Kolefnisjafnað með táknrænum hætti – Framsýn sýnir frumkvæði

Ekki er vitað til þess að stéttarfélag hafi áður kolefnisjafnað starfið en aðalfundargestir fengu að gjöf 50 plöntur til að gróðursetja sem samkvæmt útreikningum þurfti til að kolefnisjafna starf Framsýnar á síðasta ári, það er á móti akstri starfsmanna og annarra félagsmanna sem ferðuðust á vegum félagsins á síðasta ári, það er keyrandi. Í tilefni af því flutti varaformaður Framsýnar, Ósk Helgadóttir, ávarp þar sem hún kom inn á ákvörðun félagsins að kolefnisjafna fundinn um leið og þess væri minnst að rúmlega öld er liðin frá því að Verkamannafélag Húsavíkur var stofnað, nú Framsýn stéttarfélag, við gefum Ósk orðið:

Húsvískir daglaunamenn réðust í að stofna með sér félag um stéttbundin hagsmunamál sín þann 14. apríl 1911, Verkamannafélag Húsavíkur.

Á þeim tíma var atvinnuöryggi verkafólks takmarkað og afkomuöryggi enn minna. Fólk var oftast ráðið frá degi til dags og tilfallandi atvinna í boði var líkamleg erfiðisvinna. Við nútímafólk eigum erfitt með að setja okkur í spor fólks sem byggði landið á þessum tíma. Við vitum þó að kjör alþýðufólks voru kröpp, það bjó við lélegan húsakost og aðbúnaður verkafólks á vinnustöðum var slæmur.   

Með tilkomu stéttarfélaga vinnandi fólks hófst skipulögð barátta verkafólks fyrir mannsæmandi lífi. Ætli Íslensk alþýða á þeim tíma hafi horft til framtíðar? Jú, það gerði hún með því að berjast fyrir bættum kjörum og verja síðan það sem áunnist hefur með kjafti og klóm. Hús reis upp aftur og aftur, náði fram mörgum sigrum og tryggði launafólki aukið starfsöryggi, bættar vinnuaðstæður og velferð. Sótti skref fyrir skref þau lögboðnu réttindi sem okkur þykja sjálfsögð í dag. 

Stærsta áskorun samtímans eru loftslagsmálin
Verkalýðshreyfingin er baráttuafl rétt eins og hún var fyrir 110 árum, þótt áskoranir sem koma inn á hennar borð í dag séu margar með öðrum hætti. Eitt af stóru málum hreyfingarinnar í dag og jafnframt stærsta áskorun samtímans eru loftslagsbreytingar sem komnar eru til af mannavöldum. Þær hafa þegar haft víðtæk áhrif á efnahags- og atvinnulíf þjóða og þar með lífskjör og afkomu almennings um allan heim. Við sjáum afleiðingar þessara breytinga á jörðinni. Jöklar bráðna, yfirborð sjávar hækkar, vistkerfi raskast og öfgar í veðurfari aukast. Auk þess verða breytingar á lífsskilyrðum í sjó vegna breytinga á straumum, sýrustigi og seltu.  

Alþjóðlega verkalýðshreyfingin hefur þróað ramma utan um samfélagsbreytingar næstu ára undir yfirskriftinni „réttlát umskipti“. Grunnstefið í réttlátum umskiptum er að breytingarnar þurfi að vera réttlátar gagnvart launafólki, ekki síst í þeim atvinnugreinum sem munu gjörbreytast eða jafnvel hverfa í tengslum við tækniþróun og aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Samhliða því er tekist á við áhrif nýrrar tækni, gervigreindar og sjálfvirknivæðingar. 

Það væri óskandi að ráðamönnum þjóðarinnar muni auðnist að stíga fram í sama takti og verkalýðshreyfingin og að „réttlát umskipti“ komi til með að þýða það í raun. Þær aðgerðir sem stjórnvöld grípa til þegar ráðist er í aðgerðir gegn loftslagsbreytingum mega ekki verða til  þess að auka á hlut hinna fáu í verðmætum samfélagsins. Í því sambandi hefur ASÍ  bent á að grænir skattar eins og til að mynda kolefnisskattur bitni  helst á lágtekjuhópum sem hafa ekki möguleika á að skipta yfir í rafbíla, á meðan efri tekjuhópar nýta sér frekar skattaafslætti sem ívilnanir fyrir vistvæn ökutæki fela í sér. 

Þjóðin lifði á því sem landið gaf
En aftur að frumkvöðlunum. Þegar Verkamannafélag Húsavíkur var stofnað  áttu náttúra og samfélag ennþá í tiltölulega heilbrigðu sambandi og þjóðin lifði aðeins á því sem náttúran gaf. Í þann tíma ferðuðust Íslendingar almennt fótgangandi, fóru ríðandi eða jafnvel sjóleiðis á milli landshluta. Ekki var í boði að fara í vinnuna eða skreppa á milli bæja á einkabílnum, taka strætó, eða fljúga á milli áfangastaða innanlands sem utan eins og tíðkast í dag. Tengsl manns og náttúru voru sterk. Jörðin, samfélagið, fólkið og menning þess var samofin eining, mótuð í samspili við náttúruöflin. 

Við vitum svo sem ekkert um hvað skrafað var yfir yfir kaffibollanum á vinnustöðum verkafólks, væri slíkur munaður í boði. En nokkuð örugglega hafa hugtök eins og gróðurhúsalofttegundir, kolefnisbinding og hamfarahlýnun ekki verið þeirra kynslóð töm á tungu. 

Við greiðum skuldina við landið
Það fer vel á því að heiðra minningu stofnenda Verkamannafélags Húsavíkur með því að afhenda ykkur fundarmenn góðir, íslenska birkiplöntu sem við biðjum ykkur að gróðursetja og hlúa að svo hún vaxi og dafni. Með þessum táknræna hætti kolefnisjafnar Framsýn líklega fyrst stéttarfélaga hér á landi akstur sinn. Samkvæmt útreikningum þarf 50 plöntur til að kolefnisjafna allan akstur starfsmanna og annarra félagsmanna sem ferðuðust akandi í þágu félagsins á síðasta ári.  Við getum kallað það að greiða skuldina við landið. 

Öll þurfum við að axla ábyrgð gagnvart því sem er að gerast í náttúrunni og við verðum að bregðast strax við, eigi komandi kynslóðir að geta átt sér framtíð og búið áfram á þessari jörð. Jafnframt því þurfum við sem verkalýðshreyfing, sem aldrei fyrr að standa fast í fætur og verja hag þeirra sem minnst mega sín. 

Deila á