Eins og fjallað hefur verið um á heimasíðu stéttarfélaganna gerðu fulltrúar frá Framsýn sér ferð til Póllands á dögunum til að kynna sér málefni verkalýðshreyfingarinnar í Póllandi auk þess að nota ferðina til að funda með forsvarsmönnum Solidarność um samstarf félaganna. Móttökur Solidarność voru hreint út sagt frábærar og eftir vinsamlegar samræður handsöluðu formenn Framsýnar og Solidarność samkomulag þess efnis að félögin skiptist á upplýsingum sín á milli er tengist verkalýðsmálum og réttindum verkafólks í löndunum tveimur. Forsvarsmenn Solidarność telja sig geta lært töluvert á uppbyggingu verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi auk þess að kynna sér hvernig Íslendingar hafa tekist á við þann mikla fjölda erlendra starfsmanna sem komið hafa til starfa á Íslandi. Pólverjar eru að glíma við svipaðan vanda og við Íslendingar. Meðan Pólverjar yfirgefa landið í leit að betra lífi og atvinnu sem gefur þeim mun hærri laun en í Póllandi leita Úkraínumenn og önnur þjóðarbrot sem búa við léleg kjör til Póllands í atvinnuleit. Vandi Íslendinga og Pólverja er því svipaður er varðar að gæta hagsmuna þessa hóps. Framsýn lagði sérstaka áherslu á að fá aðstoð Solidarność við að afla upplýsinga um verktaka sem hafa verið að koma til Íslands með starfsmenn. Því miður er oft um að ræða fyrirtæki sem gera í því að snuða starfsfólk. Þá leikur grunur á um að pólskir starfsmenn hafi verið að framvísa fölsuðum vottorðum til Framsýnar sem félagið er með til skoðunar, það er til þess að fá styrki úr sjúkrasjóði félagsins. Framsýn tók málið upp við Solidarność sem gáfu fulltrúum Framsýnar góðar upplýsingar og ráð hvað það varðar.
Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson og Krzysztof Dosla forseti Solidarność í Gdansk handsöluðu samkomulag um samstarf verkalýðsfélaganna. Við það tækifæri tók Krzysztof Dosla fram að hann væri mjög áhugasamur um samstarfið. Formaður Framsýnar svaraði því til að fulltrúar Solidarność væru alltaf velkomnir í heimsókn til Framsýnar.
Að sjálfögðu fékk Solidarność gjöf frá Framsýn, það er mynd af Húsavík og fána félagsins.
Gengið var frá samkomulagi verkalýðsfélaganna inn á skrifstofu forseta Solidarność.