Þekkingarnet Þingeyinga og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga vinna nú saman að verkefninu Tæknimennt sem byggðaaðgerð sem hlaut styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra. Megin markmið verkefnisins er að ýta undir tæknimennt og stafræna færni í grunnskólum á svæðinu enda alveg óhætt að segja að aukin færni á þeim sviðum sé til framtíðar mikilvægt byggðamál.
Hluti af verkefninu er að setja saman spennandi „dótakassa“, sem ber heitið Þingeyska snjallkistan. Þar kennir ýmissa grasa af kennslugögnum sem ætluð eru til að kenna og auka færni nemenda í forritun, kóðun, rafmagnsfræði, rýmisgreind, rökhugsun o.fl. Allt byggir þetta undir tækniþekkingu og -færni barna, viðheldur eðlislægri forvitni þeirra og frumkvöðlahæfileikum. Í kistunni er einnig er að finna vínylskera og hitapressu sem hægt er að nota til að búa til vegglímmiða, stensla, fatamerkingar o.fl. Tæknin við slíka vinnu er til að mynda sú sama og notuð er hjá trésmíðafyrirtækjum við fræsara.
Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra styrkti verkefnið og skilyrði fyrir styrkveitingunni er að aflað yrði fjár á móti frá vinnustöðum á svæðinu til að kosta kaup á búnaði í kistuna. Því hefur verið ákveðið að leita til fyrirtækja og félagasamtaka á svæðinu um að taka þátt í verkefinu. Markmiðið er að safna kr. 500.000 þúsund og margt smátt gerir eitt stórt.
Þingeyska snjallkistan stendur öllum grunnskólum á starfssvæði ÞÞ og AÞ til boða og hún mun ganga á milli skólanna í vetur og næsta vetur þar sem verkefnið er hugsað til tveggja ára. Kennarar fá því gott tækifæri til að kynnast þessum kennslugögnum, sem vonandi örvar áhuga þeirra og gerir þeim auðveldara að velja góð tæki til kennslu þegar kemur að tæknimenntun. Snjallkistan hefur þegar verið kynnt skólunum á svæðinu og framundan eru að auki „dótadagar“ fyrir kennara sem er frekari kynning á snjallkistunni og tækifæri fyrir kennara til að prófa gögnin sem í þeim eru áður en kisturnar fara á flakk. Að loknu verkefninu verður skólunum á svæðinu gefið dótið.
Stjórn og trúnaðarráð Framsýnar telur að um sé að ræða mjög áhugavert verkefni og hefur samþykkt að leggja því til kr. 100.000,-. Ákvörðun þess efnis var tekin á fundi í vikunni.