Flestir þekkja vel þá staðreynd að Íslendingar vinna mun lengri vinnudag en þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við. Vinir og ættingjar á hinum Norðurlöndunum hafa meiri tíma til að sinna fjölskyldu, vinum og áhugamálum. Við þessu vill BSRB bregðast með því að stytta vinnuvikuna úr 40 stundum í 36 án launaskerðingar. Þegar hafa verið stigin mikilvæg skref með tilraunaverkefnum sem bandalagið stendur fyrir ásamt Reykjavíkurborg og ríkinu.
Í dag vinna um 2.700 einstaklingar á vinnustöðum sem taka þátt í þessum tveimur tilraunaverkefnum. Þetta eru bæði staðir þar sem unnið er í dagvinnu og vinnustaðir þar sem unnin er vaktavinna. Hjá ríkinu hafa fjórar stofnanir tekið þátt og verða fimm frá og með haustinu. Reykjavíkurborg byrjaði fyrr á sínu tilraunaverkefni og hefur árangurinn verið svo jákvæður að öllum vinnustöðum borgarinnar var boðið að taka þátt síðasta vor.
Þó BSRB taki þátt í tilraunaverkefnunum einskorðast þátttakan ekki við félagsmenn aðildarfélaga BSRB. Fjölmargir félagsmenn stéttarfélaga sem eiga aðild að Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna og Kennarasambandi Íslands taka þátt í að stytta vinnuvikuna. Þá eru dæmi um vinnustaði eins og Hugsmiðjuna sem hafa innleitt styttingu vinnuviku hjá sér til framtíðar. Allt hefur þetta áhrif og nú hafa Akraneskaupstaður, Akureyrarbær og Reykjanesbær ákveðið að hefja tilraun um styttri vinnuviku meðal sinna starfsmanna. Fleiri munu fylgja í kjölfarið.
Jákvæðar niðurstöður
Niðurstöður fram að þessu sýna að starfsánægja hefur aukist, líðan á vinnustað batnað, lífsgæði aukist og auðveldara er fyrir starfsfólkið að samræma vinnu og einkalíf. Í viðtölum við starfsfólks hefur meðal annars komið fram að þau upplifa að stressið heima fyrir hafi minnkað með styttingunni. Afköst starfsfólks hafa jafnframt haldist óbreytt þó vinnutíminn sé styttri og á flestum vinnustöðum hefur dregið verulega úr skammtímaveikindum.
Það er ekki bara verkalýðshreyfingin sem vill stytta vinnuvikuna. Skynsamir stjórnendur vilja einnig fara þessa leið enda sýnir reynslan að ávinningurinn er verulegur fyrir bæði vinnustaðinn og starfsfólkið.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.