Fundurinn var haldinn við sérstakar aðstæður sem tengist heimsfaraldrinum Covid- 19. Allt var gert til að tryggja fundarmenn fyrir hugsanlegu smiti þar sem tveggja metra reglan var viðhöfð, ekki var boðið upp á kaffi eða aðrar veitingar og þá var ekki komið fyrir borðum í fundarsölum en vegna tveggja metra reglunnar bauðst fundarmönnum að vera í tveimur fundarsölum. Til þess kom þó ekki þar sem mætingin á fundinn var hófleg. Nánar verður fjallað um helstu málefni fundarins á heimasíðunni á allra næstu dögum.

Framsýn kallar eftir auknu fjármagni til rekstrar Menningarmiðstöðvar Þingeyinga

Á stjórnar og trúnaðarráðsfundi Framsýnar sem haldinn var í síðustu viku urðu töluverðar umræður um starfsemi Menningarmiðstöðvar Þingeyinga.  Höfðu fundarmenn áhyggjur af skertum fjárveitingum rekstraraðila til miðstöðvarinnar sem væru ekki í takt við starfsemina.  Það er auknum umsvifum undanfarin ár hafi ekki fylgt aukið framlag frá eigendum stofnunarinnar. Komið var inn á að Verkalýðsfélag Húsavíkur, nú Framsýn stéttarfélag, hefði lagt fram framlag þegar Sjóminjasafninu var komið á fót. Því miður væri svo komið að hluti safngripa væri farinn að skemmast, hér er verið að vísa í útisvæðið við Sjóminjasafnið. Eftir umræður var samþykkt að koma ábendingum/athugasemdum Framsýnar á framfæri við stjórn Menningarmiðstöðvar Þingeyinga.

 Þar kemur fram;

„Þingeyingar hafa í gegnum tíðina verið stoltir af starfsemi Menningarmiðstöðvar Þingeyinga og  því metnaðarfulla starfi sem einkennt hefur starfsemi stofnunarinnar um árabil.

Með þeim miklu þjóðfélagsbreytingum sem urðu á 20. öld opnuðust augu fólks, jafnt Þingeyinga sem annara fyrir nauðsyn þess að varðveita það „sem áður var“. Síðan þá hafa stórkostlegar breytingar orðið á lifnaðarháttum þjóðarinnar. Má þar nefna að verkþekking hefur breyst, störf horfið, ný orðið til og allar samskiptaleiðir tekið stórkostlegum framförum. Fjórða iðnbyltingin er skollin á með ógnarhraða og því er ekki síður þörf á því í dag að halda vel utan um arfleið okkar. Það er engin þjóð án róta og saga forfeðranna hefur mótað  okkur rétt eins og landið sem við búum í. Okkar er að bera virðingu fyrir því liðna og það gerum við best með því að  halda skilmerkilega utan um menningararfinn, bæta í söguna og skila keflinu áfram til komandi kynslóða.

Í nýútkomnu fréttabréfi Menningarmiðstöðvar Þingeyinga, Safna, kemur fram að stofnunin samanstandi af Byggðasafni Norður-Þingeyinga, Byggðasafni Suður-Þingeyinga, Sjóminjasafninu, Héraðsskjalasafni Þingeyinga, Ljósmyndasafni Þingeyinga, Myndlistasafni Þingeyinga, Náttúrugripasafni Þingeyinga, bókasöfnunum í Norðurþingi sem hafa aðsetur á Húsavík, Kópaskeri og Raufarhöfn og útgáfu Árbókar Þingeyinga. Menningarmiðstöð Þingeyinga er með þjóðlífssýningar á Grenjaðarstað í Aðaldal, í Safnahúsinu á Húsavík, á Snartarstöðum við Kópasker og í Sauðaneshúsi á Langanesi.

 Það dylst engum við þennan lestur að starfsemin er gríðarlega umfangsmikil og hefur aukist allt frá stofnun Menningarmiðstöðvar Þingeyinga árið 2007. Markmið með stofnuninni var ekki síst að efla starfsemina og hagræða í rekstri með því að tengja söfnin betur saman undir einum hatti.

 Svo aftur sé vitnað í Safna, hefur auknum umsvifum Menningarmiðstöðvar Þingeyinga undanfarin ár ekki fylgt aukið framlag frá eigendum stofnunarinnar.

 Með bréfi þessu vill Framsýn stéttarfélag koma á framfæri áhyggjum af fjárhagslegri stöðu Menningarmiðstöðvar Þingeyinga og takmörkuðum burðum stofnunarinnar til að sinna því hlutverki sem henni er ætlað.  Í því sambandi má nefna útisvæðið við Sjóminjasafnið á Húsavík, þar sem finna má gamla húsvíska trébáta með mikla og langa útgerðarsögu. Bátarnir eru orðnir ónýtir, þar sem viðhaldi hefur ekki verið sinnt mörg undanfarin ár. Félaginu rennur blóðið til skyldunnar, en Verkalýðsfélag Húsavíkur ásamt fleiri aðilum, hvatti til þess á sínum tíma að Sjóminjasafni yrði komið á fót til að varðveita söguna. Félagið fylgdi því eftir með styrkveitingu þegar verkefnið varð að veruleika og kom einnig að því að styrkja kaup á tölvukerfi fyrir Sjóminjasafnið árið 2001 sem og á hljóðkerfi 2018 þegar félagið stóð fyrir viðburði í Sjóminjasafninu í tilefni af 100 ára afmæli Verkakvennafélagsins Vonar.

Svo enn sé vitnað í Safna, kemur þar fram að rekstur Menningarmiðstöðvarinnar sé orðinn mjög þungur og faglegu starfi innan stofnunarinnar ábótavant. Ljóst sé að ef ekki náist samkomulag um verulega aukið fjármagn til rekstursins verði að endurskipuleggja starfsemina verulega og draga úr umfangi umsvifa næstu árin, sérstaklega í starfsemi Byggðasafnanna.

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar fjallaði um málið á fundi þriðjudaginn 18. ágúst, eftir ábendingar frá félagsmönnum sem hafa áhyggjur af stöðu mála.

Í kjölfarið var samþykkt að senda bréf á Héraðsnefnd Þingeyinga og koma ábendingum félagsins á framfæri við nefndina, það er mikilvægi þess að starfsemi Menningarmiðstöðvar Þingeyinga verði tryggð með eðlilegum fjárframlögum til rekstrar og viðhalds safnanna.“

 

Fræðsluátak framlengt til ársloka! Félagsmenn Framsýnar í góðum málum

Átakið tók gildi 15.mars og verður nú framlengt frá 31. ágúst til 31. desember 2020 og gildir gagnvart námi/námskeiðum sem haldin eru innan þessa sama tímaramma.

Nánari útfærsla á átaksverkefninu: Gerðir voru samningar við fræðsluaðila sem bjóða upp á vefnám/fjarnám þar sem fyrirtækjum og einstaklingum er boðin þátttaka í námi/námskeiðum þeim að kostnaðarlausu. Þessir samningar gilda einnig tímabundið og gagnvart því námi/námskeiðum sem fræðsluaðilar bjóða upp á innan þessa tímaramma það er núna frá 15. mars til og með 31.desember 2020. Einstaklingar og fyrirtæki geta skráð sig hjá viðkomandi fræðsluaðilum sem sjóðurinn er með samninga við án þess að greiða (gildir gagnvart námi/námskeiði sem kostar að hámarki 30.000,-). Fræðsluaðilarnir senda reikninga beint á sjóðina.

Breytingar á úthlutunarreglum voru eftirfarandi:
• Endurgreiðslur til fyrirtækja vegna kostnaðar við námskeiðahald, voru hækkaðar úr allt að 75% í allt að 90% af styrkhæfum heildarkostnaði. Gildistími verði frá 15. mars til og með 31. desember 2020.
• Hámarksupphæð einstaklingsstyrkja verður áfram kr. 130.000 á ári miðað við núverandi reglur. Hlutfalli endurgreiðslu var hins vegar breytt og er 90% í stað 75% af kostnaði við námið. Gildistími frá 15. mars til og með 31. desember 2020.
• Tómstundstyrkir sem voru 75% en að hámarki kr. 30.000 á ári eru í sama hámarki og hefðbundnir styrkir, það er kr. 130.000 á ári. Hlutfall endurgreiðslunnar verði sömuleiðis 90% af viðurkenndum kostnaði við námið. Gildistími verði frá 15. mars til og með 31. desember 2020.

Nánari upplýsingar veita Kristín Njálsdóttir, kristin@landsmennt.is og Hulda Björg Jóhannesdóttir, hulda@landsmennt.is í síma 599-1450 eða á tölvupósti.

Veiðiheimilin heimsótt

Á liðnu ári var talsverð umræða um vinnuaðstöðu og launakjör starfsmanna veiðiheimila í landinu. Eins og alkunna er þá eru veiðiheimili starfrækt víða um land í nágrenni við stangveiðiár landsins. Starfsmenn skrifstofu stéttarfélaganna brugðust við kallinu. Á meðfylgjandi mynd má sjá Aðalstein J. Halldórsson, starfsmann Skrifstofu stéttarfélaganna vera að leggja í hann í heimsóknir á veiðiheimili svæðisins í fylgd með eftirlitsfulltrúa Vinnueftirlitsins. Eins og sjá má er ekki slegið slöku við í sóttvörnum.

 

Framsýn selur hlut sinn í Rifósi hf.

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar hefur samþykkt að taka kauptilboði Fiskeldis Austfjarða hf. í eignarhlut Framsýnar í Fiskeldisfyrirtækinu Rifósi hf. í Kelduhverfi. Um er að ræða kaup á 84.000 nafnverðshlutum í Rifósi. Þar sem það stangast á við markmið og lög Framsýnar að eiga hlutabréf í fyrirtækjum var samþykkt að selja þennan litla eignahlut í fyrirtækinu til Fiskeldis Austfjarða. Það er von Framsýnar að Fiskeldi Austfjarða hf. eigi eftir að efla fiskeldi á félagssvæði Framsýnar stéttarfélags en töluverð uppbygging er fyrirhuguð á vegum fyrirtækisins í Kelduhverfi og Öxarfirði við Kópasker.

 

Um 5% atvinnuleysi í Þingeyjarsýslum

Í lok júlí voru 186 skráðir atvinnulausir á félagssvæði Framsýnar sem þýðir um 5% atvinnuleysi á svæðinu meðan það var um 8,8% á landsvísu. Atvinnuleysið skiptist þannig milli sveitarfélaga í Þingeyjarsýslum:

Norðurþing                        140

Skútustaðahreppur              20

Tjörneshreppur                    1

Þingeyjarsveit                    25

Mun fleiri karlar en konur eru á atvinnuleysisskrá. Karlar voru 116 og konur 70. Því miður eru horfur á að atvinnuástandið fari versnandi þegar líður á haustið. Þar kemur til að töluvert er um uppsagnir í ferðaþjónustunni og þá fer áhrifanna vegna uppsagnanna hjá PCC á Bakka að gæta í ríkari mæli. Margt bendir því til þess að veturinn verði mörgum erfiður.

Fréttir af stjórnar- og trúnaðarráðsfundi

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar kom saman til fundar í gær. Tilefni fundarins var að ganga frá nokkrum atriðum varðandi komandi aðalfund í næstu viku. Þá urðu umræður um atvinnumál á félagssvæðinu og komandi vetur. Almennt höfðu fundarmenn áhyggjur af stöðunni enda töluvert atvinnuleysi á svæðinu um þessar mundir sem á eftir að aukast þegar líður á haustið. Í dag er atvinnuleysið um 5%. Umræður urðu um starfsmannamál en Aðalsteinn J. Halldórsson sem verið hefur í 50% starfi við vinnustaðaeftirlit auk þess að sinna almennum skrifstofustörfum hefur sagt upp störfum hjá stéttarfélögunum þar sem hann hefur ráðið sig til Búnaðarsambands Þingeyinga. Starfsmannamálin verða til skoðunar á næstu vikum og til greina kemur að auglýsa eftir starfmanni í staðinn fyrir Alla. Á fundinum í gær kom fram að framundan er töluverð vinna varðandi endurnýjun á stofnanasamningum við ríkisstofnanir og vinnutímastyttingar hjá starfsmönnum sveitarfélaga. Þá verður farið í viðræður við PCC í lok þessa mánaðar varðandi  kjör og vinnutíma starfsmanna. Vilji er til þess að laga starfsumhverfi starfsmanna enn frekar. Fjallað var um samstarf Verkalýðsfélags Þórshafnar og Framsýnar sem menn vilja taka upp, ekki síst á tímum Covid- 19. Ríkissáttasemjari hefur boðað komu sína til félagsins í næstu viku, að sjálfsögðu verður honum tekið fagnandi. Málefni Sjóminjasafnsins á Húsavík voru til umræðu, óánægja er með stöðuna, það er hvernig safnið hefur drappast niður á undanförnum árum. Ákveðið var að senda Menningarmiðstöð Þingeyinga bréf og gera athugasemdir varðandi stöðu mála. Fiskeldi Austfjarða hefur gert Framsýn kauptilboð í hlut Framsýnar í Rifós. Samþykkt var að selja fyrirtækinu hlut félagsins. Formanni falið að ganga frá sölunni. Að lokum urðu miklar umræður um umræðuna sem fór að stað varðandi lokun PCC á Bakka og ummæli sem viðhöf hafa verið um lokunina þar sem m.a. er verið að hæðast af atvinnumissi fólks. Þá hefur ASÍ ekki séð ástæðu til að fjalla sérstaklega um málið sem er ansi athyglisvert í ljósi þess hvað það er alvarlegt og snertir margar fjölskyldur hér norðan heiða.

Búfesti byggir á Húsavík – íbúðirnar auglýstar í byrjun september

Um þessar mundir eru 12 íbúðir í byggingu á Húsavík á vegum Búfesti sem er húsnæðissamvinnufélag. Formaður Framsýnar skoðaði byggingasvæðið á dögunum. Hann fékk leiðsögn um svæðið en hópur iðnaðarmanna kemur að því að reisa húsin. Höfðavélar sáu um jarðvinnu og Fakta Bygg Ísland sér um að reisa húsin. Um er að ræða tvö 6 íbúða raðhús úr einingum sem koma frá Fakta Bygg í Noregi en Fakta Bygg á Íslandi er dótturfélag fyrirtækisins. Fakta Bygg á Íslandi er í eigu Húsvíkingana  Kristjáns Eymundssonar og Árna Grétars Árnasonar sem lengi hafa starfað og búið í Noregi. Aðaleigandi Fakta Bygg í Noregi er Kristján Eymundsson. Þeir voru ánægðir með að geta komið að því að byggja íbúðir á Húsavík, það er í sínum heimabæ.

Tilgangur húsnæðissamvinnufélaga  eins og Búfesti er  að  eiga  og  reka  hagkvæmar íbúðir af mismunandi stærðum og gerðum. Markmiðið er að bjóða upp á húsnæðiskosti fyrir alla. Búfesti hsf. á og rekur íbúðir á kostnaðarverði en þær eru um 260 talsins, þar af eru 15 á Húsavík og fljótlega verða þær 27 þegar nýju íbúðirnar bættast við. Markmið Búfesti er að bjóða upp á góðar og hagkvæmar íbúðir fyrir almenning. Með greiðslu 10% stofnverðs sem búseturéttar eignast félagsmenn aðgang að íbúðum félagsins. Einfalt og fljótlegt er að gerast félagsmaður í gegn um heimasíðu félagsins www.bufesti.is þar er einnig hægt að sjá hvaða íbúðir eru á lausu á hverjum tíma. Menn geta einnig haft samband við forsvarsmenn Búfesti með því að heyra í þeim í síma 460-5800 eða með því að senda þeim fyrirspurnir á bufesti@bufesti.is vilji menn fræðast nánar um félagið.

Nýju íbúðirnar sem er verið að reisa við Grundargarð og Ásgarðsveg á Húsavík verða auglýstar til sölu í byrjun september en þá munu fylgja nánari upplýsingar um íbúðirnar. Um er að ræða íbúðir sem eru rúmlega 100m2. Ekki skemmir fyrir að þær eru á einum fallegasta staðnum á Húsavík og þar sem stutt er í alla þjónustu. Samkvæmt upplýsingum frá Búfesti hefur töluvert verið spurt út í íbúðirnar sem er ánægjulegt enda hentar þetta form mörgum, sérstaklega þeim sem hafa ekki burði til þess að fjárfesta á frjálsum markaði.

Vel gengur að reisa 12 íbúðir á vegum Búfesti í Reitnum á Húsavík við Grundargarð og Ásgarðsveg. Íbúðirnar verða væntanlega klárar um næstu áramót.

Félagarnir Árni Grétar og Kristján Eymundar fara fyrir uppbyggingunni. Þeir vilja sjá frekari uppbyggingu í Reitnum en á sínum tíma áttu þeir góðar stundir í Húsavíkurfjalli, sem sjá má á í baksýn, enda báðir góðir skíðamenn á sínum tíma.

Reyndar segist Víðir Péturs stjórna öllu, svona í gríni eða alvöru. Hann er í það minnsta langflottastur.

Þessi ungi maður, Gunnar Valsson, sem býr og starfar í Noregi er ættaður frá Húsavík. Móðir hans er Hermína Gunnarsdóttir sem lengi bjó á Ketilsbrautinni.

Það verður ekki annað sagt að það sé afar jákvætt að Búfesti hafi tekið ákvörðun um að byggja 12 íbúðir á Húsavík í sumar. Um er að ræða glæsilegar íbúðir.

 

 

Heildaratvinnuleysi á Íslandi var 8,8% í júlí

Almennt atvinnuleysi var 7,9% í júlí. Er það nokkur aukning frá fyrri mánuðum, en það var 7,5% í júní og 7,4% í maí. Atvinnuleysi tengt minnkuðu starfshlutfalli hefur á hinn bóginn lækkað hratt og var komið niður í 0,9% í júlí, samanborið við 2,1% í júní og 10,3% í apríl þegar það var hvað mest. Vinnumálastofnun hefur tekið saman þessar upplýsingar.

Sjá nánar:

Síðasti fundur stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar kemur saman til fundar þriðjudaginn 18. ágúst kl. 17:00 í fundarsal félagsins. Auk þess tekur stjórn Framsýnar-ung þátt í fundinum.

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Aðalfundur félagsins
  4. Atvinnumál á svæðinu
  5. Starfsmannamál
  6. Kjaramál: Bakki-stofnanasamningar
  7. Heimsókn ríkissáttasemjara til félagsins
  8. Afstaða ASÍ til PCC á Bakka
  9. Erindi frá Rifós hf.
  10. Málefni Sjóminjasafnsins á Húsavík
  11. Búfesti; uppbygging á Húsavík
  12. Önnur mál

Fundurinn er síðasti fundur núverandi stjórnar og trúnaðarráðs þar sem aðalfundur félagsins verður haldinn þriðjudaginn 25. ágúst.

 

Lagfæringar og viðræður um hæfniramma

Eins og fram kom í fjölmiðlum var slökkt á opnum kísilversins á Bakka um síðustu mánaðamót og um 80 starfsmönnum sagt upp störfum. Allt að 150 starfsmenn hafa starfað hjá fyrirtækinu þegar mest hefur verið. Um þessar mundir er unnið að lagfæringum á verksmiðjunni en ekki hefur gefist tími til að fara í þessar framkvæmdir fyrr en nú þegar framleiðslan hefur verið stöðvuð tímabundið ekki síst vegna Covid- 19 og markaðsmála.

Þá hafa stjórnendur fyrirtækisins og fulltrúar Framsýnar ákveðið að hefja viðræður síðar í þessum mánuði sem miða ekki síst að því að bæta starfsumhverfi starfsmanna enn frekar. Til skoðunar er að taka upp vinnutímastyttingu sem tryggi starfsmönnum sömu laun fyrir færri unna tíma á mánuði. Jafnframt verði bónuskerfið þróað áfram og tækiramminn sem myndar hæfniþrep. Fyrir liggur að hæfniþrepin verða tvö sem starfsmönnum stendur til boða standist þeir þær kröfur sem gerðar eru varðandi hæfniþrepin. Hæfnisþrep I gefur 2,5% launahækkun og hæfniþrep II er ætlað að gefa 5% launahækkun á grunnflokk viðkomandi starfsmanns. Við það er miðað að starfsmenn geti náð hæfniþrepunum innan 5 ára frá því að þeir hófu störf hjá fyrirtækinu.  Mikill vilji er bæði hjá forsvarsmönnum Framsýnar og PCC að gera verksmiðjuna á Bakka að góðum vinnustað og  liður í því er að huga vel að öryggi, velferð og starfskjörum starfsmanna.

Eins og fram hefur komið á heimasíðu stéttarfélaganna er PCC mikilvægasta fyrirtækið á stór Húsavíkursvæðinu þegar horft er til þess hvað fyrirtækið er að skila í sköttum til samfélagsins. Þá greiddi fyrirtækið og starfsmenn þeirra um 24 milljónir til Framsýnar á síðasta ári í félagsgjöld og kjarasamningsbundinn gjöld, það er í sjúkra- orlofs og starfsmenntasjóð félagsins. Ekkert fyrirtæki á svæðinu kemst nálægt PCC hvað þessar greiðslur eða skatta varðar til samfélagsins.

 

Dittað að Húsavíkurkirkju

Stjórnmálaleiðtoginn og málarameistarinn, Guðmundur H. Halldórsson, veit ekki að því mála kirkjuturninn á Húsavíkurkirkju í tæplega 26 metra hæð, einu, ef ekki fallegasta guðshúsi landsins. Myndin var tekin fyrir helgina þegar Guðmundur var við störf í ágætu veðri enda ekki annað hægt við svona aðstæður.

Til fróðleiks má geta þess að núverandi Húsavíkurkirkja var vígð 2. júní 1907. Rögnvaldur Ólafsson arkitekt teiknaði kirkjuna sem er krosskirkja, byggð úr norskum við. Rögnvaldur var fyrsti Íslendingurinn sem nam byggingarlist og raunar fyrsti nútíma húsameistarinn sem Íslendingar eignuðust.

Turn kirkjunnar er 26 m hár.  Hún er frábrugðin öðrum kirkjum að því leyti, að enginn venjulegur predikunarstóll er í henni.  Freymóður Jóhannesson, listmálari, málaði og skreytti kirkjuna að innan árið 1924. Sveinn Þórarinsson, listmálari frá Kílakoti, Kelduhverfi, málaði altaristöfluna 1930-31.  Pípuorgelið var vígt 8. nóvember 1964.

Nánar má lesa um sögu kirkjunnar á heimasíðu hennar.

http://husavikurkirkja.is/sokn/kirkjulysing/

Vinna sem þessi er ekki fyrir lofthrædda.

Vinsamlegur fundur með starfsmanni LÍV

Sá ágæti starfsmaður Landssambands íslenzkra verzlunarmanna/LÍV, Elva Hrönn Hjartardóttir kom í heimsókn til formanns Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar Elvu Héðinsdóttur auk þess að heilsa upp á starfsmenn Framsýnar. Farið var yfir málefni LÍV, samskipti sambandsins við aðildarfélög og málefni verkalýðshreyfingarinnar. Framsýn er aðili að Landssambandi íslenzkra verzlunarmanna. Fundurinn var vinsamlegur en Elva Hrönn er á ferðinni um landið til að heimsækja aðildarfélög sambandsins.

Það fór vel á með Elvu Hrönn og starfsmönnum stéttarfélaganna.

 

Villandi fréttaflutningur  um flutning opinberra starfa

Nýlega sló Ríkissjónvarpið – sjónvarp allra landsmanna, upp frétt um flutning á opinberum störfum frá höfuðborgarsvæðinu út á landsbyggðina. Fréttaflutningurinn var stofnuninni ekki til mikils sóma og virtist helst hafa það að markmiði að gera Framsóknarflokkinn og ráðherra hans í gegnum tíðina tortryggilega og spillta í augum almennings. Þeir hefðu helst stuðlað að því að flytja stofnanir ríkisins hreppaflutningum út á land.

Æsifréttamennskan var þvílík að farið var vitlaust með heitið á þeim ríkisstofnunum sem fréttin náði til. Þá voru ráðherrarnir sagðir koma frá allt öðrum kjördæmum en þeir raunverulega komu frá þegar þessar ákvarðanir voru teknar. Eftir framkomnar athugasemdir við óvandaðan fréttaflutning frá ýmsum aðilum fór svo að fréttastofan varð að senda frá sér leiðréttingu við fréttina, sem er hér að neðan og er hálf vandræðaleg fyrir fréttastofuna, sem vill láta taka sig alvarlega.

„Fréttin hefur verið leiðrétt. Ranglega var farið með í upphaflegri útgáfu að Valgerður Sverrisdóttir og Jón Kristjánsson hefðu flutt stofnanir í eigið kjördæmi. Einnig var ranghermt að Guðni Ágústsson hefði flutt Matvælastofnun til Selfoss. Rétt er að Landbúnaðarstofnun var breytt í Matvælastofnun.“

 Það er, að þrátt fyrir að fréttamaðurinn sem skrifaði fréttina lýsti því yfir í viðtali að hún skyldi ekkert í því að þessi „litla“ frétt fengi svona sterk viðbrögð almennings.

Það var reyndar rétt með farið hjá fréttamanni RÚV að fyrir tilstuðlan ráðherra, þ.m.t. ráðherra Framsóknarflokksins, hafa í gegnum tíðina verið flutt opinber störf út á landsbyggðina. Það er heldur ekkert annað en eðlilegt að stofnanir ríkisins séu vistaðar um landið á jafnræðisgrundvelli. Það er í anda annarra ríkisstjórna á Norðurlöndunum, sem gera í því að jafna stofnunum milli landshluta í viðkomandi löndum, enda talið óeðlilegt í alla staði að opinberar stofnanir séu nánast allar á afmörkuðu svæði s.s. í höfuðborgum viðkomandi landa. Það er löngu tímabært að stjórnmálaflokkar á Íslandi láti verkin tala í stað þess að blaðra endalaust um mikilvægi byggðastefnu, að þeir framfylgi sínum eigin stefnumálum varðandi eflingu byggðar og mannlífs í landinu. Ég bendi á að finna má í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar áherslu á skilgreiningu opinberra  starfa og að þau séu auglýst án staðsetningar sé þess kostur. Þess utan styður byggðaáætlun við þetta markmið.

Fjarskipti leika lykilhlutverk í samfélagi nútímans og þar með eflingu byggðar í landinu. Sú samskiptatækni sem við þekkjum orðið í dag, háhraðafjarskiptatengingar um allt land, svo ekki séu nefndar stórbættar samgöngur, ætti að auðvelda stjórnvöldum að dreifa opinberum störfum sem víðast um landið. Ástandið sem hefur skapast undanfarna mánuði vegna Covid – 19 hefur hrundið okkur mörg ár fram í tímann tæknilega séð og  sýnir svart á hvítu að fjarvinna er nú þegar raunverulegur möguleiki og störf án staðsetningar þurfa ekki endilega að vinnast í póstnúmerinu 101 Reykjavík.

Raunveruleg byggðastefna byggir á því að auka fjölbreytileika starfa og efla þannig byggðarlögin. Sem dæmi nefni ég að Fæðingarorlofssjóður var færður frá Reykjavík til Hvammstanga og Greiðslustofa atvinnuleysistrygginga á vegum Vinnumálastofnunar var færð til Skagastrandar. Hjá þessum stofnunum ríkisins starfar frábært starfsfólk, enda mikill mannauður á þessum vinalegu stöðum sem og fjölmörgum öðrum byggðarlögum í öllum landsfjórðungum á Íslandi. Við eigum að nýta okkur mannauðinn, þekkinguna og tæknina og vinna markvisst að því að flytja opinber störf út á land, skila þeim heim.

Stjórnmálaflokka skortir oft kjark, þrátt fyrir gefin loforð um að jafna búsetu í landinu. Kjark til að efla opinbera þjónustu í öllum kjördæmum landsins. Þó eru vissulega undantekningar frá því. Að sjálfsögðu stenst það ekki skoðun að árið 2020, geti hið opinbera ekki rekið stofnanir og þjónustu úti á landi til jafns við höfuðborgarsvæðið.

Varðandi fréttaflutning Ríkissjónvarpsins er ágætt að rifja upp flutning á opinberum störfum úr mínum kæra heimabæ, Húsavík:

  • Starfsemi Ríkisskattstjóra var lögð af á Húsavík og skrifstofu embættisins lokað.
  • Hafrannsóknarstofnun lokaði starfsstöð sinni á Húsavík og sigldi í burtu.
  • Vinnumálastofnun lagði starfsemina niður á Húsavík og skellti í lás.
  • Dregið hefur verið verulega úr starfsemi Sýslumannsembættisins á Húsavík og starfsmönnum snarfækkað frá því sem var þegar embættið stóð undir nafni.
  • Fæðingardeildinni á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga nú HSN var lokað. Þrátt fyrir að ungviðið vilji örugglega anda að sér Þingeysku lofti við fæðingu, er það ekki í boði lengur.
  • Skurðstofunni á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga var lokað og aðgerðir fluttar í burtu. Til stóð að draga enn frekar úr starfsemi Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga, en með samstöðu heimamanna tókst að stöðva frekari blæðingu á þjónustu þessarar mikilvægu stofnunar í heimahéraði.

Koma upp í hugann opinber störf sem orðið hafa til á Húsavík á vegum ríkisins á sama tíma? Það eina sem ég man eftir eru veikburða tilburðir í þá átt þegar Nýsköpunarmiðstöð Íslands setti upp starfsstöð sem var svo lokað eftir fáein ár. Starfsemi sem að mati heimamanna hefði átt betur heima hjá atvinnuþróunarfélagi svæðisins, en á það var ekki hlustað af stjórnvöldum.

Þó ég nefni hér aðeins Húsavík endurspeglar upptalningin hér á undan hvernig þróunin í þessum efnum hefur verið víða á landsbyggðinni á undanförnum áratugum. En það telst víst ekki fréttaefni hjá fréttastofu Ríkissjónvarpsins að ferðast um landið og gera úttekt á öllum þeim opinberu störfum sem hafa verið ryksuguð upp hringinn í kringum landið og flutt á höfuðborgarsvæðið. Hvað þá að skoða opinber gögn sem staðfesta þennan flutning starfa til Reykjavíkur. Í þessu sambandi má benda á að Byggðastofnun hefur um árabil unnið greiningar á staðsetningu stöðugilda eftir landshlutum sem aðgengileg er á heimasíðu stofnunarinnar, https://www.byggdastofnun.is/is/utgefid-efni/grof-og-skrar. Þar kemur skýrt fram að höfuðborgarsvæðið er yfirvigtað hvað varðar fjölda ríkisstarfa  og er öll árin eini landshlutinn þar sem hlutfall ríkisstarfa er hærra en hlutfall viðkomandi landshluta af íbúafjölda landsins.

Að sjálfsögðu er fréttaflutningur af þessum toga ekki boðlegur. Þökk sé þeim ráðherrum ríkisstjórnar Íslands á hverju tíma, sem hafa haft kjark til að spyrna við fótum og sjá tækifæri í því að skila opinberum störfum aftur út um landið, störfum sem sogast hafa suður til Reykjavíkur. Vissulega er eðlilegt að menn hafi skoðanir á því hvert störfin eru flutt á hverjum tíma. Markmiðið á heldur ekki að vera að hygla ákveðnum landshlutum eða sveitarfélögum umfram önnur, það ber stjórnmálamönnum að hafa í huga vilji þeir láta taka sig alvarlega, sem ég að sjálfsögðu vona. Ákvarðanir um flutning opinberra starfa á milli landshluta mega ekki litast af pólítík, nema þá byggðapólitík  og á skynsamlegum rökum reistar.

Aðalsteinn Árni Baldursson,
formaður Framsýnar stéttarfélags