Vika 3 með formanni

Það var ánægjulegt að koma til vinnu á mánudaginn. Nýr starfsmaður Vinnumálastofnunar, Ásrún Ásmundsdóttir komin til starfa með bros á vör. Vinnumálastofnun og Framsýn fyrir hönd aðildarfélaganna að Skrifstofu stéttarfélaganna hafa gert með sér samkomulag um ákveðið verkefni til eins árs. Það er Vinnumálastofnun ræður starfsmann og ber ábyrgð á honum. Á móti leggja stéttarfélögin til skrifstofu undir starfsemina í húsnæði stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26. Vonir eru bundnar við að framhald verði á þessu samstarfi eftir að tilraunaverkefninu lýkur að ári. Starfsmaðurinn verður í fullu starfi og eins og fram kemur þegar hafið störf.  Gleði og hamingja!

Hugað að stofnanasamningum. Þó nokkur tími hefur farið í það þessa vikuna að skoða stofnanasamninga fyrir félagsmenn Framsýnar. Þannig er, samkvæmt ákvæðum kjarasamninga félagsmanna Framsýnar sem starfa hjá ríkinu er hluti af þeirra kjörum bundin í gegnum sérstaka stofnanasamninga sem gera þarf við hverja stofnun þar sem félagsmenn Framsýnar starfa. Samhliða gerð nýrra stofnanasamninga þarf að varpa starfsmönnum inn í nýja launatöflu sem tekur gildi 1. janúar 2021. Ákveðið var að ráðast í þessar breytingar á þessu ári eftir undirskrift kjarasamninga milli ríkisins og Starfsgreinasambands Íslands sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn sem starfa hjá ríkinu. Kjarasamningurinn var undirritaður 6. mars 2020.

Ekki gengur að halda trúnaðarmannanámskeið. Ætluðum að halda fjölmennt trúnaðarmannanámskeið fyrir félagsmenn Framsýnar, STH og Þingiðnar í næstu viku. Vegna ástandsins í þjóðfélaginu tókum við ákvörðun um í vikunni að fresta því ótímabundið. Við höfum lagt mikið upp úr öflugu trúnaðarmannastarfi innan félagsins, liður í því hefur verið að bjóða trúnaðarmönnum upp á námskeið á hverju ári. Enn við verðum að bíða með að halda námskeið fyrir okkar mikilvægu trúnaðarmenn, því miður. Vonandi kemur bráðum betri tíð með blóm í haga.

Vefurinn sprunginn! Hvað bull er þetta, vefurinn okkar er ekki sprunginn þrátt fyrir að hann sé mjög vinsæll meðal félagsmanna og annarra gesta sem heimsækja hann reglulega. Fréttir og upplýsingar um kjör og réttindi félagsmanna eru aðgengileg á vefnum. Hins vegar er komið að því að uppfæra hann og er vinna hafin við það. Góðar ábendingar frá félagsmönnum um það sem betur má fara eru vel þegnar enda á vefurinn á hverjum tíma að vera aðgengilegur fyrir félagsmenn, www.framsyn.is.

Vinnutímabreytingar til umræðu. Verulegar breytingar eru fyrirhugaðar um næstu áramót hjá starfsmönnum sveitarfélaga og ríkisins, það er þeirra sem eru í dagvinnu. Ég hef komið að því í vikunni að aðstoða stofnanir ríkisins og sveitarfélög á svæðinu að innleiða nýja kerfið sem byggir á vinnutímastyttingu eins og fyrr segir hjá dagvinnufólki. Þann 1. maí 2021 eiga síðan að liggja fyrir breytingar á vinnutíma hjá vaktavinnufólki til styttingar fyrir sömu laun.

Var með fræðslu fyrir starfsmenn stéttarfélaga. Starfsgreinasamband Íslands (SGS) hefur undanfarið boðið starfsmönnum aðildarfélaga sambandsins upp á örnámskeið einu sinni í viku þar sem farið er yfir helstu ákvæði kjarasamninga sem félagsmenn innan sambandsins starfa eftir. Innan sambandsins eru 19 stéttarfélög. Síðasta þriðjudag var ég beðinn um að fjalla um kjarasamning starfsmanna í ferðaþjónustu og svara fyrirspurnum starfsmanna. Um er að ræða mjög áhugavert framtak á vegum Starfsgreinasambandsins, það er að bjóða starfsmönnum stéttarfélaga upp á námskeið sem þetta. Verð síðan með sambærilegt námskeið næsta þriðjudag. Um er að ræða rafræn námskeið.

Í samráði við Brynju Sassoon sem lengi bjó í Svíþjóð boðuðum við til fundar með fulltrúum Félags eldri borgara á Húsavík og nágrenni, Vinnumálastofnun og Félagsþjónustu Norðurþings í vikunni. Markmiðið var að kynna verkefni/hugmynd um að auka lífsgæði eldra fólks með vinnu á þeirra forsendum. Þegar Brynja Sassoon bjó í Svíþjóð kynntist hún verkefni sem byggir á því að auka lífsgæði eldra fólks í Svíþjóð, ekki síst þeirra sem neyðast til að hætta á vinnumarkaði vegna aldurs. Það er að vinna með fólki sem er tilboðið að taka að sér vinnu á sínum eigin forsendum, ekki síst í skemmri tíma. Það er ákveðna tíma á dag, viku eða á mánuði. Verkefnið vakti athygli fundarmanna og voru þeir tilbúnir að fylgja því eftir með samtölum, frekari fundum og kynningum. Gott mál og rúmlega það enda fyrirmynd að þessu verkefni ekki til á Íslandi en hefur gefist vel í Svíþjóð.

Guð blessi ASÍ, 105, Reykjavík! Ég skal fúslega viðurkenna að mér er brugðið eftir 44. þing ASÍ, ég hef aldrei upplifað annað eins og hef ég nú setið nokkur þingin í gegnum tíðina. Þingið sem var rafrænt, fór fram síðasta miðvikudag og áttu Þingiðn og Framsýn rétt á 6 fulltrúum af tæpum 300 þingfulltrúum. Ég velti því fyrir mér, var þingið löglegt? Í upphafi þings var lagabreyting keyrð í gegn með litlum mun um fjölgun á forsetum, það er úr þremur í fjóra til að þóknast ákveðum aðilum í verkalýðshreyfingunni. Hér á árum áður var gert í því að forsetakjörið tæki mið af mismunandi sjónarmiðum innan hreyfingarinnar og búsetu. Það er ákveðnu vægi milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. Nú bar svo við að það var sniðgengið með öllu af elítunni innan hreyfingarinnar. Forsetarnir koma allir af höfuðborgarsvæðinu, skítt með landsbyggðina og sjónarmið hennar. Sorglegt því miður. Reikna með að fjalla nánar um þetta tímamóta þing eftir helgina með pistli á heimasíðunni.

Deila á