Eins og fram hefur komið hefur Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambands Íslands ákveðið að gefa ekki kost á sér áfram á þingi sambandsins í haust. Framsýn stéttarfélag hefur kallað eftir breytingum á forystusveit sambandsins.
Verkalýðsfélag Akraness, VR og Efling hafa sömuleiðis kallað eftir þessum breytingum. Með nýjum formönnum hjá Eflingu og VR urðu ánægjulegar viðhorfsbreytingar til þessara mála.
Nú þegar fyrir liggur að núverandi forseti ASÍ ætlar ekki að gefa kost á sér til endurkjörs er áhugavert að heyra ákveðna forystumenn og starfsmenn innan sambandsins taka undir að breytinga sé þörf. Hvar voru þessir aðilar þegar Framsýn, VR og Verkalýðsfélag Akraness töluðu fyrir þessum breytingum? Þeir hafa greinilega verið fyrir utan þjónustusvæðis þar sem það heyrðist ekkert frá þeim.
Eðlilega hafa nokkur nöfn verið nefnd í fjölmiðlum sem kandidatar í stól forsesta ASÍ enda áhrifamesta embætti íslenskrar verkalýðshreyfingar. Einn af þeim er formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni. Þegar Morgunblaðið gekk á hann og nefndi að nafn hans væri í pottinum yfir þá sem helst væru nefndir sem arftakar Gylfa svaraði Aðalsteinn því til að hann ætlaði sér ekki að gefa kost á sér í embætti forseta ASÍ. Síðan þá hefur verið skorað á hann að endurskoða sína afstöðu. Greinilegt er að ákall er um að næsti forseti sambandsins komi úr grasrótinni. Þrátt fyrir það hefur Aðalsteinn ekki breytt um afstöðu til framboðs til forseta ASÍ. Ekki er ólíklegt að málið verði tekið upp á fundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar í ágúst.
Skorað hefur verið á formann Framsýnar sem hér er á mynd ásamt Þór Péturssyni útgerðarmanni að gefa kost á sér sem næsti forseti ASÍ. Hann segir það ekki koma til greina. Hans vilji standi til þess að félagsmenn innan aðildarfélaga/sambanda ASÍ hafi möguleika á því að gefa kost á sér og síðan gefist öllum félagsmönnum innan Alþýðusambands Íslands kostur á að greiða atkvæði í forsetakjörinu. Þannig eigi lýðræðið að virka. Núverandi kerfi sé ekki til þess fallið að efla tiltrú fólks á verkalýðshreyfingunni.