Formaður Sjómannasambandsins segir fyrirsvarsmenn sjómanna hafa fengið skýr skilaboð um að standa fastir fyrir á kröfum sínum og hvika ekki frá þeim. Hann óttast ekki lagasetningu enda hafi tveir ráðherrar lýst því yfir að sú leið verði ekki farin.
„Við erum bara rólegir í verkfallinu,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands.
Hann segir stöðuna grafalvarlega á meðan menn talist ekki við, og slíkt sé upp á teningnum nú. „Það er náttúrlega verið að reyna að búa til þrýsting úr báðum áttum, en við erum rólegir ennþá. Þetta eru aðgerðir til að bæta kjör manna, og slíkt tekur stundum tíma,“ segir hann.
Lækkun olíukostnaðar og bætur vegna sjómannaafsláttar
Að sögn Valmundar eru ýtrustu kröfur sjómanna varðandi olíukostnað þær að gólfið verði hækkað um 3%, eða verði 27% óskiptur frádráttur aflaverðmætis til útgerðar í stað 30% eins og verið hefur hingað til. Hann segir að sú breyting myndi þýða 4,3% hækkun á skiptahlut til sjómanna.
„Ef miðað er við árið 2015 telst okkur til að útgerðir innan Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafi verið að greiða í kringum 45 milljarða í laun og launatengd gjöld til sjómanna. Sú hækkun sem við erum að fara fram á að þessu leyti myndi þýða hækkun upp á um það bil 1,8 milljarða. Sá er nú kostnaðurinn við þennan lið,“ segir Valmundur.
Talsmenn sjómannsstéttarinnar hafa jafnframt sett fram þá kröfu á útgerðina að greiddar verði bætur til sjómanna vegna afnáms sjómannaafsláttarins.
„Ítrasta krafa okkar þar er að sjómönnum verði greiddar 2.000 krónur á dag. Við vitum fyrir víst að það er um það bil ein milljón lögskráningardaga sjómanna á Íslandi árlega. Með sundurgreiningu reiknast okkur til að félög innan vébanda SFS eigi 600.000 af þeim. Krafa okkar um þennan tvöþúsundkall þýðir þá 1,2 milljarðar fyrir þá,“ segir Valmundur.
„Auðvitað finnst mönnum þetta vera stórar upphæðir en félagsmenn SFS eru 140 talsins, svo okkar ýtrustu kröfur kosta þá hvern útgerðarmann um það bil 22 milljónir á ári. Ég geri mér grein fyrir að útgerðir eru misstórar og kostnaðurinn dreifist eftir því, en þetta eru meðaltölurnar sem við erum að vinna með,“ bætir hann við.
Mikil samstaða og skýr skilaboð
Valmundur segir algeran einhug ríkja meðal sjómanna um að hvika ekki frá þessari kröfugerð.
„Það mættu tæp 60% þeirra sjómanna sem eru í verkfalli á fundi forystumannanna í síðustu viku. Þetta voru yfir 25 fundir sem haldnir voru vítt og breitt um landið, og við erum með skilaboð frá hverjum einasta þeirra um að halda fast við þessar kröfur og standa á þeim. Við höfum fengið á okkur gagnrýni fyrir að taka ekki aðrar kröfur, svo sem nýsmíðaálagið, með okkur í þennan pakka en samninganefndirnar urðu sammála um þessar kröfur. Á þeim segja menn okkur að standa og við gerum það,“ segir hann.
Valmundur segir að þegar þessar kröfur sjómanna hafi verið settar fram á samningafundi með SFS hafi þeir einfaldlega sagst ekki geta komið til móts við þær og því hafi slitnað upp úr viðræðunum.
„Sjáum hvað gerist þegar líður á störukeppnina“
En óttast þeir ekki að lög verði sett á verkfall sjómanna?
„Nei, það gerum við ekki. Það eru tveir ráðherrar ríkisstjórnarinnar búnir að lýsa því yfir í okkar áheyrn að ekki verði sett lög á okkur svo við erum ekki hræddir við það. Auðvitað ber okkur samningsaðilum þessa máls að finna lausn á því og leysa þessa deilu, en svona er staðan núna. Við skulum sjá til hvað gerist þegar líður á störukeppnina,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands.
(þessi frétt er tekin af mbl.is)