Líf við höfnina á Raufarhöfn

Í sumar er von á nokkrum skemmtiferðaskipum til Raufarhafnar sem er afar ánægjulegt enda mikilvægt að efla ferðaþjónustuna á svæðinu sem hefur upp á svo margt að bjóða, ekki síst fallegt bæjarstæði, náttúruperlur og sjálft Heimskautsgerðið. Gunnar Páll Baldursson lánaði okkur þessa mynd sem tekin var nýlega.

„We look for Botnsvatn – we want to find bird – lundi!“

Það er alltaf eitthvað óvænt og skemmtilegt sem gerist á Skrifstofu stéttarfélaganna sem færir starfsmönnum bæði gleði og bros á vör.

Í morgun komu erlendir ferðamenn inn á skrifstofuna og lögðu fram eftirfarandi spurningu;
„We look for Botnsvatn – we want to find bird – lundi!“

Starfsfólkið tók þeim að sjálfsögðu með opnum örmum og skoðaði kortið. Fljótlega kom í ljós að þeir voru óvart á leið í átt að Nettó, ekki að Botnsvatni, sannarlega ekki í átt að heimkynnum lunda. Þegar leiðrétting hafði verið gerð með brosi á vör og útskýringum, kviknaði önnur spurning:

„Swim puffins in lake?“

Varð okkur ljóst að um stóran misskilning væri um að ræða. Við útskýrðum að lundi – okkar ástsæli sjófugl – verpti í bjargbrúnum við sjóinn, ekki við stöðuvötn á norðanverðu landinu. Ferðamennirnir tóku upplýsingunum með jafnaðargeði, þó greinilegt væri að vonbrigðin væru töluverð – þeir höfðu greinilega ímyndað sér lunda synda um Botnsvatn líkt og andapör á Búðaránni.

Að lokum kvöddu þeir með hlýjum kveðjum, myndavélar í hönd og kannski smá von í hjarta – um að rekast á lunda í bænum. Í það minnsta sögðust ferðamennirnir hafa fengið upplýsingar um Lundabyggð við Botnsvatn. Hver veit nema blessað fólkið hafi ekki trúað starfsmönnum stéttarfélaganna og séu nú á leið upp að Botnsvatni til að skoða Lundabyggðina.

Mývatnssveitin er æði

Það vita flestir að Mývatnssveitin er æði ekki síst fyrir sína dásamlegu fegurð, jarðböðin og góða veitingastaði. Þá eru hótel og gististaðir nánast á hverju strái sem njóta mikilla vinsælda. Meðfylgjandi mynd er tekin á veitingastaðnum Fish & Chips í Mývatnssveit á dögunum en þar var löng bið eftir þessum þekkta skyndibita sem er þekktur um heim allan. Það er fiskur með frönskum.

STH semur við FSH

Í dag var gengið frá nýjum stofnanasamningi við Framhaldsskólann á Húsavík, það er fyrir félagsmenn Starfsmannafélags Húsavíkur sem starfa við skólann. Samningurinn er aðgengilegur á heimasíðu stéttarfélaganna.

SGS óskar eftir framkvæmdastjóra

Starfsgreinasamband Íslands óskar eftir að ráða öflugan einstakling í starf framkvæmdastjóra. Um er að ræða afar fjölbreytt og krefjandi starf. Til fróðleiks má geta þess að Framsýn á aðild að sambandinu.

Starfssvið:

  • Stjórnun og ábyrgð á daglegum rekstri
  • Stefnumótun og framkvæmd ákvarðana
  • Umsjón með gerð og túlkun kjarasamninga
  • Umsjón með kynningarstarfi, útgáfu og samskiptum við fjölmiðla
  • Skipulagning samráðs og samstarfs aðildarfélaga
  • Samskipti við innlend og erlend aðildarfélög

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Menntun og reynsla sem nýtist í starfi
  • Reynsla af stjórnun og rekstri
  • Reynsla og þekking á málefnum stéttarfélaga og kjarasamningum
  • Góð hæfni í mannlegum samskiptum og leiðtogahæfileikar
  • Hæfni til að miðla upplýsingum í ræðu og riti
  • Góð greiningar- og skipulagshæfni
  • Góð kunnátta í íslensku, ensku og einu norðurlandamáli

Starfsgreinasamband Íslands er stærsta landssambandið innan ASÍ og samanstendur af 18 stéttarfélögum verkafólks með um 44 þúsund félagsmenn. Hlutverk sambandsins er að styðja og styrkja aðildarfélögin í þeirra starfi og hagsmunabaráttu félagsmanna þeirra. Skrifstofa sambandsins er í Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík.

Umsóknarfrestur er til og með 13. júlí nk. Umsækjendur eru vinsamlega beðnir um að sækja um hér.

Umsókninni þarf að fylgja ýtarleg ferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni viðkomandi í starfið.

Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir.

Fiskifélag Íslands, 1911-2025.

Fiskifélagi Íslands var formlega slitið á aðalfundi félagsins í Reykjavík þann 24. júní síðastliðinn. Fundurinn var haldinn á Hilton Reykjavik Nordica.

Fiskifélagið á sér merka sögu sem er samofin sögu íslensks sjávarútvegs á 20. öld.  Félagið var stofnað 20. febrúar 1911 með það að  markmiðiði  að efla fiskveiðar Íslendinga. Félaginu voru ætluð margþáttuð verkefni; aðfylgjast með tækninýjungum í veiðum og vinnslu, efla vöruvöndun og miðlun þekkingar til sjómanna, landvinnslufólks og almennings; bæta öryggi sjómanna, styrkja efnilega einstaklinga til menntunar, rannsaka fiskistofna og standa almennt vörð um hagsmuni þeirra sem áttu sitt undir sjávarútvegi.

Innan félagsins störfuðu Fiskifélagsdeildir sem staðsettar voru víðsvegar um landið. Deildirnar völdu fulltrúa á Fiskiþing félagsins sem alla jafna stóðu í nokkra daga í senn, en þingin voru mikilvægur þáttur í starfsemi Fiskifélagsins í áratugi. Á þingunum voru rædd málefni sjávarútvegsins og ályktanir samþykktar sem sendar voru stjórnvöldum. Fyrsta Fiskiþingið var haldið 1913.

Eitt af fyrstu verkum félagsins var að álykta um landhelgismál og þörf á varðskipi til að fylgjast með veiðum erlendra togara. Fram að seinna stríði beitti félagið sér í vita- og hafnamálum, kom að stofnun Slysavarnafélags Íslands ásamt Skipstjórafélaginu Öldunni og setti á fót svokölluð mótoristanámskeið sem voru einn veigamesti þátturinn í starfsemi félagsins fyrir stríð. Félagið kom sér upp vélasal og sótti fjöldi manns þessi námskeið um meðferð skipsvéla en félagið kenndi einnig stýrimannafræði og siglingafræði og hélt sjóvinnunámskeið á tímabili. Mótoristanámskeiðin voru á höndum félagsins allt til 1966 þegar þau voru flutt inn í Vélskóla Íslands.

Fiskifélagið bæði réð til sín og styrkti einstaklinga til náms og komu sumir þeirra síðar meir til starfa hjá félaginu. Þetta voru vélfræðingar, fiskifræðingar, fiskiðnaðarfræðingar osfrv. Meðal þeirra var nýútskrifaður fiskifræðingur að nafni Árni Friðriksson.Árni stundaði rannsóknir hjá félaginu 1933 til 1938 þegar atvinnudeild Háskóla Íslands var stofnuð og hann hófþar  störf Fiskifélagið sett einnig á fót Rannsóknastofu Fiskifélagsins sem árið 1965 varð að Rannsóknastofnun Fiskiðnaðarins og enn síðar hluti af Matís.

Árið 1933 flutti Fiskifélagið í eigið húsnæði sem það hafði reist á hornlóð neðst í Arnarhvolstúni (Ingólfsstræti 1).

Á þessum árum var einnig lagður grunnurinn að þeirri starfsemi sem átti eftir að verða ein viðamesta starfsemi félagsins en það var söfnun upplýsinga og gagna fyrir stjórnvöld. Árið 1925 fól Alþingi Fiskifélaginu að safna aflaskýrslum. Félagið gaf út Útveg í áratugi en þar mátti finna tölulegar upplýsingar um sjávarútveginn. Félagið gaf einnig út tímaritið Ægi og fjöldan allan af fræðsluritum og kennslubókum. Á stríðsárunum fékk félagið fleiri opinber verkefni, til að mynda utanumhald á lánveitingum ríkisins til greinarinnar og ýmsum sjóðum sem komið var á fót. Þónokkur fjöldi starfsmanna var því hjá Fiskifélaginu sem sinnti þeim verkefnum.

Fiskifélaginu tókst hins vegar aldrei að verða sú breiðfylking fyrir hagsmuni sjávarútvegsins eins og upphaflegt markmið hafði verið með stofnun þess. Á árunum eftir stríð voru sjómannafélögin mörg, auk útgerðamannafélaga og sölufélaga sem öll störfuðu hvert í sínu lagi að sínum málefnum.

Félagið hélt áfram að halda utan um gögn og skýrslur fyrir hið opinbera og rekstur sjóða. Meðal þeirra verkefna má nefna vinnslu á svörumvið fyrirspurnum frá hinu opinbera,  umsagnir um lagasetningar ogupplýsingar til alþjóðastofnana. Á sjöunda og áttunda áratugnum tók félagið virkan þátt í alþjóðasamstarfi er varðaði sjávarútveginn, fulltrúar þess sátu í íslenskum sendinefndum sem sóttu hafréttarráðstefnur í tengslum við útfærslu lögsögunnar, fundi hjá Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndinni (NEAFC), Alþjóðahafrannsóknaráðinu og ráðstefnur Mavæla- og landbúnaðarstofnunar SÞ (FAO). Tæknideild var stofnuð innan félagsins sem hélt námskeið um nýjungar í skipasmíðum og veiðarfæratækni, ásamt því að veita stjórnvöldum ráðgjöf varðandi nýsmíðar skipa og starfaði hún við rannsóknir á véla- og tækjabúnaði skipa fram á 10. áratuginn. Á Fiskiþingum á þessum árum var rætt um kunnugleg málefni, m.a. nauðsyn þess að efla haf- og fiskirannsóknir, byggja nýtt rannsóknaskip, auka fullvinnslu afla og mennta fólk til starfa í fiskiðnaði. Deilt var um toglínur, verkefnaleysi síldarbátaflotans eftir hrun síldarinnar svo eitthavð sé talið.

Félagið hélt úti skólaskipi í samstarfi við ráðuneyti og Hafrannsóknastofnun frá 1970. Skipið var notað til kennslu, rannsókna og siglt var með grunnskólabörn út á Faxaflóann allt fram á annan áratug þessarar aldar.

Á áttunda áratugnum voru gerðar viðamiklar breytingar á félaginu en þá voru Fiskifélagsdeildir sameinaðar og þeim fækkað en 12 samtök í sjávarútvegi voru orðin aðildarfélög, hvert með sinn fulltrúa á Fiskiþingi, m.a. LÍÚ, Sjómannasambandið, Vélstjórarfélagið, Farmanna- og fiskimannasambandið, SÍF, SH, Félag skreiðarframleiðanda, tvö félög síldarsaltenda og Félag íslenskra fiskimjölsframleiðenda. Félaginu var skipt í fimm deildir sem allar sinntu ólíkum verkefnum, allt frá söfnun aflaskýrsla, útgáfu, hagspám, birgðaskýrslum, reikningskrifstofu sjávarútvegsins, aflatryggingasjóði og skipatækni. Á þessu áratug beitti Fiskifélagið sér einnig fyrir því að fiskeldi hefðist hér við land og réð til sín sérfræðing á þvi sviði.

Á þessum árum stóðu menn frammi fyrir versnandi ástandi helstu nytjastofna, ekki minnst þorsksins. Á Fiskiþingi 1983 er samþykkt að leggja til við stjórnvöld að veiðum ársins 1984 yrði stjórnað með kvótakerfi. Deilt var um kerfið bæði í aðdraganda þess og eftir að það var innleitt á Fiskiþingum enda aðildarfélög mörg og skoðanir skiptar. Hins vegar var ljóst að grípa þurfti til aðgerða. Fiskifélagið og þing þess höfðu mikil áhrif á stefnu stjórnvalda í þessum málum og fiskveiðistjórnunina sem tekin var upp og er grunnurinn að því kerfi sem við búum við í dag.

Á níunda og sérstaklega tíunda áratugnum tók að fjara undan Fiskifélaginu. Verkefnum þeim sem félagið hafði sinnt var komið fyrir hjá öðrum stofnunum, útgáfu var hætt, Fiskifélagsdeildirnar liðu undir lok og áhrif félagsins á málefni sjávarútvegsins fór þverrandi.Það þótti ekki lengur veraverkefni Fiskiþinga að standa að ályktunum enda félagið ekki álitið lengur samnefnari í hagsmunabaráttu gagnvart stjórnvöldum. Félagið varð að samtökum hagsmunaðila innan sjávarútvegsins og Fiskiþing urðu að málþingum þar sem tekin voru til umfjöllunar ákveðin málefni.

Í lok tíunda áratugarins hætti ríkisvaldið að styrkja   Fiskifélagiðen tekjur félagsins höfðu lengst af komið frá stjórnvöldum. Rætt var um að leggja félagið niður en af því varð ekki og var félaginu fundin ný verkefni sem væru sameiginleg sjávarútveginum sem heild. Í upphafi 21. aldarinnar seldi Fiskifélagið húseign sína að Ingólfsstræti. Verkefni á nýrri öld voru fyrst og fremst á sviði umhverfismála, vottunar, menntunar og ímyndar íslenskra sjávarafurða. Félagið hélt árlega samráðsfundi með stjórnvöldum um málefni sjávarútvegsins á alþjóðavettvangi og vann að  stofnun íslensks umhverfismerkis og rekjanleikamerkis. Síðustu árin hefur félagið verið sameiginlegur samstarfsvettvangur aðildarfélaganna og starfsemin fyrst og fremst snúist um árlegt samráð við stjórnvöld.

Umræður um framtíð félagsins hófust hjá stjórn 2023 og á aðalfundi félagsins sama ár. Þar var samþykkt að slíta félaginu en þó ekki fyrr en samstaða hefði náðst um eignir félagsins. Á aðalfundi 24. júni síðastliðinn lagði stjórn fram tillögu þar sem lagt var til að félaginu yrði slitið og eignum þess skipt á milli aðildarfélags í samræmi við fjölda aðalfundarfulltrúa. Tillagan var samþykkt og félaginu slitið.

Aðildarfélög að Fiskifélagi Íslands voru; Landssamband smábátaeigenda, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Sjómannasamband Íslands, Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Félag skipstjórnarmanna og Starfsgreinasamband Íslands. Aðildarfélögin hafa öll gefið út yfirlýsingu um ráðstöfun þeirra fjármuna sem þeim hlotnast við slitin.

Hrefna Karlsdóttir

Fyrrverandi formaður Fiskifélags Íslands.

(Heimild: Hjörtur Gíslason og Jón Hjaltason: Undir straumhvörfum. Saga Fiskifélagsins í hundrað ár 1911-2011. Akureyri 2011.)

Fiskifélagið á sér langa og merka sögu sem er samofin sögu íslensks sjávarútvegs á 20. öld.  Félagið var stofnað 20. febrúar 1911 með það að  markmiðiði  að efla fiskveiðar Íslendinga. Félaginu hefur nú verið formlega slitið. Aðildarfélög voru; Landssamband smábátaeigenda, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Sjómannasamband Íslands, Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Félag skipstjórnarmanna og Starfsgreinasamband Íslands. Aðalsteinn Árni formaður Framsýnar hefur um margra ára skeið fyrir stjórnarmaður í Fiskifélaginu fh. Starfsgreinasambands Íslands.

Stjórn Fiskifélagsins er fjölmenn enda kemur hún frá öllum helstu hagsmunaaðilum í sjávarútvegi. Myndin er tekin eftir síðasta aðalfund félagsins á dögunum sem jafnframt var slitafundur.

Áhugasamir fundarmenn hlusta á umræður á fundinum.

Hrefna stjórnarformaður sem er hér lengst til vinstri sleit Fiskifélaginu formlega.

Aðalsteinn Árni var fundarstjóri á fundinum en hann hefur til margra ára verið fenginn til að stjórna aðalfundum Fiskifélagsins.

Leiðtogar framtíðarinnar

Ungliðarnir Ingimar Knútsson og Arnór Elí Víðisson, sem báðir eru virkir í starfi Framsýnar, sátu nýlega námskeið sem ætlað er ungum og upprennandi leiðtogum. Námskeiðið var á vegum Alþýðusambands Íslands í leiðtogahæfni innan verkalýðshreyfingarinnar og nefndist „Ungir Leiðtogar.“ Námskeiðinu var ætlað að undirbúa unga þátttakendur í verkalýðshreyfingunni fyrir störf og leiðtogamennsku innan hreyfingarinnar. 

Námskeiðið var byggt upp sem þrjár lotur, staðlota í höfuðstöðvum ASÍ í Reykjavík þar sem farið var yfir starf verkalýðshreyfingarinnar og hvað það þýðir að vera leiðtogi á þessum vettvangi. 

Lota númer tvö fór fram í gegnum teams í formi fjarfunda þar sem haldið var áfram að fjalla um verkalýðshreyfinguna og undirbúningur fyrir lokalotuna í Belgíu. 

Í Belgíuferðinni var farið í heimsóknir til ETUC, ITUC og EFTA þar sem ungu leiðtogarnir fengu kynningu á helstu áherslumálum verkalýðshreyfingarinnar bæði á evrópskum og alþjóðlegum grundvelli. 

Að sögn Arnórs og Ingimars var námskeiðið í heildina mjög fræðandi og skemmtilegt. Með þeim á námskeiðinu voru ungir leiðtogar frá öðrum aðildarfélögum Alþýðusambandsins eða í heildina 13 þátttakendur. Framsýn þakkar þeim félögum fyrir að hafa tekið þátt í námskeiðinu fh. félagsins enda markmiðið að fá ungt fólk til starfa í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum Framsýnar.

Arnór Elí er trúnaðarmaður hjá Norðurþingi en þessi mynd er tekin eftir að hópur trúnaðarmanna innan stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum hafði lokið tveggja daga námskeiði, þar á meðal hann. Forsíðumyndin er hins vegar af Ingimari sem starfar sem trúnaðarmaður hjá PCC á Bakka.

Aukin orlofsréttur félagsmanna

Rétt er að minna á breytingar sem urðu á orlofsgreiðslum samkvæmt ákvæðum kjarasamninga þann 1. maí 2024 og 1. maí 2025 sjá nánar í grein 6.1. í ferðaþjónustusamningnum og í grein 4.1 í almenna kjarasamningnum milli SA og SGS. Kjarasamningarnir eru aðgengilegir inn á heimasíðu stéttarfélaganna, framsyn.is

  • Lágmarksorlof eru áfram 24 virkir dagar. Orlofslaun skulu vera 10,17% af öllu kaupi, hvort sem er fyrir dagvinnu eða yfirvinnu.
  • Þessi breyting gildir frá 1. maí 2024: Starfsmaður sem náð hefur 22 ára aldri og starfað hefur í 6 mánuði í sama fyrirtæki skal eiga rétt á orlofi í 25 daga og orlofslaunum sem nema 10,64%.  (Orlof sem kemur til töku á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2025).
  • Þessi breyting gildir frá 1. maí 2024: Starfsmaður sem unnið hefur í 5 ár í sama fyrirtæki á rétt á orlofi í 26 virka daga og orlofslaunum sem nema 11,11%. (Orlof sem kemur til töku á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2025).
  • Þessi breyting gildir frá 1. maí 2025: Starfsmaður sem unnið hefur í 5 ár í sama fyrirtæki á rétt á orlofi í 28 virka daga og orlofslaunum sem nema 12,07%. (Orlof sem kemur til töku á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2026).
  • Með sama hætti öðlast starfsfólk sem unnið hefur 10 ár hjá sama fyrirtæki 30 daga orlofsrétt og 13,04% orlofslaun. Orlofsréttur reiknast frá upphafi næsta orlofsárs eftir að ofangreindum starfstíma er náð.
  • Starfsmaður sem hefur fengið aukinn orlofsrétt vegna starfa í sama fyrirtæki öðlast hann að nýju eftir þrjú ár hjá nýjum atvinnurekanda, enda hafi rétturinn verið staðreyndur.

Vilja sjá frekari uppbyggingu á vegum Bjargs á félagssvæðinu

Framsýn stéttarfélag hefur skrifað Bjargi íbúðafélagi og sveitarfélögunum Norðurþingi og Þingeyjarsveit bréf þar sem óskað er eftir frekara samstarfi hvað varðar uppbyggingu á öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu fyrir félagsmenn stéttarfélaganna í þessum tveimur sveitarfélögum. Eins og kunnugt er, voru nýlega teknar í notkun sex raðhúsaíbúðir á Húsavík en yfir 40 einstaklingar/fjölskyldur sóttu um íbúðirnar sem voru samstarfsverkefni Bjargs og Norðurþings. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum er greinilega mikil vöntun á íbúðum sem þessum.

Svo það sé rifjað upp, þá er Bjarg íbúðafélag húsnæðissjálfseignarstofnun stofnuð af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að norrænni fyrirmynd, „Almene boliger“. Leiðarljós félagsins er að veita leigutökum öruggt húsnæði til langs tíma.

Talsmenn Framsýnar hafa þegar átt samtöl við forsvarsmenn Norðurþings og Þingeyjarsveitar vegna málsins. Þar er mikil vilji til þess að fá Bjarg að frekari uppbyggingu á svæðinu. Hvað það varðar vinnur Framsýn að því að halda fundi á næstu vikum með aðilum málsins til að kanna áhuga þeirra á frekara samstarfi.

Formaður Framsýnar hefur átt samtöl við sveitarstjóra Norðurþings og Þingeyjarsveitar um frekari uppbyggingu á íbúðarhúsnæði á svæðinu í samstarfi við Bjarg íbúðafélag. Íbúðunum er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Á meðfylgjandi mynd er Aðalsteinn Árni með Katrínu Sigurjóns sveitarstjóra Norðurþings. Forsíðumyndin er hins vegar af sveitarstjóra Þingeyjarsveitar, Ragnheiði Jónu Ingimars og formanni Framsýnar á dögunum þegar málið var til umræðu í stuttu spjalli á Reykjavíkurflugvelli, það er meðan beðið var eftir flugi norður.

Mikil ánægja er með uppbyggingu Bjargs á Húsavík í samstarfi við Norðurþing. Framsýn hafði frumkvæði að þessu samstarfsverkefni sem í alla staði hefur gengið afar vel.

Afar mikivægt er að menn skrái sig hjá Bjargi íbúðafélagi vilji viðkomandi komast í húsnæði á þeirra vegum á næstu árum. Þegar kemur að úthlutun er farið eftir því hvenær menn skráðu sig hjá félaginu með íbúð. Hægt er að nálgast allar upplýsingar inn á heimasíðu Bjargs, bjarg.is

Vinnustaðaheimsóknir

Starfsmenn stéttarfélaganna fara reglulega í vinnustaðaheimsóknir til að hitta félagsmenn og stjórnendur fyrirtækja. Almennt eru þetta mjög vinsamlegar heimsóknir enda flestir atvinnurekendur á félagssvæðinu með sín mál í góðu lagi. Í byrjun júlí var komið við á Hótel Goðafoss þar sem sest var niður með starfsmönnum og farið yfir málin. Eins og myndirnar bera með sér voru starfsmenn ánægðir með heimsóknina sem í leiðinni fengu smá fræðslu um kjarasamning starfsmanna í ferðaþjónustu.

Göngum vel um orlofsíbúðirnar

Afar mikilvægt er að félagsmenn gangi vel um orlofshús og íbúðir á vegum stéttarfélaganna. Almennt er gengið afar vel um íbúðirnar sem er afar ánægjulegt en innan um eru nokkrir sóðar sem virða ekki leikreglur. Í þeim tilvikum þarf að kalla út þrifagengi eftir dvöl þeirra í íbúðunum á kostnað viðkomandi aðila sem dvelja í íbúðunum. Gjaldið er kr. 25.000,-. Verði menn uppvísir af slæmri umgengni afsala þér sér jafnframt rétti til að fá aftur íbúðir á vegum stéttarfélaganna. Mikilvægt er að menn skilji við íbúðirnar í góðu lagi fyrir næstu gesti. Þá verða allir glaðir og hamingjusamir.

Fiskifélagi Íslands formlega slitið

Fiskifélag Íslands sem á sér mjög merkilega sögu var slitið formlega á aðalfundi/slitafundi félagsins í Reykjavík síðasta þriðjudag, 24. júní. Fundurinn var haldinn á Hilton Reykjavik Nordica. Félagið var stofnað 20. febrúar 1911 til að efla sjávarútveg og verslun með sjávarafurðir á Íslandi. Fyrsti forseti Fiskifélagsins og heiðursfélagi þess var Hannes Hafliðason. Félagið starfaði í Reykjavík til 2004 þegar það flutti til Akureyrar. Síðar fluttist starfsemin reyndar aftur til Reykjavíkur.  Í fyrstu var félagið mjög öflugt enda hagsmunir félagsmanna miklir. Í gegnum tíðina hefur starfsemi félagsins tekið miklum breytingum, sem í seinni tíð, hefur fyrst og fremst verið sameiginlegur starfsvettvangur aðildarfélaga í sjávarútvegi. Síðustu ár hefur Hrefna Margrét Karlsdóttir fulltrúi SFS í stjórn verið stjórnarformaður.  Aðilar að Fiskifélagi Íslands eru; Landssamband smábátaeigenda, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Sjómannasamband Íslands, Félag vélstjóra og málmtæknimanna, Félag skipstjórnarmanna og Starfsgreinasamband Íslands.

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, hefur um árabil verið stjórnarmaður fyrir Starfsgreinasamband Íslands í stjórn Fiskifélags Íslands. Hann var fenginn til að stjórna slitafundinum sem fór vel fram, reyndar hefur hann jafnframt verið fenginn til að stjórna aðalfundum félagsins undanfarin ár. Merkilegri sögu í starfi Fiskifélags Íslands er nú lokið enda verið að ganga frá nokkrum lausum endum svo hægt verði að loka félaginu endanlega.

Starfshópur forsætisráðherra fundaði með fulltrúum stéttarfélaganna

Starfshópur sem skipaður var af forsætisráðherra vinnur nú að kortlagningu á stöðu atvinnumála í Norðurþingi en tilkynnt hefur verið um tímabundna rekstrarstöðvun kísilvers PCC á Bakka frá miðjum júlí næstkomandi. Málið var rætt á fundi ríkisstjórnarinnar á dögunum.

Hópurinn mun einnig vinna tillögur að mögulegum viðbrögðum stjórnvalda til skemmri og lengri tíma. Skýrslu verður skilað um miðjan september. Starfshópurinn mun horfa sérstaklega til vinnu við atvinnustefnu stjórnvalda sem nú er í mótun.

Starfshópurinn fór nýverið í vettvangsferð til Húsavíkur þar sem hann fundaði með fulltrúum PCC Bakka, Norðurþings, Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, samstarfsverkefnisins Eims, Framsýnar stéttarfélags og Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum.

Formaður hópsins er Helgi Valberg Jensson, fulltrúi forsætisráðuneytis, en auk hans eru í hópnum þau Anna Borgþórsdóttir Olsen, fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytis, Hólmfríður Sveinsdóttir, fulltrúi innviðaráðuneytis, Jón Skafti Gestsson, fulltrúi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis, og Snæfríður Arnardóttir, fulltrúi atvinnuvegaráðuneytis.

Að sögn formanns Framsýnar, Aðalsteins Árna, var fundurinn mjög gagnlegur en félagið hefur safnað saman gögnum um mikilvægi fyrirtækisins fyrir samfélagið en yfir 200 manns koma að daglegum rekstri fyrirtækisins, það eru fastir starfsmenn og síðan eru tugir starfsmanna daglega við störf á vegum undirverktaka sem þjónusta PCC. Fulltrúar Framsýnar og Þingiðnar komu því skýrt á framfæri við starfshópinn að það mætti ekki gerast að verksmiðjunni yrði lokað. Stéttarfélögin sem hafa átt mjög gott samstarf við stjórnendur PCC munu áfram sem hingað til berjast fyrir því að verksmiðjan hefji sem fyrst framleiðslu á ný.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/06/27/helgi_fer_fyrir_vidbragdshopi

Stjórnarráðið | Starfshópur vinnur tillögur að viðbrögðum vegna stöðu atvinnumála í Norðurþingi

Starfshópur forsætisráðherra óskaði eftir fundi með fulltrúum stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum til að ræða atvinnumál og stöðu PCC á Bakka. Á meðfylgjandi mynd má sjá formenn Framsýnar og Þingiðnar með hópnum, þá Jónas og Aðalstein Árna en þeir ásamt Ósk varaformanni Framsýnar tóku þátt í fundinum með starfshópnum.

Garðræktarfélag Reykhverfinga hf. „Í góðu lagi“

Síðasta fimmtudag 26. júní undirrituðu Sölufélag garðyrkjumanna, Framsýn stéttarfélag og Báran stéttarfélag samstarfssamning sýn á milli um vottunarmerkið „Í góðu lagi”

“Í góðu lagi” er nýtt vottunarkerfi sem staðfestir að vinnustaðir fari eftir kjarasamningum
og almennum reglum vinnumarkaðarins.

Aðilar samkomulagsins hafa unnið að því að þróa vottunarkerfi byggt á trausti, gagnsæi
og sanngirni. Hugmyndin felst í því að sýna með skýrum hætti að vinnustaðir fari eftir
kjarasamningum og þeim leikreglum sem gilda almennt á vinnumarkaði.
Framkvæmdin er að vinnustaðir eru heimsóttir og farið yfir þau gögn sem til þarf. Fyrir
liggur metnaðarfullur verkferill sem nær til allra þátta er viðkemur framsæknum
vinnustöðum. Með þessu verkefni er byggð samvinna milli aðila sem leiðir til heilbrigðari
vinnumarkaðar og bættra kjara launafólks.

Það er ekki á hverjum degi sem stéttarfélög fá beiðnir frá fyrirtækjum eða samtökum sem
vilja þróa verkefni sem þetta í samstarfi við félögin sem ber að fagna.
Stofnuð var sameiginleg nefnd skipuð fulltrúum frá hlutaðeigandi stéttarfélögum og
Sölufélagi garðyrkjumanna, sem vann að undirbúningi sérstakrar vottunar.
Verkefnið er virkilega spennandi og skemmtilegt og byggir upp jákvæð samskipti og
samvinnu. Oft er slegin upp mynd af samskiptum atvinnurekenda og stéttarfélaga eins
og barist sé á banaspjótum. Þetta eru sameiginlegir hagsmunir sem leiða til betri
útkomu fyrir alla.

Í fyrstu verður verkefnið tilrauna og þróunarverkefni afmarkað við grænmetisframleiðslu
en vonir standa til að vottunin „Í góðu lagi“ geti náð útbreiðslu til fleiri greina ef vel tekst
til enda um ákveðna fyrirmynd að ræða fyrir íslenskt atvinnulíf. Þrjár garðyrkjustöðvar hafa nú farið formlega í gegnum vottunarferlið, garðyrkjustöðin Ártangi, Friðheimar og Hveravellir og tóku eigendur og forsvarsmenn þeirra á móti sínum vottunarstaðfestingum við sérstaka athöfn sem fram fór í Friðheimum síðasta fimmtudag. Verkefnið hefur fengið góða umfjöllun í fjölmiðlum enda um að ræða áhugavert verkefni sem vonandi á eftir að dreifast yfir á aðrar atvinnugreinar. Hér að neðan má sjá heimasíðu verkefnisins og umfjöllun mbl.is um málið.

Sjá nánar á heimasíðunni www.igodulagi.is

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/06/27/akvedin_fyrirmynd_fyrir_islenskt_atvinnulif

Vottunin staðfest formlega „Í góðu lagi.“ Páll Ólafsson og Heiðbjört Þóra Ólafsdóttir frá Garðræktarfélagi Reykhverfinga og Aðalsteinn Árni Baldursson og Linda Urychova frá Framsýn en Linda er trúnaðarmaður starfsmanna.

Starfsfólk Garðræktarfélagsins er ekkert smá ánægt með vottunina. Að sjálfsögðu var smellt í hópmynd þegar Linda trúnaðarmaður, sem er fremst á myndinni til hægri, kom heim við vottunina ásamt forsvarsmönnum fyrirtækisins.

Samkomulagið um vottunina handsalað við Sölufélag garðyrkjumanna. Guðlaugur Gauti Þorgilsson frá Sölufélaginu og Aðalsteinn Árni frá Framsýn staðfesta samstarfssamning um vottun fyrirtækja í garðyrkju á Íslandi enda standist þau kröfur stéttarfélaganna um aðbúnað, öryggi og kjör starfsmanna.

Farið yfir tilgang verkefnisins í Friðheimum við hátíðlega athöfn, Knútur Rafn Ármann framkvæmdastjóri Friðheima og stjórnarmaður í Sölufélagi garðyrkjumanna, Halldóra S. Sveinsdóttir formaður Bárunnar stéttarfélags og Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar stéttarfélags en félögin tvö hafa unnið vel að þessu verkefni með Sölufélaginu enda bæði fyrirmyndar stéttarfélög.

Samstarfsaðilar komnir saman á mynd, það er frá þremur garðtæktarstöðvum sem voru vottaðar á Suðurlandi og Norðurlandi ásamt fulltrúum frá Sölufélagi garðyrkumanna og stéttarfélögunum, Bárunni og Framsýn. Mikil gleði er með samstarfssamninginn um vottun fyrirtækja í garðyrkju. Hamingjuóskir til allra sem komið hafa að þessu mikilvæga verkefni.

Allar vörur frá þeim fyrirtækjum sem hlotið hafa vottunina munu setja merkið „Í góðu lagi“ á sínar vörur. Full ástæða er til að hvetja fólk til að versla vörur með þessu gæðamerki. Þannig getum við öll stuðlað að heilbrigðum vinnumarkaði um leið og við styðjum við innlenda gæða framleiðslu sem er auk þess atvinnuskapandi.

Eldhúsborð og stólar í boði

Framsýn var að skipta um eldhússtóla og eldhúsborð í bústað félagsins á Illugastöðum. Einnig var skipt um sófaborð. Ef þú hefur áhuga á því að eignast þetta frítt er þér velkomið að senda skilaboð á netfangið kuti@framsyn.is

Í tilefni Kvenréttindadagsins 2025

Stjórn Framsýnar hefur samþykkt að festa kaup á nokkrum sætisbekkjum sem komið verður fyrir í sjávarbyggðum á félagssvæðinu, Húsavík, Raufarhöfn og Kópaskeri. Einnig verði skoðað að koma upp bekkjum í Flatey og við Tungulendingu á Tjörnesi, en þaðan var rekin blómleg útgerð og fiskvinnsla á sínum tíma. Bekkirnir eru gefnir í tilefni Kvenréttindadagsins þann 19. júní, af virðingu við konur sem misst hafa ástvini sína í greipar Ægis.

Þegar talað er um að hafið gefi og hafið taki, liggur í þeim orðum sannleikurinn um að þrátt fyrir að hafið færi okkur vissulega gæfu og velferð, þá geti að sama skapi fylgt því miklar fórnir. Þeir sem alist hafa upp við sjávarsíðuna vita að það þarf sterk bein, kjark og þor til að sækja sjóinn þar sem veður geta oft verið válynd.

Við þekkjum öll frásagnir af hetjum hafsins sem lent hafa í sjávarháska og margar bækur hafa verið skrifaðar um æðruleysi sjómanna í glímutökum við óblíð náttúruöfl á ögurstundu. Ekki höfðu allir betur í þeim átökum og fylla þeir látnu flokk hinna fjölmörgu íslensku sjómanna sem týnt hafa lífi við krefjandi störf. Minning þeirra verðskuldar virðingu.

Það gleymist hins vegar oft að bak við hvern sjómann stendur kona, sem staðið hefur við hlið hans, eiginkona, móðir, dóttir eða systir. Sögur þeirra kvenna sem séð hafa á eftir ástvinum sínum í hafið hafa ekki oft verið skrifaðar, enda reynsluheimur venjulegra kvenna að margra áliti ekki til þess fallinn að vera færður í letur. Þessar „venjulegu konur“ hafa háð lífsbaráttuna á landi, sinnt þeim mikilvægu verkum sem þar hefur þurft að vinna, verið stoð og stytta sjómannsins, fjölskyldunnar og heimilisins.

Höfum jafnframt í huga að konur þurftu oft á tíðum að vaka langar og þungbærar nætur með ugg í brjósti, vitandi af eiginmönnum sínum, sonum, feðrum og bræðrum úti á sjó í vonskuveðri. Margar þeirra hafa síðan staðið frammi fyrir því að það sem þær óttuðust mest að gæti gerst, varð einn daginn helkaldur veruleiki þar sem menn skiluðu sér ekki heim af sjónum.

Ónefndum hetjum hversdagsins sem fer svo litlum sögum af, hafa ekki verið reistir sérstakir bautasteinar eða minnismerki eins og títt er um íslenska merkismenn. Þær sátu eftir með óvissuna um framtíðina, óttann og einmanaleikann en börðust áfram í gegnum lífsins ólgusjó. Það er okkar að halda minningu þeirra á lofti um ókomna tíð.

Framsýn stéttarfélag

Fundað með forsvarsmönnum Icelandair um áætlunarflug

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, fundaði með forsvarsmönnum Icelandair síðasta mánudag í höfuðstöðvum flugfélagsins í Hafnarfirði. Hann hafði áður óskað eftir fundinum til að fara yfir möguleikana á því að Icelanda­ir hefji áætlunarflug til Húsavíkur frá Reykjavík. Aðalsteinn Árni gerði grein fyrir málinu og mikilvægi þess að reglulegu áætlunarflugi sé haldið úti milli þessara landshluta. Bogi Nils Bogason, for­stjóri flug­fé­lags­ins tók áherslum heimamanna vel en vilji er til þess hjá flugfélaginu að skoða málið frekar án skuldbindinga. Framsýn mun fylgja málinu eftir með samtölum við þingmenn, ráðherra og hagsmunaaðila í heimabyggð sem eru fjölmargir s.s. sveitarfélögin, HSN, ferðaþjónustuaðilar og atvinnurekendur í Þingeyjarsýslum. Að mati Framsýnar eru mikil samlegðaráhrif fólgin í því að Icelandair noti sínar minni flugvélar í áætlunarflug til Húsavíkur, Hafnar og Ísafjarðar.

Aukum öryggi starfsfólks í verslun

VR, LÍV og SVÞ hafa tekið höndum saman til að stuðla að auknu öryggi verslunarfólks á Íslandi en bæði starfsfólk í verslun og atvinnurekendur hafa áhyggjur af vaxandi ofbeldi og áreitni gagnvart verslunarfólki í starfi. Fulltrúar allra aðila undirrituðu í dag, 16. júní, minnisblað sem leggur grunninn að frekara samstarfi á þessum vettvangi. Framsýn á aðild að samkomulaginu fyrir sína félagsmenn.

VR, Landssamband ísl. verzlunarmanna og Samtök verslunar og þjónustu sammælast um það í minnisblaðinu að setja á laggirnar vinnuhóp sem í munu sitja fulltrúar bæði launafólks og atvinnurekenda. Verkefni hópsins eur meðal annars að draga fram þær áskoranir og hættur sem varða öryggi starfsfólks verslana. Vinnuhópurinn mun taka saman yfirlit yfir aðgerðir sem fyrirtæki hafa gripið til, verklag og viðmið sem gagnast gætu öðrum fyrirtækjum og starfsfólki þeirra. Þá mun hópurinn setja saman lista með hugmyndum um önnur viðbrögð eða vinnulag sem gagnast gæti í baráttunni gegn ofbeldi í verslun.
Fyrirhugað er að starfi vinnuhópsins ljúki fyrir lok október 2025. LÍV, VR og SVÞ munu nýta niðurstöðurnar til frekara samstarfs og samtals við stjórnvöld.

Í könnun VR meðal félagsfólks kom fram að yfir helmingur allra VR félaga hefur orðið fyrir áreitni eða ofbeldi í starfi á starfsferlinum, eða 54%. Svipað hlutfall á við um sölu- og afgreiðslufólk. Könnunin var gerð haustið 2023 (sjá hér frétt um könnunina). 
Sjá minnisblaðið hér.

Áhugaverð störf í boði hjá Þingeyjarsveit

Leikskóladeildin Krílabær á Laugum auglýsir lausar stöður frá miðjum ágúst 2025:

  • Tvær 80-100% stöður leikskólakennara.
  • Eina 60% stöðu við matseld og aðstoð á deild.

Krílabær er önnur tveggja leikskóladeilda Þingeyjarskóla sem er samrekinn leik- og grunnskóli í Þingeyjarsveit. Nemendur Krílabæjar eru 6 talsins. Áhersla er lögð á góð tengsl, tákn með tali og unnið er eftir stefnunni um jákvæðan aga

80-100% stöður leikskólakennara

Helstu verkefni og ábyrgð:

  • Að vinna að uppeldi og menntun leikskólabarna samkvæmt stefnu og skipulagi skólans.
  • Vinna í nánu samstarfi við foreldra/forráðafólk nemenda.
  • Sinna verkefnum er varða uppeldi og menntun nemenda sem yfirmaður leikskólans felur honum.

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Leikskólakennaramenntun, uppeldismenntun eða önnur menntun og reynsla sem nýtist í starfi.
  • Færni í samskiptum.
  • Sjálfstæð og skipulögð vinnubrögð.
  • Góð íslenskukunnátta.

Við leitum að starfsfólki sem:

  • Treystir sér í faglega og metnaðarfulla vinnu.
  • Hefur brennandi áhuga á að starfa með börnum og ber virðingu fyrir þeim.

60% staða við matseld og aðstoð á deild

Möguleiki er á hærra starfshlutfalli með meiri viðveru á deild.

Helstu verkefni og ábyrgð:

  • Elda og bera fram hollan og góðan mat fyrir nemendur og starfsfólk Krílabæjar, u.þ.b. 10 manna hóp í samræmi við matseðil yfirmatráðs Þingeyjarskóla.
  • Ganga frá eftir matartíma og  þrífa og sótthreinsa eldhús samkvæmt gæðahandbók mötuneytis Þingeyjarskóla.
  • Aðstoða yfirmatráð Þingeyjarskóla við pantanir fyrir Krílabæ og taka á móti vörum.
  • Taka þátt í uppeldi og umönnun barnanna í Krílabæ.

Við leitum að starfsfólki sem:

  • Vill vinna eftir ítrustu kröfum um hreinlæti og rétta meðhöndlun matvæla.
  • Er lausnamiðað og vill vinna í teymi
  • Ber virðingu fyrir börnum.

Umsóknarfrestur er til og með 26. júní 2025 og skulu umsóknir berast á netfangið nanna@thingskoli.is. Áhugasamir einstaklingar, án tillits til kyns, eru hvattir til að sækja um. Frekari upplýsingar um störfin veitir Nanna Marteinsdóttir leikskólastjóri Þingeyjarskóla í gegnum tölvupóst nanna@thingskoli.is  og í síma 464-3590/898-0790.

Á hvaða vegferð eru stjórnvöld?

Það er með miklum ólíkindum að stjórnvöld ætli að slá sig til riddara með því að laga kjör öryrkja með því að ráðast á lífeyrisréttindi verkafólks þegar það fer á eftirlaun. Vissulega er það kaldhæðnislegt að kostnaðurinn sem mun leggjast á lífeyrisréttindi verkafólks nemur skv. umsögn Samtaka atvinnulífsins 8,8 milljörðum á ári sem er nánast sama upphæð og veiðileyfisgjöldin eiga að skila þjóðarbúinu! Sérstaklega fimm lífeyrissjóðir verkafólks verða fyrir barðinu á þessu glórulausa frumvarpi þ.e.a.s Stapi lífeyrissjóður, Festa lífeyrissjóður, Gildi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður Rangæinga og Lífeyrisjóður Vestmannaeyja en allir þessir sjóðir munu þurfa að skerða ellilífeyri og réttindaávinnsluna umtalsvert eða frá 5% upp í allt að 7,5% skv. mati tryggingarstærðfræðings verði frumvarpið að lögum í óbreyttri mynd. Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins skrifar um málið á Vísi. Lesa má greinina hér að neðan en full ástæða er til að koma í veg fyrir þennan gjörning. Markmiðið með frumvarpinu er að rýra eftirlaun verkafólks sem margir hverjir hafa greitt í lífeyrissjóð alla sína æfi.

https://www.visir.is/g/20252738906d?fbclid=IwY2xjawK8BppleHRuA2FlbQIxMQBicmlkETBLendQeEljNzBrbWt2S3dIAR5Aw7Ywb2ODGu6cX17Ed8fDp1C8zGeqBEYOcd1AgOfIX5MBrF6rG8SDhowXPg_aem_ziZPInnXMTT1d3FCwG4h4A