Áhugi fyrir fræðslu um verkalýðsmál

Töluvert hefur verið um beiðnir til Framsýnar um fræðslu frá stofnunum, fyrirtækjum og skólum um kjarasamninga og starfsemi stéttarfélaga. Fulltrúar frá félaginu hafa verið beðnir um að kynna kjarasamninga og réttindi fólks á vinnumarkaði. Nýlega var t.d. kynning fyrir unga starfsmenn sem eru um þessar mundir að hefja störf á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga og á Hvammi, heimili aldraðra og eru þessar myndir teknar við það tækifæri.

Sérkjarasamningur við PCC BakkiSilicon undirritaður

Sérkjarasamningur milli Framsýnar stéttarfélags og Þingiðnar, félagi iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum annarsvegar og Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd PCC BakkiSilicon hinsvegar var undirritaður um klukkan 19:00 í gærkvöldi í húsnæði Samtaka atvinnulífsins. Eftirfarandi yfirlýsing var gefin út í kjölfar undirritunarinnar:

„Í dag var undirritaður sérkjarasamningur milli Samtaka atvinnulífsins f.h. PCC Bakkisilicon hf. og stéttarfélaganna Framsýnar og Þingiðnar. Samningurinn byggir á Lífskjarasamningnum sem undirritaður var 3. apríl 2019, m.a. hvað varðar launabreytingar, forsendur og styttingu vinnutíma. Tekið er upp nýtt launakerfi sem byggir á starfsaldri, hæfni í starfi og skiptingu ávinnings vegna bættrar framleiðslu, aukinna gæða og annarra þátta sem áhrif geta haft á rekstur fyrirtækisins og vinnuumhverfi starfsmanna. Þá verður einnig lögð áhersla á frekari starfsþjálfun á vinnustað og að starfsmenn geti stöðugt aukið við færni sína og þekkingu‟.

Myndin að ofan er af Aðalsteini Á. Baldurssyni, formanni Framsýnar og Steinþóri Þórðarsyni frá PCC BakkiSilicon.

Reiknað með að skrifað verði undir í dag

Samkvæmt áræðanlegum heimildum heimasíðunnar er líkilegt að skrifað verði undir sérkjarasamning PCC BakkiSilicon og stéttarfélaganna Framsýnar og Þingiðnar í dag. Viðræður aðila hafa gengið vel síðustu daga og fátt því til fyrirstöðu að skrifað verði undir nýjan samning í dag. Formaður Framsýnar fór suður í morgun til frekari viðræðna við Samtök atvinnulífsins og til að leita leiða til að klára gerð samningsins. Hann var hóflega bjartsýn þegar tók á flug til Reykjavíkur rétt í þessu með Flugfélaginu Erni um að samningar tækjust í dag.

Lausar vikur í orlofshúsum í sumar

Við vekjum athygli á að eftirfarandi vikur eru lausar í orlofshúsunum í sumar. Þeir sem hafa áhuga hafi samband við Skrifstofu stéttarfélaganna.

Svignaskarð:
23. ágúst – 30. ágúst

Mörk í Grímsnesi:
14. júní – 21. júní
16. ágúst – 23. ágúst

Eiðar:
7. júní – 14. júní
14. júní – 21. júní
23. ágúst – 30. ágúst

Illugastaðir:
14. júní – 21. júní

Kjarnaskógur:
23. ágúst – 30. ágúst

Bjarkasel á Flúðum:
21. júní – 28. júní
28. júní – 5. júlí
2. ágúst – 9. ágúst

Flókalundur:
28. júní – 5. júlí

Sumarkaffi á Raufarhöfn

Framsýn stóð fyrir kaffiboði á Raufarhöfn á föstudaginn í Kaupfélaginu. Um er að ræða árvissan viðburð sem notið hefur töluveðra vinsælda meðal bæjarbúa. Um 100 manns komu og þáðu kaffi, konfekt og tertu sem Kvenfélagið á Raufarhöfn lagði til. Að þessu sinni var kaffiboðið haldið í Kaupfélaginu sem kom mjög vel út enda notalegur staður. Auk þess að snæða góða tertu gafst heimamönnum tækifæri á að ræða við formann, varaformann og eftirlitsmann stéttarfélaganna um allt milli himins og jarðar en þeir voru á staðnum. Ástæða er til að þakka eigendum Kaupfélagsins fyrir aðstoðina og afnotin af staðnum.

Sjómenn heiðraðir á Húsavík

Framsýn stéttarfélag kom að því að heiðra sjómenn á Húsavík í dag, það er á Sjómannadaginn. Heiðrunin fór fram í Sjóminjasafninu á Húsavík. Að þessu sinni voru Hermann Ragnarsson og Jakob Gunnar Hjaltalín heiðraðir fyrir störf sín til sjós en þeir voru til fjölda ára á sjó frá Húsavík og nokkrum öðrum höfnum á Íslandi. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, flutti ávarp og fór yfir þeirra starfsæfi til sjós.

Ágætu tilheyrendur!

Ég vil í upphafi óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra um land allt til hamingju með daginn. Reyndar okkur öllum enda hefur sjávarútvegur í gegnum tíðina verið einn okkar mikilvægasti atvinnuvegur og fært okkur gjaldeyri og tekjur til að byggja upp grunnstoðir þjóðfélagsins. Þrátt fyrir að útgerð á Húsavík hafi dregist töluvert saman á undanförnum áratugum skipar dagurinn sem áður ákveðinn sess í lífi okkar Þingeyinga, enda tengjumst við sjómennskunni á einn eða annan hátt. Sjórinn gefur en hann tekur líka stundum sinn toll, því miður. Þeirri merkilegu hefð er viðhaldið víða um land að heiðra sjómenn á Sjómannadaginn, sjómenn sem þótt hafa skarað fram úr og skilað góðu og fengsælu starfi, fjölskyldum þeirra og þjóðinni allri til heilla. Í dag ætlum við að heiðra tvo fengsæla sjómenn sem lengi stigu ölduna saman á togurum frá Húsavík. Þeir voru í áhöfn Júlíusar Havsteen sem sigldi fánum bryddur til heimahafnar á Húsavík frá Akranesi árið 1976, þar sem hann var smíðaður fyrir Höfða hf. Þessir ágætu menn hafa upplifað byltingartíma á starfsháttum og aðbúnaði sjómanna um borð í íslenska fiskiskipaflotanum og eiga báðir langan og glæstan feril til sjós. Þetta eru heiðursmennirnir Hermann Ragnarsson og Jakob Gunnar Hjaltalín.

Hermann Ragnarsson

Hermann Ragnarsson er fæddur 3. júní 1951 í Sæbergi í Flatey á Skjálfanda. Sonur hjónanna, Ragnars Hermannssonar og Jóhönnu Sesselju Kristjánsdóttur. Flateyingar lifðu í harðsóttu sambýli við náttúruna, stunduðu sjálfsþurftarbúskap og lifðu á því sem landið og sjórinn gáfu á hverjum tíma.

Eiginkona Hermanns er Irmý Dómhildur Antonsdóttir og eiga þau saman tvö uppkomin börn. Fyrir átti Dómhildur eitt barn.

Hermann er kominn af mikilli sjómannsfjölskyldu. Faðir hans Ragnar stundaði sjóinn. Móðir Hermanns var húsmóðirin á heimilinu auk þess sem hún kom að því að verka fiskinn sem barst að landi í Flatey. Þekkti hún vel til þeirra verka enda alin upp í Hrísey á Eyjafirði.

Allt frá barnæsku hefur Hermann helgað sig sjómennsku, en aðeins níu ára gamall fór hann á sjóinn með föðurbróður sínum Jóni Hermannssyni. Bræðurnir Jón og Ragnar ásamt föður þeirra áttu tveggja tonna trillu, Hermann ÞH 47 sem gerð var út á handfæri frá Flatey.

Í dag þekkja sjómenn vel til hlutaskiptakerfisins sem unnið er eftir um borð í flestum fiskiskipum. Það ákveður skiptingu á aflahlut milli áhafnar og útgerðar viðkomandi fiskiskips.

Hver veit nema hlutaskiptakerfið hafi verið fundið upp í Flatey við Skjálfanda, en Hermann minnist þess að aflahlutur hans í þessu fyrsta skiprúmi sem hann réð sig í, hafi verið tvær krónur fyrir hvern fisk sem hann veiddi.

En við skulum láta sagnfræðingum það eftir að finna út úr því en vissulega er þetta merkileg saga. Það mun hafa þekkst hjá afa Hermanns og nafna að greiða öllum þeim sem komu að sjómennsku eða fiskverkun í landi laun, þrátt fyrir að vera mjög ung að árum.

Hermann byrjaði ellefu ára gamall að róa með föður sínum á Bjarma ÞH 277, en það var 6 tonna bátur í eigu Jóns og Ragnars og föður þeirra Hermanns. Bjarmi var gerður út frá Flatey á færi og grásleppu.

Eins og þekktist í Flatey á þessum tíma fóru unglingar úr eyjunni til náms í Héraðsskólann á Laugum í Reykjadal. Þangað fór Hermann 14 ára gamall og nam þar einn vetur.

Árið 1967 lagðist byggð af í Flatey og fluttist þá fjölskylda Hermanns til Húsavíkur. Hann var fljótur að ráða sig á bát og Fanney ÞH varð fyrir valinu. Í brúnni stóð Sigurbjörn Kristjánsson skipstjóri og útgerðarmaður og var báturinn gerður út á línu og net. Þrátt fyrir að fjölskyldan væri sest að á Húsavík hélt Hermann áfram að stunda sjóinn með föður sínum frá eyjunni grænu í nokkur sumur milli þess sem hann var á Fanney.

Um haustið 1969 ræð Hermann sig á Náttfara ÞH sem þótti öflugt skip á þeim tíma og var gert út frá Húsavík, auk þess að stunda síldveiðar í Norðursjó þegar síldin gaf sig þar.

Nú var ekki aftur snúið, Hermann yfirgaf Norðurlandið tímabundið og hóf nám í Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum haustið 1970. Námið tók tvö ár, en á milli anna munstaði hann sig á trollbáta sem gerðir voru út frá Vestmannaeyjum.

Eftir veruna í Vestmannaeyjum réði Hermann sig sem stýrimann á 300 tonna bát, Pétur Jónsson KÓ. Báturinn var í eigu bræðrana Péturs og Júlíusar Stefánssona sem ættaður eru frá Húsavík.

Hann var einnig um tíma stýrimaður á Vestmannaey VE áður en hann skilaði sér endanlega aftur heim til Húsavíkur árið 1976. Við heimkomuna réði hann sig á Júlíus Havsteen ÞH 1 sem yfirstýrimaður og skipstjóri á móti Benóný Antonssyni skipstjóra. Þegar Kolbeinsey ÞH 10 kom til heimahafnar árið 1981 færðist Hermann yfir á Kolbeinsey og tók við sömu stöðu með Benóný og hann gegndi um borð í Júlíusi Havsteen.

Hermann var um borð í Kolbeinsey til ársins 1985. Þaðan fór hann á Helgu II RE sem var öflugt uppsjávarskip smíðað í Noregi. Hermann var stýrimaður og leysti af sem skipstjóri. Síðar fór hann á togara í eigu sömu útgerðar sem fékk nafnið Helga RE. Þar var hann stýrimaður um borð. Bæði skipin voru gerð út frá Reykjavík.

Þaðan lá leiðin austur á firði, nánar tiltekið til Fáskrúðsfjarðar á uppsjávarskipið Hoffell SU. Þar var Hermann stýrimaður þar til fyrir um fjórum árum að hann hætti endanlega til sjós.

Hermann hefur á sínum langa sjómannsferli gengt flestum störfum um borð í fiskiskipum, þó lengst af sem stýrimaður eða skipstjóri.

Hann hefur alla tíð verið farsæll skipstjórnandi og siglt í gegnum marga brimskaflana óskaddaður sem og þær áhafnir sem hann hefur borið ábyrgð á til sjós í gegnum áratugina.

Þá ber að geta þess að Hermann fékk sérstaka viðurkenningu fyrir björgunarafrek frá stjórn Loðnuvinnslunnar hf. en hann tók þátt í björgunarafreki vegna slyss sem varð um borð í Hoffelli SU 80 sunnudaginn 14. febrúar 2010. Þá var tveimur mönnum giftusamlega bjargað úr lest skipsins eftir að hafa misst meðvitund vegna súrefnisskorts við löndun úr skipinu.

Hermann, hafðu kærar þakkir fyrir björgunarafrekið og framlag þitt til samfélagsins í gegnum tíðina. Það verður seint fullþakkað.

Jakob Gunnar Hjaltalín

Jakob Gunnar Hjaltalín er fæddur á Akureyri 22. maí 1953. Sonur hjónanna, Bjarna Hjaltalíns og Ólafar Ingunnar Ingólfsdóttur. Móðir hans sem býr á Akureyri og orðin er 95 ára gömul starfaði lengi hjá ÚA við almenn fiskvinnslustörf og faðir hans starfaði lengst af sem línumaður hjá Rafmagnsveitum ríkisins. Með því starfi tók hann þegar tækifæri gafst nokkra túra á togurum sem gerðir voru út frá Akureyri.

Sér til skemmtunar átti faðir Jakobs trilluhorn sem hann notaði til veiða á Eyjafirðinum þegar veður og tími gafst til. Jakob var ekki hár í loftinu þegar hann fór að fara með föður sínum á sjó til að veiða í soðið eða um 10 ára gamall.

Ungur að árum eða um 15 ára aldur réði hann sig á sjó hjá Kristjáni Jónssyni sem þá rak niðursuðuverksmiðju á Akureyri. Verksmiðjan átti þrjá smábáta sem voru um og yfir 10 tonn. Bátarnir voru notaðir til að veiða smásíld til niðursuðu. Veiðiskapurinn kallaðist nótabrúk.

Á Akureyri störfuðu svokölluð nótabrúk hér á árum áður og voru þá aðallega notaðar landnætur. Síldin var veidd á grunnsævi. Síðan var hún geymd í svonefndum lásum á Pollinum. Úr lásunum voru síðan tekin úrköst, lítilli nót var kastað inn í lásinn og sá skammtur tekinn, sem hentaði hverju sinni. Afgangurinn var svo geymdur áfram í lásnum.

Þetta voru fyrstu kynni Jakobs af veiðiskap sem þótti nokkuð sérstakur og er löngu aflagður í dag.

Eftir tveggja ára veru hjá Kristjáni eða árið 1971 lá leið Jakobs á síðutogara frá Akureyri, Sléttbak EA. Eftir það var hann í nokkur ár á togurum í eigu ÚA, Harðbak EA og Sólbak EA, það er bæði á síðutogurum og eins skuttogurum.

Rétt er að geta þess að Jakob kom að því árið 1975 að sækja nýjan glæsilegan skuttogara ÚA, Harðbak EA til Þýskalands sem þótti með glæsilegustu togurum þess tíma. Harðbakur EA var smíðaður á Spáni.

Milli þess að vera á togurum sem gerðir voru út frá Akureyri á þessum tíma réði Jakob sig tímabundið á Kristbjörgu VE árið 1972, en báturinn var gerður út á netaveiðar frá Vestmannaeyjum.

Nú var komið að ákveðnum tímamótum í lífi Jakobs G. Hjaltalíns. Hann hafði kynnst konu sem síðar varð eiginkona hans og bjó hún austan Vaðlaheiðar, það er í Aðaldal.

Jakob tók því ekki lengur útstímið út Eyjafjörðinn á togurum í eigu ÚA, þess í stað hélt hann akandi yfir Vaðlaheiðina síðla sumars 1975, sem endaði með því að Jakob og tilvonandi eiginkona settust að á Húsavík. Það er Hólmfríður Arnbjörnsdóttir og eiga þau saman einn uppkominn son.

Hugur Jakobs leitaði aftur til sjós og var hann fljótur að ráða sig til Sigga Valla á Kristbjörgu ÞH. Síðar réði hann sig til Hinriks Þórarinssonar á Jörva ÞH. Bátarnir voru gerðir út á línu og net frá Húsavík.

Haustið 1976 ræður Jakob sig til Höfða hf. sem þá hafði fjárfest í nýjum togara, Júlíusi Havsteen ÞH. Á þeim tíma var mikið atvinnuleysi á Húsavík og kallaði samfélagið eftir byltingu í atvinnumálum svo ekki ætti illa að fara fyrir samfélaginu við Skjálfanda.

Það var mikill fengur fyrir Höfða útgerðina að fá mann eins og Jakob til starfa, enda þaulvanur og duglegur sjómaður. Jakob var ráðinn sem bátsmaður. Nokkru síðar fjárfesti Höfði hf. í stærri togara, Kolbeinsey ÞH 10 sem smíðaður var á Akureyri. Við það fluttist Jakob yfir á Kolbeinsey og þar átti hann mörg góð ár, en árið 1996 ákvað hann að segja skilið við sjóinn í bili og réði sig í netagerð Höfða hf.

Þrátt fyrir það var sjómennsku Jakobs ekki alveg lokið, en hann réði sig tímabundið eftir veruna í netagerðinni á nokkra togara og vertíðarbáta, það er á Brim ÞH og Sigurð Jakobsson ÞH sem gerðir voru út frá Húsavík. Rauðanúp ÞH sem gerður var út frá Raufarhöfn og Hjalteyrina EA sem gerð var út frá Akureyri.

Á sínum langa og farsæla sjómannsferli gegndi Jakob flestum störfum um borð, hann var; háseti, netamaður, bátsmaður og matráður ef svo bar undir.

Árið 2004 hætti Jakob endanlega til sjós. Þrátt fyrir það hefur hann ekki sagt skilið við sjávarlyktina þar sem hann starfar í dag við fiskþurrkun á Laugum í Reykjadal. Flesta virka daga má sjá Jakob stíma úr bænum í Laugar til að takast á við verkefni dagsins.

Það er ekki hægt að skilja við Jakob G. Hjaltalín án þess að geta þess að hann hefur alla tíð látið sig málefni sjómanna varða. Það er sem trúnaðarmaður um boð í togurum, þá hefur hann gengt stjórnunarstörfum í Framsýn til fjölda ára, trúnaðarstörfum fyrir Sjómannasamband Íslands og setið í stjórn Sjómannadeildar Framsýnar, áður Verkalýðsfélags Húsavíkur í rúmlega þrjá áratugi. Jakob hefur verið formaður deildarinnar í þrjátíu ár, en hann tók við formennsku af Aðalsteini Ólafssyni á aðalfundi deildarinnar í desember 1989.

Jakob G. Hjaltalín hafðu líkt og Hermann kærar þakkir fyrir framlag þitt til samfélagsins í gegnum tíðina og ómetanlegt starf í þágu sjómanna á Húsavík, með því að gegna formennsku í Sjómannadeild Framsýnar í heila þrjá áratugi. Fyrir það ber að þakka sérstaklega.

Ég vil biðja Hermann og Jakob ásamt eiginkonum, þeim Dómhildi og Hólmfríði að koma hér upp og veita viðtöku sérstakri orðu og blómum ykkur til heiðurs. Gjörið svo vel kæru hjón.

Formaður Framsýnar ásamt Hermanni, Jakobi og eiginkonum.

Hópur fólks lagði leið sína í Sjóminjasafnið til að gleðjast með þeim sem heiðraðir voru í dag. Hér eru tveir miklir öðlingar, Þorgrímur Aðalgeirsson og Þráinn Gunnarsson. Þeir voru að sjálfsögðu á svæðinu.

 

 

 

.

 

 

 

Hátíðarhöld í fullum gangi

Það verður töluvert um að vera um helgina á Húsavík enda standa hátíðarhöld vegna Sjómannadagsins yfir. Í morgun var skemmtisigling á Skjálfanda. Meðfylgjandi myndir voru teknar í siglingunni. Eftir hádegi hefur síðan staðið yfir skemmtidagskrá við höfnina og í kvöld verður síðan dansað og borðað fram eftir nóttu en Hátíð hafsins fer fram á Fosshótel Húsavík og dansleikur verður á Gamla Bauk. Á morgun verða síðan sjómenn heiðraðir í Sjóminnjasafninu kl. 14:00 en safnið verður opið frá kl. 11:00 til 16:00.

Kaffiboð Framsýnar á Raufarhöfn

Framsýn stéttarfélag stendur fyrri árlegu kaffiboði í Kaupfélaginu á Raufarhöfn föstudaginn 31. maí frá klukkan 15:00 til klukkan 17:00. Boðið verður upp á heimsins besta kaffi, Svala fyrir börnin og tertur frá Kvenfélagi Raufarhafnar.

Sjáumst hress á Raufarhöfn og að sjálfsögðu eru allir velkomnir.

Hér má sjá myndir frá kaffiboðinu árið 2017.

Starfsgreinasamband Íslands og Efling vísa kjaradeilu við Samband Íslenskra sveitarfélaga til Ríkissáttasemjara

Viðræður Starfsgreinasambandsins og Eflingar – stéttarfélags við Samband íslenskra sveitarfélaga um nýjan kjarasamning hafa staðið yfir undanfarnar vikur og hafa aðilar átt 5 formlega fundi. Fyrir utan kröfugerð aðila um eðlilegar kjarabætur í samræmi við samninga á almenna markaðnum og önnur mál, hafa verkalýðsfélögin krafist þess að Samband sveitarfélaganna efni samkomulag um jöfnun lífeyrisréttinda fyrir starfsfólk sveitarfélaga innan aðildarfélaga ASÍ. Um þessa eðlilegu jöfnun hefur nú þegar verið samið við Reykjavíkurborg og ríkið fyrir hönd þessa hóps.

Það kom því mjög á óvart þegar fulltrúar sveitarfélaganna neituðu með öllu að ræða þessa eðlilegu jöfnun þrátt fyrir fyrri fyrirheit þar að lútandi í tengslum við kjarasamninga 2015 og vilja ekki kannast við fyrri samþykktir. Í síðustu kjarasamningum voru sérstaklega tekin frá 1,5% til að jafna lífeyrisréttindindin. Það er ótrúlegt að sveitarfélögin telji það eðlilegt að félagsmenn okkar búi við lökustu lífeyriskjörin í landinu.

Starfsgreinasambandið og Efling eiga engan annan kost eftir þessa þvermóðskufullu afstöðu Sambandsins en að vísa deilunni til Ríkissáttasemjara. Af hálfu SGS og Eflingar kemur ekki til greina að halda viðræðum áfram nema að lífeyrisréttindi starfsfólks sveitarfélaganna innan ASÍ verði jöfnuð í samræmi við fyrri loforð.

Samningaviðræður fram á kvöld

Fulltrúar frá Framsýn og Þingiðn funduðu í gær með forsvarsmönnum PCC á Bakka og Samtökum atvinnulífsins. Fundinum lauk um kl. 22:00 í gærkvöldi án árangurs. Fullur vilji er til þess að halda viðræðum áfram með það að markmiði að klára samninginn á næstu dögum. Næsti formlegi fundurinn hefur ekki verið ákveðinn.

Góðvina- og afmælisfagnaður í tilefni af 50 ára afmæli lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði

Í lok mánaðarins standa Landssamtök lífeyrissjóða fyrir góðvina- og afmælisfagnaði í tilefni af 50 ára afmæli lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði. Í kjölfar viðburðarins í Hörpu í Reykjavík er boðað til sambærilegs viðburðar í Hofi á Akureyri 30. maí kl. 15. Stiklað verður á stóru – á léttu nótunum – um fortíð og framtíð lífeyrissjóðanna. Allir velkomnir.

Starfsmaður/formaður óskast á skrifstofu Verkalýðsfélags Þórshafnar

Verkalýðsfélag Þórshafnar auglýsir eftir starfsmanni á skrifstofu félagsins í 65% starf. Æskilegt er að viðkomandi sé einnig til í að taka að sér formennsku í félaginu.
Hæfniskröfur: Heiðarleiki, þjónustulund og tölvukunnátta, reynsla af skrifstofustörfum er kostur.
Viðkomandi þarf að geta hafið störf eigi síðar en í júlí 2019.
Starfið er nokkuð fjölbreytt og skemmtilegt, vinnutími samkomulagsatriði að einhverju leyti. Laun skv.kjarasamningi LIV.
Umsóknum skal skilað til skrifstofu VÞ Langanesvegi 18, 680 Þórshöfn eða í tölvupósti á verkthor@simnet.is fyrir 31. maí n.k.
Allar nánari upplýsingar veitir Sirrý í síma 894-7360 eða Svala í síma
899-0243

Leiðtogafundur á skrifstofu stéttarfélaganna

Þessir miklu áhrifamenn í Þingeysku samfélagi, þeir Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings og Aðalsteinn J. Halldórsson oddviti Tjörneshrepps, náðust saman á mynd á skrifstofu stéttarfélaganna. Ekki er vitað hvað þeir voru að sýsla en mjög svo lauslegar heimildir herma að ekki sé ólíklegt að þessi tvö fjölmennu og öflugu sveitarfélög komi til með að sameinast á næstu árum eða jafnvel á næstu öld og leiðtogarnir hafi verið að ræða aðlögun að því ferli. Tíminn einn mun leiða það í ljós hvort það gangi eftir en leiðtogarnir vörðust allra frétta af fundinum.

Seðlabankinn lækkar stýrivexti um 0,5% – góðar fréttir fyrir heimilin

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,5 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 4%. Góðar fréttir, segir Drífa Snædal forseti ASÍ, og til marks um að við erum komin inn í skeið vaxtalækkunar.

Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í maíhefti Peningamála hafa hagvaxtarhorfur breyst verulega frá síðustu spá bankans. Í stað 1,8% hagvaxtar á þessu ári eins og gert var ráð fyrir í febrúar er nú spáð 0,4% samdrætti. Þessi umskipti stafa einkum af samdrætti í ferðaþjónustu og minni útflutningi sjávarafurða vegna loðnubrests. Af þessum sökum mun framleiðsluspenna snúast í slaka á næstunni.

Verðbólga var 3,1% á fyrsta fjórðungi ársins en jókst í 3,3% í apríl. Undirliggjandi verðbólga hefur þróast með áþekkum hætti og munurinn milli mælikvarða á verðbólgu með og án húsnæðis hefur ekki verið minni frá haustinu 2013. Gengi krónunnar hefur haldist tiltölulega stöðugt það sem af er ári en áhrif lækkunar þess sl. haust á verðbólgu hafa enn sem komið er verið minni en vænst var. Viðsnúningur í efnahagsmálum gerir það að verkum að verðbólguhorfur hafa breyst nokkuð á skömmum tíma og gerir spá bankans ráð fyrir að verðbólga nái hámarki í 3,4% um mitt ár en hjaðni í verðbólgumarkmið um mitt næsta ár.

Þótt nýgerðir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði feli í sér myndarlegar launahækkanir var niðurstaða þeirra í betra samræmi við verðbólgumarkmiðið en margir bjuggust við. Verðbólguvæntingar hafa því lækkað á ný en þær hækkuðu umtalsvert er leið á síðasta ár. Langtímaverðbólguvæntingar á markaði eru nú komnar undir 3%.

Samdráttur í þjóðarbúskapnum mun reyna á heimili og fyrirtæki en viðnámsþróttur þjóðarbúsins er umtalsvert meiri nú en áður. Svigrúm peningastefnunnar til að mæta efnahagssamdrættinum er einnig töluvert, sérstaklega ef fer sem horfir og verðbólga og verðbólguvæntingar haldast við verðbólgumarkmið. Þá munu boðaðar aðgerðir stjórnvalda í tengslum við gerð kjarasamninga leggjast á sömu sveif.

Peningastefnan mun á næstunni ráðast af samspili þróunar efnahagsumsvifa annars vegar og verðbólgu og verðbólguvæntinga hins vegar.

Sunna og Guðmunda Steina þátttakendur á ungliðafundi SGS

Nú stendur yfir tveggja daga fundur á vegum Starfsgreinasambands Íslands á Hótel Hallormsstað. Um er að ræða ungliðafund aðildarfélaga sambandsins. Fulltrúar Framsýnar á fundinum eru Sunna Torfadóttir og Guðmunda Steina Jósefsdóttir. Þær fóru frá Húsavík í morgun og eru væntanlegar heim síðdegis á morgun. Það helsta sem verður til umræðu á fundinum eru kjaramál, áskoranir ungs fólks á vinnumarkaði, alþjóðlegur vinnumarkaður og notkun samfélagsmiðla. Innan Framsýnar er rekið öflugt ungliðastarf og eru þær Sunna og Guðmunda í stjórn Framsýnar-ung. Þær komu við á skrifstofu Framsýnar í morgun áður en þær lögðu í ferðalag austur á Hallormsstað þar sem fundurinn fer fram.

 

Félagar í Þingið samþykktu kjarasamninginn

Í gær lauk atkvæðagreiðslu um kjarasamning Samiðnar og Samtaka atvinnulífsins sem Þingiðn á aðild að og undirritaður var í byrjun maí. Félagar í Þingiðn samþykktu samninginn sem og önnur aðildarfélög Samiðnar fyrir utan Félag járniðnarmanna á Ísafirði.

Já sögðu 64,5%

Nei sögðu 32,3%

Auðir 0%

Alls voru 77 félagsmenn á kjörskrá, atkvæði greiddu tæplega 41% félagsmanna.

 

Víða öflugir trúnaðarmenn við störf

Framsýn leggur mikið upp úr því að hafa öfluga trúnaðarmenn á vinnustöðum. Einn af þeim er Jóhanna Björg Jóhannsdóttir sem nýlega var kjörin trúnaðarmaður í Jarðböðunum í Mývatnssveit. Fulltrúar Framsýnar heilsuðu upp á hana í gær þegar þeir áttu leið um svæðið. Að sjálfsögðu var Jóhanna Björg hress enda komin af hressu fólki úr Mývatnssveitinni fögru. Rétt er að hvetja starfsmenn og fyrirtæki að huga að því að velja sér trúnaðarmenn sem er bæði gefandi og skemmtilegt starf fyrir áhugasama einstaklinga.

Spurt og spurt í Reykjahlíðarskóla

Fulltrúar Framsýnar gerðu góða ferð í Mývatnssveit í gær þar sem vinnustaðir voru heimsóttir auk þess sem komið var við í þeim ágætta skóla Reykjahlíðarskóla. Tilgangurinn var að fræða unglinga í 8 og 9 bekk um starfsemi stéttarfélaga og vinnumarkaðinn. Nemendurinr tóku boðskapnum vel og spurðu töluvert út í vinnumarkaðinn, réttindi verkafólks og starfsemi stéttarfélaga. Heimsóknin var afar ánægjuleg eins og alltaf þegar farið er í skólann. Sjá myndir af hressum nemendum.

Stjórn Framsýnar fundar á þriðjudaginn

Stjórn Framsýnar auk stjórnar Framsýnar ung koma saman til fundar þriðjudaginn 21. maí kl. 17:00 í fundarsal félagsins. Að venju eru fjölmörg mál á dagskrá fundarins:

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Aðalfundur félagsins
  4. Formannafundur SGS
  5. Ungliðafundur SGS
  6. Hátíðarhöldin 1. Maí
  7. Kjarasamningur SGS við Flugleiðahótel ehf.
  8. Sjómannadagur á Húsavík- heiðrun
  9. Sjómannadagur á Raufarhöfn- útifundur
  10. Fráfall Kristjáns Ásgeirssonar fyrrverandi formanns VH
  11. Kynning á fundi stjórnenda hjá sveitarfélögum
  12. Kynning félagsins í grunnskólum
  13. Trúnaðarmaður í Jarðböðunum
  14. Kauptrygging sjómanna
  15. Kjaramál: ríki-sveitarfélög-pcc-hvalaskoðun
  16. Verkalýðsfélag Þórshafnar- breytingar á stjórn
  17. Erindi vegna 1. maí 2010
  18. Málefni Orlofsbyggðarinnar á Illugastöðum
  19. Leikskólagjöld hjá Norðurþingi
  20. Ársfundur Lsj. Stapa
  21. Önnur mál