Í gegnum tíðna hafa aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna átt mjög gott samstarf um orlofsmál. Í því sambandi eru þau með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið.
Framsýn- stéttarfélag á tvö orlofshús, á Illugastöðum og í Dranghólaskógi og þrjár íbúðir í Kópavogi og eina í Reykjavík. Gerðar hafa verið nokkrar viðhalds breytingar á orlofshúsi félagsins í Dranghólaskógi. Komin er ný eldhúsinnrétting og nýtt hjónarúm.
Á síðasta ári dvaldi fjöldi félagsmanna ásamt fjölskyldum sínum í orlofshúsum, orlofsíbúðum, á tjaldsvæðum og hótelum á vegum félagsins. Veruleg ásókn er í orlofshúsin en félagið niðurgreiðir orlofsdvöl félagsmanna í orlofsíbúðum/húsum sem auðveldar fólki að njóta orlofsdvalar með fjölskyldum sínum á Íslandi. Ekki er óalgengt að niðurgreiðslurnar séu um kr. 50.000 fyrir viku dvöl.
Þá fengu 59 félagsmenn endurgreiðslur vegna dvalar á tjaldsvæðum eða alls kr. 852.334,-.
Félagið stóð fyrir sumarferð að Holuhrauni sumarið 2015 sem tókst í alla staði mjög vel.
Til skoðunar er að taka á leigu orlofshús á Spáni síðar í sumar fyrir félagsmenn. Samningaviðræður standa yfir við eigendur orlofsíbúðarinnar. Takist samningar verður íbúðin auglýst á heimasíðu stéttarfélaganna.
Félagsmönnum stendur til boða að kaupa miða í hvalfjarðargöngin, gistimiða og ódýr flugfargjöld sem skiptast þannig fyrir árið 2015:
Seldir flugmiðar 3.420 Sparnaður fyrir félagsmenn kr. 33.858.000,-
Seldir miðar í göng 2.582 Sparnaður fyrir félagsmenn kr. 903.700,-
Seldir gistimiðar 701 Sparnaður fyrir félagsmenn kr. 1.542.200,-
Samtals sparnaður fyrir félagsmenn kr. 36.303.900,-