Formenn LÍV funduðu fyrir helgina

Formannafundur LÍV (Landssamband íslenskra verzlunarmanna) var haldinn í Reykjavík í síðustu viku. Fulltrúi Framsýnar, Jóna Matthíasdóttir formaður deildar verslunar- og skrifstofufólks, sat fundinn sem var vel sóttur af formönnum aðildarfélaganna.
Dagskráin var nokkuð viðamikil, Henný Hinz fór yfir stöðu efnahagsmála og hvaða tækifæri og áskoranir eru þar til staðar áður en Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ tók fyrir stöðu kjaramála. Hann ræddi m.a. helstu forsenduatriði samningsins sem þarf að taka sérstaklega til umræðu og endurskoðunar nú í febrúar mánuði samkvæmt bókun í kjarasamningi. Helstu forsenduatriði eru m.a. að aukinn kaupmáttur launa hafi gengið eftir, að stjórnvaldsákvarðanir og lagabreytingar í húsnæðismálum hafi og muni ganga eftir og að sú launastefna og launahækkanir sem í samningum felast hafi verið stefnumarkandi fyrir aðra samningagerð á vinnumarkaði.
Tómas Möller lögfræðingur Lífeyrissjóðs verslunarmanna fór vel yfir ýmis atriði sem snúa að réttindum og greiðslum í lífeyrissjóði og það gerði einnig Margrét Kristinsdóttir deildarstjóri lífeyrisdeildar VR.
M.a. bentu þau á mikilvægi þess að þekkja lífeyrisréttindi sín og minntu m.a.á að hægt er að nálgast upplýsingar á eigin síðum hjá viðkomandi lífeyrissjóði þar sem einnig er hægt að tengjast lífeyrisgátt og skoða réttindi, séu þau til staðar í fleirum en einum sjóði.
Fundinum lauk með yfirferð og upprifjun Elíasar Magnússonar á kjarasamningi VR/LÍV auk málefnalegra umræða fundarmanna.

Deila á