Þingiðn: Góð staða félagsins og ályktað um Verkmenntaskólann

Ár 2016, þriðjudaginn 31. maí var aðalfundur Þingiðnar haldinn í fundarsal stéttarfélaganna. Fundurinn hófst kl. 20:00. Mættir voru 12 félagar auk þriggja starfsmanna félagsins.

Dagskrá:

1. Venjuleg aðalfundarstörf
Skýrsla stjórnar
Ársreikningar
Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
Lýst kjöri í trúnaðarstöður í félaginu
Lagabreytingar
Ákvörðun árgjalda
Laun stjórnar
Kosning löggilts endurskoðanda

2. Atvinnumál
Frummælandi: Aðalsteinn Árni Baldursson

3. Önnur mál
Hækkun á starfsmennastyrkjum til félagsmanna

Niðurstöður fundarins:
Formaður bauð fundarmenn velkomna, hann gerði tillögu um Aðalstein Árna sem fundarstjóra og Aðalstein J. sem fundarritara. Hann gat þess einnig að á borðum fundarmanna væri gjöf frá félaginu, um væri að ræða kjötvörur frá Viðbót á Húsavík. Því næst gaf hann boltann yfir á fundarstjórann. Aðalsteinn Árni þakkaði traustið og spurði fundarmenn hvort þeir gerðu athugasemdir við boðun fundarins, svo reyndist ekki vera og var því fundurinn úrskurðaður löglegur.

1. Venjuleg aðalfundarstörf
a) Skýrsla stjórnar
Jónas Kristjánsson gerði grein fyrir skýrslu stjórnar:

Fundir Fundir í stjórnum og nefndum sem fulltrúar Þingiðnar hafa setið frá síðasta aðalfundi sem haldinn var 27. maí 2015 eru eftirfarandi:

Stjórnarfundir 5
Fundir í sameiginlegri Orlofsnefnd stéttarfélaganna 1
Sameiginlegir fundir með Framsýn 2
Fundir í fulltrúaráði stéttarfélaganna 5
Fundir í 1. maí nefnd 1
Fundir skoðunarmanna reikninga 1
Fundir í stjórn sjúkrasjóðs 12
Félagsfundir 1
Samtals fundir 28

Formaður félagsins hefur verið virkur í starfi og sótt fundi á vegum félagsins s.s á vegum Lsj. Stapa, Alþýðusambands Íslands, Alþýðusambands Norðurlands og Samiðnar. Þá er samkomulag um að starfsmenn félagsins sjái um úthlutanir úr sjúkrasjóði í umboði stjórnar Þingiðnar. Góð tenging er milli formanns félagsins og forstöðumanns Skrifstofu stéttarfélaganna sem funda reglulega um starfsemina og rekstur félagsins. Eftirtaldir hafa setið í stjórn félagsins: Jónas Kristjánsson, Vigfús Þór Leifsson, Hólmgeir Rúnar Hreinsson, Þórður Aðalsteinsson og Kristinn Gunnlaugsson.

Félagatal Fullgildir félagsmenn í Þingiðn 31. desember 2015 voru 88 talsins. Greiðandi einstaklingar voru 88 á árinu samkvæmt ársreikningum félagsins. Karlar voru 86 og konur 2. Greiðandi félagsmönnum hefur fjölgað verulega undanfarna mánuði þrátt fyrir að þeir hafi ekki skráð sig í félagið. Um er að ræða erlenda starfsmenn sem illa gengur að fá sín iðnréttindi metin á Íslandi. Vonandi fjölgar þeim sem greiða til félagsins á árinu 2016 vegna mikilla framkvæmda á „Stór Húsavíkursvæðinu.“

Fjármál
Félagsgjöld og iðgjöld ársins námu kr. 7.536.463 sem er 17,4% lækkun frá fyrra ári. Bætur og styrkir úr sjúkrasjóði árið 2015 námu kr. 2.645.412, þar af úr sjúkrasjóði kr. 1.892.101. Um er að ræða hækkun milli ára. Á árinu 2015 fengu samtals 48 félagsmenn greidda sjúkradagpeninga eða aðra styrki úr sjúkrasjóði. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 5.664.683 og eigið fé í árslok 2015 nam kr. 217.049.515 og hefur það aukist um 2,68% frá fyrra ári. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Þingiðnar í rekstrarkostnaði nam kr. 2.331.535. Innheimta félagsgjalda var með svipuðu sniði og árið á undan. Almennt eru launagreiðendur samviskusamir að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma. Þó ber að geta þess að ekkert náðist úr þrottabúi Norðurvíkur ehf. upp í skuld fyrirtækisins við félagið og skoðast krafan því töpuð.

Orlofsmál
Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna hafa átt mjög gott samstarf um orlofsmál. Í því sambandi eru þau með sameiginlega orlofsnefnd sem vinnur að því að bjóða félagsmönnum upp á marga góða kosti varðandi orlofsdvöl og sífellt er unnið að því að auka framboðið. Framboðið sumarið 2016 verður með svipuðu sniði og undanfarin ár. Á síðasta ári dvaldi fjöldi félagsmanna stéttarfélaganna ásamt fjölskyldum í orlofshúsum, orlofsíbúðum, á tjaldsvæðum og hótelum á vegum félaganna sem er aukning milli ára. Veruleg ásókn er í orlofshús á vegum félaganna en þess ber að geta að þau niðurgreiða verulega orlofsdvöl félagsmanna í orlofsíbúðum/húsum sem auðveldar fólki að njóta orlofsdvalar með fjölskyldum sínum á Íslandi. Þá fengu 12 félagsmenn tjaldsvæðisstyrki samtals að fjárhæð kr. 152.413. Stéttarfélögin stóðu fyrir tveggja daga ferð í Holuhraun síðastliðið haust. Ferðin gekk vel. Samningur stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum við Flugfélagið Erni er reglulega endurnýjaður enda afar mikilvægt að viðhalda þeim samningi, félagsmönnum til hagsbóta.

Þorrasalir 1-3
Útleiga á íbúð félagsins í Kópavogi hefur gengið vel og hefur nýtingin verið mjög góð. Það sama á við um þau orlofshús sem félagið hefur haft á leigu í samstarfi með öðrum aðildarfélögum Skrifstofu stéttarfélaganna.

Fræðslumál
Ekki voru haldinn námskeið á vegum félagsins á síðasta starfsári. Hafi félagsmenn óskir um námskeið eru þeir vinsamlegast beðnir um að koma þeim til stjórnar eða starfsmanna félagsins. Þá eru dæmi um að félagsmenn fari á eigin vegum á námskeið. Í þeim tilfellum hefur Þingiðn komið að því að niðurgreiða námskeiðin fyrir félagsmenn. Á síðasta ári fengu 5 félagsmenn styrki til náms/námskeiða samtals kr. 206.450. Félagsmenn Þingiðnar hafa ekki aðgengi að fræðslusjóðum eins og þekkt er hjá almennum stéttarfélögum eins og Framsýn, þess í stað þarf félagið að greiða fræðslustyrki úr félagssjóði félagsins. Fyrir þessum fundi liggur fyrir tillaga um að jafna að fullu réttindi félagsmanna til starfsmenntastyrkja á við félagsmenn Framsýnar sem hafa aðgengi að fræðslusjóðnum Landsmennt. Þingiðn hefur ekki sambærilegan aðgang að fræðslusjóði eins og fram hefur komið. Stjórn Þingiðnar telur að félagið eigi að skoða stofnun á starfsmennasjóði innan félagsins sem væri fjármagnaður með sérstöku framlagi frá félagsmönnum í gegnum félagsgjaldið. Sjóðnum væri ætlað að styrkja félagsmenn vegna náms eða námskeiða sem þeir sækja auk þess styðja félagsmenn til náms- og kynnisferða. Málið verður skoðað milli aðalfunda.

Málefni sjúkrasjóðs
Eins og fram kemur í ársreikningum félagins voru greiðslur til félagsmanna úr sjúkrasjóði félagsins samtals kr. 1.892.101 sem skiptast þannig:

Almennir sjúkrastyrkir kr. 681.819
Sjúkradagpeningar kr. 1.210.282 (þar af kr. 600.00 í fæðingarstyrki)

Vegna góðrar stöðu sjóðsins er vilji til þess innan stjórnar að hækka ákveðnar greiðslur úr sjóðnum til félagsmanna. Tillagan gengur út á að gera það í samráði við stjórn Framsýnar þannig að reglurnar verði sambærilegar eins og þær eru nú þegar. Geri aðalfundurinn ekki athugasemdir við það er mikilvægt að aðalfundurinn heimili stjórn félagsins að klára málið gagnvart félagsmönnum.

Kjaramál
Skrifað var undir nýjan kjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og Samiðnar 29. maí 2015 með gildistíma til 31. desember 2018. Félagið stóð fyrir kynningarfundi um samninginn 8. júlí 2015 og var gestur fundarins Þorbjörn Guðmundsson starfsmaður Samiðnar. Kjarasamningurinn var samþykktur í sameiginlegri atkvæðagreiðslu innan aðildarfélaga Samiðnar. Ákveðið var að taka kjarasamninginn til endurskoðunar í janúar 2016 þar sem forsendur hans voru brostnar. Í kjölfarið var gengið frá nýjum kjarasamningi milli aðildarfélaga ASÍ og SA sem tók gildi 1. janúar 2016 í stað 1. maí 2016. Hækkun sem koma átti til 1. maí upp á 5,5% var hækkuð upp í 6,2% og flýtt til 1. janúar 2016.

Atvinnumál og vinnustaðaeftirlit
Atvinnuástandið hjá iðnaðarmönnum er almennt mjög gott um þessar mundir og mikið að gera hjá flestum iðnaðarmönnum enda miklar framkvæmdir í gangi á svæðinu. Vissulega fylgja ógnanir slíkum framkvæmdum varðandi undirboð sérstaklega er varðar laun og starfsréttindi. Vegna þessa samþykktu stéttarfélögin sem aðild eiga að Skrifstofu stéttarfélaganna að ráða sérstakan starfsmann í verkefnið, það er í vinnustaðaeftirlit. Ráðin var Aðalsteinn J. Halldórsson og hefur hann þegar hafið störf. Samiðn, Rafiðnarsambandið og VM hafa samþykkt að koma að ráðningunni í 18 mánuði. Landssamböndin greiða hvert um sig kr. 15.000 á mánuði. Þá hafa Landsvirkjun og Landsnet samþykkt að vera einnig með í ráðningunni með framlagi, sömuleiðis í 18 mánuði. Landsvirkjun mun greiða mánaðarlega kr. 75.000. Landsnet hefur hins vegar ekki gefið endanlega upp hvað þeir ætla að greiða. Ekki er ólíklegt að framlög þessara aðila tekki um 50% af kostnaðinum við starfsmanninn. Stéttarfélögin hafa fengið mikið lof fyrir framgöngu sína í vinnustaðaeftirlitinu svo vitnað sé í nýlega Fréttamola ASÍ. Þar kemur fram:

„Þá má margt læra af framgöngu stéttarfélaganna á svæðinu sem hafa sýnt mikið frumkvæði og fylgt fast eftir að kjarasamningar og réttindi þeirra sem vinna við framkvæmdirnar, ekki síst útlendinganna, séu virt og náð árangri sem er öðrum til eftirbreytni.“

Til viðbótar má geta þess að fulltrúar stéttarfélaganna hafa verið beðnir um að fara með lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og hér Norðanlands í vinnustaðaeftirlit í Þingeyjarsýslum. Lögreglan var hér á ferðinni á dögunum. Farið var í vinnustaðaeftirlit á framkvæmdasvæðið á Bakka. Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna ætla sér að halda uppi öflugu vinnustaðaeftirliti og munu í sumar veita eftirlitinu forystu með lögreglunni, Vinnueftirlitinu og Vinnumálastofnun. Þá mun Ríkisskattstjóri senda fulltrúa í eftirlitsferðirnar komi þeir því við vegna starfsmanna skorts.

Hátíðarhöldin 1. maí
Stéttarfélögin stóðu fyrir hátíðarhöldum í Íþróttahöllinni á Húsavík 1. maí 2016. Hátíðarhöldin tókust að venju frábærlega en um 700 gestir lögðu leið sína í höllina. Um er að ræða fjölmennustu samkomu sem haldin er í Þingeyjarsýslum á hverju ári sem er áhugavert og mikil viðurkenning á starfsemi stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum sem leggja mikið upp úr þessum degi.
Starfsemi félagsins
Þingiðn hefur komið að mörgum málum frá síðasta aðalfundi. Ástæða er til að gera aðeins grein fyrir nokkrum þeirra. Félagið kom að því ásamt öðrum aðildarfélögum Skrifstofu stéttarfélaganna og útibúi Íslandsbanka á Húsavík að færa Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík hátíðar matarstell að gjöf fyrir jólahátíðina 2015. Félagið kom að því að styrkja kaup Félags eldri borgara á félagsaðstöðu á Húsavík. Hlutur félagsins var kr. 200.000,-. Félagið niðurgreiddi í vetur leikhúsmiða fyrir félagsmenn á leikritið Dýrin í Hálsaskógi í leikgerð Leikfélags Húsavíkur. Aðildarfélög Skrifstofu stéttarfélaganna sömdu við N1 um afsláttarkjör fyrir félagsmenn.

Starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs
Virk – starfsendurhæfingarsjóður var stofnaður árið 2008 af aðilum vinnumarkaðarins. Í júní 2012 voru sett lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, lög nr. 60/2012, sem sjóðurinn starfar eftir. Í samvinnu Virk og Framsýnar, Þingiðnar, Starfsmannafélags Húsavíkur og Verkalýðsfélags Þórshafnar hefur verið rekin skrifstofa Virk í Þingeyjarsýslum frá árinu 2009.
Ferli starfsendurhæfingar hjá Virk – starfsendurhæfingarsjóði.
Markmið Virk – starfsendurhæfingarsjóðs er að draga úr líkum á því að einstaklingar hverfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests. Þjónusta við einstaklinga felst í persónulegri ráðgjöf og hvatningu, samvinnu um áætlun um eflingu starfsgetu og endurkomu á vinnumarkað, vali á endurhæfingarúrræðum í samvinnu við einstakling og fagfólk og leiðbeiningum um réttindi, framfærslu og þjónustu á svæðinu.

Góð reynsla er af starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs á svæðinu s.l. ár. Stöðugleiki er í starfseminni og góð samvinna er við heilbrigðis- og félagsþjónustu, úrræðaaðila s.s. Sjúkraþjálfun Húsavíkur og fyrirtæki og stofnanir eru virk í samvinnu um málefni starfsmanna sinna sem glíma við heilsubrest. Mikið er lagt upp úr að þjónustan sé sýnileg og aðgengileg, hvort heldur til almennrar ráðgjafar fyrir félagsmenn, formlegrar samvinnu við einstaklinga í starfsendurhæfingu eða samstarf við úrræðaaðila og launagreiðendur.

Framfærslustaða einstaklinga við lok þjónustu hjá Virk – allt landið.

Flest fyrirtæki og stofnanir hafa verið í jákvæðum samskiptum við Virk um málefni starfsmanna sinna sem eru í samvinnu við Virk. Afar gleðilegt er að nokkur hafa átt frumkvæði að því að bjóða störf og samvinnu um ný tækifæri á vinnumarkaði. Allar nánari upplýsingar um starfsemi Virk – starfsendurhæfingarsjóðs er hægt að nálgast á heimasíðu sjóðsins www.virk.is og hjá ráðgjafa Virk í Þingeyjarsýslum, Ágústi Sigurð Óskarssyni í síma 464-6608 og netfangi virk@framsyn.is.

Málefni skrifstofunnar Rekstur skrifstofu stéttarfélaganna gekk að venju vel á síðasta starfsári. Í dag starfa 6 starfsmenn á skrifstofunni í fullu starfi og einn starfsmaður er í hlutastarfi við ræstingar og þrif. Til viðbótar eru fjórir starfsmenn í 0,4% stöðugildum við umsjón á orlofsíbúðum/húsum sem eru í eigu stéttarfélaganna. Stéttarfélögin halda úti öflugri heimasíðu og Fréttabréfi sem tengir hinn almenna félagsmann við stjórn félagsins, starfsmenn og félagið í heild sinni. Full ástæða er til að hvetja félagsmenn til að fylgjast með starfi félagsins inn á heimasíðu stéttarfélaganna sem reglulega er uppfærð með fréttum og tilkynningum til félagsmanna auk þess sem hægt er að nálgast þar aðrar þarfar upplýsingar inn á vefnum er snerta til dæmis kjaramál. Skrifstofa stéttarfélaganna er opin átta tíma á dag. Starfsfólk skrifstofunnar er í góðu sambandi við félagsmenn og eru heimsóknir á skrifstofuna mjög tíðar, auk þess sem stórum hluta starfsins er sinnt í gegnum síma og með heimsóknum á vinnustaði og í skóla. Ekki eru fyrirsjáanlegar frekari breytingar á rekstri skrifstofunnar. Góð nýting er á félagsaðstöðunni enda mikil starfsemi í gangi á vegum stéttarfélaganna. Þá er greinilegt að framkvæmdirnar sem hafnar eru á svæðinu s.s. á Þeystareykjum og Bakka kalla á aukna notkun á fundarsal stéttarfélaganna þar sem verktakar og aðrir þeir sem koma að framkvæmdunum hafa verið duglegir við að fá aðstöðuna fyrir fundi og námskeið sem tengjast framkvæmdunum

Húsnæði stéttarfélaganna
Stéttarfélögin hafa boðið út breytingar á efri hæðinni að Garðarsbraut 26. Eitt tilboð barst í breytingarnar upp á 33. milljónir. Kostnaðaráætlunin var upp á 27. milljónir. Ef um semst við verktakan H-3 verður ráðist í breytingarnar í sumar, það er ef aðilar ná saman um kostnaðaráætlunina.

Lokaorð
Skýrslan er að venju ekki tæmandi um starfsemi félagsins því hér hefur aðeins verið farið yfir helstu málaflokka og málefni sem félagið hefur komið að milli aðalfunda. Það er von stjórnarinnar að skýrsla þessi gefi lauslegt yfirlit yfir það helsta í fjölbreyttu félagsstarfi, um leið og hún þakkar félagsmönnum, þeim sem hafa haft trúnaðarstörf fyrir félagið á hendi og starfsmönnum félagsins fyrir gott samstarf og vel unnin störf á árinu.

b) Ársreikningar
Huld Aðalbjarnardóttir gerði grein fyrir ársreikningum félagsins auk þess að leggja fram tölfræðilegar upplýsingar úr bókhaldi félagsins sem eru meðfylgjandi skýrslu stjórnar.
Fram kom að félagsgjöld og iðgjöld ársins námu kr. 7.536.463 sem er 17,4% lækkun frá fyrra ári. Bætur og styrkir árið 2015 námu kr. 2.645.412, þar af úr sjúkrasjóði kr. 1.892.101. Um væri að ræða hækkun milli ára. Samkvæmt sameinuðum rekstrar- og efnahagsreikningi nam hreinn tekjuafgangur félagsins kr. 5.664.683 og eigið fé í árslok 2015 nam kr. 217.049.515 og hefur það aukist um 2,68% frá fyrra ári. Rekstur skrifstofunnar gekk vel á síðasta ári. Þátttaka Þingiðnar í rekstrarkostnaði nam kr. 2.331.535. Innheimta félagsgjalda var með svipuðu sniði og árið á undan. Huld sagði launagreiðendur almennt samviskusama við að skila félagsgjöldum og mótframlögum á réttum tíma. Þó bæri að geta þess að ekkert hefði náðist út úr þrottabúi Norðurvíkur ehf. upp í skuld fyrirtækisins við félagið og skoðaðist krafan því töpuð.

c) Lýst kjöri í trúnaðarstöður í félaginu
Tillaga Kjörnefndar skoðast samþykkt þar sem ekki hafa borist aðrar tillögur um menn í trúnaðarstöður fyrir félagið fyrir næsta kjörtímabil.

d) Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
Fundarstjóri gaf orðið frjálst um skýrslu stjórnar og reikninga. Nokkrar fyrirspurnir komu fram frá fundarmönnum sem formaður og starfsmenn félagsins svöruðu. Því næst var ársreikningurinn borinn upp og samþykktur samhljóða. Fundarstjóri lagði fram eftirfarandi: Tillaga er um að tekjuafgangi ársins verði ráðstafað til hækkunar á óráðstöfuðu eigin fé frá fyrra ári. Tillagan var samþykkt samhljóða.
e) Lagabreytingar
Engar lagabreytingar liggja fyrir fundinum.

f) Ákvörðun árgjalda
Tillaga stjórnar um að félagsgjaldið verði óbreytt milli ára, það er 0,7% af launum var samþykkt.

g) Laun stjórnar
Tillaga stjórnar um að laun stjórnar með óbreytt milli ára var samþykkt samhljóða. Það er þrír tímar á yfirvinnutaxta iðnaðarmanna samkvæmt kjarasamningi Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins.

h) Kosning löggilts endurskoðanda
Tillaga er um að endurskoðunarfyrirtækið PWC sjá um endurskoðun á ársreikningum félagsins fyrir árið 2016 var samþykkt samhljóða.

2. Atvinnumál
Aðalsteinn Á. Baldursson fór yfir stöðu atvinnumála í sveitarfélaginu og þróun hennar og íbúafjölda svæðisins síðastliðinn tíu ár. Frásögnin byrjaði á tölulegum upplýsingum um íbúafækkun svæðisins sem sýnd var með myndrænum hætti. Þar mátti sjá að íbúum hefur enn verið að fækka síðustu misserin. Sömuleiðis sýndi Aðalsteinn fram á breytingu á starfasamsetningu atvinnulífsins en mikil breyting hefur orðið á henni.

Aðalsteinn fór ennfremur yfir stóriðjusögu svæðisins sem byrjaði með staðarvali Alcoa og vali á Bakkalóðinni sem svo breyttist í verksmiðju PCC á Bakka sem nú er í smíðum. Miklar áskoranir biðu stéttarfélaganna með þessum framkvæmdum og fór Aðalsteinn yfir eftirlitsstarfið síðan framkvæmdir hófust. Einnig var farið yfir stöðu ferðaþjónustunnar á svæðinu og þær áskoranir sem aukin vöxtur hennar hefur ollið. Nokkrar umræður urðu meðal fundargesta í kjölfarið á erindi Aðalsteins.

3. Önnur mál
a) Starfsmenntastyrkir til félagsmanna
Fundarstjóri gerði grein fyrir eftirfarandi tillögu: Tillaga er um að félagsmenn njóti sömu réttinda til endurgreiðsla frá félaginu vegna kostnaðar þeirra við nám eða námskeið og félagsmenn Framsýnar hafa í gegnum fræðslusjóðinn Landsmennt. Styrkir Þingiðnar koma úr félagssjóði, enda taki Iðan ekki þátt í kostnaði félagsmanna við nám eða námskeið sem þeir stunda. Tillagan var samþykkt samhljóða.

b) Samræming á reglugerð sjúkrasjóðs
Tillaga er um að stjórn Þingiðnar fái heimild til að samræma reglugerð Sjúkrasjóðs Þingiðnar við samþykktar breytingar á reglugerð Sjúkrasjóðs Framsýnar sem samþykktar verða á aðalfundi Framsýnar 8. júní 2016. Tillagan var samþykkt samhljóða.

c) Ályktun um stöðu Verkmenntaskólans
Umræður urðu um stöðu Verkmenntaskólans á Akureyri. Eftir umræður var eftirfarandi ályktun lögð fram og samþykkt samhljóða:
„Aðalfundur Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu verknáms í landinu. Fyrir liggur að ungt fólk velur frekar bóknám að loknum grunnskóla en verknám.
Meðal skólafólks er atvinnuleysi helst til staðar hjá fólki sem velur bóknám að loknu grunnskólanámi, engu að síður skráir verulegur meirihluti sig í þess háttar nám. Eðlilegt er að hlutfallið á milli þeirra sem velja bóknám og verknám sé jafnara þar sem gríðarleg vöntun er á fólki til starfa með slíka menntun. Þessari vöntun hefur verið mætt með innflutningi á iðnmenntuðu fólki. Lausnin felst ekki því, lausnin felst í því að setja aukin kraft í verknám á Íslandi. Fréttir berast af alvarlegum fjárhagsvandræðum Verkmenntaskólans á Akureyri. Staða skólans nú um stundir er sú að kennarar segja hann nánast gjaldþrota samkvæmt ályktun kennarafélags skólans frá 18. maí síðastliðnum. Skólinn er helsta verknámsstofnun landsbyggðarinnar og það er hrein aðför að verknámi á landsbyggðinni að staðan sé þessi. Þingiðn skorar á stjórnvöld að leysa fjárhagsvandræði skólans til framtíðar eins fljótt og auðið er.“

Fleira ekki gert – fundi slitið

Fundarstjóri: Aðalsteinn Á. Baldursson Fundarritari: Aðalsteinn J. Halldórsson

Deila á