Magnþrungin spenna – Tjaldur marði sigur

Um helgina standa yfir Mærudagar á Húsavík sem er bæjarhátið af bestu gerð. Mikið fjölmenni er í bænum enda boðið upp á fjölbreytta dagskrá við allra hæfi. Einn er sá viðburður sem alltaf dregur að sér fjölda gesta, það er hrútasýning Fjáreigendafélags Húsavíkur. Samkvæmt mjög svo óstaðfestum upplýsingum frá lögreglunni á Húsavík var svipaður fjöldi á hrútasýningunni í gærkvöldi og á tónleikum rokksveitarinnar Guns N Roses sem nýlega voru haldnir á Laugardagsvelli.

Eftir harða og jafna keppni var Tjaldur valinn fallegasti hrúturinn. Tjaldur marði sigur á Bassa besta úr Grobbolti.  Kristinn Jóhann Lund sem er eigandi Tjalds var að vonum ánægður með sigurinn enda ekki á hverjum degi sem hann vinnur til verðlauna. Rétt er að geta þess að hrútar úr Grobbholti hafa unnið síðustu ár. Kristján Þór sveitarstjóri Norðurþings sá um að lýsa því sem fram fór og yfirdómarar keppninnar voru Siggi í Skarðaborg og Guðmundur úr Fagraneskoti. Tveir flottir bændur. Eftir magnaða hrútasýningu stóð Kaðlín- handverkshús fyrir tískusýningu sem var glæsileg í alla staði. Hér koma myndir sem teknar voru á hrútasýningunni í gær í frábæru veðri:

 

 

Deila á