Síðasta föstudag var haldin móttaka fyrir varaformann Framsýnar, Ósk Helgadóttir. Tilefnið var að sæma hana gullmerki Framsýnar sem er æðsta viðurkenning félagsins fyrir vel unninn störf í þágu félagsmanna og þar með samfélagsins alls í Þingeyjarsýslum. Ósk fagnar einnig um þessar mundir 60 ára afmæli. Stjórn Framsýnar var sammála um að veita varaformanni þessa æðstu viðurkenningu félagsins enda unnið hreint út sagt frábært starf í þágu félagsins til fjölda ára. Athöfnin fór fram í fundarsal stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 að viðstöddum stjórn félagsins, trúnaðarráði, stjórn Framsýnar-ung, formönnum STH og Þingiðnar auk starfsmanna stéttarfélaganna. Í tilefni dagsins var boðið upp á hátíðardagskrá auk þess sem formaður félagsins, Aðalsteinn Árni Baldursson, flutti ávarp þar sem hann þakkaði varaformanni sérstaklega fyrir framlag hennar í þágu félagsmanna um leið og hann óskaði henni til hamingju með að bætast í hóp þeirra forystumanna innan félagsins sem hefðu skarað fram úr í gegnum tíðina. Ávarpið er svohljóðandi:
Ávarp
„Stjórn Framsýnar stéttarfélags hefur samþykkt að sæma Ósk Helgadóttur gullmerki félagsins fyrir vel unninn störf í þágu félagsmanna og þar með samfélagsins alls í Þingeyjarsýslum.
Frá árinu 1996 hafa eftirtaldir félagsmenn hlotið þessa æðstu viðurkenningu fyrir störf þeirra í þágu Verkalýðsfélags Húsavíkur eða Framsýnar, stéttarfélags sem formenn eða varaformenn; Helgi Bjarnason, Kristján Ásgeirsson og Kristbjörg Sigurðardóttir.
Ósk Helgadóttir bættist nú í þennan merka hóp sem komið hefur að því að marka sporin fyrir framgöngu verkalýðsbaráttu í Þingeyjarsýslum.
Samkvæmt 6-lið 10. greinar félagslaga Framsýnar er stjórn félagsins heimilt á hverjum tíma að velja heiðursfélaga og sæma þá gullmerki félagsins. Heiðursfélagi er sæmdarheiti sem er æðsta viðurkenning félagsins og þeim einum hlotnast er lagt hafa sérstaklega mikið af mörkum til eflingar félaginu, félagsmönnum til hagsbóta.
Það er alveg ljóst að Ósk er vel að því komin að vera heiðruð með þessum hætti. Hún hefur lengi komið að stjórnunarstörfum fyrir félagið, það er sem fulltrúi í trúnaðarráði og trúnaðarmaður starfsmanna innan Framsýnar við Stórutjarnaskóla. Þá hefur hún verið varaformaður félagsins frá árinu 2014 auk þess að gegna ýmsum trúnaðarstörfum fyrir verkalýðshreyfinguna. Hvað það varðar má geta þess að hún var um tíma formaður Alþýðusambands Norðurlands.
Ósk hefur notið mikillar virðingar fyrir störf sín í þágu Framsýnar og alltaf verið reiðubúin að vinna þá vinnu sem þurft hefur að skila í þágu félagsmanna á hverjum tíma. Það er nánast á öllum tímum sólarhringsins. Svo virðist sem fleiri klukkutímar séu í hennar sólarhring en hjá öðru venjulegu fólki.
Eftirfarandi málsgrein er að finna í blaðinu Verkamanninum frá árinu 1961 þegar málefni Verkamannafélags Húsavíkur voru til umfjöllunar, nú Framsýnar stéttarfélags: „Félagið hefur jafnan haft á að skipa hæfum og góðum mönnum til forystustarfa. Þeir hafa borið merki félagsins hátt en þó með gætni og því hefur vel farið.“ Tilvitnun lýkur.
Að mínu mati á innihald þessarar setningar ekki síður við í dag þegar vikið er að störfum okkar ágæta varaformanns í þágu Framsýnar stéttarfélags. Starf stéttarfélaga hefur breyst verulega í gegnum áratugina. Rauði þráðurinn er þó sá sami og stofnað var til í upphafi, það er velferð félagsmanna.
Í dag stöndum við ekki og bræðum mör til að selja félagsmönnum á hagstæðu verði eins og stjórnarmenn í Verkamannafélagi Húsavíkur gerðu árið 1915. Þá keypti félagið mör fyrir 200 krónur, bræddi hann og seldi félagsmönnum tólg. Félagið útvegaði félagsmönnum einnig hey, skóleður, kartöflur, kol, smjörlíki og niðursoðna mjólk svo eitthvað sé nefnt. Á þessum árum réðst Verkamannafélagið einnig í svarðartekju og skógarhögg í þágu félagsmanna þegar erfiðast var um eldivið.
Í dag erum við ekki að takast á við verkefni sem þessi. Verkefnin eru til staðar en í öðru formi. Með árunum höfum við byggt upp öflugt starf sem byggir á sterkri liðsheild félagsmanna, aðgengi þeirra að sterkum sjóðum í veikindum, orlofsíbúðum, starfsmenntasjóðum, verðlagseftirliti, vinnustaðaeftirliti, samningagerð og almennri þjónustu s.s. fræðslu og lögfræðiþjónustu.
Kjarabótina má sækja víðar eins og dæmin sanna. Hvað það varðar er vel við hæfi að nefna aðgengi félagsmanna að sérstökum afsláttarkjörum á flugfargjöldum milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Í dag seljum við ekki tólg, við seljum flugkóða.
Ósk Helgadóttir hefur komið að því með öflugu fólki innan Framsýnar að móta félagið til framtíðar. Þá hefur henni ekki síður verið umhugað um félagsmenn sem hverfa af vinnumarkaði vegna aldurs eða örorku. Hvað það varðar, hafði hún frumkvæði að því að Framsýn héldi starfslokanámskeið síðasta vetur sem tókust afar vel og mikill sómi er af. Þá er hún um þessar mundir að skipuleggja samkomu á Húsavík vegna kvennafrídagsins 24. október sem var fyrst haldinn árið 1975 þegar um 90% kvenna á Íslandi lögðu niður störf til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags þeirra fyrir samfélagið. Sem sagt, Ósk stendur ávallt vaktina með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi hvort heldur þeir eru á vinnumarkaði eða við það að setjast í helgan steinn.
Þetta er ein af ástæðum þess að Framsýn stéttarfélag er eitt öflugasta stéttarfélag landsins, það er þegar einstaklingar eins og Ósk leggja allt sitt af mörkum til að berjast fyrir jöfnuði, félagshyggju og réttlátara þjóðfélagi í þágu allra, ekki bara fárra útvaldara.
Ósk Helgadóttir hafðu kærar þakkir fyrir framlag þitt í þágu félagsmanna Framsýnar stéttarfélags. Vonandi fá fáum við að njóta þinna krafta um ókomna tíð þeim og félaginu til heilla. Takk fyrir allt.“