Eru leigjendur bara í 101 Reykjavík?

Yfirlýsingar frá nýstofnuðum samtökum leigjenda, sem eru frjáls félagasamtök, hafa vakið töluverða athygli. Þar velja þau að gera lítið úr lífsviðurværi fólks á Vestfjörðum í samanburði við stöðu leigjenda á höfuðborgarsvæðinu. Það er um leið og sömu samtök hafa leitað eftir fjárhagslegum stuðningi frá verkafólki á Vestfjörðum og reyndar frá öðrum landshlutum líka með formlegum erindum til stéttarfélaga innan Starfsgreinasambands Íslands. Formannafundur Starfsgreinasambandsins tók málið til umræðu á fundi fyrir helgina. Framsýn stéttarfélag lýsir yfir verulegum vonbrigðum með málflutning samtakanna gagnvart íbúum á landsbyggðinni sérstaklega á Vestfjörðum. Staða leigjenda er í alltof mörgum tilfellum mjög slæm. Það sama á við um stöðu byggðar og atvinnulífsins á landsbyggðinni sem er víða mjög brothætt svo ekki sé meira sagt. Byggðir sem flokkast undir „Brothættar byggðir“ í skilgreiningu Byggðastofnunnar. Það að gera lítið úr störfum þingmanna þegar kemur að atvinnumálum á landsbyggðinni er ekki sæmandi, það styrkir ekki stöðu leigjenda. Eðlilegt er að nýstofnuð samtök leigjenda biðjist afsökunar á þessu framferði ætli þau sér að vinna með verkalýðshreyfingunni að því að bæta út stöðu leigjenda á landsvísu, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu.

Hér má lesa yfirlýsinguna frá Félagi leigjenda:

“VESTFIRÐINGAR EIGA ÞINGMENN, LEIGJENDUR EKKI

Heimili á leigumarkaði eru jafn mörg og öll heimili í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði að mati Íbúðalánasjóðs. Í þessu sveitarfélögum búa um 81 þúsund manns og ætla má að það sé nálægt þeim fjölda sem býr í leiguhúsnæði. Stjórnvöld taka ekkert tillit til hagsmuna þessa fólks, það nýtur engra verndar fyrir leigusölum sem okra á því, stærsti hlutinn býr við lítið sem ekkert öryggi og hrekkst á milli hverfa. Öfugt við nágrannalönd okkar er hér ekkert þak á húsaleigu, nánast engin vernd leigjenda fyrir uppsögn húsnæðis og engar takmarkanir á hversu mikið má hækka leigu né hversu ört.

Í gær setti ríkisstjórnin fram frumvarp til að færa einu fyrirtæki á Vestfjörðum starfsleyfi sem þar til bær úrskurðaraðili hafði fellt úr gildi. Ráðherrar rökstyðja þetta með því að þeir séu að bjarga störfum á Vestfjörðum, en nokkrir tugir manna hafa atvinnu af þessu eldi.

Vestfirðingar eru innan við sjö þúsund manns. Leigjendur eru meira en ellefu sinnum fleiri. Þeir hafa árum saman búið við ömurlegar efnahagslegar hamfarir þar sem sífellt hækkandi leiga étur upp kaupmátt fólks og hrekur fjölskyldur í fátækt. Hver eru viðbrögð stjórnvalda? Engin, akkúrat engin viðbrögð þótt vandinn hafi verið mikill árum saman og versni sífellt.

Kannski ættu leigjendur að fara fram á sérstakt kjördæmi til að geta notað kjördæmapot til að verja hagsmuni sína. Ef 81 þúsund leigjendur væru í einu kjördæmi ættu þeir tæplega 15 þingmenn. Ef þeir nytu þess, eins og Vestfirðingar, að fá hlutfallslega fleiri þingmenn en aðrir landsmenn ættu leigjendur 26 þingmenn, gætu myndað stjórn með þingmönnum úr láglaunakjördæminu og aðlagað Ísland að sínum hagsmunum.

En leigjendur eru ekki kjördæmi og leigjendur eiga ekki einn einasta þingmann. Stjórnvöld styrkja hagsmunabaráttu leigjenda og Samtök leigjenda ekki um krónu. Þau hlusta ekki á leigjendur og taka ekkert tillit til vanda þeirra og hagsmuna.”

Deila á