Mývatnssveitin er æði

Starfsgreinasamband Íslands stóð fyrir útvíkkuðum  formannafundi í Mývatnssveit upp úr miðjum maí. Innan sambandsins eru 19 aðildarfélög úr öllum landsfjórðungum. Fundinn sóttu tæplega 40 manns, sem dvöldu  á  Sel Hótel Mývatn í tvo daga við góðan viðurgjörning. Það var í höndum Framsýnar að sjá um kynningu á nærsvæðinu. Var það gert með þeim hætti að fundargestum var boðið í rútuferð umhverfis Mývatn og staldrað við á nokkrum völdum stöðum. Akstur gestanna var í öruggum höndum Þórarins Pálma bílstjóra frá Fjallasýn og leiðsögumaðurinn var heldur ekki af verri endanum. Það var Stefán Jakobsson söngvari með meiru sem tók að sér að lóðsa gestina um sveitina fögru. Fyrst var komið við á Geiteyjarströnd þar sem Helgi Héðinsson og hans fjölskylda tóku á móti hópnum. Buðu þau upp á reyktan silung en reykhúsið á Geiteyjarströnd er löngu landsþekkt fyrir góða vöru. Helgi sagði frá starfseminni á bænum. Þar er ekki eingöngu lifað af reykhúsinu og því sem vatnið gefur, heldur er þar einnig rekin ferðaþjónusta. Helgi situr í sveitarstjórn Mývatnssveitar og fræddi hann gestina um stöðuna  í sveitarfélaginu, en fór einnig í stuttu máli yfir sögu Sparisjóðs Suður- Þingeyinga og stöðu sjóðsins í dag. Helgi er stjórnarformaður sjóðsins.

 Eftir fróðlegt og skemmtilegt innlit á Geiteyjarströnd var haldið í Bjarnarflag, sem er jarðhitasvæði skammt austan Reykjahlíðar við Mývatn. Þar beið Yngvi Ragnar hótelhaldari á Sel Hótel og bauð gestunum upp á nýbakað rúgbrauð með þykku smjöri og reyktum silungi. Mývetningar hafa þróað aðferð til að baka brauð í hverunum í Bjarnarflagi. Greinilegt var að Yngvi Ragnar var enginn nýgræðingur í faginu þar sem hann seildist eftir heljarlöngu bökunarformi að því er virtist úr iðrum jarðar. 

 Næsti viðkomustaður var á bænum Hellu, sem stendur við hinn margumtalaða Ytri – Flóa Mývatns. Ábúendur á Hellu eru hjónin Birgir Valdimar Hauksson og Steinunn Ósk Stefánsdóttir. Þau eru sauðfjárbændur og fullvinna afurðir sínar sem þau selja „Beint frá býli“ og hafa verið í samtökum frá stofnun þeirra.  Salan fer fram á netinu en einnig í  Litlu sveitabúðinni sem þau reka á staðnum. Þar er  hægt að versla kjöt af sauðkindinni í ýmsu formi. Þau selja einnig gæða silung, sem reyktur er með sama hætti og gert hefur verið á bökkum Mývatns um aldir. Steinunn tók vel á móti gestunum og sagði frá því hvernig það kom til að þau hjónin fóru að selja sína eigin framleiðslu. Bauð hún gestunum að smakka á afurðunum, sem runnu auðvitað ljúflega niður. 

Síðasti viðkomustaðurinn í Mývatnshringnum var Fuglasafn Sigurgeirs á Ytri- Neslöndum, sem er stærsta einkasafn uppstoppaðra fugla á Íslandi. Eftir greinagóða fræðslu hjá Stefaníu Halldóru Stefánsdóttur staðarhaldara, skoðuðu gestirnir safnið sem er einstök perla og staðsett í einni helstu fuglaparadís veraldar. Er fuglasafnið ábúendum á Ytri-Neslöndum  og Mývetningum öllum til mikils sóma. Eftir fróðlegan og bráðskemmtilegan Mývatnsrúnt skiluðu þeir félagar, Þórarinn Pálmi og Stefán fólkinu aftur heim á hótel, en í  ferðalok færði Framsýn gestunum reyktan Mývatnssilung og taðreykta sperðla úr sveitinni í sérsaumuðum pokum frá Gilhaga í Öxarfirði. Óhætt er að segja að hópurinn hafi fengið mjög góða kynningu á atvinnu- og mannlífinu í Mývatnssveit, þó viðkomustaðirnir að þessu sinni væru aðeins brot af þeirri fjölbreyttu starfsemi sem fer fram í sveitarfélaginu. Um kvöldið bauð Starfsgreinasambandið fundargestum upp á hátíðarkvöldverð sem hótelhaldarar á Sel Hótel, þau Yngvi Ragnar og Ásdís höfðu  tendrað fram af miklum myndarskap, ásamt sínu frábæra starfsfólki. Þar skemmti Stefán Jakobsson gestunum með stórskemmtilegu uppistandi fram eftir kvöldi. Fundarstörfum var síðan fram haldið morguninn eftir, en það voru ánægðir fundargestir sem héldu heimleiðis að áliðnum degi eftir vel heppnaðan formannafund.  Það er líka víst að engu er logið þegar sagt er:  „Mývatnssveitin er æði“  eins og kemur fram í vinsælum dægurlagatexta.

Deila á