Starfsgreinasamband Íslands (SGS) er samband 19 aðildarfélaga verkafólks á Íslandi. Sambandið er fjölmennasta landssamband launafólks á Íslandi og stærsta landssambandið innan ASÍ, með samtals um 72.000 félagsmenn. Meginhlutverk SGS er að sameina verkalýðsfélög í baráttunni fyrir bættum kjörum, standa vörð um áunnin réttindi, vera leiðandi afl innan verkalýðshreyfingarinnar og vettvangur umræðu um þróun samfélagsins í þágu launafólks.
SGS hefur undanfarið boðið starfsmönnum aðildarfélaga sambandsins upp á örnámskeið einu sinni í viku þar sem farið er yfir helstu kjarasamninga sem félagsmenn innan sambandsins starfa eftir. Í dag var komið að því að fjalla um kjarasamning starfsmanna í ferðaþjónustu. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, var fenginn til að fara yfir helstu ákvæði samningsins auk þess að svara fyrirspurnum frá þátttakendum á kynningunni. Framhald verður á þessari fræðslu og mun Aðalsteinn verða með annað erindi næsta þriðjudag um sama efni. Síðan er komið að öðrum að fara yfir ríkis- og sveitarfélaga samninganna. Um er að ræða mjög áhugavert framtak á vegum Starfsgreinasambandsins, það er að bjóða starfsmönnum stéttarfélaga upp á námskeið sem þetta auk þess sem samræmi verður í túlkun stéttarfélaganna á ákvæðum kjarasamninga sem oft eru mjög flókin.