Formaður Framsýnar gestur Rauða borðsins – verkalýðsmál til umræðu

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar var enn viðmælanda Gunnars Smára Egilssonar hjá Rauða borðinu. Rauða borðið er vefþáttur sem hýstur er á Facebook. Fleiri gestir voru í þættinum en auk Aðalsteins voru þar Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og Ásta Lóa Þórsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilana.

Til umræðu var hrun ferðaþjónustunnar, viðbrögð stjórnvalda og fleira því tengt. Facebook notendur geta horft á Rauða borðið hér.

Hópuppsagnir í mars á Íslandi

Alls bárust 29 tilkynningar um hópuppsagnir Vinnumálastofnun í mars þar sem 1.207 starfsmönnum var sagt upp störfum, 547 í ferðaþjónustu, 175 í flutningum, 174 í félögum þar af 164 tengdum ferðaþjónustu, 151 í verslun, 72 í þjónustu tengdri ferðaþjónustu, 55 í mannvirkjagerð og 33 í iðnaði langflestum á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Flestar uppsagnirnar koma til framkvæmda á tímabilinu maí til júlí.

Áríðandi lesning- Tilkynning Vinnumálastofnunar um hlutabótaleiðina

Að gefnu tilefni telur Vinnumálastofnun rétt að koma eftirfarandi á framfæri:

Undanfarna daga hefur, í fjölmiðlum, verið fjallað um túlkun á bráðbirgðaákvæði atvinnuleysistryggingalaga sem snýr að svokallaðri hlutabótaleið.  Þar er kveðið á um heimild atvinnurekenda og starfsmanna til að gera með sér tímabundið samkomulag um minnkað starfshlutfall.  Starfsmaðurinn getur svo sótt um og fengið greiddan styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem samsvarar hinu skerta starfshlutfalli.

Megintilgangur ákvæðisins er að aðstoða og gera atvinnurekendum og starfsmönnum þeirra, kleift að viðhalda ráðningarsambandi sín á milli í þeim þrengingum sem nú steðja að.

Vinnumálastofnun vill árétta að það er grundvallarskilyrði fyrir greiðslu styrksins til starfsmannsins að ráðningarsamband sé í gildi.  Ef atvinnurekandi segir upp starfsmanni sem hann hefur gert samkomulag við, lítur stofnunin svo á að forsenda samkomulagsins sé brostin og þá taki almennar reglur um uppsagnarfrest við.

Hafi atvinnurekendur misskilið ofangreindar reglur og sagt upp starfsmönnum sem þeir hafa þegar gert samkomulag við um minnkað starfshlutfall, þá skorar Vinnumálastofnun á þá, að draga þær til baka.

 

ASÍ og Neytendasamtökin krefjast þess að skráningu á vanskilaskrá verði hætt vegna Covid 19

Efnahagslegar afleiðingar vegna Covid19 verða þungbærar og sennilega umfangsmeiri en fyrri efnahagshremmingar. Fyrirtæki og einstaklingar munu verða fyrir skakkaföllum, sem munu hafa keðjuverkandi áhrif og hafa afleiðingar inn í nánustu framtíð. Margir lenda í því þessa dagana að tekjur skerðast að miklu eða jafnvel öllu leyti. Óvíst er hvenær fólk fær tækifæri til að afla tekna til að standa undir sínum skuldbindingum aftur.
Skráning á vanskilaskrá hefur mikil íþyngjandi og langvarandi afleiðingar fyrir þann sem þar lendir. Þannig hefur Creditinfo-Lánstraust heimild til að halda fólki á vanskilaskrá í fjögur ár eftir að það gerir upp skuldir sínar. Á meðan er einstaklingum gert ókleift að stunda eðlileg viðskipti, svo sem fá greiðslukort, tryggingar eða jafnvel leiguhúsnæði. Það tímabundna áfall sem fólk verður fyrir um þessar mundir má ekki hafa langvarandi afleiðingar.
Alþýðusamband Íslands og Neytendasamtökin krefjast þess að Creditinfo-Lánstraust hætti tafarlaust skráningum á vanskilaskrá sína vegna greiðsluvanda tengdum Covid19 og skrái engan á vanskilaskrá vegna þessa út árið 2020.

Hátíðarhöld stéttarfélaganna slegin af vegna Covid 19

Vegna samkomubanns heilbrigðisyfirvalda til 4. maí hafa stéttarfélögin í Þingeyjarýslum orðið að aflýsa hátíðarhöldum sem vera áttu í íþróttahöllinni á Húsavík 1. maí.

Hátíðarhöldin hafa á hverjum tíma verið mjög fjölsótt en um 600 gestir hafa komið í höllina að meðaltali undanfarin ár. Fjöldinn hefur mest farið upp í um 900 manns.

Að sjálfsögðu verða stéttarfélögin að hlíta ákvörðun heilbrigðisyfirvalda um samkomubann. Að ári liðnu verður vonandi hægt að bjóða upp á magnaða dagskrá við flestra hæfi enda hafa hátíðarhöld stéttarfélaganna alltaf verið vel tekið af þingeyingum og gestum þeirra.

30 þúsund manns hafa sótt um hlutabætur vegna minnkaðs starfshlutfalls

Yfir 30 þúsund manns hafa sótt um hlutabætur vegna minnkaðs starfshlutfalls. Þetta kemur fram í tölum frá Vinnumálastofnun. Flestar eru umsóknirnar úr ferðaþjónustu en yfir 12 þúsund starfsmenn í greininni hafa sótt um bætur. Úr verslun og vöruflutningum hafa yfir 6 þúsund umsóknir hafa borist.

Dreifing umsækjenda milli landshluta er að mestu í samræmi við dreifingu starfandi fólks í landinu. Fjöldi umsækjenda er þó hlutfallslega hærri á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Þannig hafa 11% umsókna borist frá íbúum Suðurnesja, þar sem 8% starfandi landsmanna bjuggu á síðasta ári og 67% umsókna af höfuðborgarsvæðinu, þar sem 64% starfandi landsmanna bjuggu.

  Fjöldi umsókna Hlutfall af umsóknum Starfandi 2019 Hlutfall af starfandi 2019
Höfuðborgarsvæðið 20.161 67% 126.666 64%
Suðurnes 3.338 11% 14.944 8%
Vesturland 873 3% 9.195 5%
Vestfirðir 312 1% 3.996 2%
Norðurland vestra 254 1% 4.074 2%
Norðurland eystra 2.158 7% 16.727 8%
Austurland 888 3% 7.743 4%
Suðurland 2.113 7% 15.684 8%
Samtals 30.097   199.029  

 

Kynjaskipting umsækjenda er nokkuð jöfn. 55% umsækjenda eru karlmenn en 45% konur. Til samanburðar voru karlar 53% starfandi landsmanna í fyrra en konur 47%, samkvæmt tölum frá Hagstofu.

Ríflega þrír af hverjum fjórum umsækjendum eru íslenskir ríkisborgarar, en um 14% eru Pólverjar og 10% borgarar annarra ríkja. Í fyrra voru um 80% starfandi fólks hérlendis Íslendingar en 20% útlendingar. Endurspegla umsóknir um hlutabætur því betur samsetningu vinnumarkaðarins en umsóknir um atvinnuleysisbætur síðasta árið, þar sem hlutfall Íslendinga meðal umsækjenda hefur verið 63%.

Sé litið til aldursskiptingar, eru umsóknir hlutfallslega flestar í aldurshópnum 30-39 ára. Alls eru 26% umsækjenda á þeim aldri, samanborið við 21,6% af starfandi fólki. Lægst er hlutfallið meðal fólks á aldrinum 60-69 ára, en 9% umsækjenda eru á þeim aldri samanborið við 11,7% af starfandi fólki.

  Fjöldi umsókna Hlutfall af umsóknum Hlutfall af starfandi 2019** Meðalhlutfall atvinnulausra síðustu 12 mán.
18-29 ára* 8.234 27% 30,6% 29,1%
30-39 ára 7.944 26% 31,1% 21,6%
40-49 ára 6.387 21% 17,1% 19,5%
50-59 ára 4.963 16% 13,2% 18%
60-69 ára 2.569 9% 8% 11,7%

*16-29 ára í fullu atvinnuleysi og 15-29 ára í starfandi   **Samkvæmt skráargögnum

Standa vaktina varðandi útgreiðslur úr sjúkrasjóði

Stjórn Sjúkrasjóðs Framsýnar kom saman á dögunum til að fara yfir stöðuna í þjóðfélaginu og viðbrögð við Covid 19. Því er spáð að aukin ásókn verði í sjúkrasjóði stéttarfélaganna á næstu mánuðum vegna veikinda félagsmanna. Fyrir liggur að mörg stéttarfélög hafa verulegar áhyggjur af stöðunni þar sem búast má við aukinni ásókn í sjóðina um leið og tekjur stéttarfélaganna koma til með að fara verulega niður á við og þar með tekjur sjúkrasjóðanna. Ljóst er að stéttarfélögin standa misvel. Dæmi eru um að stéttarfélög séu byrjuð að skoða hvernig þau geti brugðist við stöðunni versni hún enn frekar. Í reglugerð Sjúkrasjóðs Framsýnar er tiltekið að ef farsóttir geisi geti sjóðstjórn leyst sjóðinn undan greiðsluskyldu um stundarsakir. Sjóðstjórn getur einnig ákveðið að lækka dagpeninga um stundarsakir, ef afkomu sjóðsins virðist hætta búin.

Það gleðilega er að staða sjúkrasjóðs Framsýnar er sterk.  PwC var fengið til að taka út sjúkrasjóð félagsins á síðasta ári. Úttektin staðfesti að staða sjóðsins væri góð og því ættu félagsmenn ekki að þurfa að hafa áhyggjur komi til þess að þeir verði veikir og klári sinn veikindarétt hjá viðkomandi fyrirtækjum og þurfi í framhaldinu að leita til Framsýnar eftir sjúkradagpeningum.

Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar taldi stjórn Sjúkrasjóðs Framsýnar ekki þörf á því að bregðast við aðstæðum að svo stöddu. Hins vegar væri full ástæða til að fylgjast vel með og vera viðbúin að bregðast við komi upp þannig aðstæður. Í dag kæmi sér vel fyrir félagsmenn Framsýnar að félagið hefði í gegnum tíðina verið vel rekið og lagt fjármagn til hliðar til að mæta óvæntum aðstæðum s.br. Covid – 19.

Á meðfylgjandi mynd má sjá stjórn Sjúkrasjóðs Framsýnar að störfum.

 

Verklag til fyrirmyndar á Þverá

Undanfarnar vikur hefur staðið yfir rúningur á flestum sauðfjárbúum landsins. Flestir bændur rýja fé sitt sem fyrst eftir að það kemur á hús að hausti, en síðan er rúið aftur seinnipart vetrar. Er það gert til að gæði haustullarinnar haldist sem best og er seinni rúningurinn gjarnan nefndur snoðrúningur. Snoðið er oftast tekið af í febrúar – mars.

Algengasta  rúningsaðferðin sem tíðkast hér á landi í dag, er kennd við Nýja-Sjáland og hefur mest verið notuð hér frá því á áttunda áratugnum. Var það mikil breyting frá þeim aðferðum sem tíðkast höfðu, en fram að því hafði sauðfé verið rúið með handklippum og/eða hnífum, einu sinni á ári. Með nýsjálensku aðferðinni eru ærnar lagðar á malirnar og rúið frá bringu og aftur úr. Starfið er slítandi og reynir mikið á bakið. Því hafa margir rúningsmenn fjárfest í  í rólu, sem þeir hanga í meðan þeir vinna verkið og létta þannig á stoðkerfinu. Góðir rúningsmenn eru eldsnöggir að svipta kindinni úr reyfinu og geta náð miklum afköstum yfir daginn. Eru þeir eru gulls ígildi fyrir bændur og líklega eins eftirsóttir í dag og góðir sláttumenn voru fyrir um 100 árum.

Það vakti athygli fréttaritara heimasíðunnar, er hann leit við í fjárhúsunum á Þverá í Dalsmynni á dögunum, að vinnulag við rúninginn var með nokkru öðru móti en almennt tíðkast. Þverárbændur hafa löngum  þótt verkhagir og úrræðagóðir, sem kemur sér afar vel þegar fáar hendur eru til að vinna verkin. „Sömu vinnustellingar henta ekki öllum“ segir Arnór Erlingsson bóndi, þegar hann útskýrir fyrir fréttarita, það verklag sem hann hefur tamið sér við snoðrúninginn. Arnór telur það ekki algengt að menn noti palla við rúninginn, en þó sé það til. Hann segir fullorðna féð oftast rólegt  á pallinum, „það eru helst gemsarnir sem eitthvað sprikla til að byrja með,“ segir hann, „en þeir venjast þessu.“  Byrjað er á að koma viðfangsefninu fyrir á lyftupallinum. Síðan er bandi smeygt aftur fyrir hornin, komið fyrir einskonar múl og taumnum tyllt við stoð. Til að tryggja réttar vinnustellingar segist Arnór byrja á því að stilla pallinn í vinnuhæð, en síðan geti hann bara hafið verkið. Hann segist yfirleitt ekki nota þetta verklag við haustrúninginn, en þyki þessi aðferð þægilegri við snoðrúninginn. „Ærnar eru  þá líka orðnar þyngri á sér og erfiðari í meðförum.“ Ekki var annað sjá en að Botnu líkaði þetta fyrirkomulag prýðilega, enda hefur hún sennilega nokkrum sinnum fengið að koma á pallinn áður. Kannski veit hún líka sem er, að það styttist í burð og eiganda hennar ber að sýna henni skilning og tillitsemi. Reyna að lágmarka streitu sem kostur er á meðan á rúningi stendur. (ÓH)

Unnið við sumarrúning á Lokastaðarétt í Dalsmynni um miðja síðustu öld. Það er Benedikt Karlsson bóndi á Ytra – Hóli sem mundar klippurnar, en Helgi Jóhannesson vinnumaður heldur í ána. Helgi þessi er ættaður frá Bakka á Tjörnesi og er núverandi forstóri Norðurorku.

Fyrr á árum var þetta algengasta aðferðin.

Síðan kom rólan sem flestir nota í dag til að létta þeim rúninginn.

Útbúnaðurinn á Þverá er til fyrirmyndar og auðveldar bóndanum að rýja kindurnar á bænum.

 

Framsýn klikkar ekki á tækninni

Stjórn Framsýnar fundaði í dag við sérstakar aðstæður, það er í gegnum zoom netforritið.  Það hefur aldrei verið gert áður en væntanlega þarf ekki að taka fram ástæðurnar fyrir því að menn brugðu á það ráð að funda með þessum hætti. Venjan hefur verið sú að funda saman í fundarsal stéttarfélaganna en vegna Covid – 19 var ákveðið að funda í fyrsta skiptið í gegnum zoom. Mörg mál voru á dagskrá fundarins en dagskrá fundarins var svohljóðandi:

  1. Inntaka nýrra félaga
  2. Fundargerð síðasta fundar
  3. Kjarasamningur SGS við ríki og sveitarfélög
  4. Málefni Skrifstofu stéttarfélaganna
    • Aðgengi að starfsmönnum
    • Álag vegna Covid 19
    • Ráðgjöf við félagsmenn og fyrirtæki
    • Atvinnuleysi félagsmanna
    • Skuldir fyrirtækja við félagið
    • Afskipti af fyrirtækjum/bótasvik
    • Tekjur Framsýnar
  5. Hátíðarhöldin 1. maí
  6. Aðalfundur félagsins
  7. Staða sjúkrasjóðs
    • Viðbrögð við Covid 19
  8. Orlofsmál
    • Lækkun á iðgjaldi
    • Sumarleiga
    • Vetrarleiga – bókanir
    • Lokanir fyrir dvöl í orlofshverfum/húsum/íbúðum
  9. Samstarf v/ Covid 19
    • Sveitarfélög
    • Fyrirtæki
    • SGS
  10. Málefni ASÍ
    • Klofningur innan sambandsins
    • Ráðning framkvæmdastjóra ASÍ
    • Afstaða Framsýnar til hugmynda SA
  11. Málefni Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga
    • Svar sveitarfélaga við erindi félagsins
    • Starfsmannamál Atvinnuþróunarfélagsins
  12. Fulltrúaráðsfundur Lsj. Stapa
  13. Fundur með forsvarsmanni veiðiheimila
  14. Önnur mál
    • Aðalfundur Orlofsbyggðarinnar á Illugastöðum
    • Formannafundur SGS í Mývatnssveit

Þrátt fyrir fjölmörg og krefjandi mál tókst fundurinn í alla staði mjög vel. Til stendur að funda með þessum hætti meðan núverandi ástand varir og tengist Covid – 19.

Félagsmenn Framsýnar fá 100% niðurgreiðslu hjá Dale Carnegie

Nýverið skrifuðu Landsmennt og Dale Carnegie undir samstarfssamning um fjarþjálfun þar sem starfsmenntasjóðurinn greiðir allt að 100% af fjárfestingunni. ,,Námskeið okkar eru nýjung á Íslandi og eru öll Live Online sem þýðir að þau ,,eru í beinni“ og bjóða upp á virka þátttöku í rauntíma“ segir Jón Jósafat Björnsson framkvæmdastjóri Dale Carnegie. ,,Við höfum sérmenntaða þjálfara og tæknimenn á öllum okkar námskeiðum. Þú tekur virkan þátt, leysir verkefni og vinnur í hópum. Sérhannað fjarþjálfunarumhverfi gerir viðkomandi kleift að ná hámarks árangr og það er einfalt að taka þátt“. Við hvetjum áhugasama að kíkja á eftirfarandi slóð og kíkja á úrvalið .

 

Framsýn tekur heilshugar undir áskorun miðstjórnar ASÍ til stjórnvalda

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands skorar á ríkisstjórn Íslands að tryggja nú þegar réttarstöðu þess launafólks sem ekki nýtur bóta skv. lögum um ráðstafanir á vinnumarkaði vegna COVID-19.

Þetta eru hópar launafólks í viðkvæmri heilsufarslegri stöðu, t.d. einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma og þungaðar konur á 36 viku eða lengra gengnar. Þessum hópum er skv. ráðleggingum heilbrigðisyfirvalda  gert að halda sig heima.

Afleiðingar víðtæks samkomubanns eru einnig miklar fyrir foreldra sem þurfa margir að taka sér launalaust leyfi til þess að vera heima með börnunum sínum vegna skerts skólastarfs. Þar eru hópar í félagslega viðkvæmri stöðu s.s. einstæðir foreldrar og fólk af erlendum uppruna.

Fyrrnefndu hópana má fella undir lög um laun í sóttkví og stöðu þeirra síðarnefndu má bæta með því að heimila skert starfshlutfall sem ekki einungis byggir á þörfum atvinnurekanda og fyrirtækja.

Nú þegar stefnir í aukna aðstoð við fyrirtæki landsins ítrekar ASÍ fyrri kröfur sínar um vernd þessara hópa. Atvinnulíf þjóðarinnar samanstendur ekki bara af fyrirtækjum sem mörg hver fá hundruð milljóna í aðstoð og fyrirgreiðslu. Atvinnulífið á allt sitt undir launafólki sem mun þegar öllu eru á botninn hvolft, taka á sig hið raunverulega tjón þeirra hamfara sem nú geisa.

Hættir eftir rúmlega 30 ára starf

Erlingur Bergvinsson hefur lengi komið að því að skoða bíla og önnur tæki sem falla undir reglur um skoðun ökutækja og annarra fylgihluta. Síðar í þessum mánuði mun hann láta af störfum hjá Frumherja á Húsavík eftir áratuga farsælt starf. Í heildina hefur hann komið að skoðun ökutækja í rúmlega þrjá áratugi, lengst af á Húsavík eða í 27 ár. Áður starfaði hann við skoðun ökutækja á Akureyri.  Erlingur eða Elli eins og hann er nefndur hefur verið farsæll í starfi, enda alltaf gott að leita til hans á skoðunarstöðina á Húsavík. Þegar starfsmaður Þingiðnar kom við til að láta skoða bíllinn hjá sér var Elli í sérstökum búningi. Ekki vegna þess sem var kominn til að láta skoða bíllinn sinn, heldur vegna Covid 19 þar sem allur er varinn góður á þessum tímum.

 

Reinhard kveður AÞ og ræður sig til Byggðastofnunnar

Eins og fram hefur komið gerði Framsýn og SANA, samtök atvinnurekanda í Þingeyjarsýslum alvarlegar athugasemdir við ákvörðun sveitarstjórna í Þingeyjarsýslum að falla fyrir hugmyndum um að sameina Eyþing, Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga í eina stofnun. Nýja félagið hefur fengið nafnið; Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE). Allt bendir til þess að aðalstöðvarnar verði á Akureyri enda nýi framkvæmdastjórinn staðsettur þar.

Á heimasíðu Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga kemur fram að sex starfsmenn starfi hjá félaginu, vitað er að hluti af þeim voru ráðnir til að sinna tímabundnum verkefnum eins og Betri Bakkafjörður. Reinhard Reynisson hefur um árabil verið framkvæmdastjóri AÞ og var einn af þeim umsækjendum sem komu til greina sem framkvæmdastjóri nýja sameinaða félagsins SSNE. Hann fékk hins vegar ekki stuðning í starfið hjá þeim sem tóku endanlega ákvörðun um ráðninguna sem voru mikil vonbrigði enda Reinhard staðið sig afar vel í þeim verkefnum sem AÞ hefur komið að á svæðinu, ekki síst verkefnum sem tengjast Brothættum byggðum frá Öxarfirði til Bakkafjarðar.

Í byrjun mars skrifaði Framsýn sveitarfélögum sem aðild eiga að Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga bréf, og spurðist fyrir um hvenær lýðræðisleg  ákvörðun hefði verið tekin hjá sveitarfélögunum að leggja AÞ niður í núverandi mynd og sameinaða það Eyþingi og Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar. Þetta eru sveitarfélögin Norðurþing, Skútustaðahreppur, Þingeyjarsveit, Svalbarðshreppur og Langanesbyggð. Tjörneshreppur hefur frá upphafi verið eina sveitarfélagið sem hefur lagst gegn þessari sameiningu og var því ekki beðið formlega um að svara erindinu.

Nú ber svo við að aðeins eitt sveitarfélag virðist hafa tekið málið formlega fyrir á fundi og afgreitt það. Það er að sameina þessar þrjár stofnanir í eina, það er Skútustaðahreppur. Í bréfi frá sveitarfélaginu til Framsýnar er þetta staðfest sem ber að virða. Önnur sveitarfélög hafa ekki séð ástæðu til að svara erindinu og upplýsa um verklag við ákvörðunartökuna. Eða hvort hún hafi almennt verið tekin formlega. Að sjálfsögðu er það ótrúlegt ef svo er, og á skjön við almenna stjórnsýslu, hafi sameining þessara þriggja stofnanna ekki verið tekin fyrir með formlegum hætti hjá sveitarfélögunum sem í hlut eiga. Með því að svara ekki erindi Framsýnar eru sveitarfélögin að viðurkenna að þau hafi ekki tekið málið formlega fyrir til afgreiðslu.

Meðfylgjandi frétt er tekin af heimasíðu Byggðastofunnar þar sem upplýst er að Reinhard Reynison hafi verið ráðinn til starfa hjá stofnunninni. Hann er boðinn velkomin til starfa en alls bárust  36 umsóknir um þrjú störf hjá stofnunninni. Reinhard var einn þessara þriggja umsækjanda sem voru taldir hæfastir til starfa á þróunarsviði stofnunarinnar.

Framsýn stéttarfélag óskar Reinhard velfarnaðar í nýju starfi um leið og félagið þakkar honum fyrir vel unnin störf í þágu Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga.

Nýir starfsmenn á þróunarsvið Byggðastofnunar

 „Í febrúar s.l. auglýsti Byggðastofnun eftir sérfræðingum til starfa á þróunarsviði stofnunarinnar. Alls bárust 36 umsóknir, 17 frá konum og 19 frá körlum. Nú hefur verið ákveðið að ráða í störfin Reinhard Reynisson, Ölfu Dröfn Jóhannsdóttur og Þorkel Stefánsson og er reiknað með að þau hefji störf í maí mánuði.

 Reinhard stundaði meistaranám í Evrópufræðum við Háskólann á Bifröst og er með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands. Reinhard hefur verið framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga frá árinu 2008, þar áður bæjarstjóri á Húsavík frá 1998 til 2006.

Alfa Dröfn útskrifast með MA gráðu í félagsvísindum með áherslu á byggðafræði frá Háskólanum Akureyri vorið 2020 og er með BA gráðu í félagsvísindum með áherslu á norðurslóðafræði frá sama skóla. Hún hefur starfað hjá Akureyrarbæ sem sérfræðingur í félagsmálum barna m.a. stýrði hún innleiðingarferli Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna hjá Akureyrarbæ.

Þorkell er með MS og BS gráður í ferðamálafræði frá Háskóla Íslands og diplóma í rannsóknaraðferðum félagsvísinda frá HÍ og stundar nú nám í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. Þorkell hefur unnið við rannsóknir við ferðamálafræðideild Háskóla Íslands frá árinu 2007. Þá hefur hann sinnt aðstoðarkennslu bæði í Háskóla Íslands og Háskólanum á Bifröst.

Þau eru öflugur liðsauki við fjölhæft starfslið stofnunarinnar og við hlökkum til samstarfsins.“

 

Stjórn Framsýnar fundar á þriðjudaginn

Stjórn Framsýnar mun funda þriðjudaginn 7. apríl kl. 16:00 í gegnum zoom forritið til að virða reglur heilbrigðisyfirvalda. Með á fundinum verða stjórnarmenn í Framsýn-ung. Fjölmörg mál eru á dagskrá fundarins:

  1. Inntaka nýrra félaga
  2. Fundargerð síðasta fundar
  3. Kjarasamningur SGS við ríkið
  4. Málefni Skrifstofu stéttarfélaganna
  5. Hátíðarhöldin 1. maí
  6. Aðalfundur félagsins
  7. Staða sjúkrasjóðs
  8. Orlofsmál
  9. Samstarf v/ Covid 19
  10. Málefni ASÍ
  11. Málefni Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga
  12. Fulltrúaráðsfundur Lsj. Stapa 6. apríl
  13. Önnur mál

Klofningur innan ASÍ

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum kom til ágreingins innan miðstjórnar ASÍ um hvaða leið ætti að fara varðandi óskir Samtaka atvinnulífsins um aðkomu aðildarfélaga sambandsins að stöðunni en fyrir liggur að mörg fyrirtæki á almenna vinnumarkaðinum eru í slæmri stöðu og hafa því óskað eftir viðræðum við verkalýðshreyfinguna um tímabundnar breytingar á gildandi kjarasamningi.

Helst hefur verið talað um að fara svokallaða lífeyrissjóðsleið, það er að heimila tímabundna lækkun á mótframlagi atvinnurekenda úr 11,5% í 8%. Í öðru lagi hefur verið talað um að fresta boðuðum launahækkunum 1. apríl um nokkra mánuði og í þriðja lagi hafa menn verið þeirrar skoðunar að verkalýðshreyfingin ætti ekki að hlusta á áhyggjur atvinnulífsins varðandi rekstrarumhverfi fyrirtækja. Meirihluti miðstjórnar samþykkti eftir að hafa farið nokkra hringi í málinu, eins og einn ágætur maður orðaði það, að hafna þessum leiðum. Það er að gefa eftir tímabundna frestun á launahækkunum og/eða greiðslum atvinnurekanda í lífeyrissjóði starfsmanna.

Til að gera langa sögu stutta þá varð alvarlegur klofningur innan miðstjórnar ASÍ um hvernig best væri að takast á við stöðuna og beiðni Samtaka atvinnulífsins um tímabundna eftirgjöf verkalýðshreyfingarinnar meðan Covid 19 veiran væri að ganga yfir.

Vilhjálmur Birgisson sagði skilið við miðstjórn með því að segja af sér sem fyrsti varaforseti sambandsins og formaður og varaformaður VR, sem sitja einnig í miðstjórn ASÍ, notuðu tækifærið og sögðu sömuleiðis skilið við miðstjórn vegna óánægju með nálgun forseta og annarra kjörinna fulltrúa í miðstjórn sambandsins varðandi óskir Samtaka atvinnulífsins um breytingar á gildandi kjarasamningi.

Innan Framsýnar er virkur hópur félagsmanna sem skipaður er um 50 fulltrúum frá flestum fyrirtækjum á félagssvæðinu, ekki síst frá stærri fyrirtækjum. Hópurinn var virkjaður í gær í leynilega skoðanakönnun um stöðuna en hópurinn er að mestu skipaður trúnaðarmönnum starfsmanna og endurspeglar vel almennar skoðanir félagsmanna sem telja hátt í 4000 félagsmenn.

Spurt var um leiðir, hvort rétt væri að bregðast við óskum Samtaka atvinnulífsins um tímabundnar tilslakanir eða ekki. Boðið var upp á þrjá valkosti.

  • Verða ekki við óskum Samtaka atvinnulífsins um breytingar á kjörum félagsmanna aðildarfélaga ASÍ þrátt fyrir stöðuna í þjóðfélaginu?
  • Svara kallinu með því að fresta tímabundið boðuðum launahækkunum sem koma eiga til framkvæmda 1. apríl?
  • Í stað þess að samþykkja frestun á launahækkunum 1. apríl verði heimilað tímabundið að færa mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði starfsmanna úr 11,5% í 8%?

Niðurstaðan er skýr:

Mikill meirihluti þeirra sem tóku þátt í skoðanakönnuninni var á því að leið 3 kæmi best út fyrir félagsmenn eða um 78% svarenda, það er að heimila tímabundna lækkun á mótframlagi atvinnurekanda í lífeyrissjóði. 19% voru á því að fresta ætti tímabundið launahækkunum sem koma eiga til framkvæmda 1. apríl. Það sem vekur hins vegar töluverða athygli eða ekki, er að aðeins 3% svarenda taldi að verkalýðshreyfinginn ætti að halda áætlun og hafna kröfum um breytingar á launahækkunum eða breytingum á lífeyrissjóðsframlögum atvinnurekanda í lífeyrissjóði.

Niðurstaðan úr þessari óformlegu könnun segir okkur að 97% félagsmanna eru tilbúnir að leggja á sig tímabundnar skerðingar enda verði allir launþegar í landinu klárir að leggjast saman á árannar með það að markmiði að sigla þjóðarskútunni í örugga höfn og verðlagi og öðrum þáttum sem áhrif hefur á afkomu fólks verði haldið í lágmarki.

Að mati félagsmanna Framsýnar er ekki pláss fyrir farþega, það verði allir að leggja sitt að mörkum við þessar aðstæður, ekki bara verkafólk.

 

 

Hvaða rugl er eiginlega í gangi?

Frétt heimasíðunnar í gær um að höfðinginn Guðmundur Vilhjálmsson væri að taka við formennsku í Framsýn stéttarfélagi var að sjálfsögðu aprílgabb. Talað var um að formaður Framsýnar tæki á móti gestum í fjárhúsinu í Grobbholti frá kl. 17:00 til 19:00 í gær. Enginn hljóp aprílgabb en hundruð manna lækuðu við fréttina á heimasíðu stéttarfélaganna sem vakti töluverða athygli. Þó nokkrir komu hins vegar við og bönkuðu á gluggann hjá formanni Framsýnar til að athuga hvort hann væri ekki örugglega í sætinu sínu en lokað er fyrir almenna umferð á skrifstofuna um þessar mundir. Heimasíðan þakkar öllum þeim sem tóku þessu gabbi vel, fyrir þeirra viðbrögð við þessu gríni, eða eins og einn ágætur maður orðaði það, hvað rugl er hér eiginlega í gangi. Ölver Þráinsson trúnaðarmaður hjá starfsmönnum Norðlenska var einn af þeim sem kom á gluggann hjá formanni Framsýnar til að fara yfir stöðuna og fylgja eftir fyrirspurnum frá starfsmönnum fyrirtækisins um ákveðin atriði.

 

Ég fer í fríið! – Lækkandi verð og lengri umsóknarfrestur

Stéttarfélögin hafa ákveðið að koma til móts við félagsmenn og lækka leiguverðið á sumarhúsunum og íbúðum stéttarfélaganna til félagsmanna sumarið 2020. Þannig vilja félögin koma til móts við félagsmenn á erfiðum tímum.

  • Gjald fyrir vikudvöl í orlofshúsi/íbúð sumarið 2020 verður kr. 20.000 í staðinn fyrir kr. 29.000.
  • Umsóknarfresturinn verður framlengdur til 30. apríl. Í fyrri auglýsingum var hann auglýstur til 15. apríl.

Það er von stéttarfélaganna að Covid 19 verði gengin yfir og félagsmenn verði duglegir við að ferðast innanlands í sumar. Gaman saman kæru félagar og fjölskyldur.

Frekari upplýsingar eru í boði á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Framsýn stéttarfélag
Verkalýðsfélag Þórshafnar
Starfsmannafélag Húsavíkur
Þingiðn, félag iðnaðarmanna

 

 

Stöndum vörð um íslenskan landbúnað

Fæðuöryggi er fremur nýtt hugtak í alþjóðlegri umræðu og fyrir mörgum er það enn nokkuð framandi. Á undanförnum áratugum hefur heimsmyndin tekið stakkaskiptum og afleiðingin er meðal annars sú að nú er talið brýnt fyrir hverja þjóð að móta stefnu sem tryggir fæðuöryggi hennar í framtíðinni. Áhyggjur manna eru heldur ekki að ástæðulausu, því helstu sérfræðingar í loftslagsmálum spá því að stórir heimshlutar, þar sem nú er framleiddur matur verði áður en langt um líður, óhæfir til matvælaframleiðslu, vegna þurrka, skógarelda eða vegna súrnunar sjávar.

Víða um heim verða kröfur almennings um breytta stefnu í mat­væla­fram­leiðslu háværari og Ísland er þar ekki undanskilið. Fyr­ir­hyggju­laus verk­smiðju­fram­leiðsla og aukin lyfja­notkun í mat­væla­fram­leiðslu vekur óhug/ógeð í brjósti upplýstra neytenda, er eitt að því sem gagnrýni gætir og eykur á efann um misjafnt vistspor þeirrar matvöru sem við kaupum erlendis frá. Neytendur krefjast upplýsinga um rekjanleika, upprunamerkingar og hreinleika vörunnar. Það er í takt við vaxandi meðvitund almennings um loftslagsmál, sjálfbæra þróun og umræðu um fækkun vistspora, enda gerir flest hugsandi fólk sér grein fyrir því, að ætlum við komandi kynslóðum að eiga sér lífvænlega framtíð á hér á jörð, verðum við einhverju að breyta.

Lengi vel settum við Íslendingar hugtakið „öryggi“ helst í samband við utanaðkomandi ógnir, í formi hernaðar, átaka eða hryðjuverka, við sváfum á verðinum og héldum að við værum lang flottust. Fátt þótti hallærislegra en að  efast um gildi þess að óheft markaðslögmál kapítalismans ættu að ráða för og fjár­hags­leg hag­kvæmni væri mik­il­væg­asta mæli­stikan á hvað skyldi flutt inn og hvað ekki. En svo kom blessað hrunið, íslenska krónan hrundi og innflutningskostnaður tvöfaldaðist í einni svipan. Við vorum rækilega minnt á hversu nauðsynlegt það er að við sem þjóð, séum sem mest sjálfum okkur nóg um fæðuöflun.

Nýjasta ógnin sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir er  COVID 19 veiran. Við vitum ekki hvar þau ósköp enda, en þegar er ljóst að faraldurinn leiðir af sér fjölda ótímabærra dauðdaga um allan heim, auk þess að hafa gríðarlegar efnahagslegar og pólitískar afleiðingar. Eftir COVID verður heimsmyndin breytt. Það er illt til þess að vita að verð á matvælum mun óhjákvæmilega hækka í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi og það sem enn verra er, raskist aðflutningar gæti það stefnt fæðuöryggi þjóðarinnar í voða.

Fæðuöryggi snýst meðal annars um það að horfa fram í tímann, það er öryggismál og við Íslendingar höfum alla burði til að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar.Landbúnaðurinn og matvælaframleiðslan, hvort sem það er framleiðsla á dýraafurðum eða grænmeti er ein af mikilvægustu grunnatvinnuvegum okkar og það er mikilvægt að landbúnaðurinn fái viðurkennt það stóra hlutverk sem hann gegnir fyrir byggðir landsins. Vonandi ber okkur gæfu til að varðveita og nýta þessa perlu af skynsemi, þjóðinni til hagsbóta. Marka okkur stefnu að góðum matvælagrunni og styðja við íslenskan landbúnað svo hann hafi burði til að standa á styrkum fótum – eigin fótum. (ÓH)

 

 

 

 

 

Kvótann heim!

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar var í viðtali í þættinum „Kvótann heim‟ sem er vefþáttur í umsjá Ögmundar Jónassonar. Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness var einnig gestur Ögmundar í þættinum.