Norðurþing boðar kjaraskerðingar – starfsmenn Grænuvalla verða boðaðir til fundar

Samkvæmt umræðum sem urðu á fundi Byggðaráðs Norðurþings í gær eru fyrirhugaðar breytingar á kjörum starfsmanna sveitarfélagsins, sem reyndar koma misjafnlega út fyrir starfsmenn sveitarfélagsins. Um er að ræða tímabundnar skerðingar og eins skerðingar til lengri tíma. Á fundinum lagði sveitarstjóri fram minnisblað. Í skjalinu kemur fram að erfiðleikar í rekstri sveitarfélaga vegna heimsfaraldursins séu óumdeildir og Norðurþing sé engin undantekning í þeim efnum. Útkomuspá fyrir fjárhagsárið 2020 bendir til þess að Norðurþing skili umtalsverðum hallarekstri og sömuleiðis á árinu 2021.

Þá samþykkti Byggðaráð að fela sveitarstjóra að boða til fundar með stéttarfélögum og starfsmönnum Leikskólans Grænuvalla sem hafa mótmælt boðuðum kjaraskerðingum starfsmanna. Um er að ræða verulega skerðingar sem nema góðum mánaðarlaunum á ári hjá hverjum og einum starfsmanni. Ljóst er að lægst launuðu starfsmennirnir hjá sveitarfélaginu munu koma verst út úr þessum breytingum. Meðan æðstu stjórnendur ætla að taka á sig tímabundnar skerðingar er þessum starfsmönnum ætlað að taka á sig varanlegar skerðingar.

Nánar má lesa um viðbrögð Byggðaráðs við yfirlýsingu starfsmanna Leikskólans Grænuvalla og aðrar aðhaldsaðgerðir er viðkoma kjörum starfsmanna sveitarfélagsins inn á heimasíðu Norðurþings:  https://www.nordurthing.is/is/stjornsysla/skjol-og-utgefid-efni/fundargerdir/byggdarrad-nordurthings/1449

 

Deila á