Pirringur í atvinnurekendum

Fram kom í fjölmiðlum fyrir helgina að illa gangi að manna sláturhúsin í haust þrátt fyrir mikið atvinnuleysi á Íslandi. Þó nokkuð er um að atvinnurekendur hafi haft samband við Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík og komið óánægju sinni á framfæri við stéttarfélögin. Forsvarsmenn sláturhúsanna á svæðinu, það er á Húsavík og á Kópaskeri, eru meðal þeirra fyrirtækja sem haft hafa samband við skrifstofuna í leit að starfsfólki til starfa í haust. Það er ekki bara að vanti fólk til starfa við slátrun heldur hefur einnig gengið illa að manna störf í ferðaþjónustu og fiskvinnslu. Dæmi eru um að fyrirtæki í ferðaþjónustu hafi gefist upp við að auglýsa eftir starfsfólki þar sem engir hafi sótt um störfin. Fyrirtækin hafa því þurft að leita út fyrir landssteinanna í leit að starfsfólki. Vissulega vekur þetta töluverða athygli á sama tíma og atvinnuleysi á Íslandi er í sögulegu hámarki. Að sjálfsögðu á enginn að vera á atvinnuleysisbótum bjóðist honum starf við sitt hæfi. Ekki síst í ljósi þessa er mikilvægt að efla starfsemi Vinnumálastofnunnar sem ætlað er meðal annars að miðla fólki í vinnu. Núverandi ástand er ekki boðlegt atvinnulífinu. Undir það tekur Framsýn stéttarfélag en málið var til umræðu á stjórnarfundi félagsins á fimmtudaginn.

 

Aðalfundur Framsýnar 25. ágúst

Aðalfundur Framsýnar stéttarfélags verður haldinn þriðjudaginn 25. ágúst kl. 20:00 í fundarsal félagsins. Skorað er á félagsmenn að fjölmenna á fundinn. Boðið verður upp á kaffi og góðar veitingar. Þá fá allir fundarmenn smá glaðning frá félaginu sem enginn má missa af.

 Dagskrá:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf
    Skýrsla stjórnar
    Ársreikningar
    Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
    Lýst kjöri í trúnaðarstöður í félaginu
    Lagabreytingar
    Ákvörðun árgjalda
    Laun stjórnar
    Kosning löggilts endurskoðanda
  2. Önnur mál

Athygli er vakin á 32. grein laga félagsins – Ráðstöfun úr sjóðum félagsins:
Tillögur stjórnar, trúnaðarmannaráðs og félagsmanna um meiriháttar ráðstöfun úr sjóðum félagsins sem bornar eru upp á aðal- eða félagsfundi til samþykktar, skal lýst í fundarboði. Berist slík tillaga eftir fundarboð, er hún tæk fyrir fundinn hafi hún borist stjórn félagsins með skriflegum hætti eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan fund. Skal þá stjórn félagsins fjalla um tillöguna og láta hana liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar fyrir félagsmenn í a.m.k. 5 virka daga.

Stjórn Framsýnar stéttarfélags

 

 

Forsetinn í heimsókn

Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, leit við á Skrifstofu stéttarfélaganna í gær til að ræða stöðu mála. Umræður urðu um þjóðmál, efnahagsmál og stöðu atvinnumála á svæðinu. Eins og kunnugt er þá er mikið atvinnuleysi á Íslandi um þessar mundir, ekki síst í ferðaþjónustu og þjónustugreinum tengdum ferðaþjónustu. Þá liggur fyrir að búið er að segja upp um 80 starfsmönnum hjá PCC BakkiSilicon hf.  sem er alvarlegt mál þar sem það hefur ekki bara áhrif á rekstur fyrirtækisins heldur einnig önnur fyrirtæki á Húsavík sem hafa þjónustað starfsemina á Bakka. Vonandi sjá fleiri þingmenn kjördæmisins ástæðu til að líta við og ræða stöðuna í atvinnumálum og mótvægisaðgerðir gegn auknu atvinnuleysi. Við þökkum Steingrími fyrir komuna.

Nú er kalt í veðri – húfur í boði

Eftir einstaklega gott sumar gráta himnarnir þessa dagana, það er að sjálfsögðu gert fyrir gróðurinn, ekki okkur mannfólkið.  Félagsmenn Framsýnar og Þingiðnar eru velkomnir í heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna og reyndar aðrir sem þurfa á bestu húfum í heimi að halda meðan rigningin gengur yfir. Gjörið þið svo vel og lítið við hjá starfsfólki stéttarfélaganna. Við erum að venju í stuði og tökum vel á móti ykkur.

Aðalfundur Þingiðnar 26. ágúst

Aðalfundur Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum verður haldinn miðvikudaginn 26. ágúst kl. 20:00 í fundarsal félagsins. Skorað er á félagsmenn að fjölmenna á fundinn. Boðið verður upp á kaffi og góðar veitingar. Þá fá allir fundarmenn smá glaðning frá félaginu, ekki missa af því kæri félagi.

 Dagskrá:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf
    Skýrsla stjórnar
    Ársreikningar
    Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
    Lýst kjöri í trúnaðarstöður í félaginu
    Lagabreytingar
    Ákvörðun árgjalda
    Laun stjórnar
    Kosning löggilts endurskoðanda
  1. Önnur mál

Athygli er vakin á 24. grein laga félagsins – Ráðstöfun úr sjóðum félagsins:
Tillögur stjórnar, trúnaðarmannaráðs og félagsmanna um meiriháttar ráðstöfun úr sjóðum félagsins sem bornar eru upp á aðal- eða félagsfundi til samþykktar, skal lýst í fundarboði. Berist slík tillaga eftir fundarboð, er hún tæk fyrir fundinn hafi hún borist stjórn félagsins með skriflegum hætti eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan fund. Skal þá stjórn félagsins fjalla um tillöguna og láta hana liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar fyrir félagsmenn í a.m.k. 5 virka daga.

Stjórn Þingiðnar

 

 

 

 

Ekkert sumarfrí hjá stjórn Framsýnar

Stjórnir Framsýnar og Framsýnar-ung hafa verið boðaðar til sameiginslegs fundar á fimmtudaginn í fundarsal stéttarfélaganna. Mörg mál eru á dagskrá fundarins. Fyrir fundinum liggur ákvörðun um að ákveða tímasetningu aðalfundar.

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Aðalfundur félagsins- tímasetning
  4. Þing ASÍ-UNG 11. september
  5. Fundur með Byggðaráði Norðurþings
  6. Atvinnumál á svæðinu
  7. Fundur með starfsmönnum Vatnajökulsþjóðgarðs
  8. Kjör á trúnaðarmanni í Vatnajökulsþjóðgarði
  9. Fundur með stjórn Félags eldri borgara á Húsavík
  10. Heimsókn frá LÍV
  11. Erindi frá Gólfklúbbi Húsavíkur
  12. Samruni Norðlenska og Kjarnafæðis
  13. Uppgjör við LH vegna leiksýningar
  14. Viðbrögð við erindum félagsins frá Samkaupum/borgarstjórn
  15. Erindi frá Rifós hf.
  16. Málefni Þorrasala
  17. Ársfundur Lsj. Stapa
  18. Heimsóknir á Skrifstofu stéttarfélaganna
  19. Málefni ASÍ
  20. Önnur mál

Skin og skúrir í atvinnumálum

Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með þeim mikla straumi íslenskra ferðamanna sem komið hefur til Húsavíkur í sumar eftir erfiðan vetur. Erlendir ferðamenn eru einnig farnir að láta sjá sig eftir ferðabannið, sem er vel.

Bærinn hefur frá því í vor iðað af lífi og forsvarsmenn veitinga- og gististaða hafa almennt verið ánægðir með sumarið. Ekki má gleyma því að Húsavík hefur upp á mikið að bjóða, einstakt bæjarstæði, náttúruperlur, afþreyingu, gott mannlíf og ekki síst öfluga ferðaþjónustu. Ekki skemmir fyrir að kvikmyndin The Story of Fire Saga, sem vakið hefur heimsathygli, var að hluta til tekin upp á Húsavík. Fólk á öllum aldri heyrist nú syngja lögin úr myndinni, ekki síst;  “Ja ja ding dong og Husavik-My Hometown“. Já, það er gaman að þessu.

Á sama tíma og ber að gleðjast yfir þessum viðsnúningi, sem byggir á því að Íslendingar hafa í ljósi aðstæðna í heiminum valið að ferðast innanlands í sumar og fleiri en færri valið Húsavík sem viðkomustað berast slæmar fréttir af rekstri PCC BakkiSilicon hf.

Í dag er svo komið að fyrirtækið PCC sem hóf framleiðslu vorið 2018 er orðið eitt öflugasta fyrirtækið í Þingeyjarsýslum sérstaklega hvað varðar umsvif og skatttekjur til samfélagsins, ríkis og sveitarfélaga. Mikilvægi PCC er óumdeilt. Þannig námu heildarlaunagreiðslur fyrirtækisins árið 2019 rúmum 1,4 milljarði sem þýðir að útsvarstekjur sveitarfélagsins vegna starfseminnar voru um 200 milljónir á sama tíma. Þar fyrir utan hefur félagið verið stór vöru- og þjónustukaupandi af aðilum í héraðinu og árið 2019 námu þau kaup rúmum hálfum milljarði króna.

Að starfseminni hafa komið um 150 starfsmenn, launakjör hafa verið góð miðað við önnur starfskjör á félagssvæði Framsýnar og þá er fyrirtækið með hærri skattgreiðendum á svæðinu. Fyrirtækið er því afar mikilvægt fyrir íbúa Norðurþings. Ég er ekki viss um að allir íbúar sveitarfélagsins geri sér grein fyrir þessu. Þá má geta þess að PCC greiddi mest allra fyrirtækja til Framsýnar á árinu 2019, það er launatengd gjöld í sjúkra-, orlofs- og starfsmenntasjóði félagsins. Það að PCC greiði mest til Framsýnar segir mikið um mikilvægi fyrirtækisins á svæðinu.

Nú eru hins vegar blikur á lofti, fyrirtækið hefur gengið í gegnum erfiða tíma þau ár sem það hefur verið starfandi. Afurðaverð hefur verið í sögulegu lágmarki og þá hefur PCC þurft að takast á við heimsfaraldur sem reynst hefur fyrirtækinu mjög erfiður. Það erfiður að fyrirtækið hefur sagt upp um 80 starfsmönnum. Áður hafði ekki verið ráðið í stöður sem losnuðu. Flestir þeirra sem missa vinnuna munu ganga út um næstu mánaðamót. Frá þeim tíma tekur ákveðin óvissa við. Farið verður í umfangsmiklar breytingar á verksmiðjunni í ágúst til að gera hana betri og öruggari í rekstri. Markmið stjórnenda er að lagfæra verksmiðjuna og hefja starfsemi um leið og markaðsmál lagast og áhrifa Covid hættir að gæta. Ljóst er að vilji stjórnenda fyrirtækisins er að hefja starfsemi um leið og aðstæður leyfa. Það er að um tímabundna lokun sé um að ræða. Ekki er að finna neina uppgjöf þrátt fyrir að efnahagslífið í heiminum sé í miklum ólgusjó.

Ánægjulegt er að fyrirtækið hefur biðlað til Framsýnar um að kjarasamningur aðila verði þróaður frekar á næstu mánuðum með það að markmiði að bæta enn frekar starfsumhverfi starfsmanna, hvað varðar vinnutímastyttingu fyrir sömu laun. Reyndar má geta þess að núverandi stjórnendur fyrirtækisins hafa lagt mikið upp úr góðu samstarfi við Framsýn, ekki síst á undanförnum mánuðum, þar sem rekstrarumhverfi fyrirtækisins sem og flestra annarra fyrirtækja á Íslandi hefur ekki verið ákjósanlegt vegna heimsfaraldursins. Fyrir viljann til samstarfs ber að þakka enda alltaf vænlegast til árangurs að menn vinni sig saman í gegnum vanda sem þennan.

Ljóst er að staðan hjá PCC hefur víðtæk áhrif í samfélaginu enda hafa margir undirverktakar og þjónustuaðilar tekjur af samskiptum við fyrirtækið. Þá er fyrirtækið stórnotandi á orku frá Landsvirkjun sem verður af miklum tekjum, sem og Húsavíkurhöfn, en tekjur hafnarinnar byggja ekki síst á flutningi um höfnina er tengist starfseminni á Bakka. Stjórnendur fyrirtækja sem verið hafa í viðskiptum við PCC hafa sett sig í samband við Framsýn og boðað samdrátt og uppsagnir þar sem þeir munu missa viðskipti við PCC á næstu vikum og mánuðum. Vissulega þarf ekki að tíunda það að samdráttur á Bakka hefur víðtæk áhrif á samfélagið allt.

Hins vegar má stundum ætla að fólk sem tjáir sig um þessi mál á opinberum vettvangi geri sér ekki alltaf grein fyrir alvöru málsins. Þó einhverjir sjái ástæðu til að fagna sérstaklega lokun PCC á Bakka vil ég benda á að lokunin er ekkert sérstakt gleðiefni fyrir allar þær fjölskyldur hér á svæðinu sem byggt hafa afkomu sína á vinnu við kísilverið, beint eða óbeint sem og Norðurþing. Vissulega má alltaf deila um hvað er rétt eða rangt þegar kemur að atvinnuuppbyggingu, en verum málefnaleg í skrifum okkar.

Við sem byggjum þetta samfélag á hverjum tíma eigum að hafa skoðanir, en jafnframt virða skoðanir annarra. Markmiðið á að vera að gera gott samfélag betra á okkar forsendum, ekki forsendum annarra. Ég fékk einu sinni samtal frá einstaklingi sem bjó á Húsavík sem unglingur en flutti síðar í burtu. Viðkomandi hafði heyrt mig tala fyrir atvinnuuppbygginu á Húsavík, ekki síst á Bakka. Taldi viðkomandi það algjöran óþarfa, hann vildi halda í Húsavík eins og hún var þegar hann yfirgaf sinn heimabæ, þá unglingur, nú komin á efri ár.  Það dugar mér ekki enda búsettur á staðnum en ekki löngu brotfluttur, ég vil sjá Húsavík eflast enn frekar með öflugu atvinnu- og félagslífi. Það er okkar heimamanna á hverjum tíma að hafa áhrif á þróun mála, okkur öllum til hagsbóta sem hér búum.

Höfum í huga að á bak við uppsagnir PCC á Bakka eru starfsmenn fyrirtækisins og fjölskyldur þeirra. Ekki er ólíklegt að málið varði um 140 fjölskyldur beint í dag, það er fjölskyldur starfsmanna á Bakka og fjölskyldur þeirra sem missa vinnuna hjá undirverktökum og þjónustufyrirtækjum sem verið hafa í viðskiptum við PCC. Óvissan um afkomu öryggi nagar þessar fjölskyldur svo vitnað sé í samtöl sem forsvarsmenn Framsýnar hafa átt við hlutaðeigandi fjölskyldur og síðan má vitna í viðtal sem var við fjölskyldu sem tengist málinu í síðasta Vikublaði. Viðtalið er spegilmynd af stöðu þessa fólks. Best er fyrir samfélagið að framleiðslustoppið vari ekki marga mánuði. Vonandi gengur það eftir.

Framsýn mun standa þétt við bakið á þeim starfsmönnum sem missa vinnuna um næstu mánaðamót og mánaðamótin þar á eftir. Félagið hefur komið á fót vinnumiðlun til að bregðast við vandanum. Það gleðilega er að fyrirtæki og sveitarfélög hafa sett sig í samband við félagið og boðið starfsmönnum vinnu á svæðinu. Í flestum tilvikum er um að ræða tímabundna vinnu s.s. við slátrun og fiskvinnslu enda vonir bundnar við að framleiðsla hefjist sem fyrst aftur á Bakka. Það er jú markmiðið sem verður að ganga eftir.

Á þessum erfiðu tímum hefur sveitarstjórn Norðurþings einnig óskað eftir góðu samstarfi við Framsýn.  Að sjálfsögðu er stéttarfélagið reiðubúið í slíkt samstarf, enda alltaf verið stór þáttur í starfi félagsins að efla atvinnulífið á félagssvæðinu, félagsmönnum og samfélaginu öllu til hagsbóta. Áfram gakk félagar!

Aðalsteinn Árni Baldursson,
formaður Framsýnar stéttarfélags

Gestur stjórnar Félags eldri borgara

Á Húsavík er rekið öflugt starf hjá Félagi eldri borgara sem nær yfir Húsavík og nágrenni. Innan félagsins eru tæplega 300 manns. Starfsemi félagsins fer fram í Hlyn sem er þeirra félagsheimili. Aðastaðan er til mikillar fyrirmyndar og félaginu til mikils sóma.   Stjórn félagsins óskaði eftir fundi með formanni Framsýnar þar sem farið var yfir stöðu eldri borgara í þjóðfélaginu og aðild þeirra að stéttarfélögum og starfsemi þeirra. Fundurinn var vinsamlegur og skiptust menn á skoðunum um málefni fundarins. Góður vilji er til þess meðal Framsýnar og Félags eldri borgara á Húsavík að eiga gott samstarf um málefni eldri borgara. Hvað þetta varðar má geta þess að Framsýn leggur mikið upp úr því að félagsmenn, sem láta af störfum á vinnumarkaði vegna aldurs, haldi áfram réttindum í félaginu þrátt fyrir að þeir hætti að greiða til félagsins. Þá hefur Framsýn einnig hvatt til þess að ASÍ taki upp náið samstarf við Landssamband Félags eldri borgara um þá þætti sem gætu bætt stöðu eldri borgara á Íslandi.

Svavar og Guðrún litu við

Heiðurshjónin Svavar Gestsson og Guðrún Ágústsdóttir litu við á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík í gær en þau eru á ferðalagi um Norðurlandið þessa dagana. Þau hafa lengi verið áberandi í þjóðfélaginu. Svavar er fyrrum alþingismaður, ráðherra og sendiherra og Guðrún var einnig mjög virk í félagsmálum og stjórnmálum en hún satt m.a. í borgarstjórn Reykjavíkur og var um tíma forseti borgarstjórnar. Að sjálfsögðu var tekin góð umræða um verkalýðs- og stjórnmál.

Góður fundur með starfsfólki Vatnajökulsþjóðgarðs

Starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs óskaði eftir fundi með formanni Framsýnar í vikunni. Tilefni fundarins var að fara yfir réttindi og skyldur starfsmanna auk þess sem formaður svaraði fjölmörgum fyrirspurnum starfsmanna. Gengið var frá kjöri á trúnaðarmanni starfsmanna. Í það hlutverk var Rakel Anna Boulter kjörin. Fundurinn sem fram fór í upplýsingamiðstöð Vatnajökulsþjóðgarðs í Ásbyrgi, Gljúfrastofu var vinsamlegur og gagnlegur fyrir alla aðila.

Til fróðleiks má geta þess að þjóðgarðurinn spannar um 14% af flatarmáli Íslands (14.141 ferkílómetrar árið 2019) og er næststærstur þjóðgarða í Evrópu á eftir Yugyd Va þjóðgarðinum í Úralfjöllum Rússlands.

 Á hverju ári starfar hópur fólks hjá Vatnajökulsþjóðgarði við hirðingu, eftirlit og upplýsingagjöf til ferðamanna.

Rakel Anna Boulter, sú með húfuna, er nýr trúnaðarmaður starfsmanna í þjóðgarðinum. Það er þeim hluta sem er á félagssvæði Framsýnar.

Foringjar hittust á Húsavík í sól og blíðu

Tveir góðir verkalýðsforingjar komu við á Skrifstofu stéttarfélaganna í dag og fengu sér kaffi og meðlæti  með starfsmönnum félaganna. Þetta voru þeir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og Hörður Guðbrandsson formaður Verkalýðsfélagsins í Grindavík. Að sjálfsögðu urðu umræður um verkalýðsmál og stöðuna almennt í þjóðfélaginu. Það er alltaf gefandi og skemmtilegt að fá góða gesti í heimsókn eins og félaganna, Hörð og Ragnar Þór enda verða þeir seint sakaðir um að vinna ekki að hagsmunamálum verkafólks.

Hörður og Aðalsteinn Árni eiga það sameiginlegt að leiða tvö af öflugustu stéttarfélögum landsins auk þess að vera búfræðingar frá Hvanneyri, þar sem þeir voru saman við nám á sínum tíma.

Komu hjólandi til Húsavíkur undir „Ja ja ding dong“  úr Eurovision kvikmyndinni The Story of Fire Saga. 

Það var vel tekið á móti Team Rynkeby á Íslandi sem heimsóttu Húsavík í dag. Hópurinn sem telur um 50 manns fékk aðstöðu hjá stéttarfélögunum þar sem grillað var í hádeginu og aðeins slakað á áður en ferðinni var fram haldið upp í Mývatnssveit.  Helena Ingólfsdóttir frá Norðurþingi og Aðalsteinn Árni formaður Framsýnar buðu gestina velkomna til Húsavíkur með stuttum ávörpum. Gestirnir þökkuðu fyrir höfðinglegar móttökur.

Aðeins um ferðina:

Team Rynkeby á Íslandi mun hjóla 850 km í kringum landið á tímabilinu 4.-11. júlí til styrktar Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna, SKB. Hópurinn mun hjóla fal­leg­ar hjóla­leiðir í öllum landshlutum. Team Rynkeby er stærsta evrópska góðgerðarverkefnið þar sem þátttakendur hjóla á hverju ári 1200 km leið frá Danmörku til Parísar til styrktar langveikum börnum og fjölskyldum þeirra. Vegna Covid faraldursins hefur keppninni í ár verið frestað og ákveðið hefur verið að hjóla þess í stað innanlands.

Hópurinn verður á ferð um Þingeyjarsýslur í dag og reyndar á morgun líka. Frá Húsavík fór hópurinn upp í Mývatnssveit, á morgun verður svo hjólað til Þórshafnar á Langanesi.  Sjá dagskrá hér að neðan.

Team Rynkeby Ísland var stofnað árið 2017 á Íslandi með það að markmiði að hjóla í söfnunarátaki Team Rynkby til styrktar SKB. Á síðastliðnu ári safnaði Team Rynkeby á Íslandi 23,6 milljónir ISK fyrir SKB. Alls söfnuðu öll Team Rynkeby liðin um 1.472,8 milljónir ISK í fyrra.   Frá því árinu 2002 hafa þátttakendur Team Rynkeby safnað yfir 7 milljörðum króna fyrir langveik börn.

Hægt er að heita á Team Rynkeby með því að hringja í eftirfarandi styrktarnúmer: 907-1601 –  kr 1.500,- 907-1602 – kr 3.000,- 907-1603 – kr 5.000,-

Íslandsferð Team Rynkeby 4. – 11. júlí 2020:

Dagur 1, laugardagur 4. júlí.  Hjólaðir km: 115, hm 1.222 

Lagt af stað frá Barnaspítala Hringsins eðan nánar frá bílaplani Kennarahússins Laufásvegi 81. Dagskrá hefst kl: 10:00 liðið hjólar af stað kl: 10:15. SKB verður með pylsuvagn á staðnum.

Leið í lögreglufylgd 30 km: Barónsstígur – Eiríksgata – Snorrabraut -Bústaðarvegur – Miklabraut – Vesturlandvegur – Þjóðvegur 1 að Tíðarskarði. Hvalfjörðurinn hjólaður. Lögreglufylgd frá Vegamótum við Laxárbakka þjóðvegur 1 að Hótel B59 Borgarbraut 59 Borgarnesi. 22km.

Dagur 2, Sunnudagur 5. júlí. Hjólaðir km: 100, hm: 1.000
Lagt af stað keyrandi kl. 8:00 frá Borgarnesi og keyrt á Sauðárkrók, um 218 km. Hjólaður hringur frá Sauðárkróki – Varmahlíð- Hólar – Sauðárkrókur.

Dagur 3, mánudagur 6. júlí. Hjólaðir km: 120
Lagt af stað frá Sauðárkróki kl: 8:00. Keyrt 90 km gegnum Hofsós að Strákagöngum að norðanverðu. Hjólað gegnum Strákagöng til Sigurfjarðar. Haldið áfram gegnum Héðinsfjarðargöng, Ólafsfjörð, Dalvík og til Akureyrar. Hjólað síðan áfram til Grenivíkur. Hjólin sett á kerrur og keyrt til Hótel Laxá á Mývatni 88 km.

Dagur 4, þriðjudagur 7. júlí. Hjólaðir km: 134 hm: 1725
Lagt af stað hjólandi frá Hótel Laxá á Mývatni kl: 8:00. Hjólaður Kísilvegurinn til Húsavíkur. Til baka framhjá Hafralækjarskóla, Laugum og til Mývatns aftur.

Dagur 5, miðvikudagur 8. júlí. Hjólaðir km: 106 hm: 880
Lagt af stað keyrandi frá Mývatni og keyrt að Ásbyrgi um 125 km. Hjólað frá Ásbyrgi út á Kópasker og til Þórshafnar á Langanesi. Keyrt síðan til Breiðdalsvíkur um 244 km.

Dagur 6, fimmtudagur 9. júlí. Hjólaðir km: 98
Lagt af stað keyrandi kl: 8:00 og keyrt til Neskaupsstaðar 98 km. Hjólað til baka til Breiðdalsvíkur. Neskaupsstaður, Eskifjörður, Reyðarfjörður, Fáskrúðsfjörður. Einnig í gegnum Norðfjarðargöng og Fáskrúðsfjarðargöng.

Dagur 7, föstudagur 10. júlí. Hjólaðir km: 60 hm: 732
Hjólað af stað frá Breiðdalsvík kl: 8:00 til Djúpavogs. Keyrt síðan til Víkur í Mýrdal 365 km stoppum og tökum myndir af liðinu á áhugaverðum stöðum á leiðinni.

Dagur 8, laugardagur 11. júlí. Hjólaðir km Gullfoss- Laugarvatn: 38 km, hm: 228. Silfurhringinn 66,5 km. hm: 391. Samtals hjólaðir km. 105.

Team Rynkeby mun taka þátt í KIA Silfurhringnum sem er 66,5 km ræsing kl: 18:00. https://www.gullhringurinn.is/ g Hringferð Team Rynkeby endar með grillveislu á Laugarvatni í boði KIA Gullhringsins og þar með lýkur Íslandsferð Team Rynkeby 2020.
Leggjum af stað frá Vík kl: 9:00 og keyrum að Gullfossi 180 km. Hjólum síðan til Laugarvatns um 38 km. Gullfoss-Laugarvatn 8.1
KIA Silfurhringurinn 66,5 km Dagur 8.2

(Frétt þessi er að mestu tekin af vefnum feykir.is- myndir Framsýn)

 

Skiptaverð lækkar þann 1. júlí

Vegna hækkandi olíuverðs á heimsmarkaði lækkar skiptaverð til sjómanna þann 1. júlí 2020.

Þegar afli er seldur til vinnslu innanlands verður skiptaverðið 73% af aflaverðmætinu þegar hann er seldur óskyldum aðila en 73,5% þegar hann er seldur skyldum aðila (sjá þó fyrri frétt um ágreining við SFS um þetta).

Skiptaverð á frystiskipunum verður 73,5% af FOB verðmætinu og 68% af CIF vermætinu í júlí. Þegar rækja er fryst um borð verður skiptaverðið í júlí 70,5% af FOB verðmætinu og 65% af CIF verðmætinu.

Sjá má nánari upplýsingar um skiptaverðið í töflu á heimasíðu Sjómannasambands Íslands undir „skiptaverð“.

Jónína kjörin í stjórn Lsj. Stapa

Ársfundur Stapa lífeyrissjóðs var haldinn í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri, miðvikudaginn 30. júní. Mæting á fundinn var góð en fundurinn var einnig sendur beint út á vef sjóðsins. Á dagskrá fundarins voru hefðbundin ársfundarstörf.

Í ávarpi stjórnarformanns, Erlu Jónsdóttur, kom fram að ávöxtun eigna Stapa lífeyrissjóðs á árinu 2019 hefði verið með besta móti enda skiluðu allir eignaflokkar sjóðsins jákvæðri ávöxtun á árinu. Niðurstaðan var rúmlega 10% raunávöxtun sem er besta ávöxtun í sögu sjóðsins í núverandi mynd. Langtímaávöxtunarmarkmið sjóðsins er 3,5% en meðalraunávöxtun undanfarinna 10 ára nemur 4,1%.

Hrein eign sjóðsins til greiðslu lífeyris heldur áfram örum vexti, bæði vegna hækkandi iðgjalda og góðrar ávöxtunar. Í árslok 2019 nam hún 256.133 milljónum króna og hækkaði um 35.427 milljónir króna á árinu. Hrein eign tryggingadeildar nam 249.521 milljónum króna og hrein eign séreignardeilda 6.612 milljónum. Heildarlífeyrisgreiðslur tryggingadeildar sjóðsins á árinu námu 6.408 milljónum króna og hækkuðu um 12,9% frá fyrra ári. Stærstan hluta lífeyrisgreiðslna má rekja til eftirlauna, eða sem nemur 71%, örorkulífeyrir nam 24% af lífeyrisgreiðslum sjóðsins og barna- og makalífeyrir 5%. Lífeyrisþegar í árslok voru 10.261 og fjölgaði um 641 frá fyrra ári.

Stjórnarformaður fór einnig yfir áherslur Stapa í eignastýringu og vinnu varðandi framkvæmd stefnu sjóðsins sem félagslega ábyrgur fjárfestir. Í ársskýrslu sjóðsins má nú nálgast upplýsingar um hlutfall útgefenda og eignastýrenda í eignasafni sjóðsins sem fylgja viðmiðum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (United Nations Principles for Responsible Investment). Stapi hefur frá árinu 2018 birt á heimasíðu sinni upplýsingar um beitingu atkvæðaréttar sjóðsins á hluthafafundum skráðra innlendra hluthafafélaga. Á næstu árum mun upplýsingagjöf Stapa í þessu málaflokki vaxa sem og eftirfylgni og aðgerðir sjóðsins til að tryggja að markmiðum stefnu hans sem fjárfestis nái fram að ganga.

Stjórnarformaður ítrekaði mikilvægi þess að bakland lífeyrissjóðanna komi með virkum hætti að endurskoðun lífeyriskerfisins enda hafi stjórnvöld lýst því yfir að þau hyggist endurskoða kerfið. Landssamtök lífeyrissjóða hefur lagt áherslu á að koma að þessari endurskoðun. Að lokum gerði stjórnaformaður grein fyrir áhrifum Covid-19 á rekstur og eignir sjóðsins.  Ávarp stjórnarformanns er að finna í heild sinni hér að neðan.

Jóhann Steinar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Stapa, fór því næst yfir ársreikning sjóðsins og áritanir og gerði grein fyrir tryggingafræðilegri stöðu. Var ársreikningur sjóðsins samþykktur samhljóða að yfirferð lokinni. Tryggingafræðileg staða sjóðsins styrktist á árinu, er neikvæð um 0,4%, en var neikvæð um 1,8% í lok árs 2018.

Þá fór Brynjar Þór Hreinsson, fjárfestingarstjóri, yfir fjárfestingarstefnu sjóðsins. Hann fór einnig yfir hluthafastefnu Stapa og var hún samþykkt samhljóða.

Á fundinum voru lagðar fram tillögur að breytingum á töflum í samþykktum sjóðsins. Jóna Finndís Jónsdóttir, forstöðumaður réttndasviðs, gerði grein fyrir þeim. breytingum og voru þær allar samþykktar.

Gert var grein fyrir starfskjarastefnu sjóðsins sem er óbreytt frá fyrra ári og var hún samþykkt samhljóða. Þá var einnig samþykkt tillaga að KPMG sem löggiltum endurskoðanda sjóðsins og tillaga að breytingu stjórnarlauna frá fyrra ári, í samræmi við hækkun á launavísitölu.

Stjórnarkjöri var lýst en stjórn sjóðsins var kosin á fulltrúaráðsfundi sjóðsins þann 2. júní sl. Stjórn Stapa lífeyrissjóðs skipa í dag:

Frá launamönnum:
Tryggvi Jóhannsson, varaformaður, Oddný María Gunnarsdóttir, Sverrir Mar Albertsson og Jónína Hermannsdóttir sem jafnframt er starfsmaður stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum.

Varamenn: Heimir Kristinsson og Sigríður Dóra Sverrisdóttir.

Frá launagreiðendum:
Erla Jónsdóttir (formaður), Kristín Halldórsdóttir, Unnar Már Pétursson og Valdimar Halldórsson.

Varamenn: Guðrún Ingólfsdóttir og Páll Snorrason.

Þá var í samþykkt samhljóða nefnd um laun stjórnar. Í nefndinni sitja stjórnarformaður Stapa, Jens Garðar Helgason, Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir og Guðmundur Finnbogason.

Gögn frá ársfundinum:

Formaður kallaður fyrir byggðaráð

Byggðaráð Norðurþings boðaði formann Framsýnar, Aðalstein Árna, til fundar við ráðið í gær til að ræða stöðuna í atvinnumálum á svæðinu í kjölfar ákvörðunnar PPC að segja um 80 starfsmönnum upp störfum um síðustu mánaðamót. Áður hafði fyrirtækið gert ákveðnar breytingar í ljósi markaðsaðstæðna, það er ekki ráðið starfsmenn fyrir þá sem hætt höfðu störfum hjá fyrirtækinu sjálfviljugir. Forsvarsmenn Framsýnar hafa átt gott samstarf við stjórnendur PCC um málefni fyrirtækisins og starfsmanna. Á fundinum með Byggðaráði Norðurþings í gær urðu málefnalegar umræður um stöðuna og mikilvægi þess að hagsmunaaðilar vinni þétt saman að úrlausn mála. Framsýn er tilbúið í þá vegferð.

 

Nýtt – Nýtt Ferðaávísanir komnar í sölu

Stéttarfélögin; Framsýn, Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur hafa stóraukið aðgengi félagsmanna að gistingu víða um land með samningi við fjölmörg ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi. Þannig vilja stéttarfélögin efla innlenda ferðaþjónustu á þessum sérstöku tímum. Fyrirtækið Dorado hefur verið í forsvari í málinu fh. stéttarfélaganna. Nú geta félagsmenn stéttarfélaganna farið inn á orlofsvef félaganna sem er til staðar á framsyn.is. Í boði er að kaupa ferðaávísun sem er inneign, sem félagsmenn geta notað til að greiða fyrir gistingu hjá einhverjum af fjölmörgum samstarfsaðilum stéttarfélaganna. Félagsmenn eru ekki skuldbundnir til að nota ávísunina á tilteknu hóteli/gistiheimili, eftir að hún hefur verið keypt. Upphæðina geta menn notað hjá hvaða samstarfsaðila okkar sem er. Nota þarf rafræn skilríki eða íslykil. Þegar innskráningu er lokið velur viðkomandi félagsmaður „FERÐAÁVÍSUN“ og „Kaupa ferðaávísun“. Þar inni geta menn síðan skoðað úrvalið og keypt ferðaávísun með því að smella á þrjú strik efst í vinstra horni. ATHUGIÐ! Nauðsynlegt er að kanna hvort það séu laus herbergi á réttum tíma og réttum stað og bóka gistingu.

Stéttarfélögin ábyrgst ekki að gistirými sé laust þegar félagsmaður hyggst nota ávísunina. Handhafi ávísunar þarf sjálfur að bóka herbergi og gangast undir bókunarskilmála hvers samstarfsaðila. Komi upp ágreiningur vegna veittrar þjónustu skal beina því erindi til viðkomandi samstarfsaðila. Seljandi ferðaávísunar ábyrgist ekki gæði þjónustu samstarfsaðilanna.  Niðurgreiðsla til félagsmanna nemur 20% þó að hámarki kr. 15.000 á árinu 2020. Niðurgreiðslan verður svo endurskoðuð um næstu áramót þegar reynsla verður komin á þessar nýjungar sem fjölmargir félagsmenn eiga örugglega eftir að nýta sér. Nánari upplýsingar er hægt að fá á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Atvinnuleysi mikið í Þingeyjarsýslu

Á vef Vinnumálastofnunnar er hægt að kynna sér nýjustu atvinnuleysistölur landsins. Eftir Covid-19 faraldurinn er ljóst að atvinnuástandið hefur ekki verið jafn slæmt lengi. Auðvitað á þetta við í Þingeyjarsýslum eins og öðrum svæðum landsins. Þannig má sjá að atvinnuleysi í Norðurþingi var í apríl 21,5%, 25,9% í Tjörneshreppi, 20,2% í Þingeyjarsveit og 42,2% í Skútustaðahreppi. Heilt yfir er ekki mikill munur á atvinnuleysi eftir kynjum. Þetta eru vitaskuld allt öðruvísi tölur en venjan er á þessu svæði. Augljóslega er þetta ástand tilkomið vegna Covid-19 ástandsins.

Það er þó ekki bara slæmar fréttir að finna í þessari samantekt Vinnumálastofnunnar. Hægt er að sjá að á Norðurlandi eystra öllu hefur atvinnuleysi minnkað á milli apríl og maí um rúmlega 11%. Tölur niður á einstaka sveitarfélög eru ekki enn fáanlegar fyrir maí en reikna má með því að atvinnuleysi hafi minnkað í Þingeyjarsýslu í maí miðað við apríl miðað við þetta. Tekið skal fram að hér er átt við almennt atvinnuleysi en ekki þá einstaklinga sem fóru í skert starfshlutfall samkvæmt sérstökum lögum sem sett voru í kjölfar Covid-19.

Þakkarbréf frá Hagsmunasamtökum heimilanna  

Framsýn sendi ASÍ bréf á dögunum þar sem Alþýðusambandið  var hvatt til að hafa frumkvæði að því að mynda víðtækt samstarf um bætt lífskjör við hagsmunasamtök eins og Öryrkjabandalagið, Félag eldri borgara Neytandasamtökin, Leigjandasamtökin og Hagsmunasamtök heimilanna. Þakkarbréf hefur borist frá Hagsmunasamtökum heimilanna þar sem Framsýn er þakkað fyrir frumkvæðið að málinu. Áður höfðu borist bréf frá Öryrkjabandalaginu og Landssambandi félags eldri borgara, þar sem félaginu var þakkaður stuðningurinn.

Ályktað um Reykjavíkurflugvöll – vinnubrögð borgarstjórnar óskiljanleg með öllu

Á fundi stjórnar Framsýnar í gær urðu miklar umræður um Reykjavíkurflugvöll og mikilvægi hans varðandi áætlunar- og sjúkraflug. Fram kom megn óánægja með framgöngu Borgarstjórnar Reykjavíkur í málinu. Svo virðist sem allt sé gert til að koma starfseminni úr Vatnsmýrinni, það er innanlandsfluginu. Nú síðast berast fréttir af því að til standi að gera veg í gegnum flugskýli Flugfélagsins Ernis á Reykjavíkurflugvelli og það bótalaust fyrir flugfélagið.  Gjörningur sem þessi á vel heima í næsta áramótaskaupi, svo vitlaus er hann. Eftir umræður samþykkti Framsýn að senda frá sér svohljóðandi ályktun um málið:

Ályktun
Um Reykjavíkurflugvöll

„Framsýn stéttarfélag krefst þess að Borgarstjórn Reykjavíkur standi vörð um Reykjavíkurflugvöll og tryggi þar með eðlilegt áætlunar- og sjúkraflug um flugvöllinn.

Reykjavík stendur ekki undir nafni sem höfuðborg landsins haldi núverandi borgarstjórn áfram þeirri vegferð að leggja flugvöllinn af í skrefum.

Nýjasta dæmið eru tillögur skipulagsyfirvalda í Reykjavík að leggja veg í gegnum flugskýli Flugfélagsins Ernis á Reykjavíkurflugvelli, bótalaust. Um er að ræða forkastanleg vinnubrögð af hálfu borgaryfirvalda.

Ekki þarf að taka fram að Flugfélagið Ernir gegnir mikilvægu hlutverki í flugsamgöngum landsins. Það að þrengja frekar að starfsemi flugfélagsins á Reykjavíkurflugvelli gerir þeim erfiðara um vik að halda uppi eðlilegum samgöngum í lofti.

Að mati Framsýnar má það ekki gerast og skorar því félagið á borgaryfirvöld  að beita sér fyrir því að efla innanlandsflugið í stað þess að vinna markvist að því að leggja af flug um Reykjavíkurflugvöll.“