Starfsmiðuð fjarnámskeið NTV, að fullu fjármögnuð af starfsmenntasjóðum 

Gerður hefur verið samningur við NTV skólann um fulla fjármögnun á 6 námskeiðum/námsleiðum sem allt eru starfsþróunarmiðuð og verkefnadrifin fjarnámskeið sem boðið verður upp á í samstarfi við aðildarfélög Landsmenntar, Ríkismenntar, Sveitamenntar og Sjómenntar. Félagsmenn aðildarfélaga sjóðanna munu fá námskeið að fullu niðurgreidd.

Öll námskeiðin (námsefni, verkefnavinna, verkefnaskil og samskipti) eru inni á nemendaumhverfi NTV skólans í gegnum nettengingu. Stefnt er að því að námskeiðin hefjist í byrjun nóvember.

Nánari upplýsingar um námskeiðin má finn á http://www.ntv.is/is/um-ntv/yfirlit-flokka/view/stettarfelags-namskeid

Einstaklingar skrá sig hjá NTV skólanum og mun skólinn senda reikninga beint á skrifstofu fræðslusjóðanna. Skráning: http://www.ntv.is/is/namskeid/nam-i-bodi-stettarfelags

Námskeiðin sem um ræðir eru:
Bókhald Grunnur – 8 vikur (120 kes.)
Digital marketing – 7 vikur (112 kes.)
Frá hugmynd að eigin rekstri – 4 vikur (60 kes.)
App og vefhönnun – 6 vikur (90 kes.)
Vefsíðugerð í WordPress – 4 vikur (50 kes.)
Skrifstofu og tölvufærni – 6 vikur (96 kes.)

Sjá auglýsingu um námskeiðin: 2020 10 28 Full Fjarmognud Fjarnamskeid NTV

Vinnutímabreytingar hjá starfsfólki ríkisins og sveitarfélaga – kynning í boði

Um næstu áramót taka gildi nýjar reglur varðandi vinnutíma starfsfólks hjá ríkisstofnunum og stofnunum sveitarfélaga. Frá og með 1. janúar kemur til 13 mín stytting á dag m.v. við fullt starf. Taki menn ákvörðun um að fella niður neysluhlé getur styttingin orðið allt að 4 tímar á viku hjá starfsmönnum í fullu starfi og hlutfallslega miðað við starfshlutfall viðkomandi. Um er að ræða mikið hagsmunamál fyrir starfsmenn. Afar mikilvægt er að þeir kynni sér vel væntanlegar breytingar og hvernig þær eiga að virka. Framsýn og Starfsmannafélag Húsavíkur hafa þegar hafið kynningu á breytingunum meðal starfsmanna á þeim stofnunum sem samkomulagið nær yfir, sem eru eins og fram kemur í fréttinni, til starfsmanna á ríkisstofnunum og stofnunum sveitarfélaga. Félagsmönnum er velkomið að hafa samband og óska eftir kynningu á vinnutímastyttingunni sem á að vinnast hjá hverri stofnun fyrir sig og er á forræði stjórnenda og starfsmanna. Hér eru nokkrar gagnlegar slóðir fyrir þá sem vilja kynna sér vinnutímabreytingarnar.

https://betrivinnutimi.is/dagvinna/

https://betrivinnutimi.is/verkfaerakista/

https://reykjavik.is/sites/default/files/starfsumsoknir/leidbeiningabaeklingur_utgefinn_25.09.20.pdf

 

Trúnaðarmenn starfsmanna á Leikskólanum Grænuvöllum fengu kynningu í morgun á vinnutímabreytingunum um áramót, það er Dóra Fjóla og Gunnþórunn. Á morgun eru síðan væntanlegir fulltrúar frá starfsmönnum Borgarhólsskóla á Húsavík og eftir helgina verður kynning fyrir starfsmenn sem starfa hjá Menningarmiðstöð Þingeyinga á Húsavík. Óski félagsmenn Framsýnar og Starfsmannafélags Húsavíkur eftir kynningu á breytingunum er þeim velkomið að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna.

Allt gert klárt fyrir veturinn

Hér má sjá Jónas Þorkelsson vera að skipta um peru í ljósastaur við fjölfarinn stíg á Húsavík, nánar tiltekið í námunda við Skrúðgarðinn við Búðará sem kemur sér vel fyrir veturinn sem er á næsta leiti.

Undrast framkomu útgerðar Júlíusar Geirmundssonar ÍS í garð áhafnar

Sjómannadeild Framsýnar lýsir yfir fullum stuðningi við skipverja á Júlíusi Geirmundssyni ÍS-270 vegna framkomu stjórnenda útgerðarinnar í garð áhafnar skipsins. Framsýn tekur heilshugar undir yfirlýsingu Starfsgreinasambands Íslands og stéttarfélaga skipverja um að hunsun á tilmælum yfirvalda um viðbrögð við hópsmiti sé vítaverð og fram þurfi að fara sjópróf til að draga þá til ábyrgðar sem hana bera. Svona skeytingarleysi um gagnvart heilsu og öryggi skipverja má aldri líðast. (Meðfylgjandi mynd tengist ekki þessari yfirlýsingu Sjómannadeildar Framsýnar)

 

 

Konur lifa ekki á þakklætinu

Þann  24. október 1975 lögðu konur niður launuð sem ólaunuð störf til að sýna fram á mikilvægi vinnuframlags kvenna. Í dag, 45 árum síðar, er framlag kvenna til samfélagsins ekki enn að fullu metið að verðleikum.

Konur í  framlínu umönnunarstarfa á tímum COVID-19. Þær geta ekki sinnt öldruðum, sjúkum  og börnum í fjarvinnu!

Metum störf kvenna að verðleikum. Breytum ekki konum, breytum samfélaginu. Kjarajafnrétti STRAX!

 

 

Vika 3 með formanni

Það var ánægjulegt að koma til vinnu á mánudaginn. Nýr starfsmaður Vinnumálastofnunar, Ásrún Ásmundsdóttir komin til starfa með bros á vör. Vinnumálastofnun og Framsýn fyrir hönd aðildarfélaganna að Skrifstofu stéttarfélaganna hafa gert með sér samkomulag um ákveðið verkefni til eins árs. Það er Vinnumálastofnun ræður starfsmann og ber ábyrgð á honum. Á móti leggja stéttarfélögin til skrifstofu undir starfsemina í húsnæði stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26. Vonir eru bundnar við að framhald verði á þessu samstarfi eftir að tilraunaverkefninu lýkur að ári. Starfsmaðurinn verður í fullu starfi og eins og fram kemur þegar hafið störf.  Gleði og hamingja!

Hugað að stofnanasamningum. Þó nokkur tími hefur farið í það þessa vikuna að skoða stofnanasamninga fyrir félagsmenn Framsýnar. Þannig er, samkvæmt ákvæðum kjarasamninga félagsmanna Framsýnar sem starfa hjá ríkinu er hluti af þeirra kjörum bundin í gegnum sérstaka stofnanasamninga sem gera þarf við hverja stofnun þar sem félagsmenn Framsýnar starfa. Samhliða gerð nýrra stofnanasamninga þarf að varpa starfsmönnum inn í nýja launatöflu sem tekur gildi 1. janúar 2021. Ákveðið var að ráðast í þessar breytingar á þessu ári eftir undirskrift kjarasamninga milli ríkisins og Starfsgreinasambands Íslands sem Framsýn á aðild að fyrir sína félagsmenn sem starfa hjá ríkinu. Kjarasamningurinn var undirritaður 6. mars 2020.

Ekki gengur að halda trúnaðarmannanámskeið. Ætluðum að halda fjölmennt trúnaðarmannanámskeið fyrir félagsmenn Framsýnar, STH og Þingiðnar í næstu viku. Vegna ástandsins í þjóðfélaginu tókum við ákvörðun um í vikunni að fresta því ótímabundið. Við höfum lagt mikið upp úr öflugu trúnaðarmannastarfi innan félagsins, liður í því hefur verið að bjóða trúnaðarmönnum upp á námskeið á hverju ári. Enn við verðum að bíða með að halda námskeið fyrir okkar mikilvægu trúnaðarmenn, því miður. Vonandi kemur bráðum betri tíð með blóm í haga.

Vefurinn sprunginn! Hvað bull er þetta, vefurinn okkar er ekki sprunginn þrátt fyrir að hann sé mjög vinsæll meðal félagsmanna og annarra gesta sem heimsækja hann reglulega. Fréttir og upplýsingar um kjör og réttindi félagsmanna eru aðgengileg á vefnum. Hins vegar er komið að því að uppfæra hann og er vinna hafin við það. Góðar ábendingar frá félagsmönnum um það sem betur má fara eru vel þegnar enda á vefurinn á hverjum tíma að vera aðgengilegur fyrir félagsmenn, www.framsyn.is.

Vinnutímabreytingar til umræðu. Verulegar breytingar eru fyrirhugaðar um næstu áramót hjá starfsmönnum sveitarfélaga og ríkisins, það er þeirra sem eru í dagvinnu. Ég hef komið að því í vikunni að aðstoða stofnanir ríkisins og sveitarfélög á svæðinu að innleiða nýja kerfið sem byggir á vinnutímastyttingu eins og fyrr segir hjá dagvinnufólki. Þann 1. maí 2021 eiga síðan að liggja fyrir breytingar á vinnutíma hjá vaktavinnufólki til styttingar fyrir sömu laun.

Var með fræðslu fyrir starfsmenn stéttarfélaga. Starfsgreinasamband Íslands (SGS) hefur undanfarið boðið starfsmönnum aðildarfélaga sambandsins upp á örnámskeið einu sinni í viku þar sem farið er yfir helstu ákvæði kjarasamninga sem félagsmenn innan sambandsins starfa eftir. Innan sambandsins eru 19 stéttarfélög. Síðasta þriðjudag var ég beðinn um að fjalla um kjarasamning starfsmanna í ferðaþjónustu og svara fyrirspurnum starfsmanna. Um er að ræða mjög áhugavert framtak á vegum Starfsgreinasambandsins, það er að bjóða starfsmönnum stéttarfélaga upp á námskeið sem þetta. Verð síðan með sambærilegt námskeið næsta þriðjudag. Um er að ræða rafræn námskeið.

Í samráði við Brynju Sassoon sem lengi bjó í Svíþjóð boðuðum við til fundar með fulltrúum Félags eldri borgara á Húsavík og nágrenni, Vinnumálastofnun og Félagsþjónustu Norðurþings í vikunni. Markmiðið var að kynna verkefni/hugmynd um að auka lífsgæði eldra fólks með vinnu á þeirra forsendum. Þegar Brynja Sassoon bjó í Svíþjóð kynntist hún verkefni sem byggir á því að auka lífsgæði eldra fólks í Svíþjóð, ekki síst þeirra sem neyðast til að hætta á vinnumarkaði vegna aldurs. Það er að vinna með fólki sem er tilboðið að taka að sér vinnu á sínum eigin forsendum, ekki síst í skemmri tíma. Það er ákveðna tíma á dag, viku eða á mánuði. Verkefnið vakti athygli fundarmanna og voru þeir tilbúnir að fylgja því eftir með samtölum, frekari fundum og kynningum. Gott mál og rúmlega það enda fyrirmynd að þessu verkefni ekki til á Íslandi en hefur gefist vel í Svíþjóð.

Guð blessi ASÍ, 105, Reykjavík! Ég skal fúslega viðurkenna að mér er brugðið eftir 44. þing ASÍ, ég hef aldrei upplifað annað eins og hef ég nú setið nokkur þingin í gegnum tíðina. Þingið sem var rafrænt, fór fram síðasta miðvikudag og áttu Þingiðn og Framsýn rétt á 6 fulltrúum af tæpum 300 þingfulltrúum. Ég velti því fyrir mér, var þingið löglegt? Í upphafi þings var lagabreyting keyrð í gegn með litlum mun um fjölgun á forsetum, það er úr þremur í fjóra til að þóknast ákveðum aðilum í verkalýðshreyfingunni. Hér á árum áður var gert í því að forsetakjörið tæki mið af mismunandi sjónarmiðum innan hreyfingarinnar og búsetu. Það er ákveðnu vægi milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. Nú bar svo við að það var sniðgengið með öllu af elítunni innan hreyfingarinnar. Forsetarnir koma allir af höfuðborgarsvæðinu, skítt með landsbyggðina og sjónarmið hennar. Sorglegt því miður. Reikna með að fjalla nánar um þetta tímamóta þing eftir helgina með pistli á heimasíðunni.

Áhugavert verkefni í skoðun – Starfatorg fyrir eldri borgara

Framsýn stóð fyrir áhugaverðum fundi í gær ásamt Brynju Sassoon sem lengi bjó í Svíþjóð en flutti nýlega til Húsavíkur og réð sig til starfa hjá PCC. Til fundarins voru boðaðir fulltrúar frá Félagi eldri borgara á Húsavík og nágrenni, Vinnumálastofnun og Félagsþjónustu Norðurþings.

Þegar Brynja Sassoon bjó í Svíþjóð kynntist hún verkefni sem byggir á því að auka lífsgæði eldra fólks í Svíþjóð, ekki síst þeirra sem neyðast til að hætta á vinnumarkaði vegna aldurs. Það er að vinna með fólki sem er tilboðið að taka að sér vinnu á sínum eigin forsendum, ekki síst í skemmri tíma. Það er ákveðna tíma á dag, viku eða á mánuði. Eins og kunnugt er, eru ákvæði í sumum kjarasamningum að við ákveðin aldursmörk er starfsmönnum gert að láta af störfum þrátt fyrir að hafa góða heilsu og löngun til að vinna áfram eða vera í hlutavinnu meðan heilsan leyfir.

Starfslok fela í sér miklar breytingar í lífi fólks. Vinnan er stór hluti af lífi okkar, ekki einungis vegna framfærslu. Félagsskapur vinnufélaganna, örvunin sem felst í því að fást við verkefnin í vinnunni og lífsfyllingin sem tilfinningin um að hafa hlutverk eru meðal þess að fólk talar um að það sakni þegar það hverfur af vinnumarkaði. Sumir upplifa einangrun og einsemd; vinnan hefur verið svo stór hluti af lífi þeirra. Tekjur flestra dragast einnig saman við starfslok. Það getur því verið góður kostur að hafa möguleika á að minnka við sig vinnu í áföngum, auka tekjur sínar umfram það sem lífeyrir veitir en miða vinnuframlag við getu, heilsu og ný viðfangsefni í lífinu. Rannsóknir sýna að virkni eldri borgara veitir þeim lífsfyllingu og skilar sér í góðri heilsu, sem kemur samfélaginu líka til góða.

Hvað þetta sérstaka verkefni varðar og kennt er við Svíþjóð, þá skrá eldri borgarar sig hjá ákveðnum aðila sem heldur utan um verkefnið. Viðkomandi eldri borgari ákveður sjálfur hvaða daga og hversu marga klukkustundir hann treystir sér til að vinna á viku/mánuði. Gengið er frá umsókn um starfsgetu, í hvaða starfsgrein viðkomandi vill vinna og önnur störf sem hann gæti hugsað sér að vinna. Aðilinn sem heldur utan um verkefnið tekur við fyrirspurnum og kemur þeim áleiðis til þeirra sem eru á skrá. Gangi allt eftir mætir eldri borgarinn á vinnustaðinn, stimplar sig inn og stimplar sig út í lok vinnudags. Að sjálfsögðu getur skráningin verið með öðrum hætti. Ábyrgðaraðilinn með verkefninu sér um að fylgja málinu eftir og tryggir að þeir aðilar sem taka þátt í verkefninu fái gert upp við hver mánaðamót eða eftir samkomulagi. Boðið verður upp á að stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar geti fengið auka aðstoð í stuttan tíma. Það er, í boði er að fá fólk með mikla reynslu í afmörkuð verkefni, fólk með margra ára reynslu og þekkingu á sínu sviði, stundvísi, kunnáttu, fagmennsku og heiðarleika.

Eins og áður hefur komið fram er um áhugavert verkefni að ræða sem hefur reynst vel í Svíþjóð. Það hefur hins vegar ekki þekkst á Íslandi. Á fundinum gær kom fram mikil áhugi fyrir því að skoða málið frekar og mun Brynja vinna áfram að málinu og m.a. kynna það betur fyrir Félagsþjónustu Norðurþings og Félagi eldri borgara á Húsavík og nágrenni sem buðu henni að mæta með kynningu til þeirra. Til viðbótar má geta þess að vilji menn fræðast betur um þetta verkefni eða gerast aðilar að verkefninu er það meira en velkomið.

 

Leikskólamál til umræðu

Forsvarsmenn Norðurþings funduðu í gær með  fulltrúum frá starfsmönnum Leikskólans Grænuvalla á Húsavík og stéttarfélaganna sem starfsmennirnir eiga aðild að, það er Framsýn, Starfsmannafélag Húsavíkur og Félag leikskólakennara. Eins og fram hefur komið er mikil gremja og reiði meðal starfsmanna leikskólans enda nema boðaðar breytingar á kjörum starfsmanna verulegum fjárhæðum eða vel yfir einum mánaðarlaunum á ári. Fundarmenn skiptust á skoðunum um ákvörðun sveitarfélagsins og komu sínum skoðunum á framfæri. Ákveðið var að setjast frekar yfir málið á næstu dögum með það í huga að skoða hvort hægt verði að ná lendingu í málinu sem aðilar geti sætt sig við eða ekki. Það er von starfsmanna að viðunandi lausn finnist í málinu, ef ekki er skólastarfið í hættu.

Beðið eftir þjónustu

Suma dagana er þetta svona þegar horft er út um gluggann á Skrifstofu stéttarfélaganna. Mikil umferð er um skrifstofuna í leit að þjónustu og upplýsingum frá félögunum enda mjög hátt þjónustustig hjá stéttarfélögunum. Þá er þegar farið að hafa áhrif að Vinnumálastofnun hefur í samráði við Framsýn ráðið starfsmann til starfa í fullt starf sem er með aðstöðu hjá stéttarfélögunum. Til viðbótar má geta þess að Þekkingarnet Þingeyinga hefur staðið fyrir námskeiðahaldi fyrir atvinnuleitendur sem fer að hluta fram í fundarsal stéttarfélaganna. Það er því óhætt að segja að það sé mikið líf á Skrifstofu stéttarfélaganna þessa daganna, reyndar er það ekki frétt, þar sem umferð um skrifstofuna er töluverð flesta daga vikunnar.

Hætt við trúnaðarmannanámskeið í næstu viku

Því miður verða stéttarfélögin, Framsýn, Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur að hætta við tveggja daga námskeið sem vera átti í næstu viku fyrir trúnaðarmenn. Vegna ástandsins í þjóðfélaginu er tengist Covid er ekki talið ráðlegt að halda námskeiðið. Stéttarfélögin hafa í gegnum tíðina lagt mikið upp úr öflugu trúnaðarmannastarfi innan félagsins, liður í því hefur verið að bjóða trúnaðarmönnum upp á námskeið á hverju ári. Enn við verðum að bíða með að halda námskeið fyrir okkar mikilvægu trúnaðarmenn, því miður. Vonandi kemur bráðum betri tíð með blóm í haga og allir geti faðmast á ný við öruggar aðstæður.

Þing ASÍ stendur yfir – áhugaverð ræða varaformanns ASÍ-UNG

Nú stendur yfir 44. þing ASÍ. Vegna Covid er um að ræða rafrænt þing og eru þingfulltrúar tæplega 300 frá aðildarfélögum/samböndum Alþýðusambandsins. Framsýn á rétt á 5 fulltrúum og Þingiðn á rétt á einum fulltrúa. Þingfulltrúar félaganna komu saman í morgun í fundarsal stéttarfélaganna og munu fylgjast að, meðan á þinginu stendur en áætlað er að það klárast um miðjan dag. Nokkrar ræður hafa verið fluttar í morgun frá aðilum innan hreyfingarinnar. Það sem stendur upp úr er ræða varaformanns ASÍ-UNG sem tók fyrir breytingar sem orðið hafa á fæðingarorlofinu sem eru að hans mati ekki allar til góða. Án efa geta margir tekið undir þessar skoðanir varaformannsins.  Ræðan er svohljóðandi:

Þingfulltrúar og aðrir góðir gestir

Ég heiti Ástþór Jón Ragnheiðarson. Ég starfa sem þjálfari og er varaformaður ASÍ-UNG.

ASÍ-UNG eru samtök ungs fólks innan verkalýðshreyfingarinnar sem sjá til þess að hagsmunamál ungs fólks á vinnumarkaði séu ávallt á dagskrá Alþýðusambandsins.

Síðastliðið starfsár hefur verið ákaflega viðburðarríkt hjá ASÍ-UNG. Við höfum staðið fyrir hinum ýmsu viðburðum sem miða að ungu, vinnandi fólki. “Ertu með vinnuna í vasanum” – pallborðsumræður og fundur um skilin milli vinnu og einkalífs var haldinn í stúdentakjallaranum. Tekið var þátt í “ungir leiðtogar” námskeiðinu. CPow sem er heimsátak alþjóðaverkalýðshreyfingarinnar ITCU gegn hamfarahlýnun, en þar er af nógu að taka.

Þá hefur ASÍ-UNG einnig átt fulltrúa í hinum ýmsu nefndum innan verkalýðshreyfingarinnar. Ástþór Jón var settur fulltrúi ASÍ í ETUC-youth committe, sem er nefnd innan evrópsku verkalýðshreyfingarinnar og hefur hann verið okkar málsvari þar, og sótti meðal annars ráðstefnu í Portúgal í lok janúar.

Innan ASÍ eigum við svo fulltrúa í öllum fastanefndum og einnig situr formaður fundi miðstjórnar ASÍ.

Ég get sagt, full sjálfstrausts, að ASÍ-UNG hefur haft í nógu að snúast og svo sannarlega gætt hagsmuna ungmenna innan verkalýðshreyfingarinnar. Fyrstur manna skal ég viðurkenna að við hefðum getað verið sýnilegri, en það veltur líka á því hve sýnileg heildarstamtökin leyfa okkur að vera. Hve mikil raunveruleg áhrif við fáum að hafa.

Það er nefninlega þannig, að til þess að ASÍ-UNG geti haft áhrif á hagsmunamál ungs fólks, þurfa heildarsamtökin að gera okkur kleift að hafa þau áhrif.

Nú liggur fyrir frumvarp um breytingu á fæðingarorlofslögum. ASÍ hefur komið að vinnu við þetta frumvarp og styður það, en það gerir ASÍ-UNG ekki. Það vill nefninlega svo til að þó svo að við eigum að sjá til þess að málefni ungs fólks séu ávallt á dagskrá, fáum við ekki alltaf að taka þátt í þeim málum, sem er ákaflega slæmt, sérstaklega þegar um er að ræða málefni af þessari stærðargráðu.

Ég held að ekki sé hægt að finna grímulausara dæmi um skort á samstafi og samráði heldur en akkurat í þessari vinnu. Málefni sem varðar ungt fólk, fyrir ungt fólk, en án aðkomu ungs fólks.

Í grunninn hljóðar þetta frumvarp þannig að:

Fæðingarorlof lengist upp í 12 mánuði
Orlofinu er jafnskipt milli foreldra eða 6 mánuðir á hvort
Tökutími styttist úr 24 mánuðum niður í 18

Fljótt á litið er þetta flott, þarna er verið að auka jafnrétti kynjanna með jafnri skiptingu. En þegar betur er að gáð þá koma ýmsir vankantar í ljós. Jafnrétti er nefninlega mikilvægt, en velferð barnsins á ávalt að vera í forgrunni.

Þannig er mál með vexti að þetta er frumvarp sem hentar hálauna og forréttindafólki vel.

Velferð barns, jafnréttissjónarmið og þar eftir götum, eru ekki höfð í fyrirrúmi, þrátt fyrir tilraunir til þess að láta okkur halda það, staðreyndirnar eru einfaldlega:

– Tökutími fer úr 24 mánuðum niður í 18.
– Börn einstæðra mæðra fá styttra orlof, ekki er gert ráð fyrir að þær fái 12 mánaða orlof, heldur mesta lagi 7.
– Þetta hentar vel tekjumiklu fólki, sem þolir skerta innkomu í nokkurn tíma, þar sem fyrir eru góðir sjóðir.

Þetta er akkurat ekkert annað en sparnaðaraðgerð, færri koma til með að fullnýta rétt sinn. Einstæðar mæður fá minna og feður munu taka minna orlof, því miður blasir það við. Síðan er þessi orðræða um skiptingu orlofs fáránleg. Þetta á að vera jafnt? Faðirinnn á jafn mikinn rétt á orlofi og þar eftir götum? Sá eini sem á rétt á orlofinu er barnið, hvort sem það sé tekið jafnt eða meirihluta með öðru foreldri.

Það að ASÍ taki þátt í aðgerðum sem hentar forréttinda og háluna fólki vel, í nafni jafnréttis og á kostnað þeirra sem minna meiga sín, er með öllu óásættanlegt. Við eigum að vera málsvari jaðarsettra hópa, en ekki forréttindahópa.

Í fjölmiðlum er því gjarnan haldið fram að verkalýðshreyfingin sé ósamstíga og ósammála, að við göngum ekki í takt og séum klofin. En það er líka akkurat það sem gerist, þegar ekki er unnið saman, eins og í þessu máli hér. Til þess að koma fram sem sterk, sameinuð heild, þá verðum við að vinna saman og eiga samtalið, til þess erum við hér, málsvarar ungs fólks.

En við skulum ekki dvelja í fortíðinni. Það er okkur unga fólkinu eðlislægt að horfa fram á veginn. Horfumst í augu við það sem hefur farið á mis, lærum af mistökum okkar og setjum okkur það markmið að gera betur í framtíðinni, með þátttöku allra. Aðeins þannig myndast sterk og sameinuð heild sem gætir hagsmuna vinnandi fólks.

Þetta eru skilaboðin frá unga fólkinu í hreyfingunni, í þessu máli sem svo sannarlega varðar okkur. Ekkert um okkur án okkar.

Takk fyrir

Áhugaverð fræðsla á vegum SGS

Starfsgreinasamband Íslands (SGS) er samband 19 aðildarfélaga verkafólks á Íslandi. Sambandið er fjölmennasta landssamband launafólks á Íslandi og stærsta landssambandið innan ASÍ, með samtals um 72.000 félagsmenn. Meginhlutverk SGS er að sameina verkalýðsfélög í baráttunni fyrir bættum kjörum, standa vörð um áunnin réttindi, vera leiðandi afl innan verkalýðshreyfingarinnar og vettvangur umræðu um þróun samfélagsins í þágu launafólks.

SGS hefur undanfarið boðið starfsmönnum aðildarfélaga sambandsins upp á örnámskeið einu sinni í viku þar sem farið er yfir helstu kjarasamninga sem félagsmenn innan sambandsins starfa eftir. Í dag var komið að því að fjalla um kjarasamning starfsmanna í ferðaþjónustu. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni, var fenginn til að fara yfir helstu ákvæði samningsins auk þess að svara fyrirspurnum frá þátttakendum á kynningunni. Framhald verður á þessari fræðslu og mun Aðalsteinn verða með annað erindi næsta þriðjudag um sama efni. Síðan er komið að öðrum að fara yfir ríkis- og sveitarfélaga samninganna.  Um er að ræða mjög áhugavert framtak á vegum Starfsgreinasambandsins, það er að bjóða starfsmönnum stéttarfélaga upp á námskeið sem þetta auk þess sem samræmi verður í túlkun stéttarfélaganna á ákvæðum kjarasamninga sem oft eru mjög flókin.

 

Styrkjum gott málefni – Velferðasjóður Þingeyinga leitar eftir styrkjum

Velferðasjóður Þingeyinga  vill þakka fyrir styrki og velvild  í garð sjóðsins, styrki frá fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum, sem hafa haldið sjóðnum gangandi.

Við viljum minna á okkur á þessum skrýtnu tímum. Við söfnum venjulega umsóknum í sjóðinn saman fram til tuttugasta hvers mánaðar og úthlutum eftir það.

En núna í ár, verðum við snemma með Jólaúthlutun. Við ætlum að safna til 15 nóv umsóknum og úthluta í fyrstu vikunni í Desember 2020.

Hægt  er að sækja um á rkihusavik@simnet.is Einnig hjá  Sólveig Höllu sóknarpresti sera.halla@gmail.com , Jóni Ármanni presti skinnast@gmail.com , og Jarþrúði presti jarthrudur.arnadottir@kirkjan.is á Þórshöfn, og  Örnólfi presti  ornolfurjol@gmail.com í Mývatnssveit.

Allur stuðningur við sjóðinn hjálpar, stór sem smár.

Allt fé sem inn kemur rennur til að aðstoða nauðstadda hér á okkar svæði.

Bankareikningur Velferðarsjóðsins er 1110-05-402610. Kennitala er 600410-0670

Bestu haustkveðjur  og fyrirfram þakklæti fyrir stuðninginn og velvild við sjóðinn.

Stjórn Velferðarsjóðs Þingeyinga

 

 

Góður dagur – Vinnumálastofnun opnaði í dag

Eins og fram hefur komið hefur Vinnumálastofnun ákveðið að opna skrifstofu á Húsavík frá og með deginum í dag. Ásrún Ásmundsdóttir hefur verið ráðin í fullt starf hjá stofnunninni. Um er að ræða samstarfsverkefni Framsýnar og Vinnumálastofnunnar.  Formleg opnun fór fram í dag og komu góðir gestir í heimsókn frá skrifstofum Vinnumálastofnunar á Akureyri og á Egilsstöðum. Það voru þau Soffía Gísladóttir forstöðumaður Vinnumálastofnunnar á Norðurlandi eystra og Aðalsteinn Árni forstöðumaður Skrifstofu stéttarfélaganna sem gengu formlega frá samkomulaginu í dag. Boðið var upp á tertu og kaffi í tilefni dagsins.

Skrifstofan verður staðsett í húsnæði stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26 og verður opin frá 09:00 til 13:00 frá mánudegi til fimmtudags. Á föstudögum verður skrifstofan opin frá kl. 09:00 til 12:00. Vegna COVID-19 verður eingöngu um rafræna þjónustu að ræða hjá Vinnumálastofnun til að byrja með, það er meðan takmarkanir þurfa að gilda vegna faraldursins sem herjar á heimsbyggðina um þessar mundir.  Vonandi verður hægt að opna fyrir heimsóknir sem allra fyrst.

Starfsmenn Vinnumálastofnunnar frá Húsavík, Akureyri og Egilsstöðum tóku atvinnuleitendur í Þingeyjarsýslum í viðtöl í dag. Eins og sjá má var mikið lagt upp úr öryggi starfsmanna enda afar mikilvægt á tímum Covid.

Ásrún Ásmundsdóttir hefur verið ráðin til starfa hjá Vinnumálastofnun á Húsavík. Hún er boðin velkomin til starfa.

 

Norðurþing boðar kjaraskerðingar – starfsmenn Grænuvalla verða boðaðir til fundar

Samkvæmt umræðum sem urðu á fundi Byggðaráðs Norðurþings í gær eru fyrirhugaðar breytingar á kjörum starfsmanna sveitarfélagsins, sem reyndar koma misjafnlega út fyrir starfsmenn sveitarfélagsins. Um er að ræða tímabundnar skerðingar og eins skerðingar til lengri tíma. Á fundinum lagði sveitarstjóri fram minnisblað. Í skjalinu kemur fram að erfiðleikar í rekstri sveitarfélaga vegna heimsfaraldursins séu óumdeildir og Norðurþing sé engin undantekning í þeim efnum. Útkomuspá fyrir fjárhagsárið 2020 bendir til þess að Norðurþing skili umtalsverðum hallarekstri og sömuleiðis á árinu 2021.

Þá samþykkti Byggðaráð að fela sveitarstjóra að boða til fundar með stéttarfélögum og starfsmönnum Leikskólans Grænuvalla sem hafa mótmælt boðuðum kjaraskerðingum starfsmanna. Um er að ræða verulega skerðingar sem nema góðum mánaðarlaunum á ári hjá hverjum og einum starfsmanni. Ljóst er að lægst launuðu starfsmennirnir hjá sveitarfélaginu munu koma verst út úr þessum breytingum. Meðan æðstu stjórnendur ætla að taka á sig tímabundnar skerðingar er þessum starfsmönnum ætlað að taka á sig varanlegar skerðingar.

Nánar má lesa um viðbrögð Byggðaráðs við yfirlýsingu starfsmanna Leikskólans Grænuvalla og aðrar aðhaldsaðgerðir er viðkoma kjörum starfsmanna sveitarfélagsins inn á heimasíðu Norðurþings:  https://www.nordurthing.is/is/stjornsysla/skjol-og-utgefid-efni/fundargerdir/byggdarrad-nordurthings/1449

 

Gleðifrétt – Vinnumálastofnun opnar skrifstofu á Húsavík í dag,16. október

Í Skránni í gær er að finna auglýsingu frá Vinnumálastofnun þar sem fram kemur að stofnunin hafi ákveðið að opna skrifstofu á Húsavík föstudaginn 16. október. Skrifstofan verður staðsett að Garðarsbraut 26 og verður opin frá 09:00 til 13:00 frá mánudegi til fimmtudags. Á föstudögum verður skrifstofan opin frá kl. 09:00 til 12:00. Eins og fram kemur í fréttinni verður skrifstofan staðsett í húsnæði stéttarfélaganna, það er í suðurendanum við fundaraðstöðuna sem snýr að Garðarsbrautinni. Þeir sem þurfa á þjónustunni að halda koma til með að ganga inn um útihurð á suðurhlið hússins.

Vegna COVID-19 verður eingöngu um rafræna þjónustu að ræða hjá Vinnumálastofnun til að byrja með, það er meðan takmarkanir þurfa að gilda vegna faraldursins sem herjar á heimsbyggðina um þessar mundir.  Vonandi verður hægt að opna fyrir heimsóknir sem allra fyrst. (Fréttin hefur verið uppfærð)

Gengið verður um hurð á suðurhlið á húsnæði stéttarfélaganna, eigi menn erindi við starfsmann Vinnumálastofnunnar.

Auglýsingin í Skránni í dag.

The Directorate of labour opens a branch in Húsavík

On Friday, the 16th of October, the Directorate of labour will open a branch in Húsavík. The branch will be stationed in Garðarsbraut 26, at the Unions office.

Opening hours are from 9:00-13:00 on Monday to Thursday and from 9:00-12:00 on Fridays.

Ofcourse, because of Covid-19, the service will be at first only electronic.

 

Tilkynning til greiðandi starfsmanna til Framsýnar á árinu 2020

Á árinu 2020 greiddu til Framsýnar- stéttarfélags 3.446 launamenn iðgjöld samkvæmt ákvæðum kjarasamninga. Félagið gætir hagsmuna þeirra allra gagnvart atvinnurekendum í héraði og fer með umboð þeirra í samstarfi verkalýðshreyfingarinnar á landsvísu. Allir sem greitt er af til félagsins afla sér réttinda í sjóðum þess og njóta verndar þeirra kjarasamninga sem félagið gerir og allir sem greitt er af eru færðir á félagaskrá sem fullgildir félagsmenn nema þeir óski eftir því að vera ekki á henni. Það athugist að einungis fullgildir félagsmenn njóta kosningaréttar og kjörgengis í félaginu. Hér með er þeim tilmælum beint til þeirra launamanna sem greiddu iðgjöld til félagsins á árinu 2020 en vilja ekki vera á félagsskrá sem fullgildir félagsmenn að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík sem allra fyrst.

Stjórn Framsýnar- stéttarfélags

Jóla- og áramóta úthlutun orlofsíbúða

Búið er að opna fyrir umsóknar um dvöl í orlofsíbúðum stéttarfélaganna, Framsýnar, Þingiðnar og  Starfsmannafélags Húsavíkur um jól og áramót. Um er að ræða íbúðir í Reykjavík, Kópavogi og á Akureyri. Umsóknarfresturinn er til 30. október nk. Öllum fyrirspurnum verður svarað fyrir 10. nóvember. Umsóknir sendist á netfangið linda@framsyn.is. Þá er einnig hægt að hafa samband við okkur í síma 464-6600.

Stéttarfélögin