Aðalfundur Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum fór fram þann 14. júní í fundarsal stéttarfélaganna. Hér má lesa nokkur fréttaskot frá fundinum.
Jafnvægi í fjölda félagsmanna
Fullgildir félagsmenn í Þingiðn 31. desember 2020 voru 128, það er greiðandi félagar, öryrkjar og aldraðir sem áður greiddu til félagsins. Greiðandi félagsmenn voru 116 á árinu 2020. Þess utan voru gjaldfrjálsir félagsmenn 12 á síðasta ári. Þess ber að geta að nú er aftur komið jafnvægi á fjölda félagsmanna eftir stórframkvæmdirnar á Bakka og á Þeistareykjum. Félagsmönnum fjölgaði verulega meðan á framkvæmdunum stóð en hefur heldur fækkað frá þeim tíma sem á sínar eðlilegu skýringar enda framkvæmdum að mestu lokið í dag. Töluvert hefur verið um nýbyggingar á svæðinu undanfarið sem hefur tryggt gott atvinnuástand meðal iðnaðarmanna.
Rekstur félagsins til fyrirmyndar
Félagsgjöld og iðgjöld ársins 2020 námu kr. 15.284.402 sem er 0,3% hækkun frá fyrra ári. Heildartekjur námu kr. 17.279.307 og lækkuðu um tæp 3%. Rekstrargjöld voru kr. 13.514.834 og lækkuðu um 21% frá síðasta ári. Þar ræður mestu bætur og styrkir sem lækkuðu umtalsvert á milli ára. Á árinu 2020 námu þeir kr. 3.402.697, þar af úr sjúkrasjóði kr. 2.440.157, sem er um 58% lækkun frá 2019 og skýrist að mestu af lægri greiðslum sjúkradagpeninga til félagsmanna. Á árinu 2020 fengu samtals 41 félagsmenn greidda sjúkradagpeninga eða aðra styrki úr sjúkrasjóði. Árið áður fengu 67 félagsmenn greiðslur úr sjúkrasjóði félagsins. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 9.863.323. Heildareignir í árslok voru kr. 260.216.669 og eigið fé nam kr. 250.424.524 og hefur það aukist um 4,0% frá fyrra ári. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Þingiðnar í rekstrarkostnaði nam kr. 2.563.200. Farið var í átak í innheimtu félagsgjalda og skilgreina í lok árs 2020 og hluti af því var að fara í samstarf um innheimtu við Motus. Þess má þó geta að almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma.
Vöntun á iðnaðarmönnum
Atvinnuástandið hjá iðnaðarmönnum er almennt mjög gott um þessar mundir og mikið að gera hjá flestum ef ekki öllum iðnaðarmönnum enda hafa töluverðar framkvæmdir verið í gangi á svæðinu. Það sama verður því miður ekki sagt um aðrar atvinnugreinar á svæðinu þar sem Covid- 19 hefur haft veruleg áhrif á starfsemi s.s. ferðaþjónustuaðila. Heilt yfir er ástand vinnumarkaðarins á starfssvæðinu viðunandi og rúmlega það er varðar iðnaðarmenn.
Landslið iðnaðarmanna í stjórn félagsins
Þessi snillingar skipa stjórn Þingiðnar, kjörtímabil þeirra er frá 2020 til 2022.
Jónas Kristjánsson Formaður Bílaleiga Húsavíkur ehf.
Vigfús Þór Leifsson Varaformaður Norðurvík ehf.
Hólmgeir Rúnar Hreinsson Ritari Trésmiðjan Rein ehf.
Þórður Aðalsteinsson Gjaldkeri Trésmiðjan Rein ehf.
Jónas Hallgrímsson Meðstjórnandi Trésmiðjan Rein ehf.
Fundurinn kolefnisjafnaður
Eftir því sem best er vitað varð Framsýn fyrst stéttarfélaga á Íslandi til að kolefnisjafna aðalfund félagsins sem haldinn var í byrjun júní og sagt er frá undir annarri frétt í Fréttabréfinu. Ákveðið var að aðalfundur Þingiðnar gerði það einnig og fengu allir fundarmenn gefins plöntu, íslenskt birki til að gróðursetja. Um er að ræða lofsvert framtak. Sælir og glaðir fundarmenn fóru heim með plöntu til að gróðursetja.
Takk Lísa
Undir umræðum um skýrslu stjórnar og reikninga urðu umræður um starfsemi félagsins. Formaður Þingiðnar sá ástæðu til að þakka fjármálastjóra félagsins Elísabetu Gunnarsdóttur sérstaklega fyrir hennar vinnu við gerð ársreikningsins en hún kom til starfa á miðju síðasta ári og hefur unnið mjög gott starf hjá aðildarfélögum Skrifstofu stéttarfélaganna er viðkemur bókhaldi og fjármálum félaganna. Hann bað fundarmenn um að klappa fyrir henni sem þeir og gerðu. Elísabet þakkaði fyrir sig. Jónas sagði jafnframt að aðrir starfsmenn stéttarfélaganna ættu mikið hrós skilið fyrir störf þeirra í þágu félagsmanna Þingiðnar.
Félagsgjaldið verður óbreytt
Samþykkt var að félagsgjaldið verði óbreytt milli ára, það er 0,7% af launum. Framlag félagsmanna í Starfsmenntasjóð félagsins verði einnig óbreytt eða 0,3% af launum. Til viðbótar var samþykkt að taka upp lágmarksfélagsgjald fyrir þá sem koma tímabundið inn á félagssvæði Þingiðnar samkvæmt ákveðnum reglum.