Laun halda ekki í hækkun verðs á fjölbýli

Tímakaup á Íslandi er að meðaltali 68% hærra en í Evrópusambandinu, skv. tölum frá hagstofu sambandsins. Þegar búið er að taka tillit til verðlags á vörum og þjónustu skilar tímakaupið íslensku launafólki hins vegar 2% minna en í ESB að meðaltali. Staðan er umtalsvert betri í Noregi, þar fær launafólk ríflega þriðjungi meira fyrir tímakaupið sitt en í ESB, að teknu tilliti til verðlags. Þetta er meðal þess sem fjallað er um í nýjasta Efnahagsyfirliti VR.   

Í yfirlitinu er einnig umfjöllun um fasteignamarkaðinn en ljóst er að aldrei hefur verið erfiðara að kaupa fyrstu íbúð. Útborguð laun einstaklinga á aldrinum 25 – 34 ára hafa ekki haldið í við hækkun verðs á fjölbýli og það verður æ erfiðara fyrir ungt fólk sem er á leigumarkaði að leggja til hliðar fyrir íbúð.  

Þá er einnig í yfirlitinu ítarleg umfjöllun um fjölgun ferðamanna á Íslandi. Litið er til reynslu landa þar sem fjölgun ferðamanna var gríðarlega mikil á stuttum tíma og spáð í þróun næstu ára.

Frekari upplýsingar um stöðu mála er hægt að nálgast inn á heimasíðu VR.

 

 

Deila á