Ósk Helgadóttir flutti barátturæðu dagsins

Ósk Helgadóttir varaformaður Framsýnar flutti barátturæðu dagsins á samstöðufundi kvenna sem stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum stóðu fyrir í fundarsal stéttarfélaganna á Húsavík. Hún er hér meðfylgjandi:

Verið öll hjartanlega velkomin.

Við erum hér til að hafa hátt. Við minnumst þess í dag að 24.október 1975, lögðu um 90% íslenskra kvenna niður störf þeim tilgangi að sýna fram á mikilvægi kvenna og krefjast réttinda og launa til jafns á við karla. Það voru verkakonur, verslunarkonur, húsmæður, konur úr öllum stéttum og flokkum, alls staðar af á landinu.

Við erum sömuleiðis komin hér í dag til þess að benda á þá staðreynd að 48 árum síðar, erum við enn að berjast fyrir sömu réttindum. Réttindum sem ættu að vera sjálfsögð og fest voru í lög árið 1961. Með lagasetningunni var stefnt að því að fullum launajöfnuði yrði náð árið 1967. 

„Í augsýn er nú frelsið og fyrr það mátti vera“ sungu þær og kjörorð þeirra voru mörg:  Konum leiðist þófið. Konan er að vakna. Áfram stelpur, slítum böndin.

Konurnar, sem tugþúsundum saman yfirgáfu vinnustaði sína voru ekki einungis að berjast fyrir hærri launum. Þær töluðu fyrir jafnrétti, framþróun, friði og vildu vera raunverulegir þátttakendur á öllum sviðum samfélagsins og hvöttu um leið stúlkur og konur til að standa saman og gera breytingar, ekki bara hér á landi, heldur um allan heim. Þær gerðu uppreisn og vildu breytingar á ríkjandi samfélagsgerð sem í grunninn var staðnað bændasamfélag með konuna sem þjónandi ambátt heimilisins.

Meðalatvinnutekjur íslenskra karla í dag eru um 21% hærri en kvenna og kvára og kannanir sýna að kynbundin launamunur innan fyrirtækja og stofnana er um 9%. Hversu oft fáum við ekki að heyra að þessi launamunur eigi sér eðlilegar skýringar þar sem karlar vinni alla jafna lengri vinnudag og meiri yfirvinnu. Við séum bara ekki nægilega dugleg við að bera okkur sjálf eftir launahækkunum og framgangi í starfi. Svona fullyrðingar standast ekki, því þegar talað er um kynbundin launamun er átt við þann mun sem er á launum kynjana sem ekki er hægt að útskýra með ólíkri menntun, aldri, starfsaldri, starfshlutfalli, starfsstétt, yfirvinnu eða vaktaálagi. Launamunurinn verður ekki skýrður á annan hátt en þann að kyn ráði þeim mun. Kynbundinn launamunur í íslensku samfélagi er staðreynd og alvarlegt mein í samfélaginu sem ber að uppræta þegar í stað! 

Kynbundin launamunur verður ekki til út af engu, hann á sér því miður skýringar og er ein skýrasta birtingarmynd þess að konur og kvár eru ekki metin til jafns við karla í samfélagi okkar.  Launamunur er afsprengi þess gildismats sem við höfum verið alin upp við kynslóð eftir kynslóð og beinir okkur strax í bernsku inn á ákveðnar brautir. Hann segir okkur að það sem er kvenlægt sé minna virði en það sem er karllægt, sem aftur skilar sér í því að konur og þar með hefðbundnar kvennastéttir fá lægri laun en karlar. Það gildismat er árþúsunda gamalt. Það er engin tilviljun að fólk sem starfar við ræstingar, umönnun, menntun barna og þjónustu við sjúka og aldraða skipa láglauna hópa í samfélaginu.

Frá því um miðjan sjöunda áratuginn hafa karlavígin fallið eitt af öðru. Fleiri konur sækja orðið í hefðbundin karlastörf s.s. iðngreinar, tæknigreinar og stjórnendastöður og er það vel. Þær eru hvattar til að setja markið hátt og skilja hugtökin „kvennastétt” og „karlastétt” eftir í fortíðinni þar sem þau eiga heima. 

Konur og kvár eru komnar í meirihluta þeirra sem sækja sér háskólamenntun og atvinnuþátttaka þeirra hér á landi hefur farið úr því að vera mjög lítil, upp í það að verða sú mesta innan OECD-ríkjanna, um 75% prósent árið 2021. Við getum sagt að það sé ein birtingarmynd byltingarinnar sem átt hefur sér stað á vinnumarkaði og í samfélaginu síðustu áratugi. Með framþróun og þekkingaröflun hafa störf sem konur unnu áður kauplaust, þróast yfir í háskólamenntaðar stéttir og líklega eru flestir sammála um að í dag viljum við byggja upp samfélag með góðri menntun og bestu fáanlegri þekkingu. En þrátt fyrir að atvinnuþátttaka kynjanna sé svipuð — eru það enn konur sem bera langmesta ábyrgð á heimilishaldi og umönnun og taka þar með hina svokölluðu þriðju vakt. Vissulega má greina hugafarsbreytingu hjá ungum karlmönnum í dag sem taka nú virkari þátt í heimilsstörfum en áður þekktist. Baráttan okkar er greinilega að skila árangri sem er góðs viti.

Kæru konur og kvár. Við erum hingað komin til að hafa hátt. Við erum hingað  komin til að láta vita af að við látum ekki bjóða okkur neitt minna en jafnt. Við erum hingað komin til að mótmæla launamun og kynbundnu ofbeldi. Við erum hingað  komin til að vekja sérstaka athygli á vanmetnu framlagi aðflutts verkafólks sem sem kemur að því með okkur að halda uppi velferðarsamfélaginu og tekjuöflun þjóðarbúsins. Við erum hingað komin til að benda á að konur af erlendum uppruna eru um 22% allra kvenna á íslenskum vinnumarkaði og við eigum þeim mikið að þakka. Rödd þeirra er lágstemmd í samfélaginu og staða margra innan þeirra raða viðkvæm. Við erum hingað komin til að hafa hátt og það skulum við gera, eins lengi og þurfa þykir.

Yfirskrift Kvennaverkfalls í ár: „Kallarðu þetta jafnrétti?“ vísar til þeirra skilaboða sem konur og kynsegin fólk fær gjarnan, að vegna þess hve framarlega Ísland standi í jafnréttismálum á heimsvísu, eigi þau ekki heimtingu á tafarlausum og framsæknum aðgerðum. Því miður hefur orðið dapurlegt bakslag gagnvart réttindum kynsegin og hinsegin fólks að undanförnu, ekki bara hér á landi heldur um allan heim. Þau upplifa sig óörugg í samfélaginu og finnst sem þau standi frammi fyrir takmarkaðri forgangsröðun á borði stjórnvalda. Þau þurfa að fást við gölluð kerfi sem ekki gera ráð fyrir þeim og þau gagnrýna takmarkaðrar og ómarkvissrar stefnumótun ríkisvaldsins í málefnum kynsegin einstaklinga.

Kæru konur og kvár. Við erum fjölbreytt flóra. Samstaða er okkur mikilvæg á hvaða hátt sem sem við upplifum okkur, hvað sem við störfum og eða stöndum í flokkum. Störf okkar eru ekki bara mikilvæg gangverki samfélagsins heldur nauðsynleg. Án okkar virkar það einfaldlega ekki. Við sjáum best hvaða áhrif vera okkar hér í dag hefur á samfélag okkar. Við erum ekkert vara vinnuafl. 

Samstaða okkar gegn kynjamisrétti hefur skilað okkur áleiðis til jafnréttis. Við höfum áorkað miklu sem hefur aukið lífsgæði okkar á svo mörgum sviðum. Ég nefni hér seinni tíma sigra sem þýddu stórar breytingar í jafnréttismálum hér á landi, eins og breytingar á hegningarlögum frá árinu 2018, þar sem nauðgun er skilgreind í lagalegu tilliti út frá samþykki, lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði, lög um þungunarrof frá 2019, sem þýddu aukin völd kvenna yfir eigin líkama að ótalinni #MeToo byltingunni, þar sem hrikti rækilega í stoðum þeim sem svo margir ofbeldismenn hafa treyst á – þ.e. þöggun kynferðisbrota. Sögur brotaþola opnuðu glugga sem áður voru rammlega luktir aftur með þögninni og þær vörpuðu ljósi á eðli ofbeldis, áreitni og viðvarandi mismunun. #My Too breytti, vonandi til framtíðar, vitund fólks og samfélagsgerðinni allri.

Það er óumdeilanlegt að við höfum sótt fram á mörgum sviðum, en því miður er það engin trygging fyrir jöfnum tækifærum kynja framtíðarinnar. Sagan hefur sýnt okkur að ekkert gerist án baráttu og jafnrétti skapast ekki upp úr þurru. Ekki af því okkur langar heldur af því við þorum, getum og viljum berjast fyrir því. Við skulum því ekki bíða með að breyta því sem hægt er að breyta strax og tölum því áfram fyrir jafnrétti framþróun og friði sem ekki veitir af um þessar mundir. Það er ekki bara eðlilegt og sjálfsagt, heldur líka samfélagslega og efnahagslega ábyrgt.

Deila á