Birna gerir hreint fyrir sínum dyrum

Það eru margir farnir að bíða eftir vorinu og sumrinu reyndar líka. Ein af þeim er Birna Ásgeirsdóttir starfsmaður Þekkingarnets Þingeyinga sem hér er að þrífa planið fyrir framan Þekkingarnetið á dögunum en starfsstöðin er niður við höfn, það er á hafnarstéttinni.

Ný flugvél í flota Flugfélagsins Ernis

Flugfélagið Ernir mun taka í notkun nýja Dornier 328 flugvél með vorinu. Flugvélin verður notuð á flesta áfangastaði flugfélagsins en þó væntanlega mest á Húsavík, Höfn og Vestmannaeyjar. Flugvélin mun einnig nýtast í leiguverkefni með hópa bæði hér innanlands og eins erlendis s.s. til Grænlands og Norðurlandanna en hún tekur 32 farþega. Að sjálfsögðu er þetta mikið fagnaðarefni en um 4.400 félagsmenn stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum flugu milli Húsavíkur og Reykjavíkur á síðasta ári sem sparaði þeim tæplega 50 milljónir, það er að fljúga á sérkjörum stéttarfélaganna.

Félagsmenn stéttarfélaganna spöruðu sér tæplega 50 milljónir á árinu 2017 með því að fljúga á sérkjörum stéttarfélaganna. Eftir nokkrar vikur gefst þeim tækifæri á að fljúga með nýrri flugvél sem Flugfélagið Ernir hefur fest kaup á.

Hallarbylting í Eflingu – breytingar í aðsigi

Sólveig Anna Jónsdóttir verður næsti formaður Eflingar-stéttarfélags og mun hún taka við af Sigurði Bessasyni, fráfarandi formanni, á aðalfundi félagsins þann 26. apríl nk. B listi Sólveigar Önnu fékk 2099 atkvæði en A listi stjórnar og trúnaðarráðs fékk 519 atkvæði. Þeir sem voru með Sólveigu Önnu á lista og taka sæti í stjórn Eflingar eru Magdalena Kwiatkowska hjá Café Paris, Aðalgeir Björnsson, tækjastjóri hjá Eimskip, Anna Marta Marjankowska hjá Náttúru þrif, Daníel Örn Arnarsson hjá Kerfi fyrirtækjaþjónustu, Guðmundur Jónatan Baldursson, bílstjóri hjá Snæland Grímsson, Jamie Mcquilkin hjá Resource International ehf. og Kolbrún Valversdóttir, starfsmaður búsetuþjónustu Reykjavíkurborgar.

Úrslit kosninganna eru þannig:
Á kjörskrá voru 16.578 félagsmenn og af þeim greiddu 2.618 atkvæði.
B listi Sólveigar Önnu Jónsdóttur fékk 2099 atkvæði.
A listi stjórnar og trúnaðarráðs fékk 519 atkvæði.
Auðir seðlar voru 6 og ógildir voru 4.

Þessar breytingar eru nokkuð áhugaverðar og eiga líklega eftir að leiða af sér kröftugri verkalýðsbaráttu standi frambjóðendur B-listans við yfirlýsingar sem þeir hafa látið hafa eftir sér í aðdraganda kosninganna. Töluverð vakning hefur orðið meðal félagsmanna stéttarfélaga að bjóða sig fram eins og þetta dæmi sýnir. Þá má geta þess að tveir formenn sem hafa verið áberandi í íslenskri verkalýðsbaráttu hafa fengið mótframboð, það eru þeir Guðmundur Ragnarsson hjá VM og Guðbrandur Einarsson formaður verslunarmannafélagsins á Suðurnesjum. Guðbrandur er auk þess formaður Landssambands ísl. verslunarmanna. Að sjálfsögðu eiga menn að gleðjast yfir því að nýtt og kraftmikið fólk sé tilbúið að takast á við krefjandi störf í verkalýðshreyfingunni. Hugsanlega hafa menn sofnað á verðinum hvað það varðar þar sem ákveðin stöðnun hefur orðið í hreyfingunni. Rétt er að óska Sólveigu Örnu til hamingju með kjörið með von um að ný stjórn Eflingar komi af krafti inn í baráttuna sem framundan er en kjarasamningar eru almennt lausir um næstu áramót. Það eru vissulega áhugaverðir tímar framundan, mun Starfsgreinasamband Íslands og Flóabandlagið starfa nánar saman í næstu kjarasamningum? Mun starfsemi Starfsgreinasambandsins eflast við þetta s.s. með nýju fólki í framkvæmdastjórn? Hvað með ASÍ, stefnir í breytingar á forystusveit sambandsins á þingi þess í haust? Eitt er víst að það á ýmislegt eftir að gerast á næstu mánuðum, talað er um að ákveðið uppgjör þurfi að fara fram. Sumir gleðjast meðan aðrir hræðast breytingar innan verkalýðshreyfingarinnar.

Myndin af Sólveigu er af efling.is.

Væntanlega heimsmet – þrír trúnaðarmenn í sömu fjölskyldu

Á þessari mynd eru heiðurshjónin Unnur Kjartansdóttir og Torfi Aðalsteinsson ásamt dóttur þeirra sem ber nafnið Sunna Torfadóttir. Þau tóku öll þátt í trúnaðarmannanámskeiði stéttarfélaganna sem haldið var í síðustu viku sem væntanlega er einsdæmi. Það er að þrír úr sömu fjölskyldu séu trúnaðarmenn á sínum vinnustöðum, Torfi hjá Jarðborunum, Unnur hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands og Sunna hjá N1 á Húsavík.

Sjálfkjörið í stjórnir, ráð og nefndir hjá Framsýn

Nú liggur fyrir að ekki bárust fleiri  tillögur um félagsmenn í stjórnir, ráð og nefndir á vegum Framsýnar fyrir næsta kjörtímabil sem eru tvö ár. Kjörnefnd félagsins skilaði tillögum sínum til stjórnar og trúnaðarráðs sem voru síðan auglýstar á heimasíðu félagsins og í Skarpi samkvæmt ákvæðum laga félagsins. Stillt var upp í tæplega 80 stöður í félaginu. Þar sem ekki bárust aðrar tillögur skoðast listinn samþykktur. Frestur til að skila inn nýjum tillögum rann út 28. febrúar. Vel gekk að koma saman listanum og er töluvert um breytingar. Sem dæmi má nefna að Börkur Kjartansson kemur nýr inn í varastjórn félagsins. Nýir í trúnaðarráði eru Brynjar Smárason,  Magnea D. Arnardóttir, Guðlaug Ívarsdóttir, Kristján Önundarson, Garðar Finnsson, Unnur Kjartansdóttir, Guðrún Steingrímsdóttir og Sigrún Hildur Tryggvadóttir.

Börkur Kjartansson er einn af þeim sem kemur nýr inn í stjórnunarstörf hjá Framsýn. Töluvert er um að nýtt fólk komi til starfa fyrir félagið í stjórnum, ráðum og nefndum.

 

Sigríður tekur við VÞ

Nú liggur fyrir að Sigríður Jóhannesdóttir tekur við starfi formanns Verkalýðsfélags Þórshafnar á næsta aðalfundi félagsins. Svala Sævarsdóttir sem verið hefur formaður gaf ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku. Hún verður hins vegar áfram í stjórn. Auk hennar verða í aðalstjórn Hulda I. Einarsdóttir, Sigríður Jónsdóttir og Ari Sigfús Úlfarsson.  Nánar verður hægt að nálgast upplýsingar um þá sem skipa trúnaðarstöður fyrir félagið inn á heimasíðu stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum, framsyn.is

 

Sigríður tekur við formennsku í VÞ á næsta aðalfundi félagsins. Í dag er hún starfsmaður félagsins en félagið er með skrifstofu í íþróttahúsinu á Þórshöfn. Með henni á myndinni er Guðný Þorbergsdóttir en þær voru báðar á trúnaðarmannanámskeiði á Húsavík fyrir helgina.

 

Fjölmennt trúnaðarmannanámskeið

Nú stendur yfir tveggja daga  trúnaðarmannanámskeið á vegum stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Um 30 trúnaðarmenn eru á námskeiðinu sem er met fjöldi á einu námskeiði. Leiðbeinandi er Sigurlaug Gröndal frá Félagsmálaskóla alþýðu. Meðfylgjandi myndir eru teknar á námskeiðinu.

Framsýn og Þingiðn lögðu til að samningunum yrði sagt upp – því miður náðist ekki samstaða um það

Formannafundur ASÍ var haldinn í gær, 28. febrúar 2018. Eftir líflegar og kröftugar umræður var meirihluti fyrir því að  segja ekki upp kjarasamningum. Því miður var ekki samstaða um að segja samningunum upp. Rétt er að taka skýrt fram að fulltrúar Framsýnar og Þingiðnar á fundinum lögðu til að samningunum yrði sagt upp. Töluvert hefur verið um að spurt hafi verið út í afstöðu félaganna þar sem greinileg reiði er meðal launafólks víða um land með niðurstöðuna, fólk telur að verkalýðshreyfingin hafi brugðist trausti fólks. Það er hins vegar ánægt með afstöðu Framsýnar og Þingiðnar og þeirra félaga sem stóðu í lappirnar og vildu segja samningunum upp.

Alls greiddu 49 atkvæði á fundinum frá aðildarfélögum ASÍ en þeir voru með 79.062 félagsmenn (heilsársstörf) á bak við sig.

Niðurstaða formanna:

Já, vil segja upp 21 (42,9%)

Nei, vil ekki segja upp 28 (57,1%)

Vægiskosning:

52.890 (66,9%)

Nei 26.172 (33,1%)

Í atkvæðagreiðslunni þurfti bæði meirihluta fundarmanna sem fóru með atkvæði á fundinum og meirihluta þess atkvæðavægis sem að baki þeim standa. Þar sem ekki náðist meirihluti fundarmanna var tillaga um uppsögn samninga felld.

Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði munu því gilda til ársloka.

Þeir sem vildu halda í samninginn töluðu m.a. um að aðeins væru 9 mánuðir eftir af samningnum og hann tryggði 3% almenna launahækkun 1. maí og rúmlega 7% hækkun lágmarkslauna. Nota ætti tímann til hausts til að móta kröfugerð og undirbúa næstu kjaraviðræður.

Það var þungt hljóð í þeim sem vildu segja upp og sterk krafa um að verkalýðshreyfingin setti fótinn niður í samfélagi misskiptingar. Stjórnvöld voru harðlega gagnrýnd fyrir að taka til sín ávinning af starfi verkalýðshreyfingarinnar sem hefur lagt mikla áherslu á hækkun lægstu launa, en stjórnvöld tekið að stórum hluta til baka með skerðingu bóta. Úrskurðir kjararáðs og hækkanir á launum æðstu stjórnenda banka og Landsvirkjunar urðu auk þess mörgum fundarmönnum tilefni til gagnrýni.

 

Góð þátttaka á trúnaðarmannanámskeið

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum standa fyrir tveggja daga trúnaðarmannanámskeiði í næstu viku, það er fimmtudag og föstudag. Námskeiðið er haldið í samstarfi við Félagsmálaskóla alþýðu. Mjög góð þátttaka er á námskeiðið en um 25 trúnaðarmenn eru skráðir á námskeiðið.

ASÍ tekur undir með Framsýn – samningsforsendur brostnar

Forsendur kjarasamninga eru brostnar að mati ASÍ en samkvæmt ákvæði í samningunum koma þeir til endurskoðunar fyrir lok þessa mánaðar.

Það er mat ASÍ, að óbreyttu, að forsendur um að launastefna kjarasamninganna hafi verið stefnumarkandi hafi ekki gengið eftir. Því er heimild til uppsagnar þeirra fyrir lok febrúar enn í gildi.

Vegna þessarar stöðu hefur miðstjórn ASÍ ákveðið að boða til formannafundar aðildarfélaga ASÍ miðvikudaginn 28. febrúar þar sem farið verður yfir málið og ákvörðun tekin um viðbrögð verkalýðshreyfingarinnar.

Þess má geta að Framsýn hafði áður ályktað um málið og sagt forsendur kjarasamninga vera brostnar. Með yfirlýsingu miðstjórnar ASÍ er tekið undir skoðanir félagsins.

 

Stéttarfélögin niðurgreiða leikhúsmiða á leikritið Stöngin inn í uppsetningu Leikdeildar Eflingar

Leikdeild Eflingar sýnir leikritið Stöngin inn eftir Guðmund Ólafsson. Leikstjóri er Vala Fannel og tónlistarstjóri Jaan Alavere. Verkið er gamansöngleikur með ABBAtónlist. Það gerist í litlu sjávarþorpi þar sem konur bæjarins ákveða að setja eiginmenn sína í kynlífsbann nema þeir hætti að horfa á enska boltann og við fylgjumst með afleiðingum þess. Stéttarfélögin niðurgreiða leikhúsmiðana fyrir félagsmenn. Forsendan fyrir því er að félagsmenn hafi samband við Skrifsofu Stéttarfélaganna áður en þeir fara í leikhúsið og fái afsláttarmiða hjá félögunum.

Sýningaplan

Frumsýning – föstudagur 23. febrúar kl. 20:30

  1. sýning – sunnudagur 25. febrúar kl. 17:00
  2. sýning – fimmtudagur 1. mars kl. 20:30
  3. sýning – föstudagur 2. mars kl. 20:30
  4. sýning – föstudagur 9. mars kl. 20:30
  5. sýning – laugardagur 10. mars kl. 18:00
  6. sýning – sunnudagur 11. mars kl. 16:00
  7. sýning – miðvikudagur 14. mars kl. 20:30
  8. sýning – sunnudagur 18. mars kl. 20:30
  9. sýning – miðvikudagur 21. mars kl. 20:30

Dalakofinn verður með leikhúsmatseðil fyrir hópa (lágmark 6 manns) lambasteik, kaffi og kaka í eftirrétt á 3900.-  Einnig bíður Dalakofinn 15% afslátt af matseðli fyrir leikhúsgesti.

Að venju verður Kvenfélag Reykdæla með kaffi- og vöfflusölu á sýningum.

 

 

Miðapantanir eru í síma 618-3945 eða á leikdeild@leikdeild.is

 

Formaður í viðtali

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, var í viðtali í útvarpsfréttum Bylgjunnar í hádeginu þann 15. febrúar síðastliðinn.

Umræðuefnið voru núgildandi kjarasamningar og hvort skuli segja þeim um núna í febrúar eins og heimild er fyrir. Deildar meiningar eru innan verkalýðshreyfingarinnar í landinu hvort segja skuli upp samningunum. Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar áliktaði um málið nú í vikunni og var eining um að segja upp samningunum eins og lesa má um hér.

Að ofan má sjá forsíðu héraðsfréttablaðsins Skarps en þar er einmitt fjallað um þessi mál.

Hlusta má á viðtalið á vefsíðu Bylgjunnar.

Laun ríkisstarfsmanna í Framsýn hækka um 1,8% afturvirkt

Laun þeirra ríkisstarfsmanna sem eru í aðildarfélögum Starfsgreinasambands Íslands fá nú í fyrsta sinn svokallaða launaskriðstryggingu sem gefur að meðaltali 1,8% hækkun á laun afturvirkt frá 1. janúar 2017.

Nánar má lesa um málið á heimasíðu Starfsgreinasambands Íslands.

Einnig munu laun félagsmanna Starfsmannafélags Húsavíkur hækka um 1,3% afturvirkt á sama tímabili eins og lesa má um á heimasíðu BSRB.

Öskudagurinn í máli og myndum

Eins og venja er komu uppáklædd börn og sungu fyrir starfsfólk Skrifstofu stéttarfélaganna á öskudaginn núna í vikunni. Miðað við veittar veitingar voru þetta í kringum 200 börn sem komu. Við leyfum myndunum að tala sínu máli.

Borg á hafi úti

Það lá við að borg væri á hafi úti í morgun þegar fólk var á leið til vinnu. Óvenjulega margri bátar og skip eru á Skjálfanda þennan daginn. Ljósmyndari framsyn.is gerði sitt besta til að ná góðum myndum af ljósunum í flóanum.

Þau sjást ekki nærri öll á myndunum. Hér fylgir því mynd af vefnum marinetraffic.com sem sýnir vel fjöldann. 

Starfsmenn Jarðborana samþykktu nýjan vinnustaðasamning

Kjörnefnd Framsýnar kom saman til fundar í dag kl. 13:30. Tilefni fundarins var að telja atkvæði úr atkvæðagreiðslu starfsmanna Jarðborana og fyrirtækisins sem starfa eftir samkomulagi aðila um störf pallmanna/öryggisfulltrúa,karmanna/mastursmanna/ aðstoðarborara og vaktformanna. Samkomulagið var undirritað 11. janúar 2018.

Framsýn tók að sér að sjá um atkvæðagreiðsluna. Viðhöfð var póstatkvæðagreiðsla. Samtals voru 45 starfsmenn Jarðborana á kjörskrá. Atkvæði greiddu 25 eða 56% þeirra sem voru á kjörskrá.

Já sögðu 16 starfsmenn (73% hlutfall af gildum atkvæðum)

Nei sögðu 6 starfsmenn (27% hlutfall af gildum atkvæðum)

Ógild atkvæði voru 3 þar sem starfsmenn skráðu ekki nafn sitt á umslagið með atkvæðaseðlinum.

Samkomulagið sem byggir á ákvæðum 5. kafla í kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands skoðast því samþykkt.

 

Atkvæði talin, María Jónsdóttir og Jóna Matthíasdóttir ásamt formanni Framsýnar, Aðalsteini Árna Baldurssyni skipa kjörnefnd félagsins. Þau sáu um að telja atkvæðin í dag.

 

Ályktun um stöðuna á vinnumarkaði og uppsögn kjarasamninga

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar kom saman til fundar í vikunni. Á fundinum var samþykkt að álykta um stöðuna á vinnumarkaði. Framsýn kallar eftir uppsögn samninga verði ekki orðið við kröfum verkalýðshreyfingarinnar um leiðréttingu launa og að ríkisstjórnin komi til móts við áherslur hreyfingarinnar í velferðarmálum, sjá ályktun:

„Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar stéttarfélags hvetur verkalýðshreyfinguna til að nýta sér ákvæði í kjarasamningum aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins með því að segja upp gildandi kjarasamningum í febrúar. 

Það er ef Samtök atvinnulífsins fallast ekki á að leiðrétta forsendubrest og þá misskiptingu sem endurspeglast í launahækkunum til annarra hópa launafólks umfram félagsmenn ASÍ.  Svo ekki sé talað um góðvild Kjararáðs í garð embættismanna og þjóðkjörinna alþingismanna sem reglulega úrskurðar þeim ofur starfskjör sem vart eiga sér hliðstæðu á íslenskum vinnumarkaði. 

Á sama tíma þykir sjálfsagt að auka skattbyrði á látekjufólki  umfram þá sem þiggja hærri laun. Þetta er að sjálfsögðu ekki í lagi og kallar á leiðréttingu þegar í stað.  Samhliða skattkerfisbreytingum þarf að huga að félagslegum úrbótum eins og húsnæðismálum, aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu, keðjuábyrgð, lengingu fæðingarorlofs og atvinnuleysisbótum sem eru í sögulegu lágmarki. Grunnbætur atvinnuleysistrygginga nema nú um 76% af lágmarkslaunum sem er vafasamur minnisvarði fyrir núverandi ríkistjórn. 

Það vekur sérstaka athygli að á meðan staða Atvinnuleysistryggingasjóðs er með miklum ágætum skuli atvinnuleysisbótum vera haldið markvist niðri af ráðamönnum þjóðarinnar. Atvinnuleysistryggingasjóður sem er fjármagnaður að mestu leiti í gegnum tryggingagjald skilaði nokkrum milljörðum í hagnað árið 2017. Í stað þess að nýtta stöðuna til að hækka atvinnuleysisbæturnar eins og eðlilegt hlýtur að teljast rann hagnaðurinn í ríkisjóð í lok árs. Vinnubrögð sem þessi eru ólíðandi, samkvæmt 33. grein laga nr. 54/2006 um atvinnuleysisbætur skulu fjárhæðir atvinnuleysisbóta endurskoðaðar árlega með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. 

Framsýn stéttarfélag telur að vaxandi misskipting í samfélaginu sé mein sem þurfi að uppræta þegar í stað.  Að mati félagsins hefur verkafólk sýnt alltof mikla biðlund en nú sé komið að síðustu stoppistöð. Laun verða að duga fyrir framfærslu, annað er ekki í boði árið 2018.“

 

 

 

 

 

Auglýsing um kjör í stjórnir, ráð og nefndir á vegum Framsýnar kjörtímabilið 2018-2020  

Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar kom saman til fundar í gær og gekk frá tillögum um félagsmenn í stjórnir, ráð og nefndir á vegum félagsins fyrir næsta kjörtímabil sem eru tvö ár. Áður hafði Kjörnefnd félagsins komið með tillögu um félagsmenn í þessar stöður sem kynntar voru á fundinum. Eftir umræður um tillögur Kjörnefndar var samþykkt að leggja þær fram nánast óbreyttar og auglýsa þær á heimasíðu félagsins, Fréttabréfi stéttarfélaganna og Skarpi.

AÐALSTJÓRN:                                                                   Vinnustaður:

Aðalsteinn Árni Baldursson  Formaður                    Skrifstofa stéttarfélaganna
Ósk Helgadóttir                  Varaformaður              Þingeyjarsveit – Stórutjarnaskóli
Jóna Matthíasdóttir             Ritari                          M+W Germany,útibú á Íslandi
Jakob G. Hjaltalín               Gjaldkeri                    ÚA – Þurkun
Sigurveig Arnardóttir          Meðstjórnandi             Hvammur, heimili aldraðra
Svava Árnadóttir               Meðstjórnandi              Norðurþing – Raufarhöfn
Torfi Aðalsteinsson            Meðstjórnandi              Jarðboranir hf.

VARASTJÓRN:
Aðalsteinn Gíslason                                           Fiskeldið Haukamýri
Agnes Einarsdóttir                                             Hótel Laxá ehf.
María Jónsdóttir                                                Fatahreinsun Húsavíkur sf.
Þórir Stefánsson                                               Vegagerðin
Gunnþórunn Þórgrímsdóttir                               Norðurþing – Leiksk.Grænuvellir
Börkur Kjartansson                                           HB Grandi

TRÚNAÐARRÁÐ:

Þráinn Þráinsson                                             Víkurraf
Brynjar Smárason                                           Rifós
Ölver Þráinsson                                               Norðlenska
Valgeir Páll Guðmundsson                                Sjóvá Almennar
Magnea D. Arnardóttir                                     Norðurþing – Borgarhólsskóli Read more „Auglýsing um kjör í stjórnir, ráð og nefndir á vegum Framsýnar kjörtímabilið 2018-2020  „