Tækninám í boði fyrir félagsmenn Framsýnar

Tækninám hefur gert samning við Landsmennt um fulla fjármögnun á ársáskrift að Tækninám.is. Félagsmenn Framsýnar sem starfa á almenna vinnumarkaðinum, það er eftir kjarasamningum Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins stendur þetta til boða.

Til þess að geta nýtt sér þennan styrk þarf að sækja um hér: https://taekninam.teachable.com/p/menntastyrkir

Inni á umsóknarsíðunni eru jafnframt nauðsynlegar upplýsingar fyrir umsækjandann. Í umsóknarferlinu velur hann hvaða stéttarfélagi hann er í.

Innifalið í ársáskrift að Tækninám er eftirfarandi:

  • Aðgangur að öllum okkar námskeiðum, sem telja nú um 27, sjá hér núverandi framboð: https://taekninam.teachable.com/courses
  • Öll ný námskeið, nýjungar og viðbætur á núverandi námskeiðum, við setjum inn ný námskeið á 4-8 vikna fresti að jafnaði
  • Aðgengi að leiðbeinendum
  • Reglulegar vefstundir þar sem farið er yfir ýmis áhugaverð atriði og nýjungar
  • Aðgangur að sértækum námskeiðum með blönduðu kennslufyrirkomulagi, sjálfsnám, vefstund, æfingar
  • Tækifæri til að taka þátt í að móta áherslur og forgangsröðun í framleiðslu nýrra námskeiða

Ef það eru einhverjar spurningar eða ef ykkur vantar frekari upplýsingar til að koma þessu á framfæri ekki hika við að hafa samband og við finnum sameiginlega lausn.

Um Tækninám.is
Tækninám.is er stafrænt fræðsluumhverfi sem bíður upp fjölda námskeiða fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Námskeiðin okkar eru fyrst og fremst hugsuð fyrir algjöra byrjendur sem þurfa eða hafa áhuga á að ná tökum á tækninni. Við erum í sífellu að bæta við nýjum námskeiðum og viljum heyra frá ykkur og okkar notendum hvað þið teljið mikilvægast að ná tökum á.

 

Kalla eftir víðtæku samstarfi hagsmunaaðila um bætt lífskjör fólks

Á stjórnarfundi Framsýnar í gær, mánudaginn 27. apríl, urðu töluverðar umræður almennt um lífskjör fólks á Íslandi og stöðu þess í þjóðfélaginu, það er á breiðum grundvelli.

Fólk á vinnumarkaði, atvinnuleitendur, fólk á eftirlaunum, fólk með skerta starfsorku og öryrkjar eiga margt sameiginlegt, flestir þeirra hafa verið á vinnumarkaði um  lengri eða skemmri tíma og þar með þátttakendur í starfi stéttarfélaga. Um að ræða mjög fjölmennan hóp sem mikið afl býr í. Að mati Framsýnar er brýnt að virkja þessi öfl saman til góðra verka með það að markmiði að bæta hag allra, ekki síst þeirra sem hvað verst eru settir í íslensku samfélagi.

Stéttarfélög og hagsmunasamtök þeirra, eins og Alþýðusamband Íslands gegna mikilvægu hlutverki hvað þetta varðar, en það gera einnig samtök eins og Félagasamtök eldri borgara og Öryrkjabandalagið. Að mati Framsýnar ættu einnig að koma að þessu sameiginlega borði samtök eins og Neytendasamtökin, Leigjendasamtökin og Hagsmunasamtök heimilanna þar sem eru ekki síður mikilvæg í baráttunni fyrir auknum jöfnuði í þjóðfélaginu. Án efa væri fengur í því að fá fleiri félagasamtök að þessu borði velferðar og réttlætis.

Stjórn Framsýnar samþykkti að hvetja Alþýðusamband Íslands til að hafa frumkvæði að því að mynda formlegt bandalag með öðrum hagsmunasamtökum launafólks og öðrum þeim hagsmunaaðilum sem vinna að sama markmiði. Tilgangurinn verði að mynda breiðfylkingu með þeim félagasamtökum sem hafa það að markmiði að vinna að velferð sinna umbjóðenda og vera málsvari þeirra í sameiginlegum málum er tengist meðal annars samskiptum við stjórnvöld, sveitarfélög og fjármálakerfið í landinu. Eins og oft áður eiga orðin, „Sterkari saman“, vel við um þessar mundir.

 

Við opnum aftur fyrir heimsóknir

Skrifstofa stéttarfélaganna á Húsavík opnar aftur fyrir heimsóknir á skrifstofuna mánudaginn 4. maí. Um leið og við viljum þakka félagsmönnum fyrir góðan skilning á stöðunni, það er á ákvörðun stéttarfélaganna að loka skrifstofunni tímabundið af öryggisástæðum vegna Covid- 19. Flestum erindum hefur á sama tíma verið sinnt í gegnum síma og með netpóstum. Þrátt fyrir að lokað hafi verið fyrir heimsóknir á skrifstofuna hefur mikið álag verið á starfsmönnum enda fjölmörg mál komið upp undanfarnar vikur er varðar réttindi félagsmanna á Covid tímum. Starfsmenn stéttarfélaganna hafa staðið vaktina og svarað öllum þeim fjölmörgu erindum sem borist hafa skrifstofunni.

Þrátt fyrir að opnað verði fyrir heimsóknir á skrifstofuna viljum við biðla til félagsmanna og þeirra sem þurfa á þjónustu stéttarfélaganna að halda að virða tveggja metra regluna og skilaboð heilbrigðisyfirvalda á hverjum tíma. Sjáumst hress og gleðilegt sumar ágætu félagsmenn og fjölskyldur þeirra.  Framtíðin er björt.

Skiptaverð hækkar þann 1. maí 2020

Meðalverð á skráðu gasolíuverði á Rotterdammarkaði hefur lækkað verulega að undanförnu vegna covid-19 faraldursins. Þetta olíuverð er notað sem viðmiðun í kjarasamningi sjómanna til að ákvarða skiptaverð til sjómanna.

Fyrir tímabilið frá og með 21. mars til og með 20. apríl síðastliðinn var meðalverð á olíunni sem notað er til viðmiðunar 262,20 $/tonn og hafði þá lækkað úr 379,96 $/tonn frá síðasta viðmiðunartímabili.

Þetta þýðir að skiptaverð, þegar ísaður afli er seldur skyldum aðila, hækkar úr 70,5% í 75,5% af aflaverðmæti skipsins. Þegar ísaður afli er seldur óskyldum aðila eða á fiskmarkaði hækkar skiptaverðið úr 70% í 75% af aflaverðmætinu (uppboðskostnaður á fiskmörkuðunum dreginn frá áður en skiptaverð er reiknað).

Á frystitogurunum sem selja með fob söluskilmálun hækkar skiptaverðið úr 72% í 74,5% af fob verðmætinu og ef aflinn er seldur með cif söluskilmálum hækkar skiptaverðið úr 66,5% í 69% af cif verðmætinu.

Á skipum sem frysta rækju um borð hækkar skiptaverðið úr 69% í 71,5% af fob verðmætinu  og úr 63,5% í 66% af cif verðmætinu.

Skiptaverð þegar siglt er með uppsjávarfisk á erlendan markað er óbreytt 70% af söluvirði aflans. Þegar siglt er með ferkan fisk á erlendan markað er skiptaverðið einnig óbreytt eða 66% af heildarsöluverðmæti aflans.

Framangreindar breytingar taka gildi frá og með 1. maí næstkomandi. Sjá nánar í töflu hér á heimasíðunni um skiptaverð í einstökum mánuðum.

Hátíðarhöldum vegna 1. maí sjónvarpað

Í fyrsta skipti síðan 1923 getur íslenskt launafólk ekki safnast saman á 1. maí til að leggja áherslu á kröfur sínar. Við þessu er brugðist með útsendingu frá sérstakri skemmti-og baráttusamkomu sem flutt verður í Hörpu að kvöldi 1. maí og sjónvarpað verður í gegnum Ríkissjónvarpið kl. 19:40.

Landsþekktir tónlistarmenn, skemmtiatriði og hvatningarorð frá forystu verkalýðshreyfingarinnar einkenna þennan viðburð sem verður að teljast sögulegur. Meðal listamanna sem koma fram eru Ragnheiður Gröndal, Bubbi Morthens, Amabadama, Jói P og Króli, Ellen Kristjáns og Auður, Jakob Birgisson uppistandari, KK og Lúðrasveit verkalýðsins.

Við hvetjum til þátttöku í baráttudeginum á Facebook og svo til áhorfs á Rúv um kvöldið. Þá er afar mikilvægt að allir sem hafa tök á því að flagga, að þeir geri það og sínni þannig samstöðu í verki.

Að dagskránni í sjónvarpinu og viðburðum á samfélagsmiðlum standa eftirfarandi heildarsamtök launafólks: ASÍ, BHM, BSRB og KÍ. Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum eru aðilar að þessum viðburði í gegnum aðild að ASÍ og BSRB.

 

 

 

Kallað eftir upplýsingum um starfsemi SSNE

Framsýn hefur ákveðið að kalla eftir frekari upplýsingum frá Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, SSNE. Þrátt fyrir loforð um að aðalstöðvar samtakanna yrðu á Húsavík virðist sem tekin hafi verið ákvörðun um að þær verði á Akureyri, ekki er vitað hvar sú ákvörðun var tekin sem er auk þess á skjön við yfirlýsingar sveitarstjórnarmanna í Þingeyjarsýslum og samþykktir Eyþings sem staðfestar eru í fundargerðum. Þá hefur fyrrverandi framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga sagt upp störfum, ekki er vitað til þess að auglýst hafi verið eftir nýjum starfsmanni sem komi til með að starfa á Húsavík. Við þessa sameiningu leggst starf framkvæmdastjóra af hjá AÞ og færist til Akureyrar þar sem nýr framkvæmdastjóri verður með aðsetur hjá nýrri sameiginlegri stofnun.  Bréfið er svohljóðandi: 

Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, SSNE
Bt. Hilda Jana Gísladóttir stjórnarformaður
Hafnarstræti 91
600 Akureyri 

Húsavík 22. apríl 2020

 Varðar starfsemi SSNE
Fyrir liggur að búið er að sameina þrjú félög/stofnanir á Norðurlandi  í ein samtök undir merkjum Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, SSNE. Þar á meðal Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga.

Framsýn stéttarfélag hefur frá upphafi verið hluthafi í Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga og tekið virkan þátt í starfsemi félagsins m.a. með stjórnarsetu. Að mati Framsýnar hefur starfsemi Atvinnuþróunarfélagsins í gegnum tíðina skilað góðum árangri. Tilgangur AÞ hefur verið að vinna að hagsmunamálum íbúa, sveitarfélaga og fyrirtækja á starfssvæðinu. Með það að markmiði að stuðla að jákvæðri þróun atvinnulífs og bæta almenn búsetuskilyrði í Þingeyjarsýsum.

Síðan þekkja menn söguna, Framsýn hefur komið óánægju sinni vel á framfæri varðandi sameiningu þessara stofnana við sveitarstjórnarmenn og hugmyndafræðinganna að baki sameiningunni. Reyndar er afar lítill hljómgrunnur fyrir þessari sameiningu meðal Þingeyinga.

Í sameiningarferlinu hafa margar spurningar vaknað sem sumum hefur verið svarað meðan öðrum viðkvæmum spurningum hefur ekki verið svarað þrátt fyrir ítrekanir þess efnis.

Tilgangurinn með þessu bréfi er ekki síst að kalla eftir svörum varðandi aðalstöðvar SSNE og hvort búið sé að auglýsa starf Reinhards Reynissonar laust til umsóknar.

Í fundargerðum Eyþings má sjá að samþykki liggur fyrir því að aðalstöðvar nýju samtakanna verði á Húsavík. Síðar er farið að tala um á fundum innan Eyþings að lögheimili og varnarþing samtakanna verði á Húsavík. Þarna er strax byrjað að gefa eftir fyrri samþykkt Eyþings og áfram er haldið á þessari braut, því samkvæmt upplýsingum sem fram koma á vef Ríkisskattstjóra er starfsemi samtakanna skráð til heimilis á Akureyri.

Því er spurt, er endanlega búið að ákveða að aðalstöðvar SSNE verði á Akureyri?

Voru sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum höfð með í ráðum þegar þetta var samþykkt?

  • Þess ber að geta að talsmenn sveitarfélaganna í Þingeyjarsýslum töluðu fyrir því að aðalstöðvarnar yrðu á Húsavík. Sögðu reyndar við formann Framsýnar, að hann þyrfti ekki að óttast neitt, það væri búið að ganga frá því að aðalstöðvarnar yrðu á Húsavík og vísuðu í fundargerðir Eyþings máli sínu til stuðnings.

Nú liggur fyrir að Reinhard Reynisson fyrrverandi framkvæmdastjóri AÞ er að láta af störfum hjá SSNE/Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga. Er búið að auglýsa starf hans laust til umsóknar?

Er búið að skilgreina hvar starfstöðvarnar verða á þjónustusvæði SSNE?

  • Talað hefur verið um að þær verði fjórar ef eitthvað er að marka fyrri ákvarðanir.

Er búið að ákveða fjölda starfa hjá hverri starfstöð?

  • Framsýn hefur talað fyrir því að ákveðin starfsmannafjöldi verði á bak við hverja starfsstöð. Verði það ekki gert er ekki ólíklegt að störfin færist á eina starfsstöð, það er til Akureyrar.

Þess er vænst að stjórnendur SSNE svari þessum spurningum við fyrsta tækifæri.

Virðingarfyllst

 Fh. Framsýnar stéttarfélags

____________________________
Aðalsteinn Árni Baldursson

 

 

 

 

 

 

 

 

Stjórnarfundur á mánudaginn

Stjórn Framsýnar mun koma saman til fundar á mánudaginn kl. 16:00. Fundað verður í gegnum netforrit. Á fundinum verða nokkur málefni til umræðu, s.s. málefni Skrifstofu stéttarfélaganna, samstarfið við sveitarfélög og önnur stéttarfélög vegna Covid 19, málefni ASÍ, formannafundur SGS í haust og uppgjörsmál vegna sjómanna um borð í frystitogurum.

Orlofsuppbót/persónuuppbót til félagsmanna 2020

Framsýn stéttarfélag vill minna félagsmenn á rétt sinn á að fá greidda orlofsuppbót/persónuuppbót, en það er föst fjárhæð sem atvinnurekendum er skylt að greiða starfsfólki sínu í maí ár hvert. Uppbótin miðast við starfshlutfall og starfstíma á orlofsárinu, inniheldur orlof og tekur ekki breytingum skv. öðrum ákvæðum kjarasamninga. Áunna orlofsuppbót skal gera upp samhliða starfslokum verði þau fyrir gjalddaga uppbótarinnar.

Almennur vinnumarkaður
Orlofsuppbót er 51.000 kr. miðað við fullt starf og greiðist 1. júní.

Starfsfólk hjá ríkinu
Orlofsuppbót er 51.000 kr. miðað við fullt starf og greiðist 1.júní.

Starfsfólk sveitarfélaga
Persónuuppbót er 50.450 kr. miðað við fullt starf og greiðist 1. maí.

Töflur sem sýna upphæð orlofsgreiðslu miðað við starfshlutfall og starfstíma

Hugað að sumarbústöðum

Nú er unnið að því að gera sumarbústaði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum klára fyrir sumarið. Nokkrir af þeim eru rétt komnir upp úr snjónum eftir snjóþungan vetur. Einn af þeim er bústaður Framsýnar í Dranghólaskógi í Öxarfirði. Til stendur að hann og aðrir bústaðir á vegum félagsins fari í útleigu í júní enda komi ekkert óvænt upp vegna Covid-19.

Stórvirk snjóruðningstæki hafa víða verið á ferðinni í vetur við snjómokstur.

Viðbrögð ASÍ við efnahagspakka stjórnvalda

Alþýðusamband Íslands lýsir yfir vonbrigðum með nýjar tillögur stjórnvalda um efnahagsaðgerðir til að bregðast við áhrifum Covid-19 veirunnar. Tillögurnar eru ekki í takti við áherslur ASÍ um að aðgerðirnar eigi að tryggja afkomuöryggi allra og vera í þágu fólks, ekki fjármagns. Þá kallar ASÍ eftir ítarlegri útfærslu á aðgerðunum svo hægt sé að meta hvort þær nái framsettum markmiðum um varnir, vernd og viðspyrnu fyrir Ísland.

Alþýðusamband Íslands styður tillögur um stuðning við einyrkja og um atvinnuuppbyggingu í gegnum innlenda matvælaframleiðslu, nýsköpun, rannsóknir og listir og menningu. Þessar tillögur um atvinnusköpun eru hins vegar fjarri því að mæta þeim mikla vanda sem blasir við á vinnumarkaði. Tillögur sem lúta sérstaklega að námsmönnum, bæði um sumarstörf og sumarnám, eru mikilvægar til að tryggja afkomuöryggi námsmanna sem þeirra njóta. Álagsgreiðslur til framlínustarfsfólks innan heilbrigðiskerfisins koma að einhverju leyti til móts við þann hóp fólks sem hefur lagt líf sitt í hættu í baráttunni við Covid-19. Verkalýðshreyfingin á þó að koma að útfærslu slíkra aðgerða og hún á ekki að vera eingöngu á hendi stjórnenda einstaka heilbrigðistofnana. Þá telur ASÍ áherslur á félagslegar aðgerðir – sem lúta meðal annars að fötluðu fólki og fjölskyldum fatlaðra barna, börnum af erlendum uppruna og öldruðum – vera jákvæðar og þær geti orðið til þess að milda langtímaáhrif kreppunnar. Skortur á útfærslu gerir erfitt að meta umfang og áhrif aðgerðanna.

Alþýðusambandið gerir alvarlegar athugasemdir við þá staðreynd að með aðgerðunum er ekki leitast við að tryggja afkomuöryggi þeirra hópa sem hafa fallið á milli skips og bryggju í fyrri aðgerðum stjórnvalda, s.s. einstaklinga sem eru með undirliggjandi sjúkdóma, óléttar konur og foreldra sem hafa misst úr vinnu vegna takmarkaðs leikskóla- og skólastarfs. Þótt komið sé til móts við lítil fyrirtæki, sem er vel, er sá stuðningur ekki skilyrtur við að störfum sé viðhaldið. Ekki liggur fyrir útfærsla á tillögum um skattaafslætti í formi frestunar á skattgreiðslum til fyrirtækja en miðað við þær upplýsingar sem fram eru komnar eru engar kvaðir settar á fyrirtæki sem njóta slíkrar fyrirgreiðslu. ASÍ áréttar fyrri áherslur sínar um að stuðningur við fyrirtæki skuli skilyrtur því að störfum sé viðhaldið og grundvallarréttindi launafólks séu virt. Fyrirtæki eiga að sýna fram á að þau hafi nýtt eigin bjargir áður en þau sækja í sameiginlega sjóði og fyrirtæki sem svindla á úrræðum stjórnvalda eiga að sæta viðurlögum.

Enn á ný beina stjórnvöld stuðningi sínum ekki að fólki heldur að fyrirtækjum sem eftir óljósum leikreglum geta sótt sér fjármuni í vasa almennings, óháð því hvort þau viðhalda störfum, fara eftir kjarasamningum eða standa skil á framlagi sínu til samfélagsins. Það er lykilatriði við endurreisn efnahagslífsins að tekjur fólks séu tryggðar, atvinnuleysisbætur og önnur framfærsla sé þannig að fólk geti lifað sómasamlegu lífi og stutt við þjónustu og framleiðslu með kaupmætti sínum. ASÍ varar við því að veikja neytendavernd með því að neytendur fái inneign fyrir ferðir hjá ferðaskrifstofum, fremur en endurgreiðslu. Slíkar inneignir eru fugl í skógi, ekki í hendi.

Loks harmar ASÍ, enn á ný, samráðsleysi stjórnvalda við mótun aðgerða til að bregðast við Covid-kreppunni.

Drífa Snædal, forseti ASÍ:

„Forsvarsfólk ríkisstjórnarinnar hefur kosið að þróa tillögur til aðgerða við fordæmalausum aðstæðum einkum í samtali við sjálft sig. Reyndin er hins vegar sú að þekkingin og reynslan liggur hjá verkalýðshreyfingunni og aðeins með samtali og samvinnu getum við búið til lausnir sem henta vanda af þeirri stærðargráðu sem við nú stöndum frammi fyrir. Krafa okkar um samráð snýr að þessu.“

 

Sveitamennt og Ríkismennt – rýmkaðar reglur

Í ljósi aðstæðna í íslensku samfélagi hafa stjórnir Ríkismenntar og Sveitamenntar ákveðið að rýmka úthlutunarreglur einstaklingsstyrkja í ákveðinn tíma líkt og Landsmennt hefur gert.

Átakið tekur gildi frá 15.mars til og með 31.ágúst 2020 og gildir gagnvart námi/námskeiðum sem haldin eru innan þessa sama tímaramma.

Breytingar á úthlutunarreglum einstaklingsstyrkja eru eftirfarandi:

  • Hámarksupphæð einstaklingsstyrkja verður áfram kr. 130.000 á ári miðað við núverandi reglur. Hlutfalli endurgreiðslu verði hins vegar breytt og verði 90% í stað 75% af kostnaði við almennt nám. Gildistími verði frá 15. mars til og með 31. ágúst 2020.
  • Tómstundstyrkir sem nú eru 75% en að hámarki kr. 30.000 á ári verði í sama hámarki og hefðbundnir styrkir, það er kr. 130.000 á ári. Hlutfall endurgreiðslunnar verði sömuleiðis 90% af viðurkenndum kostnaði við námið. Gildistími verði frá 15. mars til og með 31. ágúst 2020.

Til viðbótar viljum við minna á að sl. tvö ár hafa þessir tveir sjóðir verið með samninga við símenntunarmiðstöðvar sem tryggja fulla fjármögnun námskeiða. Samingarnir gilda gagnvart þátttöku félagsmanna aðildarfélaga SGS sem starfa hjá Sveitarfélögum (Sveitamennt) og hjá ríkisstofnunum (Ríkismennt) á landsbyggðinni.

Nánari upplýsingar veitir Kristín Njálsdóttir, framkvæmdastjóri í síma 863 6480 eða á tölvupósti, kristin@landsmennt.is

 

Fjöldi fólks á hlutabótum í Þingeyjarsýslum

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun eru hátt í 400 manns um þessar mundir á hlutabótum á félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Hér er átt við þá starfsmenn sem tekið hafa á sig skert starfshlutfall á móti atvinnuleysisbótum samkvæmt heimild stjórnvalda þess efnis til að mæta áhrifum Covid- 19 með þessari tímabundnu leið. Rauntölur atvinnuleysis í lok mars í Þingeyjarsýslum jafngilda því að um 220 einstaklingar séu án atvinnu. Það er þegar búið er að reikna hlutastörfin upp í full stöðugildi. Mun fleiri karlar en konur eru á atvinnuleysisbótum. Þá virðist sem ástandið sé að koma hvað verst út fyrir aldurshópinn 18-29 ára, sá hópur hefur tekið á sig mestar skerðingarnar svo vitnað sé aftur í skýrslu Vinnumálastofnunar um þróun mála síðustu mánaða og áætlun fyrir komandi vikur. Reiknað er með að atvinnuleysið verði í sögulegu hámarki í apríl en fari síðan hægt niður á við. Á félagssvæði stéttarfélaganna er ástandið hvað verst í Skútustaðahreppi en spáð er um 30% atvinnuleysi í sveitarfélaginu í apríl. Nánar má fræðast um stöðuna á meðfylgjandi myndum en fyrir liggur að flestir þeirra sem eru á hlutabótum eru starfsmenn ferðaþjónustufyrirtækja sem staðfestir að atvinnugreinin er að koma lang verst út úr ástandinu á vinnumarkaðinum, það er á tímum Covid- 19.

Fundað reglulega um stöðuna

Þrátt fyrir að hefðbundin fundarhöld liggi að mestu leyti niðri vegna samkomubanns yfirvalda hefur færst í vöxt að menn fundi í gegnum netforrit. Í því sambandi má geta þess að forsvarsmenn Framsýnar funduðu í morgun annars vegar með sveitarstjórum í Þingeyjarsýslum með þessum hætti sem og Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands. Formaður Framsýnar situr í framkvæmdastjórn sambandsins. Þá funda formenn Starfsgreinasambands vikulega með þessu sama fyrirkomulagi þar sem formennirnir bera saman bækur sínar varðandi stöðuna á félagssvæðum þeirra. Segja má um alla fundina að þeir séu gagnlegir og skili tilætluðum árangri.

 

Nýir upplýsingabæklingar komnir út!

Út eru kominn uppfærsla á upplýsingabæklingum Framsýnar. Þetta er í þriðja skiptið sem þeir koma út í þessu formi. Í þeim má finna allar helstu upplýsingar um hvaða kostir eru í boði fyrir meðlimi, svo sem þegar kemur að styrkjum, orlofskostum og fleira í þeim dúr.

Bæklingurinn er fáanlegur á þremur tungumálum, ensku, pólsku og að sjálfsögðu íslensku. Um leið og Skrifstofa stéttarfélaganna opnar aftur fyrir gestum mun dreifing á bæklingunum hefjast en hægt verður að nálgast hann þar.

Formaður Framsýnar gestur Rauða borðsins – verkalýðsmál til umræðu

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar var enn viðmælanda Gunnars Smára Egilssonar hjá Rauða borðinu. Rauða borðið er vefþáttur sem hýstur er á Facebook. Fleiri gestir voru í þættinum en auk Aðalsteins voru þar Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og Ásta Lóa Þórsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilana.

Til umræðu var hrun ferðaþjónustunnar, viðbrögð stjórnvalda og fleira því tengt. Facebook notendur geta horft á Rauða borðið hér.

Hópuppsagnir í mars á Íslandi

Alls bárust 29 tilkynningar um hópuppsagnir Vinnumálastofnun í mars þar sem 1.207 starfsmönnum var sagt upp störfum, 547 í ferðaþjónustu, 175 í flutningum, 174 í félögum þar af 164 tengdum ferðaþjónustu, 151 í verslun, 72 í þjónustu tengdri ferðaþjónustu, 55 í mannvirkjagerð og 33 í iðnaði langflestum á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Flestar uppsagnirnar koma til framkvæmda á tímabilinu maí til júlí.

Áríðandi lesning- Tilkynning Vinnumálastofnunar um hlutabótaleiðina

Að gefnu tilefni telur Vinnumálastofnun rétt að koma eftirfarandi á framfæri:

Undanfarna daga hefur, í fjölmiðlum, verið fjallað um túlkun á bráðbirgðaákvæði atvinnuleysistryggingalaga sem snýr að svokallaðri hlutabótaleið.  Þar er kveðið á um heimild atvinnurekenda og starfsmanna til að gera með sér tímabundið samkomulag um minnkað starfshlutfall.  Starfsmaðurinn getur svo sótt um og fengið greiddan styrk úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem samsvarar hinu skerta starfshlutfalli.

Megintilgangur ákvæðisins er að aðstoða og gera atvinnurekendum og starfsmönnum þeirra, kleift að viðhalda ráðningarsambandi sín á milli í þeim þrengingum sem nú steðja að.

Vinnumálastofnun vill árétta að það er grundvallarskilyrði fyrir greiðslu styrksins til starfsmannsins að ráðningarsamband sé í gildi.  Ef atvinnurekandi segir upp starfsmanni sem hann hefur gert samkomulag við, lítur stofnunin svo á að forsenda samkomulagsins sé brostin og þá taki almennar reglur um uppsagnarfrest við.

Hafi atvinnurekendur misskilið ofangreindar reglur og sagt upp starfsmönnum sem þeir hafa þegar gert samkomulag við um minnkað starfshlutfall, þá skorar Vinnumálastofnun á þá, að draga þær til baka.

 

ASÍ og Neytendasamtökin krefjast þess að skráningu á vanskilaskrá verði hætt vegna Covid 19

Efnahagslegar afleiðingar vegna Covid19 verða þungbærar og sennilega umfangsmeiri en fyrri efnahagshremmingar. Fyrirtæki og einstaklingar munu verða fyrir skakkaföllum, sem munu hafa keðjuverkandi áhrif og hafa afleiðingar inn í nánustu framtíð. Margir lenda í því þessa dagana að tekjur skerðast að miklu eða jafnvel öllu leyti. Óvíst er hvenær fólk fær tækifæri til að afla tekna til að standa undir sínum skuldbindingum aftur.
Skráning á vanskilaskrá hefur mikil íþyngjandi og langvarandi afleiðingar fyrir þann sem þar lendir. Þannig hefur Creditinfo-Lánstraust heimild til að halda fólki á vanskilaskrá í fjögur ár eftir að það gerir upp skuldir sínar. Á meðan er einstaklingum gert ókleift að stunda eðlileg viðskipti, svo sem fá greiðslukort, tryggingar eða jafnvel leiguhúsnæði. Það tímabundna áfall sem fólk verður fyrir um þessar mundir má ekki hafa langvarandi afleiðingar.
Alþýðusamband Íslands og Neytendasamtökin krefjast þess að Creditinfo-Lánstraust hætti tafarlaust skráningum á vanskilaskrá sína vegna greiðsluvanda tengdum Covid19 og skrái engan á vanskilaskrá vegna þessa út árið 2020.

Hátíðarhöld stéttarfélaganna slegin af vegna Covid 19

Vegna samkomubanns heilbrigðisyfirvalda til 4. maí hafa stéttarfélögin í Þingeyjarýslum orðið að aflýsa hátíðarhöldum sem vera áttu í íþróttahöllinni á Húsavík 1. maí.

Hátíðarhöldin hafa á hverjum tíma verið mjög fjölsótt en um 600 gestir hafa komið í höllina að meðaltali undanfarin ár. Fjöldinn hefur mest farið upp í um 900 manns.

Að sjálfsögðu verða stéttarfélögin að hlíta ákvörðun heilbrigðisyfirvalda um samkomubann. Að ári liðnu verður vonandi hægt að bjóða upp á magnaða dagskrá við flestra hæfi enda hafa hátíðarhöld stéttarfélaganna alltaf verið vel tekið af þingeyingum og gestum þeirra.

30 þúsund manns hafa sótt um hlutabætur vegna minnkaðs starfshlutfalls

Yfir 30 þúsund manns hafa sótt um hlutabætur vegna minnkaðs starfshlutfalls. Þetta kemur fram í tölum frá Vinnumálastofnun. Flestar eru umsóknirnar úr ferðaþjónustu en yfir 12 þúsund starfsmenn í greininni hafa sótt um bætur. Úr verslun og vöruflutningum hafa yfir 6 þúsund umsóknir hafa borist.

Dreifing umsækjenda milli landshluta er að mestu í samræmi við dreifingu starfandi fólks í landinu. Fjöldi umsækjenda er þó hlutfallslega hærri á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Þannig hafa 11% umsókna borist frá íbúum Suðurnesja, þar sem 8% starfandi landsmanna bjuggu á síðasta ári og 67% umsókna af höfuðborgarsvæðinu, þar sem 64% starfandi landsmanna bjuggu.

  Fjöldi umsókna Hlutfall af umsóknum Starfandi 2019 Hlutfall af starfandi 2019
Höfuðborgarsvæðið 20.161 67% 126.666 64%
Suðurnes 3.338 11% 14.944 8%
Vesturland 873 3% 9.195 5%
Vestfirðir 312 1% 3.996 2%
Norðurland vestra 254 1% 4.074 2%
Norðurland eystra 2.158 7% 16.727 8%
Austurland 888 3% 7.743 4%
Suðurland 2.113 7% 15.684 8%
Samtals 30.097   199.029  

 

Kynjaskipting umsækjenda er nokkuð jöfn. 55% umsækjenda eru karlmenn en 45% konur. Til samanburðar voru karlar 53% starfandi landsmanna í fyrra en konur 47%, samkvæmt tölum frá Hagstofu.

Ríflega þrír af hverjum fjórum umsækjendum eru íslenskir ríkisborgarar, en um 14% eru Pólverjar og 10% borgarar annarra ríkja. Í fyrra voru um 80% starfandi fólks hérlendis Íslendingar en 20% útlendingar. Endurspegla umsóknir um hlutabætur því betur samsetningu vinnumarkaðarins en umsóknir um atvinnuleysisbætur síðasta árið, þar sem hlutfall Íslendinga meðal umsækjenda hefur verið 63%.

Sé litið til aldursskiptingar, eru umsóknir hlutfallslega flestar í aldurshópnum 30-39 ára. Alls eru 26% umsækjenda á þeim aldri, samanborið við 21,6% af starfandi fólki. Lægst er hlutfallið meðal fólks á aldrinum 60-69 ára, en 9% umsækjenda eru á þeim aldri samanborið við 11,7% af starfandi fólki.

  Fjöldi umsókna Hlutfall af umsóknum Hlutfall af starfandi 2019** Meðalhlutfall atvinnulausra síðustu 12 mán.
18-29 ára* 8.234 27% 30,6% 29,1%
30-39 ára 7.944 26% 31,1% 21,6%
40-49 ára 6.387 21% 17,1% 19,5%
50-59 ára 4.963 16% 13,2% 18%
60-69 ára 2.569 9% 8% 11,7%

*16-29 ára í fullu atvinnuleysi og 15-29 ára í starfandi   **Samkvæmt skráargögnum