Hvetja sveitarfélög að setja sér reglur um keðjuábyrgð

Framsýn skrifaði í dag sveitarfélögum á félagssvæðinu bréf þar sem þau eru hvött til að setja sér reglur um keðjuábyrgð verktaka sem þau eru í samskiptum við á hverjum tíma. Hér má lesa bréfið til sveitarfélaganna.
Til sveitarfélaga á félagssvæði
Framsýnar stéttarfélags

Húsavík 4. nóvember 2016

Varðar keðjuábyrgð verktaka

Þann 1. nóvember samþykkti bæjarstjórn Akureyrar samhljóða að í öllum samningum sem sveitarfélagið gerir um verklega framkvæmdir verði kveðið á um keðjuábyrgð verktaka. Keðjuábyrgðin gerir það að verkum að verkkaupi og aðalverktaki bera ábyrgð á því að tryggja kjarasamningsbundin kjör og önnur lögbundin réttindi.

Fyrr á þessu ári hafði Reykjavíkurborg samþykkt sambærilegar reglur. Þá hefur Landsvirkjun einnig sett sér reglur vegna keðjuábyrgðar.

Framsýn skorar á sveitarstjórnir á félagssvæðinu að samþykkja hliðstæðar reglur við fyrsta tækifæri. Keðjuábyrgð er eitt allra mikilvægasta verkfæri sem völ er á til að tryggja lögbundin réttindi og kjör. Á þeim miklu framkvæmda- og breytingatímum sem nú standa yfir í Þingeyjarsýslum hefur aldrei verið mikilvægara að sofna ekki á verðinum í þessum efnum.

Framsýn hefur einnig komið þeim skilaboðum á framfærði við alþingismenn að Alþingi hraði gerð laga um keðjuábyrgð fyrirtækja. Þess er vænst að Alþingi fjalli um málið í vetur en því miður er ekki hægt að teysta því.

Meðfylgjandi er bókun bæjarstjórnar Akureyrar.

Bókunin er svohljóðandi:
„Bæjarstjórn Akureyrar samþykkir að í öllum samningum verklegra framkvæmda, kaupa á þjónustu og vörum á vegum sveitarfélagsins verði sett inn ákvæði um keðjuábyrgð þeirra seljenda sem sveitarfélagið semur við. Með þessu vill Akureyrarbær tryggja að allir starfsmenn, hvort sem það eru starfsmenn verktaka, undirverktaka eða starfsmannaleiga, njóti launa, trygginga og annarra réttinda í samræmi við gildandi kjarasamninga og lög hverju sinni. Aðalverktakinn yrði í verksamningi, gerður ábyrgur fyrir að tryggja kjarasamnings- og lögbundin réttindi allra starfsmanna sem að verkinu koma. Þetta verður gert til að koma í veg fyrir undirboð og óeðlilega samkeppnishætti á vinnumarkaði.“

Aðstæður á vegum víða varasamar

Á ferð sinni milli Húsavíkur og Þórshafnar í morgun keyrðu starfsmenn stéttarfélaganna fram hjá tveimur bílum sem höfðu keyrt út af í þeim varasömu aðstæðum sem eru víða á vegum núna. Annar þeirra var flutningabíll eins og sjá má hér að ofan.

Við hvetjum vegfarendur til að fara varlega, sérstaklega nú þegar veturinn heilsar.

Framsýn kallar eftir frekari sameiningu lífeyrissjóða

Innan Framsýnar stéttarfélags hefur verið umræða um starfsemi lífeyrissjóða sem félagið á aðild að, það er sameining sjóða meðal aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands, réttindi sjóðfélaga og þann mikla mun sem er á réttindum sjóðsfélaga innan almennra og opinberra lífeyrissjóða. Inn í þessa umræðu hefur blandast umræða um jöfnun lífeyrisréttinda sem boðuð hefur verið með svokölluðu Salek samkomulagi. Þá má geta þess að lífeyrissjóðir hafa verið að sameinast samanber nýlegt dæmi þegar Sameinaði lífeyrissjóðurinn og Stafir lífeyrissjóður sameinuðust.

Á fundi stjórnar Framsýnar þann 19. október 2016 var samþykkt að beina þeim tilmælum til stjórnar Stapa lífeyrissjóðs að hafin verði athugun á vegum sjóðsins varðandi frekari sameiningu sjóðsins við aðra lífeyrissjóði. Flestir félagsmenn Framsýnar greiða í dag til Stapa, lífeyrissjóðs.

Stapi byggir í dag tilveru sína á lífeyrissjóðum sem hafa verið sameinaðir undir nafni sjóðsins á Norður- og Austurlandi. Að mati Framsýnar er mikilvægt að þessari vegferð verði haldið áfram með það að markmiði að ná niður rekstrarkostnaði og tryggja um leið sjóðfélögum aukin réttindi.

Hvað það varðar leggur Framsýn til að stjórn Stapa láti fara fram skoðun á því hvort ekki megi hagræða í starfsemi sjóðsins með sameiningu við aðra lífeyrissjóði þannig að auka megi um leið réttindi sjóðfélaga til lífeyris.

Tilgangur sameiningar við aðra sjóði getur verið að auka áhættudreifingu, hagræði í rekstri, draga úr rekstrartengdri áhættu og auka möguleika á bættri ákvarðanatöku í fjárfestingum í því skyni að bæta hag sjóðfélaga.

Í bréfi Framsýnar til stjórnar Stapa í dag væntir félagið þess að erindi félagsins fái gott brautargengi í stjórn sjóðsins og niðurstaða úr athuguninni verði tekin til kynningar og afgreiðslu á ársfundi Stapa lífeyrissjóðs árið 2017.

Kallar eftir tafarlausri afsögn kjararáðs

Formaður Framsýnar var í viðtali í Síðdegisútvarpi Útvarps Sögu í gær. Þar kallar hann eftir afsögn þeirra einstaklinga sem sitja í kjararáði vegna þeirrar umdeildu ákvörðunar ráðsins að hækka laun embættismanna umtalsvert. Aðalsteinn sem var viðmælandi Péturs Gunnlaugssonar í síðdegisútvarpinu í dag segir að hann geri þá kröfur að viðkomandi einstaklingar axli ábyrgð á ákvörðun sinni og víki án tafar.

Hlusta má á viðtalið með því að smella hér. Um er að ræða fyrri hluta Síðdegisútvarpsins.

Ályktun um sóðaskap kjararáðs

Stjórn Framsýnar samþykkti í hádeginu að senda frá sér svohljóðandi ályktun um úrskurð kjararáðs á launahækkunum til þingmanna, ráðherra og forseta Íslands. Ljóst er að almenningi og þar með stjórn Framsýnar er gróflega misboðið:
Ályktun um sóðaskap kjararáðs
„Framsýn stéttarfélag fordæmir harðlega úrskurð kjararáðs um ofurhækkanir til handa þingmönnum, ráðherrum og forseta Íslands. Hækkanir sem eru langt, langt umfram það sem eðlilegt getur talist og endurspeglar enn og aftur spillinguna og misréttið sem viðgengst í þjóðfélaginu.
Framsýn skorar á hlutaðeigandi aðila, það er kjörinna fulltrúa, að afsala sér hækkunum kjararáðs og taka þess í stað við almennum launahækkunum sem aðilar vinnumarkaðarins hafa samið um. Annað væri ömurlegt veganesti inn í nýtt kjörtímabil fyrir þingmenn og ráðherra sem vilja ávinna sér traust þjóðarinnar.
Þessi ótrúlegi gjörningur kjararáðs kallar á breytingar. Krafan er að skipaðir fulltrúar í kjararáði segi þegar í stað af sér þar sem þeir eru algjörlega rúnir trausti. Þá er mikilvægt að Alþingi geri breytingar á hlutverki ráðsins og finni launahækkunum til embættismanna og kjörinna fulltrúa sem falla undir úrskurð kjararáðs sanngjarnari farveg.
Þá er tímabært að Alþýðusamband Íslands boði til mótmæla á Austurvelli þar sem þessum gjörningi verði mótmælt harðlega um leið og svokallað SALEK samkomulag aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda verði brennt á báli með táknrænum hætti. Samkomulag sem stjórnvöld hafa barist fyrir að koma í gegn með það að markmiði meðal annars að stuðla að hógværum launahækkunum og vinna gegn svokölluðu „höfrungahlaupi“ á íslenskum vinnumarkaði.
Að lokum skorar Framsýn stéttarfélag á verkalýðshreyfinguna að segja upp gildandi kjarasamningum þar sem forsendur samninganna eru brostnar með taktlausu útspili kjararáðs. Sjálftaka sem þessi sem gerð er í skjóli myrkurs á ekki að líðast í landi sem kennir sig við virkt lýðræði. „

Jólafundur Framsýnar í byrjun desember

Hefð er fyrir því innan Framsýnar að ljúka góðu starfi á hverju ári með sérstökum jólafundi stjórnar og trúnaðarráðs. Starfsmönnum félagsins, trúnaðarmönnum og stjórnum deilda innan félagsins er einnig boðið að sitja fundinn. Á fundinum er byrjað á því að fara yfir málefni félagsins fyrir liðið starfsár auk þess að gera árið upp. Síðan tekur við skemmtun og kvöldverður sem fundarmenn sjá sjálfir um. Í ár verður fundurinn haldinn föstudaginn 3. desember í fundarsal stéttarfélaganna.

Um 40 manns á góðum fundi um húsnæðismál

Jón Helgi Gestsson og Jóhann Geirsson stóðu fyrir fundi síðasta laugardag um hugmyndir um byggingu á 30 nýjum íbúðum á lóð sem er við útgarð þar sem lögreglustöðin á Húsavík stendur við. Til stendur að byggja eigna íbúðirnar í tveimur áföngum, það er 15 íbúðir og svo aftur 15 íbúðir verði eftirspurnin góð. Frá fundinum á laugardaginn hafa 6 íbúðir þegar selst verði að byggingunni. Hugmyndin er að byggja íbúðir sem eru annars vegar 68,7 m2 (tveggja herbergja búðir) og hins vegar 100,7 m2 (þriggja herbergja íbúðir). Með íbúðunum fylgja bílastæði í bílakjallara velji íbúar það. Áætlað er að íbúðirnar kosti um 24 milljónir og 35 milljónir, verðin taka mið af stærð íbúðanna sem getið er um í þessari frétt. Velji menn að kaupa sérstök bílastæði í bílakjallara bætast við 5 milljónir á íbúð. Íbúðirnar sem eru á 5 hæðum koma fullkláraðar til eigenda með lóð og úti bílastæðum. Stofnað verður hlutafélag um framkvæmdina sem á að hefjast vorið 2017 með það að markmiði að íbúðirnar verði klárar haustið 2018. Áhugasömum er bent á að hafa samband við Jón Helga Gestsson í síma 8665455 sem veitir frekari upplýsingar en áhugasamir þurfa að skrá sig fyrir íbúð á næstu tveimur vikum þar sem hugmyndin er að meta þá hvort áhuginn verður það mikill að ráðist verði í þessar byggingar. Þá liggja fyrir teikningar af íbúðunum á Skrifstofu stéttarfélaganna.

ibudirfund1016-004

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Góð mæting var á fund áhugamanna um byggingu á íbúðahúsnæði við Útgarð. Hér má sjá Jón Helga Gestsson fara yfir hugmyndafræðina á fundinum.

ibudirfund1016-015

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Um er að ræða tvær stærðir á íbúðum, það er 68,7m2 og 100,7m2  íbúðir sem standa við Útgarð 4.

Þing ASÍ stendur yfir

Nú stendur yfir þing ASÍ. Framsýn, Þingiðn og Verkalýðsfélag Þórshafnar sendu öll fulltrúa á þingið. Þess má geta að þingið er pappírslaust. Hér að neðan má sjá nokkrar myndir, meðal annars af okkar fólki af þinginu.20161027_152821 20161027_141444 20161026_124959 20161026_115609 20161026_114254

 

Konur hittust á Skrifstofu stéttarfélaganna

Í tilefni af kvennafríi 2016 komu í kringum 80 konur í heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna í gær. Konur lögðu niður vinnu klukkan 14:38 og komu eftir það í létt spjall og kaffi. Karlkyns starfsmaður stéttarfélaganna var með myndavélina á lofti og sjá má hluta afrakstursins hér að neðanimg_09341 img_09491 img_09331 img_09291 img_09481 img_09381

Konur leggja niður vinnu

Framsýn bendir á að konur eru hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14:38 mánudaginn 24. október.

… Heitt verður á könnunni á skrifstofu stéttarfélaganna og konur velkomnar í óformlegt spjall.

Á heimasíðu ASÍ er fjallað um kvennafrí 2016. Lesa má umfjöllun ASÍ hér.

Stofnanasamningur undirritaður

Síðasta föstudag var undirritaður nýr stofnanasamninugur milli stéttarfélaganna á Norðurlandi og Heilbirgðisstofnunar Norðurlands. Eins og kunnugt er voru nokkar heilbrigðisstofnanir sameinaðar undir HSN. Þess vegna þurfi að ráðast í samningagerð milli hlutaðeigandi aðila þar sem hvert og eitt stéttarfélag var áður með samning við stofnun í sínu heimahéraði. Stéttarfélögin Samstaða, Eining-iðja, Aldan og Framsýn komu að gerð samningsins við HSN. Á meðfylgjandi mynd eru fulltrúar stéttarfélaganna og Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, (HSN) eftir undirskrift samningsins.

Frambjóðendur á ferð og flugi

Í gær, fimmtudaginn 20. október, komu við hér á Skrifstofu stéttarfélaganna framfjóðendur Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Þeir ræddu málin yfir léttum veitingum og áttu góða stund.
Á meðfylgjandi mynd má sjá þá Tryggva, Kjartan og Loga ásamt Lindu starfsmanni Skrifstofu stéttarfélaganna.

Kraftur í ungliðastarfi Framsýnar

4. þing ASÍ-UNG var haldið í Reykjavík fyrir um mánuði síðan. Þingið var vel sótt og voru tugir fulltrúa ungs launafólks saman komnir til þess að ræða stöðu ungs fólks innan verkalýðshreyfingarinnar og eins framtíð ungliðahreyfingar ASÍ. Ný stjórn var kjörin og línur lagðar fyrir komandi starfsár. Í kjölfar þingsins var gögnum safnað saman og frábær, áframhaldandi umræða hefur átt sér stað um stefnu og tilgang ungliðahreyfinga innan ASÍ.

Þingið tók þá ákvörðun að horfa inn á við og reyna að átta sig á hvernig best er að virkja ungt fólk innan hreyfingarinnar. Vandi hefur verið að fá ungt fólk til starfa innan stéttarfélaganna og ungt fólk innan ASÍ hefur upplifað sig með lítið bakland jafningja sinna. Þessu þarf að breyta enda upplifði ungt launafólk að það hefði verið skilið eftir og á það stigið í kjaraviðræðum síðasta árs. Án virkrar þáttöku ungs fólks missir hreyfingin nefnilega bæði vægi og vogarafl í baráttu launafólks. Rödd okkar vantaði við samningaborðið og niðurstaðan var eftir því.

ASÍ-UNG telur að heilt yfir þá þurfi að endurhugsa kynningu og fræðslustarfsemi verkalýðshreyfingarinnar. Það er áhyggjuefni hvað hreyfingin eldist hratt og að þrátt fyrir mikilvægi hennar þá virðist ungt fólk ekki tengja við hana. Aðferðir til þess að ná til ungs fólks hafa að mörgu leiti ekki fylgt eftir þróun í miðlun og aðferðafræði og nauðsynlegt fyrir aðildarfélög ASÍ að átta sig á alvarleika málsins. Stór hluti af vandanum er vanmat á þörf og vöntun á fjármagni til þess að sinna kynningar- og félagsstarfi ungs fólks innan hreyfingarinnar. Nauðsynlegt er að setja fjármagn í uppbyggingu ungliðastarfs innan ASÍ og aðildarfélaga til þess að tryggja nýliðun, gæði og framkvæmd viðburða, samráðsferðalög milli landshluta og samskipti við sambærileg samtök utan landsteina.

Framsýn er frumkvöðull innan hreyfingarinnar og hefur með því að halda úti virku ungliðaráði sýnt fram á raunverulegan vilja til lausna. Samskipti okkar við stjórn og formann hafa verið félaginu til sóma og það er mikil hvatning til okkar í ungliðaráðinu að finna fyrir þeim metnaði sem félagið sýnir í málefnum ungs fólks. Með þennan metnað í farteskinu er Framsýn-UNG staðráðið í að sjá til þess að félagið verði áfram leiðandi í þeirri hröðu þróun sem þarf að eiga sér stað innan verkalýðshreyfingarinnar til þess að tryggja henni líf og tilgang næstu árin og áratugina.

Aðalbjörn Jóhannsson,
formaður Framsýnar-UNG og alþjóðaritari stjórnar ASÍ-UNG

Mikilvægt hlutverk trúnarðarmanna

Trúnaðarmenn eru mikilvægir á hverjum vinnustað, bæði fyrir félagsmenn og stéttarfélögin. Starfsgreinasambandið hefur tekið saman upplýsingarefni um trúnaðarmenn á vinnustöðum. Í upplýsingarefninu er farið yfir allt það helsta sem tengist þessum mikilvægu einstaklingum. Upplýsingarefnið, sem einnig má nálgast á pólsku og ensku, má sjá með því að smella hér.

Toggi Sigurjóns gefur út geisladisk

Höfðinginn, Þorgrímur „Toggi“ Sigurjónsson hefur gefið út disk með nokkrum völdum lögum eins og Capri Kararína, Anna í Hlíð, Sem lindin tær og Danny Boy. Þorgrímur er fæddur 9. desember 1933 á Húsavík og hefur lengi haft áhuga fyrir góðri tónlist. Toggi spilar á munnhörpu og Knútur Emil Jónasson á gítar. Arngrímur Arnarson sá um hönnun og uppsetningu á plötuumslaginu. Alls eru 10 lög á geisladisknum sem nefnist Yfir borðið. Toggi sér að mestu sjálfur um söluna á disknum en sagði að menn gætu nálgast hann hjá versluninni Tákn, Toppnum(Gumma rakara) og þá skyldi hann eftir nokkur eintök á Skrifstofu stéttarfélaganna til sölu fyrir áhugasama. Það er full ástæða til að óska Togga og Knúti til hamingju með nýja diskinn um leið og skorað er á fólk að kaupa hann enda vandaður diskur með fallegum lögum.

Gengið frá kjarasamningi við ÖÍ

Framsýn gekk í dag frá kjarasamningi við Öryggismiðstöð Íslands vegna starfsmanna sem starfa á vegum fyrirtækisins á Húsavík. Þess má geta að Öryggismiðstöðin sér um alla gæslu á framkvæmdasvæðinu á Bakka. Á myndinni má sjá tvo starfsmenn skoða nýja samninginn í morgun, það er eftir að skrifað var undir hann. Samningurinn gildir frá 1. maí 2016 sem þýðir að starfsmenn munu fá leiðréttingar á sínum kjörum frá þeim tíma.

Sjómenn veita verkfallsheimild

Kosningu um ótímabundið verkfall hjá sjómönnum sem starfa eftir kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem Framsýn á aðild að lauk kl. 12:00 á hádegi í dag, 17. október. 17 af 18 aðildarfélögum SSÍ samþykku að hefja verkfall á fiskiskipaflotanum kl. 23:00 þann 10. nóvember næstkomandi hafi samningar milli SSÍ og SFS ekki náðst fyrir þann tíma. Sjómannafélag Hafnarfjarðar var eina félagið sem hafnaði verkfalli. Hjá Framsýn tóku 75% sjómanna innan Sjómannadeildar félagsins sem höfðu kjörgengi þátt í atkvæðagreiðslunni. Þar af samþykktu 81% félagsmanna heimild til verkfallsboðunar og 19% greiddu atkvæði gegn verkfallsboðun. Niðurstaðan er skýr, megin þorri félagsmanna er klár í átök þurfi þess með til að knýja á um gerð kjarasamnings. Sjá má heildar niðurstöðurnar inn á www.ssi.is.

(Þorgeir Baldursson tók myndina sem er með þessari frétt)