Framsýn styrkir Blakdeild Völsungs

Framsýn og Blakdeild Völsungs hafa gert með sér samkomulag um að félagið styrki starfsemi deildarinnar næstu tvö árin. Um er að ræða framlengingu á fyrri samningi. Styrkurinn felst í því að Framsýn tekur þátt í búningakaupum á blaklið Völsungs auk þess sem félagið fær auglýsingu á vegg í Íþróttahöllinni á Húsavík. Framsýn hefur lengi verið sterkur bakhjarl æskulýðs- og íþróttastarfs á félagssvæðinu sem eru Þingeyjarsýslur frá Vaðlaheiði að Raufarhöfn.

Góður fundur með KS

Formaður Framsýnar gerði sér ferð á Sauðárkrók fyrir helgina til að funda með stjórnendum KS sem nýlega eignuðust Kjarnafæði/Norðlenska. Fram hefur komið í fjölmiðlum að meginmarkmið viðskiptanna sé að auka hagkvæmni, lækka kostnað við slátrun og úrvinnslu kjötafurða og auka þannig skilvirkni og samkeppnishæfni innlendrar matvælaframleiðslu bændum og neytendum til hagsbóta. Fundur Framsýnar með KS var mjög góður í alla staði, menn skiptust á skoðunum um stöðu og framtíðarhorfur í íslenskum landbúnaði. Þá var farið yfir stöðu afurðastöðvana en Kjarnafæði/Norðlenska rekur öfluga kjötvinnslu og sauðfjársláturhús á Húsavík sem hefur verið í góðu samstarfi við Fjallalamb á Kópaskeri. Framsýn lagði áherslu á að rekstur fyrirtækisins á Húsavík yrði tryggður til framtíðar og þá fælust tækifæri í því að efla Fjallalamb á Kópaskeri með auknu samstarfi aðila.

Vinnustaðaheimsókn í Fjallalamb

Fulltrúar Framsýnar gerðu sér ferð í Fjallalamb í gær. Umræða var tekin um síðustu sláturtíð sem lauk á dögunum og framtíðina en dregið hefur verulega úr starfsemi fyrirtækisins á síðustu árum, samhliða því hefur starfsmönnum fækkað töluvert. Í heildina var slátrað tæplega 22.000 fjár þetta haustið, sem er heldur meira en á síðasta ári. Þess ber að geta að ekki var slátrað á Vopnafirði í haust sem gerði það að verkum að hluta af því sauðfé sem hefur verið slátrað þar var slátrað hjá Fjallalambi og KN á Húsavík. Fyrir sláturtíðina gekk Framsýn frá samkomulagi við fyrirtækið um launakjör starfsmanna með sérstöku samkomulagi. Það er von Framsýnar að það takist að efla starfsemi Fjallalambs á komandi árum með aðkomu fjársterkra aðila að fyrirtækinu.

Stefnir á þing

Þorgrímur Sigmundsson sem skipar annað sætið á lista Miðflokksins í Norðausturkjördæmi gaf sér tíma til að setjast niður með formanni Framsýnar í gær  til að ræða málefni kjördæmisins og helstu áherslumál er tengjast ekki síst velferðar,- atvinnu- og byggðamálum. Þorgrímur hefur verið á ferðinni um kjördæmið til að kynna sig og málefni Miðflokksins enda stefnir hann að því að komast á þing. Fundurinn var ánægjulegur og gagnlegur á alla staði fyrir báða aðila. Að sjálfsögðu óskum við Þorgrími velfarnaðar líkt og öðrum frambjóðendum sem eru í kjöri til Alþingis í Norðausturkjördæmi.

Hvar er fjárveitingin í Húsavíkurflugið?

Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, kallar eftir skýrum svörum frá þingönnum kjördæmisins varðandi fjárheimildir sem áætlaðar voru í flugsamgöngur milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Til stóð að áætlunarflug hæfist til þriggja mánaða um næstu mánaðamót. Því miður bendir allt til þess að svo verði ekki vegna áhugaleysis stjórnvalda. Greinin er eftirfarandi:

Hvar er fjárveitingin í Húsavíkurflugið?

Þingeyingar hafa lengi barist fyrir því að áætlunarflugi milli Húsavíkur og Reykjavíkur verði viðhaldið enda um mikilvæga samgöngubót að ræða, ekki síst fyrir heimamenn, ferðamenn og blómlegt atvinnulíf í Þingeyjarsýslum.

Þann 1. apríl sl. lagðist áætlunarflugið af eftir að Flugfélagið Ernir hafði haldið úti reglulegu flugi til Húsavíkur í nánu samstarfi við hagsmunaaðila frá árinu 2012.  

Frá því í vor hefur verið unnið að því að kalla eftir skilningi stjórnvalda á mikilvægi þess að ríkið komi að fluginu með sambærilegum ríkisstyrkjum og þekkist í dag til annarra áfangastaða víða um land. Hvað það varðar hefur verið leitað eftir stuðningi frá þingmönnum Norðausturkjördæmis, ráðuneytisfólki, Vegagerðinni og Svandísi Svavarsdóttir þáverandi innviðaráðherra sem nýlega lét af störfum.

Ekki síst vegna þrýstings hagsmunaaðila var flug til Vest­manna­eyja og Húsa­víkur boðið út fyrr á þessu ári til þriggja mánaða. Framsýn hefur hins vegar lagt áherslu á að styrkurinn væri á ársgrundvelli með það að markmiði að tryggja öruggar flugsamgöngur milli landshluta, það er Húsavíkur og Reykjavíkur til framtíðar.

Vegagerðin varð ekki við þeirri ósk og bauð flugið aðeins út í þrjá mánuði, það er yfir vetrarmánuðina desember til febrúarloka yfir þriggja ára tímabil, samtals níu mánuði. Á vef Vegagerðarinnar frá því í mars má lesa að fyrirsjáanleiki sé kominn í flug til þessara staða, þannig að áform séu um að fljúga með ríkisstyrk þessa mánuði og það útboðsferli sé komið í gang með það að markmiði að semja um þjónustuna. Takið eftir, semja um þjónustuna sem ekkert hefur orðið úr, mörgum mánuðum síðar hvað Húsavík varðar.

Eftir yfirferð Vegagerðarinnar var ákveðið að semja við Mýflug um áætlunarflugið milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja. Þrátt fyrir að hafa fengið tilboð í áætlunarflugið til Húsavíkur frá sama flugfélagi virðist sem fjármagnið í flugleiðina hafi gjörsamlega gufað upp og tilboðið sé því fallið úr gildi samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum.

Í svari til Framsýnar kemur fram að Vegagerðin hafi ekki fengið fjárheimild til verkefnisins, aðeins hafi fengist fjármagn fyrir flugleiðina til Vestmannaeyja. Af hverju Vegagerðin bauð flugið út til Húsavíkur án þess að hafa örugga fjárheimild til þess er ekki vitað. Hins vegar virðist sem það sé tregða í kerfinu að standa skil á þeim fjármunum sem voru hugsaðir í Húsavíkurflugið.  Hvað veldur, þetta kallar á svör frá þeim sem eru með málið á sínu forræði. Getur verið að það sé pólitísk andstaða að halda úti áætlunarflugi til Húsavíkur? Í það minnsta er þögn þingmanna kjördæmisins yfirþyrmandi.

Ég vil skora á þingmenn Norðausturskjördæmis að taka málið upp og kalla eftir skýrum svörum, það á ekki síst við um Njál Trausta Friðbertsson formann fjárlaganefndar Alþingis og Ingibjörgu Isaksen fyrsta þingmann kjördæmisins, en Framsóknarflokkurinn stýrir Fjármálaráðuneytinu um þessar mundir sem og Innviðaráðuneytinu sem fara með þessi mál. Hæg eru heimatökin.

Þingmenn kjördæmisins skulda Þingeyingum svar við þessari spurningu, hvað varð um fjárheimildina sem átti að tryggja flugsamgöngur til Húsavíkur í þrjá mánuði á ári í þrjú ár? Svar óskast fyrir komandi kjördag 30. nóvember 2024, en samkvæmt útboði Vegagerðarinnar átti áætlunarflugið að hefjast um næstu mánaðamót.

Aðalsteinn Árni Baldursson,
formaður Framsýnar stéttarfélags

Sjálfstæðismenn gáfu sér góðan tíma til að fara yfir þjóðmálin með fulltrúm Framsýnar

Jens Garðar Helgason sem skipar fyrsta sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar kom ásamt fylgdarliði í heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna fyrir helgina. Með í för voru nokkrir af þeim sem skipa efstu sætin á listanum. Frambjóðendurnir gáfu sér góðan tíma til að ræða við forsvarsmenn Framsýnar um þjóðmálin. Umræður urðu um komandi kosningar og áherslumál Sjálfstæðisflokksins meðan fulltrúar Framsýnar töluðu fyrir bættu aðgengi að heilbrigðisþjónustu, samgöngumálum, atvinnu- og byggðamálum. Að sjálfsögðu var áætlunarflugið milli Húsavíkur og Reykjavíkur sem reyndar liggur niðri um þessar mundir einnig tekið upp til umræðu. Sjálfstæðismenn óskuðu eftir góðu samstarfi við Framsýn um þau atriði sem betur mega fara í kjördæminu og á landsvísu.

Frambjóðandi VG kynnir sér stöðina

Góður gestur kom við hjá formanni Framsýnar í gær, Jóna Björg Hlöðversdóttir, sem skipar annað sætið á lista VG í Norðausturkjördæmi í komandi alþingiskosningum. Það er alltaf fagnaðarefni þegar frambjóðendur, þingmenn, ráðherrar og aðrir sem koma að stjórnmálum líta við á Skrifstofu stéttarfélaganna til að kynna sér málin og hvað brennur heitast á forsvarsmönnum stéttarfélaganna sem eru vel tengdir atvinnulífinu og því helsta sem brennur á íbúum í Þingeyjarsýslum. Fundurinn fór vel fram og skiptust þau Aðalsteinn Árni og Jóna Björg á skoðunum um málefni samfélagsins, ekki síst er varðar heilbrigðismál, samgöngumál, atvinnu- og byggðamál. Að sjálfsögðu var staða bænda einnig tekin til umræðu enda hefur Jóna Björg verið mjög virk er viðkemur hagsmunum bænda, ekki síst ungra bænda.

Fólki misboðið yfir gjaldskrárhækkunum OH

Dæmi eru um að viðskiptavinir Orkuveitu Húsavíkur, ekki síst fjölskyldufólk og fólk í viðkvæmri stöðu, hafi sett sig í samband við Skrifstofu stéttarfélaganna og krafist þess að Framsýn geri athugasemdir við boðaðar hækkanir á gjaldskrám orkuveitunnar um áramótin. Fólki er greinilega misboðið. Á sama tíma og samið var um hófsamar launahækkanir upp á 3,5% sem koma eiga til framkvæmda um næstu áramót telja forsvarsmenn OH eðlilegt að hækka gjaldskrár fyrirtækisins um 5% til 7,6%. Með bréfi til OH í morgun eru gerðar alvarlegar athugasemdir við boðaðar hækkanir um leið og skorað er á veituna að draga þær til baka.

Orkuveita Húsavíkur ohf.
v/Ketilsbraut
640 Húsavík

Húsavík 1. nóvember 2024

Varðar óhóflegar hækkanir OH
Samkvæmt fundargerð stjórnar Orkuveitu Húsavíkur frá 29. október 2024 kemur fram að meirihluti stjórnar leggur til verulegar hækkanir á gjaldskrám orkuveitunnar milli ára, þrátt fyrir að fyrirtækið standi afar vel um þessar mundir. Talað er um hóflegar hækkanir, sem eru samt sem áður, umtalsvert hærri en boðaðar launahækkanir á almenna vinnumarkaðinum um næstu áramót.

„Í ljósi sterkrar stöðu Orkuveitu Húsavíkur hefur stjórn ákveðið að stilla gjaldskráhækkun í hóf miðað við þróun vísitölu. Meirihluti stjórnar samþykkir að hækka gjaldskrá um 5%.“

Þá er jafnframt tekið fram í fundargerð stjórnar OH:

 „Í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að gjaldskrá fyrir kalt vatn og fráveitu fylgi hækkun fasteignagjalda í Norðurþingi og hækki þar með um 7,6% á árinu 2025.“ 

Boðaðar hækkanir OH á gjaldskrám eru langt frá því að vera í takt við samkomulag aðila vinnumarkaðarins og yfirlýsingar stjórnvalda/sveitarfélaga sem fylgdu síðustu kjarasamningum sem undirritaðir voru 7. mars 2024 og tengist m.a. sveitarfélögum og fyrirtækjum í þeirra eigu. Þar segir:

„Til að greiða fyrir langtímakjarasamningum á vinnumarkaði munu ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga vinna að aðgerðum sem styðja við sameiginleg markmið stjórnvalda og samningsaðila um að leggja grundvöll að bættum lífskjörum og kaupmætti launafólks og stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta.“

Hvað viðkemur hækkunum á gjaldskrám er tekið fram í yfirlýsingu stjórnvalda/sveitarfélaga:

• Til að stuðla að verðstöðugleika munu gjaldskrár ríkis almennt ekki hækka umfram 2,5% á árinu 2025. 

• Sveitarfélögin lýsa yfir vilja til að hækka ekki gjaldskrár fyrir árið 2024 umfram 3,5% og endurskoða gjaldskrár ársins hafi þær hækkað meira. Sérstaklega verði horft til gjaldskráa er varða barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu. Þá verði gjaldskrárhækkunum stillt í hóf eins og nokkur kostur er á samningstímanum.

Til fróðleiks fyrir stjórnendur OH, þá hækka laun almennt um 3,5% um næstu áramót hjá megin þorra launafólks. Ljóst er að boðar gjaldskrárbreytingar OH munu koma afar illa við viðskiptavini orkuveitunnar, ekki síst barnafólk sem nær ekki að dekka þennan kostnaðarauka með launahækkunum 1. janúar 2025.

Viðbrögðin frá viðskiptavinum OH hafa ekki látið á sér standa enda Framsýn borist ábendingar frá reiðum viðskiptavinum orkuveitunnar sem skorað hafa á félagið að vekja athygli á þessum óskiljanlegu hækkunum og krefjast þess að gjaldskrárbreytingarnar verði endurskoðaðar til lækkunar.

Þá virðist sem bókun Byggðaráðs Norðurþings um gjaldskrárbreytingar frá 24. október 2024 hafi algjörlega farið fram hjá stjórn OH sem velur að sniðganga hana.

Bókunin er eftirfarandi:

„Fyrir byggðarráði liggur erindi frá Framsýn stéttarfélagi þar minnt er á að sveitarfélögin virði samkomulagið sem gert var samhliða síðustu kjarasamningum um aðhald hvað varðar gjaldskrárbreytingar til hækkunar hjá sveitarfélögunum og fyrirtækjum í þeirra eigu. Byggðarráð þakkar erindið og telur þær tillögur að gjaldskrám sem nú eru til umræðu vera til samræmis við samkomulag sem gert var samhliða síðustu kjarasamningum.“

Í ljósi mjög góðrar stöðu Orkuveitu Húsavíkur og yfirlýsinga frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem lofa hófsemi í gjaldskrárbreytingum sveitarfélaga og fyrirtækja í þeirra eigu er hér með skorað á stjórn OH að endurskoða þessar óhóflegu og reyndar óskiljanlegu hækkanir á gjaldskrám sem koma eiga til framkvæmda í byrjun árs 2025. Fyrir liggur að hækkanirnar, sem eru langt umfram almennar launahækkanir, munu ekki síst koma einstæðum foreldrum, barnafólki  og fólki í viðkvæmri stöðu afar illa.

Virðingarfyllst
Fh. Framsýnar stéttarfélags
Aðalsteinn Árni Baldursson

Afrit:
Starfsgreinasamband Íslands
Sveitarstjóri Norðurþings

Þingeyjarsveit- Ætla að gæta hófs í gjaldskrárhækkunum

Þingeyjarsveit hefur tekið fyrir erindi Framsýnar um breytingar á gjaldskrám. Eftirfarandi var bókað:

„Lagt fram erindi frá Framsýn stéttarfélagi þar sem þar minnt er á samkomulagið sem gert var samhliða síðustu kjarasamningum um aðhald hvað varðar gjaldskrárbreytingar til hækkunar hjá sveitarfélögunum og fyrirtækjum í þeirra eigu. Framsýn óskar eftir við Þingeyjarsveit að virða áðurnefnt samkomulag.“

Byggðarráð Þingeyjarsveitar þakkar erindið og tekur undir mikilvægi þess að hækka ekki álögur á barnafjölskyldur og viðkvæma hópa. Jafnframt telur byggðarráð að hófs sé gætt í öðrum gjaldskrárhækkunum.

Búa sig undir Kvennaráðstefnu ASÍ 2024

Árleg Kvennaráðstefna ASÍ verður haldin dagana 14. – 15. nóvember nk. á Hótel KEA á Akureyri. Yfirskrift ráðstefnunnar er: Ryðjum hindrunum úr vegi – kvenfrelsi og stéttabarátta 

Ráðstefnan er opin félagslega kjörnum fulltrúum stéttarfélaganna og starfskonum hreyfingarinnar.

Markmið Kvennaráðstefnu í ár, eins og endranær, er að virkja samtakamátt ASÍ-kvenna til að styðja og hvetja konur til áhrifa í hreyfingunni, ásamt því að fræðast, brýna verkalýðshugsjónina og hafa gaman saman. Einnig að setja málefni er lúta að velferð, öryggi og réttindum launakvenna rækilega á dagskrá. Helstu jafnréttisáherslur frá 45. þingi eru að leiðrétta skuli vanmat á kvennastörfum, taka skuli enn betur á móti þolendum kynferðislegrar áreitni og ofbeldi í vinnu og vinnutengdu umhverfi og að beina þurfi sjónum að stöðu foreldra og  þrýsta á aðgerðir sem draga úr umönnunarbilinu sem myndast hefur milli fæðingarorlofs og leikskóla. Þessar sömu áherslur verða til grundvallar á ráðstefnunni. Fyrirkomulag ráðstefnunnar verður með þeim hætti að sérhverju félagi býðst að halda utan um 45 mínútna málstofu um málefni sem á því brennur og er því dagskrá ráðstefnunnar í höndum þátttakenda. Fulltrúar Framsýnar á ráðstefnunni verða Ósk Helgadóttir, Agnieszka Szczodrowska og Nele Marie Beitelstein. Á meðfylgjandi mynd eru þær samankomnar til að undirbúa sig fyrir ráðstefnuna.  

Opið hús í Hraunholtinu

Fjölmargir gerðu sér ferð í Hraunholtið síðasta sunnudag til að skoða nýjar og glæsilegar íbúðir stéttarfélaganna, það er að Hraunholti 26 til 28. Almenn ánægja kom fram hjá gestunum með íbúðirnar sem þegar hafa verið teknar í notkun en þær fóru í leigu í september til félagsmanna. Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir því, að aðeins hluti félagsmanna Framsýnar og Þingiðnar býr á Húsavík, þess vegna ekki síst eru þessar íbúðir kærkomnar þeim félagsmönnum sem búa fjarri Húsavík. Þá eru þegar dæmi um að félagsmenn á Húsavík, sem eru að taka sýnar íbúðir í gegn, leigi íbúð á vegum stéttarfélaganna meðan þeir standa í framkvæmdum. Sjá myndir frá opnu húsi í Hraunholtinu:

Formaður með fyrirlestur á Laugum

Framsýn og Framhaldsskólinn á Laugum hafa átt gott samstarf um fræðslu er tengist vinnumarkaðinum og starfsemi stéttarfélaga og lífeyrissjóða fyrir nemendur skólans. Í gær var komið að kynningu fyrir nýnema í skólanum. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, fór yfir tilgang stéttarfélaga og vinnumarkaðinn. Jóna Finndís Jónsdóttir forstöðumaður réttindasviðs Lsj. Stapa fór yfir gagnlegar upplýsingar er tengjast markmiðum lífeyrisjóða. Nemendur Laugaskóla voru áhugasamir og spurðu frummælendur út í hitt og þetta sem tengdist viðfangsefnum dagsins.

Norðurþing ætlar að virða samkomulag aðila vinnumarkaðarins um gjaldskrárbreytingar

Á dögunum sendi Framsýn erindi á Norðurþing varðandi fyrirhugaðar hækkanir á gjaldskrám sveitarfélagsins og fyrirtækja í þeirra eigu. Var sveitarfélagið hvatt til að sína hófsemi og virða samkomulag aðila vinnumarkaðarins, þar á meðal sveitarfélaganna, um hækkanir á gjaldskrám.

Byggðaráð Norðurþings tók erindið fyrir á fundi 24. október og gerði eftirfarandi bókun:

„Fyrir byggðarráði liggur erindi frá Framsýn stéttarfélagi þar minnt er á að sveitarfélögin virði samkomulagið sem gert var samhliða síðustu kjarasamningum um aðhald hvað varðar gjaldskrárbreytingar til hækkunar hjá sveitarfélögunum og fyrirtækjum í þeirra eigu. Byggðarráð þakkar erindið og telur þær tillögur að gjaldskrám sem nú eru til umræðu vera til samræmis við samkomulag sem gert var samhliða síðustu kjarasamningum.“

Til fróðleiks má geta þess að þetta er tiltekið í yfirlýsingu stjórnvalda:

Gjaldskrárhækkanir ríkisins og sveitarfélaga

• Til að stuðla að verðstöðugleika munu gjaldskrár ríkis almennt ekki hækka umfram 2,5% á árinu 2025. 

• Sveitarfélögin lýsa yfir vilja til að hækka ekki gjaldskrár fyrir árið 2024 umfram 3,5% og endurskoða gjaldskrár ársins hafi þær hækkað meira. Sérstaklega verði horft til gjaldskráa er varða barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu. Þá verði gjaldskrárhækkunum stillt í hóf eins og nokkur kostur er á samningstímanum.

Sjá nánar: https://www.sgs.is/media/2051/yfirlysing-stjornvalda-vegna-kjarasamninga.pdf

Opið hús – Hraunholt 26-28

Framsýn og Þingiðn verða með opið hús í Hraunholti 26-28 sunnudaginn 27. október frá kl. 14:00 til 16:00. Boðið verður upp á kaffi og kleinur. Áhugasömum gefst kostur á að skoða tvær glæsilegar orlofsíbúðir sem þegar hafa verið teknar í notkun fyrir félagsmenn. Sjáumst hress og glöð í hjarta yfir þessum glæsilega áfanga.

Framsýn stéttarfélag
Þingiðn, félag iðnaðarmanna

Fallegasta fólkið á þinginu

Síðar í dag klárast reglulegt þing Alþýðusambands Íslands en það hófst síðasta miðvikudag. Þing ASÍ eru haldinn á tveggja ára fresti. Á meðfylgjandi mynd má sjá fulltrúa Framsýnar, Þingiðnar og Verkalýðsfélags Þórshafnar á þinginu. Þetta eru þau Aneta Potrykus, Guðný I. Grímsdóttir, Ósk Helgadóttir, Aðalsteinn Árni Baldursson, Jónas Kristjánsson, María Jónsdóttir og Torfi Aðalsteinsson.

Uppsetning á nýrri hurð

Nú er unnið að því að setja upp nýja útihurð á Skrifstofu stéttarfélaganna. Eldri hurðin var orðin ansi léleg enda yfir 40 ára gömul. Næstkomandi mánudag koma viðskiptavinir stéttarfélaganna, Sjóvá og Sparisjóðs S- Þingeyinga til með að geta gengið um nýju rafmagnshurðina.

Sameinast um þjónustuskrifstofu

Sjóvá og Sparisjóður Suður-Þingeyinga hafa sameinast um þjónustuskrifstofu að Garðarsbraut 26 á Húsavík, það er í húsnæði stéttarfélaganna. Sparisjóðurinn var þar áður en nú hefur Sjóvá jafnframt fengið aðgengi að húsnæðinu. Á þessum tímamótum var rýmið allt tekið í gegn og er nú orðið allt hið glæsilegasta. Starfsmenn segjast afar ánægðir með breytingarnar um leið og þeir bjóða Þingeyinga sem og aðra velkomna í viðskipti.

Framkvæmdir hafnar á Húsavík á vegum Bjargs – opnað fyrir umsóknir

Bjarg íbúðafélag er húsnæðissjálfseignarstofnun stofnuð af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða svokölluð leiguheimili að norrænni fyrirmynd, „Almene boliger“. Fyrstu íbúðir voru afhentar leigutökum í júní 2019 á höfuðborgarsvæðinu. Framsýn hefur lengi barist fyrir því að Bjarg komi að því að byggja leiguhúsnæði fyrir tekjulága á Húsavík og víðar á félagssvæðinu enda sé grundvöllur fyrir því. Það er í fullu samstarfi við sveitarfélgin og verkalýðsfélögin í Þingeyjarsýslum. Nú ber svo við að hafnar eru framkvæmdir við sex íbúða raðhús á Húsavík að Lyngholti 42-52. Um er að ræða sérbýli með litlum garði og allar íbúðir með tveimur bílastæðum. Allar íbúðirnar eru 4ra herbergja (3 svefnherbergi). Reiknað er með að íbúðirnar verði tilbúnar í apríl 2025. Íbúðirnar eru ætlaðar fyrir félagsmenn Framsýnar, Þingiðnar og Starfsmannafélags Húsavíkur sem eru á leigumarkaði og standast þær reglur sem gilda um úthlutun íbúðana. Þá hafa félagsmenn innan aðildarfélaga ASÍ og BSRB sem búa utan félagssvæðið stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum einnig aðgengi að íbúðunum. Full ástæða er til að fagna þessum áfanga. Norðurþing kemur að þessu verkefni með Bjargi íbúðafélagi. Hér er hægt að lesa frekar um starfsemi Bjargs íbúafélags: https://www.bjargibudafelag.is/. Opnað var fyrir umsóknir 14. október 2024 og úthlutun hefst 15. nóvember 2024. Hér má sjá staðsetningu íbúðanna. 

Málefnalegt þing BSRB

47. þing BSRB var haldið á Hilton Hótel Nordica í byrjun október. Um 220 þingfulltrúar frá öllum aðildarfélögum höfðu seturétt á þinginu. Þing BSRB eru haldin þriðja hvert ár og fara þau með æðsta vald í öllum málum bandalagsins. Þingið tekur til umfjöllunar öll þýðingarmikil málefni og mótar stefnu BSRB. Þá er kosið í helstu embætti bandalagsins á þingum þess. Starfsmannafélag Húsavíkur átti tvo góða fulltrúa á þinginu, það er Hermínu Hreiðars og Bergljótu Friðbjörns. Þær voru ánægðar með þingið.

Dagskrá þingsins og aðrar upplýsingar má finna á þingvef BSRB

Fóru í kynnisferð til Egilsstaða

Starfsfólk Skrifstofu stéttarfélaganna fór til Egilsstaða í gær í náms- og kynnisferð. Tilgangur ferðarinnar var að skoða orlofshús STH á Eiðum sem tekið var í gegn í sumar, heimsækja lögmenn félagsins sem starfa hjá Sókn lögmannstofu og Héraðsprent sem sér um að prenta bæklinga, dagatöl og Fréttabréf stéttarfélaganna. Heimsóknin tókst í alla staði mjög vel og móttökur heimamanna voru frábærar.