Hafna forræðishyggju í frumvarpi til laga um fæðingar- og foreldraorlof

Framsýn stéttarfélag hefur tekið frumvarp félags- og barnamálaráðherra um fæðingar- og foreldraorlof til skoðunar innan félagsins. Umsögn um frumvarpið var samþykkt samhljóða á fundi stjórnar í gær. Um leið og Framsýn fagnar framkomu frumvarpsins gerir félagið alvarlegar athugasemdir við nokkur atriði sem fram koma í ályktun fundarins sem er meðfylgjandi þessari frétt, þessar eru helstar:

  • Framsýn hafnar alfarið þeirri forræðishyggju sem fram kemur í frumvarpinu um að heimild foreldra til að skipta með sér fæðingarorlofinu verði skert frá því sem verið hefur. Slíkt ákvæði kæmi sér afar illa fyrir láglaunafólk, það er að þvinga ákveðna hópa samfélagsins í enn frekari jaðarstöðu.
  • Framsýn gerir jafnframt athugasemd við styttingu tímabilsins til orlofstöku, úr 24 mánuðum í 18 mánuði. Félagið telur brýnt að viðhalda í lögum að nýting fæðingarorlofs sé óbreytt við 24 mánuði og foreldrum skapaður með því meiri sveigjanleiki til að gera ráðstafanir börnum sínum til heilla.  
  • Framsýn telur löngu tímabært að tekið verði tillit til aðstæðna verðandi foreldra er búa fjarri fæðingarstofnunum.  Að mati félagsins er afar mikilvægt að  ríkið komi til móts við þennan hóp með sérstöku viðbótarfæðingarorlofi meðan á biðtíma stendur. Þær greiðslur skerði í engu almennt fæðingarorlof heldur vegi upp á móti þeim mikla kostnaði og óhagræði sem er því fylgjandi að dvelja fjarri heimili sínu þar sem fæðingarstofnun er ekki í boði í Heimabyggð. Um er að ræða mikið réttlætismál enda markmið núverandi stjórnvalda að jafna búsetuskilyrði allra landsmanna.

Ályktun
Um lengingu fæðingar- og foreldraorlofs

„Framsýn stéttarfélag fagnar frumvarpi félags- og barnamálaráðherra um lengingu fæðingar- og foreldraorlofs í 12 mánuði. Lenging fæðingarorlofsins er mikilvæg réttarbót fyrir börn og foreldra þeirra og kemur til með að skila sér á margan hátt út í samfélagið aftur.

Félagið hafnar hins vegar alfarið forræðishyggju stjórnvalda, sem felst í því að takmarka ákvörðunarrétt foreldra til að ráðstafa fæðingarorlofinu, bæði hvað varðar skiptingu þess og töku orlofsins. Samkvæmt frumvarpinu verður eingöngu hægt að framselja einn mánuð milli foreldra, sem annars fá hvort um sig sex mánuði til umráða.

Sjálfstæður réttur foreldra til orlofstöku er að sjálfsögðu mikilvægur sem og valfrelsi foreldra. Eigi skipting orlofsins að vera skilyrt og í anda þess sem tíðkast hefur, færi betur á því að foreldrar tækju hvort um sig lágmarki fjóra mánuði og gætu síðan sjálfir ráðstafað umfram rétti út frá hagsmunum barns og foreldra.

Framsýn telur  forkastanlegt að frumvarpið, sem virðist fyrst og fremst  taka mið af jöfnum rétti foreldra, stuðli í raun að annars konar ójöfnuði, svo sem tekjutapi fjölskyldna og/ eða skertu fjárhagslegu sjálfstæði þar sem staða fólks er mjög mismunandi á íslenskum vinnumarkaði. Þó hugmyndafræðin sem liggur að baki frumvarpinu um jafnan rétt kynja til töku fæðingarorlofs, sé góðra gjalda verð, ætti stjórnvöldum að vera ljóst að með þessum hætti er verið að þvinga ákveðna hópa samfélagsins í enn frekari jaðarstöðu. Fyrir láglaunafólk snýst málið einfaldlega um það að ná endum saman. 

Þá er full ástæða til að gera athugasemd við styttingu tímabilsins til orlofstöku, úr 24 mánuðum í 18 mánuði. Telur félagið brýnt að viðhalda í lögum að nýting fæðingarorlofs sé óbreytt við 24 mánuði og foreldrum skapaður með því meiri sveigjanleiki til að gera ráðstafanir börnum sínum til heilla.  

Framsýn telur löngu tímabært að tekið verði tillit til aðstæðna verðandi foreldra er búa fjarri fæðingarstofnunum.  Að mati félagsins er afar mikilvægt að  ríkið komi til móts við þennan hóp með sérstöku viðbótarfæðingarorlofi meðan á biðtíma stendur. Þær greiðslur myndu í engu skerða  almennt fæðingarorlof heldur vega upp á móti þeim mikla kostnaði og óhagræði sem er því fylgjandi að dvelja fjarri heimili sínu þar sem fæðingarhjálp er ekki í boði í heimabyggð. Um er að ræða mikið réttlætismál enda markmið núverandi stjórnvalda að jafna búsetuskilyrði allra landsmanna.

Nú er rétti tíminn til að láta verkin tala vilji Alþingi láta taka sig alvarlega á annað borð.“

Deila á