HSN og Hvammur til fyrirmyndar

Stjórnendur HSN og Hvamms heimili aldraðra á Húsavík leggja mikið upp úr því að nýir starfsmenn á hverjum tíma fái góða fræðslu um starfsemi þessara stofnanna og fræðist auk þess um réttindi þeirra og skyldur á vinnumarkaði. Fulltrúar Framsýnar tóku vel í beiðni stjórnenda Hvamms og HSN um að vera með fræðslu fyrir starfsmenn sem eru um þessar mundir að hefja störf hjá þeim.  Fræðslan fór fram í síðustu viku.

Hlutverk stéttarfélaganna var að fara yfir helstu ákvæði í kjarasamningum er snúa að störfum starfsmanna sem starfa annars vegar eftir kjarasamningi starfsmanna sveitarfélaga og hins vegar eftir kjarasamningi ríkisstarfsmanna sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn. Það er til mikillar fyrirmyndar þegar stofnanir eða fyrirtæki biðja um fræðslu sem þessa. Starfsfólk stéttarfélaganna er ávallt reiðubúið að koma í heimsókn með fyrirlestra/námskeið um réttindi og skyldur fólks á vinnumarkaði.

Áhugasamir starfsmenn hlýða á fulltrúa Framsýnar fara yfir helstu ákvæði kjarasamninga.

Lísa boðin velkomin til starfa

Elísabet Gunnarsdóttir hóf störf hjá Skrifstofu stéttarfélaganna í morgun. Hún tekur tímabundið við starfi fjármálastjóra jafnframt því að hafa yfirumsjón með bókhaldi stéttarfélaganna. Lísa er með BS í viðskiptafræði frá Háskóla Reykjavíkur og MS í fjármálum fyrirtækja frá Háskóla Íslands. Við bjóðum Lísu velkomna til starfa í góðan hóp starfsmanna Skrifstofu stéttarfélaganna.

Vilt þú komast sem fulltrúi á ársfund Lsj. Stapa

Ársfundur Lsj. Stapa verður haldinn þriðjudaginn 30 júní nk. í Menningarhúsinu Hofi, Akureyri og hefst kl. 14:00. Framsýn stéttarfélag hefur rétt á að senda 15 fulltrúa á ársfundinn. Hafir þú áhuga á því að vera fulltrúi Framsýnar á fundinum ert þú vinsamlegat beðin um að senda póst á netfangið kuti@framsyn.is. fyrir 15. júní nk.

Til viðbótar má geta þess að ársfundurinn er opinn öllum sjóðfélögum með málfrelsi og tillögurétti. Atkvæðisrétt hafa þeir einir sem kosnir hafa verið á fundinn sem fulltrúar þeirra aðildarfélaga, sem að sjóðnum standa.

 

 

Vinnustaðafundur hjá GPG á Raufarhöfn

Formaður Framsýnar átti góðan fund með starfsmönnum GPG-Fiskverkun á Raufarhöfn fyrir helgina. Fyrirtækið heldur úti öflugri starfsemi á Raufarhöfn. Starfsmenn voru nokkuð ánægðir með sig og notuðu tækifærið og kusu sér nýjan trúnaðaramann á fundinum. Kosningu hlaut Robert George Tonea. Afar mikilvægt er að starfandi séu trúnaðarmenn á sem flestum vinnustöðum. Samkvæmt ákvæðum kjarasamninga ber að kjósa trúnaðarmann enda séu starfsmenn fleiri en fimm á vinnustaðnum.  Að venju eru starfsmenn stéttarfélaganna meira en tilbúnir að koma í heimsókn á vinnustaði verði eftir því leitað.

Framsýn tekur heilshugar undir með ASÍ og krefst hækkunar atvinnuleysisbóta

Alþýðusambandið hefur um nokkurra missera skeið lagt áherslu á að lögin um atvinnuleysistryggingar verði endurskoðuð í heild sinni. Sú afstaða byggir annars vegar á þeim breytingum sem orðið hafa og eru að verða á vinnumarkaði og skipulagi vinnunnar og hins vegar á þeirri skoðun að mikilvægt sé að fólk í atvinnuleit hafi geti nýtt þann tíma til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði með því að sækja sér menntun eða auka hæfni sína með öðrum hætti.

Alþýðusambandið hefur jafnframt lagt ríka áherslu á að atvinnuleysisbætur verði þegar í stað hækkaðar og tekjutengda tímabilið lengt.

Nú eru grunnbætur úr atvinnuleysistryggingasjóði m.v. fullt starf kr. 289.510 á mánuði (auk þess sem greidd er lág fjárhæð með hverju barni á framfæri yngra en 18 ára). Þá eru tekjutengdar bætur að hámarki kr. 456.404 á mánuði, en þó aldrei hærri en 70% af meðaltali heildarlauna á viðmiðunartímabilinu. Tekjutengdar atvinnuleysisbætur eru lengst greiddar í þrjá mánuði, en þó ekki fyrstu tvær vikur í atvinnuleysi.

Við þær aðstæður sem nú eru uppi á vinnumarkaði og fyrirsjáanlegar eru á næstu misserum er nauðsynlegt að gera breytingar til að forða fólki sem misst hefur vinnuna frá enn verri áföllum en felast í atvinnumissi og því tekjutapi sem honum fylgir.

Í þessu sambandi má einnig benda á að upphæð atvinnuleysisbóta var lengi miðuð við 7. taxta Dagsbrúnar eftir 1 ár. Sambærileg viðmiðun í launataxta verkafólks mundi gefa mun hærri upphæð en nú er. Þá má benda á að grunnbæturnar eru nú ríflega 86% af lágmarkstekjutryggingu skv. kjarasamningi Starfsgreinasambandsins en voru árið 2010 ríflega 95%. Á sama hátt er hámark tekjutengdra atvinnuleysisbóta nú í lágmarki miðað við grunnbæturnar frá því tekjutengingin var tekin upp.

Í ljósi framanritaðs leggur Alþýðusambandi til breytingar m.v. núgildandi lög og upphæðir atvinnuleysisbóta. Um er að ræða hóflegar breytingar sem eru einfaldar og hægt er að hrinda strax í framkvæmd en með því fororði þó að heildarendurskoðun laganna fari fram og þá verði fjárhæðir atvinnuleysisbóta og annar stuðningur úr atvinnuleysistryggingasjóði tekinn til gagngerrar skoðunar með það að markmiði að forða fólki frá tekjufalli.

Tillaga Alþýðusambandsins er eftirfarandi:

Grunnatvinnuleysisbætur verði sem svarar 95% af tekjutryggingu m.v. fullt starf. Sú fjárhæð er í dag kr. 318.250 (þ.e. um 9,9% frá núverandi fjárhæð). Þá verði greiðsla með hverju barni á framfæri yngra en 18 ára hlutfallslega sú sama og í dag.

Tekjutengdar atvinnuleysisbætur nemi sem næst 70% af meðaltali heildarlauna á vinnumarkaði. Sú fjárhæð er í dag kr. 529.381.

Þá verði dregið úr tekjutengingu þannig að tekjur upp að dagvinnutekjutryggingu skerði ekki tekjutengdra bætur. Sú fjárhæð er í dag kr. 335.000.

Tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta verði lengt tímabundið úr þremur mánuðum að hámarki í sex mánuði.

Lengi býr að fyrstu gerð – Áhersluatriði er varða vinnu barna og ungmenna

Sumarið er fram undan og mörg ungmenni í þann mund að hefja sumarvinnu. Mikilvægt er að þau fái jákvæða upplifun af því að stíga sín fyrstu skref út á vinnumarkaðinn. Eitt af meginmarkmiðum Vinnueftirlitsins er að tryggja að allir komi heilir heim úr vinnu. Í því samhengi hafa atvinnurekendur og þeir sem reyndari eru mikilvægu hlutverki að gegna. Á það ekki hvað síst við þegar kemur að börnum og ungmennum.

Íslensk ungmenni hafa í gegnum tíðina byrjað snemma að vinna og taka að sér ýmis konar störf. Má þar nefna í matvöruverslunum, á veitingastöðum og við garðyrkju. Rannsóknir sýna að ungu fólki er hættara en eldra við að lenda í vinnuslysum og óhöppum en slíkt má meðal annars rekja til skorts á þjálfun og starfsreynslu auk þess sem börn og ungmenni skortir oft þekkingu á mikilvægum þáttum er varða öryggi og heilbrigði við vinnu. Sú skylda hvílir á atvinnurekendum að tryggja þeim örugg vinnuskilyrði, viðeigandi persónuhlífar ásamt fullnægjandi fræðslu og þjálfun til að sporna gegn slysum.

Í þeim efnum þurfum við sem störfum á innlendum vinnumarkaði að gera betur en á síðustu fimm árum (2015 – 2019) hafa samtals 316 vinnuslys verið tilkynnt til Vinnueftirlitsins í aldurshópnum 18 ára og yngri. Skiptir því máli að þeir sem reyndari eru temji sér að vera góðar fyrirmyndir og gæti ávallt að öryggi og góðum aðbúnaði á vinnustöðum.

Vill Vinnueftirlitið jafnframt hvetja atvinnurekendur til að kynna sér vel efni reglugerðar nr. 426/1999, um vinnu barna og unglinga sem gildir um vinnu einstaklinga undir 18 ára aldri.

Hvaða störf og hvenær?

Í reglugerðinni er fjallað ítarlega um hvaða störf mismunandi hópar mega vinna og hvaða störf þeir mega ekki vinna, þó sú upptalning sé ekki tæmandi. Vakin er athygli á að ungmenni undir 18 ára aldri mega ekki vinna með hættuleg tæki eða að hættulegum verkefnum, sbr. 10. grein reglugerðarinnar og viðauka. Í reglugerðinni er einnig fjallað um áhættumat, leiðbeiningar og kennslu, vinnutíma, kvöld- og næturvinnu sem og hvíldartíma.

Þá er sérstök athygli vakin á því að aðeins er heimilt að ráða börn undir 13 ára aldri til þátttöku í menningar- eða listviðburðum og íþrótta- eða auglýsingastarfsemi. Afla skal leyfis Vinnueftirlitsins áður en til ráðningar kemur vegna vinnu barna yngri en 13 ára. Meðfylgjandi er eyðublað þess efnis.

 Gerð áhættumats

Samkvæmt 5. grein reglugerðarinnar er atvinnurekanda skylt að gera áhættumat og viðeigandi ráðstafanir byggðar á niðurstöðum matsins til að tryggja öryggi og heilsu ungmenna. Þetta skal gert áður en þau hefja störf og í hvert sinn sem verulegar breytingar eru gerðar á starfsskilyrðum þeirra. Vinnueftirlitið beinir því til atvinnurekenda að slíkt áhættumat verði gert áður en störf hefjast í sumar, liggi það ekki fyrir nú þegar. Leiðbeiningar um áhættumat er að finna á heimasíðu stofnunarinnar.

Atvinnuleysi í sögulegu hámarki í apríl

Óhætt er að segja að atvinnuleysi sé í sögulegu hámarki um þessar mundir. Í lok apríl voru alls 49.353 einstaklingar á atvinnuleysisbótum á Íslandi, þar af 28.023 karlar og 21.330 konur. Rétt er að taka fram að hér er verið að tala um einstaklinga sem eru atvinnulausir og þá sem eru á hlutabótum hjá Vinnumálastofnun á móti vinnu hjá viðkomandi atvinnurekendum. Samkvæmt þessum tölum er atvinnuleysið töluvert meira hjá körlum en konum.

Sé horft til félagssvæðis Framsýnar og Verkalýðsfélags Þórshafnar voru 692 á atvinnuleysisbótum í lok apríl sem skiptist þannig.

Norðurþing                 397

Skútustaðahreppur     141

Þingeyjarsveit             96

Tjörneshreppur          7

Langanesbyggð           45

Svalbarðshreppur       6

 

Vorið er komið með lömb í haga

Allt frá hruninu 2008 hefur það tíðkast að leikskólabörn á Húsavík og nemendur úr 1. bekk Borgarhólsskóla áamt fylgdarfólki geri sér ferð í Grobbholt á vorin til að skoða lömb og önnur dýr sem haldin eru í Grobbholti. Stöðugur straumur barna, foreldra og umsjónarmanna hefur verið síðustu daga í Grobbholt en um 200 gestir hafa lagt leið sína í dýragarðinn á Skógargerðismelnum. Almenn ánægja er með þessar heimsóknir sem börn, foreldrar og forsvarsmenn skólanna kunna vel að meta, það er að hafa lítinn dýragarð í túnfætinum við Húsavík. Að sögn forráðamanna Grobbholts eru foreldrar, afar og ömmur  ávallt velkomin í heimsókn með börn og barna börn. Sjá myndir:

Þakkir til Framsýnar frá ÖBÍ og Landssambandi eldri borgara

Framsýn hefur borist þakkir frá Öryrkjabandalagi Íslands  fyrir hvatningarbréf sem fór frá félaginu til Alþýðusambands Íslands varðandi mikilvægi þess að hagsmunasamtök sem hafa það að markmiði að vinna að málefnum og velferð fólks á vinnumarkaði og þeirra sem hætt hafa störfum á vinnumarkaði vegna aldurs eða örorku myndi breiðfylkingu með það að markmiði að standa vörð um hagsmuni og réttindi þessara hópa. Í pósti formanns ÖBÍ til Framsýnar kemur m.a. fram: „Það er að stór hagsmunasamtök myndi bandalag, breiðfylkingu þar sem unnið er að velferð fólks með fókus á lágtekjuhópa og þá sem eru lægstir og verst settir sem eru öryrkjar – fatlað og langveikt fólk. Takk fyrir ykkar hvatningu hún er mikils virði og ég er viss um að þetta er upphafið að einhverju stærra.“ Formaður ÖBÍ er Þuríður Harpa Sigurðardóttir.

Sömuleiðis hefur Framsýn borist þakkir frá formanni Landssambands eldri borgara. Þar er Framsýn þakkað fyrir að ljá máls á þessu mikilvæga máli.

Það voru mörg mál á dagskrá fundar stjórnar og trúnaðarráðs Framsýnar í gær. Þar á meðal málefni öryrkja og aldraðra. Að sjálfsögðu virtu menn tveggja metra regluna með því sitja ekki þétt saman eins og hefð er fyrir á fundum á vegum félagsins enda mikil og góð  samstaða meðal þeirra fjölmörgu sem starfa fyrir félagið með beinum eða óbeinum hætti.

Í anda Framsýnar – skrifað undir sameiginlega yfirlýsingu um samstarf

ASÍ, BSRB, BHM, KÍ og ÖBÍ skrifuðu í dag undir sameiginlega yfirlýsingu þar sem þess er krafist að hagur öryrkja verð bættur. Kröfurnar eru settar fram í þremur liðum:
1. Lágmarksframfærsla öryrkja verði hækkuð þannig að fólki sé ger kleift að lifa mannsæmandi lífi.
2. Skerðingar verði endurskoðaðar þannig að þær standi ekki í vegi fyrir þátttöku á vinnumarkaði, hvort sem er að hluta eða tímabundið og að dregið verði úr tekjuskerðingum vegna lífeyristekna.
3. Störf með viðeigandi aðlögun og sveigjanlegum vinnutíma verði tryggð fyrir fólk með skerta starfsgetu.

Í yfirlýsingunni segir m.a. að það sé allra hagur að bæta kjör öryrkja og sjá til þess að enginn sé dæmdur til fátæktar þó starfsgeta láti undan. Það er dýru verði keypt fyrir alla þegar fólk er svipt virðingu og getu til athafna.

Segja má að þetta sé í anda Framsýnar sem lengi hefur barist fyrir auknu samstarfi verkalýðshreyfingarinnar við samtök eins og ÖBÍ og önnur þau samtök sem vinna með velferð fólks í huga.

Hér má lesa yfirlýsinguna í heild sinni

Fundað um málefni SSNE

Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) urðu til 1. janúar á þessu ári þegar landshlutasamtökin Eyþing, Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga voru sameinuð í eitt félag. Í samþykktum fyrir SSNE segir að markmið með starfsemi SSNE sé að efla Norðurland eystra sem eftirsótt til búsetu og atvinnu. Stofnun félagsins byggir á faglegum ávinningi, auknum slagkrafti, skilvirkari vinnu og auknum sóknarfærum til að auka fagþekkingu innan stoðstofnana á starfssvæðinu. „SSNE skal vera sterkur bakhjarl aðildarsveitarfélaga í sameiginlegum málum þeirra og stuðla að góðu mannlífi, lifandi menningarlífi og öflugri atvinnustarfsemi á starfssvæðinu.“ Þá kveða samþykktir fyrir SSNE á um hlutverk félagsins sem er að þjónusta sveitarstjórnir og atvinnulíf á starfssvæðinu til að ná markmiðum sem nánar eru tilgreind í samþykktunum. Eyþór Björnsson var ráðinn framkvæmdastjóri samtakanna í janúar. Reiknað er með fjórum starfsstöðvum á starfssvæði SSNE.

Eins og kunnugt er hefur Framsýn gagnrýnt harðlega þá ákvörðun að leggja niður starfsemi Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og sameina það Eyþingi og Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar þar sem félagið telur það vera mikla afturför fyrir atvinnulífið í Þingeyjarsýslum. Best fari á því að atvinnuþróun og stuðningur við atvinnulífið í Þingeyjarsýslum sé í höndum Þingeyinga.

Framkvæmdastjóri SSNE, Eyþór Björnsson, óskaði eftir fundi með formanni Framsýnar til að ræða almennt um starfsemi nýju samtakanna. Fundurinn fór fram í gær þar sem menn skiptust á skoðunum um málefni SSNE og aðdragandann að stofnun samtakanna. Í máli Eyþórs kom skýrt fram að hann leggur mikið upp úr góðu samstarfi við heimamenn sem og aðra sem koma að starfsemi SSNE. Formaður Framsýnar kallaði eftir því að samtökin yrðu virk og sýnileg á félagssvæði Framsýnar sem næði frá Vaðlaheiði til Raufarhafnar. Skýr vilji kom fram á fundinum hjá báðum aðilum um að eiga gott samstarf er viðkemur atvinnumálum í Þingeyjarsýslum.

 

Fundað með forystusveit ASÍ

Fulltrúar Framsýnar, Þingiðnar og Verkalýðsfélags Þórshafnar funduðu í gær með forsetum ASÍ og tveimur starfsmönnum sambandsins í gegnum fjarfundarbúnað. ASÍ hefur hafið fundarherferð með það að markmiði að funda með forsvarsmönnum stéttarfélaga innan ASÍ á næstu vikum. Fundurinn í gær var liður í þeirri fundarherferð. Forseti ASÍ, Drífa Snædal, kynnti hugmyndir Alþýðusambandsins um réttu leiðina út úr kreppunni. „Rétta leiðin – frá kreppu til lífsgæða“

Frá kreppu til lífsgæða
Að mati ASÍ þarf á tímum kreppu og allsherjar samdráttar, ekki bara á Íslandi heldur í heiminum öllum, að vinna eftir skýrri framtíðarsýn. Í máli Drífu kom fram að Alþýðusamband Íslands hvetur stjórnvöld og þjóðina alla til samstöðu um aðgerðir til að marka veginn frá kreppu til lífsgæða fyrir okkur öll. Stokkum spilin. Höfnum sérhagsmunum, eflum grunnstoðirnar og setjum fólk í öndvegi.  Tillögurnar eru í takti við stefnu alþjóðlegu verkalýðshreyfingarinnar um réttlát umskipti (e. Just Transition) og sækja í alþjóðlega umræðu um grænan samfélagssáttmála (e. Green New Deal). Unnið er eftir viðmiðum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um að atvinnusköpun skuli vera í fyrirrúmi við aðgerðir gegn kreppunni.

ASÍ hefur lagt fram metnaðarfullar tillögur um að skapa atvinnu á nokkrum tilteknum sviðum sem eru til þess fallin að byggja fjölbreytt og sjálfbært atvinnulíf þar sem allir sem vilja geta fengið störf við hæfi. Sett er fram skýr framtíðarsýn um framfærslutryggingu, traust húsnæði, öfluga innviði og gjaldfrjálsa grunnþjónustu en með þeim hætti býr Ísland sig undir fyrirsjáanlegar breytingar á atvinnu- og lifnaðarháttum og tryggir að þær verði ekki til að auka á ójöfnuð og fátækt. Til þess þarf vinnumarkaðurinn jafnframt að byggja á traustum ráðningarsamböndum, skipulagðri verkalýðshreyfingu og kjarasamningum, auk þess að styðja gott samspil vinnu, fjölskyldulífs og frístunda.

Órói og samstarf hagsmunaaðila

Á fundinum í gær urðu umræður um erindi Framsýnar til ASÍ. Í fyrsta lagi hefur Framsýn hvatt til breiðrar samstöðu meðal þeirra hagsmunasamtaka sem eiga það sameiginlegt að vinna að velferð fólks á vinnumarkaði og þeirra sem hætt hafa á vinnumarkaði vegna örorku. Ekki var annað að heyra en að Alþýðusambandið væri tilbúið að fylgja þessari hugmynd Framsýnar eftir með auknu samstarfi við þessi hagsmunasamtök.

Í öðru lagi hefur Framsýn gagnrýnt þau vinnubrögð sem voru viðhöfð innan miðstjórnar ASÍ þegar upp kom ágreiningur innan miðstjórnar um viðbrögð við tillögum Samtaka atvinnulífsins um ákveðna eftirgjöf vegna stöðunnar hjá fyrirtækjum sem rekja má til Covid ástandsins. Í kjölfarið sögðu þrír fulltrúar sig úr miðstjórn, sem síðar lýstu því yfir að þeir væru tilbúnir að taka aftur við störfum innan sambandsins, því var hafnað að hálfu miðstjórnar. Miðstjórn ASÍ er vart starfshæf eftir þessi átök sem ekki er séð fyrir endann á, það veit ekki á gott þegar fulltrúar frá stærsta aðildarfélaginu innan ASÍ eru ekki þátttakendur í störfum ASÍ með setu í miðstjórn sambandsins. Þá var framkvæmdastjóri sambandsins nýlega ráðinn án auglýsingar sem Framsýn hefur gagnrýnt. Hreyfing sem kennir sig við lýðræði á ekki að ástunda svona vinnubrögð að mati Framsýnar. Forseti ASÍ svaraði fyrir ráðninguna á framkvæmdastjóranum og fór nokkrum orðum um átökin sem verið hafa innan miðstjórnar eftir brotthvarf þremenninganna.

Fundurinn var hreinskilinn og góður enda mikilvægt að menn geti skipst á skoðunum þrátt fyrir að vera ekki sammála um öll þau mál sem koma inn á borð Alþýðusambandsins á hverjum tíma.

 

 Stjórnarfundur á morgun, þriðjudag

Fundur verður haldinn í stjórn og trúnaðarmannaráði Framsýnar þriðjudaginn 19. maí kl. 17:00 í fundarsal félagsins. Að venju eru stjórnarmenn í Framsýn-ung velkomnir á fundinn.

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Aðalfundur félagsins
    1. Aðalfundur
    2. Bókhald félagsins
    3. Ráðningarbréf endurskoðanda
  4. Aðgerðir Framsýnar á Covid tímum
  5. Gjaldþrot og greiðslustöðvarnir fyrirtækja á félagssvæðinu
  6. Kjaramál sjómanna
  7. Úthlutun orlofshúsa
    1. Úthlutun
    2. Samstarf við Dorado
    3. Sumarferð
  8. Viðgerðir á sumarhúsi í Dranghólaskógi
  9. Erindi frá stjórn AN
  10. Svarbréf ASÍ við bréfi félagsins um samstarf hagsmunaaðila
  11. Svarbréf SSNE við bréfi félagsins um starfsemi félagsins
  12. Fundur með forsvarsmönnum ASÍ
  13. Fulltrúaráðsfundur Lsj. Stapa
    1. Tilnefning á stjórnarmanni
  14. Félagsmannasjóður starfsmanna sveitarfélaga
  15. Aðalfundur Orlofsbyggðarinnar á Illugastöðum
  16. Aðalfundur Þorrasala
  17. Aðalfundur Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga
  18. Aðalfundur Þekkingarnets Þingeyinga
    1. Tilnefning á stjórnarmanni
  19. Samkomulag við sveitarfélögin um launakjör unglinga
  20. Önnur mál
    1. Tilkynning um tímabundna vinnslustöðvun hjá GPG
    2. Sjómannadagur
    3. Sjómannakaffi á Raufarhöfn

 Úthlutun orlofshúsa lokið – nokkrar vikur í boði

Nú hefur verið lokið við að úthluta sumarhúsum til félagsmanna stéttarfélaganna sumarið 2020 en umsóknarfrestur rann út í lok apríl. Allir sem fengið hafa bústað ættu að hafa fengið sendar upplýsingar í tölvupósti um úthlutunina. Þrátt fyrir mikla aðsókn eru nokkrar vikur lausar á eftirfarandi stöðum:

Eftirfarandi vikur eru lausar:

Eiðar:

29-05-05.06

05.06-12.06

12.06-19.06

07.08-14.08

14.08-21.08

21.08-28.08

Illugastaðir:

14.08-21.08

21.08-28.08

Flúðir:

21.08-28.08

Ef einhverjar spurningar vakna þá endilega hafið samband við okkur á skrifstofunni.

 

Veiðikortið 2020

Eins og verið hefur mun félagsmönnum verða boðið Veiðikortið nú í ár á sérstöku vildarverði, eða 5.000 krónur. Kortin er þegar komin í hús og því geta veiðimenn þegar fest kaup á þessum athyglisverða veiðimöguleika. Helstu upplýsingar um veiðikortið má nálgast hér.

 

Ný fánastöng komin á sinn stað

Eins og öllum ætti að vera í mjög svo fersku minni þá var langt frá því að vera skemmtilegt veður hér um slóðir lengst af vetrar. Í einum veðurofsanum brotnaði fánastöng Skrifstofu stéttarfélaganna. Nú þegar vorið er komið var því farið af stað og fengin ný stöng. Það voru svo vaskir starfsmenn Garðvíkur sem sáu um að setja upp nýju stöngina á einum blíðviðrisdeginum. Á myndinni hér að ofan má einmitt sjá þá nýbúna að ljúka verkinu og vera að flagga fána Framsýnar.

Sjómennt – rýmkaðar reglur og full fjármögnun fyrir sjómenn innan Framsýnar

Í ljósi aðstæðna í íslensku samfélagi hefur stjórn Sjómenntar ákveðið að rýmka úthlutunarreglur vegna styrkveitinga og bjóða einstaklingum og fyrirtækjum uppá þann valkost að sækja námskeið á netinu eða í fjarkennslu þeim að kostnaðarlausu. Rétturinn nær til sjómanna innan Framsýnar og útgerðarfyrirtækja á Íslandi sem aðild eiga að sjóðnum.

Átakið gildir frá 15.mars til og með 31.ágúst 2020 og gildir gagnvart námi/námskeiðum sem haldin eru innan þessa sama tímaramma.

Nánari útfærsla á átaksverkefninu: Gerðir verða samningar við fræðsluaðila sem bjóða upp á vefnám/fjarnám þar sem fyrirtækjum og einstaklingum er boðin þátttaka í námi/námskeiðum þeim að kostnaðarlausu. Þak á þáttökugjaldi pr. einstakling pr. námskeið er kr. 30.000,- samkvæmt þessum samningum.

Breytingar á úthlutunarreglum eru eftirfarandi:

  • Endurgreiðslur til fyrirtækja vegna kostnaðar við námskeiðahald, miðað við núverandi reglur, verði hækkaðar úr 75% í allt að 90% af styrkhæfum heildarkostnaði.
  • Hámarksupphæð einstaklingsstyrkja verður áfram kr. 130.000 á ári miðað við núverandi reglur. Hlutfalli endurgreiðslu verði hins vegar breytt og verði 90% í stað 75% af kostnaði við námið.
  • Tómstundstyrkir sem nú eru 75% en að hámarki kr. 30.000 á ári verði í sama hámarki og hefðbundnir styrkir, það er kr. 130.000 á ári. Hlutfall endurgreiðslunnar verði sömuleiðis 90% af viðurkenndum kostnaði við námið.

Um leið og Sjómennt hvetur stjórnendur fyrirtækja til þess að sinna sí-og endurmenntun starfsmanna sinna, vill stjórnin koma því á framfæri að tekið verði á móti öllum góðum hugmyndum að fræðslu sem kynnu að nýtast og falla vel að úthlutunarreglum sjóðsins.

Nánari upplýsingar veitir Kristín Njálsdóttir í síma 863 6480 eða á tölvupósti, sjomennt@sjomennt.is

 

Áhrif Covid-19 á stöðu heimilanna

Samfélög heimsins takast nú á við fordæmalausa heilbrigðisvá og þau gríðarlegu efnahagsáhrif sem henni fylgja. Efnahagsleg og samfélagsleg áhrif Covid-19 eru um margt ólík fyrri samdráttarskeiðum. Viðspyrna í efnahagslífinu er háð getu til að ná böndum á útbreiðslu Covid-19 og þar með tryggja að atvinnulíf og daglegt líf geti færst í eðlilegar skorður.

Hagdeild ASÍ setti fram slíkar sviðsmyndir fyrir miðstjórn sambandsins í síðasta mánuði. Grunnsviðsmynd byggði á uppfærðri haustspá sambandsins og voru í kjölfarið skoðuð áhrif af nýjum forsendum um þróun ólíkra hagvísa t.d. fjölda ferðamanna, þróun ráðstöfunartekna, gengisþróun, olíuverð, vexti og atvinnuleysi. Sviðsmyndir bentu til þess að samdráttur í vergri landsframleiðslu gæti numið 5-8% á þessu ári.

Mestu og víðtækustu áhrifin á heimilin birtast í áður óþekktri aukningu atvinnuleysis og miklum fjölda fólks sem þurft hefur að taka á sig lækkun starfshlutfalls með tilheyrandi tekjufalli og afkomuvanda. Atvinnuleysi eykst og ekki ólíklegt að það geti numið á bilinu 7-9% að jafnaði á þessu ári en það merkir að líkur eru á að atvinnuleysi á ársgrundvelli verði hærra en þegar mest var í hruninu. Sviðsmyndir benda ekki til þess að mikil hætta sé á verðbólguskoti. Verðhækkanir á neysluvörum eru ekki ólíklegar, eins og t.d. innfluttri matvöru, en stórir liðir í útgjöldum heimilanna eins og húsnæði og eldsneyti halda aftur af verðbólguþrýstingi.

Greiðsluvandi vegna tekjumissis er mesta hættan sem steðjar að fjárhag heimilanna við núverandi aðstæður þegar fjöldi fólks er án atvinnu að fullu eða hluta og tekjur margra dragast saman. Húsnæðiseigendur standa almennt vel að vígi eftir tímabil hóflegrar verðbólgu, vaxtalækkana og hækkana á húsnæðisverði. Húsnæðiseigendur sem verða fyrir tekjutapi geta frestað greiðslum í 3-12 mánuði. Leigjendur eru margir í viðkvæmri stöðu og hafa mun síður notið hagstæðari kjara á húsnæðismarkaði á undanförnum árum óg bjóðast síður úrræði til að fresta leigugreiðslum. Tekjulág heimili eru auk þess líklegri til að vera á leigumarkaði og leigjendur hafa að jafnaði mun þyngri húsnæðiskostnað en þeir sem búa í eigin húsnæði.

Brýn nauðsyn er á að hækka húsaleigubætur til að styðja við leigjendur í lág- og millitekjuhópum og tryggja þarf að greiðsluvandi vegna tímabundins tekjumissis ógni ekki húsnæðisöryggi fólks. Nauðsynlegt er að lántakendur og leigusalar sýni sveigjanleika m.a. með frystingum, skilmálabreytingum og greiðsludreifingu til að aðstoða heimili í greiðsluerfiðleikum. Fylgjast þarf náið með stöðu heimilanna og útfæra leiðir til að styðja við þá hópa sem glíma við afkomuvanda og íþyngjandi húsnæðiskostnað. Til að draga úr líkum á fjárhagserfiðleikum þeirra heimila sem verða fyrir atvinnumissi er aðkallandi að hækka atvinnuleysisbætur og lengja tímabil tekjutengingar. Aðgerðir stjórnvalda nú eiga að miða að því að tryggja afkomu og húsnæðisöryggi fólks, en hvoru tveggja styður við skjóta endurreisn íslensks efnahagslífs.

Sjá samantekt Hagdeildar á áhrifum Covid-19 á heimilin

Félagar, til hamingju með daginn!

Ágætu félagar

Til hamingju með daginn, alþjóðlegan baráttudag verkafólks!

Þegar ég flutti eina af mínum fyrstu ræðum á hátíðarhöldunum 1. maí á Húsavík, þá ný orðin formaður í verkalýðsfélagi, byrjaði ég ræðuna með þessum orðum:

Í dag, á hátíðar- og baráttudegi verkafólks 1. maí, safnast fólk saman víða um heim í skrúðgöngum og/eða á samkomum til að minna á kröfur sínar um jafnrétti, velferð og réttlát kjör til handa öllum. Þetta er dagur hins vinnandi manns.

Nú ber svo við að það verða engar skrúðgöngur eða baráttusamkomur víða um heim sem rekja má til ástandsins í heiminum er tengist Covid- 19 veirunni. Veira sem á sér engin landamæri og herjar á alla burt séð frá kyni, litarhætti eða stöðu þeirra í samfélaginu.

Í fyrsta skipti síðan 1923 getur íslenskt launafólk ekki safnast saman 1. maí til að leggja áherslu á kröfur sínar vegna takmarkana sem heilbrigðisyfirvöld á Íslandi fyrirskipuðu og tengjast Covid- 19 veirunni. Það ár fóru menn í fyrstu kröfugönguna 1. maí undir lúðrablæstri og rauðum fánum. Dagurinn varð síðan lögskipaður frídagur á Íslandi 1972.

Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir því að rauði liturinn á fána verkalýðshreyfingarinnar táknar uppreisn gegn ranglæti. Hann þýðir að nú sé nóg komið, auk þess sem hann táknar dagrenninguna. Íslenska verkalýðshreyfingin hefur í gegnum tíðina tekið á mörgum mikilvægum málum undir rauðu flaggi, það er sameinað verkafólk undir rauðu flaggi til góðra sigra.

Því miður ber svo við um þessar mundir að verkafólk getur ekki sameinast undir rauðu flaggi til að minna á sínar sjálfsögðu og réttlátu kröfur um betri heim til handa öllum, ekki bara fáum útvöldum. Þess í stað verða menn að beita sér með skrifum og með rafrænum útsendingum þar sem öllum ýtrustu reglum er fylgt eftir samkvæmt tilmælum heilbrigðisyfirvalda til  að verjast Covid- 19 veirunni.

Heildarsamtök launafólks á Íslandi munu standa fyrir sameiginlegri dagskrá í kvöld, 1. maí. Hátíðarhöldin verða í Hörpu og sjónvarpað út til landsmanna í gegnum Ríkissjónvarpið.  Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum eiga aðild að samkomunni í gegnum sín heildarsamtök, ASÍ og BSRB.

Vissulega eru þetta mikil viðbrigði, ekki síst fyrir stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum sem  alla tíð hafa lagt mikið upp úr þessum degi. Eða eins og fyrrverandi formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur, Helgi Bjarnason, sagði á sínum tíma. „Þetta er dagurinn okkar sem okkur ber að viðhalda og virða til framtíðar, ekki síst í minningu forfeðrana sem mörkuðu sporin okkur til heilla.“

Á samkomum stéttarfélaganna hefur boðskapi dagsins verið komið vel á framfæri við hátíðargesti í Íþróttahöllinni á Húsavík í gegnum ræðuhöld og þá hefur jafnframt verið lögð áhersla á að bjóða upp á vandaða tónlistar- og skemmtidagskrá í anda hátíðarhaldanna.

Forystufólk innan stéttarfélaganna hefur lagt á sig mikla sjálfboðavinnu til að láta hlutina ganga upp með starfsmönnum félaganna. Það að taka á móti 600 til 900 manns krefst vinnuframlags frá mörgum höndum. Fyrir þetta góða starf ber að þakka í gegnum tíðina.

Kjörorð dagsins er „Byggjum réttlátt þjóðfélag“. Stéttarfélögin í þingeyjarsýslum munu standa vaktina áfram sem hingað til með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi.

Eins og fram kemur í þessu stutta ávarpi til félagsmanna verður ekki hefðbundin dagskrá á vegum stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum í ár, það er því við hæfi að menn spili Framsýnarlagið í tilefni dagsins http://www.framsyn.is/framsynarlagid/ og skoði síðan svipmyndir hér á síðunni frá hátíðarhöldum stéttarfélaganna frá síðustu árum.

Góðar stundir og gleðilegt sumar

 Aðalsteinn Árni Baldursson,
formaður Framsýnar stéttarfélags