Skorað á formann Framsýnar að endurskoða sína afstöðu

Eins og fram hefur komið hefur Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambands Íslands ákveðið að gefa ekki kost á sér áfram á þingi sambandsins í haust. Framsýn stéttarfélag hefur kallað eftir breytingum á forystusveit sambandsins.

Verkalýðsfélag Akraness, VR og Efling hafa sömuleiðis kallað eftir þessum breytingum. Með nýjum formönnum hjá Eflingu og VR urðu ánægjulegar viðhorfsbreytingar til þessara mála.

Nú þegar fyrir liggur að núverandi forseti ASÍ ætlar ekki að gefa kost á sér til endurkjörs er áhugavert að heyra ákveðna forystumenn og starfsmenn innan sambandsins taka undir að breytinga sé þörf. Hvar voru þessir aðilar þegar Framsýn, VR og Verkalýðsfélag Akraness töluðu fyrir þessum breytingum? Þeir hafa greinilega verið fyrir utan þjónustusvæðis þar sem það heyrðist ekkert frá þeim.

Eðlilega hafa nokkur nöfn verið nefnd í fjölmiðlum sem kandidatar í stól forsesta ASÍ enda áhrifamesta embætti íslenskrar verkalýðshreyfingar. Einn af þeim er formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni. Þegar Morgunblaðið gekk á hann og nefndi að nafn hans væri í pottinum yfir þá sem helst væru nefndir sem arftakar Gylfa svaraði Aðalsteinn því til að hann ætlaði sér ekki að gefa kost á sér í embætti forseta ASÍ. Síðan þá hefur verið skorað á hann að endurskoða sína afstöðu. Greinilegt er að ákall er um að næsti forseti sambandsins komi úr grasrótinni. Þrátt fyrir það hefur Aðalsteinn ekki breytt um afstöðu til framboðs til forseta ASÍ. Ekki er ólíklegt að málið verði tekið upp á fundi stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar í ágúst.

Skorað hefur verið á formann Framsýnar sem hér er á mynd ásamt Þór Péturssyni útgerðarmanni að gefa kost á sér sem næsti forseti ASÍ. Hann segir það ekki koma til greina. Hans vilji standi til þess að félagsmenn innan aðildarfélaga/sambanda ASÍ hafi möguleika á því að gefa kost á sér og síðan gefist öllum félagsmönnum innan Alþýðusambands Íslands kostur á að greiða atkvæði í forsetakjörinu. Þannig eigi lýðræðið að virka. Núverandi kerfi sé ekki til þess fallið að efla tiltrú fólks á verkalýðshreyfingunni.

Ráðherra bauð formanni Framsýnar í heimsókn

Ásmundur Einar Daðason Félags- og jafnréttisráðherra boðaði formann Framsýnar til óformlegs fundar í vikunni með honum og aðstoðarmanni. Tilefnið var að fara almennt yfir málin. Húsnæðismál, skattamál, vaxtamál, staða landsbyggðarinnar, jafnréttismál, kjaramál og væntanlegar breytingar á forystu Alþýðusambands Íslands voru meðal þeirra málefna sem tekin voru upp á fundinum. Ásmundur Einar lagði áherslu á gott samstarf við Framsýn og verkalýðshreyfinguna í heild sinni enda ráðuneytinu umhugað um velferð fólks og gott samstarf við verkalýðshreyfinguna. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, sagðist ánægður með boð ráðherra. Það væri afar mikilvægt að aðilar, það er stjórnvöld á hverjum tíma og verkalýðshreyfingin, gætu átt samtal um málefni líðandi stundar.

 

Farðu frá…..

Starfsmenn Vegagerðarinnar hafa verið að laga vegi í nágrenni Húsavíkur og reyndar lengra til í héraðinu. Kristján Önundarson var á ferðinni ásamt öðrum vegagerðarmönnum frá Húsavík í Kelduhverfi á dögunum þegar formaður Framsýnar áttu þar leið um. Mikilvægt er að brýna fyrir vegfarendum að aka gætilega um vegina, ekki síst þar sem þeir sjá starfsmenn Vegagerðarinnar við störf. Þeir starfa við hættulegar aðstæður, ekki síst þegar umferðarhraðinn er mikill. Þess vegna ekki síst er mikilvægt að sýna mikla tillitssemi.

Kraftur í starfi GPG á Raufarhöfn – vantar fleiri daga í vinnuvikuna

Formaður Framsýnar kom við hjá starfsmönnum GPG á Raufarhöfn síðasta fimmtudag. Þar var allt brjálað að gera en um 30 starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu að staðaldri. Um þessar mundir voru um 20 starfsmenn við störf enda hluti starfsmanna komnir í sumarfrí. Verkstjórar og starfsmenn töldu mikilvægt að fjölga dögum í vinnuvikunni svo menn kæmust yfir að klára hráefnið sem þyrfti að vinna hjá fyrirtækinu á hverjum tíma enda fiskaðist vel.

Spjallað yfir hádegisverði

Fiskeldi Samherja í Öxarfirði hefur vaxið hratt síðustu ár enda mikill metnaður til staðar hjá forsvarsmönnum fyrirtækisins að auka eldið enn frekar. Formaður Framsýnar átti góða stund með starfsmönnum og forsvarsmönnum fyrirtækisins fyrir helgina þar sem farið var yfir framleiðsluna og áform fyrirtækisins um frekari stækkun á komandi árum. Fyrirtækið er með laxeldi í kerjum upp á landi. Á þriðja tug starfsmanna starfar við eldið auk þess sem fyrirtækið leggur mikið upp úr því að skapa frekari atvinnu með því að leita til verktaka á svæðinu með ákveðna verkþætti sem þarf að vinna og tengjast starfsemi fiskeldisins. Að loknum hádegisverði var boðið upp á skoðunarferð um athafnasvæðið sem fer stækkandi með hverju árinu. Ljóst er að fiskeldið skiptir verulega miklu máli fyrir íbúa og samfélagið við Öxarfjörð.

Staðan tekin í Ásbyrgi

Allir sem eiga leið um Kelduhverfi eiga að gefa sér tíma til að koma við í versluninni í Ásbyrgi hjá Ísak, eiginkonu og hans ágæta starfsfólki. Ísak hefur mjög góða yfirsýn yfir stöðuna, mannlífið og framvindu mála í ferðaþjónustunni á austursvæðinu. Fulltrúar Framsýnar komu við í versluninni þegar þeir voru á ferðinni um helgina og tóku stöðuna með starfsfólkinu.

Það er ekki annað hægt að en að fá sér kaffi og kleinu þegar stoppað er í Ásbyrgi.

Starfsmenn voru ánægðir með lífið og tilveruna í versluninni í Ásbyrgi.

Vinnustaðaheimsóknir – undirbúningur hafinn fyrir næstu kjarasamningagerð

Á næstu vikum munum við fjalla um heimsóknir forsvarsmanna Framsýnar á vinnustaði á félagssvæðinu. Starfsfólk á vinnustöðum sem óskar sérstaklega eftir því að fulltrúar félagsins láti sjá sig er beðið um að setja sig í samband við skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík. Við byrjum á því að segja frá því að á laugardaginn var komið við hjá starfsmönnum Vatnajökulsþjóðgarðs í Ásbyrgi þar sem starfsmenn voru að hamast við að slá lúpínu í landi  þjóðgarðsins.

Hilmir Smári Kristinsson gaf sér smá tíma til að ræða við forsvarsmenn Framsýnar áður en hann hélt áfram að slá lúpínuna.

Bjartey Stefáns gaf Hilmi ekkert eftir og sló eins og enginn væri morgundagurinn.

Starfsmenn í grillstuði

Það er mikið um stuðbolta meðal starfsmanna sem starfa hjá fiskeldisfyrirtækinu Rifós í Kelduhverfi. Þegar fulltrúi Framsýnar var á ferðinni á dögunum voru þeir að grilla grillsneiðar frá Fjallalambi enda veðrið gott og allir í geggjuðu stuði auk þess sem tveir erlendir starfsmenn frá Búlgaríu, sem hafa verið við störf hjá fyrirtækinu, voru að kveðja og halda heima á leið eftir ánægjulega dvöl í Kelduhverfi. Það staðfestu þeir við talsmann Framsýnar sem var á staðnum til að heimsækja stjórnendur og starfsmenn fyrirtækisins. Að sjálfsögðu tók hann þátt í gleðinni með starfsmönnum Rifós áður en hann hélt heim á leið eftir vel heppnaðar vinnustaðaheimsóknir á austursvæðinu, það er frá Kelduhverfi til Raufarhafnar.

Jóhannes Guðmundsson starfsmaður og grillmeistari Rifós er hér með tveimur erlendum starfsmönnum sem voru að kveðja sína samstarfsmenn. Þeir voru ánægðir með dvölina í Kelduhverfi.

Framsýn með kynningu á Sólstöðuhátíð

Um síðustu helgi var Sólstöðuhátíð haldin á Kópaskeri sem fór vel fram. Boðið var upp á fjölbreytta hátíð frá föstudegi til sunnudags. Meðal þess sem boðið var upp á laugardeginum var kynning á starfsemi fyrirtækja og félagasamtaka í héraðinu auk þess sem Framsýn var boðið að vera með kynningu á starfsemi félagsins. Hópur fólks leit við hjá fulltrúum Framsýnar og fengu upplýsingar um starfsemina. Nýir bæklingar með upplýsingum um réttindi félagsmanna voru vinsælir sem og húfur og ljóðabókin „Tvennir tímar“ sem félagið gaf nýlega út. Konfekt og kaffi var einnig í boði fyrir gestina. Sjá myndir sem teknar voru á kynningunni sem fram fór í Pakkhúsinu á Kópaskeri á laugardaginn.

 

Lokum í dag kl. 14:50

Vegna landsleiks Íslands og Nígeríu á HM í dag verður skrifstofu stéttarfélaganna lokað kl. 14:50. Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda.

 

VA lagði Hval hf. – tekist á um greiðslur vegna vinnu á frídögum

Samkvæmt kjarasamningum og lögum skal launafólk fá einn frídag á viku í beinu framhaldi af daglegri lágmarkshvíld, þ.e. 35 klst. samfelld hvíld einu sinni í viku. Engin sérstök ákvæði eru í kjarasamningum eða lögum um hvernig við skuli brugðist ef þessi ákvæði eru ekki virt, ef frá eru talin sektarákvæði. Hæstiréttur staðfesti þann 14.6 sl. með dómi í máli nr. 594/2017 að atvinnurekendur bera ábyrgð á því að vinna sé skipulögð þannig að vikulegur frídagur sé virtur. Hæstiréttur segir jafnframt að enda þótt ekki sé gert ráð fyrir að umræddir frídagar séu launaðir sé ljóst að atvinnurekendur beri ábyrgð á að starfsmenn fái þá lágmarkshvíld sem í kjarasamningum greinir og ef atvinnurekendur fari ekki að kjarasamningum að þessu leyti eignist starfsmenn rétt til dagvinnulauna vegna þeirra vikulegu frídaga sem þeir ekki fá.

Ekki hefur verið fjallað um það fyrir dómi hvort frávik frá reglunni um 48 stunda vinnuviku að jafnaði skapi sambærilegan rétt en með sömu rökum og beitt var í Hrd. 594/2017 kann vel að vera að svo sé enda skylda atvinnurekanda jafn mikil í þessu efni eins og varðar vikulega og daglega hvíld.

Dómur Hæstarétts

Gylfi forseti ASÍ gefur ekki kost á sér í haust

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, tilkynnti á miðstjórnarfundi sambandsins í dag að hann hygðist ekki bjóða sig fram til endurkjörs á 43. þingi ASÍ í október. Gylfi segir að þetta hafi ekki verið einföld ákvörðun, en að hann sé engu að síður sannfærður um að hún sé rétt.

„Ég tók við sem forseti ASÍ þremur vikum eftir hrun og það var gríðarleg áskorun sem beið okkar sem vorum í forystu á vinnumarkaðinum á þeim tíma. Nú 10 árum síðar erum við komin fyrir vind og vel það. Kaupmáttaraukningin á síðustu þremur árum er sú mesta í Íslandssögunni, atvinnuleysi er lítið, verðbólga lág og vextir í sögulegu lágmarki, þótt enn séu þeir alltof háir. Allir þessir þættir skipta launafólk miklu máli,“ segir Gylfi.

„Undanfarið hafa deilur innan verkalýðshreyfingarinnar hins vegar harðnað og menn tekist á um leiðir í kjarabaráttunni. Í þeim deilum virðist því miður sem persóna mín, í stað skoðana minna, sé orðin aðalatriði og þá á kostnað málefnalegrar umræðu. Alþýðusambandið er meira en 100 ára gamalt og gríðarlega mikilvægt í allri réttinda- og kjarabaráttu launafólks á Íslandi. ASÍ er mun stærra en nokkur einstaklingur, en ég viðurkenni að það er erfitt og lýjandi að eiga í átökum við félaga sína. Ég hef ávalt verið reiðubúinn til að berjast með félögum mínum og fyrir þá, en að berjast við þá gefur mér ekkert og skilar heldur engu fyrir hreyfinguna.

Ég er sannfærður um að sú sýn sem forysta Alþýðusambandsins og aðildarfélaganna hefur haft að leiðarljósi á síðustu áratugum hafi skilað miklum árangri og ég vona að áhersla verði áfram lögð á að tryggja stöðugleika og langtímaárangur í kjarabaráttunni. Ef brotthvarf mitt getur orðið til þess að auka líkurnar á að áfram verði haldið á svipuðum nótum ber mér að íhuga stöðu mína og hlutverk. Það hef ég nú gert og niðurstaða mín er sú að ég mun ekki gefa kost á mér sem forseti ASÍ á þinginu okkar í haust. Ég tek þessa ákvörðun í þakklæti og auðmýkt fyrir að hafa fengið að starfa fyrir íslenska verkalýðshreyfingu allan minn starfsferil. Ég vona sannarlega að hreyfingin nái vopnum sínum og sameinist í störfum sínum fyrir launafólk á Íslandi í komandi kjarasamningum. Verkalýðshreyfingin er nefnilega svo miklu öflugri þegar allir róa í sömu átt,“ segir Gylfi Arnbjörnsson.

Gylfi Arnbjörnsson hefur verið forseti ASÍ í 10 ár en hann var fyrst kjörinn í október 2008 og endurkjörinn fjórum sinnum eftir það. Þar á undan var Gylfi framkvæmdastjóri ASÍ frá 2001 en hann kom fyrst til starfa hjá verkalýðshreyfingunni árið 1989, þá sem hagfræðingur ASÍ hjá Kjararannsóknarnefnd.

Formaður á ferðinni á austursvæðinu

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, verður á ferðinni á morgun, fimmtudag, í Kelduhverfi, Öxarfirði og Raufarhöfn. Hann mun fara í vinnustaðaheimsóknir auk þess að ræða við þá einstaklinga á svæðinu sem hafa óskað formlega eftir samræðum við hann. Þeir aðrir sem vilja ná tali af honum á svæðinu er velkomið að setja sig í samband við Aðalstein á morgun í síma 8646604.

Vís-arar í fótboltastuði

Það vakti athygli starfsfólks á Skrifstofu stéttarfélaganna hversu myndarlega uppábúnir starfsmenn VÍS á Húsavík voru í dag. Tilefnið var vitanlega fyrsti leikur íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu sem fer fram á morgun en þá mun liðið berjast við landslið Argentínu.

Eins og augljóst er þá voru þeir kumpánar í banastuði yfir þessu öllu saman enda stórt tilefni. Ekki var annað að heyra á þeim en að sigurmöguleikar íslenska liðsins séu með ágætasta móti á morgun.

Þrátt fyrir að við hinum megin á skrifstofunni höfum ekki tekið stemninguna alla leið eins og starfsmenn VÍS tökum við heilshugar undir baráttukveðjur þeirra til strákanna í Rússlandi.

Eins og sjá má voru okkar menn merktir í bak og fyrir og bjartsýnin sveif yfir vötnum. Hvort tölustafurinn sé merki um spá þeirra fyrir sætið sem íslenska liðið lendir í leiknum skal þó ósagt látið.

VÞ- Mótmæla skerðingu á þjónustu og auglýsingaherferð ASÍ

Stjórn Verkalýðsfélags Þórshafnar hélt stjórnarfund þann 13. júní sl. Á fundinum sköpuðust miklar umræður um auglýsingarherferð ASÍ sem hefur hlotið mikla og réttmæta gagnrýni undanfarin misseri. Stjórn Verkalýðsfélags Þórshafnar tekur heilshugar undir þessa gagnrýni og telur að þar sé verið að senda vægast sagt misvísandi skilaboð til hins almenna verkamanns.

Stjórni ályktaði eftirfarandi: „Stjórn Verkalýðsfélags Þórshafnar gerir alvarlegar athugasemdir við auglýsingarherferð ASÍ. Þessi auglýsingarherferð heldur á lofti áróðri sem beinist sérstaklega gegn kjarabaráttu verkafólks þar sem varað er við launahækkunum og verkföllum. Telur stjórn Verkalýðsfélags Þórshafar að slíkur áróður sé verkafólki síst til framdráttar og telur alvarlegt að stjórn ASÍ standi fyrir slíkum áróðri í sínum auglýsingum „

Þá fjallaði stjórn Verkalýðsfélags Þórshafnar um þá stöðu sem komin er upp hjá Landsbankaútibúinu á Þórshöfn þar sem enn er verið að skerða þjónustu íbúa hvað varða banka- og póstþjónustu. Stjórn telur að nú sé nóg komið og ályktaði eftirfarandi: „Verkalýðsfélag Þórshafnar harmar þá ákvörðun Landsbankans að skerða enn frekar opnunartíma í útibúum sínum út á landi. Íbúar í dreifðum byggðum þurfa mikið að stóla á t.d. póstþjónustu með aðkeypt aðföng. Telur Verkalýðsfélag Þórshafnar að sá opnunartími sem verið hefur síðustu misseri sé algjört lámark og ekki hægt að bjóða íbúum upp á enn frekari skerðingu“

 

 

Til fyrirmyndar hjá starfsmönnum Hvamms

Starfsfólk Hvamms, heimili aldraðra á Húsavík buðu forsvarsmönnum Framsýnar í heimsókn til að kynna fyrir þeim ákvæði kjarasamninga. Formaður Framsýnar fór yfir samninginn og helstu réttindi sem starfsmenn hafa hjá stéttarfélaginu. Starfsmenn lögðu fram margar spurningar sem formaðurinn svaraði eftir bestu getu. Svona boð frá starfsmönnum um að koma í heimsókn til að útskýra og fara yfir ákvæði kjarasamninga á vinnustaðnum er til mikillar fyrirmyndar. Rétt er að taka fram að starfsmenn stéttarfélaganna eru ávallt reiðubúnir að koma í vinnustaðaheimsóknir með fræðslu um kjarasamninga og málefni stéttarfélaganna.

Íbúar í stuði – grillað í Þorrasölum

Eins og kunnugt er eiga stéttarfélögin Framsýn og Þingiðn íbúðir í Þorrasölum 1 í Kópavogi fyrir félagsmenn. Íbúðirnar eru mjög vinsælar og því var ákveðið að bæta við einni íbúð til viðbótar á dögunum sem fer í útleigu til félagsmanna í haust. Stéttarfélögin eiga því orðið 5 íbúðir í fjölbýlishúsinu. Á dögunum var boðað til útifundar meðal íbúa í Þorrasölum 1. Tilgangur fundarins var að íbúar kynntust og grilluðu saman. Að sjálfsögðu fór fundurinn vel fram og ákveðið var að gera þessa samkomu að árlegum viðburði. Á miðfylgjandi mynd má sjá íbúa vera að undirbúa grillið.

Starfsmenn á námskeiði – persónuvernd til umræðu

Um þessar mundir eru ný lög um persónuvernd til umræðu á Alþingi. Fari lögin í gegnum þingið, sem reiknað er með, er þeim ætlað að tryggja persónuverndina enn frekar. Í ljósi þessa er mikilvægt að þeir aðilar sem fara með persónuupplýsingar eins og t.d. stéttarfélög búi sig vel undir breytingarnar. Til að mæta væntanlegum nýjum lögum stóðu stéttarfélögin fyrir fræðslu fyrir starfsmenn stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum, það er frá skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík og á Þórshöfn. Halldór Oddsson lögmaður ASÍ kom til Húsavíkur og fór yfir helstu breytingarnar sem boðaðar eru í frumvarpinu um persónuvernd. Ljóst er að um verulegar breytingar er um að ræða.


Halldór Oddsson lögmaður ASÍ gerði starfsmönnum stéttarfélaganna grein fyrir helstu breytingum á lögum um persónuvernd sem eru til umræðu á Alþingi.

Spreðað í auglýsingar – herferð ASÍ kostaði 6,3 milljónir fyrir utan vsk.

Eins og kunnugt er gerðu nokkur stéttarfélög alvarlegar athugasemdir við auglýsingaherferð ASÍ varðandi kjaramál sem verið hafa í birtingu undanfarnar vikur. Ótrúlegur áróður kemur fram í auglýsingunum sem beinist sérstaklega að kjarabaráttu verkafólks, varað er við launahækkunum og verkföllum. Virt auglýsingastofa var fengin til að gera auglýsingarnar enda kostuðu þær sitt eða um 6,3 milljónir fyrir utan vsk. Heildarkostnaður er því væntanlega um 7,8 milljónir.

Meðal þeirra stéttarfélaga sem hefur gert athugasemdir við auglýsingaherferð ASÍ og störf forsetans er Framsýn stéttarfélag. Allt bendir til að breytingar verði á forystu ASÍ á þingi þess í haust.