Ásmundur Einar Daðason Félags- og jafnréttisráðherra boðaði formann Framsýnar til óformlegs fundar í vikunni með honum og aðstoðarmanni. Tilefnið var að fara almennt yfir málin. Húsnæðismál, skattamál, vaxtamál, staða landsbyggðarinnar, jafnréttismál, kjaramál og væntanlegar breytingar á forystu Alþýðusambands Íslands voru meðal þeirra málefna sem tekin voru upp á fundinum. Ásmundur Einar lagði áherslu á gott samstarf við Framsýn og verkalýðshreyfinguna í heild sinni enda ráðuneytinu umhugað um velferð fólks og gott samstarf við verkalýðshreyfinguna. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, sagðist ánægður með boð ráðherra. Það væri afar mikilvægt að aðilar, það er stjórnvöld á hverjum tíma og verkalýðshreyfingin, gætu átt samtal um málefni líðandi stundar.