Villandi fréttaflutningur  um flutning opinberra starfa

Nýlega sló Ríkissjónvarpið – sjónvarp allra landsmanna, upp frétt um flutning á opinberum störfum frá höfuðborgarsvæðinu út á landsbyggðina. Fréttaflutningurinn var stofnuninni ekki til mikils sóma og virtist helst hafa það að markmiði að gera Framsóknarflokkinn og ráðherra hans í gegnum tíðina tortryggilega og spillta í augum almennings. Þeir hefðu helst stuðlað að því að flytja stofnanir ríkisins hreppaflutningum út á land.

Æsifréttamennskan var þvílík að farið var vitlaust með heitið á þeim ríkisstofnunum sem fréttin náði til. Þá voru ráðherrarnir sagðir koma frá allt öðrum kjördæmum en þeir raunverulega komu frá þegar þessar ákvarðanir voru teknar. Eftir framkomnar athugasemdir við óvandaðan fréttaflutning frá ýmsum aðilum fór svo að fréttastofan varð að senda frá sér leiðréttingu við fréttina, sem er hér að neðan og er hálf vandræðaleg fyrir fréttastofuna, sem vill láta taka sig alvarlega.

„Fréttin hefur verið leiðrétt. Ranglega var farið með í upphaflegri útgáfu að Valgerður Sverrisdóttir og Jón Kristjánsson hefðu flutt stofnanir í eigið kjördæmi. Einnig var ranghermt að Guðni Ágústsson hefði flutt Matvælastofnun til Selfoss. Rétt er að Landbúnaðarstofnun var breytt í Matvælastofnun.“

 Það er, að þrátt fyrir að fréttamaðurinn sem skrifaði fréttina lýsti því yfir í viðtali að hún skyldi ekkert í því að þessi „litla“ frétt fengi svona sterk viðbrögð almennings.

Það var reyndar rétt með farið hjá fréttamanni RÚV að fyrir tilstuðlan ráðherra, þ.m.t. ráðherra Framsóknarflokksins, hafa í gegnum tíðina verið flutt opinber störf út á landsbyggðina. Það er heldur ekkert annað en eðlilegt að stofnanir ríkisins séu vistaðar um landið á jafnræðisgrundvelli. Það er í anda annarra ríkisstjórna á Norðurlöndunum, sem gera í því að jafna stofnunum milli landshluta í viðkomandi löndum, enda talið óeðlilegt í alla staði að opinberar stofnanir séu nánast allar á afmörkuðu svæði s.s. í höfuðborgum viðkomandi landa. Það er löngu tímabært að stjórnmálaflokkar á Íslandi láti verkin tala í stað þess að blaðra endalaust um mikilvægi byggðastefnu, að þeir framfylgi sínum eigin stefnumálum varðandi eflingu byggðar og mannlífs í landinu. Ég bendi á að finna má í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar áherslu á skilgreiningu opinberra  starfa og að þau séu auglýst án staðsetningar sé þess kostur. Þess utan styður byggðaáætlun við þetta markmið.

Fjarskipti leika lykilhlutverk í samfélagi nútímans og þar með eflingu byggðar í landinu. Sú samskiptatækni sem við þekkjum orðið í dag, háhraðafjarskiptatengingar um allt land, svo ekki séu nefndar stórbættar samgöngur, ætti að auðvelda stjórnvöldum að dreifa opinberum störfum sem víðast um landið. Ástandið sem hefur skapast undanfarna mánuði vegna Covid – 19 hefur hrundið okkur mörg ár fram í tímann tæknilega séð og  sýnir svart á hvítu að fjarvinna er nú þegar raunverulegur möguleiki og störf án staðsetningar þurfa ekki endilega að vinnast í póstnúmerinu 101 Reykjavík.

Raunveruleg byggðastefna byggir á því að auka fjölbreytileika starfa og efla þannig byggðarlögin. Sem dæmi nefni ég að Fæðingarorlofssjóður var færður frá Reykjavík til Hvammstanga og Greiðslustofa atvinnuleysistrygginga á vegum Vinnumálastofnunar var færð til Skagastrandar. Hjá þessum stofnunum ríkisins starfar frábært starfsfólk, enda mikill mannauður á þessum vinalegu stöðum sem og fjölmörgum öðrum byggðarlögum í öllum landsfjórðungum á Íslandi. Við eigum að nýta okkur mannauðinn, þekkinguna og tæknina og vinna markvisst að því að flytja opinber störf út á land, skila þeim heim.

Stjórnmálaflokka skortir oft kjark, þrátt fyrir gefin loforð um að jafna búsetu í landinu. Kjark til að efla opinbera þjónustu í öllum kjördæmum landsins. Þó eru vissulega undantekningar frá því. Að sjálfsögðu stenst það ekki skoðun að árið 2020, geti hið opinbera ekki rekið stofnanir og þjónustu úti á landi til jafns við höfuðborgarsvæðið.

Varðandi fréttaflutning Ríkissjónvarpsins er ágætt að rifja upp flutning á opinberum störfum úr mínum kæra heimabæ, Húsavík:

  • Starfsemi Ríkisskattstjóra var lögð af á Húsavík og skrifstofu embættisins lokað.
  • Hafrannsóknarstofnun lokaði starfsstöð sinni á Húsavík og sigldi í burtu.
  • Vinnumálastofnun lagði starfsemina niður á Húsavík og skellti í lás.
  • Dregið hefur verið verulega úr starfsemi Sýslumannsembættisins á Húsavík og starfsmönnum snarfækkað frá því sem var þegar embættið stóð undir nafni.
  • Fæðingardeildinni á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga nú HSN var lokað. Þrátt fyrir að ungviðið vilji örugglega anda að sér Þingeysku lofti við fæðingu, er það ekki í boði lengur.
  • Skurðstofunni á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga var lokað og aðgerðir fluttar í burtu. Til stóð að draga enn frekar úr starfsemi Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga, en með samstöðu heimamanna tókst að stöðva frekari blæðingu á þjónustu þessarar mikilvægu stofnunar í heimahéraði.

Koma upp í hugann opinber störf sem orðið hafa til á Húsavík á vegum ríkisins á sama tíma? Það eina sem ég man eftir eru veikburða tilburðir í þá átt þegar Nýsköpunarmiðstöð Íslands setti upp starfsstöð sem var svo lokað eftir fáein ár. Starfsemi sem að mati heimamanna hefði átt betur heima hjá atvinnuþróunarfélagi svæðisins, en á það var ekki hlustað af stjórnvöldum.

Þó ég nefni hér aðeins Húsavík endurspeglar upptalningin hér á undan hvernig þróunin í þessum efnum hefur verið víða á landsbyggðinni á undanförnum áratugum. En það telst víst ekki fréttaefni hjá fréttastofu Ríkissjónvarpsins að ferðast um landið og gera úttekt á öllum þeim opinberu störfum sem hafa verið ryksuguð upp hringinn í kringum landið og flutt á höfuðborgarsvæðið. Hvað þá að skoða opinber gögn sem staðfesta þennan flutning starfa til Reykjavíkur. Í þessu sambandi má benda á að Byggðastofnun hefur um árabil unnið greiningar á staðsetningu stöðugilda eftir landshlutum sem aðgengileg er á heimasíðu stofnunarinnar, https://www.byggdastofnun.is/is/utgefid-efni/grof-og-skrar. Þar kemur skýrt fram að höfuðborgarsvæðið er yfirvigtað hvað varðar fjölda ríkisstarfa  og er öll árin eini landshlutinn þar sem hlutfall ríkisstarfa er hærra en hlutfall viðkomandi landshluta af íbúafjölda landsins.

Að sjálfsögðu er fréttaflutningur af þessum toga ekki boðlegur. Þökk sé þeim ráðherrum ríkisstjórnar Íslands á hverju tíma, sem hafa haft kjark til að spyrna við fótum og sjá tækifæri í því að skila opinberum störfum aftur út um landið, störfum sem sogast hafa suður til Reykjavíkur. Vissulega er eðlilegt að menn hafi skoðanir á því hvert störfin eru flutt á hverjum tíma. Markmiðið á heldur ekki að vera að hygla ákveðnum landshlutum eða sveitarfélögum umfram önnur, það ber stjórnmálamönnum að hafa í huga vilji þeir láta taka sig alvarlega, sem ég að sjálfsögðu vona. Ákvarðanir um flutning opinberra starfa á milli landshluta mega ekki litast af pólítík, nema þá byggðapólitík  og á skynsamlegum rökum reistar.

Aðalsteinn Árni Baldursson,
formaður Framsýnar stéttarfélags

 

 

 

 

 

 

 

 

Málefni PCC til umræðu í fjölmiðlum

Í vikunni fjallaði Ríkissjónvarpið um þá alvarlegu stöðu sem komin er upp í atvinnumálum á Húsavík eftir að PCC tók ákvörðun um að stöðva framleiðsluna og segja upp um 80 starfsmönnum um síðustu mánaðamót. Áður hafði ekki verið ráðið í stað þeirra sem hættu. Áhrifin hafa því áhrif á um 100 starfsmenn fyrir utan alla þá sem koma til með að missa vinnuna hjá undirverktökum og öðrum þjónustufyrirtækjum sem hafa unnið fyrir PCC á Bakka. Hér má skoða fréttina en rætt var við formann Framsýnar um stöðuna og einn af þeim starfsmönnum sem er að missa vinnuna um þessar mundir:

https://www.ruv.is/frett/2020/07/29/engan-langar-ad-fara-eins-og-er

 

Mývetningar taka undir ályktun Framsýnar

Mývetningar krefjast þess að Samkaup endurskoði þá ákvörðun sína að breyta Kjörbúðinni í Krambúð. Heimamenn segja fyrirtækið ekki sýna samfélagslega ábyrgð og hafa fært viðskipti sín annað.

Undirskriftarlisti gengur nú um Mývatnssveit þar sem þess er krafist að stjórnendur Samkaupa endurskoði ákvörðun sína um að breyta Kjörbúðinni í Reykjahlíð í Krambúð. Breytingin átti sér stað í lok maí og verðið í versluninni, sem er eina matvörubúðin í Mývatnssveit, átti að hækka um 7,7% að meðaltali.

Ragnheiður Jóna Leví Grétarsdóttir, íbúi í Mývatnssveit segir alla vilja skrifa undir bréfið, nú þegar séu rúmlega 150 búin að skrifa undir. Þá séu það ekki bara Mývetningar sem eru óánægðir með breytt fyrirkomulag heldur skrifi sumarbústaðaeigendur líka undir.

Hækkunin mun meiri

Í bréfinu kemur fram að fjölmargar vörur hafi hækkað mun meira en um 7,7%. Nýmjólkurferna kosti núna 199 kr. sem sé 17,7% hækkun, KEA vanilluskyr hafi hækkað um 16% og Myllu heimilisbrauð um tæplega 15%. Þá hafi vöruúrval minnkað og borið á vöruskorti.

Í bága við stefnu fyrirtækisins

„Í Skútustaðahreppi búa um 500 manns en í venjulegu árferði fara um 700.000 ferðamenn í gegnum Mývatnssveit og flestir koma við í versluninni,“ segir í bréfinu. Hagnaður Samkaupa hafi verið 238 milljónir árið 2019 og 452 milljónir árið þar áður. Vegna mikils fjölda ferðamanna um sveitarfélagið og einokunarstöðu sé ljóst að verslunin í Reykjahlíð hafi verið afar arðbær síðustu ár þó það sé óhjákvæmilegt að ástandið hafi líka áhrif á starfsemi fyrirtækisins. Atvinnuleysi í hreppnum sé með því mesta á landsvísu um þessar mundir og þessi breyting brjóti í raun í bága við stefnu fyrirtækisins sem segir að fyrirtækð leggi áherslu á samfélagslega ábyrgð í allri starfsemi.

Íbúar taka með þessu undir ályktun frá stéttarfélaginu Framsýn sem segir vinnubrögðin forkastanleg á þessum tíma, þegar efnahagsástandið í sveitarfélaginu sé sérstaklega slæmt.

Færa viðskipti sín annað

Ragnheiður Jóna segir íbúa hafa verslað mikið í búðinni í áranna rás og stutt vel við reksturinn, enda vilji þeir hafa verslun í heimabyggð. Nú kaupi þeir aðeins nauðsynjavörur í Krambúðinni og fari frekar til Húsavíkur eða Akureyrar til að versla. Þeir séu reiðir og einhverjir skipti ekki lengur við Samkaup og hafi fært viðskipti sín annað.

„Fólk veit að það fer á hlutastarf í haust og þá eru enn þá fleiri atvinnulausir svo við erum að vonast til þess að Samkaup geti stutt okkur aðeins meira í þessu og verið með kjörbúð hérna.“ Íbúar hyggist þá gera sitt besta í að versla þar en það sé ekki möguleiki að eyða helmingi meira en ella í mat.

(Frétt þessi byggir á frétt rúv)

 

Aðalfundur STH fimmtudaginn 27. ágúst

Aðalfundur Starfsmannafélags Húsvíkur verður haldinn fimmtudaginn 27. ágúst kl. 20:00 í fundarsal stéttarfélaganna. Skorað er á félagsmenn að fjölmenna á fundinn.


Samkvæmt 13. gr. félagslaga er aðalfundur æðsta vald félagsins og skal hann haldinn ár hvert. Sérstök verkefni aðalfundar eru þessi:

Dagskrá:
1 )   Stjórn félagsins gefur skýrslu um starfsemi félagsins síðastliðið ár.
2 )   Lagðir fram til úrskurðar endurskoðaðir reikningar félagsins fyrir síðastliðið ár.
3 )   Tekin ákvörðun um árgjöld félagsmanna.
4 )    Lagabreytingar, enda hafi tillögur til breytinga borist stjórn félagsins tveimur vikum fyrir aðalfund.
5 )   Kosning stjórnar samkvæmt 6. grein.
6 )   Kosning endurskoðenda samkvæmt 6. grein.
7 )   Kosning fulltrúa í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Húsavíkurkaupstaðar.
8 )   Kosning fulltrúa á þing B.S.R.B.
9 )   Kosning fulltrúa í orlofs-, ferðamála- og starfskjaranefnd.
10
) Önnur mál, sem fram koma á fundinum.

Stjórn STH

Leiðtogafundur á Húsavík

Góðir gestir halda áfram að koma við á Skrifstofu stéttarfélaganna. Sigurður Hólm Freysson varaformaður Afls starfsgreinafélags á Austurlandi kom við í vikunni á ferð fjölskyldunnar um landið. Greinilegt er að Húsavík er inn þetta sumarið hjá Íslendingum sem hafa verið afar duglegir við að heimsækja bæinn við Skjálfanda. Auðvitað ber að fagna því. Það var vel við hæfi að taka myndina af þeim Aðalsteini og Sigurði við málverk af Arnóri Kristjánssyni sem var um tíma formaður Verkamannafélags Húsavíkur en Arnór var mikill leiðtogi og þess má geta að knattspyrnumaðurinn Arnór Guðjohnsen er komin útaf þessum mikla heiðursmanni.

Staðan tekin

Helga Ingólfsdóttir stjórnarmaður í VR átti leið um Húsavík fyrir helgina en hún er á ferðalagi um landið. Helga var um tíma einnig í miðstjórn Alþýðusambands Íslands. Hún notaði tækifærið og heilsaði upp á formann Framsýnar. Að sjálfsögðu var staðan tekin í verkalýðshreyfingunni og komandi þing ASÍ. Eins og fram hefur komið á heimasíðunni, hefur verið ánægjulega gestkvæmt á Skrifstofu stéttarfélaganna í sumar og fjölmargir góðir gestir komið í heimsókn.

Búðaráin í ham

Vegna vatnavaxta síðustu daga hefur Búðaráin sem liðast í gegnum Húsavík eftir farvegi sínum  breyst í stórfljót. Um síðustu helgi lokaði lögreglan göngubrúnni yfir ána vegna vatnavaxta en áin var farin að flæða yfir bakka sína og náði vatnshæðin upp að brúargólfi. Þegar þetta er skrifað er Búðaráin hins vegar orðin svipuð og hún var áður. Hér koma nokkrar myndir sem teknar voru um helgina þegar Búðaráin var í ham enda mikil úrkoma á þeim tíma.

Hér má sjá Búðarána á venjulegum degi.

Arnar heilsaði upp á starfsfólk stéttarfélaganna

Arnar Sigurmundsson sem lengi hefur verið mjög áberandi í störfum fyrir Samtök atvinnulífsins (SA) leit við hjá formanni Framsýnar í gær. Arnar hefur verið á ferðinni um landið í sumarfríi eins og fjölmargir aðrir Íslendingar og dvaldi meðal annars á Húsavík í fríinu. Aðalsteinn Árni og Arnar hafa lengi tekist á við samningaborðið, Aðalsteinn á vegum verkalýðshreyfingarinnar og Arnar fyrir Samtök atvinnulífsins. Arnar hefur komið að samningagerð  fyrir hönd SA sem formaður  Samtaka fiskvinnslustöðva um árabil og þá hefur hann einnig verið áberandi varðandi starfsemi lífeyrissjóða m.a. verið formaður Landssambands lífeyrissjóða. Í dag sitja þeir Aðalsteinn og Arnar saman í stjórn Fræðslusjóðsins Landsmenntar sem er fræðslusjóður Samtaka atvinnulífsins og stéttarfélaganna innan Starfsgreinasambands Íslands á landsbyggðinni.

Stéttarfélögin gefa veglega gjöf

Stéttarfélögin Framsýn, Þingiðn og Starfsmannafélag Húsavíkur hafa gefið Sjúkraþjálfun Húsavíkur kr. 750.000 til tækjakaupa. Aðstaðan hjá sjúkraþjálfuninni í Hvammi var nýlega tekin í gegn og nýjum tækjum komið fyrir. Um er að ræða afar mikilvæga þjónustu á Húsavík sem þjónar Þingeyingum og  öðrum þeim sem þurfa á þessari þjónustu að halda. Eftir breytingarnar er aðstaðan öll orðin hin glæsilegasta. Með framlagi stéttarfélaganna vilja þau leggja sitt að mörkum til að efla Sjúkraþjálfun Húsavíkur sem hefur á að skipa frábæru starfsfólki.

Pirringur í atvinnurekendum

Fram kom í fjölmiðlum fyrir helgina að illa gangi að manna sláturhúsin í haust þrátt fyrir mikið atvinnuleysi á Íslandi. Þó nokkuð er um að atvinnurekendur hafi haft samband við Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík og komið óánægju sinni á framfæri við stéttarfélögin. Forsvarsmenn sláturhúsanna á svæðinu, það er á Húsavík og á Kópaskeri, eru meðal þeirra fyrirtækja sem haft hafa samband við skrifstofuna í leit að starfsfólki til starfa í haust. Það er ekki bara að vanti fólk til starfa við slátrun heldur hefur einnig gengið illa að manna störf í ferðaþjónustu og fiskvinnslu. Dæmi eru um að fyrirtæki í ferðaþjónustu hafi gefist upp við að auglýsa eftir starfsfólki þar sem engir hafi sótt um störfin. Fyrirtækin hafa því þurft að leita út fyrir landssteinanna í leit að starfsfólki. Vissulega vekur þetta töluverða athygli á sama tíma og atvinnuleysi á Íslandi er í sögulegu hámarki. Að sjálfsögðu á enginn að vera á atvinnuleysisbótum bjóðist honum starf við sitt hæfi. Ekki síst í ljósi þessa er mikilvægt að efla starfsemi Vinnumálastofnunnar sem ætlað er meðal annars að miðla fólki í vinnu. Núverandi ástand er ekki boðlegt atvinnulífinu. Undir það tekur Framsýn stéttarfélag en málið var til umræðu á stjórnarfundi félagsins á fimmtudaginn.

 

Aðalfundur Framsýnar 25. ágúst

Aðalfundur Framsýnar stéttarfélags verður haldinn þriðjudaginn 25. ágúst kl. 20:00 í fundarsal félagsins. Skorað er á félagsmenn að fjölmenna á fundinn. Boðið verður upp á kaffi og góðar veitingar. Þá fá allir fundarmenn smá glaðning frá félaginu sem enginn má missa af.

 Dagskrá:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf
    Skýrsla stjórnar
    Ársreikningar
    Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
    Lýst kjöri í trúnaðarstöður í félaginu
    Lagabreytingar
    Ákvörðun árgjalda
    Laun stjórnar
    Kosning löggilts endurskoðanda
  2. Önnur mál

Athygli er vakin á 32. grein laga félagsins – Ráðstöfun úr sjóðum félagsins:
Tillögur stjórnar, trúnaðarmannaráðs og félagsmanna um meiriháttar ráðstöfun úr sjóðum félagsins sem bornar eru upp á aðal- eða félagsfundi til samþykktar, skal lýst í fundarboði. Berist slík tillaga eftir fundarboð, er hún tæk fyrir fundinn hafi hún borist stjórn félagsins með skriflegum hætti eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan fund. Skal þá stjórn félagsins fjalla um tillöguna og láta hana liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar fyrir félagsmenn í a.m.k. 5 virka daga.

Stjórn Framsýnar stéttarfélags

 

 

Forsetinn í heimsókn

Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, leit við á Skrifstofu stéttarfélaganna í gær til að ræða stöðu mála. Umræður urðu um þjóðmál, efnahagsmál og stöðu atvinnumála á svæðinu. Eins og kunnugt er þá er mikið atvinnuleysi á Íslandi um þessar mundir, ekki síst í ferðaþjónustu og þjónustugreinum tengdum ferðaþjónustu. Þá liggur fyrir að búið er að segja upp um 80 starfsmönnum hjá PCC BakkiSilicon hf.  sem er alvarlegt mál þar sem það hefur ekki bara áhrif á rekstur fyrirtækisins heldur einnig önnur fyrirtæki á Húsavík sem hafa þjónustað starfsemina á Bakka. Vonandi sjá fleiri þingmenn kjördæmisins ástæðu til að líta við og ræða stöðuna í atvinnumálum og mótvægisaðgerðir gegn auknu atvinnuleysi. Við þökkum Steingrími fyrir komuna.

Nú er kalt í veðri – húfur í boði

Eftir einstaklega gott sumar gráta himnarnir þessa dagana, það er að sjálfsögðu gert fyrir gróðurinn, ekki okkur mannfólkið.  Félagsmenn Framsýnar og Þingiðnar eru velkomnir í heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna og reyndar aðrir sem þurfa á bestu húfum í heimi að halda meðan rigningin gengur yfir. Gjörið þið svo vel og lítið við hjá starfsfólki stéttarfélaganna. Við erum að venju í stuði og tökum vel á móti ykkur.

Aðalfundur Þingiðnar 26. ágúst

Aðalfundur Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum verður haldinn miðvikudaginn 26. ágúst kl. 20:00 í fundarsal félagsins. Skorað er á félagsmenn að fjölmenna á fundinn. Boðið verður upp á kaffi og góðar veitingar. Þá fá allir fundarmenn smá glaðning frá félaginu, ekki missa af því kæri félagi.

 Dagskrá:

  1. Venjuleg aðalfundarstörf
    Skýrsla stjórnar
    Ársreikningar
    Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
    Lýst kjöri í trúnaðarstöður í félaginu
    Lagabreytingar
    Ákvörðun árgjalda
    Laun stjórnar
    Kosning löggilts endurskoðanda
  1. Önnur mál

Athygli er vakin á 24. grein laga félagsins – Ráðstöfun úr sjóðum félagsins:
Tillögur stjórnar, trúnaðarmannaráðs og félagsmanna um meiriháttar ráðstöfun úr sjóðum félagsins sem bornar eru upp á aðal- eða félagsfundi til samþykktar, skal lýst í fundarboði. Berist slík tillaga eftir fundarboð, er hún tæk fyrir fundinn hafi hún borist stjórn félagsins með skriflegum hætti eigi síðar en 10 dögum fyrir boðaðan fund. Skal þá stjórn félagsins fjalla um tillöguna og láta hana liggja frammi á skrifstofu félagsins til kynningar fyrir félagsmenn í a.m.k. 5 virka daga.

Stjórn Þingiðnar

 

 

 

 

Ekkert sumarfrí hjá stjórn Framsýnar

Stjórnir Framsýnar og Framsýnar-ung hafa verið boðaðar til sameiginslegs fundar á fimmtudaginn í fundarsal stéttarfélaganna. Mörg mál eru á dagskrá fundarins. Fyrir fundinum liggur ákvörðun um að ákveða tímasetningu aðalfundar.

Dagskrá:

  1. Fundargerð síðasta fundar
  2. Inntaka nýrra félaga
  3. Aðalfundur félagsins- tímasetning
  4. Þing ASÍ-UNG 11. september
  5. Fundur með Byggðaráði Norðurþings
  6. Atvinnumál á svæðinu
  7. Fundur með starfsmönnum Vatnajökulsþjóðgarðs
  8. Kjör á trúnaðarmanni í Vatnajökulsþjóðgarði
  9. Fundur með stjórn Félags eldri borgara á Húsavík
  10. Heimsókn frá LÍV
  11. Erindi frá Gólfklúbbi Húsavíkur
  12. Samruni Norðlenska og Kjarnafæðis
  13. Uppgjör við LH vegna leiksýningar
  14. Viðbrögð við erindum félagsins frá Samkaupum/borgarstjórn
  15. Erindi frá Rifós hf.
  16. Málefni Þorrasala
  17. Ársfundur Lsj. Stapa
  18. Heimsóknir á Skrifstofu stéttarfélaganna
  19. Málefni ASÍ
  20. Önnur mál

Skin og skúrir í atvinnumálum

Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með þeim mikla straumi íslenskra ferðamanna sem komið hefur til Húsavíkur í sumar eftir erfiðan vetur. Erlendir ferðamenn eru einnig farnir að láta sjá sig eftir ferðabannið, sem er vel.

Bærinn hefur frá því í vor iðað af lífi og forsvarsmenn veitinga- og gististaða hafa almennt verið ánægðir með sumarið. Ekki má gleyma því að Húsavík hefur upp á mikið að bjóða, einstakt bæjarstæði, náttúruperlur, afþreyingu, gott mannlíf og ekki síst öfluga ferðaþjónustu. Ekki skemmir fyrir að kvikmyndin The Story of Fire Saga, sem vakið hefur heimsathygli, var að hluta til tekin upp á Húsavík. Fólk á öllum aldri heyrist nú syngja lögin úr myndinni, ekki síst;  “Ja ja ding dong og Husavik-My Hometown“. Já, það er gaman að þessu.

Á sama tíma og ber að gleðjast yfir þessum viðsnúningi, sem byggir á því að Íslendingar hafa í ljósi aðstæðna í heiminum valið að ferðast innanlands í sumar og fleiri en færri valið Húsavík sem viðkomustað berast slæmar fréttir af rekstri PCC BakkiSilicon hf.

Í dag er svo komið að fyrirtækið PCC sem hóf framleiðslu vorið 2018 er orðið eitt öflugasta fyrirtækið í Þingeyjarsýslum sérstaklega hvað varðar umsvif og skatttekjur til samfélagsins, ríkis og sveitarfélaga. Mikilvægi PCC er óumdeilt. Þannig námu heildarlaunagreiðslur fyrirtækisins árið 2019 rúmum 1,4 milljarði sem þýðir að útsvarstekjur sveitarfélagsins vegna starfseminnar voru um 200 milljónir á sama tíma. Þar fyrir utan hefur félagið verið stór vöru- og þjónustukaupandi af aðilum í héraðinu og árið 2019 námu þau kaup rúmum hálfum milljarði króna.

Að starfseminni hafa komið um 150 starfsmenn, launakjör hafa verið góð miðað við önnur starfskjör á félagssvæði Framsýnar og þá er fyrirtækið með hærri skattgreiðendum á svæðinu. Fyrirtækið er því afar mikilvægt fyrir íbúa Norðurþings. Ég er ekki viss um að allir íbúar sveitarfélagsins geri sér grein fyrir þessu. Þá má geta þess að PCC greiddi mest allra fyrirtækja til Framsýnar á árinu 2019, það er launatengd gjöld í sjúkra-, orlofs- og starfsmenntasjóði félagsins. Það að PCC greiði mest til Framsýnar segir mikið um mikilvægi fyrirtækisins á svæðinu.

Nú eru hins vegar blikur á lofti, fyrirtækið hefur gengið í gegnum erfiða tíma þau ár sem það hefur verið starfandi. Afurðaverð hefur verið í sögulegu lágmarki og þá hefur PCC þurft að takast á við heimsfaraldur sem reynst hefur fyrirtækinu mjög erfiður. Það erfiður að fyrirtækið hefur sagt upp um 80 starfsmönnum. Áður hafði ekki verið ráðið í stöður sem losnuðu. Flestir þeirra sem missa vinnuna munu ganga út um næstu mánaðamót. Frá þeim tíma tekur ákveðin óvissa við. Farið verður í umfangsmiklar breytingar á verksmiðjunni í ágúst til að gera hana betri og öruggari í rekstri. Markmið stjórnenda er að lagfæra verksmiðjuna og hefja starfsemi um leið og markaðsmál lagast og áhrifa Covid hættir að gæta. Ljóst er að vilji stjórnenda fyrirtækisins er að hefja starfsemi um leið og aðstæður leyfa. Það er að um tímabundna lokun sé um að ræða. Ekki er að finna neina uppgjöf þrátt fyrir að efnahagslífið í heiminum sé í miklum ólgusjó.

Ánægjulegt er að fyrirtækið hefur biðlað til Framsýnar um að kjarasamningur aðila verði þróaður frekar á næstu mánuðum með það að markmiði að bæta enn frekar starfsumhverfi starfsmanna, hvað varðar vinnutímastyttingu fyrir sömu laun. Reyndar má geta þess að núverandi stjórnendur fyrirtækisins hafa lagt mikið upp úr góðu samstarfi við Framsýn, ekki síst á undanförnum mánuðum, þar sem rekstrarumhverfi fyrirtækisins sem og flestra annarra fyrirtækja á Íslandi hefur ekki verið ákjósanlegt vegna heimsfaraldursins. Fyrir viljann til samstarfs ber að þakka enda alltaf vænlegast til árangurs að menn vinni sig saman í gegnum vanda sem þennan.

Ljóst er að staðan hjá PCC hefur víðtæk áhrif í samfélaginu enda hafa margir undirverktakar og þjónustuaðilar tekjur af samskiptum við fyrirtækið. Þá er fyrirtækið stórnotandi á orku frá Landsvirkjun sem verður af miklum tekjum, sem og Húsavíkurhöfn, en tekjur hafnarinnar byggja ekki síst á flutningi um höfnina er tengist starfseminni á Bakka. Stjórnendur fyrirtækja sem verið hafa í viðskiptum við PCC hafa sett sig í samband við Framsýn og boðað samdrátt og uppsagnir þar sem þeir munu missa viðskipti við PCC á næstu vikum og mánuðum. Vissulega þarf ekki að tíunda það að samdráttur á Bakka hefur víðtæk áhrif á samfélagið allt.

Hins vegar má stundum ætla að fólk sem tjáir sig um þessi mál á opinberum vettvangi geri sér ekki alltaf grein fyrir alvöru málsins. Þó einhverjir sjái ástæðu til að fagna sérstaklega lokun PCC á Bakka vil ég benda á að lokunin er ekkert sérstakt gleðiefni fyrir allar þær fjölskyldur hér á svæðinu sem byggt hafa afkomu sína á vinnu við kísilverið, beint eða óbeint sem og Norðurþing. Vissulega má alltaf deila um hvað er rétt eða rangt þegar kemur að atvinnuuppbyggingu, en verum málefnaleg í skrifum okkar.

Við sem byggjum þetta samfélag á hverjum tíma eigum að hafa skoðanir, en jafnframt virða skoðanir annarra. Markmiðið á að vera að gera gott samfélag betra á okkar forsendum, ekki forsendum annarra. Ég fékk einu sinni samtal frá einstaklingi sem bjó á Húsavík sem unglingur en flutti síðar í burtu. Viðkomandi hafði heyrt mig tala fyrir atvinnuuppbygginu á Húsavík, ekki síst á Bakka. Taldi viðkomandi það algjöran óþarfa, hann vildi halda í Húsavík eins og hún var þegar hann yfirgaf sinn heimabæ, þá unglingur, nú komin á efri ár.  Það dugar mér ekki enda búsettur á staðnum en ekki löngu brotfluttur, ég vil sjá Húsavík eflast enn frekar með öflugu atvinnu- og félagslífi. Það er okkar heimamanna á hverjum tíma að hafa áhrif á þróun mála, okkur öllum til hagsbóta sem hér búum.

Höfum í huga að á bak við uppsagnir PCC á Bakka eru starfsmenn fyrirtækisins og fjölskyldur þeirra. Ekki er ólíklegt að málið varði um 140 fjölskyldur beint í dag, það er fjölskyldur starfsmanna á Bakka og fjölskyldur þeirra sem missa vinnuna hjá undirverktökum og þjónustufyrirtækjum sem verið hafa í viðskiptum við PCC. Óvissan um afkomu öryggi nagar þessar fjölskyldur svo vitnað sé í samtöl sem forsvarsmenn Framsýnar hafa átt við hlutaðeigandi fjölskyldur og síðan má vitna í viðtal sem var við fjölskyldu sem tengist málinu í síðasta Vikublaði. Viðtalið er spegilmynd af stöðu þessa fólks. Best er fyrir samfélagið að framleiðslustoppið vari ekki marga mánuði. Vonandi gengur það eftir.

Framsýn mun standa þétt við bakið á þeim starfsmönnum sem missa vinnuna um næstu mánaðamót og mánaðamótin þar á eftir. Félagið hefur komið á fót vinnumiðlun til að bregðast við vandanum. Það gleðilega er að fyrirtæki og sveitarfélög hafa sett sig í samband við félagið og boðið starfsmönnum vinnu á svæðinu. Í flestum tilvikum er um að ræða tímabundna vinnu s.s. við slátrun og fiskvinnslu enda vonir bundnar við að framleiðsla hefjist sem fyrst aftur á Bakka. Það er jú markmiðið sem verður að ganga eftir.

Á þessum erfiðu tímum hefur sveitarstjórn Norðurþings einnig óskað eftir góðu samstarfi við Framsýn.  Að sjálfsögðu er stéttarfélagið reiðubúið í slíkt samstarf, enda alltaf verið stór þáttur í starfi félagsins að efla atvinnulífið á félagssvæðinu, félagsmönnum og samfélaginu öllu til hagsbóta. Áfram gakk félagar!

Aðalsteinn Árni Baldursson,
formaður Framsýnar stéttarfélags

Gestur stjórnar Félags eldri borgara

Á Húsavík er rekið öflugt starf hjá Félagi eldri borgara sem nær yfir Húsavík og nágrenni. Innan félagsins eru tæplega 300 manns. Starfsemi félagsins fer fram í Hlyn sem er þeirra félagsheimili. Aðastaðan er til mikillar fyrirmyndar og félaginu til mikils sóma.   Stjórn félagsins óskaði eftir fundi með formanni Framsýnar þar sem farið var yfir stöðu eldri borgara í þjóðfélaginu og aðild þeirra að stéttarfélögum og starfsemi þeirra. Fundurinn var vinsamlegur og skiptust menn á skoðunum um málefni fundarins. Góður vilji er til þess meðal Framsýnar og Félags eldri borgara á Húsavík að eiga gott samstarf um málefni eldri borgara. Hvað þetta varðar má geta þess að Framsýn leggur mikið upp úr því að félagsmenn, sem láta af störfum á vinnumarkaði vegna aldurs, haldi áfram réttindum í félaginu þrátt fyrir að þeir hætti að greiða til félagsins. Þá hefur Framsýn einnig hvatt til þess að ASÍ taki upp náið samstarf við Landssamband Félags eldri borgara um þá þætti sem gætu bætt stöðu eldri borgara á Íslandi.

Svavar og Guðrún litu við

Heiðurshjónin Svavar Gestsson og Guðrún Ágústsdóttir litu við á Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík í gær en þau eru á ferðalagi um Norðurlandið þessa dagana. Þau hafa lengi verið áberandi í þjóðfélaginu. Svavar er fyrrum alþingismaður, ráðherra og sendiherra og Guðrún var einnig mjög virk í félagsmálum og stjórnmálum en hún satt m.a. í borgarstjórn Reykjavíkur og var um tíma forseti borgarstjórnar. Að sjálfsögðu var tekin góð umræða um verkalýðs- og stjórnmál.

Góður fundur með starfsfólki Vatnajökulsþjóðgarðs

Starfsfólk Vatnajökulsþjóðgarðs óskaði eftir fundi með formanni Framsýnar í vikunni. Tilefni fundarins var að fara yfir réttindi og skyldur starfsmanna auk þess sem formaður svaraði fjölmörgum fyrirspurnum starfsmanna. Gengið var frá kjöri á trúnaðarmanni starfsmanna. Í það hlutverk var Rakel Anna Boulter kjörin. Fundurinn sem fram fór í upplýsingamiðstöð Vatnajökulsþjóðgarðs í Ásbyrgi, Gljúfrastofu var vinsamlegur og gagnlegur fyrir alla aðila.

Til fróðleiks má geta þess að þjóðgarðurinn spannar um 14% af flatarmáli Íslands (14.141 ferkílómetrar árið 2019) og er næststærstur þjóðgarða í Evrópu á eftir Yugyd Va þjóðgarðinum í Úralfjöllum Rússlands.

 Á hverju ári starfar hópur fólks hjá Vatnajökulsþjóðgarði við hirðingu, eftirlit og upplýsingagjöf til ferðamanna.

Rakel Anna Boulter, sú með húfuna, er nýr trúnaðarmaður starfsmanna í þjóðgarðinum. Það er þeim hluta sem er á félagssvæði Framsýnar.

Foringjar hittust á Húsavík í sól og blíðu

Tveir góðir verkalýðsforingjar komu við á Skrifstofu stéttarfélaganna í dag og fengu sér kaffi og meðlæti  með starfsmönnum félaganna. Þetta voru þeir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og Hörður Guðbrandsson formaður Verkalýðsfélagsins í Grindavík. Að sjálfsögðu urðu umræður um verkalýðsmál og stöðuna almennt í þjóðfélaginu. Það er alltaf gefandi og skemmtilegt að fá góða gesti í heimsókn eins og félaganna, Hörð og Ragnar Þór enda verða þeir seint sakaðir um að vinna ekki að hagsmunamálum verkafólks.

Hörður og Aðalsteinn Árni eiga það sameiginlegt að leiða tvö af öflugustu stéttarfélögum landsins auk þess að vera búfræðingar frá Hvanneyri, þar sem þeir voru saman við nám á sínum tíma.