Unnið að framkvæmdum á Bakka

Eftirlitsfulltrúi Framsýnar fór í heimsókn til starfsmanna LNS Saga á Bakka við Húsavík í gær en hann hefur verið tíður gestur þar undanfarið ekki síst þar sem starfsmenn LNS hafa óskað eftir nærveru hans á svæðinu enda vilji starfsmanna að vita um sín réttindi og skyldur. Fyrirtækið vinnur að því að reisa kísilmálmverksmiðju fyrir PCC. Allt var á fullu í góða veðrinu eins og meðfylgjandi myndir bera með sér.

blandad03316 019blandad03316 020blandad03316 022blandad03316 030blandad03316 023blandad03316 025blandad03316 027

Veruleg aukning í flugi til Húsavíkur – félagsmenn sparað sér um 50 milljónir

Veruleg aukning hefur orðið á flugi til Húsavíkur milli ára. Í febrúar mánuði 2015 fóru 674 farþegar um Húsavíkurflugvöll á móti 1518 farþegum í febrúar 2016. Um er að ræða aukningu upp á 125%. Flugfélagið Ernir hóf áætlunarflug til Húsavíkur 15. apríl 2012. Á árunum 2013 og 2014 fóru um 9.800 farþegar um völlinn á ársgrundvelli. Á árinu 2015 fjölgaði farþegum upp í tæplega 12.000 farþega. Í sambandi við fjölgun farþega um völlinn má geta þess að Framsýn, gerði fyrst stéttarfélaga, samning við flugfélagið um sérkjör fyrir félagsmenn. Samningur þess efnis var undirritaður 21. nóvember 2013. Frá þeim tíma hafa félagsmenn stéttarfélaganna sem aðild eiga að Skrifstofu stéttarfélaganna flogið 7.500 flugferðir sem sparað hefur þeim um 50 milljónir frá miðlungs fargjaldi um leið og sætanýting í flugvélum Ernis hefur orðið mun betri enda jafngilda 7.500 flugmiðar 395 full bókuðum flugferðum m.v. stærð flugvélanna. Í dag er flogið flesta daga, allt upp í þrjár ferðir á dag. Þá er ljóst að framkvæmdirnar á svæðinu er tengjast uppbyggingunni á Bakka auk sívaxandi ferðaþjónustu kemur til með að styrkja flugumferð um Húsavíkurflugvöll enn frekar sem er afar ánægjulegt enda mikil lífsgæði fólgin í því að hafa aðgengi að flugsamgöngum í heimahéraði. Fyrir liggur að á árinu 2016 verður slegið met í farþegafjölda um Húsavíkurflugvöll frá þeim tíma sem Flugfélagið Ernir hóf áætlunarflug til Húsavíkur.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Félagsmenn stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum hafa sparað sér um 50 milljónir á tveimur árum með sérkjörum á flugmiðum stéttarfélaganna milli Húsavíkur og Reykjavíkur með Flugfélaginu Erni. Óhætt er að segja að þetta sé kjarabót í lagi.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Íslandsmet slegið í kostnaði við útskipun á áli

Framsýn hefur samþykkt að senda frá sér svohljóðandi ályktun um kjaradeilu starfsmanna í álverinu í Straumsvík.

Ályktun
um kjaradeilu starfsmanna í álverinu í Straumsvík

Framsýn, stéttarfélag Þingeyinga lýsir yfir fullum stuðningi við starfsmenn álvers Rio Tinto Alcan í Straumsvík sem eiga í kjaradeilu við eigendur fyrirtækisins.

Framkoma forsvarsmanna fyrirtækisins í garð starfsmanna er með ólíkindum og gróf aðför að íslenskum vinnumarkaði. Fram að þessu hefur verið borin ákveðin virðing fyrir starfsemi álversins enda hefur það skilað miklum gjaldeyristekjum í þjóðarbúið. Virðingu sem stjórnendur fyrirtækisins hafa nú kastað á glæ með yfirgangi, hótunum og lítilsvirðingu í garð starfsmanna. Ekki verður séð hvernig fyrirtækið ætlar sér að endurheimta fyrri virðingu og traust í ljósi atburða síðustu daga.

Fyrir liggur að útskipunargengi það sem gengið hefur í störf hafnarverkamanna í Straumsvík að undanförnu er hæst launaðasta útskipunargengi Íslandssögunnar með sjálfan forstjóra álversins í fararbroddi.

LÍV fundar um kjara- og starfsmenntamál

Formannafundur LÍV fór fram í Reykjavík sl. föstudag 26.febr. Til fundarins mættu formenn og/eða starfsmenn stéttarfélaga alls staðar af landinu. Af hálfu Framsýnar, Deildar verslunar- og skrifstofufólks, sóttu Jóna Matthíasdóttir og Jónína Hermannsdóttir fundinn.
Selma Kristjánsdóttir hélt góða kynningu á starfsemi Starfsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks en vert er að minna á nokkrar breytingar sem hafa tekið gildi á síðustu mánuðum. Má þar m.a. nefna að nú er hægt að fá endurgreitt 75% af námskostnaði og styrkupphæð getur numið allt að 90.000 krónur á ári, að uppfylltum skilyrðum styrkveitingar. Allar upplýsingar má finna á vef sjóðsins www.starfsmennt.is

Elías G. Magnússon fór ítarlega yfir nýsamþykktan kjarasamning VR/LÍV og SA og voru góðar umræður meðal fundarmanna um breytingar sem og önnur ákvæði samningsins. Vert er að minna á breytingu varðandi laun starfsmanna undir 20 ára aldri en laun 18 og 19 ára eru 95% af byrjunarlaunum 20 ára. Breytingin felst í því að 18 og 19 ára starfsmenn fara beint á 20 ára taxta ef þeir hafa náð 6 mánuðum og 700 klst. í starfsgrein frá 16 ára aldri. Við 20 ára aldur er síðan starfsreynslan metin að nýju, til framgangs í töxtum. Laun ungmenna miðast nú við 20 ára aldur(hlutfall) í stað 18 ára aldurs áður. Útfærslur launa vegna þessa aldurs getur verið flókinn og mikilvægt að ungmenni, sem og aðrir, haldi utan um vinnutíma sína og beri saman við launaseðla. Þá er gott að minna á nýt tapp, Klukk, sem hentar vel til þess.
Við viljum einnig minna á að gera skriflega ráðningarsamninga og að starfsmannaviðtal er viðurkennt af SA sem eðlilegur hluti vinnusambands en starfsmaður á rétt á viðtali einu sinni á ári. Þar skal ræða um helstu verkefni í starfi, starfið sjálf og vinnuálag, þekkingu starfsmanns, fjölda verkefna, verkefnastjórnun og ánægju í starfi, starfsumhverfi, samskipti á vinnustað, laun, starfsþróun og önnur starfskjör.

Þingmaðurinn sem tók þátt í færslu á kvóta frá Húsavík „ábyrgðar- og dómgreindaleysi.“ Bæjarfulltrúar í Grindavík brjálaðir yfir að missa skip og kvóta á Fáskrúðsfjörð

Rétt er að taka fram að þessi fyrirsögn er ekki brandari. Samkvæmt nýlegri frétt Austurfrétta sauð upp úr á bæjarstjórnarfundi í Grindavík þegar sala á bát og kvóta úr bænum var til umræðu. Það byrjaði á harðri gagnrýni Páls Jóhanns Pálssonar, bæjarfulltrúa Framsóknarmanna og þingmanns, sem sagðist harma meðferð bæjarráðs á málinu, lýsti „vanþóknun á þeim sem ráða ferðinni“ og sakaði þá um „ábyrgðar- og dómgreindaleysi.“ Hér má lesa þessa athyglisverðu frétt sem er á austurfrett.is:

Hiti var í bæjarfulltrúum í Grindavík þegar þeir ræddu sölu á línuveiðibátnum Sandfellu SU 75 frá Stakkavík til Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði. Þeir telja bæinn hafa verið hlunnfarinn um forkaupsrétt en hyggja ekki á lögsókn. Þeir óttast að störf flytjist til Austfjarða í kjölfarið.

Loðnuvinnslan festi kaup á bátnum, sem áður hét Óli á Stað, í lok janúar og var tekið á móti honum í nýrri heimahöfn í byrjun febrúar. Honum fylgir 1200 tonna bolfiskkvóti í krókaaflamarkskerfinu sem Loðnuvinnslan gerðir andvirði 3,1 milljarðs króna fyrir. Hluti þeirra er í formi 200 tonna þorskkvóta í aflamarkskerfinu sem metinn er á 600 milljónir króna.

Kaupsamningurinn er undirritaður 26. janúar. Tilboð var gert sléttum tveimur mánuðum fyrr. Stakkavík gerði Grindavíkurbæ viðvart um fyrirhuguð viðskipti og bauð bænum forkaupsrétt samkvæmt lögum um fiskveiðistjórnun. Það er gert 1. desember og forkaupsrétturinn þar með talinn gildur til 28. sama mánaðar.

Í kjölfar bæjarráðsfundar þann 2. desember var óskað eftir að útgerðarfélög í bænum lýstu yfir áhuga sínum með skuldbindandi hætti fyrir hádegi 10. desember hvort þau hefðu áhuga á að ganga inn í kaupin. Í bréfi undirrituðu af bæjarstjóra segir að markmið Grindavíkurbæjar sé „að reyna eftir fremsta megni að tryggja að aflaheimildirnar haldist í sveitarfélaginu og að viðskiptin verði sveitarfélaginu að skaðlausu.“

18-23 störf í húfi

Í minnisblaði bæjarstjóra frá 9. desember greinir hann frá samtali sínu við forsvarsmann Stakkavíkur sem hafi lýst því að til að fyrirtækið væri jafnsett nýtti bærinn forkaupsrétt sinn yrði einnig að tryggja að fyrirtækið fengi 200 tonna kvóta en ekki eingöngu fjármuni. Væri báturinn seldur án þess að aflaheimildir kæmu á móti gætu störfum á sjó fækkað um átta og 10-15 í landi.

Bæjarstjórinn segir skipasöluna hafa krafist þess að ákvörðun yrði tekin sem fyrst og vísað til þess að í sölutilboðinu sé fyrirvari um samþykki stjórnar Loðnuvinnslunnar sem hægt sé að virkja dragist ferlið á langinn. Bæjarstjórinn skrifar að þann dag hafi hann kallað „eftir skýrum svörum frá skipasalanum um hvort stjórn Loðnuvinnslunnar hafi staðfest tilboðið.“

Vísir hf. lýsti yfir áhuga með bréfi dagsettu 10. desember en óskaði eftir tveggja vikna fresti til að útvega fjármagn. Þremur dögum fyrr hafði forsvarsmaður fyrirtækisins látið vita af áhuga þess. Bæjarráð samþykkti hins vegar á fundi sínum þann dag að nota ekki réttinn. Í því fælist of mikil áhætta fyrir bæjarfélagið auk þess sem salan hefði „ekki afgerandi áhrif á atvinnulíf og samfélag í Grindavík.“

„Engin sala sem taka þarf afstöðu til“

Á bæjarstjórnarfundi fimm dögum síðar var málinu frestað. Daginn áður höfðu forsvarsmenn Stakkavíkur sent bænum bréf um að þeir hefðu „afturkallað sölutilboð“ þar sem það hefði verið háð samþykki stjórnar Loðnuvinnslunnar en það ekki borist. Þar með „komst aldrei á skuldbindandi samningur um söluna, svo sem forsvarsmenn Grindavíkur höfðu bent á […] þá er enginn kaupsamningur til staðar og engin sala sem taka þarf afstöðu til forkaupsréttar á.“

Stjórn Loðnuvinnslunnar staðfestir heimild framkvæmdastjóra til undirskriftar tilboðs þann 16. desember. Fyrirvaranum sé þar með aflétt og beðið eftir svari bæjarstjórnar Grindavíkur sem hafi forkaupsrétt til 28. desember.

Þann 15. janúar sendir lögmaður Loðnuvinnslunnar Grindavíkurbæ bréf þar sem hann lýsir því yfir að forkaupsrétturinn sé fallinn niður og vísar meðal annars til bókunar bæjarráðs frá 10. desember.

Hvenær er forkaupsrétturinn gildur?

Bréf lögfræðingsins er tekið fyrir á bæjarstjórnarfundi 26. janúar, sama dag og endanlegur kaupsamningur er undirritaður. Í samræmi við umræður á fundinum er bréfinu svarað á þeim nótum að fyrir liggi að áhugi hafi verið innan bæjarins á að kaupa skipið.

Ekki hafi verið hægt að ætlast til þess að afstaða væri tekin til þess eftir erindi Stakkavíkur og svo virtist sem ágreiningur væri milli fyrirtækjanna um hvort kaupsamningur lægi fyrir. Bærinn líti svo á að fjögurra vikna frestur til forkaupsréttar verði ekki virkur fyrr en hann liggi fyrir.

Bæjarráð fjallar aftur um málið 2. febrúar og bókar að lagaleg óvissa sé uppi. Tveimur dögum síðar er haldin móttökuathöfn fyrir bátinn á Fáskrúðsfirði og honum gefið Sandfellsnafnið.

„Þetta fólk þegar farið að tala um að flytja úr bænum“

Síðan hefur bæjarráð Grindavíkur tvisvar fjallað um málið ásamt lögfræðingum. Á bæjarstjórnarfundi í gærkvöldi sauð svo upp úr þegar málið var tekið á dagskrá. Það byrjaði á harðri gagnrýni Páls Jóhanns Pálssonar, bæjarfulltrúa Framsóknarmanna og þingmanns, sem sagðist harma meðferð bæjarráðs á málinu, lýsti „vanþóknun á þeim sem ráða ferðinni“ og sakaði þá um „ábyrgðar- og dómgreindaleysi.“

Hann lýsti áhyggjum sínum af áhrifum viðskiptanna á Grindavík. „Trúa menn því að það tapist ekki störf þegar 1000 tonn fara út úr bænum. Þetta fólk er þegar farið að tala um að flytja úr bænum. Þegar menn eru farnir að róa annars staðar flytja menn sína fjölskyldu“

„Viljum alls ekki að kvóti renni í önnur sveitarfélög“

Guðmundur Pálsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, brást hart við orðum Páls. Hann sagði að málið væri „stórt mál fyrir Grindavík“ og bæjarfulltrúar þar vildu „alls ekki að kvóti renni þaðan frá í önnur sveitarfélög.“

Hann og fleiri fulltrúar meirihlutans, sem Sjálfstæðisflokkur myndar með Grindavíkurlistanum, sögðu að bærinn tæki mikla áhættu með dómsmáli. Það tæki langan tíma, niðurstaða þess væri óviss og ekki hefði verið komið bindandi tilboð frá Vísi sem réttlætti að taka áhættuna.

Samflokksmaður hans Hjálmar Hallgrímsson sagði „alla vilja halda kvóta, skipum og störfum í byggð.“ Málið ætti sér „hörmungarsögu“, í því hefðu verið gerð „mýmörg mistök“ og því væri „lítilmannlegt að draga einhvern til ábyrgðar.“

„Við höfum ekkert mál lengur í höndunum“

„Við hefðum öll viljað halda þessum afla í bæjarfélaginu,“ sagði Kristín María Birgisdóttir, oddviti Grindavíkurlistans. „Við erum hundfúl yfir að kaupin hafi verið dregin til baka og engin vitneskja um að þau væru komin á aftur. Við vorum sniðgengin, við vorum ekki upplýst. Báturinn er farinn og aflaheimildirnar líka. Við höfum ekkert mál lengur í höndunum.“

Hún sakaði Pál Jóhann um að vera vanhæfan í málinu en hann á 5% hlut í Vísi, sem áður rak meðal annars fiskverkun á Djúpavogi. Því hafnaði Páll Jóhann. „Ég er bara að hugsa um hag bæjarins. Er ég einn um að telja að það séu ríkir hagsmunir bæjarfélagsins að halda þessum kvóta og störfum?“

Í bókun meirihlutans frá fundinum í gær segir að ekki sé skynsamlegt að reyna að leita forkaupsréttarins ef ekkert útgerðarfyrirtæki í bænum geti gengið inn í kaupin. Því virðist þá lokið því í gær voru sléttar fjórar vikur liðnar síðan endanlegur kaupsamningur var virtust. Jafnvel þótt deilur væru um hvort forkaupsrétturinn miðaðist við sölutilboðið í lok nóvember eða endanlegan kaupsamning í lok janúar er allt svigrúm til svara bæjarins liðið og vart hróflað við Sandfelli SU 75 úr því sem komið er.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Vísismenn brjálaðir yfir því að missa kvóta úr bænum, það er Grindavík. Sömu menn hreinsuðu nánast upp kvótann á Húsavík án þess að missa bros. Miklir menn.

13 umsækjendur um starf á Skrifstofu stéttarfélaganna

Nú er lokið umsóknarfresti um starf á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík, umsóknarfresturinn rann út fyrir helgi. Alls sóttu 13 einstaklingar um starfið en töluverður hópur spurðist einnig fyrir um starfið. Á næstu dögum verða umsóknirnar skoðaðar með það að markmiði að ráða hæfasta umsækjandann.

Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar fundar

Fundur hefur verið boðaður í stjórn og trúnaðarmannaráði Framsýnar þriðjudaginn 1. mars kl. 17:00 í fundarsal stéttarfélaganna. Að venju eru mörg mál á dagskrá fundarins.
Dagskrá:
1. Fundargerð síðasta fundar
2. Inntaka nýrra félaga
3. Kjaramál
4. Fundur SGS með ungu fólki
5. Samningur við Flugfélagið Erni
6. Samskipti við verktaka á svæðinu
7. Átakið: Einn réttur – ekkert svindl
8. Kjör í stjórnir, ráð og nefndir á vegum félagsins fyrir næsta kjörtímabil
9. Aðalfundur félagsins
10. Fjárhagsáætlun Skrifstofu stéttarfélaganna
11. Merkingar á húsnæði félaganna
12. Tilboð í breytingar á húsnæði stéttarfélaganna
13. Ráðning starfsmanns í eftirlit
14. Önnur mál.
a. N1-kortið
b. Löggilding félagsliða

Átök framundan hjá sjómönnum

Innan samninganefndar Sjómannasambands Íslands liggur fyrir samþykkt að hefja undirbúning verkfallsaðgerða. Jafnframt að reyna til þrautar á næstu vikum að ná samningum við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Gangi það ekki eftir má búast við hörðum aðgerðum á næstu mánuðum. Samningar sjómanna og útgerðar hafa verið lausir frá árinu 2011 og kjaradeilan verið á borði ríkissáttasemjara frá 2012. Deilan snertir á fimmta þúsund sjómenn.

vestmann090003
Virðingarleysi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í garð sjómanna er algjört. Það er á þeirra ábyrgð komi til verkfallsátaka á næstu mánuðum.

Nútíma þrælahald á Íslandi

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur karlmaður verið í haldi lögreglu vegna gruns um mansal í Vík í Mýrdal. Fjölmennt lið lögreglumanna tók þátt í aðgerðum í Vík vegna málsins. Mansalsteymi höfuðborgarsvæðisins var fengið til aðstoðaðar og vöktu aðgerðirnar athygli á landsvísu. Lögreglumenn leituðu þolenda mansals sem þeir höfðu fengið ábendingar um að væru nýttir sem þrælar til vinnu. Tvær konur fundust og hafa stöðu þolenda mansals samkvæmt áreiðanlegum heimildum fjölmiðla sem fjallað hafa um málið.

Því miður virðist sem svona ljótum málum sé að fjölga töluvert á landinu er tengist sérstaklega þeim uppgangi sem er í þjóðfélaginu, ekki síst í byggingariðnaði og ferðaþjónustu.

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum fylgjast grand með þróun mála á félagssvæði stéttarfélaganna. Svona ljót mál hafa sem betur fer ekki komið upp. Félögin hafa þó þurft að koma að kynferðismálum og í ákveðnum tilfellum orðið að fela fólk tímabundið vegna ofsókna á vinnustöðum, það er frá yfirmönnum.

Eftirlit stéttarfélaganna hefur aðallega einkennst að því að fylgjast með aðbúnaði og launakjörum starfsmanna. Í eftirlitsferðum félaganna á vinnustaði frá sumrinu 2015 hafa komið upp rúmlega 60 mál fyrir einstaka starfsmenn er tengjast erlendum fyrirtækjum sem starfa í skjóli íslenskra fyrirtækja. Í öllum tilvikum var um að ræða að starfsmennirnir fengu ekki greitt laun eftir íslenskum lágmarkskjörum. Málin eru nú vonandi upplýst en viðkomandi fyrirtæki sem áttu í hlut og starfa í byggingar- og matvælaiðnaði báru við mistökum. Ætlunin hefði ekki verið að hlunnfara erlendu starfsmennina. Reyndar eru þetta stöðluð viðbrögð þegar stéttarfélögin gera athugasemdir við kjarasamningsbrot fyrirtækja gagnvart erlendum starfsmönnum, það er að um mistök sé um að ræða og þau verði leiðrétt.

Reyndar eru dæmi um að fyrirtæki neiti því að verða við kröfu stéttarfélaganna um að leiðrétta kjör starfsmanna og eru þá þeim málum vísað til lögfræðinga til innheimtu.

Þeir sem lesa þessa umfjöllun, taka væntanlega eftir því, að talað er um að málin séu væntanlega upplýst. Hér er átt við að oft reynist erfitt að fylgjast með því hvort erlendu fyrirtækin standi í raun við að gera upp við starfsmenn samkvæmt íslenskum kjarasamningum enn allt er gert að hálfu stéttarfélaganna til að fylgja því eftir.

Annað sem er vaxandi vandamál og reyndar mjög alvarlegt. Það er að fyrirtæki, ekki síst í landbúnaði og ferðaþjónustu hafa í auknum mæli auglýst eftir erlendum sjálfboðaliðum til starfa, það er upp á fæði og húsnæði. Þannig eru fyrirtækin að koma sér hjá því að greiða kjarasamningsbundin laun og þar með skatta og aðrar skyldur í ríkisjóð. Þessi fyrirtæki halda eftir launum starfsmanna og styrkja þannig samkeppnisstöðuna gagnvart öðrum alvöru fyrirtækjum sem fara að lögum og eru í samkeppni við fyrirtækin sem sniðganga lög og reglur. Slíkt á ekki að líðast enda grafa undirboðin undan eðlilegum rekstri fyrrirtækja.

Því miður má sjá fyrirtæki á félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum sem fara þessa leið, það er að auglýsa eftir sjálfboðaliðum til starfa. Félögin hafa þegar gert athugasemdir við vinnulag þessara aðila þar sem slíkt er ólöglegt enda um efnahagslega starfsemi að ræða. Þá eru félögin, Framsýn, Þingiðn og Verkalýðsfélag Þórshafnar aðilar að verkefni á vegum Alþýðusambands Íslands, „Einn réttur ekkert svindl“ sem ætlað er að sporna við þessari alvarlegu þróun.

Á þessum síðum má sjá fyrirtæki sem auglýsa eftir sjálfboðaliðum til starfa: www.workaway.info og www.helpx.net.

Það er alveg ljóst að gera verður skýran greinarmun á ólaunaðri vinnu í efnahagslegri starfsemi annars vegar og ólaunaðri samfélagslegri vinnu (sjálfboðavinnu) hins vegar. Ólaunuð vinna við efnahagslega starfsemi, framleiðslu og sölu á vöru eða þjónustu á markaði (í hagnaðarskyni) oft í samkeppni við fyrirtæki í sömu atvinnustarfsemi, felur í sér óásættanleg undirboð á íslenskum vinnumarkaði og stenst hvorki kjarasamninga né lög. Dæmi um efnahagslega starfsemi þar sem gjarnan finnst fólk í ólaunaðri vinnu skv. athugun ASÍ er fyrst og fremst við ýmiss konar ferðaþjónustu, nánar tiltekið vinnu á kaffi- og veitingahúsum, á gistiheimilum og hótelum, hestaleigum og við hellaskoðanir auk ýmiskonar blandaðra starfa á sveitabýlum og/eða við bændagistingu.

Rétt er að taka fram að fæði og húsnæði geta verið hluti af endurgjaldi fyrir vinnu. Í sumum kjarasamningum er tiltekið að starfsmaður skuli fá fæði og húsnæði sér að kostnaðarlausu auk kjarasamningsbundinna launa. Í öðrum samningum er heimild atvinnurekanda til að draga af kjarasamningsbundnum launum starfsmanns vegna fæðis og húsnæðis sem honum er lagt til en þó með miklum takmörkunum. Forsendan er alltaf sú að kjarasamningum sé fylgt. Það þýðir að ráðningarsamningur sé gerður, lágmarkslaun að minnsta kosti greidd og gefinn út launaseðill þar sem fram koma laun og önnur starfskjör og heimilaðir frádráttarliðir. Allt endurgjald fyrir vinnu skal síðan telja fram til skatts og skila hinu opinbera, stéttarfélögum og sjóðum því sem þeirra er. Ólaunuð vinnu við efnahagslega starfsemi þýðir að atvinnurekendur sem nota hana hagnast á kostnað samneyslunnar og skapa sér bæði ósanngjarnt og ólöglegt samkeppnisforskot á markaði. ASÍ hefur óskað eftir ákvarðandi bréfi frá RSK um þetta efni.
Ólaunuð vinna borgara frá löndum utan EES við efnahagslega starfsemi þýðir að viðkomandi fyrirtæki gerast brotleg við lög um atvinnuréttindi útlendinga og baka sér refsiábyrgð í leiðinni.

Úrræði s.s. á grundvelli laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og samninga ASÍ og SA um vinnustaðaeftirlit og útlendinga á íslenskum vinnumarkaði færa stéttarfélögum starfsmanna sem hagsmuna eiga að gæta fjölmörg úrræði til að takmarka undirboð á vinnumarkaði með ólaunaðri vinnu.

Einstaklingar sem „ráða sig“ í ólaunaða vinnu njóta ekki tryggingaverndar eins og kjarasamningar kveða á um og gagnvart sjúkra- og almannatryggingakerfinu njóta mjög takmarkaðra réttinda. Almennt má álykta að viðkomandi einstaklingar njóti mjög takmarkaðrar tryggingaverndar.

ASÍ og aðildarsamtök þess, þar á meðal stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum, munu ekki þola undirboð á vinnumarkaði og brot sem felast í ólaunaðri vinnu í efnahagslegri starfsemi. Jafnframt hefur ASÍ kallað eftir samstarfi við stjórnvöld og Samtök atvinnulífsins um að uppræta slíka brotastarfsemi.

Til að bregðast við hertu eftirliti verður ráðinn sérstakur starfsmaður í verkefnið á næstu dögum. Umsóknarfrestur um starfið rennur út í dag. Undirboð og þar með kjarasamningsbrot verða ekki liðin á félagssvæði stéttarfélaganna.

Kjarasamningur samþykktur – skelfileg þátttaka í atkvæðagreiðslu

Sameiginlegri allsherjaratkvæðagreiðslu félagsmanna aðildarsamtaka ASÍ um kjarasamning milli aðildarsamtaka ASÍ og SA frá 21. janúar 2016 lauk kl. 12 á hádegi í dag.

Já sögðu 9.274 eða 91,28%. Nei sögðu 832 eða 7,81%. Auðu skiluðu 97 eða 0,91%. Kjarasamningurinn var því samþykktur.

Á kjörskrá voru 75.635. atkvæði greiddu 10.653 eða 14,08%.

Framsýn, Þingiðn og Verkalýðsfélag Þórshafnar áttu aðild að þessari atkvæðagreiðslu um kjarasamninginn enda innan Alþýðusambands Íslands.

Loksins boðað skref til að sporna við kennitöluflakki – viðbrögð ráðherra vekja furðu

Í gær var lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög (kennitöluflakk). Flutningsmenn eru fulltrúar allra flokka sem sitja á Alþingi annarra en Sjálfstæðisflokksins. Meginefni frumvarpsins er að lagt til að stofnendur, stjórnarmenn og framkvæmdastjórar hlutafélaga megi ekki á næstliðnum þremur árum hafa verið í forsvari fyrir tvö eða fleiri félög sem orðið hafa gjaldþrota. Hér undir fellur einnig það þegar stofnendur, stjórnarmenn eða framkvæmdastjórar hafa hætt störfum áður en félag verður gjaldþrota og það fært undir stjórn svokallaðra útfararstjóra sem ganga með fyrirtækið í gjaldþrot. Um hæfisskilyrði er að ræða sem einstaklingar, sem ætla að stofna fyrirtæki, gerast stjórnarmenn eða eru ráðnir sem framkvæmdastjórar, þurfa að uppfylla.

Þetta eru fyrstu tilburðir á Alþingi um árabil til að stemma stigu við kennitöluflakki, þrátt fyrir að sá mikil samfélagslegi skaði sem kennitöluflakkið veldur sé löngu þekktur. En kennitöluflakkið þýðir milljarða tap fyrir sameiginlega sjóði landsmanna, auk þess skaða sem það veldur einstaklingum og atvinnulífinu öllu. Að vísu má gagnrýna að ekki sé gengið lengra og lagðar til frekari aðgerðir í baráttunni gegn kennitöluflakkinu. Það ber þó að fagna þessu frumkvæði um leið og vænta má þess að því verði fylgt frekar eftir. Í því sambandi er rétt að minn á tillögur sem Alþýðusambandið hefur sett fram til að sporna gegn kennitöluflakkinu ásamt greinargerð um það efni.

Um leið vekur framtak flutningsmannanna athygli á þeirri staðreynd að iðnaðar- og viðskiparáðherra sem fer með málaflokkinn hefur þrátt fyrir stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar ekki aðeins látið hjá líða að gera nokkuð til að sporna við þeirri samfélagslegu meinsemd sem kennitöluflakkið er heldur hreinlega lagst gegn öllum hugmyndum í þeim efnum. Þannig er haft eftir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í frétt á RÚV að hún „efist hins vegar um að frumvarp Karls virki eins og best verði á kosið. Það sé til að mynda of íþyngjandi fyrir nýsköpunarfyrirtæki þar sem menn þurfa oft á tíðum að gera margar tilraunir með rekstur.“ Gera verður kröfu til þess að ráðherrann skýri hvað hún á við, en í greinargerð ASÍ kemur m.a. fram að allmargir einstaklingar hafi á fáum árum sett 10 fyrirtæki eða fleiri í þrot með stórkostlegum skaða fyrir samfélagið. Þar af setti sami einstaklingur 29 fyrirtæki í þrot og fékk að halda áfram óáreittur. Er það nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi að skapi ráðherrans?

Atkvæðagreiðslu að ljúka- þeir lægst launuðu fá brauðmolana að venju

Atkvæðagreiðslu meðal launþega á almenna vinnumarkaðinum um nýja kjarasamninginn milli aðildarfélaga ASÍ og SA líkur í dag kl. 12:00. Um er að ræða sameiginlega atkvæðagreiðslu meðal þessara félaga innan Alþýðusambandsins.

Samningurinn tekur til þeirra almennu kjarasamninga sem aðildarfélög ASÍ gerðu frá maí til september 2015. Um 76 þúsund félagsmenn eru á kjörskrá. Í fyrradag voru rúmlega 10 þúsund félagsmenn stéttarfélaganna búnir að kjósa sem hlýtur að teljast mjög lélegt. Ekki er ólíklegt að um 20% félagsmanna kjósi í heildina en það mun skýrast síðar í dag.

Verði samningurinn samþykktur í yfirstandandi atkvæðagreiðslu gildir hann frá 1. janúar 2016 til 31. desember 2018. Samningurinn byggir á rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins frá 27. október 2015 og bókun um jöfnun lífeyrisréttinda frá 5. maí 2011. Þá er skelfilegt til þess að vita að unnið er hörðum höndum að því að innleiða svokallað Salek samkomulag sem veit ekki á gott fyrir tekjulægsta fólkið eins og þessi kjarasamningur ber með sér.

Það jákvæða við kjarasamninginn er að framlög atvinnurekenda í lífeyrissjóði starfsmanna aukast á samningstímanum úr 8% í 11,5%, það er í áföngum:

1. júlí 2016 um 0,5% og verður 8,5%
1. júlí 2017 um 1,5% og verður 10,0%
1. júlí 2018 um 1,5% og verður 11,5%

Í boði verður að skipta auka framlaginu milli séreignar og sameignar sjóðfélaga. Því miður var ekki gengið frá skiptingunni í kjarasamningnum milli þessara tveggja kerfa sem er ámælisvert. Eðlilegra hefði verið að félagsmenn vissu um fyrirkomulagið áður en þeir greiddu atkvæði um samninginn þar sem mjög skiptar skoðanir eru innan verkalýðshreyfingarinnar um hvernig ráðstafa eigi viðbótarframlaginu í lífeyrissjóði. Það mun hins vegar skýrast á næstu mánuðum, það er eftir afgreiðslu samningsins.
Þessar breytingar á framlögum í lífeyrissjóði starfsmanna eru í áttina en því miður næst ekki fullur jöfnuður á við opinbera starfsmenn þar sem lífeyrissjóður þeirra er ríkistryggður og verður því áfram mun betri. Vissulega er þetta skref í áttina en ekki fullnægjandi því miður.

Það neikvæða við samninginn er að þeir lægst launuðu eru skyldir eftir hvað varðar launaleiðréttingar. Þannig hækka þeir félagsmenn stéttarfélaganna innan Starfsgreinasambands Íslands sem eru í lægstu launaflokkunum s.s. fólk í ferðaþjónustu ekki við þennan samning umfram áður samþykktar hækkanir. Vissulega kemur öllum til góða að launahækkanir sem koma áttu til framkvæmda 1. maí 2016 verður flýtt til 1. janúar 2016.

Millitekjufólk og starfsfólk með hærri tekjur fær hins vegar viðbótarhækkanir umfram áður umsamdar hækkanir. Í stað þess að fá 5,5% hækkun 1. maí 2016 kemur til 6,2% hækkun frá 1. janúar 2016. Þá kemur til 4,5% hækkun 1. maí 2017 í stað 3% hækkunar frá sama tíma. Að lokum kemur 3% hækkun til 1. maí 2018 í stað 2% frá sama tíma. Þessir hópar fá því í heildina um 3,2% í hækkun umfram áður umsamdar launahækkanir + breytingar á framlögum atvinnurekenda í lífeyrissjóði. Af hverju ekki var talin ástæða til að leiðrétta kjör þeirra lægst launuðu til samræmis við aðra hópa er óskiljanlegt með öllu.

Í dag mun svo skýrast hvort kjarasamningurinn verður samþykktur eða ekki. Því miður hefur verið lítil umræða um samninginn og mæting á kynningarfundi hjá aðildarfélögum Alþýðusambandsins hefur á flestum stöðum verið mjög léleg. Full ástæða er til að hafa áhyggjur af þessu áhugaleysi ekki síst þar sem lífsafkoma fólks byggir á framfærslu fólks í gegnum launaumslagið.

Einn verktaki skilaði inn tilboði

Í gær voru opnuð tilboð í breytingar á húsnæði stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26. Stéttarfélögin eignuðust fyrir nokkrum árum efri hæðina í húsinu, Árgötu megin. Samkvæmt útboðinu er reiknað með átta skrifstofum, kaffistofu og eldhúsi og á verkinu að vera lokið í byrjun sumars. Þrír verktakar náðu í útboðsgögn og einn skilaði inn tilboði, trésmíðafyrirtækið H-3 ehf. á Húsavík sem er nokkuð hærra en kostnaðaráætlunin gerir ráð fyrir. Tilboðið verður skoðað á næstu dögum. Í framhaldi af því verður tekin ákvörðun um næstu skref í málinu.g260216 005

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Eitt tilboð barst í breytingar á húsnæði stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 á Húsavík.

N1 kortið í boði

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum hafa endursamið við N1 um afsláttarkjör fyrir félagsmenn. Í boði er afsláttur á bensíni, bílaþjónustu, bílatengdum rekstrarvörum og veitingum. Félagsmenn geta nálgast kortin á Skrifstofu stéttarfélaganna. Helstu afslættir eru; 10% af veitingum og sælgæti, 12% af bílatengdum vörum og ýmsum rekstrarvörum og 12% af bílaþjónustu. Þá er 7 króna afsláttur af dæluverði á hvern lítra.

Merkingum komið fyrir á Skrifstofu stéttarfélaganna

Um þessar mundir eru iðnaðarmenn að setja upp merkingar á Skrifstofu stéttarfélaganna en húsnæði stéttarfélaganna var tekið í gegn í sumar að utanverðu og því þótti við hæfi að endurnýja upplýsingar um félögin sem verið hafa á utan á húsinu. Reiknað er með að uppsetningu á nýjum merkingum á Skrifstofu stéttarfélaganna ljúki í dag.g260216 006g260216 005g260216 008

Fundað um frekara samstarf

Fulltrúar frá Framsýn og Verkalýðsfélagi Þórshafnar komu saman á Þórshöfn í gær til að fara yfir samstarf félaganna sem hefur verið farsælt í gegnum tíðina. Hugmyndir eru uppi um breytingar á samstarfinu sem verða til umræðu innan félaganna á næstu vikum.

Eftirlitsferð í göngin

Formaður Framsýnar tók þátt í fundi um öryggismál í Vaðlaheiðargöngum fyrir helgina en hann situr í sérstökum starfshóp fyrir þau stéttarfélög sem aðkomu eiga að göngunum í gegnum félagsmenn sem þar starfa. Almennt eru öryggismálin í lagi og sem betur fer hefur verið mjög lítið um óhöpp og slys. Vaðlaheiðargöng eru veggöng sem verið er að gera undir Vaðlaheiði við Eyjafjörð. Göngin eru um 7,2 km í bergi milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals og heildarlengd vegskála er 280m, samtals 7,5 km. Með göngunum styttist vegalengd milli Akureyrar og Húsavíkur um 16 km og ekki þarf lengur að fara um Víkurskarð sem er fjallvegur þar sem færð spillist gjarnan að vetrum. Um þessar mundir er lokið við að grafa um 4.779 metra eða um 66% af göngunum.

trunnamskeid0216 007
Sjá mátti félagsmenn Framsýnar við störf við göngin fyrir helgina.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Staðan tekin með Landsneti

Fulltrúar frá Landsneti voru á Húsavík á dögunum og funduðu meðal annars með fulltrúum Framsýnar en framundan eru stórframkvæmdir á vegum Landsnets á svæðinu. Þess má geta að tilboð í undirbúningsvinnu vegna byggingar tveggja 220 kílóvolta (kV) háspennulína á Norðausturlandi, Þeistareykjaínu 1 og Kröflulínu 4, voru opnuð hjá Landsneti fyrir helgina. Á heimasíðu Landsnets kemur fram að tveir verktakar hafi boðið í báða verkhlutana og verkið í heild en tveir buðu bara í undirbúning Kröflulínu 4.
Verkið felur í sér gerð vegslóðar með línunum tveim sem lagðar verða milli Kröflustöðvar, Þeistareykja og Bakka við Húsavík, ásamt gerð hliðarslóða og vinnuplana við möstur, efnisútvegun og framleiðslu undirstaða, stagfesta og stálhluta og jarðvinnu við niðurlögn undirstaða og stagfesta. Línuleiðin er rúmur 61 km og möstrin 193 talsins og skal undirbúningsvinnu við Kröflulínu 4 lokið 1. ágúst 2016 en allri undirbúningsvinnu vegna beggja línanna skal lokið að fullu 1. október 2016.

Tilboð yfir kostnaðaráætlun
Kostnaðaráætlun fyrir undirbúningsvinnu línanna tveggja hljóðar upp á rúmlega 810 milljónir króna og var útboðið þrískipt. Hægt var að bjóða sérstaklega í undirbúning hvorrar línu fyrir sig en einnig verkið allt – en þó því aðeins að viðkomandi hefði þá líka skilað inn tilboðum í undirbúning hvorrar línu fyrir sig.

Alls bárust tilboð frá fjórum aðilum, þar af frá tveimur í undirbúning beggja línanna sem og verkið í heild en tveir aðilar buðu bara í undirbúningsvinnu vegna Þeistareykjalínu 1. Árni Helgason átti lægra tilboðið í undirbúning hennar, um 469,5 milljónir króna (kostnaðaráætlun 386,4 milljónir) en G. Hjálmarsson átti lægsta tilboðið í undirbúning Kröflulínu 4, um 448,5 milljónir króna (kostnaðaráætlun 430 milljónir).

Landsnet mun nú fara yfir tilboðin og bera þau saman. Á grundvelli þeirrar niðurstöðu verður síðan gengið til samninga við þann eða þá aðila sem eiga hagstæðasta tilboð, að því gefnu að hann eða þeir uppfylli kröfur um hæfi.

Aukið orkuöryggi á Norðausturlandi
Tenging Þeistareykjavirkjunar við iðnaðarsvæðið á Bakka og tenging við meginflutningskerfið er umtalsverður þáttur í þeirri iðnaðaruppbyggingu sem hafin er á Norðausturlandi. Öflug tenging við meginflutningskerfið tryggir jafnframt enn betur orkuöryggi íbúa og fyrirtækja á svæðinu. Verklok við byggingu línanna eru áætluð haustið 2017. Unnið verður við slóðagerð og undirstöður í sumar en vinna við yfirbyggingu og strengingu leiðara fer að mestu fram sumarið 2017. (landsnet.is)

trunnamskeid0216 019
Formaður Framsýnar er hér ásamt fulltrúum Landsnets. Þeir eru Þórarinn Bjarnason og Árni Sæmundsson.

Atkvæðagreiðsla í gangi

Félagsmenn Framsýnar og Verkalýðsfélags Þórshafnar eiga að hafa fengið kjörgögn í hendur til að greiða atkvæði um nýgerðan kjarasamning Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands. Um er að ræða félagsmenn þessara félaga sem starfa eftir kjarasamningum Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Starfsgreinasambands Íslands og Landssambands ísl. verslunarmanna hins vegar. Félagsmenn sem fá ekki kjörgögn í hendur, en telja sig hafa kjörgengi, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við skrifstofur félaganna. Atkvæðagreiðsla hefst kl. 08:00 þann 16. febrúar og stendur til hádegis þann 24. febrúar.

Framsýn
Verkalýðsfélag Þórshafnar

Velheppnað trúnaðarmannanámskeið

Framsýn, stéttarfélag stóð fyrir trúnaðarmannanámskeiði fyrir helgina. Mætting á námskeiðið var verulega góð en um 25 trúnaðarmenn tóku þátt í námskeiðinu. Auk þess að sitja á námskeiði áttu trúnaðarmennirnir saman góða kvöldstund þar sem farið var í golf auk þess sem menn borðuðu saman góðan kvöldverð á veitingastaðnum Sölku. Ungir trúnaðarmenn voru áberandi á námskeiðinu enda greinilega verulegur áhugi meðal ungs fólks að taka þátt í starfi Framsýnar. Sjá myndir:trunnamskeid0216 112trunnamskeid0216 006trunnamskeid0216 008trunnamskeid0216 026trunnamskeid0216 032trunnamskeid0216 047trunnamskeid0216 131trunnamskeid0216 138trunnamskeid0216 152trunnamskeid0216 050trunnamskeid0216 067trunnamskeid0216 062trunnamskeid0216 096trunnamskeid0216 111