Fjölmenni á ljósmyndasýningu

Fjölmenni var á ljósmyndasýningu sem Framsýn stóð að í Safnahúsinu á Húsavík í dag með samstarfsaðilum. Sýningin var hluti að fjölmenningadegi þar sem fulltrúar níu þjóðlanda kynntu matarhefðir frá sínum heimalöndum. Myndirnar á sýningunni voru teknar af Agli Bjarnasyni ljósmyndara sem vann þær í samstarfi við Framsýn og eru þær af erlendu fólki við störf í Þingeyjarsýslum. Boðið var upp á tónlistaratriði og stutt ávörp. Sýningin vakti mikla athygli, en hún verður áfram opin næstu vikurnar. Hér má sjá myndir frá opnuninni og ávarp Óskar Helgadóttur varaformanns Framsýnar sem hún flutti í Safnahúsinu í dag:

Ágæta samkoma

Það er mér sönn ánægja að fá að fylgja hér úr hlaði verkefni sem hefur verið í vinnslu hjá Framsýn stéttarfélagi. Forsögu málsins má rekja til ársins 2018 er Framsýn vann ljósmyndaverkefni í samstarfi við Pétur heitinn Jónasson, til að minnast þess að 100 ár voru liðin frá því að húsvískar verkakonur stofnuðu með sér baráttusamtök, sem þær nefndu Verkakvennafélagið Von. Afrakstur vinnunnar með Pétri var sýning á tuttugu ljósmyndum frá fyrri hluta síðustu aldar og sýndu myndirnar verkakonur við störf. Hugmynd kviknaði að sambærilegu verkefni er viðkemur fólki sem hingað hefur komið erlendis frá í leit að atvinnu og betra lífi. Egill Bjarnason ljósmyndari var ráðinn til verksins en hann hafði áður sýnt verkefninu áhuga. Að verki loknu tók Þórhallur Jónsson hjá Perómyndum við,  framkallaði myndirnar og gekk frá þeim í ramma. Afraksturinn er til mikillar fyrirmyndar eins og sjá má þegar sýningin er skoðuð. Ástæða er til að þakka öllum þeim sem komu að verkefninu fyrir þeirra framlag.

Málefni fólks af erlendum uppruna hafa lengi verið okkur hugleikin. Árið 2007 fóru stéttarfélögin í  Þingeyjarsýslum og  Norðurþing í  samstarfsverkefni sem bar heitið „Samvinna og ábyrgð í málefnum innflytjenda. Þá var Skrifstofa stéttarfélaganna þegar orðin miðstöð ýmissar þjónustu fyrir erlenda starfsmenn á svæðinu. Markmið verkefnisins var að efla innflytjendur í Norðurþingi til þátttöku í atvinnulífinu og samfélaginu almennt, í samræmi við stefnu stjórnvalda í innflytjendamálum, á þeim tíma. Verkefnið tókst mjög vel og voru helstu samstarfsaðilar sem fyrr segir Norðurþing og stofnanir þess, Þekkingasetur Þingeyinga og atvinnurekendur á svæðinu. Verkefnið fékk styrk frá Þróunarsjóði innflytjendamála árið 2007 auk þess sem Norðurþing lagði því til fjármagn.

Það er gaman að geta þess hér að Framsýn og Þekkingarsetur Þingeyinga stofnuðu á þessum tíma saman Landnemaskóla fyrir nýbúa. Í skólanum var lögð sérstök áhersla á íslenskukennslu og gagnlega samfélagsfræði auk annarra þátta til að auðvelda fólki aðgengi að íslensku samfélagi. Virkilega áhugavert verkefni sem gekk vel.

Áætlað var að 185 erlendir íbúar hafi átt lögheimili í Þingeyjarsýslum í árslok 2007. Síðan þá hefur boltinn heldur betur rúllað, en í ársbyrjun 2022 voru erlendir íbúar á svæðinu orðnir 723 talsins eða um 16% íbúa.  Það má því kannski segja að verkefni stéttarfélaganna og Norðurþings  hafi verið mikilvægur undirbúningur að því sem koma skildi. Við lifum orðið í fjölmenningarsamfélagi.

Það er skylda stéttarfélaga að aðstoða þá sem hingað koma eftir bestu getu og það er ekki alltaf einfalt fyrir fólk að aðlagast samfélaginu og jafnvel gjörólíkri menningu. Og því miður er það svo að þessi hópur er mun útsettari en aðrir hópar fyrir launaþjófnaði og brotastarfsemi á vinnumarkaði.  Samskipti við stofnanir samfélagsins geta reynst fólki ókleifir múrar og samskipti við annað fólk takmarkast þegar viðkomandi getur hvorki tjáð sig á móðurmáli okkar né tekið upplýsingum á því.

Hjá Framsýn ætlum við að efla okkar mikilvæga starf, ekki síst í þágu erlendra starfsmanna,   en félagsmenn Framsýnar af erlendu bergi brotnu eru nálægt 30%.  Við höfum í hyggju að ráða sérstakan starfsmann sem sem hefur gott vald á fleiri en einu erlendu tungumáli, til að sinna þessum málaflokki. Þannig getum við aukið upplýsingaflæði til þessa hóps og þá munum við einnig stórefla vinnustaðaeftirlit á félagssvæðinu.

Það sem liggur fyrst og fremst að baki þessarar sýningar er að við viljum auka vitund Þingeyinga á þeim fjölmörgu einstaklingum sem hingað koma frá ýmsum þjóðlöndum og taka þátt í uppbyggingu samfélagsins, en við tölum gjarnan um sem erlent vinnuafl. Sumir þessir einstaklingar stoppa stutt, en við skulum ekki gleyma því að aðrir ílengjast hér.

Það þarf alltaf tvo í tangó. Við ætlumst til þess að fólk sem hér kemur aðlagi sig að íslensku samfélagi og menningu, en heimamenn þurfa líka að leggja sitt af mörkum til að mæta þeim, hvort heldur á vinnumarkaði eða annarstaðar. Ættum við ekki að spyrja okkur hvort að við séum nógu meðvituð um að láta nýbúana sem hingað koma finna að þau séu velkomin og raunverulega partur af samfélaginu? Að það séu ekki við og þau, heldur séum við öll í sama liði.

Ósk Helgadóttir

 

Ljósmyndasýning -Samfélagið í hnotskurn-

Ljósmyndasýningin „Samfélagið í hnotskurn“ verður opnuð á jarðhæð Safnahússins laugardaginn 3. desember kl. 14:00. Myndefnið er fólk við störf í okkar nútíma fjölmenningarsamfélagi. Er um að ræða samstarfsverkefni Framsýnar stéttarfélags og Egils Bjarnasonar ljósmyndara. Veitingar í boði.

Framsýn stéttarfélag

 Landsfundur bæjarstarfsmannafélaga

Landsfundur bæjarstarfsmannafélaga 2022 var haldinn á Hótel Laugarbakka dagana 9. til 11. nóvember. Þátttakendur á fundinum voru formenn félaga ásamt fulltrúum stjórnar- og samninganefnda félaganna. Meginefni fundarins var undirbúningur félaganna í aðdraganda kjaraviðræðna auk þess að ræða sameiginleg málefni á borð við fræðslumál og sjóði.  Heiður Margrét Björnsdóttir, hagfræðingur BSRB hélt erindi um efnahagsmál í aðdraganda kjarasamninga. Að því loknu var efnt til umræðna um stöðuna á vinnumarkaði og fulltrúar félaganna ræddu kröfugerðir sínar og væntingar til samstarfs og fyrirkomulags í komandi kjaraviðræðum. Starfsmannafélag Húsavíkur átti tvo góða fulltrúa á fundinum, það voru þær Fanney Hreinsdóttir og Berglind Erlingsdóttir.

 

Bæta þjónustu við félagsmenn á rafbílum í Þorrasölum

Um þessar mundir er unnið að því að koma upp hleðslustöðvum fyrir félagsmenn stéttarfélaganna, Þingiðnar og Framsýnar í bílakjallaranum í Þorrasölum í Kópavogi. Það er við bílastæði fyrir íbúðir 201, 202 og 302. Áætlað er að verkinu ljúki á næstu vikum. Til að byrja með verður komið upp tveimur stöðvum en félögin eiga 5 íbúðir í Þorrasölum. Til viðbótar verður komið fyrir tveimur stöðvum á bílaplaninu sem verður í eigu húsfélagsins. Þar geta allir hlaðið, íbúar og félagsmenn stéttarfélaganna sem gista í íbúðum á vegum þeirra í Þorrasölum. Á meðfylgjandi mynd er starfsmaður frá Hleðsluvaktinni að koma fyrir hleðslustöðvum fyrir stéttarfélögin í bílakjallaranum. Hleðsluvaktin tók að sér að sjá um verkið fyrir félagasamtök og íbúa í Þorrasölum.

Fundað og fundað og fundað

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hafa viðræður verið í gangi milli Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga ASÍ um nýjan kjarasamning. Stjórnvöldum hefur einnig verið blandað inn í umræðuna. Formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands sem staðið hafa saman að gerð kjarasamnings fyrir sína félagsmenn, það er fyrir utan Eflingu og Stéttarfélags Vesturlands funduðu í morgun. Formennirnir hafa fundað reglulega undanfarið og munu gera það áfram eftir helgina með það að markmiði að klára gerð kjarasamnings. Næsti fundur hefur verið boðaður á þriðjudaginn. Formaður Framsýnar hefur verið virkur í þessu samstarfi fh. félagsmanna.

Það er við hæfi að þessi mynd sé upp á vegg í Karphúsinu. Þeir sem taka þátt í kjaraviðræðum þurfa oft að anda inn og út í krefjandi samræðum.

Áhugaverð ljósmyndasýning í Safnahúsinu

Stéttarfélagið Framsýn ásamt samstarfsaðilum standa fyrir ljósmyndasýningu „Samfélagið í Hnotskurn“ í Safnahúsinu á Húsavík. Sýningin opnar með viðhöfn laugardaginn 3. desember og verður á jarðhæð hússins. Myndefnið er fólk við störf í okkar nútíma fjölmenningarsamfélagi. Sjá meðfylgjandi auglýsingu. Boðið verður upp á tónlist og léttar veitingar.

Tilvalin jólagjöf – allir hagnast

Það er tilvalið fyrir fyrirtæki og stofnanir að gefa starfsfólki sínu Húsavíkurgjafabréf í jólagjöf. Þannig eflum við verslun og þjónustu í heimabyggð, það er í Þingeyjarsýslum. Þá er ekki síður viðeigandi að menn íhugi almennt að gefa sínum nánustu gjafabréf í jólagjöf, þannig geta þeir notað gjöfina til að kaupa sér eitthvað nytsamlegt um leið og þeir styðja við samfélagið.

Bréfin sem eru á vegum Húsavíkurstofu eru til sölu í útibúum Sparisjóðs Suður Þingeyinga á Húsavík, Laugum og Mývatnssveit. Bréfin gilda hjá neðangreindum verslunum og þjónustuaðilum á Kópaskeri, Raufarhöfn, Húsavík og nágrenni. Bréfin eru til útgefin í 3.000, 5.000 og 10.000 krónum.

Verslanir:

Nettó, Garðarshólmi, Ísfell, Skóbúðin, Penninn/Eymundsson, Heimamenn, Verslunin Urð Raufarhöfn, Skerjakolla Kópaskeri.

Veitingastaðir:

Salka, Húsavík Öl, Gamli Baukur, Hlöðufell, Lemon, Jaja Ding Dong, Hérna kaffihús, Pizzakofinn.

Klipping:

Toppurinn, Hárform, Háriðjan.

Gisting:

Árból Gistihús, Kaldbakskot, Cape Hotel, Skógar Sunset Guesthouse, Hótel Norðurljós.

Þjónusta og afþreying:

Sjóböðin, Garðvík, Norðurvík, Þyrnishóll, Bílaleiga Húsavíkur, Fatahreinsun Húsavíkur, Travel North – bílaleiga og ljósmyndaprentun, Norðursigling, Gentle Giants.

Stórundarlegt útspil hjá SÍ

„Þetta út­spil hjá Seðlabank­an­um er stórund­ar­legt á sama tíma og menn sitja í Karp­hús­inu og reyna að ná fram samn­ing­um,“ seg­ir Aðal­steinn Á. Bald­urs­son, formaður Fram­sýn­ar, í sam­tali við mbl.is spurður út í stýri­vaxta­hækk­un­ina.

„Ég velti því fyr­ir mér hvort að Seðlabank­inn sé kom­inn í sömu stöðu og verið er að saka versl­an­ir í land­inu um núna, að byrja á því að hækka vör­una og lækka hana svo aft­ur á föstu­dag­inn þegar öll til­boðin eru í gangi. Það er verið að saka þær um að vera að hækka vör­una og lækka hana svo aft­ur og því velti ég því fyr­ir mér hvort Seðlabank­inn sé að gera þetta núna, til þess að geta svo spilað út ein­verri lækk­un síðar til að koma til móts við þá sem sitja að í Karp­hús­inu. Þetta er bara bein árás og al­var­leg­ur hlut­ur að ein­hverj­um skuli láta sér detta þetta í hug,“ seg­ir Aðal­steinn um stýri­vaxta­hækk­un­ina.

„Er Seðlabank­inn að búa sér til stöðu svipað og versl­an­ir? Eða eins og einn verkamaður sagði við mig; er þetta bara orðin svona hips­um­haps fjár­mála­stjórn í land­inu?“ bæt­ir Aðal­steinn við.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2022/11/23/storundarlegt_utspil_hja_si/

 

 

Desember glaðningur – uppbót 2022

Samkvæmt kjarasamningum ber atvinnurekendum að greiða starfsfólki sínu desemberuppbót í byrjun desember ár hvert. Uppbótin er háð ákveðnum skilyrðum sem varða t.a.m. starfstíma og starfshlutfall á yfirstandandi ári. Desemberuppbót skal greiða í einu lagi og ofan á hana reiknast ekki orlof. Uppbótin er föst krónutala og tekur ekki hækkunum skv. öðrum ákvæðum kjarasamninga. Við starfslok á að gera upp áunna desemberuppbót.

Upphæð desemberuppbótar samkvæmt kjarasamningi við ríkið og samkvæmt kjarasamningum á almennum vinnumarkaði er kr. 98.000, miðað við 100% starfshlutfall. Starfsmenn hjá ríkinu eiga að fá desemberuppbót greidda 1. desember og starfsmenn á almennum vinnumarkaði eigi síðar en 15. desember.

Upphæð desemberuppbótar samkvæmt kjarasamningi við Samband íslenskra sveitarfélaga er kr. 124.750, miðað við 100% starfshlutfall. Starfsmenn sveitarfélaga eiga að fá sína desemberuppbót greidda 1. desember, skv. kjarasamningi.

Starfsmenn PCC BakkiSilicon eiga rétt á kr. 200.000,- í desemberuppót m.v. fullt starf og hlutfallslega miðað við starfshlutfall og starfstíma.

Félagsmönnum stéttarfélaganna er velkomið að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna varðandi frekari upplýsingar um uppbótina.

Á lista yfir bestu áfangastaðina 2023

Húsa­vík er á lista ferðavefs­ins Tra­vel Lemm­ing yfir bestu áfangastaðina til að heim­sækja á næsta ári. 50 áfangastaðir eru á list­an­um og eru þeir jafn fjöl­breytt­ir og þeir eru marg­ir, en Húsa­vík er í 17. sæti list­ans.

Tra­vel Lemm­ing er vin­sæll ferðavef­ur sem gef­ur út leiðar­vísa um ólíka staði um heim­inn. Vef­ur­inn nýt­ur mik­illa vin­sælda og á ári hverju lesa um sex millj­ón­ir manna hann.

Seychelle Thom­as, ferðablaðamaður Tra­vel Lemm­ing, mæl­ir með því að ferðalang­ar skelli sér í hvala­skoðun á Húsa­vík og láti ekki lund­ana í Lundey fram­hjá sér far. Þá seg­ir enn frem­ur að þrátt fyr­ir að fjöldi ferðamanna leggi leið sína til bæj­ar­ins til að fara í hvala­skoðun sé bær­inn enn heill­andi og haldi í ræt­ur sín­ar sem sjáv­arþorp.

Þá er einnig mælt með því að fara í Sjó­böðin, sem séu betri en Bláa lónið að því leyti að færri heim­sæki böðin.

Efst á lista Tra­vel Lemm­ing er Lafayette í Louisi­ana-ríki í Banda­ríkj­un­um. Í öðru sæti er Bút­an og í því þriðja er Utila í Hond­úras. (Heimild mbl-mynd Framsýn)

Kristján Ingi ráðinn til stéttarfélaganna

Nýlega auglýstu stéttarfélögin eftir þjónustufulltrúa á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík. Gleðilegt er til þess að vita að alls bárust 21 umsókn um starfið sem sýnir vel áhuga fólks á því að starfa fyrir félagsmenn aðildarfélaga skrifstofunnar. Um er að ræða mjög áhugaverðar og góðar umsóknir sem flestar standast kröfur stéttarfélaganna um starfið.

Félögin hafa komist að þeirri niðurstöðu að ráða Kristján Inga Jónsson í starfið en hann er fæddur árið 1973. Kristján Ingi hefur starfað við Öxarfjarðarskóla í rúmlega 20 ár við kennslu og leiðsögn auk þess að vera trúnaðarmaður starfsmanna skólans til fjölda ára enda áhugamaður um verkalýðsmál. Þá hefur hann haft yfirumsjón með tölvu- og kerfisstjórn skólans. Áður en Kristján Ingi hóf störf í Öxarfjarðarskóla starfaði hann við krefjandi verslunar- og þjónustustörf auk þess að starfa m.a. hjá Geflu á Kópaskeri, Landssímanum og Silfurstjörnunni. Þá hefur hann komið að kennslu fyrir Þekkingarnet Þingeyinga er varðar almenna tölvunotkun. Hann hefur því viðtæka reynslu af vinnumarkaðinum og komið víða við.

Kristján Ingi hefur góða tölvu- og tungumálakunnáttu sem á eftir að reynast honum vel í starfi enda fjölgar erlendum starfsmönnum hratt sem koma til vinnu á félagssvæði stéttarfélaganna. Þá hefur Kristinn Ingi verið mjög virkur í félagsstarfi sem er mikill kostur. Sem dæmi má nefna að hann er formaður björgunarsveitarinnar Núpa og sat í stjórn Öxarfjarðardeildar Rauða kross Íslands til margra ári. Í dag situr hann í Neyðarvarnanefnd Rauða krossins í Þingeyjarsýslum auk þess að vera á útkallsskrá hjá slökkviliði Norðurþings. Kristján Ingi útskrifaðist á sínum tíma frá Menntaskólanum á Akureyri sem stúdent af félagsfræðabraut. Síðar stundaði hann nám við Iðnskólann í Reykjavík og við Kennaraháskóla Íslands auk þess sem hann kláraði grunnnám í sjúkraflutningum frá Sjúkraflutningaskólanum árið 2018. Stéttarfélögin bjóða Kristinn Inga velkominn til starfa um leið og þau þakka öllum þeim fjölmörgu sem skiluðu inn starfsumsóknum til félaganna fyrir áhuga þeirra að starfa fyrir stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum.

 

Fundað um kjaramál í morgun

Formenn Starfsgreinasambands Íslands hafa setið á fundi í morgun um kjaramál. Þar á meðal formaður Framsýnar. Eins og áður hefur komið fram eru kjarasamningar lausir á almenna vinnumarkaðinum. Það er frá 1. nóvember. Ekki er ólíklegt að menn horfi til þess að gera skammtímasamning. Í máli formanna kom fram að mikilvægt væri að ljúka samningagerðinni á næstu dögum og vikum. Ef ekki yrðu menn að skoða aðra aðferðarfræði. Formennirnir munu funda aftur um stöðuna í næstu viku. Milli funda mun samninganefnd SGS funda með fulltrúm frá Samtökum atvinnulífsins með það að markmiði að leita leiða til að klára gerð kjarasamnings.

Verkfæra- og fatagjald hjá iðnaðarmönnum

Iðnaðarmenn eiga rétt á verkfæra- og fatagjaldi. Þessar greiðslur hækka reglulega. Þær hækkuðu síðast 1. apríl 2022. Hér má lesa frekar um breytingarnar sem orðið hafa á þessum gjöldum á árinu 2022.

 

Verkfæra- og fatagjald

  1. apríl 2022
Trésmiðir, málarar og múrarar: Pípulagningamenn:
Verkfæragjald pr. Klst. 48,35 kr. Verkfæragjald pr. Klst. 59,34 kr.
Fatagjald pr. Klst. 27,66 kr. Fatagjald pr. Klst. 27,66 kr.

Verkfæra og fatagjald reiknast á alla unna tíma.

Fatagjald greitt inn á fatareikning kr. 15,42

Fatagjald er greitt inn á sérstakan reikning við hverja launaútborgun og reiknast á allar unnar stundir.

  1. janúar 2022

Trésmiðir, málarar og múrarar:

Verkfæragjald pr. klst. 47,64 kr.
Fatagjald pr. klst. 27,25 kr.

Pípulagningamenn:

Verkfæragjald pr. klst. 58,46 kr.
Fatagjald pr. klst. 27,25 kr.

Verkfæra og fatagjald reiknast á alla unna tíma.

Fatagjald greitt inn á fatareikning kr. 15,19

Fatagjald er greitt inn á sérstakan reikning við hverja launaútborgun og reiknast á allar unnar stundir.

 

Stjórn Framsýnar ályktar um gjaldskrárhækkanir

 Á stjórnarfundi Framsýnar í gær urðu umræður um gjaldskrárhækkanir sem komið hafa til og eru í farvatninu hjá stofnunum ríkisins og sveitarfélaga. Höfðu fundarmenn miklar áhyggjur af stöðunni. Eftir miklar umræður samþykkti stjórnin að senda frá sér svohljóðandi ályktun:

„Framsýn stéttarfélag skorar á ríki og sveitarfélög að gæta hófs í hækkunum  á opinberum gjöldum s.s. þjónustugjöldum fyrir almenna þjónustu, heilbrigðisþjónustu og sköttum á eldsneyti. Eins ber að nefna gjaldskrárhækkanir eins og hækkanir á fasteignagjöldum, sem vega almennt mjög þungt í vasa þeirra sem minna hafa á milli handanna.

Heimilin í landinu hafa þegar tekið á sig miklar verðhækkanir s.s. á eldsneyti, flutninga, matvöru í skugga stríðs og heimsfaraldurs, svo ekki sé talað um hækkanir stýrivaxta sem hafa bein áhrif á leigugreiðslur og lánaafborganir.

Það hjálpar ekki við gerð yfirstandandi kjarasamninga þar sem lagt er að verkalýðshreyfingunni að leggja fram hófstilltar launakröfur, haldi opinberir aðilar ekki að sér höndum varðandi hækkanir á gjaldskrám og íþyngjandi sköttum. Slíkt er olía á eldinn.  Verkafólk á Íslandi getur ekki eitt haldið samfélaginu gangandi, það kallar því eftir sanngirni og jöfnuði í þjóðfélaginu.

Að mati Framsýnar stéttarfélags er mikill ábyrgðarhluti að ganga frá endurnýjuðum kjarasamningum á vinnumarkaði nema fyrir liggi skýr afstaða opinberra aðila að þeir ætli sér að halda niðri öllum kostnaðarliðum sem áhrif hafa á afkomu heimilanna í landinu. Aðeins þannig er hægt að tryggja sátt á íslenskum vinnumarkaði á komandi árum enda séu Samtök atvinnulífsins jafnframt tilbúin að koma til móts við verkalýðshreyfinguna um sanngjarnar launahækkanir til handa verkafólki.“   

 

 

Húfur í boði

Félagsmenn Framsýnar og Þingiðnar eru velkomnir í heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna. Þar geta þeir nálgast húfur fyrir veturinn sem voru að koma í hús. Miðað við góða veðrið síðustu daga er eitthvað í það að veturinn komi í heimsókn. Reyndar fagna flestir því en hann mun koma því miður. Þá er gott eiga góða húfu frá stéttarfélögunum.

Dagatölin komin í hús

Dagatöl stéttarfélaganna vegna ársins 2023 eru komin á Skrifstofu stéttarfélaganna. Í ár eru myndirnar á dagatölunum eftir Hafþór Hreiðarsson og Atla Vigfússon. Um er að ræða  glæsilegar myndir. Áhugaamir geta nálgast dagatölin á skristofuninni. Allir velkomnir.

Gagnagrunnur um kjarasamninga

Ríkissáttasemjari hefur opnað gagnagrunn á vef sínum www.rikissattasemjari.is þar sem hægt er að nálgast texta allra gildandi kjarasamninga á Íslandi og margskonar tölfræði um samningana og kjarasamningsgerðina. Tilgangurinn er að auðvelda  launafólki og launagreiðendum og öðrum sem  áhuga hafa á að fræðast um kjarasamninga aðgang að ítarlegum upplýsingum um gildandi kjarasamninga, að veita yfirlit yfir hvenær mismunandi samningar renna út og gefa innsýn í margskonar tölfræði varðandi kjarasamningagerðina. Gagnagrunnurinn er mikilvægur m.a. vegna þess að stundum kann að vera snúið að nálgast  gildandi kjarasamninga og í mörgum tilvikum breytir nýjasti kjarasamningur aðeins hluta af kjörum þeirra sem hann nær yfir – og í gagnagrunninum er hægt að lesa gildandi kjarasamninga í samhengi við fyrri samninga.  Upplýsingar í grunninum byggja á kjarasamningum sem til eru hjá ríkissáttasemjara, en skv. lögum er aðilum vinnumarkaðarins skylt að senda ríkissáttasemjara alla gerða kjarasamninga.

Fjórir nemar í Háskóla Íslands unnu að gagnagrunninum með starfs fólki ríkissáttasemjara. Tveir nemendur í tölvunarfræði, Alexander Guðmundsson og Einar Páll Pálsson, og tveir nemendur í mannauðsstjórnun, Hanna Lind Garðarsdóttir og Karitas Marý Bjarnadóttir. Verkefnið fékk styrk frá RANNÍS.

„Ég er sannfærður um að gagnagrunnurinn muni nýtast launafólki, einstaka launagreiðendum, verkalýðshreyfingunni og samtöku atvinnurekenda frábærlega vel þar sem það hefur til dæmis verið erfitt að nálgast fullnægjandi upplýsingar um alla gildandi kjarasamninga, hvenær þeir renna út og hvernig þeir tengjast fyrri samningum. Það hefur verið ævintýri að vinna að þessu skemmtilega verkefni með fjórum algerlega frábærum háskólanemum“, segir Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari.

Á tölfræðisíðu gagnagrunnsins kemur fram að á Íslandi eru 353 kjarasamningar í gildi og í 99,4% tilvika voru samningar útrunnir áður en nýjir samningar voru undirritaðir.

Ríkissáttasemjari áformar að bæta smám saman eldri samningum inn í gagnagrunninn uns hann inniheldur alla samninga sem embættið hefur í vörslu sinni, allt frá árinu 1905.

Þau sem hafa áhuga geta fengið kynningu á gagnagrunninum, vinsamlegast sendið línu til elisabet@rikissattasemjari.is

 

 

SGS og VR/LÍV vísa kjaraviðræðum til ríkissáttasemjara

Íslenskt atvinnulíf stendur styrkum fótum og staða fyrirtækja hefur sjaldan verið betri. Hvert fyrirtækið á fætur öðru skilaði methagnaði á síðasta ári og allt bendir til þess að árið í ár verði ekki síðra. Útflutningsgreinarnar – undirstöður atvinnulífsins – standa afar vel. Sjávarútvegurinn skilaði tugmilljarða króna hagnaði í fyrra og ferðaþjónustan hefur náð flugi á nýjan leik eftir Covid.

Vinnuframlag launafólks, þekking þess og kunnátta liggja að baki þessum gríðarlega góða árangri og launafólk á kröfu á umbun í samræmi við það. Um það snúast kjarasamningar – réttláta skiptingu.

Lífskjarasamningurinn, sem undirritaður var árið 2019, rann út um síðustu mánaðamót. VR, Landssamband ísl. verzlunarmanna og Starfsgreinasamband Íslands hafa staðið þétt saman í viðræðum við Samtök atvinnulífsins síðustu vikur og freistað þess að ná nýjum samningi. Fundað hefur verið stíft en nú blasir við að of mikið ber í milli.  Samningur er ekki í sjónmáli og engar forsendur til að halda viðræðum áfram að óbreyttu.

Hrina kostnaðarhækkana skellur nú á launafólki; húsaleiga hefur hækkað, vextir, bensín, matvara og þjónustugjöld svo fátt eitt sé nefnt. Stéttarfélögin krefjast kaupmáttaraukningar launa á samningstímanum en atvinnurekendur segja ekkert svigrúm til þess. Stéttarfélögin kalla eftir markvissum aðgerðum til að ná niður verðbólgu en atvinnurekendur hafa ekkert fram að færa. Það er holur hljómur í málflutningi atvinnurekenda þegar þeir halda því fram að launahækkanir keyri upp verðbólguna – það er búið að sýna fram á að svo sé ekki.

VR/LÍV og SGS eru í forsvari fyrir stóran hluta launafólks á almennum vinnumarkaði og gera kröfu um sanngirni. Á meðan atvinnurekendur hlusta ekki á raddir tugþúsunda einstaklinga sem fyrir þá starfa í samningaviðræðum eins og þeim sem staðið hafa yfir síðustu vikur verður að leita annarra leiða. Því hafa stéttarfélögin tekið þá ákvörðun að vísa viðræðum VR/LÍV og SGS við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara.

  1. nóvember 2022

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR
Eiður Stefánsson, formaður samninganefndar LÍV
Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS