Framsýn stéttarfélag samþykkti í dag að senda frá sér svohljóðandi ályktun um málefni leigjenda sem félagið telur vera í miklum ólestri:
„Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar skorar á ríki, sveitarfélög og lífeyrissjóði að gera átak í málefnum leigjenda á Íslandi með það að markmiði að bæta stöðu þeirra.
Allt of hátt leiguverð og óvissa í húsnæðismálum fyrir þennan stóra hóp er ólíðandi að mati félagsins, sérstaklega er varðar lágtekjufólk. Fólk sem býr við kröpp kjör á ekki auðvelt með að leigja á frjálsum markaði miðað við núverandi okur á leigumarkaði.
Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að styrkja þurfi leigumarkaðinn og gera hann að raunverulegum valkosti. Til að svo geti orðið er mikilvægt að skýrar reglur gildi um leigumarkaðinn, að leigjendur eigi sér málsvara og geti leitað réttar síns.
Framsýn telur því brýnt að komið verði á fót formlegri leiðbeininga- og kvörtunarþjónustu þar sem neyðarástand ríkir í húsnæðismálum. Ráðinn verði umboðmaður leigjenda er aðstoði fólk á leigumarkaði, svari fyrirspurnum þeirra um lagalegan rétt sinn og hafi milligöngu í deilumálum. Til þess að svo geti orðið er mikilvægt að opinbert fjármagn verði sett í málaflokkinn.
Höfum í huga að öruggt húsnæði er réttur manneskjunnar, en ekkert til að gambla með.“