Discount vouchers for Niceair flights from Akureyri

Framsýn  has concluded an agreement with airline Niceair about discount for flights, which also applies to union members of Þingðn and STH. Members can purchase two discount vouchers per year, each worth 32,000 ISK.

The discount voucher is worth 32,000 ISK. for flights with Niceair. The voucher can be used to purchase airline tickets and additional services related to Niceair flights on the company’s website at www.niceair.is. Each union member can order two discount vouchers per year (every 365 days) for their own use for 20,000 ISK. for each voucher, so the discount is 12,000 isk. for each voucher. More than one voucher can be used per booking. The voucher applies only to Niceair flights and is only valid for trade union members. Additional service rates apply if the booking is made through a Niceair agent. After the ticket has been issued conditions for changes and other terms apply.  

Vouchers can be purchased on our holiday website https://orlof.is/framsyn/

Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar auglýsir eftir umsóknum 2023

Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar auglýsir eftir umsóknum. Sjóðurinn veitir styrki til rannsókna og útgáfu verkefna sem varða sérstaklega íslenskan vinnumarkað, hagsmuni launafólks og starfsemi verkalýðshreyfingarinnar.

Hámarksfjárhæð einstakra styrkja er 1 milljón króna. Umsóknir um styrkinn þurfa að berast fyrir 15. apríl en úthlutað er úr sjóðnum 1. maí ár hvert.

Nánari uppýsingar um minningarsjóðinn má finna hér.

Botnlaus vinna á Þórshöfn – Allir á vertíð!

Um þessar mundir er brjálað að gera á Þórshöfn við loðnuhrognaframleiðslu. Að sögn heimamanna hefur gengið ævintýralega vel á vertíðinni. Ekki er vitað hvað vertíðin kemur til með að standa yfir í marga daga til viðbótar. Fyrirtækið biðlar til starfsmanna sem eru á lausu sem vilja koma austur á vertíð að hafa samband, húsnæði er í boði og mikil vinna. Áhugasamir eru beðnir um að hafa samband við Siggeir hjá Ísfélaginu á Þórshöfn sem gefur frekari upplýsingar.

Ný þjónusta á Húsavík

Stundum er sagt að hlutir hafi tilhneigingu til að fara í hringi. Þegar Pétur heitinn Jónasson ljósmyndari var að undirbúa og byggja íbúðarhús og aðsetur fyrir ljósmyndastofu á Stóragarði 15 byrjaði hann á að fá rými á fjórðu hæð í Kaupfélagshúsinu og útbjó þar framköllunaraðstöðu. Sem nýttist vel þangað til ljósmyndastofan varð tilbúin og opnaði á Stóragarðinum. Þar var hún starfrækt þangað til í fyrra og eins og margir þekkja, vel búin tækjum og þekkingu varðandi myndir og myndatengda þjónustu, í takt við fáanlega tækni á hverjum tíma.

Núna er tækjabúnaður af Ljósmyndastofu Péturs kominn á aðra hæð í Kaupfélagshúsinu og þar er veitt ýmiskonar þjónusta. „Við Pétur höfum unnið nokkuð saman undanfarin ár og þegar fór að halla undan fæti var m.a. rætt hvort og hvernig væri mögulega hægt að halda starfseminni áfram í einhverri mynd“ segir Gunnar Jóhannesson. „Eftir fráfall Péturs var gert samkomulag við aðstandendur og undirbúningur flutnings á tækjum, búnaði hófst“. Hafþór Hreiðarsson gekk til liðs við TN ehf. í ágúst og vinna við að fara í gegnum ljósmyndastofuna hófst. „Við tókum að okkur að fara í gegnum búnað og mjög mikið af myndum, gögnum og allskonar sem hafði safnast saman í langan tíma. Mikil saga sem þarna var og mikil vinna fór í að flokka og fara yfir“ segir Hafþór sem er á meðfylgjandi mynd.

TN er með ágætis aðstöðu í Kaupfélagshúsinu á annarri hæð. Þar er veitt m.a. almenn myndaþjónusta, tökur og myndvinnsla, stafræn framköllun, stækkanir á myndum og útprentun, teikningaútprentun, skiltagerð, plöstun ofl. „Við erum með nokkra prentara fyrir mismunandi notkun“ segir Hafþór, „svo hægt að þjónusta hvort heldur sem er með venjulegar myndir í hefðbundum stærðum eða stækkanir. Stærsti prentarinn getur prentað 130cm á breidd, svo stækkun á myndum er ekki vandamál svo lengi sem gæði myndar eða annars efnis eru nægileg.“

„Við erum ekki meistari Pétur“, segir Gunnar, „en við kappkostum að veita góða þjónustu og byggja á því sem hefur verið og byggja svo ofan á ofan á það eftir aðstæðum og eftirspurn. Við erum t.d. með aðeins af römmum, kartonum og slíku sem tengist frágangi mynda/útprentana.“

Margir hafa velt fyrir sér, hvað með allan þann fjársjóð af myndum sem ljósmyndastofan hefur tekið frá upphafi. „Við varðveitum filmusafnið í bili og höfum síðan aðgang að því, auk þess að hafa öll stafræn gögn. Þetta þýðir að fólk getur leitað til okkar til að athuga með mynd sem tekin var á einhverjum tilteknum tíma. Filmusafnið er skráð svo hægt að leita en allt getur samt tekið sinn tíma“, segir Gunnar að lokum.

Gjafabréf með Niceair frá Akureyri

Framsýn hefur gengið frá samningi við flugfélagið Niceair um afsláttarkjör fyrir félagsmenn. Samningurinn gildir einnig fyrir félagsmenn Þingiðnar og STH. Félagsmenn geta verslað tvö gjafabréf á ári.

Gjafabréfið gildir sem 32.000 kr. greiðsla upp í flugferð með Niceair. Hægt er að nýta gjafabréfið til kaupa á flugfargjaldi og annarri bókunarþjónustu hjá Niceair í gegnum bókunarsíðu félagsins www.niceair.is.

Hver félagsmaður getur keypt tvö gjafabréf til eigin nota á ári (365 daga fresti) og greiðir 20.000 kr. fyrir hvert gjafabréf. Afslátturinn er því 12.000 kr. á hvert gjafabréf. Nota má fleiri en eitt gjafabréf við bókun. Gjafabréfið gildir aðeins fyrir félagsmenn fljúgi þeir með Niceair. Ef bókað er hjá sölumanni gilda reglur Niceair um þjónustugjöld. Eftir útgáfu farseðils gilda skilmálar flugfélagsins um breytingar og fleira.

Gjafabréfin er hægt að kaupa á orlofsvefnum.

LÍV/VR og SVÞ undirrita tímamótasamning um aukna hæfni og þekkingu starfsfólks í verslun og þjónustu

Formaður VR og LÍV, Ragnar Þór Ingólfsson og formaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu, Jón Ólafur Halldórsson, undirrituðu í gær, fimmtudaginn 16. mars 2023 samstarfssamning um að vinna markvisst að hæfniaukningu í verslun og þjónustu til ársins 2030. Framsýn á aðild að samningnum fyrir félagsmenn sem starfa við verslun og þjónustu.

Samningurinn felur í sér þrjú meginmarkmið. Fram til ársins 2030 er stefnt að því að 80% af starfsfólki fyrirtækja í verslun og þjónustu sæki nám sem hefur að markmiði að auka hæfni og þekkingu. Námið fari fram með reglulegri sí- og endurmenntun samkvæmt nánari þarfagreiningu sem VR/LÍV og SVÞ vinna að í sameiningu hverju sinni. Markmiðið er að tryggja að starfsfólk fyrirtækja í verslun og þjónustu eigi ávallt kost á því námi sem gerir þeim kleift að takast á við þau verkefni sem vinnumarkaður í örri umbreytingu gerir kröfu um. Einnig að fyrirtæki í verslun og þjónustu hafi á hverjum tíma aðgang að hæfu starfsfólki.

Þá verður sérstök áhersla lögð á að auka þekkingu og hæfni þess stóra hóps starfsfólks í verslunar- og þjónustufyrirtækjum sem hefur íslensku sem annað tungumál. Markmiðið er að 80% þessa hóps búi árið 2030 yfir hæfni B12 í íslensku samkvæmt viðmiðum Evrópska tungumálarammans (European Language Portfolio).

Í þriðja lagi er stefnt að því að verslunar- og þjónustugreinin þrói og skilgreini aðferð sem leiði af sér viðurkenningu/vottun á gefnum markmiðum samningsins. Það felur í sér að viðurkennd vottun eða fagbréf verði veitt fyrir starfsgreinar og hæfnisnám/þjálfun starfsfólks í verslun og þjónustu og að fyrirtæki fái viðurkenningu þegar 80% starfsmanna eru árlega í virkri sí- og endurmenntun.

Með samningnum vilja VR/LÍV og SVÞ sýna að það er sameiginlegt viðfangsefni samtaka launafólks í verslunar- og þjónustugreinum og samtaka atvinnurekenda að tryggja að menntun og hæfni starfsfólks sé í takt við þarfir eins og þær eru hverju sinni.

Sjá samninginn í heild sinni hér.

Trúnaðarmenn á námskeiði

Nú stendur yfir trúnaðarmannanámskeið á vegum stéttarfélaganna á Húsavík, um er að ræða tveggja daga námskeið. Góð þátttaka er á námskeiðinu þar sem rúmlega tuttugu trúnaðarmenn eru á námskeiðinu, þar af þrír frá Verkalýðsfélagi Þórshafnar. Félagsmálaskóli alþýðu sér um kennsluna á námskeiðinu. Leiðbeinendurnir koma frá Alþýðusambandi Íslands, það eru þau Karen Ósk Níelsen Björnsdóttir lögfræðingur ASÍ sem tók fyrir vinnurétt í gær og Róbert Farestveit hagfræðingur ASÍ sem fjallar um hagfræði og túlkun talna í dag. Rúmlega þrjátíu trúnaðarmenn eru starfandi á félagssvæði Framsýnar, þar sem fleiri en 5 starfsmenn starfa ber að kjósa trúnaðarmann. Stéttarfélögin leggja mikið upp úr því að hafa starfandi trúnaðarmenn á sem flestum vinnustöðum.

Fréttabréf með orlofskostum í burðarliðnum

Fréttabréf með orlofskostum stéttarfélaganna árið 2023 er væntanlegt til lesenda um næstu helgi. Blaðið fór í prentun í morgun. Að venju er blaðið fullt af upplýsingum um orlofskosti og þá hafa félögin samið við Icelandair og Niceair um afsláttarkjör á flugmiðum á vegum flugfélaganna auk þess sem stéttarfélögin koma með afslátt á móti flugfélögunum til félagsmanna. Nánari upplýsingar verða í Fréttabréfinu, þá verður einnig hægt að skoða það rafrænt síðar í þessari viku á heimasíðu stéttarfélaganna www.framsyn.is. Þar er einnig að finna umsóknareyðublað um orlofshús og íbúðir í sumar en hægt verður að sækja um orlofskosti til 17. apríl nk. Sjá nýjasta Fréttabréfið.

Hér er umsóknareyðublaðið um sumarúthlutun orlofshúsa.

STH fagnar 60 ára afmæli félagsins

Stjórn Starfsmannafélags Húsavíkur hefur falið Ferðanefnd félagsins að skipuleggja afmælisferð til útlanda á árinu til að fagna 60 ára afmæli félagsins. Reiknað er með að farið verði í ferðina í haust. Undanfarin ár hefur félagið lagt fjármagn í ferðasjóð sem ætlað er að niðurgreiða ferðina fyrir starfandi félagsmenn. Þegar Ferðanefndin hefur skipulagt ferðina verður hún auglýst nánar.

Sjómenn felldu kjarasamninginn

Öll aðild­ar­fé­lög Sjó­manna­sam­bands­ins, þar á meðal sjómenn innan Framsýnar, felldu kjara­samn­ing SFS og SSÍ með 67% at­kvæða. Samn­ings­boðið var til tíu ára. Sex­tán fé­lög eru í Sjó­manna­sam­bandi Íslands.

Val­mund­ur Val­munds­son, formaður Sjó­manna­sam­bands Íslands, seg­ir niður­stöðuna hafa komið á óvart. „Kannski var það samn­ings­tím­inn sem fór öf­ugt of­aní menn,“ seg­ir Val­mund­ur.

Þá seg­ir hann að borið hafi á mis­skiln­ingi varðandi grein 1.39.1 í samn­ingn­um sem snert­ir ný­smíði. Snýr hún að því að semja þurfi sér­stak­lega um það ef fram koma ný skip eða nýjar veiði- eða verkunaraðgerðir.

„Við reynd­um að styrkja þá grein í samn­ingn­um en þetta hef­ur valdið ein­hverj­um ægi­leg­um dellu mis­skiln­ingi,“ seg­ir Val­mund­ur.

Hann seg­ir að næsta á dag­skrá sé að fara í baklandið og fá nán­ar úr því skorið hvar hníf­ur­inn stend­ur í kúnni. 

Samn­ing­ar Sjó­manna og SFS voru und­ir­ritaðir þann 9. fe­brú­ar síðastliðinn. (Heimild mbl.is)

Heimamenn til hamingju!

Verslunin Heimamenn fagna 1 árs afmæli í dag en verslunin opnaði formlega þann 10. mars 2022 eftir að Húsasmiðjan hafði lokað verslun fyrirtækisins á Húsavík gegn vilja íbúa á svæðinu. Sem betur fer tóku nokkrir verktakar sig til og opnuðu byggingavöruverslun í sama húsnæði og Húsasmiðjan hafði áður verið til húsa. Viðtökurnar hafa verið mjög góðar og sáu margir viðskiptavinir ástæðu til að koma við hjá Heimamönnum í dag og gleðjast með þeim. Til hamingju Heimamenn.

Gjafabréf Icelandair í boði fyrir félagsmenn

Félagsmönnum stéttarfélaganna, Framsýnar, Þingiðnar og STH stendur til boða að kaupa Gjafabréf Icelandair á orlofsvef stéttarfélaganna. Gengið var frá samningi þess efnis við Icelandair í vikunni. Félagsmenn greiða kr. 24.000,- fyrir 30.000,- króna gjafabréf. Félagsmönnum er heimilt er að kaupa tvö bréf á hverjum 12 mánuðum. Frekari upplýsingar um bréfin eru í boði inn á orlofsvefnum, www.framsyn.is.

Stapi skilar ekki auðu

Hluthafastefna Stapa tilgreinir viðhorf sjóðsins gagnvart starfskjarastefnum þar sem sjóðurinn er hluthafi. Þar kemur meðal annars fram að stefnan skuli vera skýr, sjálfbær og hafa langtímahagsmuni viðkomandi félags að leiðarljósi. Byggi kjör að einhverju leyti á breytilegum greiðslum skulu þau upplýst og rökstudd af stjórn og hafa skýran rekstrarlegan tilgang.

Í ljósi umræðu um framkvæmd starfskjarastefnu skráðra innlendra hlutafélaga og aðgerðir hluthafa telur sjóðurinn rétt að halda því til haga að Stapi hefur frá og með árinu 2018 upplýst á heimasíðu sjóðsins um ráðstöfun atkvæðaréttar á hluthafafundum skráðra innlendra hlutafélaga. Þar má meðal annars sjá að í fyrra hafnaði sjóðurinn í fjórum tilvikum tillögum stjórnar um breytingar á starfskjarastefnu eða kaupréttum starfsmanna þar sem þær samrýmdust ekki hluthafastefnu sjóðsins;

  • Stapi hafnaði tillögu stjórnar Icelandair um starfskjarastefnu, sem og tillögu um langtíma hvatakerfi á hluthafafundi þann 3. mars 2022
  • Stapi hafnaði tillögu stjórnar Símans um kaupréttaráætlun fyrir forstjóra, stjórnendur og lykilstarfsmenn á hluthafafundi 10. mars 2022
  • Stapi hafnaði tillögu stjórnar Skeljungs (nú Skel) um breytta starfskjarastefnu og kaupréttaráætlun á hluthafafundi 10. mars 2022
  • Stapi hafnaði tillögu stjórnar Marel um starfskjarastefnu og kaupréttarkerfi Marel á hluthafafundi 16. mars 2022

Á næstu dögum og vikum eru á dagskrá fjölmargir aðalfundir skráðra innlendra félaga. Stapi mun eftir sem áður veita þeim félögum sem hann fjárfestir í aðhald og koma á framfæri ábendingum um hvað megi betur fara í framkvæmd starfskjarastefnu og stjórnarháttum. Slíkt getur sjóðurinn gert með ráðstöfun atkvæða eða bókunum á hluthafafundum, samskiptum við stjórn félaga eða sölu á eignarhluta í viðkomandi félögum.

Gleðileg tíðindi

Stéttarfélögin hafa undanfarið átt í viðræðum við Flugfélagið Erni um áframhaldandi samstarf um sérkjör á flugmiðum fyrir félagsmenn milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Í gær var gengið frá samningi milli aðila sem gildir út árið 2023 og tryggir félagsmönnum sama verð á flugmiðum/kóðum og verið hefur síðustu mánuði eða kr. 15.000,- per flugferð. Samkomulagið byggir á því að Framsýn greiðir fyrirfram ákveðinn fjölda flugmiða sem ætlað er að endast út árið en tæplega 200 miðar/kóðar eru að meðaltali seldir til félagsmanna á mánuði. Að sjálfsögðu ber að fagna þessum samningi enda um mikla kjarabót að ræða fyrir félagsmenn.   

Lög STH í endurskoðun

Undanfarið hefur verið unnið að því að endurskoða félagslög Starfsmannafélags Húsavíkur sem er reyndar löngu tímabært. Stjórn félagsins hefur samþykkt breytingarnar sem verða til afgreiðslu á aðalfundi félagsins í vor. Til stendur að halda félagsfund í byrjun apríl þar sem farið verður yfir lagabreytingarnar, þannig gefst almennum félagsmönnum tækifæri á að kynna sér breytingarnar fyrir aðalfundinn. Félagsmenn STH er velkomið að koma við á Skrifstofu stéttarfélaganna og grípa með sér eintak af lagabreytingunum vilji þeir kynna sér málið frekar fyrir aðalfundinn. Þá veitir formaður félagsins, Hermína Hreiðarsdóttir, frekari upplýsingar um lagabreytingarnar sem og starfsmenn félagsins.

STH samþykkir starfsreglur fyrir Ferðasjóð félagsins

Samkvæmt sérákvæðum í gildandi kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samflotsins er kveðið á um sérstaka greiðslu í Ferðasjóð STH frá sveitarfélaginu Norðurþingi. Þar er kveðið á um:

„Greiðsla í ferðasjóð starfsmanna skal vera kr. 3.846,- (miðað við frv. 160,2 stig; jan. ´92) fyrir hvern starfsmann árið 1992. Upphæð þessi skal taka sömu breytingum og framfærsluvísitala. Upphæðin skal reiknuð út í janúar ár hvert og verða til greiðslu 1. mars ár hvert.“

Stjórn félagsins hefur ákveðið að leggja til við aðalfund félagsins í vor að eftirfarandi starfsreglur gildi fyrir Ferðasjóðinn, það er síðan aðalfundarins að afgreiða starfsreglurnar formlega:

Tilgangur sjóðsins

Markmið sjóðsins er að standa fyrir orlofsferðum fyrir félagsmenn. Sérstök Ferðanefnd sem kjörin er á aðalfundi skal sjá um að skipuleggja ferðirnar í fullu samráði við stjórn félagsins enda ber hún fjárhagslega ábyrgð á rekstri félagsins.

 Réttur félagsmanna

Aðeins þeir félagsmenn sem eru starfandi á hverjum tíma eiga rétt á niðurgreiðslum vegna skipulagðra ferða á vegum félagsins sem og þeir félagsmenn sem láta af störfum vegna aldurs eða örorku innan 12 mánaða frá því að ferðin auglýst formlega.

Skipulag ferða

Leitast skal við að skipuleggja orlofsferðirnar þannig að sem flestir geti tekið þátt í þeim. Það er ferðir sem farnar eru innanlands og/eða erlendis á vegum Ferðanefndar STH.

Rétt er að taka skýrt fram að félagsmenn geta komið sínum ábendingum á framfæri varðandi tillögur stjórnar við formann félagsins sem er Hermína Hreiðarsdóttir.

Upplýsandi fundur um lífeyrismál

Stéttarfélögin, Framsýn og Þingiðn, stóðu fyrir kynningarfundi í byrjun mars um lífeyrismál og breytingar sem fyrirhugaðar eru á samþykktum Lsj. Stapa. Í upphafi fundar fór formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, nokkrum orðum um mikilvægi þess að félagsmenn væru vel inn í sínum málum er varðaði lífeyrisréttindi. Þess vegna hefði hann viljað sjá miklu fleiri sjóðfélaga á þessum mikilvæga fundi. Hann sagði fundinn haldinn í samstarfi við Lsj. Stapa. Því næst gaf hann gestum fundarins þeim Jóhanni Steinari og Jónu Finndísi orðið en þau skiptu með sér kynningunni á lífslíkum sjóðfélaga með tilliti til eftirlauna og örorku auk þess að fjalla um stöðu sjóðsins og framtíðarhorfur. Nýlega var lögð fram ný spá um lífslíkur fólks sem gerir ráð fyrir því að lífslíkur haldi áfram að hækka til framtíðar. Spáin hefur veruleg áhrif á skuldbindingar lífeyrissjóða. Frummælendur gerðu auk þess grein fyrir þeim hugmyndum sem unnið er eftir við að innleiða hækkandi lífslíkur í samþykktir sjóðsins. Reiknað er með því að tillögur þess efnis verði lagðar fyrir ársfund sjóðsins í vor. Áður verða þær til umræðu á fulltrúaráðsfundi, það er fyrir ársfundinn. Þau gerðu einnig grein fyrir rekstri sjóðsins og ávöxtun á nýliðnu ári. Jóhann Steinar og Jóna Finndís fengu fjölmargar spurningar frá áhugasömum fundarmönnum sem þau svöruðu eftir bestu getu. Eftir góðar og upplýsandi umræður þökkuðu gestirnir fundarmönnum fyrir góða þátttöku í umræðunum um leið og fundarmenn þökkuðu þeim sömuleiðis fyrir komuna. Hægt verður að fræðast betur um fyrirhugaðar breytingar á réttindakerfi sjóðsins inn á heimasíðu Lsj. Stapa, www.stapi.is.

Gengið frá samningi við LS og SSÚ

Undirritaður hefur verið nýr kjarasamningur fyrir starfsfólk sem vinnur við uppstokkun eða beitningu í landi og netavinnu, en viðræður um nýjan samning hafa staðið yfir frá því í lok janúar. Samningurinn er á milli Starfsgreinasambands Íslands annars vegar og Landssambands smábátaeigenda og Samtaka smærri útgerða hins vegar sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn.

Samningurinn gildir afturvirkt frá 1. nóvember 2022 og til 31. janúar 2024, sbr. kjarasamning SGS og SA sem undirritaður var 3. desember sl. Samkvæmt nýjum samningi hækkar kauptrygging frá 1. nóvember 2022 um 44.959 kr. og verður 448.224 kr., en upphæðin miðast við 15. launaflokk og 5 ára starfsaldursþrep í launatöflu SGS og SA. Samninginn í heild sinni má nálgast hér.

Vissulega hefur dregið verulega úr beitningu í landi á félagssvæði Framsýnar, miðað við hér á árum áður þegar flestir skúrar neðan við bakkan á Húsavík voru fullir af öflugum beitningamönnum. Það sama á við um Raufarhöfn. Það er því við hæfi að birta eina góða mynd frá síðustu öld með þessari frétt.

Trúnaðarmannanámskeið í mars

Stéttarfélögin standa fyrir tveggja daga trúnaðarmannanámskeiði dagana 16 – 17. mars nk. Námskeiðið verður haldið á Húsavík. Skráning fer fram hjá Félagmálaskóla alþýðu og  þar er hægt að skrá sig inn á Mínar síður eða með rafrænum skilríkjum   https://www.felagsmalaskoli.is/ eða með því að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna.  Námskeiðin eru trúnaðarmönnum að kostnaðarlausu og eru bæði fræðandi og skemmtileg. Samkvæmt ákvæðum kjarasamninga eiga trúnaðarmenn rétt á að sækja slík námskeið á vinnutíma án skerðingar launa. Rétt er að taka fram að trúnaðarmenn halda launum meðan þeir eru á námskeiðinu auk þess sem þeir búa utan Húsavíkur eiga rétt á gistingu og fæði.

Trúnaðarmannanámskeiðiðn hafa verið vel sótt af félagsmönnum. Á öllum vinnustöðum þar sem starfa 5 eða fleiri starfsmenn eiga að vera starfandi trúnaðarmenn. Er trúnaðarmaður á þínum vinnustað?